16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1961

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér ásamt hv. 3. þm. Vesturl. að flytja nokkrar brtt. við fjárl., og það gerðum við ekki fyrr en fullsannað þótti, að hv. meiri hl. fjvn. treysti sér ekki til að mæla með þessum till. Fyrst þótti rétt að reyna til þrautar, hvort ekki væri möguleiki á að koma þessum málum fyrir, án þess að þyrfti sérstaklega að flytja um það brtt. við þessa fjárlagaafgreiðslu.

Þá er það till. á þskj. 225, þ.e. IV. till., Ólafsvíkurhöfn. Í Ólafsvík hefur farið fram í sumar sem leið og í haust allmikil og kostnaðarsöm viðgerð á höfninni þar, og það hefur þurft m.a. að grafa og sprengja til þess að fá stærra og betra athafnasvæði fyrir bátana, en þeir munu vera á vertíð þar nálægt tuttugu. En afli þar er mikill og aflasæl fiskimið skammt undan landi. Fólkið þarna er mjög duglegt og athafnasamt. Það er því eitt af fyrstu skilyrðum þess, að hinar miklu gjaldeyristekjur þjóðarinnar, sem þarna berast að landi í miklum afla, fái skjóta og góða fyrirgreiðslu. Það vita þeir bezt, sem sjóinn hafa stundað. En fjárhagur hafnarinnar er ekki góður, því að til þess að gera hinar miklu umbætur nú hefur orðið að taka fé að láni, bæði það fjármagn, sem á að fara til annarra mannvirkja á þessum stað, og einnig það fjármagn, sem hefur verið hugsað að greiða með fjárframlögum þess opinbera nú á næsta ári og jafnvel í framtíðinni. Það er því mjög þýðingarmikið, að hægt sé nú að halda hindrunarlaust áfram þeirri endurbót, sem nú er hafin á Ólafsvíkurhöfn, og ég vænti þess, að Alþingi sjái sér fært að bæta úr í þeim efnum umfram það, sem hv. meiri hl. fjvn. hefur treyst sér til að mæla með. Ég treysti því, að hv. alþm. samþykki þessa till., sem við höfum borið hér fram á þskj. 225 undir lið IV, því að þarna er um mjög aðkallandi mál að ræða.

Þá er það önnur till. á sama þskj., undir II. lið, það er Akraneshöfn. Till. okkar er sú, að tillagið á fjárl. verði hækkað um 200 þús. kr., þannig að fjárveitingin verði hin sama og var veitt fyrir yfirstandandi ár. Ég fæ ekki betur séð en þörfin sé engu minni fyrir Akraneshöfn nú en hún var einmitt á þessu ári, því að það er kunnara en frá þurfi að segja og hefur komið mjög greinilega fram í umr. um fjárl., að allt verðlag í landinu hefur farið stórhækkandi. Og þegar að öðru leyti er litið á Akranesbæ og það ástand, sem hefur þar skapazt, þá fæ ég ekki séð, að þörfin sé minni fyrir fjárveitingu til þessara mannvirkja að ári en hún er nú í ár.

Þá er það í þriðja lagi till. á þskj. 225, undir II, lið, 1. liður, brúargerðir, Haukadalsá. Í s.l. 15 ár hefur alltaf fengizt fjárveiting í eina eða tvær brýr á fjárl. fyrir Dalasýslu. En svo undarlega hefur við brugðið við þá fjárlagasamþykkt, sem fram fór á s.l. vetri, að þar fékkst engin fjárveiting til brúargerðar, og hið sama vofir yfir nú, að því er meiri hl. hv. fjvn. hefur látið frá sér fara. Og þetta á sér stað á þeim tímum, sem viðreisn átti að hefjast í landi voru, mikil og góð viðreisn undir forustu þeirra manna, sem lofuðu óbreyttu verðlagi og óbreyttu ástandi, og undir forustu þeirra manna, sem lofuðu, að þeir skyldu leiða þjóðina til bættra lífskjara, þ.e. sjálfstæðismennirnir. En þessi nýja viðreisnarstefna svonefnda hefur í sannleika sagt kollkeyrt efnahag ríkisins svo mikið, að ráðandi menn í fjármálum þjóðarinnar sjá sér ekki fært að skyggnast það langt, að þeir sjái neitt inn til dala. Þeir skyggnast aðeins með ströndinni, þeir þurfa hvorki langt né gott útsýni. En því hefði enginn trúað af þessum mönnum, sem kusu frambjóðendur Sjálfstfl. við síðustu kosningar, að það mundi þýða það, að framkvæmdir minnkuðu, og það, að dýrtíð yxi og lífskjör fyrir allan almenning í landinu versnuðu. Svo rómuðu sjálfstæðismenn það, hvað þeir mundu bæta lífskjörin, að það var ekki von, að þetta fólk tryði því, að framkvæmdin á því yrði allt önnur.

En þetta fólk var blekkt af þessum mönnum, sem nú fara með völdin. Það var blekkt með fögrum loforðum, ginnandi stefnuskrá, sem stungið var í ruslakörfuna, um leið og hæstv. ríkisstj. sté í stjórnarstólana.

Ég lýsti í fyrra við afgreiðslu fjárl. aðstöðu þess fólks, sem í hlut á, þegar um þá brú er að ræða, sem ég fer fram á fjárveitingu til, og þess vegna ekki ástæða til að gera það öllu frekar nú, en þó vil ég segja um það nokkur orð.

Aðstaðan er þannig, að þarna þarf fjöldi fólks daglega að fara yfir mikið vatnsfall, sem oft tekur örum breytingum, og því mikil hætta, sem jafnan vofir yfir þeim, sem þurfa að leggja leið sína þarna yfir. En eftir öllum eðlilegum leiðum hefði Haukadalsá verið brúuð á síðastliðnu sumri, ef framvinda mála í Dalasýslu hefði verið á sama veg og hún hefur verið á undanförnum árum, ef ríkt hefði jafnmikill velvilji til þeirra, sem dreifbýlið byggja, eins og hefur verið á undanförnum árum. Ég sé, að hv. 6. þm. Norðurl. e. brosir, og mér þykir vænt um það, að hann skuli brosa. En hann má gjarnan muna þá tíð, er hann sté hér fyrst í þingsalinn og virtist þá vera áhugasamur mjög um þessi mál, og ég hafði sannarlega þá trú á honum, að hann mundi síztur manna bregðast í þessum efnum. En segja má um þá, sem styðja hæstv. ríkisstj. nú, og ríkisstj. sjálfa, að svo, bregðast krosstré sem önnur tré. Það má vera, að einhverjir hugsi sem svo: Hvað er þetta fólk að gera með að byggja þennan dal? Því flytur það ekki eitthvað, þar sem það þarf ekki á brú að halda og getur verið nær þjóðlífinu og því, sem þar fram vindur? Enn vil ég benda á það, að í Haukadalnum eru sauðlönd góð og þar eru afréttir miklir og betri en víða annars staðar þekkist í landi voru. Og fólkið þar er trygglynt, duglegt og traust og því alls góðs maklegt. Það hefur líka lagt sinn skerf til lands og þjóðar, og það væntir þess aftur á móti, að þjóðfélagið kunni að meta það, sem það hefur gert fyrir sína þjóð, því að það trúir því tæplega, að eitt einasta vatnsfall þurfi að verða því ævarandi fjötur um fót við þá framleiðslu, sem það innir af hendi. Þetta fólk vissi það líka, að með þeirri skipan, sem var, áður en kjördæmabreytingin átti sér stað, hefði það ekki þurft að bíða svona lengi. En kjördæmabreytingin og þau loforð, sem gefin hafa verið síðan, þetta hefur allt brugðizt því, og því verður það að bíða miklu lengur en ella. Till. þessi um 1/2 millj kr. er að vísu ekki nægjanleg til þess að fullgera brúna á næsta ári. En það er verulegur munur á því fyrir þá, sem þarna búa, hvort þeir eygja einhverja möguleika á því að fá brúna á næsta ári eða þeir eygja engan möguleika. Og því höfum við flm, leyft okkur að bera þessa till. fram, til þess að Alþingi sýndi þessu fólki það, að þess yrði ekki langt að bíða, að til framkvæmda kæmi í þessum málum. Ég vænti því þess, að hv. alþm. lýsi, þegar til atkvgr. kemur, fylgi sínu við þessa till., því að hér er um verulega mikið og aðkállandi mál að ræða.

Ég hafði hugsað mér að flytja till. einnig um fjárveitingu til brúargerðar á Valshamarsá á Skógarströnd. En sem kunnugt er, þá hefur sú á valdið mörgum erfiðleikum og þá ekki sízt Skógstrendingum, sem daglega leggja þarna leið sína. En þar sem hv. 2. þm. Vesturl., Sigurður Ágústsson, hefur sagt mér, að þessi brú muni koma á næsta ári, þá sé ég ekki ástæðu til að flytja um það brtt. við fjárl., þar sem á að sjá fyrir þessu máli á annan hátt, og vil ég þakka hv. þm. fyrir þann dugnað og áhuga, sem hann hefur sýnt í því að koma því máli í helga höfn.

Ég vil svo að lokum mælast til þess, að hv. þm. samþykki till. þær, sem ég hef hér mælt fyrir, þar sem þær eru allar þess eðlis, að þær eru mjög þýðingarmiklar, ekki einungis fyrir það fólk, sem byggir hlutaðeigandi staði, heldur ekki síður fyrir þjóðina alla. Það var að vísu ástæða til að ræða margt um fjárlögin, en það hafa margir gert og sagt margt, mikið og gott og lýst þeim réttilega, og ég ætla mér ekki að tefja tímann með því. En ég endurtek óskir mínar til þm. um það, að ég vænti þess, að þeir vilji styðja þær till., sem ég hef hér mælt fyrir.