16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í C-deild Alþingistíðinda. (2179)

211. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 502, um breyt. á l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, er flutt af landbn. Nd., og eins og kemur fram í grg., hefur n. ekki tekið neina afstöðu til þess enn þá. Þessu frv. var útbýtt hér í gær, og er því skammur tími liðinn, og hefur ekki verið aðstaða til þess að kynna sér þetta mál rækilega. Ég mun þess vegna ekki fylgja því úr hlaði með langri ræðu.

Frv. fylgir grg., sem er samin af stjórn Sambands eggjaframleiðenda. Ég vil aðeins minna á nokkur atriði, sem fram koma í grg., þar sem þeir benda á þau rök, sem þeir telja að liggi til þess, að þetta mál er flutt, en þeir segja þar, að samsala á eggjum sé framleiðendum nauðsynleg, m.a. af eftirtöldum ástæðum:

1. Framleiðendur eru yfirleitt langt frá markaðsstað.

2. Annað sölusvæðið, Reykjavík og nágrenni, er orðið svo stórt, að ógerlegt er að dreifa eggjum nema á skipulagsbundinn hátt.

3. Starfrækja þarf fullkomnar eggjageymslur, þar sem framleiðendur hafa fæstir tök á að geyma egg hver fyrir sig, sem oft er nauðsynlegt, þegar framleiðsla og neyzla fer ekki saman.

4. Tryggja þarf framleiðendum sem jafnast og eðlilegast verð á eggjum, en slíkt er óhugsandi, þegar framleiðendur selja hver í samkeppni við annan og við mjög misjöfn skilyrði.

5. Tryggja þarf neytendum góð og vel með farin egg með því að stuðla að vöruvöndun og heilbrigðu eggjamati.

6. Pakka þarf eggin í neytendapakkningar fyrir kjörbúðir.

Ég vil minna á þessi atriði nú, sem hér koma fram, sem höfuðrök fyrir þeirri breyt., sem hér er óskað eftir af hálfu eggjaframleiðenda, og þetta frv. er einnig flutt eftir ósk framleiðsluráðs landbúnaðarins eða það hefur beðið landbrh. að sjá um, að það yrði flutt.

Ég mun ekki ræða þetta mál frekar. Ég hef engan veginn athugað það til hlítar. Ég vil benda á, að það fylgir hér einnig sem fylgiskjal bréf yfirdýralæknisins í Reykjavík, þar sem virðist vera um jákvæða afstöðu að ræða í þessu máli.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.