21.03.1961
Neðri deild: 79. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

216. mál, sjúkraþjálfun

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv., sem prentað er á þskj. 216 og fjallar um sjúkraþjálfun. Má það ef til vill teljast fullmikil bjartsýni að búast við afgreiðslu á því nú á seinustu dögum þingsins. En málið er lítið og ólíklegt, að verja þurfi til þess mjög miklu af hinum dýrmæta tíma þingsins, svo að ekki er útilokað, að málið fái afgreiðslu, ef um það fæst samkomulag. Ef tími hins vegar vinnst ekki til þess, hlýtur það þá væntanlega athugun til næsta þings.

Ástæðan til flutnings þessa máls er tilmæli frá stjórn félags þeirra, sem sérþekkingu hafa í sjúkraþjálfun. Enginn skóli í þessari grein starfar hér á landi, en erlendis eru víða sérstakir skólar í þessari grein og sums staðar sem deildir við háskóla. Talsverðar kröfur eru gerðar til þeirra, sem í þessum skólum vilja stunda nám, og víðast hvar er krafizt stúdentsprófs. Námið er m.a. fólgið í ýmsum þeim greinum, sem kenndar eru í fyrri hluta læknisfræði, svo sem líffærafræði og lífeðlisfræði. Þá er einnig kennd lækningameðferð á hinum ýmsu vöðvum og hlutum líkamans með sjúkraæfingum, sjúkranuddi, hitameðferð, ljósum, stuttbylgjum og þess háttar. Þetta eru gamlar og viðurkenndar aðferðir til lækninga og heilsuverndar, og með þeim hefur oft náðst undraverður árangur til að hjálpa sjúklingum til fulls bata, sérstaklega á sviði bæklunarsjúkdóma. Á það verður þó ekki lögð of mikil áherzla, hve nauðsynlegt hlýtur að vera, að aðgerðum þessum sé beitt af ýtrustu þekkingu. Þær geta verið beinlínis skaðlegar í sumum tilvikum, ef þeim er beitt við tilteknar meinsemdir, og röng meðferð getur valdið varanlegum örkumlum.

Nú starfa sjúkraþjálfarar hér á landi undir eftirliti lækna, enda felst það í hinu takmarkaða lækningaleyfi, sem þeir hafa samkvæmt lækningaleyfislögunum nr. 47/1932. Er vitanlega sjálfsagt, að slík starfsemi fari fram undir eftirliti lækna, sem m.a. meta það, hvort sjúkraþjálfunarmeðferð eigi við í hvert skipti, sem um er að ræða.

Fullkomnir skólar í sjúkraþjálfun erlendis eru og viðurkenndir af læknasamtökum og heilbrigðisyfirvöldum hvers lands. Sjúkraþjálfarar, sem lokið hafa námi frá slíkum skólum, hafa með sér félög, en þau mynda aftur alþjóðasamtök. Slík alþjóðasamtök hafa vitanlega mikið gildi. Ætti félögunum að vera auðveldara að fylgjast með nýjungum í grein sinni fyrir þeirra tilstilli, og þátttaka í þeim alþjóðasamtökum ætti að vera nokkur trygging fyrir því, að sjúkraþjálfari uppfylli þær kröfur, sem sjálfsagt er að gera til hans vegna öryggis sjúklinganna.

Félag íslenzkra sjúkraþjálfara, sem hefur starfað í rúm 2d ár, hefur innan sinna vébanda aðeins þá, sem hafa þá þekkingu, sem tilskilin er í þessum alþjóðasamtökum, en hefur samt ekki getað fengið inngöngu í þau, meðan löggjöf vantar, sem tryggi rétt sérmenntaðra sjúkraþjálfara til starfa. Frv. mundi, ef að lögum yrði, tryggja, að einvörðungu þeir, sem hefðu þá menntun, sem fram er tekin í frv., hefðu heimild til að stunda sjúkraþjálfun.

Í raun og veru er þetta heilsuverndarmál eða öryggismál fyrir sjúklingana. Þegar litið er til þess, hve nauðsynlegt það er fyrir heilbrigðismál okkar, að við höfum nægilega mörgum á að skipa með þessa þekkingu, ætti það líka að vera ljóst, að einhverja aðstöðu sé rétt að skapa þessu fólki til starfa í sinni grein fremur þeim, sem hafa ekki til að bera sérstaka þekkingu í henni, enda er varla við að búast, að fólk leggi á sig langt og dýrt nám, ef því fylgja engin réttindi, sem það hefði ekki án námsins.

Um einstakar gr. frv. vil ég segja þetta:

1. gr. frv. fjallar um löggildingu sjúkraþjálfara og hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til að fá hana. Áskilin eru þar meðmæli landlæknis og stjórnar Félags íslenzkra sjúkraþjálfara, vegna þess að hér er, eins og ég sagði áðan, enginn skóli starfandi í þessari grein. Nauðsynlegt hlýtur að vera, að aðilar hafi þá þekkingu til að geta sagt til um, hvort þeim skilyrðum sé fullnægt, sem greinin setur. Síðan er rætt um menntunarskilyrði, að námi skuli lokið frá skóla, sem viðurkenndur er af heilbrigðisstjórn þess lands, sem námið er stundað í. Ef hins vegar aðili hefur þekkingu, sem landlæknir og stjórn Félags íslenzkra sjúkraþjálfara telur þessu jafngilda, má skv. frv. einnig veita honum löggildingu. Loks er undantekningarákvæði um heimild til að veita löggildingu þeim, sem starfað hafa við sjúkraþjálfun, er lögin taka gildi, ef landlæknir og Félag íslenzkra sjúkraþjálfara telja, að það sé rétt. Slíkt ákvæði er sett til þess, að minni röskun verði hjá þeim aðilum, sem þarna hafa atvinnuhagsmuna að gæta.

Í 2. gr. er skýrgreining á orðinu sjúkraþjálfun. Það mun ekki hafa verið almennt notað um þessa starfsemi. Aðalfundur Félags íslenzkra sjúkraþjálfara samþykkti nú nýlega að taka upp það starfsheiti. Áður hét félagið Félag íslenzkra sjúkraleikfimi- og nuddkvenna. En hvort tveggja er, að konur hafa vitanlega engan einkarétt til þessara starfa, þótt svo hafi viljað til, að sjúkraþjálfun hafi hér á landi næstum einvörðungu verið stunduð af konum, og hitt er, að það hefur einnig valdið nokkrum óþægindum fyrir stéttina, að eldra starfsheitið er einnig starfsheiti ýmissa annarra, sem stunda sitt starf í þágu heilbrigðra, svo sem um þá, sem stunda nudd íþróttamanna og á baðstofum, snyrtistofum og í þess háttar starfsemi. Þar er ekki um þjálfun sjúkra í lækningaskyni að ræða. Þetta fólk þarf því alls ekki að hafa þekkingu í fysiotherapy, og stendur þess starfsréttur alveg óhaggaður þrátt fyrir þetta frv., ef að lögum verður. Orðið „sjúkraþjálfun“ er nær því að gefa til kynna það sama og erlenda orðið, sem vitanlega er ekki fært að nota í íslenzku máli, og ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því, að ég hef svo mjög slett þessu útlenda orði sem raun ber vitni.

Síðari hluti 2. gr. fjallar um skyldu sjúkraþjálfara til að starfa einungis samkv. fyrirmælum lækna.

3. og 4. gr. fjalla um það heilsuverndar- og öryggismál annars vegar og réttindamál sjúkraþjálfara hins vegar, að aðeins þeir, sem hafa löggildingu samkv. 1. gr., megi starfa við þá sjúkraþjálfun, sem í greinunum segir. Ætti með því að vera eins tryggt og á verður kosið, að fólk komist hjá þeirri hættu að bíða ef til vill tjón á heilsu sinni, kannske óbætanlegt, sem hlotizt gæti af rangri meðferð á þessu sviði.

6. gr. fjallar um störf sjúkraþjálfara hjá læknum, en 7. gr. um störf þeirra hjá heilbrigðisstofnunum. Loks eru svo reglugerðar- og gildistökuákvæði. Það kann að vera nauðsyn að skilgreina nánar, greina nákvæmar, hvað felst í sjúkraþjálfun, og væri þá slíkt gert með reglugerð.

Nú er það svo, að sérstök lög gilda um flesta heilbrigðisstarfsmenn í landi okkar, lækna, tannlækna, hjúkrunarkonur og ljósmæður, um þeirra réttindi og skyldur. Það er fyllsta ástæða til, að svo verði einnig um sjúkraþjálfara, en þeir telja, að það standi mjög stétt þeirra fyrir þrifum, að löggjöf um þetta efni vantar. Óhætt er að segja, að það geti líka miklu varðað heilsu og öryggi þeirra, sem á sjúkraþjálfun þurfa að halda.

Ég vil geta þess til leiðbeiningar nefndinni, sem þetta mál fær, að mál þetta hefur verið borið undir landlækni, og hann benti á, að rétt væri að leita umsagnar þessa margumrædda félags, Félags ísl. sjúkraþjálfara, og stjórnar Læknafélags Íslands.

Eins og ég hef skýrt frá, er frv. flutt beinlínis fyrir tilmæli Félags ísl. sjúkraþjálfara, og stjórn þess félags hefur fjallað um frv. í þeirri mynd, sem það er hér fram borið. Eintak af handriti frv. mun einnig hafa borizt mönnum úr stjórn Læknafélagsins. Þessa vil ég geta vegna þess, að ég tel, að það gæti orðið til að flýta fyrir starfi nefndarinnar, og ég vil láta í ljós þá ósk, að málið geti hlotið afgreiðslu hjá hv. heilbr.- og félmn., sem ég legg til að málinu verði vísað til. Auk þess leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr.