27.10.1960
Efri deild: 11. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af öllum þm. stjórnarandstöðunnar, sem sæti eiga í þessari hv. d., þm. Framsfl. öllum og þm. Alþb. Við höfum með því viljað sýna, hve mikla áherzlu við leggjum á þetta mál. Hv. 2. þm. Vestf. hefur þegar gert grein fyrir efni þessa frv., en ég tel þó rétt, að ég geri einnig nokkra grein fyrir sjónarmiðum okkar þm. Alþb. í sambandi við málið.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er að mínum skilningi í stuttu máli sá, að Alþ. ítreki að gefnu tilefni og í nýju formi yfirlýsingu sína frá 5. maí 1959 um, að ekki komi til mála minnf fiskveiðilandhelgi við Ísland en 12 mílur frá grunnlínum allt umhverfis landið, og að Alþ. sýni með samþykkt þessa frv., að það megi ekki veita neinni ríkisstj. heimild eða svigrúm til þess að ákveða minni fiskveiðilandhelgi en þetta. Tilefnið til flutnings þessa frv. er vitanlega það, að undanfarið, a.m.k. frá 1.–10. þ.m., hafa farið fram samningaviðræður milli fulltrúa ríkisstj. annars vegar og fulltrúa ríkisstj. Breta hins vegar, þar sem m.a. hefur verið fjallað um stærð íslenzkrar fiskveiðilögsögu með það fyrir augum a.m.k. af hálfu Breta að gera samkomulag eða samninga um stærð íslenzkrar fiskveiðilögsögu milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Breta. En slíkir samningar mundu, ef þeir væru gerðir, vitanlega leiða til breyt. á reglugerðinni um fiskveiðilandhelgi Íslands frá 30. júní 1958.

Ákvörðun hæstv. ríkisstj. um að taka upp samningsviðræður við Breta um landhelgismálið var tekin án nokkurs samráðs við þingflokka stjórnarandstöðunnar og gegn mótmælum þeirra, þegar er þeim varð kunnugt um þessa ákvörðun ríkisstj. Þessi ákvörðun var tekin án þess, að hún væri áður borin undir utanrmn. Þetta síðara er brot á lögum og um leið á loforðum hæstvirtra ráðherra, hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh., gefnum á fundi utanrmn. í júlí s.l. um það, að samráð skyldi verða haft við utanrmn., áður en nokkur ákvörðun yrði tekin í málinu, og skal ég víkja að því síðar.

Hið fyrra, að taka svo mikilvæga ákvörðun í einu þýðingarmesta máli þjóðarinnar án þess að reyna hið allra minnsta að ná um hana samstöðu allra flokka og þar með þjóðareiningu, það er að rjúfa þá þjóðareiningu og samstöðu, sem þrátt fyrir allt hefur verið um höfuðatriði þessa máls. Með því er gengið beint á móti stefnu allra ríkisstjórna, sem hafa haldið á þessu máli árum saman. Þær hafa allar reynt, meira að segja sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, að ná sem mestri samstöðu allra flokka um höfuðatriði málsins, þó að það hafi ekki tekizt í öllum atriðum. Hæstv. ríkisstj. mun e.t.v. svara því, að hún hafi ekki gert annað og ekki ákveðið annað en tala við Breta, að taka upp viðræður við Breta. Og hún mun e.t.v. segja, að það hafi verið bæði ókurteisi við þá góðu þjóð og óviturlegt vegna eftirleiksins að hafna því að taka upp þessar viðræður. En hæstv. ríkisstj. hefði ekki þurft að segja nema eitt til viðbótar þessu, til þess að þetta væri allsterkt svar, hefði hún sagt: Við viljum aðeins tala við Breta. En við munum ekki semja við þá um neina skerðingu á 12 mílna fiskveiðilandhelginni við Ísland. Við munum tala fyrir því að halda fast við yfirlýsingu Alþingis frá 5. maí 1959, sem við tókum sjálfir þátt í að samþykkja.

Þetta hefði hæstv. ríkisstj. getað sagt okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar í utanrmn. eða öðrum fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna. En bezta vörnin hefði það verið, ef hún hefði sagt þetta opinberlega allri þjóðinni, um leið og hún tók þá ákvörðun að hefja samningaviðræður við Breta. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert. Hún hefur ekki verið að gefa neinar yfirlýsingar um, að í þessum samningsviðræðum við Breta yrði fast haldið við yfirlýsta stefnu Alþingis og fyrri ríkisstjórna í þessu máli. Þess vegna er það, að við viljum með flutningi þessa frv. segja hæstv. ríkisstj. þetta: Það verður engin eining hér á hv. Alþ. né heldur með þjóðinni um nokkurt frávik frá 12 mílna fiskveiðilandhelgi, um nokkra skerðingu á henni nokkurs staðar við landið um skemmri eða lengri tíma.

Flutningur þessa frv. af hálfu stjórnarandstöðunnar er því aðvörun til hæstv. ríkisstj. um það, að samningar við Breta, sem feli í sér nokkra skerðingu á 12 mílna fiskveiðilandhelginni nokkurs staðar við landið, jafnvel þótt samið væri um slíkt aðeins til fárra ára og þó að talið væri ef hálfu hæstv. ríkisstj., að í þeim samningum kynni að felast einhver ávinningur, þá munu slíkir samningar kosta stríð, hörð átök hér á Alþingi og með þjóðinni. Og það verður um leið opinberað umheiminum, að Alþingi og íslenzka þjóðin sé ekki einhuga í afstöðunni um þetta mál, sem við erum þó allir sammála um að sé mesta lífshagsmunamál þjóðarinnar.

Hæstv. ríkisstj. mun vafalaust telja sig hafa lagalega heimild til þess að óbreyttum lögum að gera samninga við Breta um stærð íslenzkrar fiskveiðilögsögu, án þess að sérstakt samþykki Alþingis komi til. Það er það, sem fyrir okkur vakir með flutningi þessa frv., að taka af allan vafa um og slá því föstu, að slíkt sé ekki hægt, a.m.k. án þess að samþykki Alþingis komi til.

En spurningin er nú í dag: Þó að hæstv. ríkisstj. kunni eð hafa lagalega heimild til þess að gera slíka samninga um íslenzka fiskveiðilögsögu, hefur hún siðferðilega heimild? Það er mín skoðun, að það sé auðvelt að sanna, að hún hafi það ekki. Samkv. yfirlýsingum, sem gefnar hafa verið af hálfu þessarar hæstv. ríkisstj., af hálfu þeirra flokka, sem að henni standa, forustumanna þeirra, og af hálfu allra stjórnmálaflokka í landinu, hefur verið margyfirlýst stefna Alþingis a.m.k. síðan 5. maí 1959, að minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum allt umhverfis landið komi ekki til mála, og um leið, að stærð fiskveiðilögsögunnar við Ísland sé ekki samningsatriði við Breta eða neina aðra einstaka þjóð. Þetta hefur verið yfirlýst stefna allra ríkisstjórna í landhelgismálinu a.m.k. síðan 30. júní 1958, þegar landhelgisreglugerðin var sett, ef ekki lengur. Og um þetta hafa verið gefnar yfirlýsingar margoft af forustumönnum allra flokka.

Þar er auðvitað fyrst að nefna þál. um landhelgismál, sem var samþykkt einróma á Alþingi 5. maí 1959. Sú tillaga var borin fram af utanrmn. í heild, en hún var samin af undirnefnd utanrmn., sem var skipuð 4 mönnum, einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, og hin endanlega tillaga varð til eftir vandlega íhugun og umræður innan þessarar undirnefndar, en þær höfðu raunar staðið yfir í fimm vikur, þegar fullt samkomulag náðist að síðustu um orðalag tillögunnar. En utanrmn. fjallaði um þetta mál, um þessa tillögu, í meira en 13 vikur, frá því að hún fyrst kom fram og þangað til hún var endanlega afgreidd, svo að það er ekkert vafamál, að þál. frá 5. maí 1959 var gerð að vel íhuguðu ráði forustumanna allra flokka, sem að henni stóðu. Þessi þál. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 4 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til þess að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landsgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Ég veit, að t.d. hæstv. dómsmrh. mun kannast við það, að hann og forustumenn hans flokks hafi hugsað það vandlega, hvað þessi síðustu orð í niðurlagi þessarar þál. þýddu. Hæstv. dómsmrh. og flokksmenn hans tóku sér góðan umhugsunarfrest, langan umhugsunarfrest um það, hvort þeir vildu samþykkja, að þessi orð væru í niðurlagi þál. Ég ætla ekki að rekja það þóf, sem fór fram um það vikum saman, jafnvel mánuðum saman. En það eru vel geymd hjá mér ýmis uppköst að þessari þáltill., m.a. frá hæstv. dómsmrh., sem taka af allan vafa um, að það var af hálfu hans flokks álitið eitt aðalatriðið í málinu, hvort þessi orð um, að lágmark íslenzkrar fiskveiðilandhelgi væri 12 mílur, væru í þessari þál. Meira ætla ég ekki að segja að svo stöddu um það langvarandi þóf og stríð, sem stóð einmitt um þetta atriði.

En ég vil minna á, að á þeim sama fundi utanrmn., þar sem gengið var endanlega frá þessari þáltill., lá einnig fyrir önnur till., og sú till. hafði legið fyrir utanrmn. mánuðum saman. Hún hafði legið fyrir tveimur ríkisstjórnum. Það var till. frá forustumönnum Sjálfstfl. um það, hvað Sjálfstfl. legði til að gera í málinu um þetta leyti. Þessa till. höfðu þeir fyrst borið fram í nóvember haustið 1958, en hún hafði legið fyrir vinstri stjórninni og frá því fyrir áramót stjórn Alþfl. sem óafgreitt mál, en þáv. fulltrúar Sjálfstfl. í utanrmn. voru núv. hæstv. forsrh. og núv. hæstv. dómsmrh., og það voru þeir, sem höfðu lagt fram þessa till. og höfðu lagt mikið kapp á, að hún væri samþykkt og farið eftir henni. Þeir höfðu hvað eftir annað vakið máls á því, að þeirra till. væri að taka upp viðræður innan Atlantshafsbandalagsins, þ. á m. við Breta, um landhelgismálið og það mundi vera hin réttasta og tiltækilegasta leið í málinu, eins og þá var komið, ef ekki hin eina rétta og tiltækilega leið. En á þessum fundi utanrmn. 27. apríl 1959 kom það einmitt í hlut núv. hæstv. utanrrh. að kveða niður þessa till. forustumanna Sjálfstfl. og núv. ráðh. og ganga af henni dauðri. Við það tækifæri minnti hæstv. utanrrh. á það, að hann hefði sjálfur svo oft og lengi staðið fyrir því, að viðræður færu fram innan Atlantshafsbandalagsins vorið og sumarið 1958 og jafnvel lengur, að honum værí ljóst, að það væri tilgangslaust að taka málið upp innan Atlantshafsbandalagsins, og það sem verra væri, það gæti leitt af því nýja erfiðleika. Hæstv. ráðh. minnti á það réttilega, að það hefði alltaf verið grundvallarsjónarmið flestra ríkisstjórna innan Atlantshafsbandalagsins, að íslendingar hefðu alls engan rétt til einhliða útfærslu fiskveiðilandhelgi sinnar og að því leyti sem hér væri um réttardeilu að ræða milli Íslendinga annars vegar og hins vegar vina þeirra og bandamanna í Atlantshafsbandalaginu, þá væri eina rétta leiðin að bera þessa deilu undir úrskurð alþjóðadómstólsins í Haag, en að því leyti, sem um hagsmunamál Íslendinga væri að ræða, þá væri það eina rétta, að Íslendingar færu samningaleiðina, og þessar þjóðir töldu sig þá ekki alveg fráhverfar því að ræða málið við Íslendinga. Þessar tvær leiðir væru til: úrskurður alþjóðadómstólsins í Haag og viðræður við viðkomandi þjóðir, Breta og aðrar innan Atlantshafsbandalagsins. En um þetta sagði hæstv. utanrrh., ég leyfi mér hér með að birta það orðrétt: „Við höfum svarað, að við séum ekki til viðræðna um fiskveiðilögsögu Íslands.“ Hæstv. dómsmrh. benti á það í umr. um þetta, að þó að Sjálfstfl. legði til, að þannig væri fjallað um málið, þá fælist ekki í till. hans, að hann teldi, að það ætti beint að semja við Breta og aðra um víðáttu fiskveiðilandhelgi Íslands. Honum þótti ástæða til að taka fram, að það fælist ekki af sjálfu sér í till. Sjálfstfl., þótt flokkurinn teldi rétt, að það væri tekið upp til viðræðna innan Atlantshafsbandalagsins.

S.l. vor lét hæstv. utanrrh. ríkisútvarpið birta eftir sér yfirlýsingu um landhelgismálið, þar sem hann komst m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við miðum allt okkar starf að því að tryggja 12 mílna fiskveiðilögsögu og stöndum gegn öllu, sem skemmra gengur. Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum eða öðru, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland.“

Með þessum orðum lýsti hæstv. utanrrh. stefnu hæstv. ríkisstj., sem nú situr, í þessu máli, fyrir þjóðinni. Og á fundi utanrmn. hinn 13. júlí í sumar, — það er ekki lengra síðan, — gaf hæstv. utanrrh. enn einu sinni yfirlýsingu um afstöðu núverandi ríkisstj: í þessu máli, og hann sagði, — ég leyfi mér að vísa til þessara orða orðrétt, — að afstaða ríkisstj. nú væri sú sama og fyrri ríkisstjórna: að hafna öllum tilmælum um samningaviðræður, þar eð ekkert væri við Breta að semja um víðáttu fiskveiðilögsögunnar við Ísland.

Ég gæti gert mikið að því að vísa eða vitna til umræðna í utanrmn. Ég er reiðubúinn til að gæta þess, sem fram fer í utanrmn., sem trúnaðarmáls, ef þess er óskað, en ég tel, að þegar ráðh. gefa yfirlýsingar þar, stefnuyfirlýsingar um afstöðu flokka sinna eða ríkisstj. í heild, þá sé það ekkert einka- eða trúnaðarmál. Það eru yfirlýsingar, sem eru ætlaðar af hálfu slíkra manna til allrar þjóðarinnar, og þess vegna vitna ég hiklaust til þessara orða eins og þau eru bókuð í fundargerðum utanrmn.

Hæstv. utanrrh. lýsti m.ö.o. hinn 13. júlí í sumar stefnu núverandi ríkisstj. svo, að hún teldi enga ástæðu til að taka upp samningaviðræður við Breta, af því að við hefðum um ekkert við Breta að semja um víðáttu fiskveiðilögsögu Íslands. Þessa yfirlýsingu gaf hæstv. ráðh. sem beint svar við fsp. um það, hvað hæft væri í því, að viðræður færu þá fram milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands.

Þannig hafa þessir tveir ráðh., hæstv. utanrrh. og dómsmrh., sem landhelgismálið heyrir sérstaklega undir og hafa sérstaklega fjallað um það innan núverandi ríkisstj., oftar en einu sinni, einir eða með öðrum, gefið yfirlýsingar um þetta tvennt: að samningar við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands komi ekki til mála og að minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur allt umhverfis landið frá grunnlínum komi ekki heldur til mála.

Fundur utanrmn. 13. júlí var haldinn að ósk hv. 2. þm. Vestf., Hermanns Jónassonar, til þess að fá skýrslur hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. um atburði, sem þá höfðu nýlega orðið innan 12 mílna landhelginnar. Það höfðu þá orðið árekstrar nýlega milli brezkra herskipa og starfsmanna landhelgisgæzlunnar íslenzku vegna afskipta brezkra herskipa af aðgerðum íslenzku landhelgisgæzlunnar vegna brota brezkra togara. Þá stóðu málin þannig, að frá því í maí í vor hafði íslenzka ríkisstj. lýst því yfir, að hún gæfi upp sakir öllum brezkum aðilum, sem hefðu gerzt brotlegir innan fiskveiðilandhelginnar frá því um haustið 1958. En Bretar lýstu því yfir um sama leyti, að þeir mundu ekki beita herskipum sínum að svo stöddu innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar. Og brezkir togaraeigendur í þriðja lagi lýstu því yfir, að þeir mundu banna skipstjórum sínum á togurunum að veiða innan 12 mílna landhelginnar í 3 mánuði, eða til 12. ágúst 5 sumar. En það hafði þegar sýnt sig í júlí, að ekkert af þessum loforðum Breta hafði verið haldið. Þeir höfðu fært sig upp á skaftið. Togararnir fóru inn í 12 mílna landhelgina, og brezk herskip komu eins og áður í veg fyrir töku þeirra þar af hálfu íslenzkrar landhelgisgæzlu. Og eins og áður hafði íslenzka ríkisstj. mótmælt þessum aðgerðum, þessum ofbeldisaðgerðum, og eins og alltaf áður hafði brezka stjórnin vefengt skýrslur íslenzku landhelgisgæzlunnar sem rangar og ósannar. En ég vil minna á það, að hæstv. dómsmrh. hafði, þegar hann tók það skref að gefa Bretum upp allar sakir í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, tekið það skýrt fram, að nú yrði Bretum engin linkind sýnd, ef þeir gerðust brotlegir á ný innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, þ.e.a.s. eftir sakaruppgjöfina í maí í vor.

Brezka ríkisstj. greip hins vegar, eins og ég sagði áðan, til ráðs, sem hún hefur hvað eftir annað gripið til út af töku brezkra togara, ef hún hefur farið fram innan 4 mílna og í einu tilfelli a.m.k. innan 3 mílna landhelgi. Hún hefur einfaldlega vefengt skýrslur íslenzkrar landhelgisgæzlu sem ósannindi. Hún lét eitt sinn fulltrúa sinn á þingi Sameinuðu þjóðanna lýsa því af hálfu brezku stjórnarinnar, að starfsmenn íslenzkrar landhelgisgæzlu færu með rangar sakargiftir og ósannindi um saklausa brezka togaraskipstjóra. Sama gerði hún í sumar, þegar brezkir togarar voru staðnir að nýjum brotum innan landhelginnar og brezk herskip staðin að því að koma í veg fyrir töku þeirra af hálfu landhelgisgæzlunnar.

Þannig stóðu málin í sumar í júlí. Bretar höfðu brotið öll sín loforð, bæði brezkir togaraeigendur og brezka ríkisstj., — öll sín loforð um það að virða 12 mílna landhelgi fram til 12. ágúst. En hins vegar gerðist það um þetta leyti, að brezk blöð sögðu frá því hvað eftir annað, að nú stæðu yfir viðræður við íslenzku ríkisstj. um lausn á málinu, allsherjarlausn á landhelgismálinu, og þessara fregna hafði verið getið í íslenzkum blöðum. Þegar hæstv. ráðherrar, utanrrh. og dómsmrh., voru spurðir að því á fundi utanrmn. 13. júlí í sumar, hvað væri hæft í þessum fregnum, þá neituðu þeir í fyrsta lagi öllu sannleiksgildi þessara fregna, en kvörtuðu auk þess báðir sáran undan, að íslenzk blöð væru að fara með svo tilhæfulausan fréttaflutning. Það var rétt eins og báðir þessir hæstv. ráðh. þættust vera bornir æruleysissökum, ef verið væri að ætla þeim það, að þeir vildu vera að taka upp samningaviðræður við Breta um landhelgismálið, og verið væri að tala um samningamakk íslenzku ríkisstj. og brezku stjórnarinnar um landhelgismálið sjálft. Það var við það tækifæri, sem hæstv. utanrrh. gaf þá yfirlýsingu, sem ég gat um hér áðan, að það væri afstaða þessarar ríkisstj. eins og fyrrverandi ríkisstj., að við hefðum ekkert við Breta að tala um íslenzka fiskveiðilögsögu og mundum þess vegna ekki ræða við þá, mundum þess vegna hafna, — ég vitna hér í orð hæstv. utanrrh. orðrétt, — hafna tilmælum til samningaviðræðna, þar eð um ekkert væri við Breta að semja um víðáttu fiskveiðilögsögunnar.

Þetta var 13. júlí. Á sama fundi sagði hæstv. dómsmrh., að ríkisstj. mundi að vísu athuga gaumgæfilega, hver viðbrögð hún teldi rétt að hafa í sambandi við þessi mál, en hún mundi auðvitað fara að lögum í því efni og bera sig saman við hlutaðeigandi aðila um hvað gera skyldi í málinu. Ég er ekki í vafa um, hvað hæstv, dómsmrh. átti við með þessum orðum, að auðvitað mundi hæstv. ríkisstj. fara að lögum í þessu efni. Það eru ákvæði laga um störf utanrmn., sem eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Til utanrmn. skal vísa utanríkismálum. Utanrmn. starfar einnig milli þinga, og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir rn. liggja.“

Nú er það að vísu svo, að landhelgismál okkar eru ekki nema að öðrum þræði utanríkismál. Sjálf ákvörðun fiskveiðilögsögunnar er innanríkismál, eins og við höfum oft lagt áherzlu á og erum flestir eða allir sammála um. En verkefni utanrmn. í málinu er að bera fram rök okkar fyrir aðgerðum okkar í málinu gagnvart öðrum þjóðum og gera sitt til þess að fá viðurkenningu annarra þjóða á lögmæti og réttmæti aðgerða okkar.

Allar ríkisstj. og allir þingflokkar hafa verið sammála um að halda því fram, að við hefðum fullan rétt að alþjóðalögum til þeirra aðgerða, sem við höfum gert í landhelgismálinu, nú síðast með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur. Voru allir sammála um það, að því er ég bezt veit, að við hefðum til þess fullan rétt að alþjóðalögum. Það er einmitt um þennan rétt okkar, sem við höfum orðið að berjast harðast og þá fyrst og fremst við vinaþjóðir okkar og bandamenn í Atlantshafsbandalaginu, sem hafa staðið gegn þessum rétti okkar undir forustu Bandaríkjanna, en með aðgerðum eins og aðgerðum Breta síðustu 2 árin í íslenzkri landhelgi. Þessar þjóðir hafa neitað okkur um þennan rétt. Þær hafa kært okkur fyrir sjálftöku og brot á þjóðarétti. En þær hafa haldið fram öðrum rétti, rétti þeirra þjóða, sem hafa stundað hér fiskveiðar við Ísland, sumar lengi, til þess að halda áfram veiðum við Ísland upp að 6 mílum, upp að 4 mílum eða jafnvel 3 mílum, eins og Bretar gera. Hvort sem hefur verið um að ræða rétt okkar, sem við höfum verið allir sammála um að halda fram með sama hætti, eða nauðsyn okkar og rök okkar fyrir aðgerðunum eða aðferðunum, sem við höfum beitt til þess að ná fram þessum rétti okkar, og um það höfum við ekki alltaf verið jafnsammála, þá hafa allir reynt, allar stjórnir, sem hafa haldið á þessu máli, að ná sem mestri samstöðu, líka um aðferðirnar og rökin, sem við beitum til þess að ná fram þeim rétti, sem við erum allir sannfærðir um að við höfum.

Þetta var svo vorið og sumarið 1958, áður en reglugerðin um 12 mílna landhelgina var sett. Þá hafði starfað n. að því máli mánuðum saman, n. skipuð fulltrúum frá öllum flokkum. Það var ekkert við það að athuga frá mínu sjónarmiði, að utanrmn. fjallaði ekki sérstaklega um það mál, vegna þess að um það voru allir sammála, að ákvörðun sjálfrar lögsögunnar væri innanríkismál, en ekki utanríkismál. Þegar reglugerðin var sett eftir langvarandi og vandlegan undirbúning, var það að vísu á ábyrgð þáverandi stjórnarflokka með öruggan þingmeirihluta að baki, en stjórnarandstöðuflokkurinn, Sjálfstfl., mótmælti ekki setningu reglugerðarinnar og mótmælti ekki neinum höfuðatriðum málsins, sem þá var haldið fram af hálfu ríkisstj. gagnvart öðrum þjóðum. Það heyrðust að vísu raddir frá Sjálfstfl., því miður, um það, að við hefðum ekki, áður en reglugerðin var sett, talað nógu lengi og nógu vinsamlega við vini okkar Breta og aðrar vina- og bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu. En hæstv. utanrrh. hefur margoft hrakið þessa gagnrýni Sjálfstfl. með því að lýsa því, hvernig hann sjálfur sem utanrrh. stofnaði til og tók þátt í langvarandi viðræðum við vinaþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu, bæði áður en reglugerðin var sett og eftir að hún var sett, fram í ágústmánuð 1958, jafnvel fram undir 1. sept. 1958, þegar reglugerðin gekk í gildi. Hæstv. ráðh. hefur þannig marghrakið þær ásakanir Sjálfstfl., að ekki hafi verið rætt nógsamlega við vinaþjóðir okkar og bandamenn innan Atlantshafsbandalagsins, áður en reglugerðin var sett. En það voru einu andmælin, sem Sjálfstfl. bar þá fram gegn setningu reglugerðarinnar.

Það mætti, auk þess sem hæstv. utanrrh. hefur sagt, lýsa því, hvernig viss málamiðlunartill., sem var sett fram í ráði Atlantshafsbandalagsins í höfuðstöðvum þess í París, var og hvernig henni var tekið. En það var gert áður en ákvörðun var tekin um setningu reglugerðarinnar í júní 1958. Það má minna á í þessu sambandi, að Alþ. og ríkisstj. 1958 gerðu sér áreiðanlega ljóst, að hverju þeir gengju um aðgerðir Breta, áður en reglugerðin var sett, og hótanir Breta um ofbeldisaðgerðir í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, 12 mílna landhelgi, lágu fyrir, áður en Alþ. og ríkisstj. tóku ákvörðun um setningu reglugerðarinnar. Við létum það ekki hræða okkur þá.

Eftir að átökin hófust á hafinu við Ísland eftir 1. sept. 1958, þessi ójöfnu átök, þar sem annars vegar voru vígdrekar Breta og hins vegar okkar litlu varðbátar, þá gerðist það, að þjóðin reis upp sem einn maður gegn ofbeldi Breta. Og það má segja, að þjóðin hafi með samþykktum, sem gerðar voru í nálega hverju félagi, öllum félagssamtökum og félagsmálastofnunum í landinu einróma um að lýsa yfir samþykki sínu við aðgerðir vinstri stjórnarinnar og mótmæla ofbeldi Breta, — þjóðin hafi með eins konar sjálfkrafa þjóðaratkvgr. staðfest reglugerðina frá 30. júní 1958 sem lög. Mér er nær að halda, að það hafi aldrei staðið meir einhuga þjóð á Íslandi heldur en eftir 1. sept. 1958 og fyrstu vikurnar eftir að Bretar sýndu þjóðinni ofbeldi sitt.

Þá gerðist það einnig, að forustumenn Sjálfstfl. fóru á kreik og fóru hvað eftir annað á fund vinstri stjórnarinnar og óskuðu eftir fundi með utanrmn. til þess að bera fram þá till., að nú yrðu teknar upp viðræður við Breta innan Atlantshafsbandalagsins. Ég minnist þess ekki, að þeim hafi nokkurn tíma verið synjað um fund í utanrmn. til þess að koma þessari till. sinni á framfæri. Ég minnist þess ekki, að það hafi nokkurn tíma verið neitað að hlusta á málflutning þeirra og rök fyrir því, að þá einmitt ætti að taka upp viðræður við Breta, vegna þess að starfsmenn landhelgisgæzlunnar íslenzku væru í lífshættu fyrir brezkum herskipum og þetta væru sjálfsögðustu viðbrögðin, eins og þá var komið.

Þessi till. Sjálfstfl. var rædd á mörgum fundum í utanrmn, og ríkisstj. fyrir áramótin 1958. En um áramótin 1958–59 skipti um ríkisstj. í landinu, eins og menn muna vel, og þá tók við ríkisstj. Alþfl. með sama hæstv. utanrrh., en með stuðningi Sjálfstfl. Og hvað gerðu þá forustumenn Sjálfstfl. með till. sína um að taka nú upp viðræður um landhelgismálið til að afstýra árekstrum á hafinu, koma í veg fyrir lífshættu, sem íslenzkir varðskipamenn stóðu í? Kölluðu þeir saman fund með utanrmn. á útmánuðum 1959? Nei, þeir hættu að tala um till. sína, en hún lá fyrir í utanrmn.

Ég veit ekki til þess, að hættan á árekstrum á. hafinu hafi minnkað á hávertíðinni 1959. Það slumaði í forustumönnum Sjálfstfl., þegar þeir áttu sjálfir ríkisstj. eins og þeir áttu ríkisstj. Alþfl. Ég veit með fullri vissu, að það var ekki í þeim skilyrðum, sem Sjálfstfl. setti fyrir stjórnarmyndun Alþfl., að það yrðu teknir upp samningar um landhelgismálið við Breta. Og ég veit það sannanlega, að á fundi utanrmn. 27. apríl 1959 treysti hæstv. utanrrh. Alþfl., sem hafði fullan stuðning Sjálfstfl. að baki, sér til þess að kveða niður þessa till. forustumanna Sjálfstfl., núv. hæstv. forsrh. og núv. hæstv. dómsmrh., og ganga af henni steindauðri, án þess að þeir kveinkuðu sér nokkuð. Í staðinn var á sama fundi, einnig með atkv. forustumanna Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., samþ. till. um yfirlýsingu Alþ., sem var endanlega samþ. á Alþ. 5. maí 1959; nokkrum dögum seinna, að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi fyrir Ísland en 12 mílur.

Ég veit ekki til þess, að hæstv. utanrrh. eða hæstv. dómsmrh. eða hæstv. forsrh. hafi nokkuð haft að athuga við yfirlýsingar hæstv. utanrrh., sem ég hef getið um hér á undan, af hálfu ríkisstj. Alþfl., sem Sjálfstfl. studdi 1959, um, að við hefðum ekkert við Breta að semja um íslenzka fiskveiðilögsögu og mundum þess vegna hafna öllum tilmælum um slíkar viðræður. Ég veit ekki til þess, eð forustumenn Sjálfstfl. hafi neitt haft að athuga við þessar yfirlýsingar utanrrh., og ég veit ekki til þess, að hæstv. dómsmrh. hefði neitt að athuga við yfirlýsingar hæstv. utanrrh. á fundi utanrmn. síðast 13. júlí í sumar um, að enn væri það stefna þessarar hæstv. ríkisstj. að hafna öllum tilmælum um samningsviðræður við Breta, af því að við hefðum um ekkert við þá að semja um íslenzka fiskveiðilögsögu. Hæstv. utanrrh. sagði: „Þetta er stefna núverandi ríkisstj., eins og það hefur verið stefna fyrri ríkisstj.Hæstv. dómsmrh. þagði þá um till., bæði fyrri og síðari till. Sjálfstfl., hans og hæstv. forsrh., um að taka upp viðræður við Breta.

Ég veit ekki, hvað hefur gerzt frá 13. júlí og fram til 10. ágúst, hvaða sinnaskipti hafa farið fram eða með hvaða rökum hjá hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. og hjá hæstv. ríkisstj. En í þessum mánuði hefur það gerzt, að hæstv. ríkisstj. hefur skipt um skoðun, því að á fundi utanrmn. 10. ágúst, tveimur dögum áður en vopnahlé Breta rann út, loforð þeirra um að beita ekki herskipum innan 12 mílna landhelginnar, sem þeir höfðu svikið, og loforð brezkra togaraeigenda um að láta ekki togara sína fara inn í 12 mílna landhelgina til veiða, sem þeir höfðu einnig svikið, — tveimur dögum áður en þetta rann út, var kallaður saman í snatri fundur utanrmn., þar sem ríkisstj. tilkynnti, að hún hefði ákveðið að verða við tilmælum Breta um viðræður milli ríkisstjórnanna um landhelgismálið, og þá sagði hæstv. utanrrh. annars vegar, til þess að koma í veg fyrir nýja árekstra á Íslandsmiðum og hins vegar alveg sérstaklega til þess að vinna að framgangi ályktunar Alþ. frá 15. maí 1959 um landgrunnið. En þar segir, eins og menn muna, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls.

Ég veit ekki, eins og ég sagði áðan, hvað hefur gerzt á tímabilinu frá 13. júlí til 10. ágúst, sem hefur valdið því, að ríkisstj. tók þá ákvörðun, þvert ofan í fyrri yfirlýsingar sínar og þvert ofan í stefnu allra ríkisstj., sem hafa verið á Íslandi síðustu árin, að ganga til samninga við Breta. Ég veit ekki til þess, að það hafi komið neitt fram frá hálfu brezku stjórnarinnar, sem bendi til þess, að afstaða hennar sé í nokkru breytt, hvorki í þá átt, að Bretar séu nú reiðubúnir til að breyta afstöðu sinni og viðurkenna rétt okkar til þess að taka okkur einhliða 12 mílna fiskveiðilandhelgi, og enn þá síður, að brezka stjórnin sé nú reiðubúin til þess að viðurkenna rétt okkar til landgrunnsins alls.

Mér er kunnugt um að vísu, að það kom fram, meðan Genfarráðstefnan stóð yfir í vor, tilboð frá brezku stjórninni til íslenzku ríkisstj., sem var ekki farið hátt með hér heima fyrir, en hefur verið skýrt frá af hálfu brezku stjórnarinnar í sjálfu brezka þinginu. En mér er líka kunnugt um, að íslenzka ríkisstj. taldi ekki rétt að taka því tilboði og mun líklega ekki hafa svarað, vafalaust með þeim rökum, að við hefðum ekkert við Breta að tala, hefðum ekkert við þá að semja. Í ræðu, sem sjútvm. og landbrh. Breta hélt í brezka þinginu, nýkominn heim af Genfarráðstefnunni í vor, lýsti hann því yfir, að brezka stjórnin væri að vísu reiðubúin til samninga við Íslendinga, eins og brezka stjórnin hefði boðið fyrir skemmstu, — en, sagði sá ráðh., við viðurkennum ekki einhliða kröfu íslenzku ríkisstj. um 12 mílna fiskveiðilögsögu, og herskip okkar munu halda áfram að aðstoða fiskimenn okkar á Íslandsmiðum.

Þetta er síðasta yfirlýsingin, sem ég veit um að hafi komið fram um stefnu brezku stjórnarinnar í málinu.

Daginn, sem Alþ. kom saman að þessu sinni, mánudaginn 10. okt., gaf hæstv. forsrh. að gefnu tilefni frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar yfirlýsingu um, að samráð skyldi verða haft við Alþ., áður en ráðið yrði til lykta þeim viðræðum, sem farið hefðu fram og mundu fara fram milli fulltrúa ríkisstj. og brezku stjórnarinnar. Nú vil ég ekki draga í efa, að staðið verði við þetta loforð af hálfu hæstv. ríkisstj. En ég vil benda á, að það er ekki að hafa samráð við aðra aðila um mál að tilkynna þeim aðeins, hvað hafi verið afráðið í málinu, og segja: Nú ráðið þið, hvað þið gerið, hvort þið eruð með þessu eða móti, en þetta höfum við ákveðið.

Hæstv. dómsmrh. sagði okkur í júlí, að ríkisstj. mundi athuga, hvað hún teldi rétt að gera í þessum málum, og mundi þá auðvitað fara að lögum og bera sig saman við hlutaðeigandi aðila og þá vitanlega fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna. Þetta var efnt þannig, að hlutaðeigandi aðilum, fulltrúum þingflokkanna, var aðeins tilkynnt, hvað ríkisstj. hefði ákveðið að gera. Það er ekki að hafa samráð við menn eða bera það undir menn, hvað gera skuli, að tilkynna aðila aðeins, hvað gert hafi verið, um leið og það er um garð gengið.

En nú er liðið á þriðju viku, frá því að Alþ. kom saman, og enn hefur utanrmn. ekki verið kölluð saman til þess að skýra henni á nokkurn hátt frá gangi málsins. Ég vil skýra frá því, að nokkru áður en Alþ. kom saman, skrifuðum við, hv. 2. þm. Vestf. og ég, hæstv. utanrrh. bréf, þar sem við óskuðum eftir því, að utanrmn. væri kölluð saman og henni sagt frá þeim samningaviðræðum, sem þá höfðu farið fram, og samráð væri haft við hana, eins og lofað hefði verið, en hæstv. utanrrh. hafði lofað því á fundi utanrmn. 10. ágúst, að strax og málin hefðu skýrzt betur, skyldi að sjálfsögðu vera haft samráð við nefndina.

Nú vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hafa málin ekki skýrzt betur síðan — við skulum segja — 10. okt., þegar Alþ. kom saman og brezku samningamennirnir héldu heim til sín? Hafa málin ekkert skýrzt, svo að hægt sé að hafa samráð við utanrmn, samkvæmt gefnu loforði hæstv. ráðh.?

Ég vil í þessu sambandi benda á, hvernig hinn samningsaðilinn, brezka stjórnin, hefur farið að síðar meir. Það vill svo til, að við vitum það nú af fréttum í brezkum blöðum og íslenzkum, að sama daginn og Alþ. kom saman, 10. okt., héldu tveir brezkir ráðh., fiskimálaráðh. og sjálfur utanrrh., Home lávarður, fund með fulltrúum brezkra togaraeigenda og yfirmanna á brezkum togurum og samninganefndarmönnunum, sem voru þá nýkomnir frá Reykjavík, og þar gáfu samninganefndarmennirnir skýrslu um samningaviðræðurnar, og ráðh. ræddu þær við fulltrúa togaraeigenda og togarasjómanna og fulltrúar togaraeigenda og togarasjómanna fóru með þessar upplýsingar um gang viðræðnanna út í félög sín til þess að ræða þær þar, og Morgunblaðið sagði frá því, að samninganefndarmennirnir brezku hefðu á þessum fundi skýrt frá gangi viðræðnanna hér í Reykjavík og sagt nýjustu fréttir af viðræðum Breta og Íslendinga. Nú getum við íslenzkir alþm. kannske ekki vænzt þess af hálfu hæstv. ríkisstj., að við séum metnir af henni á móts við það, sem brezka stjórnin metur sína togaramenn. En ég verð þó að spyrja: Eigum við ekki rétt á því, a.m.k. nm. í utanrmn., a.m.k. utanrmn., samkv. lögum, að eitthvert samráð verði haft við n.? Og hvenær skyldum við mega vænta nýjustu frétta af samningaviðræðunum, sem lauk hér í Reykjavík þann 10. okt., en nú í dag er 27. okt.? Hvenær skyldi Alþingi fá nýjustu fréttir af þessum viðræðum, sem voru sagðar brezkum togaraeigendum og togarasjómönnum strax þann 10. okt.?

Það gildir nú samkvæmt alveg óyggjandi fréttum bann við löndunum íslenzkra togara í Bretlandi, og meira að segja í dag skýra stjórnarblöðin frá því, að það sé ekki aðeins bann við löndunum íslenzkra togara, það megi ekki flytja nokkurn fisk frá Íslandi til Bretlands, ekki ísaðan fisk í kössum einu sinni, og það sé samkvæmt loforðum íslenzku ríkisstj. og samkomulagi. Hvað er hæft í þessu?

Ég mun annars, áður en ég lýk máli mínu, bera fram nokkrar spurningar til hæstv. utanrrh., sem ég vona að hann svari á þessum fundi hv. d., svo að hv. þdm a.m.k. fái vitneskju um eitthvað af því, sem hér hefur farið fram. Ég hef í því, sem ég hef sagt hér, sýnt fram á, að með ákvörðun hæstv. ríkisstj. að taka upp samningaviðræður við Breta um landhelgismálið, en þær viðræður hljóta samkvæmt eðli málsins og líka samkvæmt reynslunni að snúast um víðáttu fiskveiðilögsögunnar sjálfrar, hefur hæstv. ríkisstj. ekki aðeins rofið yfirlýsingar sínar, ráðherra sinna og forustumanna þeirra flokka, sem að henni standa, heldur einnig yfirlýsingu Alþingis frá 5. maí 1959, sem gerð var einróma í nafni þjóðarinnar af öllum flokkum, sem sæti eiga á Alþ. Það er að vísu ekki gott, það er að vísu allillt, að kjósendurnir, þjóðin, skuli ekki geta treyst yfirlýsingum forustumanna stjórnmálamanna sinna og flokka í svo þýðingarmiklum málum. En hitt er verra í mínum augum, að með því einu að taka upp samningaviðræður við Breta um málið, eins og gert hefur verið, hefur ríkisstj. gengið á móti öllum meginröksemdum, sem haldið hefur verið fram af hálfu margra ríkisstj., sem haldið hafa á þessu máli í nafni þjóðarinnar gagnvart öðrum þjóðum.

Við höfum frá því 1952 a. m. k., í raun og veru frá 1948, haldið því fram gagnvart öðrum þjóðum, oft og tíðum á alþjóðaráðstefnum, á fundum Sameinuðu þjóðanna, á samkomum, þar sem saman hafa verið komnir fulltrúar flestra þjóða í heiminum, að við gætum ekki beðið með einhliða aðgerðir í landhelgismálum okkar, vegna þess að það væri lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar að framkvæma þær aðgerðir tafarlaust, það mætti ekki bíða, ekki eitt ár. Það mætti alls ekki bíða eftir því, að sett kynni að verða alþjóðleg regla innan Sameinuðu þjóðanna eða á ráðstefnu um lögsöguna á hafinu, vegna þess að líf íslenzku þjóðarinnar lægi við. — Þetta hafa verið meginrök okkar í málinu á öllum ráðstefnum og gagnvart öllum þjóðum.

Ég held, að strax á árinu 1952 hafi verið gerð af hálfu ríkisstj., sem þá sat, grg. fyrir aðgerðunum þá, þar sem þetta var mjög rækilega undirstrikað, að nauðsyn íslenzku þjóðarinnar krefðist einhliða aðgerða þegar í stað, ef við teldum okkur hafa rétt að þjóðarétti til einhliða aðgerða. Og ég held, að jafnvel hæstv. dómsmrh. núverandi hafi komið eitthvað nálægt því að semja þessa grg., sem Bretum var send, fyrir einhliða aðgerðum okkar. Og þessi rök okkar, sem við höfum haldið fram á alþjóðavettvangi, að aðgerðir til friðunar á Íslandsmiðum mættu alls ekki bíða vegna lífsnauðsynjar íslenzku þjóðarinnar, — og raunar vegna þess, að þær væru um leið hagsmunamál annarra þjóða, vegna þess að fiskstofnarnir sjálfir við Ísland væru í hættu, — þessi rök hafa reynzt okkur haldgóð og sterk á alþjóðavettvangi. Það er komið nærri því, að meginkjarni þeirra sé almennt viðurkenndur.

En í samningum við Breta, — við höfum átt í samningum við Breta fyrr en nú, það fóru fram, að vísu með nokkurri leynd, samningsviðræður við Breta á árunum 1954 og 1955 og fram á árið 1956, — í öllum slíkum samningaviðræðum hafa Bretar sagt: Við viðurkennum ekki forsendur ykkar fyrir aðgerðum ykkar, einhliða aðgerðum. Við viðurkennum ekki rök ykkar fyrir því, að það sé nein lífsnauðsyn íslenzku þjóðarinnar að framkvæma þessar aðgerðir. — En við höfum bent á, að við höfum með okkur í því máli vísindin og reynsluna. Við höfum getað sannað, hvað ofveiðin við Ísland, sem framkvæmd hefur verið af útlendum togurum, hefur haft að þíða. Við höfum stríðstímabilið 1939–45 til að benda á og mörg önnur rök. Og við höfum sagt: Við getum ekki samið um þetta mál við einn eða neinn, af því að fiskstofnarnir við Ísland eru í hættu, og ef þeir ganga til þurrðar, þá er líf íslenzku þjóðarinnar í hættu. Þess vegna semjum við ekki um þetta mál við einn eða neinn, því að það er lífsnauðsyn fyrir okkur, auk þess sem við höfum fullan rétt að þjóðarétti til aðgerða. — Víð höfum bent á, að við getum ekki samið við Breta eina, af því að samningar við þá mundu leiða til sams konar réttinda fyrir allar aðrar þjóðir, sem hafa stundað fiskveiðar á Íslandsmíðum. Og ef slík veiði hins mikla togaraflota, sem hefur verið hér við land eftir stríðið, héldi áfram, höfum við sagt, þá er fiskstofnunum við Ísland stefnt í beinan háska.

Þessi rök okkar eru gild enn í dag, og væntanlega er þeim haldið fram í umræðum þeim, sem fara fram við Breta. Það er væntanlega ekki hætt við það nú að benda Bretum á, að ef þeim væru veitt fríðindi innan íslenzkrar 12 mílna fiskveiðilandhelgi, þá munu allar þjóðir, líka þær, sem hafa í verki viðurkennt 12 mílna landhelgina frá 1958, krefjast sömu réttinda og fríðinda.

Það er hægt að benda á fjölmörg gögn, þar sem íslenzkar ríkisstj. og fulltrúar þeirra hafa haldið þessum rökum fram á alþjóðavettvangi, og þau rök eru enn í fullu gildi. Það er alveg víst, að ef samið væri við Breta um undanþágu frá 12 mílna fiskveiðilandhelginni, yrðum við að veita þau fríðindi og þær tilslakanir öllum öðrum þjóðum, sem vildu stunda fiskveiðar við Ísland.

Við vitum allir, að íslenzkur sjávarútvegur á við margs konar erfiðleika að stríða í dag. En það er alveg víst, að mörgum hugsandi mönnum, sem til þeirra mála þekkja, er það langmest áhyggjuefni, að íslenzku fiskstofnarnir við Ísland séu að ganga til þurrðar þrátt fyrir þá miklu og vaxandi friðun, sem hefur átt sér stað s.l. 8 ár. Það má enginn láta það blekkja sig, þótt það hafi tekizt undanfarin ár, að upp hefur verið náð svipuðu fiskmagni á ári hverju og oft áður og jafnvel vaxandi, því að það hefur verið gert með stórkostlega aukinni tækni og gegndarlausri veiðarfæranotkun, sem ég fyrir mitt leyti tel að Alþingi geti ekki látið afskiptalaust miklu lengur. En ég held líka, að það sé miklum meiri hluta þjóðarinnar vel ljóst, þó að öllum kunni ekki að vera það eins ljóst og þeim, sem bezt þekkja til, hvílíkur háski er hér á ferðum, ef togaraflota allra Evrópuþjóða, sem vilja stunda veiðar við Ísland, væri hleypt í kjölfar Breta upp að 6 mílum, jafnvel þótt ekki væri nema á vissum svæðum innan 12 mílna landhelginnar, eins og virðist hafa komið til mála og hafi verið rætt. Það mundi hafa í för með sér stórkostlega eyðileggingu fiskstofnanna við allt landið, eins og við höfum haldið fram á alþjóðaráðstefnum árum saman og í raun og veru alla tíð síðan 1948.

Hæstv. ríkisstj. játar það oft í umr., að hún hafi lagt nokkrar byrðar á þjóðina á þessu ári, sem nú er að líða. En hún segir: Það eru byrðar, sem menn bera rétt í bili. — Ég ætla ekki að ræða um, hvernig það horfir og hvað muni reynast rétt í því efni. En ef hún bætir því ofan á að hleypa togaraflota Breta og allra annarra fiskveiðiþjóða í Evrópu inn í 12 mílna landhelgina, þá er ég sannfærður um, að meiri hl. þjóðarinnar mun ekki trúa því, að afleiðingarnar af því, skaðlegar afleiðingar þess, verði rétt í bili, að það verði byrði, sem verði lögð á þjóðina rétt í bili. Ég er alveg sannfærður um, að mikill meiri hl. þjóðarinnar skilur það, hefur skilið það til fulls, að ef það væri gert, þá mundu skaðlegar afleiðingar þess standa um langan tíma, og að það eru ekki innantóm orð, sem við höfum allir sagt, fulltrúar allra flokka, að með slíku, áframhaldandi ofveiði við Ísland, væri líf íslenzku þjóðarinnar í framtíðinni í húfi. Ég er sannfærður um, að þjóðin hefur skilið þetta og veit, að þetta eru ekki innantóm orð, sem við höfum verið að segja fulltrúum erlendra þjóða á alþjóðavettvangi um áratug eða meira.

Ég mun nú ljúka máli mínu, en ég vil áður leyfa mér að bera nokkrar spurningar fyrir hæstv. utanrrh.

Ég vil spyrja í fyrsta lagi: Hvenær fær utanrmn. eða Alþingi skýrslu um viðræðurnar, sem fóru fram hér í Reykjavík frá 1.–10. okt. s.l.?

Ég vil spyrja í öðru lagi: Verða þessar viðræður teknar upp að nýju og þá hvar og hvenær? Ég hef heyrt þá frétt í dag, að tveir fulltrúar hæstv. ríkisstj. séu nú farnir til Bretlands til þess að undirbúa nýjar viðræður. Ég vil þess vegna spyrja: Fara þessir fulltrúar ríkisstj. með umboð ríkisstj. til þess að eiga viðræður við fulltrúa brezku ríkisstj. eða verða viðræður teknar upp að nýju hér í Reykjavík?

Ég vil í þriðja lagi spyrja: Er það rétt, sem brezk blöð skýra frá, að í lok viðræðnanna, sem fóru fram hér í Reykjavík 1.–10. okt., hafi legið fyrir í fyrsta lagi tilboð frá brezku stjórninni og í öðru lagi tilboð frá íslenzku ríkisstjórninni. Ég spyr ekki um einstök atriði þessara tilboða. Ég spyr ekki um það, vegna þess að ég tel víst, að hæstv. utanrrh. mundi ekki vilja skýra frá því að svo stöddu í einstökum atriðum. Ég spyr þess vegna aðeins um það almenna atriði: Hefur hæstv. ríkisstj. gert brezku stjórninni tilboð um samningsgrundvöll, og hefur brezka stjórnin gert tilboð um samningsgrundvöll?

Ég vil í fjórða lagi spyrja hæstv. utanrrh.: Er það rétt, sem hefur komið fram í brezkum blöðum, að íslenzka ríkisstj. hafi gert ráðstafanir til þess, að íslenzkir togarar lönduðu ekki fiski í Bretlandi, meðan á viðræðum stæði? Ég veitti því athygli, að brezk blöð, áreiðanleg blöð, skýrðu frá því, að utanrrh. Breta hefði fullvissað brezka togaraeigendur um, að það yrði engum íslenzkum fiski landað í Bretlandi, fyrr en viðræðum væri lokið. Mér finnst líklegt, að enginn hafi getað fullvissað brezka utanrrh. um þetta, nema íslenzka ríkisstj. hefði tryggt sér það, að ekki færu fram slíkar landanir. Nú sé ég það í dag, að það má ekki einu sinni flytja ísaðan kassafisk til Bretlands, og ég spyr: Er það samkvæmt tilmælum eða að undirlagi íslenzku ríkisstj. eða að hennar tilhlutan?

Ég vil enn fremur spyrja: Hefur sú breyting orðið á afstöðu brezku stjórnarinnar í grundvallaratriðum, að hún sé nú reiðubúin til þess að viðurkenna rétt Íslendinga til einhliða útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur? Og í öðru lagi: Hefur það komið fram, að sú breyting hafi orðið á afstöðu brezku stjórnarinnar, að hún sé nú reiðubúin til þess að viðurkenna rétt Íslendinga til landgrunnsins alls, eins og segir í ályktun Alþingis frá 5. maí 1959?

Þá vil ég að síðustu spyrja: Telur hæstv. utanrrh., að það sé hægt að neita öðrum þjóðum um þann rétt, sem Bretar fengju eða kynnu að fá, ef þeim væru veittar tilslakanir frá 12 mílna fiskveiðilandhelginni? Telur hæstv. utanrrh., að það sé með nokkru móti hægt að neita öðrum þjóðum um þann rétt innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, hver sem hún er, sem öðrum þjóðum, þ. á m. þjóðum, sem hafa ekki virt gerða samninga, er veittur.

Ég vil treysta því, að hæstv. utanrrh. svari þessum spurningum mínum um almenn grundvallaratriði málsins og að hann treysti sér til að gera það nú þegar á þessum fundi þessarar hv. deildar.

Og mun ég svo láta útrætt um málið að sinni, áður en ég heyri svör hæstvirts ráðh. eða hæstvirtra ráðherra.