27.10.1960
Efri deild: 11. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (2196)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í þeim fáu orðum, sem ég sagði, þegar ég reifaði þetta frv. hér áðan, ætlaði ég ekki að gera landhelgismálið almennt að umræðuefni, nema sérstaklega gæfist tilefni til. Nú hefur hæstv. dómsmrh. rætt það mjög ýtarlega, hvernig eigi að leysa þetta mál, leysa þessa deilu við Breta, og bent á ýmsar leiðir, sem hann mælir með í því efni, og mun ég siðar í ræðu minni minnast nokkuð á þau atriði að gefnu þessu tilefni.

Það er þá fyrst, að í raun og veru kemur það fram í grg. fyrir frv., þó að stutt sé, hvers vegna þetta mál er flutt nú og farið fram á, að reglugerðin verði gerð að lögum. Það er sagt, að það sé heppilegt til frambúðar og tímabært eins og á stendur. Ég býst við, að flestir hv. alþm. skilji, við hvað er átt, þó að ég kvæði ekki sterkar að orði, hvorki í grg. né í þeirri framsöguræðu, sem ég flutti hér áðan. En ég gerði mér von til þess, að það væri vilji fyrir því hér á Alþingi að samþykkja þetta frv., eins og það liggur fyrir, án verulegra umræðna. Nú kemur það fram, að þó að ekki væri bein neitun hjá hæstv. dómsmrh. á því að samþykkja þetta frv., þá benti hann á leiðir, sem koma í veg fyrir það, að stjórnarflokkarnir geti samþykkt frv., því að um leið og búið er að gera þetta að lögum, verður vitanlega ekki samið um málið nema með samþykki Alþingis. Hann lagði út af því, að ég hefði beðið um að hraða þessu máli, en síðan beðið um frest, og er auðsjáanlega gert í þeim tilgangi að reyna að vekja grun um, að við flm. höfum ekki sérstakan áhuga fyrir málinu eða að minnsta kosti ég. Ég var forfallaður áður og þann dag, er málið var tekið fyrir, en gat ekki náð í forseta til þess að biðja hann um að taka málið ekki á dagskrá. Daginn eftir var málið tekið á dagskrá, og það er rétt, að þá var hæstv. dómsmrh. veikur. Ég bað um að taka málið fyrir þá næsta dag þar á eftir, en hann sagðist ekki búast við, að lasleiki hans hefði lagazt á svo stuttum tíma, og gat þess vegna ekki orðið fyrir helgi. Ég sagði forseta þá frá því, að þó að dómsmrh. væri orðinn frískur, sem ég veit ekkert um, hvort hann var eða ekki, mánudag og þriðjudag, þá væri ég fjarverandi úr bænum samkvæmt ákvörðun, sem ég hefði tekið löngu áður. En það er nógur tími enn með þetta mál, ef því er hraðað svo sem skylt er.

Hraði á málinu er nauðsynlegur vegna þess og verið er að fara inn á þessar umræður vegna þess, að verið er að loka þeirri leið, að ríkisstj. geri samninga í þessu máli bak við Alþingi. Þegar talað er um, hvers vegna ekki hafi verið borið fram lagafrv. áður um takmörk landhelginnar, og sagt, að við viljum hafa annan hátt á, ég vildi sérstaklega hafa annan hátt á, þegar ég sé í stjórnarandstöðu, heldur en þegar ég er í stjórn, þá skal ég segja það hreint eins og er, að eftir þær yfirlýsingar, sem gefnar voru af öllum flokkum í þessu máli, var ég ekki svo hugkvæmur að láta mér detta í hug, að það yrðu teknir upp samningar til afsláttar í þessu máli af neinum flokki. Þess vegna stendur þessi litla setning í grg.: „tímabært eins og á stendur“. Það stendur nefnilega þannig á, að viðhorf flokkanna virðist vera annað en nokkur maður gat látið sér til hugar koma um þetta mál, þegar reglugerðin var gefin út, og játa ég fullkomlega þar mína yfirsjón.

Nú kemur að því, án þess að verið sé að deila frekar um, hvernig snúast eigi við þessu máli, hvers eðlis þessir samningar séu í raun og veru, sem nú er verið að taka upp.

Það er sagt: Við erum ekki að gera annað en að ræða við Breta um málið. — Ég þekki vel sögu þessa máls, ég veit, að hæstv. dómsmrh. þekkir hana líka, og ég fullyrði, að það var ófrávíkjanleg stefna allra flokka og yfirlýst af formönnum allra flokka eftir 1952 og fyrir 1952, að við ræddum ekki við Breta um þetta mál, vegna þess að við teldum það niðurlægingu fyrir okkur að ræða um það, þar sem það væri á valdi íslenzku ríkisstjórnarinnar að ákveða landhelgina og væri innanlandsmál. Það var meira að segja farið svo gætilega í þetta, að því hafði verið lofað 1952 að láta Breta vita, áður en landhelgin yrði stækkuð. Og það hefur oft verið talað um það, að menn hafi ekki orðið varir við, að þáv. forsrh. hafi komi til Bretlands til þess að ræða við ýmsa menn um þetta mál. Hvað sem þessu líður, þá geri ég ráð fyrir, að hann hafi farið eftir þeirri reglu og umr. hafi þess vegna kannske orðið minna áberandi, — hann hafi farið eftir þeirri reglu, sem var samþykkt, að ræða ekki málið, heldur aðeins tilkynna, hvað ætti að gera. Og þessi regla var talin svo þýðingarmikil, að þegar fiskveiðibannið var sett á, þá urðu umræður um það milli Breta og íslenzku ríkisstj., eða Bretar fóru fram á það, að íslenzka ríkisstj. lýsti því yfir, að gefnu því tilefni, að till. um stækkun landhelginnar komu þá fram hér á Alþingi frá mörgum, að landhelgin yrði ekki stækkuð fyrr en eftir næstu Genfarráðstefnu. Í þessu stappi stóð í heilt ár, hvort við vildum semja um svo lítilfjörlegt atriði sem það að bíða með stækkun landhelginnar þangað til eftir seinni ráðstefnuna. Við töldum það svo ófrávíkjanlega reglu, hver einasti okkar, að ræða ekki við Breta, semja ekki við Breta um landhelgina, þar sem hún væri innanríkismál, að það var neitað að semja um þetta atriði við Breta, þó að það liti út fyrir, að það væri hægt að leysa fiskveiðideiluna með þessum hætti. Svo þýðingarmikið töldum við að brjóta ekki þessa reglu, að ræða um mál við þá, sem við töldum innanríkismál, því að þar með töldum við, að við værum búnir að sýna, að þeir hefðu þar hagsmuna að gæta, þar sem þeir hefðu a.m.k. eitthvað um málið að segja, ekki siður en við.

Ég man vel eftir því, þegar þetta mál var útkljáð af íslenzku ríkisstj. Það var þannig, að þegar till. höfðu verið fluttar um stækkun landhelginnar og hafði verið neitað að tala við Breta, þá var lögð hér fram, og vita kannske ekki allir þm. um það, — það var lögð hér fram á Alþingi till., frávísunartillaga dagskrár, þar sem var sagt, að með því að það þyrfti að rannsaka allar þessar till. nánar, þá væri tekið fyrir næsta mál á dagskrá, þær yrðu ekki ræddar frekar, en tekið fyrir næsta mál á dagskrá. Brezka sendiherranum var sýnd þessi till., að þar með væri kominn frestur á málinu, þar sem Alþ. tæki einhliða ákvörðun um málið. Þessi till. kom aldrei til umræðu. Vegna hvers? Vegna þess að Bretar sögðu: Svona frestur er okkur ekki nægilegur. — Þeirra diplómatar, þeirra stjórnmálamenn vissu allt of vel, hvað væri viðurkennt með því að taka upp viðræður um málið. Þetta voru ekki viðræður, heldur var það einhliða yfirlýsing Alþingis um, að það ætlaði að gera þetta. Þetta nægði þeim ekki, og þeir neituðu lausninni. Þess vegna kom till. aldrei til umr. hér á Alþingi.

Það er þess vegna alveg skýlaust, að með þessum viðræðum hefur verið þverbrotin sú regla, sem um margra ára bil hefur verið ófrávíkjanleg í landhelgismálinu, ófrávíkjanleg og yfirlýst af öllum flokkum, vegna þess að slíkt hefur verið talið hættulegt okkar málstað. Með samtölunum er því algerlega brotið í blað í þessu máli. Og það er það hörmulegasta, að þegar viðræðurnar eru teknar upp, þá mundu sumir segja, að það hefði komið til mála að taka upp viðræður, en þá þurfti opinberlega að liggja fyrir af hálfu ríkisstj. yfirlýsing um það, að grundvöllur viðræðnanna væri sá, að ekki yrði rætt um tilslökun á 12 mílunum, það væri innanríkismál Íslands og um það yrði ekki rætt. En þetta, sem var bent á af stjórnarandstöðunni að þyrfti a.m.k. að liggja fyrir, ef ætti að leika þann hættulega leik að fara að taka upp viðræður um innanríkismál, var látið undir höfuð leggjast. Og nú eru okkur sagðar sögur um þessi mál. Það er sagt, að það eigi að skýra sjónarmiðin, og okkur er sagt það, utanríkismálanefndarmönnum, að það sé aðeins verið að skýra sjónarmiðin gagnkvæmlega, það hafi verið tilgangurinn með viðræðunum. En svo kemur það upp úr dúrnum, að það er ekki aðeins verið að skýra sjónarmiðin, heldur er búið að leggja fram a.m.k. brezka tillögu í málinu, sem er rædd nú á fundum í Bretlandi, eins og kemur fram í brezkum blöðum. Það liggur þess vegna fyrir, að það hafa ekki aðeins verið skýrð sjónarmíðin gagnkvæmlega og ekkert meira komið fram, það er ósatt, sú yfirlýsing er ósönn af hálfu ísl. ríkisstj., og er það sannað með skrifum brezkra blaða, að svo er, þótt ekki væri komin fram íslenzk tillaga líka, sem er þó gefið í skyn.

Það er margt, sem veldur því, að þessar viðræður um undanslátt koma ekki til mála. Það er fyrst og fremst það, að það er fjárhagsatriði fyrir okkur, og það var á það bent í umræðunum í Genf, að sá tími, sem yrði leyfður erlendum þjóðum að fiska uppi við strendurnar innan 6 mílna, mundi aldrei verða gífurlegar notaður en þetta tímabil, sem er að renna út. Það verður þess vegna hreint ránfiski frá þeim þjóðum, sem hafa þennan rétt stuttan tíma, þetta tímabil. Í annan stað, eins og bent hefur verið á hér, eru margendurteknar yfirlýsingar okkar með sterkum rökum fyrir því, að stofninn sé að eyðast og að við getum ekki beðið og höfum ekki getað beðið með að færa út fiskveiðilandhelgina. Það er enginn efi á því, að við erum með þeirri djörfung, sem við höfum unnið í þessu máli, bæði með útfærslunni og þeim skýrslum, sem gefnar hafa verið um þetta mál af Íslands hálfu og sendar út um veröldina, taldir eins konar forustuþjóð um stækkun landhelginnar og mikilsvirtir sem fiskveiðiþjóð, eins og hefur komið fram oft og tíðum í umræðum um þessi mál. En hvernig haldið þið, að það taki sig út eftir allar þessar yfirlýsingar, sem við höfum gefið á alþjóðamótum um, að það kæmi aldrei til mála að slaka til, aldrei til mála að semja, vegna þess að við gætum það ekki, ef við étum það allt saman ofan í okkur? Það býður einnig heim þeirri hættu, að gengið sé á lagið við slíka þjóð.

Það er ekkert smáatriði, — mönnum kann að finnast það smáatriði, og það er lítið um það rætt hér, — það er furðulega lítið um það rætt, að Bretar eru eina þjóðin, sem hefur barið á okkur, sýnt okkur ofbeldi og barið á okkur. Og við eigum að sýna það fordæmi að láta það verða fyrstu þjóðina, sem við semjum við. Þegar við eigum að semja nú þessa dagana og undanfarnar vikur; þá rekur hver hótunin aðra frá Bretum. Það er sagt: það bíður í viku, að við komum inn fyrir landhelgina aftur með herskipavernd. Ég man ekki, hvað það eru margir dagar þangað til því er hótað, að brezkir togarar fari inn í íslenzka landhelgi undir herskipavernd. Nú er smáverið að þröngva svona þumalskrúfum. Togararnir mega ekki landa í Bretlandi, það má ekki senda ísvarinn fisk í kössum til Bretlands o.s.frv. Hvaða virðingar haldið þið að sú þjóð njóti, sem tekur upp viðræður um undanslátt og samninga við þjóð, sem beitir slíkum aðferðum?

Það er alveg tvímælalaust, að ef samið er við Breta, þá koma miklu fleiri þjóðir, sem heimta sömu réttindi og þeir, þjóðir, sem hafa fiskað hér áður. Í annan stað er alveg augljóst mál, að þegar þessi tími er búinn, samningstíminn er búinn, þá höfum við með allri framkomu okkar boðið heim nýjum hótunum og nýjum tilraunum til að sýna okkur ofbeldi til þess að láta okkur framlengja tímabilið.

Það sagði einn maður á fundinum í Genf skemmtilega sögu um þetta, hvernig Bretar mundu hugsa þetta mál. Hann sagði: Það var einu sinni í mínu landi keisari, ákaflega grimmur. Hann fór til forsætisráðherrans og sagði við hann: „Viltu gera svo vel að kenna asnanum mínum að tala?“ „Það get ég ekki,“ sagði forsrh. Og honum var samstundis refsað, forsrh., fyrir þessa neitun. Þá kallaði keisarinn fyrir sig fjmrh. og spurði hann, hvort hann gæti kennt asnanum að tala. Nei, hann sagðist ekki geta það. Honum var líka refsað mjög þunglega. Svo kom hann til heimspekingsins og segir við hann: „Getið þér kennt asnanum mínum að tala?“ „Já, það get ég sannarlega og meira að segja kennt honum að skrifa, en það tekur 10 ár.“ Menn komu til heimspekingsins og sögðu við hann: „Hvers vegna gerðir þú þetta? Þú veizt, að þú getur ekki staðið við þetta.“ En hann sagði: „Ja, þá koma tímar og þá koma ráð. E.t.v. verður keisarinn dauður, e.t.v. verð ég kominn undir græna torfu, a.m.k. gæti það alltaf farið svo á seinustu stundu, að asninn dæi, áður en hann færi að tala.“

Menn skulu ekki halda, að þjóð, sem er búin að sýna svona undanslátt: það séu bara tíu ár, þá koma tímar og þá koma ráð og þá koma nýjar aðferðir, komi sínum málum fram. Það er engin leið fyrir smáþjóð að koma fram sínum málum, réttlátu málum, nema með því að sýna þrótt og dirfsku og karlmennsku, öðruvísi er hún troðin undir. Við höfum ekki farið fram á neitt í þessu máli, sem er ósanngjarnt. Við horfum á 25–30 þjóðir, sem hafa fengið viðurkenningu fyrir 12 mílna landhelgi og meira, og þessi landhelgi þeirra er viðurkennd. Þær hafa þó þær varnir, að það er talið kosta of mikið að reyna að fara inn í landhelgi þeirra með ofbeldi. Það er ekkert annað en fullkomið ranglæti, eitthvert hið grófasta ranglæti, sem nú viðgengzt í heiminum, að þjóð, sem þarf meira á því að halda en nokkur önnur þjóð að hafa 12 mílna landhelgi, er eina þjóðin í heiminum, sem er beitt ofbeldi fyrir það, að hún tekur 12 mílna landhelgi. Það þarf enginn að láta sér koma það til hugar, að slíkt standi lengi, enda kom það fram í orðum dómsmrh., að Bretar vilja gjarnan leysa þetta með samningum. Þeir vita það mætavel, að það getur ekki staðið lengi, að þeim takist að sýna okkur ofbeldi, og við, sem höfum hlustað á umr. um þessi mál á alþjóðamótum og séð, hvað Bretanum líður illa, þegar talað er um ofbeldi hans á Íslandsmiðum, — við vitum ákaflega vél, að hann er að gefast upp. Og það þarf ekki einu sinni að álykta af því, hvað Bretanum líður illa undir þessum umr. Það er viðurkennt af þekktum brezkum blöðum að raunverulega sé deilunni lokið, það sé ekki hægt að halda áfram að fiska undir herskipavernd. Eitt af blöðunum sagði, að þó að það væri hægt að kosta því til að veiða fisk á svo dýran hátt, sem kæmi ekki til mála til frambúðar, þá væri ekki hægt að fá hermennina og ekki hægt að fá sjómennina til þess að fara út í það öryggisleysi, sem það er að vera hér við Íslandsstrendur án þess að geta tekið hér land. Það er nefnilega þetta, að til er herkonungur, sem er Vetur konungur, hér í Norðurhöfum, sem er sterkari en brezka heimsveldið. Það er ekki hægt nema í sérstaklega góðum vetrum að halda þessum leik áfram.

Víð erum búnir að sigra í málinu. Og það er tvímælalaust, að þróunin heldur áfram í þessu máli okkur í vil. Það var bent á það í umr., að svo ört gengur þróunin í þessum málum, að Bretar hefðu getað fengið samþykktar 1930, hafí ráðstefna verið þá, 4 mílur, eða slakað um eina sem alþjóðareglu. Þeir neituðu. Þeir gátu á fyrri ráðstefnunni fengið samþykkt 12 mílur og veiðirétt innan 6 a.m.k. 10–15 ár. Þeir neituðu. Þeir gátu ekki fengið þetta samþykkt á seinni ráðstefnunni. Svo ör er þróunin. Og vegna hvers? Vegna þess að þetta eru leifar af nýlendustefnu Breta. Þeir hyggja á fiskveiðarnar hér vegna þess, að þeir hafa ekki land að taka suður í Afríku. En fiskimiðin eru dýrmat. Þetta finna þær þjóðir, sem nú eru að koma inn í Sameinuðu þjóðirnar og finna til með okkur, finna, að við erum að verja sams konar réttindi og þau eru að verja og þau eru að taka af nýlenduþjóðunum. Þess vegna er það, að það færist alltaf nær og nær, að það verði hreint samþykki fyrir 12 mílum, í staðinn fyrir, að ekki var meiri hluti fyrir þeim núna. Það kemur svo mikill fjöldi af nýjum þjóðum, sem áður voru nýlenduþjóðir, inn í Sameinuðu þjóðirnar, að hlutföllin fara stöðugt versnandi í þessum málum fyrir þær fiskveiðiþjóðir, sem fiska hér við land og beita kúgun. Þess vegna er alveg ástæðulaust og stórkostlegur hnekkir fyrir íslenzkan málstað að taka upp samninga um þetta mál.

Menn skulu gæta að því, að nú er raunverulega deilan um 12 mílur búin. Það komu upp raddir um það á Genfarráðstefnunni og hafa komið áður og verða alltaf sterkari, að þjóðirnar, sem ráða yfir landgrunni, verði a.m.k. að fá að ráða yfir því fyrir utan 12 mílur, með hvaða veiðarfærum er fiskað fyrir utan þessar 12 mílur, því að það viðurkenna nú orðið allir, að um þetta verði að koma einhverjar reglur. Það er ekki hægt að fiska með línu, fiska með netum, fiska með togveiðum á sömu svæðum. Það viðurkenna allir, að það er hinn mesti ræningjaháttur. Og það nálgast meir og meir, það tímabil, og er komin upp sterk hreyfing fyrir því, að strandþjóðir fái að ráða, með hvaða veiðarfærum er veitt á þessum svæðum, sem hér getur jafngilt friðun fyrir erlendum fiskiskipum að verulegu leyti. Og það er sú barátta, sem við eigum að taka upp, í staðinn fyrir að fara að taka upp samninga um þetta mál, því að kannske er það hættulegast við það af öllu hættulegu, að um leið og við tökum upp samninga um 12 mílur við Breta og þar með við aðrar þjóðir, því að þær hljóta að fylgja í kjölfarið, þá erum við búnir að fallast á samninga og getum því síður breytt landhelginni eftir þetta einhliða, heldur verðum að semja við þessar þjóðir, það er búið að gefa fordæmi fyrir því. Ef við getum ekki fært út í 12 mílur, sem eru viðurkenndar hjá 25–30 þjóðum nú þegar, — ef við getum ekki fært út í 12 mílur nema með samningum við fiskveiðiþjóðirnar í kringum okkur, haldið þið, að okkur verði ekki bent á það: Ja, þið sömduð um þetta, þið urðuð að beygja ykkur fyrir því að semja um þetta. Ef þið ætlið að færa út eitt skref frekar eða gera ráðstafanir hér fyrir utan, þá verðið þið að semja um málið. Það er búið að gefa fordæmi fyrir því.

Hitt atriðið, þó að reglugerðin sé staðfest, þá setur það vitanlega engin mörk fyrir því, hvernig útfærslan verður síðar. Það er aðeins að staðfesta með lögum það, sem orðið er, og það hefur verið margsinnis gerð grein fyrir því, að 12 mílna landhelgi er ekki framtíðin. Við verðum að berjast fyrir verndun og yfirráðum yfir landgrunninn, því að það mun sannast, að með aukinni tækni, sem þegar er komin fram á mörgum sviðum og vantar aðeins lítið á að sé fullkomnuð, getur svo farið, að 12 mílur séu minni en 3 mílur áður. Tæknin getur orðið svo geysileg, að það verði um eins aðkallandi þörf, kannske meir aðkallandi þörf fyrir Ísland að stækka út fyrir 12 mílur heldur en var áður að stækka út fyrir 3 með þeirri tækni, sem þá var. Þess vegna er það stórkostleg hætta og mælir á móti því ásamt öðru að fara inn á samninga um þetta mál. Það leysist af sjálfu sér. Tíminn er að leysa það fyrir okkur og er raunverulega búinn að gera það.