10.11.1960
Efri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara ýtarlega út í ræðu hv. 2. þm. Vestf., enda er ræðutími hans þrotinn. Ég vil aðeins svara lítillega örfáum atriðum.

Þessi hv. þm. var með getsakir um það, að ég hafi á laun og á bak við hann sent símskeyti til Atlantshafsbandalagsins varðandi landhelgismálið í vinstri stjórninni 1958. Út af þessu vil ég aðeins taka það fram, að frá mér fór ekkert símskeyti til Atlantshafsbandalagsins eða orðsending til þess á þessum tíma, án þess að það væri áður borið undir forsrh., samið í fullu samráði við hann, og sum skeytin voru beinlínis af honum samin, eins og skeytið frá 18. maí.

Mér voru það dálítil vonbrigði, þegar þessi hv. þm. sagði í upphafi ræðu sinnar, að ég hefði kastað hér bombu inn í umr., þegar ræðutíma hans hefði verið lokið, svo að hann hefði átt lítinn kost á að bera hönd fyrir höfuð sér. Með þessu átti hann við frásagnir mínar af símskeytunum frá 18. maí og 22. ágúst. Mér voru það vonbrigði að heyra þennan hv. þm. viðhafa þessi ummæli, því að frá þessu sama skýrði ég í minni fyrstu ræðu í málinu, þannig að ég var ekki að koma með neitt nýtt, og nokkur huggun var það þó í þessum raunum, að áður en þessi hv. þm. lauk að ræða um þetta atriði, þá komst hann að þeirri niðurstöðu, að allt það, sem ég hafði upplýst í sambandi við þessi símskeyti og þessi atriði, væru eldgamlar lummur, sem birtar hefðu verið opinberlega áður, þ. á m. gefin út um það heil bók.

En aðalinntakið í ræðu þessa hv. þm. var það, að nú væri það afsökun núv. ríkisstj., að vinstri stjórnin hefði 1958 gerzt sek um það sama, sem við í núv. ríkisstj. værum aðilar að. Hér er algerlega ranglega á málum haldið af hálfu þessa hv. þm. Ég var ekki að segja, að vinstri stjórnin hefði í þessum efnum gerzt sek um nokkurn skapaðan hlut. Ég hafði þvert á móti haldið því fram, að vinstri stjórnin hefði gagnvart bandalagsríkjum sínum og Atlantshafsbandalaginu haldið algerlega rétt á málunum með því að ræða þau innan bandalagsins og með því að senda þær uppástungur um úrlausnir á málunum, sem sendar voru. Ég var ekki að álasa ríkisstj. um að hafa gerzt sek um eitt né annað. Ég var þvert á móti að undirstrika, að hún hefði haldið réttilega á málinu. En ég bætti því líka við, að núv. ríkisstj. væri að gera nákvæmlega það sama og við vorum að gera sumarið 1958, hér væri því um beint framhald að ræða og á sama hátt væri á málunum haldið í bæði skiptin. Og þetta staðfesti hv. 2. þm. Vestf. mjög greinilega með sinni ræðu. og það er kjarnapunkturinn í þeim ágreiningi, sem orðið hefur hér upp á síðkastið í þessum umr. á milli hans og mín út af málinu.

Hv. 2. þm. Vestf. viðurkenndi, enda ekki hægt að neita því, að þann 18. maí tilkynnum við Atlantshafsbandalaginu, að ef það vilji viðurkenna okkar 12 mílur, þá skulum við taka til athugunar að leyfa þeim veiðar á seinni 6 mílunum að takmörkuðu leyti um takmarkaðan tíma. Og hv. þm. bætir því við, að ef við hefðum fengið jákvætt svar frá Atlantshafsbandalaginu um þetta, þá mundum við í vinstri stjórninni hafa breytt okkar ákvörðun um að færa strax út í 12 mílur og látið aðeins 6 mílur koma til framkvæmda 1958, en ekki 12 mílurnar allar fyrr en eftir þrjú ár. Þetta viðurkenndi þessi hv. þm. Hann viðurkennir líka, að þó að reglugerðin hafi verið gefin út 30. júní, þá er þetta sama endurtekið við Atlantshafsbandalagið 22. ágúst. Að vísu var svolítið lengra gengið í því skeyti, en ég ætla ekki að fara inn á það hér til þess að rugla ekki málið. En það liggur fyrir sem óumdeilanleg staðreynd, að af hálfu Framsfl. og Alþfl. f.h. vinstri stjórnarinnar er það boðið til samkomulags 1958, bæði áður en reglugerðin er gefin út og eins eftir að hún er gefin út, að ef við fáum okkar 12 mílur viðurkenndar, þá séum við reiðubúnir til að fresta seinni 6 mílunum í þrjú ár.

Hvað erum við að gera núna? Hvað er ríkisstj. að gera núna? Hún er að kanna möguleikana á þessu sama. Hún er að kanna möguleikana á viðurkenningu á 12 mílunum gegn því að hnika eitthvað til, án þess að hagsmunir okkar þar með séu skertir. Þannig liggur málið fyrir í dag. Það, sem hv. 2. þm. Vestf. er því nú að deila á okkur í núv. ríkisstj. fyrir, er ekkert annað en það, sem hann sjálfur staðfesti svo greinilega í ræðu sinni hér áðan, að hann hefði verið að gera 1958. Allar þær umbúðir, sem hann hafði fram og aftur í kringum þetta, hirði ég ekki að rekja hér eða deila við hann um. Þær eru aukaatriði. Þetta er kjarni málsins.

Ég ætla svo ekki að fara frekar út í þetta eins og er, m.a. vegna þess, hvernig á stendur um tíma hv. 2. þm. Vestf.