11.11.1960
Efri deild: 20. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 33, er ákaflega einfalt í sniði og augljóst að efni. Það hefði því út af fyrir sig átt að vera auðvelt fyrir hv. þdm. að taka afstöðu til þessa frv., án þess að það hefðu farið fram langar umr. hér í d. um það. — Er hæstv. dómsmrh. að fara? Ég ætlaði nefnilega að bera upp nokkrar spurningar til hans. (Gripið fram í.) Nei, það passar ekki inn í, en hann svarar þeim seinna. (Gripið fram í.) Spurningarnar koma seinna og svörin þá við þeim líka. (Gripið fram í.) En það, sem ég vildi segja, er, að það hefur nú atvikazt svo, að þessar umr., sem hér hafa farið fram, hafa farið nokkuð á við og dreif og jafnvel snúizt upp í að vera eins konar yfirheyrslur hér úr þessum stól. Ég ætla nú ekki að fara inn á þá leið, þó að ég ætlaði á eftir aðeins að spyrjast fyrir um nokkur atriði hjá hæstv. dómsmrh. Þessar umr. hafa snúizt nokkuð mikið um það, hvað gerzt hafi á ýmsum vettvangi, hvað gerzt hafi í ríkisstj., hvað gerzt hafi í utanrmn., hvað gerzt hafi í landhelgisnefnd, sem var ríkisstj. til ráðuneytis á sínum tíma. Ég hef ekki komið við sögu málsins á þessum stigum og mun þess vegna ekki blanda mér í þær umr., en hins vegar langar mig til þess að fara hér örfáum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir, og víkja kannske nokkuð síðar að fáeinum atriðum, sem hafa komið fram í málinu.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um það, að reglugerðin um fiskveiðilandhelgi Íslands skuli hafa lagagildi, m.ö.o. um það, að þau ákvæðin sem eru í reglugerðinni, skuli hér eftir gilda sem lög í stjórnskipulegri merkingu. En eins og. öllum er kunnugt, þá eru ákvæðin um fiskveiðilandhelgi Íslands í reglugerð nr. 70 frá 1958. Sú reglugerð er talin sett með stoð í eða með tilvísun til landgrunnslaganna svokölluðu, nr. 44 1948. En það er eins og kemur fram í þeirri stuttu grg., sem þessu frv. fylgir, að þegar um reglugerð er að ræða, þá er það svo, að sá ráðh., sem reglugerðin heyrir undir, getur breytt þeirri reglugerð, og hann getur gert það einu án þess að bera sig saman við aðra stjórnarmeðlimi.

Það verður að mínu viti í sjálfu sér að teljast alveg fráleitt, að fiskveiðilandhelgin sé aðeins ákveðin með reglugerð, en ekki með lögum. Eins og er, getur hæstv. sjútvmrh., en undir hann heyrir setning þessarar reglugerðar, alveg upp á sitt eindæmi, án þess að hafa samráð við nokkurn sinna samráðh., án þess að þurfa til þess nokkurn atbeina frá forseta Íslands og án þess að leggja það mál á nokkurn hátt fyrir Alþingi breytt ákvæðum þessarar reglugerðar um fiskveiðilandhelgina. Það sjá nú vænti ég allir, hversu það er óeðlilegt, þegar um jafnþýðingarmikið mál er að tefla og hér, að einn einstakur ráðh. geti þannig upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun í því, því að hér er vissulega um þýðingarmikið mál að ræða. Hér er um að tefla sjálf endimörk íslenzks yfirráðasvæðis. Það hefði að mínum dómi átt í öndverðu að setja ákvæðin um fiskveiðilandhelgina í lögum, en ekki í reglugerð, og það er ekkert ný skoðun hjá mér, að þannig hefði átt að fara að. Ég hef lýst þeirri skoðun minni á öðrum vettvangi. Ég hef lýst þeirri skoðun minni í bók, sem var prentuð, áður en þetta mál hér kom til nokkurrar umr., að það hefði átt að setja reglur um fiskveiðilandhelgina í lögum í upphafi, en ekki í reglugerð. Hvers vegna sú leið var ekki farin að setja ákvæðin í lögum, heldur reglugerð, um það skal ég ekkert segja hér. Það geta aðrir upplýst.

En þó að það hafi þannig að mínu viti verið sjálfsagt þegar í upphafi að setja ákvæðin um fiskveiðilandhelgina í lögum, en ekki í reglugerð, þá er þó alveg sérstakt tilefni til þess nú að setja ákvæði þessi í lög til þess að lögfesta reglugerðina vegna þeirra samninga, sem ríkisstj. hefur tekið upp við Breta.

Mér finnst, að það ættu flestir að geta verið sammála um, að það sé æskilegt og jafnvel nauðsynlegt, að þjóðin standi sem mest saman í þessu máli. Hér er um lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar að ræða, og hér er um einn mikilvægan þátt í baráttu hennar fyrir bættum lífskjörum í allri framtíðinni að ræða. Þess vegna álít ég, að í landhelgismálinu eigi engar ákvarðanir að taka, nema með samþykki Alþingis. Með lögfestingu reglugerðarinnar væri landhelgismálið eða ákvörðunarvald í því tekið úr höndum ríkisstj., eins og sjálfsagt og eðlilegt er, eins og ég hef lítillega sýnt fram á, vegna þess, hversu um það er búið, að aðeins einn einstakur ráðh. getur tekið þær ákvarðanir, sem þetta mál varða, og það þýðir ekki að hreyfa þeim andmælum gegn því, að það komi aldrei til, að einstakur ráðh. ráðist upp á sitt eindæmi í það að gera breyt. á reglugerð sem þessari. Um það er ekkert hægt að segja. En með lögfestingu reglugerðarinnar væri, eins og ég sagði, ákvörðunarvald í þessu máli tekið úr höndum ríkisstj. og fengið í hendur Alþ. Það er mergur þessa máls, sem hér er verið að ræða. Og um leið væri fengin nokkur trygging fyrir því, að það væri ekkert aðhafzt í landhelgismálinu, sem meiri hluti þjóðarinnar væri andvígur. Það er einmitt þetta, sem er kjarni málsins.

Hæstv. dómsmrh. mun hafa látið þau orð falla í umr. um þetta mál, að það frv., sem hér lægi fyrir, væri vanhugsað, en ég minnist þess ekki að hafa heyrt hann flytja fram nokkur rök til stuðnings þeirri staðhæfingu. Ég minnist þess þvert á móti, að hann lét þess getið í þessum umr., að hann liti svo á, að ef mál þetta hefði verið í höndum Alþingis, þá hefði margt í því betur mátt fara. Ég er honum innilega sammála um, að það hefði verið heppilegast, að þetta mál hefði verið í höndum Alþingis. En úr því að svo er, að hann álítur, að það hefði verið heppilegra, að þetta mál hefði verið í höndum Alþ., þá verð ég að álíta, að það sé sjálfsagt og eðlilegt að lögfesta þessa reglugerð og fá Alþ. þar með málið í hendur. Og það, sem ég ætlaði að spyrja hæstv. dómsmrh. um, ef hann hefði getað verið viðstaddur þessa umr., var þetta: Hvaða rök vill hann færa fram fyrir því, að þetta frv. sé vanhugsað, að það sé vanhugsað, að ákvörðun um fiskveiðilandhelgina skuli tekin af löggjafanum, en ekki af reglugerðargjafa, og ég mundi vilja spyrja hann að því: Telur hann það eðlilegt, að einn ráðh., sjútvmrh., taki ákvörðun að formi til upp á sitt eindæmi um mál sem þetta, um takmörk fiskveiðilandhelginnar, um takmörk hins íslenzka yfirráðasvæðis, eða telur hann ekki eðlilegra, að ákvörðun um það efni sé í höndum löggjafans, Alþingis? Ég vænti þess, að hæstv. dómsmrh. muni tala hér síðar í málinu og muni þá tína fram þau rök, sem hann telur sig hafa fyrir því, að þetta frv. sé vanhugsað, og hvað hann telur mæla gegn því að lögfesta þessa reglugerð á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Eins og ég sagði áðan, þá minnist ég þess ekki að hafa heyrt hæstv. dómsmrh. hreyfa nokkrum rökum gegn þessu, heldur aðeins slá fram þessari órökstuddu staðhæfingu, að frv. væri vanhugsað.

Hins vegar minnist ég þess, að hæstv. utanrrh. hefur gert nokkra tilraun til þess að benda á, að hann teldi varhugavert að lögfesta ákvæði reglugerðarinnar. Þau rök, sem hæstv. utanrrh. var með, voru á þá lund, að það, að nú væri farið að lögfesta þessa reglugerð, gæti af öðrum þjóðum verið þannig skilið, að það væri ætlan íslenzkra stjórnarvalda að ganga ekki lengra í þessu máli í framtíðinni, að það gæti verið hætta á því, að það yrði litið svo á, að þar með værum við að slá því föstu um alla eilífð, að hér skyldi fiskveiðilandhelgin vera 12 sjómílur og ekki stærri. Ég held að þessi rök fái alls ekki staðizt. Þau fá auðvitað ekkert fremur staðizt gegn ákvörðun löggjafans heldur en gagnvart ákvörðun reglugerðargjafa. Það verður ekkert frekar álitið, þó að löggjafinn segi, að fiskveiðilandhelgin skuli nú vera 12 sjómílur, að það sé endanleg ákvörðun og að það sé Íslendinga síðasta orð í þessu máli, heldur en það verður álitið, að það hafi verið síðasta orð Íslendinga, sem þeir mæltu í þessu máli, þegar þeir ákváðu í reglugerðinni, að fiskveiðilandhelgin skyldi vera 12 sjómílur. Það er alveg augljóst, að þau rök, sem hæstv. utanrrh. þannig vildi færa fram gegn lögtöku þessa frv., fá ekki staðizt.

Ég hef hér aðeins með örfáum orðum vikið eð efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, og rökstutt það í mjög fáum orðum, að það er sjálfsagt að lögfesta þetta frv. og það er ekkert, sem gerir það varhugavert. En ég ætla í framhaldi af því aðeins að víkja að nokkrum atriðum, sem hafa komið fram í þessum umr.

Það hefur hér verið talað um stefnu í landhelgismáli og hvaða stefnu Íslendingar hafi haft í því máli. Það mætti að sjálfsögðu tala langt mál um það og mætti fara langt aftur í tímann þar. Ég ætla nú ekki að fara mjög langt aftur í tímann, en ég vil minna á, að það hefur verið sérstaklega deilt um það, hvort stefna Íslendinga hafi alltaf verið sú, að ákvörðun um þetta væri tekin einhliða eða með samningum. En ég vil minna á það, að stefna Íslendinga hefur líka verið sú að reyna að fá samþykkta alþjóðareglu um víðáttu landhelginnar. Ég veit ekki betur en það væri samkvæmt till. íslenzka fulltrúans á þingi Sameinuðu þjóðanna 1949, að þar var samþykkt, að það skyldi vera eitt af verkefnum þjóðréttarnefndarinnar að fjalla um víðáttu landhelgi. Sú till. íslenzka fulltrúans mætti þá mikilli mótstöðu, og t.d. Bretar beittu sér ákaflega eindregið gegn því, að þetta fengist samþ. En það fór nú samt svo, að þessi till. íslenzka fulltrúans var tekin á dagskrá hjá þjóðréttarnefndinni, og þjóðréttarnefndin fjallaði um það mál og skilaði áliti, eins og kunnugt er og vikið hefur verið að áður í þessum umr., árið 1956, og þá var álit þjóðréttarnefndarinnar á þá lund, að það væri að vísu ekki til nein alþjóðleg regla um víðáttu landhelginnar eins og væri, en jafnframt, að það yrði talið, að þjóðarétturinn leyfði ekki víðáttumeiri landhelgi en 12 sjómílur. Þessi varð niðurstaða þjóðréttarnefndarinnar, og hún var svo lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, og Íslendingar höfðu líka vissa afstöðu á því allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þá vildu þeir, að allsherjarþingið tæki endanlega ákvörðun í þessu máli. En sú skoðun varð ekki ofan á á allsherjarþinginu. Þar var flutt till. um að vísa þessu máli til sérstakrar sjóréttarráðstefnu, og sú till. var samþ., ef ég man rétt, gegn atkvæði Íslands, og þessi sjóréttarráðstefna var svo haldin 1958, eins og kunnugt er, og önnur svo 1960, og um það þarf ekki að fjölyrða, hver niðurstaðan varð á þessum sjóréttarráðstefnum. En þetta sýnir, að Íslendingar vildu út af fyrir sig, ef þess var kostur, fá ákveðna þá reglu í alþjóðalögum um víðáttu landhelginnar, sem þeir gætu sætt sig við. Og það er auðvitað ekkert óeðlilegt, þó að Íslendingar vildu fara þá leið, vegna þess að það er ljóst, þó að það sé viðurkennt, um leið og því er slegið föstu, að það sé ekki alþjóðaregla um víðáttu landhelginnar, þá sé það réttur hverrar þjóðar að ákveða það einhliða innan vissra takmarka, hver víðátta landhelginnar skuli vera, þá verður það jafnan svo fyrir smáþjóð, að hún getur átt undir högg að sækja með það til hinna stærri þjóða, hvort hún fær fulla viðurkenningu þá strax á sínum ákvörðunum um það efni.

Inn í þessar umr. hefur spunnizt mikill samanburður á því, hvað gerzt hafi 1958, áður en reglugerð þessi, nr. 70 frá 1958, var sett og áður en hún tók gildi, og svo hvað sé nú að gerast í samningaumleitunum við Breta. Hæstv. utanrrh. hélt því hér fram í gær, að það væri kjarnapunkturinn í þessu máli, eins og hann orðaði það, ef ég man rétt, að þessar aðgerðir, sem þeir stæðu nú fyrir í samningaumleitunum við Breta, væru aðeins áframhald af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið 1958 til þess að reyna að fá viðurkenningu annarra þjóða á ákvörðun íslenzkra stjórnarvalda um fiskveiðilandhelgina. Og hann vitnaði í því sambandi mjög til símskeytis frá 18. maí 1958, og hann vildi bera þetta saman og leggja það að jöfnu. Hæstv. dómsmrh. var ekki lengi að sjá veiluna í þessum málflutningi hæstv. utanrrh., því að það er nú öllum ljóst, að það er nokkuð annað og verður ekki saman borið, hvort það er, áður en reglugerðin er sett og áður en endanleg ákvörðun er tekin, leitað eftir því við aðrar þjóðir, hvernig þær muni snúast við fyrirhugaðri ákvörðun, heldur en þegar ákvörðun hefur verið tekin með reglugerð að fara þá að leita samninga við einstaka þjóð um sérstaka undanþágu fyrir hana.

Það hefur nú þegar verið sýnt fram á, og ég skal ekki endurtaka það hér, að það var nú í fyrsta lagi skylda Íslands, áður en það tók ákvörðun um þetta mál, landhelgismálið eða fiskveiðilandhelgina, að kynna aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins þá ákvörðun sína fyrir milligöngu framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Það var auðvitað gert. Það var enn fremur leitað eftir því, hvort erlend ríki mundu vilja fallast á þessar aðgerðir íslenzku ríkisstj. Í þeirri málaleitan var ekkert gefið í skyn um það, að ísl. ríkisstj. teldi nokkurn snefil af vafa vera á um það, að hún hefði fyllsta rétt til að taka þessa ákvörðun. En það er altítt í samskiptum þjóða á milli og ekki sízt einmitt þegar um svona mál er að ræða eins og þetta, sem snertir endimörk yfirráðasvæðis, að sú þjóð, sem ætlar að gefa út einhverja yfirlýsingu þar að lútandi, snúi sér til annarra ríkja, kynni þeim þá ákvörðun sína og spyrjist fyrir um það, hvort þau hafi þar aths. við að gera. Það mætti nefna þessa mýmörg dæmi úr samskiptum þjóða, og það var einmitt þetta, sem íslenzka ríkisstj. gerði í maí 1958. Hún var þá að spyrjast fyrir um það hjá öðrum þjóðum, hvort þær mundu gera aths. við þessa fyrirhuguðu ákvörðun hennar. Og þar sem það var líka þá vitað, að það mundu af hálfu vissra þjóða verða gerðar aths. víð þá ákvörðun, var látið í það skína, að ef það greiddi fyrir viðurkenningu af hálfu þessara þjóða, gætu Íslendingar hugsað sér að haga þessari ákvörðun nokkuð á aðra lund en þeir höfðu þó fyrst og fremst hugsað sér og hefðu helzt kosið. Það er heldur ekkert óvenjulegt við þetta, og ég verð að, segja það sem mína skoðun, að ef það hefði legið fyrir 1958, áður en ákvörðun var tekin í þessu máli, að þær þjóðir, sem þetta mál snertir helzt,. og þá fyrst og fremst Atlantshafsbandalagsþjóðirnar, sem við var rætt, hefðu viljað lýsa því yfir, að þær mundu ekki hafa neitt við það að athuga, að íslenzka þjóðin, íslenzka ríkið tæki ákvörðun um það, að fiskveiðilandhelgi Íslands skyldi verða 12 sjómílur, en þó þannig, að sú ákvörðun kæmi ekki til framkvæmda að fullu eða öllu leyti að því er varðaði ytri 6 sjómílurnar um tiltekið árabil, t.d. þrjú ár, — ég efast ekki um, að ef það hefði legið fyrir 1958, að þannig hefðu þjóðirnar viljað snúast við því, þá hefði yfirgnæfandi hluti Íslendinga verið á því, að þannig ætti að haga þessu máli. Og það er svo sjálfsagt, að hvorki hæstv. utanrrh.hæstv. dómsmrh. hafa hreyft neinum aths. við þennan gang málsins, enda auðvitað ekki eðlilegt um hæstv. utanrrh., sem stóð fyrir þessu. Þeir hafa einmitt undirstrikað það, að þannig hafi verið sjálfsagt að fara að. Þeir hafa bara viljað leita eftir eða benda á þetta sem fordæmi fyrir þeim aðgerðum, sem þeir nú standa fyrir í samningaumleitununum við Breta. En eins og ég þegar hef sýnt fram á, verður þetta tvennt alls ekki borið saman. Það er ekki sambærilegt að leita þannig eftir viðurkenningu fyrir fram og áður en ákvörðun er tekin eða að taka upp samninga um tilslakanir frá gerðri ákvörðun gagnvart einni einstakri þjóð, en það er það, sem spurningin er um nú í samningaumleitununum við Breta, og eins og ég áðan sagði, þá var hæstv. dómsmrh. ekki lengi að sjá veiluna í þessum rökstuðningi hjá hæstv. utanrrh., vegna þess að þegar hæstv. dómsmrh. kom hér í ræðustólinn, þá var hann tiltölulega fáorður um skeytið frá 18. maí 1958, en hann sagði, að lítið hefði verið talað um skeytið frá 20. ágúst, og vildi dómsmrh. halda því fram, að þá hefðu málin verið komin á það stig, að það væri sambærilegt við það, sem er að gerast nú. En það er að minni hyggju ekki sambærilegt, vegna þess að reglugerðin var gefin út 30. júní 1958, ef ég man rétt, en þessari reglugerð var á annan veg hagað en öðrum reglugerðum venjulega er, að því leyti, að það var ákveðið í þessari reglugerð, að hún skyldi ekki öðlast gildi fyrr en 1. sept. Reglugerðin var gefin út 30. júní 1958, en hún átti samkvæmt ákvæðum sínum ekki að öðlast gildi fyrr en 1. sept. 1958. Til hvers ætli þessi gildistökufrestur hafi verið ætlaður? Það veit auðvitað hæstv. utanrrh. mætavel. Þessi gildistökufrestur reglugerðarinnar var auðvitað ætlaður til þess og var til þess notaður að kynna málið enn betur en áður hafði verið kostur fyrir ríkisstjórnum þeirra þjóða, sem í þessu máli höfðu verið erfiðastar og andsnúnastar þessari ákvörðun íslenzku ríkisstj. Skeytið var sent 20. ágúst, þar sem enn var í það látið skína, að því er virtist, eftir því sem fram kom hér, að möguleikar væru enn þá opnir til þess að ganga um þær dyr, sem bent hafði verið á í skeytinu 18. maí 1958. Þá stóð svo á, að það var ekki farið að framkvæma þessa reglugerð. Fiskveiðilandhelgin var þá ekki komin til framkvæmda. Og það verður að minni skoðun alls ekki borið saman að hreyfa þessu máli þannig, á þann hátt, sem gert var, og nú eftir að þessi reglugerð hefur verið í gildi um þetta langan tíma og hefur verið framkvæmd um þetta langan tíma, að fara þá að taka upp samningaumleitanir um tilslakanir á henni við þá einu þjóð, sem hefur ekki viljað viðurkenna gildi þessarar reglugerðar í verki.

Ég held þess vegna, að það geti engum blandazt hugur um það, að þetta tvennt, aðgerðir ríkisstj. sumarið 1958 og aðgerðir ríkisstj. nú, er á engan hátt sambærilegt. Menn geta haft sínar skoðanir á því, hvort þessar aðgerðir nú eru nauðsynlegar eða ekki. Og mér dettur ekki í hug að vera með neinar getsakir í garð hæstv. ríkisstj. um það, að hún sé þar að breyta á móti betri vitund. Ég efast ekki um, að þeir séu að velja í þessu efni þá leið, sem þeir telja nauðsynlega, og það er þeirra mat. Aðrir hafa aftur á móti aðra skoðun á því. En hvað sem því mati líður, þá verður þetta tvennt alls ekki borið saman. Hæstv. ríkisstj. getur þess vegna ekki leitað eftir stuðningi fyrir þá ákvörðun, sem hún hyggst taka nú í þessu máli, í neinu fordæmi frá sumrinu 1958. Það er alveg útilokað.

Ég held þess vegna, að það stoði hæstv. ríkisstj. ekkert í málflutningi sínum að benda til þessa fordæmis frá 1958. Þær ákvarðanir, þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, voru sjálfsagðar. Þær voru í fyllsta samræmi við það, sem tíðkast í samskiptum milli þjóða, og voru, eins og á stóð, algerlega sjálfsagðar til þess að reyna að fá samþykki og viðurkenningu annarra þjóða á þeirri ákvörðun, sem til stóð að tekin yrði.

Hæstv. dómsmrh. vék að því hér áðan, að það stoðaði lítið að ræða um það, hvort um væri að ræða einhliða yfirlýsingar eða samning, það væri orðaleikur einn, eins og hann orðaði það í gær, — ef það hefði farið á þá lund, að tekið hefði verið undir þá orðsendingu, sem fór frá íslenzku ríkisstj., þá væri það orðaleikur einn, hvort talað væri um einhliða yfirlýsingar eða samninga. Það er náttúrlega ekki ástæða til þess í þessu máli að vera að ræða um svona atriði. En ég vil nú bara spyrja hæstv. dómsmrh.: Við skulum segja sem svo, að eftir sendingu skeyta þessara, sem hér er um að ræða, hefðu hinar einstöku ríkisstj. Atlantshafsbandalagsins lýst því yfir við fyrirsvarsmenn íslenzka ríkisins, að þær hefðu fyrir sitt leyti ekkert við að athuga þá ákvörðun íslenzku ríkisstj., að fiskveiðilandhelgin skyldi framvegis vera 12 sjómílur, en þó þannig, að hún kæmi ekki til framkvæmda að því er varðaði ytri 6 mílurnar um við skulum segja næstu þrjú ár, og síðan hefði svo reglugerðin verið sett hér í samræmi þar við, mundi þá hæstv. dómsmrh. telja, að með þessum hætti hefði verið kominn á samningur á milli Íslands og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um þetta mál? Ég held, að það sé ekki venjulegt að kalla slíkt samninga.

Ég skal svo aðeins, af því að ég sé, að hæstv. dómsmrh. er kominn, víkja örlítið að því, sem ég gat um í upphafi máls míns, en það var þetta, sem ég taldi vera kjarnann í þessu frumvarpi, það er, í hvers höndum ákvörðunarvaldið um þetta málefni á að vera. Í hvers höndum á ákvörðunarvaldið um víðáttu íslenzkrar fiskveiðilandhelgi að vera? Á það að vera í höndum löggjafans og þá fyrst og fremst Alþingis, eða á það að vera í höndum ríkisstj. og eins og nú er að formi til í höndum eins einstaks ráðh.? Ég sýndi lauslega fram á, að það væri ákaflega óeðlilegt, að svo mikilvæg ákvörðun væri í höndum eins einstaks ráðh. Eftir eðli málsins er þetta þannig mál, að það er sjálfsagt, að þjóðfulltrúasamkoman fjalli um það, og það er líka þannig, að ef litið er yfir sögu þessa máls, þá er það svo bæði fyrr og síðar, að Alþingi hefur látið sig þetta mál skipta, og það hefur á sínum tíma verið einmitt óskað eftir löggjöf um þetta mál fyrr og síðar.

Það er að vísu svo, að það hafa komið fram yfirlýsingar af hálfu hæstv. ráðh. um það, að mál þetta mundi koma til meðferðar á Alþingi. En ég hef veitt því athygli, að þær yfirlýsingar, sem þeir hafa gefið í því sambandi, hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh., hafa ekki verið algerlega samhljóða. Það má vera, að það hafi verið aðeins um mismunandi orðalag að ræða hjá þeim og meiningin hafi verið sú sama, og þá væri náttúrlega æskilegt að fá það upplýst af þeim aðila, sem getur talað fyrir þá báða. En hæstv. utanrrh. sagði, ef ég man rétt, að þegar, skildist mér, samningaumleitanir hefðu borið tilætlaðan árangur, þá yrði málið lagt fyrir Alþingi og það yrði Alþingi, sem tæki ákvörðunina. Ég skildi ummæli hæstv. utanrrh. á þá lund. En hæstv. dómsmrh. orðaði þetta og hefur orðað það oftar en einu sinni á aðra lund. Hann hefur sagt, að það mundi verða haft samráð við Alþingi, áður en málið væri afgr. En þetta tvennt er náttúrlega ekki alveg það sama. Það er ekki sama að hafa samráð við Alþingi og það að leita beinlínis samþykkis þess á ákvörðuninni. Nú er það að vísu svo, að ég býst við, að það yrði litið svo á, að réttum lögum samkvæmt eigi að leggja samning sem þennan, sem manni skilst að fyrirhugaður sé við Breta um einhver hlunnindi þeim til handa eða rétt fyrir þá til þess að veiða á einhverju svæði í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, fyrir Alþingi samkv. 21. gr. stjskr. og það eigi að leita samþykkis Alþingis á honum, af því að samkvæmt stjórnarskránni verða samningar þeir, sem forseti eða stjórnvöld landsins gera fyrir þess hönd, ekki gildir án samþykkis Alþingis, ef þeir hafa fólgið í sér afsal eða kvaðir á íslenzkri landhelgi. Um þá samninga þarf að leita samþykkis Alþingis. En það er nú svo, að það getur kannske orðið deila um það, hvort þarna sé fyrirhuguð kvöð á íslenzkri landhelgi eða ekki, og enn fremur eru deildar meiningar um það, hvernig skilja beri slík stjórnarskrárákvæði sem þessi, hvort samningur geti orðið þjóðréttarlega skuldbindandi, án þess að samþykki Alþingis sé fengið eða ekki, þannig að í þessu ákvæði er jafnvel ekki full trygging fyrir því, að ákvörðun um þetta mál sé í höndum Alþ. Þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðh. um, að málið komi til Alþingis, þrátt fyrir 21. gr. stjórnarskrárinnar, sem býður samþykki Alþingis um slíka samninga sem þessa, þá verð ég að telja það tryggara að setja ákvæði reglugerðarinnar um þetta efni, um fiskveiðilandhelgina, beinlínis í lög. Það er að vísu svo, sem betur fer, að það hefur aldrei verið vefengt, að reglugerðin um fiskveiðilandhelgina, nr. 70 frá 1958, hafi næga stoð í lögum, og hæstv. dómsmrh. taldi engan vafa á því, að hún hefði næga lagastoð í landgrunnslögunum, nr. 44 1948, og ég er honum sammála um það. En þó er það svo, að þessi landgrunnslög, sem reglugerðin er byggð á, eru nú nokkuð víðtæk að þessu leyti til. Í 1. gr. þeirra laga, sem þessi reglugerð er byggð á, segir aðeins: „Sjávarútvegsmálaráðuneytið skal með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skulu háðar íslenzkum reglum.“ Þó að það hafi ekki verið vefengt og verði ekki vefengt út af fyrir sig, að það sé næg stoð fyrir setningu reglugerðarinnar í þessu ákvæði, þá er þó að mínu viti ekki rétt að tefla á hina minnstu tvísýnu í máli sem þessu, að því er varðar formleg atriði, og þess vegna sé öruggara að taka þessi ákvæði í reglugerðinni beinlínis upp í lög. Þá er ég kominn að þessu, sem ég beindi til hæstv. dómsmrh. af því tilefni, að hann lét þau orð falla hér í þessum umr., að þetta frv. væri vanhugsað, að ég leitaði þá eftir því, hvaða rök hann teldi gegn því að lögfesta ákvæðin um fiskveiðilandhelgina, og ég vil endurtaka þessa spurningu til hans: Hvort telur hann eðlilegra, að ákvæðin um fiskveiðilandhelgi séu sett í lögum eða í reglugerð? Ég veit vel, að hæstv. dómsmrh. getur sjálfsagt sagt, að það sé æskilegt og nauðsynlegt að setja lög um íslenzka landhelgi almennt, vegna þess að því miður er það svo, að í því efni er margt nokkuð óljóst. Ég á þar við þá almennu löggæzlulandhelgi. Og ekki er það hvað sízt óljóst, eftir að reglugerðin um fiskveiðilandhelgina var sett. En þó að þannig sé litið á, að það þurfi og sé æskilegt og nauðsynlegt að setja ákvæði um landhelgi almennt, þá held ég, að það mæli ekki gegn eða séu ekki rök gegn því, að nú séu sett í lög ákvæði þessi, sem eru í reglugerðinni um fiskveiðilandhelgi. Mér þætti sem sagt fróðlegt að heyra, hvaða ástæður hæstv. dómsmrh. vill færa fram gegn því að lögfesta þessi ákvæði, sem eru í reglugerðinni, nr. 70 frá 1958. Um formið má að sjálfsögðu deila, hvort þetta form á lagasetningunni er rétt eða ekki, en því má auðvitað breyta og taka ákvæði reglugerðarinnar algerlega upp í lagafrumvarpið, ef n., sem fær þetta til meðferðar, sýnist, að sá háttur sé eðlilegri. En mergurinn málsins er þessi: Hvort er eðlilegra, að þessi ákvæði séu í settum lögum eða reglugerð? Eins og ég hef bent á áður, þá er það ekkert nýtt um mitt viðhorf í þessu efni, að ég telji eðlilegra, að það sé í settum lögum. Og það er í raun og veru heldur ekkert nýtt um stefnu Framsfl. í því efni, því að það var einmitt Framsfl., sem með samþykkt sinni á flokksþingi 1946 markaði fyrst þá stefnu, sem síðan hefur eiginlega verið byggt á, sem í fyrsta lagi samþykkti þá að samningnum við. Breta skyldi sagt upp, í öðru lagi, að sett skyldi löggjöf um landhelgi, þar sem landhelgin vært stækkuð og flóar og firðir yrðu innan landhelginnar, og í þriðja lagi, að leitað yrði eftir viðurkenningu erlendra þjóða á þeirri löggjöf.

Ég skal ekki ræða frekar um þá samninga eða þær samningaumleitanir, sem fram fara við Breta. Ég vil aðeins segja það, að ég geri ekki lítið úr þeim vandkvæðum og þeirri hættu, sem þessari deilu eru samfara, og geri ekki lítið úr æskileik þess, að hún leiðist til lykta sem allra fyrst. En ég er þeirrar skoðunar, að þannig sé í þeim efnum komið, að það vanti í raun og veru ekki nema herzlumuninn á það, að Bretar gefist upp í ásælni sinni á íslenzk mið. Og þá er það auðvitað mat, eins og hæstv. dómsmrh. hefur réttilega bent á, hvort menn vilja bíða og taka á sig þá áhættu, sem því fylgir að bíða eftir því að sá herzlumunur vinnist, eða efna til samninga og veita Bretum einhverjar tilslakanir gegn því að ná þá friði við þá. Ég skal ekki endurtaka það sem sagt hefur verið hér áður í umr. um, hversu andstætt það er mönnum að fara að taka upp samninga við þá þjóð eina, sem sýnt hefur ofbeldi í þessu efni, og ekki endurtaka það, sem ég þegar hef sagt um það, að þær aðgerðir, sem fóru fram 1958 í því skyni að afla viðurkenningar annarra þjóða, verða á engan hátt bornar saman við þá samninga, sem nú standa yfir við Breta. En ég vil endurtaka það, að ég álít alveg sjálfsagt, að þær ráðstafanir, sem þá fóru fram, hafi verið gerðar, og ég vil bæta því við, að það var jafnvel 20. ágúst ekki vitað, hvernig aðrar þjóðir en Bretar mundu snúast í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti efast ekki um, að einmitt viðleitni íslenzkra stjórnarvalda, kynning þeirra á málinu fyrir NATO-þjóðunum hefur haft þau áhrif eða hefur stuðlað að því einmitt, að aðrar þjóðir þó heldur en Bretar viðurkenndu í verki ákvörðun Íslendinga um landhelgina.

Því hefur verið hreyft í þessum umr., hvort það væri ekki hættulegt að veita Bretum þessar tilslakanir með tilliti til annarra þjóða, hvort hað væri ekki hætta á því, að aðrar þjóðir sigldu í kjölfarið og teldu sér heimilan þann rétt, sem Bretum væri veittur með þessum samningum. Það er auðvitað sjálfsagt, að jafnvel þó að komi til þessarar samningagerðar við Breta, þá munum við Íslendingar halda því fram, að þeir séu aðeins bindandi gagnvart Bretum einum og hafi ekki gildi gagnvart öðrum þjóðum, veiti þeim ekki rétt. En þó að þessi afstaða okkar sé sjálfsögð, þá má á það minna, að einmitt á meðan samningurinn við Breta frá 1901 var í gildi hér á landi, þar sem Bretum var veittur réttur til fiskveiða allt upp að þremur mílufjórðungum, þegar almenn landhelgi við Ísland varð annars almennt að teljast 4 sjómílur, þá var það svo, að á árinu 1928 skeði það, að gefinn var út íslenzkur stjórnarráðsúrskurður, þar sem lítillega var breytt um ákvörðun landhelgislínunnar frá því, sem verið hafði á eldri sjóuppdráttum, sem gerðir höfðu verið í samræmi við samninginn við Breta. Og á þessu svæði, sem þannig myndaðist á milli hinnar eldri línu og þessarar nýrri samkv. uppdrættinum, voru t.d. teknir þýzkir togarar. Og niðurstaðan hjá hæstarétti varð sú, þegar hann dæmdi í þessu máli, að hann sýknaði þessa þýzku togaraskipstjóra á þeim grundvelli, að það hefði ekki verið heimilt að draga landhelgislínuna með öðrum hætti en gert hefði verið samkv. hinum eldri sjóuppdráttum, sem voru í samræmi við samninginn við Breta. M.ö.o.: hæstiréttur taldi þá þessa þýzku togaraskipstjóra njóta góðs af samningnum við Breta. Þetta er vissulega atriði, sem verður að hafa í huga, þó að, eins og ég sagði áðan, okkar afstaða verði að sjálfsögðu sú, að við teljum, jafnvel þó að svo fari, að samningar verði um þetta gerðir og Bretum verði veittar einhverjar tilslakanir, þá samninga ekki gilda gagnvart öðrum þjóðum. Við höfum samt þetta fordæmi þarna úr okkar sögu, sem gefur nokkra bendingu um, hvað skeð gæti.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en vænti þess, að hæstv. dómsmrh. geri grein fyrir því, hvaða röksemdir hann telur mæla gegn því að lögfesta ákvæðin um fiskveiðilandhelgi.