16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1961

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. var flutt af hálfu Alþb. allmikið af till. um breytingu, sem þörf var að gera. Við höfum ekki endurtekið þessar brtt. nú. Það var a.m.k. að mínu áliti svo greinilega útgert um það þá, hver afstaða meiri hl. var til, þeirra, að ég tel ekki þýða sérstaklega mikið að reyna að flytja þær aftur. Þó hef ég hér ásamt hv. 7. landsk. flutt tvær brtt. á ný, sem ég álít nokkuð sérstaklega horfa á um, og skal nú gera grein fyrir þeim. Þær eru á þskj. 235.

Í fyrsta lagi er till, um að hækka styrkinn til íslenzkra námsmanna, hérna og erlendis. Við höfum flutt till. við 2. umr. fjárl. um, að hann yrði hækkaður úr rúmum 61/2 millj. upp í 8 millj., og flytjum nú till. um, að það sé hækkað upp í 71/2. Ég tel rétt, að það sé reynt með þessu móti, hvort ekki er hægt að fá meiri hl. þm. til þess að fallast á að bæta úr þeirri brýnu nauðsyn, sem er á því fyrir íslenzka námsmenn að fá meiri styrk en þeir nú fá.

Ég vil minna á eitt í þessu sambandi. Sú reynsla, sem jafnvel fremstu þjáðir heims hafa dregið af þróuninni í vísindum og tækni nú á tímum, er fyrst og fremst, að það verði að verja miklu meira fé en gert hefur verið til að sérmennta menn. Það er engum efa bundið, að við Íslendingar erum að dragast aftur úr á þessu sviði, og það að framleiða slíka sérmenntaða menn, það að skóla þá þannig, að þeir séu færir um að valda þeim verkefnum, sem þjóðfélagið þarf á að halda, það tekur tíma og kostar peninga. Ég held, að það sé þarna verið að hugsa um að gera ráðstafanir, sem fyrst koma að gagni jafnvel eftir 5–6 ár, og eigi að stuðla að slíkum ráðstöfunum, þá sé ekki ráð, nema í tíma sé tekið. Við viljum þess vegna reyna það, hvort ekki væri hægt að fá hv. meiri hl. þm. til þess að fallast á þessa till.

Þá leggjum við til í öðru lagi, það er brtt. á þskj. 235, III.2, að hækka styrkinn til skálda, rithöfunda og listamanna upp í 2 millj. Við höfðum lagt til við 2. umr. málsins, að hann yrði hækkaður upp í 21/2, en það var fellt, og við viljum nú reyna þarna með lægri upphæð.

Eins og menn vita, er þessari upphæð útdeilt á meðal skálda, rithöfunda og listamanna. Tvö skáld fá þarna sérstök heiðurslaun, 33 þús., en annars er hæsti flokkurinn þarna með 20 þús. kr. laun. Við Íslendingar höfum stært okkur af því að vera sérstaklega þjóð skálda og höfum reynt að viðhalda út á við áliti okkar þjóðar ekki hvað sízt á þeim grundvelli, svo að jafnvel aðrar þjóðir hafa orðið til að viðurkenna okkur. Og stundum hefur verið, t.d. í Danmörku, alveg sérstaklega vísað til þess, hve vel Alþingi Íslendinga gerði við sína listamenn. En þetta fer síversnandi hjá okkur núna. Þegar hinar tíðu gengisfellingar hafa átt sér stað, hefur það venjulega verið þessi þáttur, sem hefur orðið út undan og dregizt aftur úr.

Það er kunnugt úr okkar sögu, að okkur, sem nú lifum, þykir okkar forfeður hafa staðið sig heldur illa í þessum efnum. Það er alveg sérstaklega vitnað til þess, hve Alþingi hafi farið illa að gagnvart Þorsteini Erlingssyni á sínum tíma, og hefur oft verið um það rætt og þykir jafnvel smánarblettur á Alþingi. Á þeim tíma fékk Þorsteinn Erlingsson 600 kr. laun frá Alþingi, og vissulega var okkar land frekar fátækt þá, samanborið við það, sem það er nú. 600 kr., það er 2400 klst. vinna með verkamannakaupi, eins og það var þá. Alþingi þótti rétt að borga Þorsteini Erlingssyni verkamannalaun eins og fyrir 2400 klst. vinnu, og það hefur eftirkomendunum þótt smán. Þegar við úthlutum núna af því fé, sem varið er til skálda, rithöfunda og listamanna af Alþingis hálfu, þá eru hæstu launin, að undanteknum þessum tvennum heiðurslaunum, 20 þús., eða sem samsvarar um 900 klst. vinnu með núverandi verkamannakaupi. Við erum ekki hálfdrættingar við það Alþingi, sem okkur þótti gera frekar lélega við listamenn þjóðarinnar á sínum tíma. Við erum ekki hálfdrættingar.

Ég held, að við höfum ekki efni á því að vera svona naglalegir. Ég held, að það verði því meiri skömm okkar þings, ef við getum ekki séð af einum 2 millj. til þess að úthluta á meðal okkar skálda, rithöfunda og listamanna, og við erum þó alltaf að stæra okkur af því, hve miklum framförum okkar listir, okkar skáldmennt hafi tekið á þessum síðustu áratugum. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þm. átti sig á því, að svona getur þetta ekki gengið, að láta þetta dragast aftur úr. Þetta kostar ekki eins mikið og eitt sendiráðið erlendis. Við bentum á það í fyrra og getum bent á það enn, að það er ekkert auðveldara en að spara þetta með því að leggja niður alóþarfa og jafnvel skaðlega þætti á fjárl., þannig að það eru ekki peningarnir, sem vantar aðallega. Spurningin er, hvort menn hafa þann skilning á því, sem íslenzka þjóðin fyrst og fremst á sinn heiður að þakka, að menn vilji verja til þess nokkru meira fé.

Við tölum um, að það hafi verið farið illa að við Sigurð Breiðfjörð hér á árunum. Sumt af okkar listamönnum býr ekki í betra húsnæði en hann dó í. Og ég held, að við ættum alvarlega að fara að hugsa um, hvernig við stöndum í þessum efnum, þegar verður farið að bera okkur saman við þá, sem hér stjórnuðu fyrir 100 árum, miðað við fjárhag landsins á báðum tímunum.

Svo höfum við leyft okkur að flytja hér eina litla till., sem ekki mundi skekkja fjárl., þótt samþykkt yrði. Það er till. nr. 3 um nýjan lið á 14. gr. til þess að kvikmynda daglegt líf á íslenzkum kotbæ, 60 þús. kr.

Ég hef öðru hvoru reynt við meðferð fjárl., sem ég hef annars ekki tekið sérstaklega mikinn þátt í, að fá fram smábrtt., sem að einhverju leyti miða að því að reyna að varðveita, þótt ekki væri nema í mynd eða máli, eitthvað af því, sem er að deyja út á Íslandi núna, og sjá til þess, að okkar afkomendur hefðu, þótt ekki væri nema á kvikmynd eða á stálþræði, aðgang að þeim sérstöku menningarfyrirbrigðum hjá okkar þjóð, sem þeir koma til með að eiga erfitt með að kynna sér seinna meir. Ég lagði til fyrir nokkrum árum, að það yrði reynt t.d. að koma upp hljómplötusafni og upptöku á stálbönd og annað slíkt frásagnarlist íslenzkrar alþýðu, á því, hvernig ömmurnar segja sínar sögur. Ég lagði til, að við létum taka upp og setja á varanlegt efni upplestur þeirra Davíðs Stefánssonar og Jóhannesar úr Kötlum á sínum beztu kvæðum. Það eru líklega 6 ár síðan. Það vita allir hv. þm. t.d., hve vel Davíð Stefánsson les upp og sérstaklega hve fögur hans rödd er og sérstaklega var. Ekkert af þessu var samþykkt. Ég tók eftir fyrir tveimur árum, að þá var einn framtakssamur maður, sem hefur einhvern skilning á menningu, sem hefur ráðizt í það að fá Davíð til þess að lesa inn á hljómplötu eitt af sínum kvæðum. Það var gott. En röddin var ekki lengur eins falleg og hún hafði verið. Við vorum of seint á ferðinni. Ég lagði það til 1955, eftir að Halldór Kiljan Laxness fékk Nóbelsverðlaunin, ef það mætti einhverju áorka, að hann væri fenginn til þess að lesa upp á stálband eina af sínum sögum, til þess að við ættum þetta. Mönnum fannst það líka óþarfi.

Það er því miður svo, að þær miklu breytingar, sem eru að verða á öllu okkar þjóðlífi, ganga svo ört fyrir sig, að fyrr en varir er það, sem okkur, sem nú erum að eldast, þótti sjálfsagt og menn gátu horft á, þegar þeir vildu, þá er það að hverfa og jafnvel víða horfið. Það er líka það, sem bætist við, að tækin, sem við höfum til að vinna með núna, eru ekki bara góð til þess að brjóta jarðveginn, þau eru líka ágæt til þess að rífa niður rústirnar af öllu því gamla, — klausturrústirnar á Reynistað, hvað þá annað, — það er auðvelt að plægja það niður með traktorum, og við Íslendingar erum furðu duglegir í því að brjóta niður það, sem til er af slíkum rústum, sem aðrir mundu afgirða og hafa sem helgireiti.

Við höfum reynt að varðveita nokkuð af okkar gömlu bæjum. Það eru þá fyrst og fremst gömlu höfðingjabæirnir, sem við höfum gert að slíkum stöðvum. En mér vitanlega er ekki varðveittur einn einasti kotbær. Bæirnir, sem íslenzk alþýða yfirleitt bjó í, bæirnir, sem meginið af okkar starfi var unnið í fyrr á öldum, það voru lélegir bæir, og það var ekki gott í þeim að búa, og flestum, sem í þeim bjuggu, þótti vænt um það, þegar þeir gátu rifið þá, og voru þá að hugsa um leið, að minningin um fátæktina, berklana og annað af því vonda, sem við þá var tengt, hyrfi þá um leið. En þrátt fyrir alla þá fátækt og eymd, sem við bjuggum við í þessum bæjum, þá verður það nú samt sem áður svo, að eftirtíminn — framtíðin, hún verður stolt af því, að í þessu fátæka umhverfi skuli hafa verið skapað margt af því bezta, sem búið var til í Evrópu. Og nú fer það að verða svo, held ég, að það fer ekki að verða eftir einn einasti kotbær á Íslandi. Það eru miklar og góðar framfarir. En það er ekki að sama skapi ánægjulegt frá þjóðmenningarsögulegu sjónarmiði séð. Ef til vill verðum við, áður en allir menn eru útdauðir, sem hafa byggt þessa bæi, að láta byggja þá upp aftur, máske líka hér í Reykjavík, til þess að eiga þá þó til, eins og þeir hafa verið, svo að menn geti séð þá. Að fylgjast með, þegar börnin í Reykjavík koma og sjá hlóðir, endurbyggðar hérna jafnvel í Þjóðminjasafninu, það er lærdómsríkt fyrir okkur, sem höfum kannske ekki gert okkur næga grein fyrir því, hvernig það eru að hverfa hlutir, sem aldrei verða til aftur.

Ég lagði til fyrir nokkrum árum, að það yrði varið nokkrum tugum þúsunda króna til þess að kvikmynda daglegt líf á íslenzkum kotbæ, helzt afskekktum. Það hefur verið reynt að gera filmur, sem þá hafa átt að vera meira eða minna rómantískar filmur, um síðasta bæinn í dalnum eða eitthvað annað slíkt. En það, sem við þurfum að fá til þess að eiga sem þjóðmenningarsögulegt atriði, það er ofur lítil mynd af lífinu, eins og það hefur gengið fyrir sig dags daglega á þessum bæ, bara sem menningarsögulegt atriði. Og það fer að verða erfitt, af því að það dugir ekki að láta leika það, — það fer að verða erfitt að ná þessum myndum, ef við ekki grípum til þess að gera það.

Við leggjum til, að það sé varið 60 þús. kr. til þess að gera þetta. Ég skal engan veginn fullyrða, að það sé nægilegt, en ég veit, að það eru til margir menn, til allrar hamingju, með okkar þjóð, sem hafa áhuga á að reyna að halda þessum gömlu hlutum á kvikmynd eða öðruvísi, til þess að það hverfi ekki alveg. Ég veit t.d., til þess að ég nefni aðeins eitt nafn, að maður eins og Ósvaldur Knudsen hefur unnið okkar þjóð alveg ómetanlegt starf í því að ná á slíkar dokumentfilmur nokkrum atriðum úr lífi t.d. ýmissa okkar frægustu skálda, — við skulum segja eins og Halldórs Kiljans eða Þórbergs Þórðarsonar, — filmur, sem þjóðin, þegar lengra líður, jafnvel metur hátt upp í handrit. Mér finnst hins vegar, að Alþingi, sem síns nafns og sinna erfða vegna hefði þó átt að hafa forgöngu öllum fremur um slíkt viðhald þess gamla, sem hægt er, sé ákaflega sinnulaust um þessa hluti.

Ég treysti mér ekki til þess að fara að endurtaka allar þær till., sem við fluttum áður í þessa átt. Við tókum aðeins þessa litlu, ef verða mætti, að hún gæti fundið náð fyrir augum meiri hl. og bætt ofur lítið úr því sinnuleysi, sem við sýnum gagnvart þeim menningararfi, sem nú er daglega og árlega að hverfa úr okkar þjóðlífi.

Ég vil þess vegna mega vona, að hv. þm., þegar ekki er farið fram á meira en það, sem við gerum í þessum þrem till., — að þeir vilji a.m.k. athuga nú vel, hvort þeim fyndist ekki rétt að verða við því að samþykkja þær.