16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1961

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal láta mér nægja aðeins fá orð, enda ekki margt fram komið, sem gefur ástæðu til svars. Og ég skal fúslega játa það í framhaldi af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það er ekkert sérstaklega ánægjulegt að þurfa að mæla gegn ýmsum af þeim tillögum, sem hér hafa komið fram, bæði sem hann flutti og aðrir, því að sannast sagna eru þetta allt þörf og góð mál, sem hér hefur verið imprað á. Og það er auðvitað sama sagan í sambandi við þessar tillögur eins og með svo ótalmörg mál, sem við erum með í fjvn. hverju sinni, að það væri vissulega mikið ánægjuefni, ef við gætum gengið þar lengra en fært þykir, og er það ekkert nýtt nú, heldur, hefur það jafnan verið svo, að þarfirnar eru auðvitað miklu meiri en þau fjárráð, sem fyrir hendi eru.

Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi minnast á. Það er eitt atriði út af tillöguformi hjá hv. 1. minni hl. fjvn., sem ég tel að sé óeðlilegt, og það er sá háttur áð ráðstafa fé eins og þeir gera ráð fyrir í sambandi við áætlunarliðinn um jarðræktarframlög. Það kann vel að vera og er vafalaust rétt, að þessi liður er áætlaður í fjárlagafrv. hærri en kemur til útborgunar. Þetta er hins vegar ekki fjárveitingarliður, heldur aðeins áætlunarliður, og það hefur æði oft komið fyrir áður, að þessi liður hefur verið áætlaður ríflega, en. hins vegar hefur aldrei, að því er ég man eftir a.m.k. , komið fram slík hugmynd, að ráðstafa fé, sem kynni að vera umfram á þessum lið, á þann hátt, sem hér er gert. Hér er raunverulega um beinar fjárveitingar að ræða, og skiptir ekki máli, þó að vísað sé til þess, að þarna kunni að vera fé aflögu, því að það fé kemur auðvitað ekki til útborgunar undir þeim lið, nema framkvæmdirnar séu innan þess ramma, alveg á sama hátt og það yrði að borga umfram á þessum lið, hvað sem fjárlög segðu, ef féð væri of lítið. Þó að þetta séu allt þörf og góð mál, sem gert er ráð fyrir að ráðstafa þessu fé í, þá finnst mér, að það sé enginn eðlismunur á ráðstöfun á þennan hátt og að flytja beinar tillögur um útgjöld til þessara framkvæmda.

Það er svo eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega minnast á, brtt., sem flutt er af nokkrum hv. þm. á þskj. 225 um launamál opinberra starfsmanna. Það eru vafalaust allir sammála um það, að opinberir starfsmenn séu ekkert ofhaldnir af sínum launum, og þeir launaflokkar, sem þarna er vitnað í, hinir lægstu, það séu lítt viðunandi laun, sem þar er gert ráð fyrir. að greiða, og einnig, að það geti verið sanngjarnt og rétt að greiða kennurum uppbót, og önnur þau atriði, sem. þarna er vikið að. En það er í rauninni allt annars eðlis, spurningin um það, hvort menn eru sammála þessu eða ekki. Það, sem ég álít að skeri úr í sambandi við fjárlagaafgreiðslu um þetta mál, er það, að ég tel, að þessar breytingar sé ekki hægt að gera í sambandi við fjárlög. Það getur auðvitað verið nauðsynlegt að áætla fé til þess að mæta. lagabreytingum, sem kunna að hafa útgjöld í för með sér. En eins og frá þessum liðum er gengið hér, þá er beinlínis lagt til að breyta ákveðnum liðum launalaga á þann hátt, sem ég tel að sé með engu móti hægt að gera í fjárlögum, því að samkv. grundvallarreglum laga hefur það ætíð verið talið svo, að fjárlög gætu ekki breytt almennum lögum. Það eru að vísu dæmi þess, eins og menn vita, að það hefur v,erið ákveðin í fjárlögum t.d. allsherjar launauppbót til opinberra starfsmanna. Það er nokkurs annars eðlis. Hér er . gert ráð fyrir að breyta innbyrðis hlutföllum og breyta beinlínis launalögum. Og ég vil leyfa mér að skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki sé ástæða til þess að athuga, hvort það sé hægt að bera upp til afgreiðslu till. sem þessa. Ég er ekki að slá neinu föstu um það, en vildi skjóta því til hæstv. forseta að athuga það, hvort till. þessi væri ekki þann veg gerð, að það sé ekki hægt að bera hana upp sem brtt: í sambandi við fjárlög. Ég tek það skýrt fram, að með því er ég ekki á neinn hátt að fetta fingur út í efnisleg atriði till., sem öll geta vel verið til athugunar á sínum stað og sem breytingar við þau lög, sem hér er um að ræða. En öllum hv. þm. mun það vafalaust kunnugt vera, að launalög eru einhver viðkvæmasta löggjöf, sem hér er til meðferðar, og það getur að sjálfsögðu haft hinar víðtækustu afleiðingar og lítt orðið til sátta, ef farið er út í það,. án þess að það sé íhugað alveg til hlítar, hvaða afleiðingar það hefur í för með sér, að breyta einstökum atriðum í launalögum.

Varðandi brtt. við ýmsa framkvæmdaliði, svo sem vegamál, vil ég aðeins segja það varðandi afskipti fjvn. í því efni, og er einkum tilefni til að segja það í sambandi við brtt. frá hv. 4. þm. Vestf., þar sem hann talaði um, að það væri óeðlilegt; að það hefðu verið lækkaðar fjárveitingar til einstakra vega á Vestfjörðum, að heildarfjárveiting. til vega á Vestfjörðum er ekkert lækkuð. Það er það sama og um önnur kjördæmi, það hefur engin millifærsla verið þar gerð. Menn eru vafalaust sammála um, að það hefði verið æskilegt að fá slíkar hækkanir, allsherjarhækkanir. En hér hefur ekki verið á neinn hátt verr búið að þessu kjördæmi en öðrum, og þm. hefur verið gefinn kostur á því að færa til frá tillögum vegamálastjóra, ef þeir hafa talið, að fénu væri betur ráðstafað á annan hátt, þannig að til þess að fyrirbyggja þann misskilning, að menn haldi, að hér hafi verið um einhvern niðurskurð að ræða í fjvn.; þá fer því víðs fjarri. Hér er aðeins um að ræða, að vegamálastjóri hefur talið, að þetta fé kæmi jafnvel betur að notum og væri brýnna að nota það annars staðar í viðkomandi kjördæmi. Það getur alltaf verið matsatriði, en það verður að hafa þá staðreynd í huga, þegar menn eru að tala um það, að einstakir vegir hafi verið lækkaðir eða jafnvel felldar niður fjárveitingar til vega. Menn geta svo vafalaust einnig deilt um það; hvort sú stefna sé rétt að öllu leyti að fækka fjárveitingum til vega, svo sem gert. hefur verið í ár og s.l. ár. Það var upplýst af hæstv. fjmrh., að það hefði haft í för með sér stórmikinn sparnað, og ég hygg, að miðað við þau takmörkuðu fjárráð; sem eru til nýbyggingar vega, þá sé hyggilegt að hafa slíkan hátt á. Með því er ekki ætlunin að strika út neina vegi til frambúðar, heldur ætlunin, að það sé þá eitt árið varið í þennan veg og annað árið í hinn veginn og það komi þannig betur að notum.

Það mætti nú margt ræða hér í tilefni af ræðu hv. 1, þm. Vesturl. Ég ætla að stilla mig um það til þess að lengja ekki þessar umr. mikið. Mér þykir það að sjálfsögðu leitt, ef hann hefur orðið fyrir vonbrigðum af mínum áhuga um framfarir í landinu, en ég verð auðvitað að sitja með það álit hans, og hann verður að hafa þá skoðun á því, sem hann vill.

Varðandi það atriði, að það sé hart aðgöngu að fá ekki brú í Dalasýslu, þá vil ég, vekja athygli á því, að það er ekki einstakt, að það sé ekki byggð brú í Dalasýslu, því að t.d. í mínu eigin kjördæmi er nú veitt fé í eina brú í þremur sýslum og ekki þó einu sinni nægilegt til þess að ljúka þeirri brú. En ástæðan er auðvitað sú, að heildarfjárveiting til brúa hefur ekki verið hækkuð, og það er auðvitað rétt, að vissulega væri æskilegt að hafa það fé meira. En ég held, að miðað við það fé, sem við höfum haft til ráðstöfunar, hafi engin rangindi verið sýnd í því efni einum né neinum, eða ég a.m.k. vona, að það hafi ekki verið viljandi neins hlutur þar fyrir borð borinn. Hitt geta menn svo auðvitað deilt um — og raunar þurfa ekkert að deila um, að ef atvik hefðu verið þannig, að það hefði verið hægt að auka fjárveitingar til þessara þarfa, þá hefði það vissulega glatt mig engu síður en hv. þm. Umræður um það, að þetta hafi leitt af kjördæmabreytingunni, og aðrar þess konar bollaleggingar skal ég alveg láta liggja á milli hluta, því að ég held, að menn sjái nú, ef þeir íhuga það í alvöru, að það hafi haft harla lítil áhrif á þetta mál.

Þá vil ég aðeins segja það til skýringar varðandi brtt. þessa hv. þm. um Akraneshöfn, að það er alveg rétt, að það hefði verið vafalaust full þörf á að hafa fjárveitingu til hennar jafnháa í fjárlögum næsta árs eins og þessa árs. En það hefur bara orðið sú breyting þar á, að það eru fleiri hafnir, sem komnar eru á sama stig varðandi kröfur á hendur ríkissjóði um framlög, heldur en Akraneshöfn. Í vetur sem leið stóðu sakir þannig, að Akraneshöfn átti inni hjá ríkinu mun meira en nokkur önnur höfn á landinu. Nú er þetta breytt, og það liggur því í hlutarins eðli, að það er ekki hægt að hafa þessa einu höfn í sérflokki að þessu leyti, enda þótt hún vissulega sé í sérflokki með fyrirgreiðslu, þar sem greiddar eru til hennar undir sérstökum lið 1.5 millj. kr., sem ég hygg að muni þykja allgóð aðstoð við þessa höfn, þó að enginn sé að telja það eftir, þannig að ekki sé hægt að segja, að hennar hlutur hafi á neinn hátt verið fyrir borð borinn.

Varðandi brtt. um það að ákveða ráðstöfun á því fé, sem óskipt er veitt til flugvallagerða og er ætlunin að síðar verði varið eftir því, sem sýnir sig, þegar kemur fram á árið, að þarfirnar séu brýnastar, þá held ég, að það sé ekki hyggilegt að ráðstafa því fé fyrir fram. Ég tel mig þess vegna með engu móti geta mælt með neinni tillögu um það efni. Og ég hefði haldið, að það væri jafnvel hyggilegt af þeim hv. þm., sem flytja till. um Egilsstaðaflugvöll, að taka hana fremur til baka heldur en láta ganga um hana atkv. hér í þinginu, því að ef svo færi, að hún yrði hér felld, þá mundi það geta jafnvel rýrt möguleika á því að verja sérstaklega fé til þessa flugvallar. Það eru margar þarfir, sem þarf að líta á í þessu efni, og það verður að meta það eftir því, sem tíminn sýnir að brýnast sé að verja einhverju fé til úrbóta. Þess vegna held ég, að reynslan hafi sýnt það árið í ár, að þetta hafi verið mjög hyggileg tilhögun og það sé því ástæðulaust að breyta út frá því nú.

Ég ætla svo, herra forseti, ekki að orðlengja frekar um þetta eða efna hér til — neinna almennra umr. um fjárlögin almennt og læt því alveg hjá líða allar pólitískar aths., sem hér hafa komið fram. En ég held, að ég hafi minnzt á þau atriði, sem ég tel að máli skipti.