31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2233)

60. mál, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vil segja hér um þetta mál, áður en það fer til nefndar.

Eins og hv. 1. flm. frv. sagði, mun naumast vera ágreiningur um, að rétt sé að halda áfram þeirri starfsemi, sem hefur verið rekin undanfarin ár í því skyni að aðstoða við öflun framleiðslutækja og ýmiss konar framleiðslustarfsemi víðs vegar um landið. Það hefur oft áður verið á það bent, og ég hef verið einn í hópi þeirra, sem hafa lagt áherzlu á, að nauðsynlegt væri að setja fastar reglur um ráðstöfun þessa fjár. Af ýmsum ástæðum, sem ég skal ekki rekja, hefur öll þessi ár, síðan þessi starfsemi hófst, ekki tekizt að fá samkomulag um það hér á Alþ. að setja ákveðna löggjöf um þessar ráðstafanir ríkisins til framleiðslu- og atvinnuaukningar.

Það er engum efa bundið, að þetta fé hefur komið á liðnum árum að miklum notum víða um land. En það er jafnvíst, að það hefði komið að miklu meiri notum, ef það hefði verið hægt að vinna að þessum málum á skipulagsbundinn hátt og verið vitað nokkur ár fram í tímann, hvað yrði til ráðstöfunar, þannig að hægt væri að gera ákveðnar áætlanir um uppbyggingu tiltekinna framleiðslufyrirtækja í hinum ýmsu byggðarlögum, þar sem þeirra hefur helzt verið talin þörf. Þetta hefur því miður ekki verið hægt, vegna þess að það hefur aldrei verið vitað, fyrr en fjárlög eru afgreidd, hvað mikið fé raunverulega yrði til ráðstöfunar, og það hefur jafnframt ekki verið vitað, hvaða aðilar það væru, sem ráðstöfuðu þessu fé, þannig að frá einu ári til annars hefur aldrei verið hægt að gera neinar skuldbindingar, þannig að hægt væri að aðstoða í áföngum við uppbyggingu ýmiss konar framleiðslustarfsemi. Þetta er auðvitað mjög tilfinnanlegur annmarki, sem alveg er nauðsynlegt að ráða bót á.

Hinu er svo ekki að leyna, að frá því að þessi aðstoð upphaflega var tekin upp, hafa orðið mjög miklar breytingar í þjóðfélaginu og breytingar í þá átt, sem fagna ber, vegna þess að fjöldi þeirra byggðarlaga, sem upphaflega voru í þrengingum með uppbyggingu sinnar framleiðslu og öflun atvinnutækja, er þannig settur í dag, að þar eru nægileg framleiðslutæki og raunverulega meiri en svo, að þar sé jafnan vinnuafl til þess að reka þau, og á þetta við um marga þá staði, sem áður voru illa settir. Hinu er svo aftur ekki eð leyna, og skal ég ekki út í þá sálma fara, að ekki hefur alls staðar verið byggð upp framleiðslustarfsemi e.t.v. á þann heppilegasta hátt, þannig að það hafi hentað hverju byggðarlagi. Það er að sjálfsögðu ekki einhlítt, skulum við segja, að kaupa skip. Það verður að athuga þá um leið, hvaða stærð af skipum og hvers konar skip henta á hverjum stað og hvaða starfsemi það helzt er, sem þar þarf að halda uppi. Það er vitanlega algerlega óraunhæft, eins og því miður hefur komið fyrir, að það væri verið að grundvalla atvinnufyrirtæki á stöðum, þar sem ekki hefur verið nokkur undirstaða undir þeirra starfsemi, heldur hefði þurft að byggja þar upp framleiðslustarfsemi á allt annan veg. Þetta er að sjálfsögðu eitt atriði, sem er mjög þýðingarmikið að taka til rannsóknar, og mér skilst, að sú skýrsla, sem hv. þm. vitnaði í frá atvinnutækjanefnd eða athugun þeirrar nefndar, hafi verið hugsuð á þann veg að reyna að gera sér grein fyrir, hvaða atvinnutæki það væru og hvaða framleiðslustarfsemi það væri, sem hentaði hverju byggðarlagi.

Meðan aðstoð sú, sem veitt er af svokölluðu atvinnuaukningarfé, er jafnókerfisbundin og hún er nú og enginn aðili er til, sem um lengri tíma hefur með þessi mál að gera, þá er mjög erfitt um vik að koma við mati á því, hvaða starfsemi helzt beri að efla á hverjum stað, og er þetta að sjálfsögðu hið þýðingarmesta. Ég hef nú síðustu árin haft nokkur afskipti af úthlutun þessa fjár, og ég held, að þó að alltaf megi deila um það, hvernig því er ráðstafað, þá hafi eftir atvikum verið reynt að gera það eins og menn höfðu bezt vit á, enda hefur orðið samkomulag í þeirri nefnd, sem það hefur gert og er skipuð fulltrúum allra flokka. En ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því, — og það hygg ég, að við allir gerum, sem í n. erum, — að þær reglur, sem úthlutað hefur verið eftir að undanförnu, þurfa mjög mikillar endurskoðunar við og það er ákaflega hæpið, hvort á að fara út í það, sem gert hefur verið, að skipta þessu fé niður á þann veg, að því er dreift til sem allra flestra til að veita helzt öllum einhverja úrlausn. Með þessari dreifingu, þó að það að vísu geti veitt nokkurn stuðning, þá verður þó mjög takmarkað gagn a.m.k. af þessari aðstoð. Ef vel ætti að vera, þyrfti að vera hægt að athuga rækilega, hvaða framleiðslustarfsemi það helzt væri í hinum ýmsu byggðarlögum, sem nauðsynlegast væri að aðstoða, og reyna þá að gera það á svo myndarlegan hátt, að það væri hægt að koma nokkurn veginn traustum fótum undir slíka starfsemi.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að fara inn á nokkuð nýjar brautir með ráðstöfun þessa fjár, þannig að lögð verði áherzla á það á næstu árum að styrkja einnig af þessu fé ýmsar rannsóknir og athuganir, sem beinlínis eru miðaðar við það að leggja grundvöll að nýrri framleiðslustarfsemi. Ég álít, að það sé mjög eðlilegt einmitt að veita aðstoð í þessu skyni, ef hugmyndin er sú, að á þennan hátt eigi að reyna að leysa aðkallandi atvinnuvandamál í hinum ýmsu byggðarlögum. Það er að vísu svo enn í dag, að við er að stríða á ýmsum stöðum tímabundið atvinnuleysi, og eins og okkar atvinnulífi er háttað nú, meðan útgerðin er alls ráðandi og það skiptist, eins og menn vita, mjög eftir árstímum, hvar vertíð aðallega er, þá er ósköp hætt við því, að það sé erfitt að koma í veg fyrir slíkar sveiflur. En að svo miklu leyti sem það er hægt, er að sjálfsögðu nauðsynlegt að því að stuðla. Það er þó engum efa bundið, að eins og ég áðan sagði, þá hafa orðið mjög miklar breytingar í þá átt, að það er ekki hægt að segja, að það séu eins og áður var, í jafnríkum mæli, ákveðnir landshlutar, sem búi við sérstaklega miklu verri skilyrði atvinnulega en aðrir, þannig að þetta mál mun verða að athugast nú á nokkuð nýjum og öðrum grundvelli. Undirstaðan undir þessa aðstoð engu að síður, sem hér er talað um, er alltaf fyrir hendi. Það má alltaf gera ráð fyrir því, að það geti verið um tímabundin vandræði að ræða í ákveðnum byggðarlögum. Við stóðum á þessu ári andspænis ákveðnum vandamálum einmitt á því sviði, þar sem þurfti að endurskipuleggja atvinnulíf í tilteknum byggðarlögum, og einmitt þegar þannig horfir, þá er að sjálfsögðu ákaflega mikilvægt að hafa eitthvert fé, eins og hér greinir.

Ég skal á þessu stigi málsins ekkert um það segja, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, er fullnægjandi til þess að leysa þann vanda, sem hér er um að ræða, eða hvort heppilegra sé að skipa þeim málum eitthvað á annan veg. En ég vil taka undir það, sem hv. 1. flm. sagði, að málið sjálft er þess eðlis, að það er óumflýjanlegt að setja heilsteypta löggjöf um það, hvernig með það skuli fara í framtíðinni.