25.10.1960
Efri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

64. mál, kornrækt

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er í meginatriðum eins og það frv., sem við hv. 5. þm. Austf. (PÞ) og ég fluttum á síðasta Alþingi. En eins og kunnugt er, náði það frv. fram að ganga hér í þessari hv. d. og komst til n. í Nd., svo að ég ætla, að þegar þetta frv. er nú lagt fram svo snemma á Alþingi sem nú er, þá ætti að vera nægur tími til að afgreiða það hér á Alþingi.

Ég ætla ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Ég get vísað í þeim efnum til grg., sem fylgdi frv. í fyrra, ,og enn fremur til þeirrar framsöguræðu, sem ég þá flutti, og til þess, sem ég hef áður sagt um þetta mál hér á Alþingi, því að þetta mun vera í þriðja eða fjórða sinn, sem lagt er fram frv. í þessum efnum nú á s.l. tíu árum.

Sem kunnugt er, getur kornyrkjan hér á landi sparað okkur geysimikinn gjaldeyri, vegna þess að yfirleitt verðum við að flytja inn allar þær korntegundir, bæði til manneldis og skepnufóðurs, sem innihalda kolvetni, en korntegundir eru þær fæðutegundir, sem innihalda mest af kolvetnisfæðutegundum. Með því að rækta korn í stórum stíl getum við sparað okkur í ríkum mæli innflutning á þessum vörutegundum.

Það hefur sýnt sig á tilraunastöðinni á Sámsstöðum og einnig hjá mörgum einstaklingum, sem ræktað hafa korn hin síðari ár, að kornyrkjan er nokkuð árviss hér á landi, en því valda einkum hinar nýju korntegundir, sem komnar eru á markaðinn og hafa náð útbreiðslu hin síðari ár, en voru óþekktar áður fyrr. Og að því er varðar kornuppskeru og allt, sem lýtur að vinnu við kornrækt, hefur tækninni stórfleygt fram og komin miklu betri tæki og öruggara með þurrkun korns en áður var. — Það, sem kannske hefur verið einna erfiðast viðfangs hér á landi að því er varðar kornyrkju, eru hin rigningasömu haust og hin rigningasömu sumur hér á landi. En síðan farið var að súgþurrka kornið eða blása það bæði með köldu og í sumum tilfellum með heitu lofti, hafa þessir örðugleikar verið yfirstignir.

Ég vænti svo þess, að þessi hv. d. taki jafnvinsamlega á þessu máli og í fyrra, og legg til, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til 2. umr. og landbn.