28.02.1961
Efri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (2239)

64. mál, kornrækt

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú til 2. umr., frv. um kornrækt á þskj. 70, er gamall kunningi hér á Alþingi og orðið sæmilega hagvant. Það var samið af mþn. fyrir mörgum árum, og fjölluðu þá um það hinir færustu menn í landbúnaðarmálum. Síðan var það flutt og endurflutt nokkrum sinnum, en jafnan hefur þó svo farið, að það hefur strandað einhvers staðar á leið sinni gegnum þingið. Síðast í fyrra var þetta frv. afgreitt út úr þessari d., en strandaði þá í dyrum Nd. Frá fyrri útgáfu frv. gerðu flm. þá þær breytingar, að tölur hækkuðu til samræmis við breytta tíma, en d. gerði á frv. nokkrar orðalagsbreytingar.

Kornrækt hér á landi mun vera jafngömul Íslandsbyggð, en lagðist síðar niður um aldaraðir, sennilega mest vegna kólnandi veðurfars. Á hinum síðustu áratugum hefur veðurfar batnað hér á landi, miðað við það, sem var t.d. á 19. öld. En út í það verður þó ekki farið hér, þótt margt mætti um það segja.

Nokkrir framtakssamir menn, bændur, hafa á síðustu áratugum hafizt handa um að gera tilraunir með ræktun korns, og á skýrslum þeirra um árangur þeirra tilrauna var frv. þetta byggt að mestu. Í fáum orðum sagt: þær þóttu hafa gefið þá raun, að allmikils árangurs mætti vænta af kornyrkju hér á landi, einkum í hinum veðursælli byggðarlögum, eins og t.d. á Fljótsdalshéraði og Suðurlandsundirlendinu.

Frv. þetta stefnir að því að örva og styrkja með fjárframlögum til vélakaupa kornræktaraðila, er taka minnst 10 hektara lands til kornræktar og skuldbinda sig um leið til að halda því áfram um 10 ára tímabil, en vélar til kornyrkju eru alldýrar. Eftir reynslu t.d. Sveins á Egilsstöðum og Klemenzar á Sámsstöðum er kornrækt í veðursælli sveitum a.m.k. viðlíka árviss, og kartöflurækt eða jafnvel árvissari. Og haldist tíðarfar eins hlýtt nú um sinn og verið hefur, þá ætla ég, að það sé miður farið, að ekki sé verulega gert að því að auka áhuga manna og styrkja þá til að hefjast handa um þessa atvinnugrein.

Landbúnaðarframleiðsla okkar Íslendinga er lítil og fáskrúðug. Hér til hefur okkar þjóð, hina síðustu áratugi a.m.k., einkum stefnt að því að beina sínu fjármagni í útgerð og skipakaup. Ég vil ekki gera lítið úr gildi útgerðar, en benda þó á, að fiskveiðar eru rányrkja, sem þegar er búin að valda stórspjöllum á fiskstofnum kringum landið með ofveiði, og á ég þar einkum við dragnót og botnvörpu, og það mun vera meira en vafasamt, að nokkurt vit sé í því að treysta fyrst og fremst allt í gegn á þennan atvinnuveg fyrir þetta þjóðfélag. Vaxandi veiðitækni mun valda þverrandi veiðiföngum, því að það eyðist, sem af er tekið, nema fiskarækt einhvers konar komi til í stórum stíl.

Rányrkja á landi hefur þegar dæmt sjálfa sig úr leik, eins og mýmörg dæmi mætti nefna um. Þar er ræktunin ein, sem getur staðið undir vaxandi framleiðslu á sviðum dýraríkis og jarðargróðurs. Ég held, að bezta og öruggasta framtíð okkar sé ræktun landsins. Hér er enn geysimikið land óræktað. Allir þekkja túnin, hversu þau geta gefið mikið gras, þegar vel er að þeim búið. Þá má nefna garða og gróðurhús.

Höfum við ráð á því og efni að vanrækja kornyrkjuna og láta fara um hana eins og verkast vill? Þó nokkur reynsla hefur þegar sýnt, að af henni má allmikils vænta, a.m.k. í betri sveitum, að því er veðurfar snertir. Hér til lands er árlega flutt inn mikið magn af kornfóðri til skepnufóðurs, því að nauðsynlegt er að gefa skepnum nokkuð af fóðurkorni með heyi og öðrum innlendum mjöltegundum, t.d. fiskimjöli. Ég ætla, að það séu 60–70 millj., sem fara fyrir fóðurvörur, sem fluttar eru inn í landið árlega nú um þessar mundir, og það er allmikill peningur. Þann pening ætla kunnugir menn á sviði kornyrkjunnar að mætti verulega spara eða máske að mestöllu leyti, ef kornyrkja kæmist verulega á stað hér á landi. Ég held, að það sé ekki sérlega mikil bjartsýni að láta sér detta það í hug. Og þessi fóðurvörukaup munu fara vaxandi, eftir því sem fénaði fjölgar í landinu, og honum verður að fjölga, ef vel á að fara fyrir okkar þjóðfélagi.

Ég vil ekki fjölyrða verulega um þetta mál, en vil aðeins drepa þó á þann kostnað, sem það opinbera kæmi til með að bera af því, ef þetta frv. væri samþykkt. Ef eins margir kornyrkjumenn eða kornyrkjufélög fengjust til framkvæmda og lögin gera ráð fyrir, þá gætu það verið einnar millj. kr. útgjöld á ári fyrir ríkið samkv. lögunum, ef frv. er samþykkt óbreytt, eins og það liggur hér fyrir. En sé hins vegar farið eftir brtt. okkar í meiri hl., mundi þetta geta orðið 500 þús. kr. á ári. Þetta er að mínu áliti ekki ýkjamikill peningur, og gengi þessi upphæð til styrktar vélakaupum.

Brtt. meiri hl. er sem sagt sú, að þessi upphæð, 200 þús. kr. sem hámark til hvers félags, sem tæki að sér tíu ára kornyrkju, færist niður í 100 þús., og er það sama upphæð og frv. gerði ráð fyrir í fyrra, eins og það var afgreitt héðan úr þessari deild. Auk þess yrði og greiddur sami ræktunarstyrkur á hektara fyrir frumvinnslu lands og greitt er fyrir túnrækt. Ef um svona mikla þátttöku yrði að ræða, fimm ný kornyrkjufélög á ári, þá þýðir það eitt, að málið er fyllilega tímabært og komið á allgóðan rekspöl með það, að kornyrkjan nái þeirri fótfestu og útbreiðslu eins og nokkrar vonir virðast standa til að hún geti náð. Hins vegar ef reynslan yrði sú, að færri, máske miklu færri, fengjust til þátttöku, yrði kostnaðurinn miklu minni. Ég held, að hér sé svo mikið í húfi, að það sé að spara eyrinn, en kasta krónunni að setja fyrir sig 500 þús. til einnar millj. kr. kostnað á ári til þessarar tilraunastarfsemi. Í byrjun yrði þetta náttúrlega nokkurs konar tilraun, sem ekki er hægt að fullyrða um fyrir fram, hvernig tækist, en miklar vonir standa til, að geti tekizt vel.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl., mælir meiri hl. með því, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem ég hef þegar vikið að sumum hér nú þegar. Þær ganga flestar í þá átt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, er leiða mundi af samþykkt frv. Bæði er, að við höfum viljað stilla kröfum eins í hóf og frekast er unnt, einnig hitt, að með brtt. færist frv. í nálega sama stakk og hv. Ed. gekk frá því í fyrra að vel athuguðu máli, og síðan hefur ekki teljandi verðhækkun orðið á kornyrkjuvélum eða öðrum kostnaði. Ég tel réttara að stilla kostnaðarkröfum á hendur hins opinbera svo í hóf, að málið hafi möguleika til að ná framgangi, heldur en að reisa þær kröfur svo hátt í byrjun, að það máske strandi fyrir það, því að fjárhagur er, eins og við vitum, ekki sérlega góður um þessar mundir.

Brtt. skýra sig, held ég, nokkuð sjálfar. 1. gr. er færð til sama búnings og merkingar og hún hefur verið frá fyrstu hendi. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort lögin eigi að binda hendur landbrh. um að fela vissri stofnun framkvæmdir laganna eða hann skuli þar um hafa valfrelsi, því að um ýmsa aðila aðra getur verið að ræða en Búnaðarfélag Íslands. Ég geri ekki mikið atriði úr þessari brtt., en greinin er færð til samræmis eins og mbn. mun hafa gengið frá henni upphaflega og hún síðan endurflutt í því formi síðar.

Breyt. á 5. gr. frv. færa frv. einnig í þann stakk, sem það var afgreitt í héðan í fyrra, nema að nú er niður fellt, að greiða skuli hálfan jarðræktarstyrk vegna sáningar og vinnslu á ökrum ár hvert. Ég hef orðið þess var, að þetta atriði er nokkur þyrnir í augum sumra alþm., og að okkar dómi er allmikið ósamræmi í því, að það sé gert að lagaákvæði að greiða kornræktarmönnum rekstrarstyrk, — ósamræmi, samanborið við aðra ræktun. Það er ekki neins staðar annars staðar, svo að ég viti, greiddur rekstrarstyrkur vegna ræktunar, heldur miðast jarðræktarlögin við það og einnig þetta lagafrv. að styrkja undirstöðuna eða að koma ræktuninni og starfseminni af stað, gera mönnum mögulegt að koma henni af stað.

Á 8. gr. hef ég raunar minnzt áður. Húfi færir vélastyrkina niður í sömu upphæð og var í frv. í fyrra, eins og d. gekk frá því þá. Að hækka þá upphæð nú um helming ætla ég að sé ofrausn, sem bæti ekki fyrir framgangi málsins.

Ég held, að það sé þá ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta mál. Ég tel málið það mikilsvert, að frv. ætti að ná samþykki á þessu þingi.