31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í grg. þessa frv., sem gefa mér tilefni til örstuttra aths. Þessi atriði endurtók hv. 1. flm. einnig í ræðu sinni áðan, og undirstrikar það nauðsyn þess, að þau atriði séu leiðrétt þegar.

Í upphafi grg. frv. frá því í fyrra segir svo, með leyfi hæstv. forseta, en þau orð las hv. flm. einnig í ræðu sinni: „Aldrei hefur verið við öðru búizt, þegar Ræktunarsjóður Íslands og byggingarsjóður sveitabæja hafa verið látnir taka lán, en að ríkið þyrfti við og við að létta lánabyrðina.“ Sú staðhæfing, sem í þessari setningu felst, er alröng og algerlega úr lausu lofti gripin.

Í fyrsta lagi er það rangt og óviðkunnanlega til orða tekið, þegar hér er sagt, að þessir sjóðir hafi verið látnir taka lán. Hver lætur þessa sjóði taka lán? Um þá gilda sérstök lög, og þeir lúta sérstakri stjórn samkv. þeim lögum. Þeir eru sjálfstæðar persónur að lögum með sérstakri stjórn. Það er sú stjórn, sem hefur ákveðið að taka lánin. Ríkisstj. þær, sem ég hef átt sæti í, hafa engin afskipti þar haft af, enda ekkert vald til þess að láta þessa sjóði taka lán. Þau lán, sem á þessum sjóðum hvíla, eru því tekin með frjálsri ákvörðun stjórnar sjóðanna, sem er í höndum Búnaðarbanka Íslands.

Hin staðhæfing setningarinnar er þó enn fráleitari og ég segi enn ámælisverðari sem setning í grg. fyrir frv., að aldrei hafi verið við öðru búizt, þegar þessir sjóðir taka lán, en að ríkið þyrfti við og við að létta lánabyrðina. Það er ekki ein setning í löggjöfinni, hvorki fyrri né síðari löggjöf um Ræktunarsjóð Íslands og byggingarsjóð sveitabæja, sem gefur stjórn sjóðanna minnsta tilefni til þess að álykta, að Alþingi telji það skyldu sína að létta öðru hverju þá lánabyrði, sem á sjóðunum hvílir. Það er ekki ein setning í löggjöfinni um þessa sjóði, sem gefur stjórn sjóðanna nokkra minnstu átyllu til þess að halda, að Alþ. skoðaði það sem skyldu sína að létta öðru hverju lánabyrði þessara sjóða. Ef það hefði verið vilji Alþingis, að það skyldi verða gert, hefðu einhver ákvæði um það auðvitað verið sett í löggjöfina um sjóðina. Hitt er svo allt annað mál, að Alþingi hefur, að því er ég held tvívegis, tekið sérstaka ákvörðun um að greiða fyrir þessum sjóðum með sérstökum fjárframlögum, og er að því vikið í grg., en það var gert 1953 og 1957, að létt var af þessum sjóðum um 29 millj. 1953 og 37 millj. 1957. En þetta voru framlög, sem veitt voru í þessi ákveðnu skipti til þessara sjóða í vandræðum þeirra. M.a. í því, að þetta voru framlög, sem veitt voru í þessi ákveðnu skipti, í síðara skiptið ráðstöfun á greiðsluafgangi á fjárlögum, kom einmitt skýrt og greinilega fram, að það er engin skylda, að það hefur aldrei verið litið á það sem nokkra skyldu af hálfu Alþingis að hlaupa við og við til og létta lánabyrði þessara sjóða.

Það er líka alrangt, þar sem segir í grg., að það hafi verið venja, að ríkissjóður hafi með nokkru millibili tekið kúfinn af skuldum sjóðanna. Venja skapast ekki við það, að Alþingi tekur sérstaka ákvörðun tvívegis um það að láta fé renna í þessa sjóði til þess að greiða úr erfiðleikum þeirra.

Þá segir og í grg., sem er á sömu bókina lært, — þar segir, með leyfi hæstv. forseta, þegar búið er að lýsa rekstrarhalla ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs á s.l. ári, sem nam um 5 millj. kr.: „Er því tími til þess kominn, að ríkissjóður hlaupi undir bagga, eins og venjulegt hefur verið og skylda hans er, þar sem sjóðirnir eru stofnanir ríkisins.“ Þessu vil ég alveg sérstaklega andmæla, að það sé skylda ríkissjóðs eða Alþingis að hlaupa undir bagga með þessum sjóðum, þegar þeir komast í greiðsluþrot, eins og nú liggur við að yfir þeim vofi. Taka sjálf lögin um sjóðina af öll tvímæli um þetta efni, því að þar er, eins og ég sagði áðan, enga setningu um slíka skyldu að finna. Hennar gæti þó hvergi verið að leita nema þar.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var annars ekki einvörðungu sú að andmæla þessum röngu staðhæfingum í grg., heldur einnig að láta það koma fram, sem um þetta hefur áður verið rætt í þeirri ríkisstj., sem ég átti sæti í á árunum 1956–59, en þrjú lán, sem hér er gert ráð fyrir að gefa eftir, vörukaupalánin á árunum 1957, 1958 og 1959, sem tekin voru hjá Efnahagssamvinnustofnuninni í Washington, voru tekin einmitt á tímum þessarar ríkisstjórnar. Ég vil, að það komi skýrt fram, að þess var í ríkisstj. á þeim tíma getið af hálfu Alþfl. og kom í minn hlut að taka fram þá, að það væri skoðun Alþfl., að þessi lán bæri þessum stofnlánasjóðum Búnaðarbankans að lána með sams konar gengisákvæði og þau yrðu tekin til þess að stefna ekki fjárhag þessara sjóða í fullkominn voða. Svo sem kunnugt er, þá er Framkvæmdabankinn sá aðili, sem lánin tók í Washington í erlendum gjaldeyri. Framkvæmdabankinn hefur síðan endurlánað ræktunarsjóði og byggingarsjóði þessi lán með því ákvæði, að ef gengi krónunnar breytist, þá skuli ræktunarsjóður og byggingarsjóður endurgreiða í íslenzkum krónum upphæð, sem svari hinum erlenda gjaldeyri. Þessu var af hálfu ráðh. Framsfl. andmælt og vitnað til þess, að sjóðirnir væru sjálfstæðar stofnanir, sem tækju sínar eigin ákvarðanir, og það væri vitað, að sjóðirnir vildu ekki endurlána þessi lán með gengisákvæði, og yfir því hefði ríkisstj. í sjálfu sér ekkert að segja. En það var tekið skýrt fram af hálfu okkar ráðh. Alþfl., að við teldum þetta hið mesta óráð og hinn háttinn ætti á að hafa, ella mundi hag þessara stofnana mjög bráðlega vera siglt í mikla tvísýnu. Ég hygg mig ekki vera að skýra frá neinu, sem mér er óheimilt að skýra frá, þó að ég láti það einnig koma fram hér, að ráðherrar Alþb. höfðu sömu skoðun á málinu. Þáv. viðskmrh., Lúðvík Jósefsson, tók það fram sem skoðun Alþb. í málinu, að þetta ætti að gera. En allt kom fyrir ekki. Þetta var ekki gert, beinlínis af því, að sjóðirnir voru taldir sjálfstæðar stofnanir, sem færu með sín mál eins og lagaákvæði gerðu ráð fyrir, þ.e. sjóðirnir væru sjálfstæðir og þyrftu ekki að lúta ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, að því leyti væri alveg ástæðulaust fyrir ríkisstj. að vera að fjalla um, hvort lánin skyldu endurlánuð með gengisklásúlu eða ekki. Það vildi ég sem sagt láta koma skýrt fram í sambandi við þetta, að þetta var skoðun Alþfl. á þessum tíma og þessi er skoðun Alþfl. enn á málinu.

Þessar umr. leiddu alveg skýrt í ljós, að ríkisstj. eða Alþ. hefur enga og getur enga skyldu haft til þess að bæta tjón, sem þessir sjóðir verða fyrir með þessum hætti. Í þessum umr. í ríkisstj. kom heldur ekkert fram, sem benti til þess, að það væri skoðun ráðh. Framsfl., að Alþingi bæri skylda til þess að létta slíkri ábyrgð af þessum sjóðum. Það kom ekkert fram í þá átt, enda erfitt að finna rökstuðning fyrir því, að um nokkra slíka skyldu sé að ræða.

Að síðustu held ég svo, að nauðsynlegt sé, að það komi fram, hvað þessi stefna hefur raunverulega að þýða fyrir þessa stofnlánasjóði landbúnaðarins, ræktunarsjóð og byggingarsjóð sveitabæja, sú stefna að taka stór lán erlend, — hér eru talin upp lán að upphæð 3.7 millj. dollara, — sem auðvitað verður að endurgreiða í erlendum gjaldeyri, en öll hafa verið endurlánuð, hver eyrir af þeim, án þess að lántakandinn beri nokkra gengisáhættu. Þetta er búið að hafa í för með sér að því er snertir ræktunarsjóðinn, að skuldir hans nema nú meira en eignir hans, að ræktunarsjóður er í raun og veru gjaldþrota fyrirtæki, gjaldþrota stofnun. Í árslok 1959 námu eignir ræktunarsjóðsins 237.7 millj. kr., en skuldir hans námu sem hér segir í lok s.l. árs, eftir að erlendu lánin hafa verið umreiknuð á núverandi gengi: Erlend lán námu 175.3 millj. kr., lán í mótvirðissjóði 80.1 millj. kr., skuldir í Seðlabankanum 5.0 millj. kr. Skuldirnar námu þannig, miðað við reikningsskil í lok s.l. árs, 260.4 millj. kr., en eignirnar, skuldabréfin, 237.7 millj. kr. Skuldir ræktunarsjóðs voru því, miðað við reikningsskilin við síðustu áramót, 22.7 millj. kr. meiri en eignirnar. Það vantaði 22.7 millj. kr. á það, að ræktunarsjóður ætti fyrir skuldum.

Um byggingarsjóðinn er það þannig, að eignir hans eru 100.6 millj. kr., erlend lán hans 39.2 millj. kr. á núv. gengi, skuld við veðdeild Landsbankans 36.1 millj. kr. og aðrar innlendar skuldir 5.5 millj. kr., þannig að skuldir hans nema 80.8 millj. kr. Hann á því enn höfuðstól að upphæð 19.8 millj. kr. En ef ræktunarsjóður og byggingarsjóður eru teknir saman, ef þessar stofnlánadeildir landbúnaðarins í Búnaðarbankanum eru teknar saman, vantar þær samtals 2.9 millj. tæpar 3 millj. kr. — til þess að eiga fyrir skuldum.

Þetta er afleiðingin m.a. af þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í lánamálum þessara aðalfjárfestingarsjóða landbúnaðarins. (Gripið fram í: Hvernig er það hjá fiskveiðasjóði?) Hliðstæðar tölur? (Gripið fram í: Já.) Þetta veit hv. þm. áreiðanlega. Aðeins eitt tiltölulega lítið erlent lán hefur verið tekið og endurlánað án gengisklásúlu, aðeins um 14 millj. kr., sem er svo lítill hluti af því fé, sem fiskveiðasjóður hefur til umráða, að vandamálið þar er ekkert svipað þessu, ekkert skylt því. Það litla lán, sem er eina lánið, sem fiskveiðasjóður hefur tekið erlendis, að upphæð 14 millj. kr., ef ég man rétt, það skakkar ekki miklu, fiskveiðasjóður hafði í raun og veru mælzt undan að taka það, af því að það var í erlendum gjaldeyri. En það hefur engin áhrif á raunverulegan fjárhag fiskveiðasjóðs, vegna þess að þetta lán er aðeins örlítill hluti af þeim hundruðum milljóna, sem hann hefur í veltunni. Auk þess hefur verið svo tryggilega gengið frá fjárhag fiskveiðasjóðs í samanburði við þetta, að sjávarútvegurinn sjálfur greiðir til hans ákveðinn hundraðshluta af verði allrar útfluttrar vöru, og nema tekjur fiskveiðasjóðs af því árlega um 24 millj. kr., þannig að hagur fiskveiðasjóðsins batnar á hverju ári vegna skattlagningar sjávarútvegsins sjálfs um 24 millj. kr. Landbúnaðurinn sjálfur greiðir ekkert, bókstaflega ekki neitt, ekki einn eyri, af sínu framleiðsluverðmæti til þessara sjóða, heldur hefur verið reynt að halda lánastarfsemi þeirra áfram með því að taka erlend lán, — svo að segja eingöngu erlend lán, — auk þess sem veitt var á fjárlögum, með þessum afleiðingum, að sjóðirnir eru nú gjaldþrota. Hagur fiskveiðasjóðs er hins vegar mjög góður. Og þar einmitt kemur fram sá mikli munur, sem hefur verið á stjórn fiskveiðasjóðs og stjórn þessara fjárfestingarsjóða landbúnaðarins.

Allur vandi þessara sjóða kemur ekki fram í því, að sjóðirnir eru nú í raun og veru gjaldþrota. Þó að það virðist vera í raun og veru nóg vandamál, þá er vandinn þar samt sem áður enn meiri, því að málefnum sjóðanna er nú þannig komið, að gjaldþrot þeirra verða stærri og stærri með hverju árinu sem líður, ef ekki eru gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir, því að sjóðirnir eru reknir með stórkostlegum halla á hverju einasta ári. Sjóðirnir lána út fé sitt með miklu lægri vöxtum en þeir sjálfir greiða af þeim lánum, sem þeir taka. Vaxtatap ræktunarsjóðs mun nú nema um 4½ millj. kr. á ári, sem rýrði höfuðstólinn, meðan höfuðstóll var, en bætist nú við skuldir umfram eignir. Vaxtatap byggingarsjóðs er um 2 millj. kr. á ári, sem rýrir þann höfuðstól, sem hann nú á og er um 20 millj. kr., svo að vaxtatapið eitt mundi éta höfuðstólinn upp, eins og hann er núna, á einum 10 árum. Sagan er þó ekki öll sögð með þessu, því að greiðslugeta þessara sjóða rýrnar árlega af þeim sökum, að lánin, sem sjóðirnir veita, eru til mun lengri tíma en lánin, sem sjóðirnir fá og rýrir þetta stöðuna enn mjög verulega ár frá ári, en einkum og sér í lagi á þetta þó við um byggingarsjóðinn. Að því er snertir fjárframlögin, sem þessir sjóðir fá á fjárlögum, er það að segja, að rekstrarkostnaður sjóðanna er svo óeðlilega hár, — mér liggur við að segja: svo hneykslanlega hár, — að fjárveitingarnar gera ekki meira en duga fyrir árlegum rekstrarkostnaði sjóðanna, svo að af því fé, sem Alþingi veitir til sjóðanna, kemur nær ekkert til viðbótar höfuðstól sjóðanna, heldur gengur allt í rekstrarkostnað þeirra. Hér er því raun og veru allt á eina bókina lært.

Ég hygg, þó að mér sé ekki mjög gjarnt á að nota mjög stór orð, að ekki verði komizt hjá því að segja, að fjárstjórn þessara tveggja fjárfestingarsjóða landbúnaðarins verði að teljast til einhverra mestu mistaka í fjárhagsmálum íslenzku þjóðarinnar, frá því að innlendu bankakerfi var komið á laggirnar. Ég veit, að þetta eru stór orð, en ég hygg að þau séu ekki of stór í því tilefni, sem hér er um að ræða. Ég hygg, að ekki sé hægt að viðhafa önnur orð en þessi um fjárstjórn, sem leitt hefur til þess, að þessir tveir sjóðir til samans teknir eiga nú ekki fyrir skuldum, vantar 3 millj. upp á, að þeir eigi fyrir skuldum, og að þeir eru reknir þannig, að það er árlegt vaxtatap á þeim upp á 6½ millj. kr., og til viðbótar því eru lánin, sem þeir veita, til svo miklu lengri tíma en lánin, sem þeir taka, að árleg greiðslugeta þeirra rýrnar stórkostlega, og í síðasta lagi svo þannig, að rekstrarkostnaðurinn er svo hár, að hann gleypir allt framlag til sjóðanna sjálfra, sem Alþingi veitir á hverju ári. Þetta eru allt saman dæmi um svo alvarleg mistök í fjárstjórn þessara sjóða, að við svo búið má ekki lengur standa.

Ég hygg þó, að ég hefði látið þetta allt saman kyrrt liggja, ef grg. frv. væri ekki með þeim hætti, að ekki er hægt að láta henni ómótmælt. Sérstaklega þegar mætti skilja grg. þannig, að a.m.k. 3 af lánunum, sem talað er um að gefa eftir, sem tekin voru á tímum ríkisstj., sem ég átti sæti í, hefðu verið tekin þannig, að ríkisstj. teldi skyldu sína að beita sér fyrir því, að Alþingi bætti hallann, sem af lántökunum hlaut að leiða, þá vildi ég láta koma skýrt fram, að það er alrangt.

Um efni málsins að öðru leyti skal ég ekki ræða, þd. að vissulega ástæða væri til að ræða sérstaklega um, að flutt skuli vera frv., ein efnisgrein, sem felur í sér, að Alþingi gefi tveimur lánastofnunum 140 millj. kr. Út af fyrir sig gæfi það tilefni til þess að ræða lánamálin yfirleitt á breiðum grundvelli. Ég skal þó ekki gera það á þessu stigi málsins. Hitt var aðalatriðið fyrir mér, að leiðrétta það, sem missagt er í grg. um skyldu Alþingis til að leysa úr vanda þessara sjóða og það hafi skapazt slík venja um, að ríkissjóður geri slíkt. En fyrst nauðsynlegt var að leiðrétta þessi atriði í grg., þótti mér rétt að láta það koma skýrt fram, sem kom ekki fram í ræðu hv. frsm., hversu hörmulega hag þessara sjóða er því miður í raun og veru komið.