31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (2257)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því, að hæstv. menntmrh. svaraði engu um það, hvort hann talaði fyrir hönd Alþfl. eða fyrir hönd ríkisstj. í heild. Það verður að líta svo á, að hann tali hér fyrir hönd ríkisstj. í heild, fyrst hann lýsir ekki öðru yfir, að gefnu tilefni, og það er um það spurt.

Annars var þessi ræða hinn furðulegasti hringsnúningur, ég verð að segja: eins og þegar skóladrengur er að tala. Og það er furðulegt að þurfa að hlusta á annað eins tal og það, að ráðherra stendur hér og gortar af því, hvað sjóðirnir séu illa stæðir, — maðurinn, sem í ríkisstj. hefur fyrst og fremst og manna mest beitt sér fyrir þeirri gengisbreytingu, sem hefur komið sjóðunum á vonarvöl. Af þeirri eftirgjöf, sem hér er farið fram á, reiknast mér til, að það séu 90 millj., sem hefur verið bætt ofan á sjóðina með gengisbreytingunni. Hann er svo að gorta hér og hlakka yfir því, hvað sjóðirnir séu illa stæðir. Ræktunarsjóðurinn mundi án gengisbreytingarinnar hafa átt 60 millj. Það er hæstv. ráðh., sem hefur komið hag sjóðanna í þetta horf fyrst og fremst, og svo stendur hann hér og gortar yfir þessu. Hvers konar innræti er þetta? Hvers konar hugsunarháttur er í þessum manni? Hann segir, að þetta sé sjóðsstjórnunum að kenna.

Og það er fleira, sem er alveg furðulegt í málflutningi þessa ráðh. Hann lemur höfðinu við steininn og segir: Það eru sjóðsstjórnirnar, — ég bið ykkur að taka eftir, — það eru sjóðsstjórnirnar, sem bera ábyrgð á rekstri sjóðanna og bera ábyrgð á því, hvernig komið er. Ég kallaði fram í fyrir honum og sagði. Ég ætti að þekkja þetta, því að ég hef gefið þessa fyrirskipun sem ráðherra. — Hvernig eru fyrirskipanir gefnar af ráðh.? Þær eru a.m.k. aðallega gefnar þannig, að grundvöllurinn bak við fyrirskipanirnar er lög frá Alþ. Aðrar fyrirskipanir gefur ráðh. ekki, nema hann hafi beint eða óbeint lagaheimild til þess frá Alþingi, enda kom það í ljós, þegar hann fór að tala áðan, að vextirnir af þeim lánum, sem sjóðirnir veita, eru ákveðnir af Alþingi. Ráðh. kemur með lög frá Alþ., sem hann leggur fyrir og fær samþykkt, réttir sjóðsstjórninni og segir: Hér eru reglurnar. Þessa vexti er þér skylt að taka og ekki meira. — Hvernig getur nokkur ráðherra síðan talað þannig, að þetta sé úr sinni ábyrgð? Og hver sá, sem hér heyrir mál mitt, tekur slíkt tal alverlega, af því að síðan segir hann, þegar hann er búinn að sleppa orðinu og segja: Það er fyrirskipað með lögum frá Alþ., hvaða vexti hæsta sjóðirnir mega taka, — þá segir hann: Það er sjóðanna, það er sjóðsstjórnanna að sjá sér fyrir tekjum til þess að geta lánað út með þessum vöxtum. — Hvernig lízt ykkur á þessa, málfærslu? Ég satt að segja vil heyra, ef hæstv. ráðh. kann einhver ráð við því að láta fyrirskipa sjálfum sér í stjórn einhvers fyrirtækis að lána með 2½% vöxtum eða 3% vöxtum, þegar lánamarkaðurinn er 6 og 7%. Hvernig ætlar hann að fara að því? Það væri fróðlegt að heyra? Hvernig ætlar hann að fara að því sjálfur í stjórn slíks sjóðs að útvega peninga fyrir lægri vexti en eru á lánamarkaði? Hvernig ætlar hann að fara að því? Vitanlega eru sjóðsstjórnirnar bundnar við þetta tvennt: þá fyrirskipun, sem þær hafa frá Alþ., að veita lágu með lágum vöxtum til þess að styrkja landbúnaðinn, og við hitt, hver lánamarkaðurinn er á hverjum tíma. Það er það, sem sjóðirnir verða að búa við og hafa orðið að búa við, eins og allir einstaklingar, sem taka lán, án þess að það sé heimilað í lögum, og eins og allar stofnanir.

Þetta er harla furðulegt tal hjá ráðh., að segja, að sjóðstjórnirnar eigi að útvega peninga til þess að sjá fyrir því að geta lánað með lágum vöxtum. (Menntmrh.: Eða aðrar tekjur.) Ég skal lofa hæstv. ráðh. að taka fram í. Hann vill kannske benda á ráð, hvernig á að ná í þessar tekjur. Ég skal stanza og gefa honum tíma til þess að tala. (Menntmrh.: Ég skal tala hér á eftir.) Það er bezt að tala strax. Sjálfsagt eru ráð til, því að annars hefði ráðh. ekki talað svona.

Vitanlega kemur af þessu í ljós það, sem ég sagði áðan og er fullsannað með þessum upplýsingum ráðh. að vextirnir eru bundnir í lögum, að það er Alþingi, það er sú stjórnarstefna, sem ráðið hefur á Alþingi hverju sinni, eins og ég sagði í upphafi máls míns, sem hefur ráðið þeirri pólitík, sem sjóðirnir hafa orðið að reka, af því að hún hefur beinlínis verið skipuð í lögum frá Alþingi. Hvað skyldi hafa verið sagt, ef sjóðsstjórnirnar, þegar komið var til þeirra og sagt: Þið verðið að taka þetta lán, þið getið fengið þetta lán til þess að lána út, — hvað hefði hæstv. menntmrh. sagt um sjóðsstjórnirnar, þegar hann var í ríkisstj., ef það hefði verið tekið lán af ríkisstj. og sagt við sjóðina: Þetta lán fáið þið með þessum kjörum til þess að lána það út með þeim vöxtum, sem Alþ. hefur ákveðið, — hvað haldið þið, að hefði sungið í þessum hæstv. ráðh., ef stjórnin hefði sagt: Við tökum ekki lánin. Við neitum þessu. Við neitum að taka þetta?

Þetta allt sýnir það, sem ég hef verið að sanna, — og þar með er hrakið allt saman, sem ráðh. heldur fram, — að stjórn sjóðanna er í höndum Alþ. og ríkisstjórnanna, í höndum Alþ. að því er snertir vextina, eins og ég margsinnis hef tekið fram, og í höndum ríkisstj. með þeim lánum, sem rétt eru sjóðunum og þeim skipað að lána út með ákveðnum vöxtum og taka með hærri vöxtum. Það er alveg tvímælalaust, að það mundi hver maður, sem höfðaði mál á móti sjóðunum til þess að fá skuldbindingum sínum fullnægt, fá greiðslur sínar úr sjóðunum, og ef sjóðirnir gætu ekki innt af hendi, þá mundi sá maður vinna mál fyrir dómstólum þjóðarinnar af þeirri einföldu ástæðu, að þetta eru ráðstafanir, útlánin eru öll ráðstafanir, sem ríkisstj. og Alþ. gera sameiginlega.

Það er þess vegna hægt að slá því föstu og þarf ekki að slá því föstu fyrir neinum alþm., held ég, það þarf ekki að rökræða frammi fyrir neinum alþm. nema þessum hæstv. ráðh., að það eru vitanlega ríkisstjórnirnar og Alþingi, sem bera ábyrgð á því, hvernig rekstri sjóðanna er háttað. Og það er alveg furðulegt, að nokkur ráðh. skuli koma hér upp og deila um það atriði.

Nú fór hann einu sinni enn í kringum sjálfan sig, þessi hæstv. ráðh., í þessu sama máli. Nú segir hann: Vitanlega er ekki verið að fjandskapast við landbúnaðinn. Það á vitanlega, segir hann, að styrkja landbúnaðinn hér á Íslandi eins og annars staðar. Það er alveg tvímælalaust. Það verður að gera það hér eins og annars staðar. — Og svona fer hann heldur að draga í land af því sem hann hafði talað áður. En hvað sannar þetta? Hann segir að vísu: Það er mjög vafasamt, að lánapólitíkin og lágir vextir séu rétta leiðin. Það er ein leiðin, en það er vafasamt, að það sé eina leiðin, og kann að vera, að aðrar leiðir séu skynsamlegri. — Athugum nú þetta.

Ég ætla ekki að rökræða út af fyrir sig þá þekkingu á íslenzkum högum og íslenzkum landbúnaði sérstaklega, sem kemur fram í þessu. Hér á Íslandi, hefur til skamms tíma allt verið óuppbyggt í landbúnaðinum. Hér á Íslandi hefur gagnstætt því, sem hefur átt sér stað í öðrum löndum, allt verið ógert, ræktun, útihúsabyggingar og íbúðarhúsabyggingar fyrir bændurna í landinu. Þetta hefur verið gert mestallt á seinustu áratugum, nokkrum áratugum. Vegna hvers? Vegna lána og lágra vaxta. Án þess að fara að rökræða það, þá er ég ekki í neinum vafa um, að það sáu þeir, sem beittu sér fyrir þessum ráðstöfunum, að einmitt hér, þar sem allt er óuppbyggt, þar sem menn bjuggu í moldarkofum, þar sem við byggðum moldarkofa eftir moldarkofa yfir heyin og fénaðinn og þar sem verið var að auka ræktunina til þess að skapa hér nýtízku landbúnað, þá eru það lánin og lágu vextirnir, sem þurftu að koma til, og án þess var þetta útilokað. Við stæðum enn í ekki ólíkum sporum og við stóðum fyrir nokkrum áratugum, ef ekki hefði verið tekin upp þessi landbúnaðarpólitík, að lána fé og lána það með lágum vöxtum til að byggja upp í þessu landi. Það var sú hlið á málinu, sem þurfti að vinna að hér frekar en að öllu öðru. Annars staðar eða þar, sem landbúnaðurinn er kominn í fast horf, koma styrkirnir fram í öðru formi.

Það er viðurkennt, að styrkirnir til landbúnaðarins koma hér á Íslandi fram í því formi að ætla að hafa lága vexti. Hvað lága vexti? Vexti, sem eru raunverulegir styrkir og svo lágir, að þeir eru langt fyrir neðan lánamarkaðinn og þess vegna í raun og veru styrkir til bændanna, sem eru að byggja upp. Hverjir framkvæma þessar styrkveitingar, hafa framkvæmd á hendi fyrir ríkið á þessum styrkveitingum? Sjóðirnir hafa hana á hendi. Sjóðirnir hafa þessa styrkveitingu á hendi með því að taka lán, sem eru á almennum lánamarkaði, og fá svo fyrirskipun frá ríkisstj. um það í lögum frá Alþingi, sem vitanlega ráðh. fylgir eftir, að það skuli lána þetta fyrir helmingi lægri vexti en sjóðirnir þurfa að borga sjálfir. Svo kemur þessi ráðherra og segir: Þetta er aðalstyrkjapólitíkin til landbúnaðarins, en svo eiga bara sjóðsstjórnirnar að sjá fyrir þeim milljónatugum, sem fara í þessa styrki, og sjá fyrir því að útvega peninga til þess að geta staðið undir þessum lágu lánum. — Hvers konar málfærsla er þetta? Sjóðsstjórnirnar eiga að skapa það fé, eiga að skapa vaxtamismun á útlánum og til lánveitenda. Það er ekki leiðinlegt hlutskipti. Ef hann getur bent á einhver úrræði til þess að skapa þessa tugi milljóna, sem er mismunurinn á útlánsvöxtum og þeim vöxtum, sem sjóðirnir þurfa að borga, þá held ég, að ég vildi mæla með því, að hann tæki að sér stjórn þessara sjóða og hætti við ráðherradóminn, ef hann getur bara eins og töframaður búið til alla þá peninga, sem eru í áratugi tugir milljóna í styrkjum til landbúnaðarins á Íslandi. Ég segi bara við hann: Þú færð hér peninga og borgar af þeim 6–7% vexti, en svo lánarðu þá út með 3% vöxtum. Svo verður þú að sjá fyrir mismuninum sjálfur. Sjóðsstjórnin verður að sjá fyrir því og verður að útvega sér peninga til þess að geta lánað svona.

Þetta er málfærsla úr ráðherrastóli, — finnst ykkur það ekki? — að segja: Sjóðirnir eru sjálfstæðir, það er allt þeirra sök, að það er orðinn halli á þeim, — en viðurkenna um leið, að þetta sé pólitík ríkisstj. um lága útlánsvexti, en vitanlega borga sjóðirnir sömu vexti og aðrir vilja lána þeim gegn.

Þetta mál verður áreiðanlega ekki útrætt núna. Það er áreiðanlegt, að það verða að gefnu tilefni mjög langar umr. um þetta mál í þessari hv. d., enda hygg ég, að ég hafi nokkurn veginn sýnt fram á það, að þetta, sem hæstv. ráðh. er að halda fram, eru þær furðulegustu bábiljur og undarlegt, að þeim skuli haldið hér fram. Ég vil ráðleggja hæstv. ráðh. það, af því að hann hlýtur að sjá, að hann hefur hlaupið á sig með sjálfstæði sjóðanna um útlán, að tala ekki meira um þetta mál. Ég vil ráðleggja honum það. Ég álít, að væri honum til bóta að láta ekki heyra það oftar, að hann haldi þessu fram, því að það getur ekki verið, að þessu sé haldið fram nema gegn betri vitund, og sízt á slík málfærsla að eiga sér stað úr ráðherrastóli. Þessi hæstv. ráðh. er ekki það skyni skroppinn, að hann viti það ekki, að þegar sjóðunum er fyrirskipað með lögum frá Alþingi að lána út með helmingi lægri vöxtum en eru á lánamarkaðinum og taka peninga af lánamarkaðinum með helmingi hærri vöxtum en þeir lána út, — hann er ekki sá skynskiptingur, að hann ekki viti, að það er ekki sjóðsstjórnunum að kenna, að slíkir sjóðir hljóta að standa sig illa. Þetta er hvort tveggja fyrirskipað af Alþingi og ríkisstjórn.