01.11.1960
Efri deild: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Athugasemdir mínar í gær við þetta frv. virðast hafa farið mjög fyrir brjóstið á forustumönnum hv. Framsfl. hér í þessari deild. Þeir hafa látið þær verða sér tilefni til margs konar stóryrða í minn garð persónulega og í garð míns flokks, Alþfl.

Hv. 1. þm. Vesturl. fór um flokk minn mörgum miður fallegum orðum, sem ég læt eins og vind um eyrun þjóta, skrifa það á reikning þess eins, að rök mín í máli mínu í gær hafi komið illa við hann, og er fús til þess að sjá fram hjá því að sinni a.m.k. Ég sé enga ástæðu til þess að gera umræður um þetta stórkostlega vandamál, sem hér er á ferðinni, að neins konar eldhúsdagsumræðu og allra sízt í þeim stíl, sem hv. þm. notaði, á milli Alþfl. og Framsfl. Þýðir það að sjálfsögður ekki, að ég sé ekki hvenær sem er reiðubúinn til þátttöku í slíkri umræðu. En ég hygg, að sannleikanum í þessu máli sé ekki þjónað með því að fara út í einhvers konar pólitískan skæting. Ég vil því ekki falla fyrir neins konar freistni í þá átt, heldur halda mér að efni málsins og víkja að ýmsum fullyrðingum, sem fram komu í gær af hálfu þeirra tveggja hv. framsóknarmanna„ sem þá töluðu, og fullyrðingum, sem fram komu í ræðu hv. 1. þm. Vesturl. nú áðan.

Ég vil byrja á að vekja athygli á því, sem var kjarni eða öllu heldur niðurstaða umræðnanna hér síðdegis í gær, en niðurstaðan var sú, að allir voru sammála um; að stofnlánasjóðir landbúnaðarins séu nú í raun og veru gjaldþrota. Þeirri frásögn minni var ekki mótmælt af hv. 2. þm. Vestf., sem nær allan starfstíma Búnaðarbankans hefur verið formaður bankaráðs hans. Henni var ekki andmælt af 1. flm. þessa frv., hv. 1. þm. Norðurl. e. Og henni var enn ekki andmælt af hv. 1. þm. Vesturl., sem talaði hér áðan og á sæti í bankaráði Búnaðarbankans (Gripið fram í.) eða átti sæti í bankaráði Búnaðarbankans í mörg ár, — ég bið afsökunar á þessu (ÁB: Hálft annað ár.) — og hlýtur því að vera hnútunum kunnugur. Enginn þessara manna andmælti því. — Þarna kemur kannske að einhverju leyti skýringin á hita þingmannsins núna, að hann fékk ekki að eiga sæti í bankaráði lengur en hálft annað ár. Þetta hafði ég satt að segja ekki munað, en nú skýrast ýmsir hlutir betur fyrir mér. Allir þessir menn, sem þekkja vel til málefna sjóða Búnaðarbankans, játuðu, sumpart beint og sumpart óbeint, að það vantaði núna tæplega 3 millj. kr. á, miðað við síðustu reikningsskil, að þessir stofnlánasjóðir landbúnaðarins ættu fyrir skuldum. Um þetta voru þeir sammála.

Hins vegar var ágreiningur um tvennt, og það var aðalágreiningurinn í umræðunum hér í gær. Það var ágreiningur um, hvort ríkissjóði beri skylda til þess að greiða þann gífurlega halla, sem nú þegar er orðinn á sjóðunum. Ég hélt því fram og held því fram enn, að ríkissjóði beri engin skylda til þess að greiða þennan halla.. Þeir héldu því hins vegar allir fram, að slík skylda hvíldi á ríkissjóði. Í öðru lagi greindi okkur á um, hver bæri höfuðábyrgð á því, hve hörmulega er komið fyrir þessum sjóðum Búnaðarbankans. Þeir vildu skella allri ábyrgðinni um þetta á Alþingi, á okkur, sem hér sitjum og í neðri deild. Ég vildi hins vegar halda því fram, að höfuðábyrgðin á því, hvernig komið er, hljóti að teljast hvíla á þeim, sem farið hafa með stjórn þessara sjóða, en það er samkvæmt lögum landsins bankaráð Búnaðarbankans undir yfirstjórn landbrh. á hverjum tíma. Ég skal nú ræða þessi tvö ágreiningsatriði nokkru nánar og skýra þau betur en ég gat gert í gær frá mínu sjónarmiði séð, því að hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, gerði þau að aðalatriði í síðustu ræðu sinni í gær, rétt fyrir fundarslit.

Ég skal þá fyrst fara nokkrum orðum um, hvort ríkissjóði beri skylda til þess að greiða þann hundruð millj. kr. halla, sem í raun og veru er orðinn á þessum stofnlánasjóðum landbúnaðarins. Í raun og veru er nóg að segja um þetta atriði, að sjálfur flutningur þessa frv. tekur af öll tvímæli um, hvort um skyldu af hálfu ríkissjóðs er að ræða eða ekki. Sér ekki hvert barn, að hv. framsóknarmenn væru ekki að flytja frv. um að láta ríkissjóð greiða sjóðum Búnaðarbankans 160 millj., ef honum væri skylt að gera það? Þá væri nóg að bera fram fyrirspurn til ríkisstj., til hæstv. fjmrh., því að hann stæði ekki við skyldu sína, hví hann greiddi ekki þessar 160 millj. kr. Það gera þeir ekki. Nei, þeir þvert á móti flytja frv., sem leggur skyldu á ríkissjóðinn, sem gerir ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði 160 millj. til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sveitanna. Þessi staðreynd tekur af öll tvímæli um, hvernig sjálfir flm. líta á efni málsins. Frv. væri óþarft, ef nokkur fótur væri undir þeirri staðhæfingu, að ríkissjóður hefði nokkra skyldu til þess að inna þessa greiðslu af hendi. Það, sem gerzt hefur áður í þessum málum, tekur einnig af öll tvímæli um þetta. Það hefði verið ástæðulaust að ákveða í fjáraukalögum ráðstöfun á tekjuafgangi til hamda þessum sjóðum, ef það hefði þá þegar verið skylt. Þannig vitnar bæði fortíð málsins og sjálfur flutningur frv. gegn þeim staðhæfingum, sem haldið er fram í grg. og málflutningi þeirra þriggja þm., sem um málið hafa talað. Ég held því í raun og veru, að óþarft sé að fara fleiri orðum um þetta.

En hitt vil ég þá ræða, hver beri ábyrgð á því, hvernig komið er, því að það var aðaluppistaðan í málflutningi hv. 2. þm. Vestf. í gær, og sömuleiðis lagði hv. flm. frv., Karl Kristjánsson, á það mikla áherzlu í sínum málflutningi í gær.

Öllum hv. þm. er ljóst, að þessir tveir stofnlánasjóðir eru sjálfstæðar stofnanir, sem starfa hvor um sig samkvæmt sérstökum lögum, og í þeim lögum er ákveðið, að þessar stofnanir skuli vera undir stjórn Búnaðarbankans, sem auðvitað þýðir, að þær eru undir stjórn bankaráðs Búnaðarbankans, sem svo að hinu leytinu er undir yfirstjórn landbrh. Þegar talað er um stjórn Búnaðarbankans í þessu sambandi eða stjórn sjóðanna í þessu sambandi, er að sjálfsögðu ekki átt við bankastjóra Búnaðarbankans. Bankastjóri Búnaðarbankans tekur ákvörðun um það eitt, hvaða einstaklingar fá lán úr þessum sjóðum. Bankastjórinn tekur hins vegar ekki ákvörðun um, hvort tekið er erlent lán, eða þær reglur, sem lánað er út eftir til 20, 30 eða 40 ára. Hann tekur ekki heldur ákvörðun um, hvort innlent lán er tekið og þá með hvað háum vöxtum. Allt þetta tekur bankaráð Búnaðarbankans sem yfirstjórn hans ákvörðun um og leitar væntanlega samþykkis landbrh. á vissum ráðstöfunum, ef þær eru taldar óvenjulegar eða bankaráðið telur sig með þeim fara að einhverju leyti út fyrir sitt venjulega verksvið lögum samkvæmt. Alþingi hefur ákveðið í lagasetningunni um sjóðina hámarksvexti, sem útlánin skulu lánuð út gegn, en Alþingi hefur líka ákveðið, sumpart í lögunum sjálfum um sjóðina og sumpart síðar í fjárlögum, að þessir sjóðir skuli fá ákveðinn rekstrarstyrk á ári. Hugmyndin með fjárveitingum til sjóðanna getur að sjálfsögðu engin hafa verið önnur en sú, að Alþingi hefur gert sér ljóst, að þeir vextir, sem fyrirskipaðir eru í löggjöfinni, eru lægri en markaðsvextir; þannig að ætlazt er til, að nokkur halli verði á rekstri sjóðanna. Þetta er auðvitað hverjum einasta alþingismanni, hverjum einasta manni, sem eitthvert skynbragð ber á þessi mál, algerlega ljóst. Fjárveitingunum er ætlað að standa undir vaxtamismuninum fyrst og fremst, kannske að einhverju leyti rekstrarkostnaði sjóðanna líka, sem ég kem að síðar. Þetta er sá rammi, sem sjóðunum er settur í löggjöf og stjórn sjóðanna, þ.e. bankaráði Búnaðarbankans, er falið að starfa eftir, og þessi rammi Alþingis leggur stjórn sjóðanna vissar lífsreglur. Ég mótmæli því algerlega, að það hafi nokkurn tíma vakað fyrir Alþ. eða þeim meiri hl., sem þessi hefur sett, að stjórn sjóðanna ætti að vera hagað þannig, að höfuðstóllinn smáeyddist. Ég mótmæli því algerlega, og það er ekki að finna í nokkru frv., sem um ræktunarsjóð eða byggingarsjóð hefur verið flutt, eða grg. eða umr. eða framsögu fyrir þessum frv., að til þess hafi verið ætlazt, að stjórn sjóðanna hegðaði sér þannig, að sjóðirnir smám saman ætust upp, hvað þá að þeir yrðu beinlínis gjaldþrota. Ég hefði gaman af að fá að heyra þá setningu í grg. fyrir einhverju frv. um ræktunarsjóðinn eða einhverju frv. um byggingarsjóðinn eða nokkurt orð frá nokkrum formælanda þessara frv., þar sem það kæmi fram, að Alþingi ætlaðist til, að útlánum sjóðanna yrði hagað á þann veg, að höfuðstólarnir eyddust, hvað þá að þeir yrðu beinlínis gjaldþrota. Þær starfsreglur, sem Alþingi hefur lagt stjórn sjóðsins, eru m.ö.o. að fyrirskipa sjóðnum ákveðna útlánsvexti, gera ráð fyrir því, að hann sé rekinn með árlegum vaxtahalla, og veitir síðan ákveðið fé til greiðslu á þessum vaxtahalla.

Ég hef látið gera athugun á því nú í morgun, undir hversu miklum útlánum fjárveitingar Alþingis gætu staðið, án þess að höfuðstól sjóðanna væri stefnt í beina hættu. Ræktunarsjóðurinn hefur nú í árlega fjárveitingu á fjárlögum 1.6 millj. kr. og byggingarsjóðurinn hefur 2.5 millj. kr. í árlega fjárveitingu: Ef þessi fjárveiting gengur öll til þess að greiða vaxtamismuninn, þýðir það, að till. um annað tveggja: að skera útlánin rækilega niður eða þá biðja Alþ. um nýjar fjárveitingar til að standa undir hínum auknu útlánum. Það finnst í skjölum Búnaðarbankans ekkert bréf, engin grg., enginn stafur, sem beri vott um, að bankaráð Búnaðarbankans hafi nokkurn tíma gert sér grein fyrir, hvílíkur voði hér væri á ferðum, eða gert um það nokkra tillögu til ríkisstj. eða Alþ. Ef þetta er ekki að bregðast skyldu sinni hrapallega, þá veit ég ekki, hvað á að þýða að sitja árum, ef ekki áratugum saman í stjórn þýðingarmikilla lánastofnana, horfa upp á höfuðstólinn étast upp, horfa upp á stofnanirnar, sem þeir eiga að stjórna, verða gjaldþrota, og gera ekki neitt, taka hvorki ákvarðanir inn á við um að lækka útlánin nauðsynlega til að forða sjóðunum frá gjaldþroti né heldur hafa manndóm í sér til að biðja Alþ. um auknar fjárveitingar til að standa undir útlánum sjóðanna, eins og þau voru orðin. Þetta á auðvitað sinar pólitísku skýringar, þær skýringar, að þeir, sem réðu í bankaráði Búnaðarbankans, þar sem sátu tveir framsóknarmenn af þremur mönnum, vildu ekki biðja ríkisstj., sem sat, sem Framsfl. sjálfur átti sæti í, um auknar fjárveitingar, af ótta við, að þær fengjust ekki. Formaður bankaráðsins vildi ekki koma til landbrh., sem annaðhvort var flokksmaður hans eða þá hann sjálfur, og ræða við hann, annaðhvort í tvitali eða eintali sálarinnar, um auknar fjárveitingar til þessara sjóða til að forða þeim frá gjaldþroti. Sem sagt, það finnast engar tillögur í Búnaðarbankahúsinu frá bankaráði Búnaðarbankans, hvorki til ríkisstj. né Alþingis, um að forða sjóðunum frá þeim hörmulegu örlögum, sem þeim nú hafa hlotnazt.

Hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB), sem talaði hér áðan, sagði, að það, sem skeð hefði hjá stofnlánasjóðum Búnaðarbankans eða stofnlánasjóðum landbúnaðarins, væri i raun og veru ekkert annað en hent hefði aðra hliðstæða sjóði í landinu. Hann sagði, að ummæli mín í gær um, að örlög þessara sjóða væru dæmalaus, bæru vott um illgirni ráðþrota ráðherra, — svo fallegt og smekklegt var orðbragðið. Ég verð að leiðrétta hann um þetta efni, og það er mjög mikilvægt.

Það er rétt, sem ég sagði í gær, það finnst engin hlíðstæða, ekki hér og áreiðanlega ekki í nálægum löndum, um, að sjóðir hafi orðið eins hrapallega úti, þá hafi kalið svo hrapallega á svelli fjárglæfra eins og hér hefur átt sér stað. Hliðstæður sjóður er t.d. fiskveiðasjóður. Fyrir honum er ekkert líkt komið, þvert á móti. Hagur hans stendur með blóma, og hann á miklar eignir. Af hverju? Af því í fyrsta lagi, að þeir, sem borið hafa hag fiskveiðasjóðs fyrir brjósti, hafa séð honum fyrir sjálfstæðum tekjustofnum, miklum sjálfstæðum tekjustofnum, með því að leggja gjald á útfluttar sjávarafurðir. Þetta gefur fiskveiðasjóðnum 24 millj. kr. tekjur á ári, sem sjávarútvegurinn borgar sjálfur, og það er mergurinn málsins. Hann borgar það sjálfur. Fiskveiðasjóðurinn hefur alltaf í einu og öllu gætt þess að fara í útlánum sínum aldrei umfram þann ramma, sem sjálfstæðar tekjur sjóðsins, aðallega þessar tekjur, hafa sett honum. Auk þess hefur hann einhverja smáfjárveitingu á fjárlögum. Þetta er mergurinn málsins. Fiskveiðasjóðurinn hefur gætt þess vandlega, að skuldir hans yrðu aldrei meiri en svo, að sá vaxtamunur, sem á hann fellur, — því að hann er undir sömu sök seldur, að það er líka vaxtahalli á honum, — hann hefur gætt þess að láta vaxtahallann aldrei verða meiri en svo, að sjálfstæðar tekjur hans gerðu miklu betur en standa undir þessum vaxtahalla, þannig að höfuðstóll hans hefur farið vaxandi. Fiskveiðasjóðurinn var líka mjög tregur á að taka lán með gengisáhættu. Þegar sjóðir landbúnaðarins voru friðlausir um mörg undanfarin ár í að taka lán með gengisáhættu, vitandi, hvaða áhætta því hlaut að fylgja, var fiskveiðasjóðurinn mjög tregur, og í það eina skipti, sem hann tók erlent lán með gengisáhættu, sem skipti sáralitlu máli í heildarveltu, gerði hann það mjög nauðugur, hann gerði það af illri nauðsyn. Nú, þegar fyrir dyrum stendur, að fiskveiðasjóður taki fleiri slík lán eða taki viðbótarlán með gengisáhættu, hvað gerir stjórn fiskveiðasjóðs þá? Hún óskar eftir því við sjútvmrh., að hann beiti sér fyrir flutningi frv., sem gerir fiskveiðasjóðnum kleift að endurlána hið erlenda lán með gengisklásúlu. Í þessu kemur kannske hvað greinilegast í ljós sá gífurlegi munur, sem hefur verið og er á starfsháttum stjórnar fiskveiðasjóðs annars vegar og stjórnar stofnlánasjóða landbúnaðarins hins vegar. Stjórn fiskveiðasjóðsins gerir sér grein fyrir því, að hún hefur skyldu gagnvart þeim sjóði, sem hún á að stjórna, sem hún á að varðveita, taka lán til og endurlána, og hefur gætt þess vel, að höfuðstóllinn verði ekki fyrir áföllum, hvorki af vaxtamun né heldur af gengisáhættu. En stjórn sjóða landbúnaðarins hefur lokað augunum fyrir hvoru tveggja, bæði fyrir hættunni af vaxtamuninum og hættunni af gengisáhættunni, og þess vegna er komið eins og komið er.

Hv. 2. þm. Vestf. hélt því fram í gær, hafði verið sumpart kallað fram í ræðu mína, en endurtekið í ræðunni, — að það, hvernig komið væri fyrir ræktunarsjóði og byggingarsjóði, væri fyrst og fremst afleiðing gengislækkunarinnar nú í ár og að þessir sjóðir hefðu tapað 90 millj. kr. á þessari gengislækkun. Ég er alveg hissa, að þingmenn skuli leyfa sér að fleipra með tölur, sem einhver og einhver reiknar út frammi á gangi eða fær upp gefnar í síma, án þess að það sé byggt á nokkurri alvarlegri athugun. Menn eiga ekki að láta hafa sig í það. Ég þykist vita, að þessi hv. þm. hafi ekki gert þessa athugun sjálfur, heldur hafi einhver hvíslað þessu í eyra hans. Þingmenn eiga ekki að láta hafa sig til að fleipra með tölur, án þess að geta gert sér nokkra grein fyrir því, hvort þær eru réttar eða rangar. En þannig hefur farið hér, að sú tala, sem fyrst var hrópuð fram í fyrir mér og síðan tvívegis endurtekin af hv. 2. þm. Vestf., Hermanni Jónassyni, er röng, og hún er meira að segja mjög röng. Þýðing gengisbreytingarinnar gagnvart erlendum lánum hjá sjóðunum báðum var sú, að hinar erlendu skuldir hækkuðu í ísl. kr. um 54.2 millj. kr., svo að það lætur nærri, að hér skakki helmingi, og minna hefði stundum þótt gagn gera en skrökva til um allt að því helming.

Gengisbreytingin í febrúar hækkaði erlendar skuldir sjóðanna beggja um 54.2 millj.'kr., en ekki 90. Það kann að vera, að það hafi valdið þessum misskilningi, að skrifuð hafi verið á reikning núv. ríkisstj. sú gengislækkun, sem við hv. 2. þm. Vestf. stóðum sameiginlega að árið 1958, þ.e. 55% yfirfærslugjald, sem auðvitað var ekkert annað en gengislækkun undir nafni yfirfærslugjalds. Sú gengislækkun, yfirfærslugjaldið, þýddi 29.6 millj. kr. hækkun í krónum á hinum erlendu skuldum þessara sjóða. En í flaustrinu vildi heimildarmaður hv. 2. þm. Vestf. kenna núv. ríkisstjórn einnig um 55% yfirfærslugjaldið, sem við Hermann Jónasson innleiddum saman og með beztu samvizku. Ef tekin er samtalan af þessu tvennu, gengislækkun okkar Hermanns Jónassonar og gengislækkun núv. ríkisstj., er gengistap sjóðanna beggja samtals 83.8 millj. kr., svo að enn skakkar talsverðu, þegar tölunni 90 millj. var fleygt fram hér í gær. En nú held ég að telja megi, að allur sannleikurinn um þetta efni sé í ljós leiddur og að óþarfi sé um það að deila frekar.

Það er annað atriði í sambandi við gengistölur, sem ég vil vekja athygli á og skiptir miklu máli. Hv. ræðumenn Framsfl. hafa sagt, að það hefði verið óverjandi að endurlána hin erlendu lán sjóðanna með gengisklásúlu til lántakendanna, til bændanna, og segja, að það mundi hafa þýtt gjaldþrot annars hvers bónda. Þó að þetta sé að vísu mjög orðum aukið, eins og ég mun koma svolítið nánar að, bæri af þessu að draga, ef rétt væri, þá einu ályktun, að lán hefði aldrei átt að taka. Ef það var í raun og veru svo, ef það var skoðun hæstv. forsrh. þá og formanns bankaráðs Búnaðarbankans, að hin erlendu lán hefðu gert annan hvern bónda gjaldþrota, átti að neita sér um þau, átti að neita sér um að stofna til reiknings, sem gera mundi annan hvern bónda í landinu gjaldþrota. Þennan reikning verður auðvitað einhver að greiða. Hann er fallinn á þjóðina í heild. Spurningin er, með hvaða hætti á að greiða hann: Það er rangt, sem hv. 1. þm. Vesturl. setti fram hér í gær, að ég hafi sagt, að þennan reikning ætti að innheimta hjá bændum, — það sagði ég ekki, það sagði ég aldrei. Ég sagði, að málið væri mikið vandamál; væri stórt vandamál, sem þyrfti vandlegrar íhugunar, hvernig leysa ætti. Auðvitað er mér jafnljóst og honum, að það er búið að endurlána þetta fé allt saman án gengisklásúlu, svo að það verður aldrei innheimt hjá bændum, það er ekki hægt lögum samkvæmt. Það er búið að ganga svo frá málinu. Þess vegna er það fjarstæða að bera það upp á mig, að ég hafi haldið því fram, að þetta ætti að innheimta hjá þeim, sem fengið hefðu það að láni. Slíkt hefur mér meira að segja aldrei dottið í hug. Það verður að leita annarra og almennari ráða til þess eð komast fram úr þeim vanda, sem forráðamenn sjóðanna hafa skapað. Ég segi: ef þetta var litið svona alvarlegum augum, var eina ráðið að beygja sig undir að hafa útlánin þeim mun minni.

Það er ekki heldur hægt að halda því fram, að forráðamenn Búnaðarbankans eða bankaráðsins hafi ekki vitað, hvað þeir voru að gera, þegar þeir efndu til þessarar erlendu lántöku. Ég held, að það hafi enginn stjórnmálamaður verið til í landinu, enginn hugsandi maður til í landinu, sem gerði sér ekki algerlega ljóst, að árið 1855, — ef ég fer svolítið lengra aftur í tímann, aftur til 1952, — að gengið, sem þá var á krónunni, var algerlega óraunhæft. Ég fullyrði, eð það var enginn maður í nokkurri valdastöðu á Íslandi, sem gerði sér ekki ljóst, þegar komið var fram á árið 1951, að hið opinbera skráða gengi var falsgengi, að hver króna, sem tekin var inn i landið á þessu lága, falska gengi, yrði að endurgreiðast síðar á hærra gengi. Þetta fullyrði ég. Sjóðir Búnaðarbankans tóku nokkur lán hjá Alþjóðabankanum á þessum árum. Forráðamenn sjóðanna hefðu reynzt skynskiptingar, sem þeir sannarlega eru ekki, þeir hefðu verið skynskiptingar, ef þeim hefði ekki verið ljóst, að lánin þýddu endurgreiðslu í verðminni krónum, í hærri krónutölu en inn kom á sínum tíma. Spurningin var: Hvernig hugsuðu mennirnir? Hver átti að borga víxilinn? Ég veit, hvernig þeir hugsuðu, og það er einmitt það, sem ég er að átelja. Þeir vildu láta þjóðarheildina borga víxilinn. Almenningur átti að borga hann. Það er sá — mér liggur við að segja ósvífni glæfrahugsunarháttur, sem ég hef verið að átelja, og um hann er ekki hægt að hafa of sterk orð.

Þrátt fyrir 55% yfirfærslugjaldið 1958 var líka augljóst, — það var a.m.k. okkur öllum í vinstri stjórninni augljóst, — að það var ekki lokasporið. Sérstaklega var það ráðherrum Framsfl. og ráðh. Alþfl. alveg vitað og augljóst, að gengið, sem var á krónunni þá, 25 kr. á dollar, var ekki frambúðargengi, var ekki framtíðarjafnvægisgengi. Samt sem áður var haldið áfram að taka erlend lán á 25 kr. dollarann, þó að allir hlytu að vita, að þessi lán yrðu að endurgreiðast, hver dollar, með svo og svo miklu fleiri krónum. En hér er enn sama spurningin: Hver á að borga þennan mismun? Þessir forvígismenn landbúnaðarins hugsuðu sér alltaf, að almenningur í landinu skyldi borga hann, það skyldi með einhverjum hætti vera hægt að koma þessum mismun yfir á ríkissjóð. Gengið er þannig frá því lagalega séð, að málið er mjög vandasamt. En hugsunarhátturinn, sem lá að baki stefnunni, það var hann, sem var varhugaverður: að nota aðstöðu sina í bankaráði Búnaðarbankans til þess að taka erlend lán, sem bankaráðið vissi, að mundu færa sjóðunum halla, í trausti þess, að ríkissjóður hlypi undir bagga, þó að ríkissjóði bæri engin skylda til að gera það. Bankaráð Búnaðarbankans hafði ekki einu sinni hreinskilni til að koma um leið og segja: Þessi erlendu lán koma til með að þýða svo og svo mikinn halla, og ríkisstj. verður að taka hann á sig, ákveða það með fjárframlögum. — Ef það hefði verið gert, má segja, að þeir hefðu staðið betur í stöðu sinni en þeir raunverulega gerðu.

Ég held, að allir þeir hv. framsóknarmenn, sem talað hafa, hafi sagt, að afskipti mín af þessu máli hér í gær byggðust á því, að ég bæri i brjósti einhverja sérstaka óvild til landbúnaðarins. Þessa fjarstæðu sé ég ekki ástæðu til að ræða hér. Það, sem gaf mér tilefni til að blanda mér í þetta mál í gær, voru, eins og ég tók skýrt fram í fyrstu ræðu minni, alrangar fullyrðingar í greinargerð frv. og ræðu frsm. um skyldu ríkissjóðs til þess að gefa þessum sjóðum samtals um 286 millj. kr.,

því að það eru erlendu skuldirnar. Þessi staðhæfing satt að segja ofbauð mér svo mjög, að mér fannst ástæðulaust að láta ómótmælt, sérstaklega þar sem þessi,ummæli hefði mátt skilja þannig, að Alþfl. hefði í vinstri stjórninni goldið samþykki sitt við þessari stefnu. En svo var ekki, eins og ég tók fram í gær og er búinn að víkja að aftur núna. Ég ætla ekki að verja mig í þeim efnum, sé ekki ástæðu til þess, en ég ætla að láta önnur dæmi tala um góðvild þessara manna í garð landbúnaðarins, um góðvild bankaráðs Búnaðarbankans undanfarin ár og áratugi í garð landbúnaðarins og umhyggju þeirra fyrir hag þessara sjóða, sem þeir voru settir til að gæta.

Ég vék að því í gær, að rekstrarkostnaður ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs væri óhæfilega hár. Ég hafði þá ekki nákvæmar tölur, mundi ekki tölurnar satt að segja nákvæmlega. Ég hef aflað mér þeirra í morgun og skal því akýra frá þeim. Eins og allir hv. þm. vita, er rekstur ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs falinn Búnaðarbankanum, sem er ríkisstofnun, og Búnaðarbankinn og þá helzt bankaráðið — skiptir síðan heildarrekstrarkostnaði bankans á milli sparisjóðsdeildarinnar, ræktunarsjóðsins og byggingarsjóðsins, sem eru aðaldeildir Búnaðarbankans. Allir vita, að sparisjóðsdeildin hefur sin aðalviðskipti hér í Reykjavik, aðallega við verzlun og iðnað, en ræktunarsjóður og byggingarsjóður hafa lögum samkv. eingöngu viðskipti við bændur. Er mjög fróðlegt að athuga, hvernig rekstrarkostnaði Búnaðarbankans er skipt á sparisjóðsdeildina, sem aðallega skiptir við iðnað og verzlun hér í Reykjavík, viðskiptaheiminn í Reykjavík, annars vegar og hvernig honum er skipt á ræktunarsjóð og byggingarsjóð, sem skipta við fátæka bændur í landinu, hins vegar.

1959 var rekstrarkostnaður sparisjóðsdeildar Búnaðarbankans 7.3 millj. kr., og rekstrarhagnaður virðist vera 3.4 millj. kr. Hvað skyldi ræktunarsjóður vera látinn bera mikinn rekstrarkostnað á árinu 1959? Hann er látinn bera 2 millj. 476 þús. kr. í rekstrarkostnað. Heildarútlán ræktunarsjóðs voru 236.1 millj., þannig að rekstrarkostnaður ræktunarsjóðs er 0.95% af öllum útlánum sjóðsins. Þó er þetta barnaleikur hjá því, sem er um byggingarsjóðinn. Byggingarsjóðnum var á s.l. ári reiknaður rekstrarkostnaður 2 millj. 139 þús. kr. Heildarútlán voru 106 millj. kr., þannig að rekstrarkostnaður byggingarsjóðs landbúnaðarins er 2.12% af útlánum. Til þess að hv. þdm. geri sér grein fyrir, um hvers konar tölur hér er að ræða, þá ætla ég að nefna hliðstæðar tölur fyrir 3 stærstu sambærilegu stofnanirnar í landinu: Framkvæmdabankann, veðdeild Landsbankans og fiskveiðasjóð. Rekstrarkostnaður Framkvæmdabankans var 1937000 kr., heildarútlán hans 860.2 millj. og kostnaður Framkvæmdabankans af heildarútlánum 0.23%, í samanburði við 2.12% hjá byggingarsjóði. Kostnaður veðdeildar Landsbankans var 816 þús. kr. af 232.1 millj. kr. heildarútlánum, þannig að rekstrarkostnaður veðdeildarinnar var 0.35% af hennar heildarútlánum. Rekstrarkostnaður fiskveiðasjóðs, sem í rauninni er sambærilegastur af öllu við sjóði landbúnaðarins, var 612 þús. kr. af 215.5 millj. kr., — það er nokkurn veginn sama tala og ræktunarsjóður hafði í útlánum, — en rekstrarkostnaður fiskveiðasjóðsins er 612 þús., en rekstrarkostnaður ræktunarsjóðsins 2.5 millj. kr.; næstum fimmföld tala. Rekstrarkostnaður fiskveiðasjóðsins; talinn í prósentum af heildarútlánunum, var 0.29%, i samanburði við 0.95% hjá ræktunarsjóði og 2.12% hjá byggingarsjóði. Hlutfallslega er rekstrarkostnaður ræktunarsjóðs þrisvar sinnum. meiri en rekstrarkostnaður fiskveiðasjóðs, og rekstrarkostnaður byggingarsjóðs er um sjö sinnum meiri hlutfallslega en rekstrarkostnaður fiskveiðasjóðs.

Bankaráð Búnaðarbankans getur tekið ákvörðun um það, hvernig heildarkostnaði Búnaðarbankana er skipt milli sparisjóðsdeildarinnar, sem hefur viðskipti hér í Reykjavík, og ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs. Hún hefur tekið þá ákvörðun þannig að láta ræktunarsjóð og byggingarsjóð, þessa sjóði bændanna, bera óhæfilega háan rekstrarkostnað, svo háan, að það er beinlínis ámælisvert og ástæða til þess að grípa inn í og breyta þessum hlutföllum.

Ég kann svo hálfilla við að þurfa að hlusta á það af vörum þeirra manna, sem staðið hafa fyrir því að íþyngja sjóðum bændanna eins hneykslanlega og hér hefur átt sér stað, að þurfa að hlusta á af vörum þeirra brigzlyrði um litla umhyggju fyrir landbúnaðinum af því tilefni einu, að vakin er athygli á því stórkostlega vandamáli, sem siglt hefur í kjölfar óráðsíu þeirra í stjórn sjóðanna.

Að síðustu, herra forseti, vil ég vekja í einföldum orðum athygli á því, hvað raunverulega felst í þessu frv. Þetta frv. er um það, að ríkissjóður taki á sig, að skattborgarar landsins taki á sig greiðslu á 160 millj. kr. skuldum fyrir tvo stofnlánasjóði landbúuaðarins. Ef ríkissjóður tekur þessa skuld að sér, ef hann undirskrifar slíkt skuldabréf, gerir hann það fyrir hönd allra skattborgara í landinu. Samþykkt þessa frv. mundi því i raun og veru þýða, að Alþ. léti hvern fjölskylduföður fimm manna fjölskyldu í landinu undirskrifa skuldabréf að upphæð 4700 kr. Samþykkt frv, þýðir, að Alþ. mundi, ef það næði fram að ganga, rétta hverjum einasta föður fimm manna fjölskyldu á landinu skuldabréf að upphæð 4700 kr. til undirskriftar. Það þarf ekkí litla óskammfeilni til að flytja slíkt frv., verð ég að segja. Mér dettur ekki i hug, að hv. Alþ. leyfi sér að rétta slíka skuldabréfahrúgu að skattgreiðendum í landinu. Hins vildi ég aftur á móti vænta, að Alþ. bæri gæfu til þess að greiða á farsælan hátt fram úr þeirri reginflækju, sem búið er að koma þessum gömlu og góðu sjóðum í, þannig að þeir geti staðið undir því hlutverki, sem þeim í upphafi var ætlað, á heilbrigðari hátt en þeim hefur tekizt að gera undanfarin ár.