03.11.1960
Efri deild: 15. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Meginatriði þess máls, sem hér er á dagskrá, eru nú orðin svo ljós, að ég sé ekki ástæðu til að framlengja hinar almennu umr., sem um þau hafa farið fram og staðið hafa nú á þriðja dag.

Sú meginstaðreynd, sem fram hefur komið í þessum umr. og þær hafa að mjög verulegu leyti snúizt um, er nú öllum þm. og raunar þjóðinni allri ljós, að stofnlánasjóðir landbúnaðarins tveir, ræktunarsjóður og byggingarsjóður, eru nú raunverulega gjaldþrota. Og það getur engum blöðum verið um það að fletta, hverjir bera í raun og veru ábyrgð á því, að svo er komið, en það eru stjórnendur þessara sjóða undanfarna áratugi, bankaráð Búnaðarbanka Íslands, en þar hafa um allan þennan tíma setið tveir valdamenn úr Framsfl. auk eins sjálfstæðismanns. Meiri hluti þessa bankaráðs hlýtur að teljast bera meginábyrgðina á þeirri stefnu, sem þar hefur verið rekin, hvað svo sem menn hér kjósa að segja um þetta efni í aðra átt, og fjölyrði ég ekki um þetta.

Það voru örfá atriði úr ræðum hv. 2. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Norðurl. e., sem ég vil víkja að, áður en ég kem að því, sem ég þarf fyrst og fremst að segja við hv. 2. þm. Vestf.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) sagði, að sá samanburður, sem ég hefði gert á rekstrarkostnaði þessara sjóða og annarra hliðstæðra sjóða væri ekki sanngjarn í garð þessara sjóða landbúnaðarins, og ræddi þar sérstaklega um Framkvæmdabankann. Það er alveg rétt, og það skal ég fúslega játa, að starfsemi Framkvæmdabankans er með nokkuð öðrum hætti en starfsemi þessara sjóða landbúnaðarins, vegna þess, eins og hv. þm. gat um, að Framkvæmdabankinn veitir miklu færri og miklu stærri lán, enda gerði ég samanburð við Framkvæmdabankann ekki að neinu aðalatriði í máli mínu. Það, sem ég lagði höfuðáherzlu á, var samanburðurinn við fiskveiðasjóðinn, og það held ég að hollt væri fyrir okkur alla að rifja upp, hvernig sá samanburður lítur út, til þess að komast að raun um, að andmæli hv. þm. gegn máli mínu eru ekki á rökum reist. Það er ekki hægt að gera mínar upplýsingar tortryggilegar, ef bornir eru saman sjóðir landbúnaðarins annars vegar og fiskveiðasjóður hins vegar, því að þeir eru sannarlega mjög svipaðir f öllu tilliti hvað snertir heildarútlán og tölu lána.

Rekstrarkostnaður ræktunarsjóðs var á s.l. ári 2 millj. 476 þús. kr., en fiskveiðasjóðsins 612 þús. kr. Þó voru heildarútlánin mjög svipuð, heildarútlán ræktunarsjóðs um 236 millj. og heildarútlán fiskveiðasjóðs 215 millj. (Gripið fram í: Hvað eru lánin mörg?) Því miður hef ég ekki lánatöluna. En hún skiptir ekki svo miklu máli í þessu sambandi, að það geti verið skýring á þessum gífurlega kostnaðarmun. Kostnaður byggingarsjóðsins var á s.l. ári 2 millj. 139 þús. kr., en kostnaður fiskveiðasjóðsins 612 þús. kr., og þó eru útlán byggingarsjóðsins helmingi minni en útlán fiskveiðasjóðsins. Útlán byggingarsjóðsins eru ekki nema 100.6 millj. kr., en fiskveiðasjóðsins 215 millj. kr. Það er því engum blöðum um það að fletta, að hlaðið er óhæfilega háum kostnaði á ræktunarsjóð og byggingarsjóð, og ég endurtek og undirstrika alveg sérstaklega, að hér er ekki um að ræða raunverulegan rekstrarkostnað ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, þetta er ekki kostnaður við starfsmannahald eða skrifstofuhald þessara sjóða, heldur er þetta reiknuð hlutdeild þessara tveggja sjóða í heildarrekstrarkostnaði Búnaðarbankans. Þetta er ekki raunverulegur kostnaður, heldur byrði, sem skellt er á ræktunarsjóð og byggingarsjóð með einföldum reikningi. Hver framkvæmir þennan reikning? Bankaráð Búnaðarbankans. Ég segi því aftur það, sem ég sagði um daginn, að meðan velvilji þeirra manna, sem þarna halda á málum, í garð þessara óskabarna landbúnaðarins, ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, er ekki meiri en þetta, sé ég enga ástæðu til annars en senda heim til föðurhúsanna aftur ásakanir um, að aðrir menn séu ekki nógu góðviljaðir í garð landbúnaðarins, — og síðan ekki meira um þetta.

Hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) sagði, að engin till. hefði komið fram af hálfu okkar Alþfl.-ráðh. í ríkisstj. hans um stefnubreytingu í málefnum sjóða landbúnaðarins, og bar fyrir sig í þessu efni vitnisburð ráðherra Alþb., Lúðvíks Jósefssonar og Hannibals Valdimarssonar. Ég hafði aldrei sagt, að við hefðum lagt fram till. um stefnubreytingu í þessum efnum, enda vitum við báðir jafnvel, að þannig er ekki unnið í ríkisstjórnum. Það, sem ég sagði hins vegar, er rétt, að í hin tvö skipti, þegar lánsútvegun til sjóða landbúnaðarins, ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, var til umr. í ríkisstj., vöktum við Lúðvík Jósefsson báðir athygli á því, að með þessum erlendu lántökum væri málefnum þessara sjóða stefnt í mikið óefni og þeir tækju á sig gífurlega áhættu. Örlitlar umr. urðu um málefni sjóðanna almennt, og í því litla, sem ég sagði, vitnaði ég í skýrslu, sem efnahagsmálaráðunautur ríkisstj. hafði gert um hag þessara sjóða og hv. 2. þm. Vestf. kannast vel við, þar sem leitt var í ljós með skýrum talnarökum, að hag þeirra stefndi í mikið óefni. Ég vakti athygli á þessu og því, að hér væri nauðsynlegt að gera stefnubreytingu og taka þetta mál föstum og alvarlegum tökum. Svarið var afar einfalt, eins og ég hef getið um: Þetta er ekki mál ríkisstj., þetta er mál stjórnar sjóðanna. Ef stjórnir sjóðanna vilja taka inn erlend lán með gengisáhættunni, hvorki vil ég né heldur get ég, sagði þáv. forsrh., haft nein áhrif á það. Og þó að ég gæti það, mundi ég aldrei nokkurn tíma samþykkja það, að sjóðirnir tækju á sig gengisáhættu. — Þar með var útrætt um málið. Það er rétt, að þessar umr. urðu ekki langar og ég segi ekki heldur sérlega merkilegar, enginn rökstuðningur fram og til baka og auðvitað engin till., en þessar skoðanir komu fram annars vegar af hálfu beggja ráðh. Framsfl. og hins vegar af hálfu okkar Lúðvíks Jósefssonar.

Þá skýrði hv. þm. frá því, að hann hefði fengið bókhaldara sjóðanna til þess að gera upp þá hækkun, sem hefði orðið á hinum erlendu lánum sjóðanna vegna 55% yfirfærslugjaldsins og gengisbreytingarinnar nú í febrúar, og sagði, að niðurstaðan af því hjá honum hefði verið, að mig minnir, 98 millj., ef ég man töluna rétt, en ekki 83, eins og ég hafði haldið fram í minni ræðu, og talan 98 væri hærri en 90, sem hann hefði notað hér fyrsta daginn, sem við deildum um málið. En skýringin á þessu var ofur einfaldlega sú, að fyrsta daginn, sem við vorum að tala um málið, og annan daginn vorum við að tala um þau lán, sem frv. fjallar um að ríkissjóður taki að sér. Það er gengistapið á þeim, sem þeir hrópuðu fram i fyrir mér að væri 90 millj. kr., en er 83 millj. kr. Þetta er ómótmælanlegt. Það, sem hann hefur nú látið gjaldkera eða bókhaldara sjóðanna gera, er að reikna út gengistapið af öllum erlendum skuldum sjóðanna. En eins og ég hef tekið fram, ég held í hvert skipti, sem ég hef talað í málinu, þá eru allar erlendar skuldir sjóðanna talsvert miklu meiri en þær erlendu skuldir, sem þetta frv. fjallar um. Ég efast ekki um, að tölur bókhaldarans séu réttar, en þessi talnamismunur er alveg auðskýranlegur, en það staðfestir mál mitt í þessu efni, en ekki það, sem hann og hans flokksbræður héldu fram fyrst, að gengistapið á lánum þessa frv. væri 90 millj. Hann fjölyrti hins vegar ekkert um það, hvernig þessi heildartala skiptist á 55% gjaldið og gengislækkunina frá því í vetur, og gekk fram hjá því, sem var fyrst og fremst rangt í hans fyrstu staðhæfingu, að gengislækkunin hefði þýtt 90 millj. kr. fyrir sjóðina tvo, sem vitanlega er alrangt.

Ég hefði líklega sleppt að gera þessar smávægilegu athugasemdir við það, sem fram hefur komið, enda var málflutningur hv. þm. Framsfl. að öllu leyti miklu hóflegri og sanngjarnari nú en hann hefur verið tvo undanfarandi daga, að ég hefði vel getað látið þetta allt mál niður falla af minni hálfu. En hv. þm. ræddi um, hvernig Bretar byggju að sínum landbúnaði, og það átti að vera aðaltrompið í hans framlagi til málsins í dag. Til samanburðar við þá vondu menn á Íslandi, mig og ýmsa aðra, sem væru nú farnir að gerast fjendur landbúnaðarins, vildi hann nefna, hvernig Bretar, sú mikla og vísa þjóð, hvernig hún byggi að landbúnaði sínum, og það væri eitthvað annað. Hann nefndi gífurlega tölu í sterlingspundum og krónum, allt talið í milljörðum. Hann sagði, að styrkir til bænda í Bretlandi næmu hvorki meira né minna en 10 milljörðum króna og uppbætur á brezkar landbúnaðarvörur næmu hvorki meira né minna en 17 milljörðum króna, og þetta átti — skilst mér — að slá allt út, sem þekkt væri í veröldinni, og í þessu efni ættum við að taka Breta okkur til fyrirmyndar. Það er enginn vafi á því, að hann hefur snúið sér til Bretlands með þessar upplýsingar vegna þess, að honum hefur boðið í grun, að Bretar gerðu betur við sinn landbúnað, sem er mikið vandamál fyrir efnahagslífið, en nokkur önnur þjóð. Ég hefði vel getað unnt hv. 2. þm. Vestf. þess að athuga málið svolítið betur, áður en hann gerði þessar tölur þingheimi kunnar og þá um leið þjóðinni allri. Ég hefði vel getað unnt honum þess, að hann hefði athugað þetta mál svolítið betur. En fyrst hann gerði þetta að stóratriði í málflutningi sinum til varnar þeirri stefnu, sem hann er hér að verja, ætla ég að gera það, sem hann hefði átt að gera, áður en hann skýrði frá tölunum, þ.e. að bera þessar tölur saman við tilsvarandi tölur hér á Íslandi. Það er mjög fljótgert. Ég gerði það hér við borðið áðan, meðan hæstv. landbrh. var að tala.

Íbúar Bretlands eru 53 millj., þannig að 10 milljarða útgjöld til styrktar brezkum bændum svara til 190 kr. á mann í Bretlandi. Bretar verja m.ö.o. til styrktar sínum landbúnaði 190 kr. á mann. Hann sagði, að til uppbóta verðu þeir 17 milljörðum. Það svarar til þess, að þeir verji til uppbóta á landbúnaðarvörur í Bretlandi 320 kr. á mann. Til hvers svarar þetta hér? Við erum 170 þús. að tölu hér á Íslandi. Sambærileg tala hér á Íslandi við það, sem Bretar verja til styrkja á landbúnaðarvöru, mundi vera 32.3 millj. kr., miðað við 190 kr. á mann, og það, sem Bretar verja í uppbætur á sínar mjög dýru landbúnaðarvörur, eru 320 kr. á mann, þ.e. 54.4 millj. kr.

Ég ætla að víkja fyrst fáeinum orðum að styrkjunum sjálfum, sem hér á Íslandi, ef við tökum okkur Breta til fyrirmyndar, ættu að nema 32.3 millj. kr. Við skulum fletta upp í fjárl., sem allir þm. hafa á borðinu fyrir framan sig, 16. gr. A, þar sem fé er veitt til landbúnaðarmála. Hver skyldi vera heildartalan á þeirri grein? 77.3 millj. kr. Nú er þess að vísu að geta, að hér er um miklu meira að ræða en styrki og sums staðar er um að ræða óbeina styrki, en ég skal vera mjög sanngjarn í garð hv. ræðumanns og mjög sanngjarn. (HermJ: Hve mikill hluti af þjóðarframleiðslunni er landbúnaður í Bretlandi? Það ætti að bera það saman.) Það skiptir ekki máli í þessu sambandi. (HermJ: Má ég til þess að þurfa ekki að taka tvisvar sinnum fram í upplýsa það, að 2/3, sem ekki er beinlínis gefið úr ríkissjóði, eru 60 ára óuppsegjanleg lán með 2% lægri vöxtum en það, sem lánað er út á hér?) Við skulum sjá, hvað kemur á móti hér, ef við tökum tölurnar, sem ég var að byrja að rekja. Ég skal taka úr þessum lið, 16 A, einungis þær tölur, sem eru beinir, óafturkræfir styrkir til íslenzkra bænda. Það eru tveir liðir. Það eru gjöld vegna jarðræktarlaganna 27.8 millj. kr. og framlög samkv. lögum um landnám, ræktun og byggingar i sveitum um 15.6 millj. kr. Samtalan úr þessum tveimur liðum, sem allt saman eru beinir styrkir, útborgaðir, óafturkræfir styrkir til íslenzkra bænda, er 43.3 millj. kr. Í formi tvenns konar styrkja fá íslenzkir bændur 43.3 millj. kr. eða um það bil þriðjungi hærri tölu en þeir ættu að fá, ef fordæmi Breta gagnvart þeirra landbúnaði væri fylgt.

Ef ég síðan færi út í að taka liði, sem eru stuðningur við landbúnað, — ekki beinn styrkur til bændanna, heldur stuðningur við landbúnaðinn, — þá kemur mjög fljótlega upp í tölu, sem liggur á milli 50 og 60 millj. kr. Ef tekið er til viðbótar enn það, sem íslenzkir bændur fá greitt i peningum í útflutningsuppbætur, sem eru ekki til í Bretlandi, er komið upp í tölu á milli 70 og 80 millj. kr. Á slíkum tölum þarf ég ekki að halda til þess að afsanna, hvílík geysileg mistök hv. þm. gerði til stuðnings sínu máli að bera okkur saman við Breta, sem þó búa betur að sínum landbúnaði, hygg ég, heldur en flestar aðrar þjóðir, a.m.k. í Evrópu.

Hvernig lítur svo málið út, ef við tökum niðurgreiðslurnar? Niðurstaðan af því dæmi er hv. þm. enn óhagstæðari en þetta Eins og ég sagði áðan, ættu niðurgreiðslur á Íslandi af íslenzkum landbúnaðarvörum að vera 54.4 millj. kr., ef við gerðum eins og Bretar. Hvað skyldu þær vera? Hvað skyldu þær vera áætlaðar í ár? 256 millj. kr. eða réttum fimm sinnum meiri en er í Bretlandi. (Grípið fram í.) Það var ég ekki að segja. Ég er að bera saman við þá tölu, sem hv. þm. vitnaði til um Bretland sem fyrirmynd. Þetta, sem ég hef sagt nú, hefði verið óþarft, ef hv. þm. hefði ekki skýrt frá dæmi Bretlands sem fyrirmynd, sem dæmi um það, hversu vel önnur stórþjóð og góð þjóð, skildist mér, gerði við sinn landbúnað. Niðurstaðan er sú, að hún gerir miklu minna fyrir landbúnað sinn en við gerum hér eða höfum gert undanfarin ár, — miklu minna. Ég vil því segja aftur, að hv. þm. var vægast sagt seinheppinn í þessum málflutningi sínum.

Að síðustu skal ég svo láta þess getið, að þó að búið sé svona miklu betur að íslenzkum landbúnaði en gert er í Bretlandi, þá er eins og hv. þm. framsóknarmanna finnist langt frá því að vera nóg að gert. Ég hef gert mér það til gamans að tína saman þau frumvörp, sem hv. framsóknarmenn hafa flutt á þessu þingi til eflingar íslenzkum landbúnaði og til beins og óbeins stuðnings og styrks við íslenzka bændur, og athugað, hvaða kostnaðarauka þetta mundi leiða af sér á fjárlögum ár hvert næstu ár, a.m.k. á næsta ári. Og um þessi frumvörp skal ég nú lofa þm. að heyra. Þó að þau liggi á borðunum hjá þm. dreifð í bunkunum, sem fyrir framan þá liggja, þá er ekki víst, að menn hafi gefið sér tíma til þess eða látið sér detta i hug að leggja þau öll í einn bunka og taka tölurnar út úr þeim og leggja þær saman, en það er fróðlegt.

Það er frv. til l. um, að ríkissjóður taki á sig greiðslu á erlendum lánum, sem hvíla á ræktunarsjóði, það frv, sem hér er til umr. og ég nefni fyrst. Samþykkt þess mundi þýða 13.9 millj. árlegan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Þá er í öðru lagi frv. til l. um stuðning við bændur til bústofnsaukningar og vélakaupa, 20 millj. á 4 árum, 5 millj. kr. Í þriðja lagi frv. til l. um vega- og brúasjóð, sem mundi hækka framlög ríkisins til vega og brúa frá fjárlagafrv. nú um 78.5 millj. kr. Í fjórða lagi frv. til l. um auknar framkvæmdir til vegagerða á Vestfjörðum og Austurlandi, 6 millj kr. Í fimmta lagi frv. til l. um breyt. á l. nr. 7 12. jan. 1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, til endurnýjunar á ræktunarvélum, u.þ.b. 3 millj. kr. Í sjötta lagi frv. til l. um framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóð og ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, 20 millj. kr. Í sjöunda lagi frv. til l. um breyt. á l. nr. 48 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, 2.5 millj. kr. — 71/2 millj. á ári í 25 ár og árleg hækkun 2.5 millj. kr.

Ég hefði átt að hafa fyrirsögnina að þessu ofur lítið viðtækari en ég hafði hana, en hér er um að ræða frumvörp til beins og óbeins stuðnings við bændur og til framkvæmda í dreifbýlinu. Þetta vildi ég leiðrétta. Þetta eru samtals 128.9 millj. kr., þ.e. frumvörp framsóknarmanna til beins eða óbeins stuðnings við bændur og til framkvæmda í dreifbýlinu. Ég vil segja það aftur, ég vil taka af öll tvímæli um þetta, það eru 128.9 millj. kr., og a.m.k. yrði kostnaður sá sami fyrir ríkissjóð, hvort sem þetta er beinlínis stuðningur við bændur eða til framkvæmda í dreifbýlinu. En það er mergurinn málsins, þetta eru 128.9 millj. kr.

Ef þessi frumvörp yrðu samþykkt, þessi 129 millj. kr. útgjaldaaukningafrumvörp framsóknarmanna, mundi þurfa að hækka skatta og tolla á hverri fimm manna fjölskyldu i landinu um 3800 kr. Þetta eru frumvörp, hverra samþykkt mundi þýða 3800 kr. nýja tolla og skatta á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þeir menn, sem hafa komið stofnlánasjóðum landbúnaðarins á vonarvöl, virðast nú hafa sérstakan áhuga á því að koma ríkissjóði á vonarvöl líka.

Þetta dæmi um frumvarpaflutning Framsfl. sýnir, að í raun og veru er Framsfl. að tefla sér úr leik ábyrgra stjórnmálaflokka á Íslandi, og í ljósi þess er eflaust hægt að skoða málflutning hans í sambandi við þetta mál.