15.11.1960
Efri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Norðurl. e. (KK), lýsti því hér yfir, að hann hefði verið að tala í fjórða sinn. Það hefur sennilega átt að vera afsökun fyrir því, hversu innihaldslítið það var, sem hann flutti hér nú. Ég verð að segja það, að þessar umr. hér um landbúnaðarsjóðina hafa verið ákaflega lítið uppbyggilegar frá hendi stjórnarandstöðunnar, og ég er dálítið undrandi yfir þessum málflutningi, þessum stóryrðum, þessu kjaftæði, neikvæða kjaftæði — (HermJ; Ég held, að forseti ætti nú að hringja á ráðh.) um eitt mesta vandamál sem um er að ræða í okkar atvinnumálum. Ég held satt að segja, að það sé ekkert ljótt við að nota það lýsingarorð yfir málflutninginn, sem rétt er. Þetta er einmitt rétta lýsingarorðið. Þetta eru stóryrði, sem hér er um að ræða, og það er ekki annað en kjaftæði, — það er rétt lýsing á því.

Hv. 1. þm. Vesturl. talaði hér í gær, og ég hlustaði á þá ræðu alla frá byrjun til enda. Þar voru sömu neikvæðu upphrópanirnar, innihaldslausar, engar till. til lausnar á þeim vanda, sem um var að ræða, ekkert nema tilraunin til að rífa niður. Og við, sem vorum hér í d., þegar hv. síðasti ræðumaður talaði, urðum fyrir sömu áhrifum, — tilgangslaust röfl.

Það var í fjórða sinn, sem þessi hv. þm. talaði, og hann endaði ræðu sína með því að spyrja um, hvort ekki yrði lánað úr lánasjóðum landbúnaðarins að þessu sinni eins og vant væri, — hann vonaði það og hann hefði skilið mín orð svo, að það mætti vænta þess. Því síður er ástæða til stóryrða, ef hv. framsóknarmenn eru vongóðir um, að vandinn verði leystur að þessu sinni hvað útlán sjóðanna snertir. Ég hefði haldið, að það væri aðalatriðið. Ég hefði haldið, að það væri aðalatriði að leysa úr þeim vanda, sem um er að ræða, en ekki að flytja hér mál og tala þannig um málið eins og er helzt notað til áróðurs.

Við vitum, að lánasjóðir landbúnaðarins, eins og þeir eru nú staddir, eru með þeim hætti, að það verður að gera stórt átak. En ég er í vafa um, að landbúnaðinum sé greiði gerður með því að sýna andlit sjóðanna í einu lagi, eins og gert er með þessu frv., að fara fram á í einu lagi 160 millj. kr. eftirgjöf, um leið og aðrir atvinnuvegir eða aðrir fjárfestingarsjóðir eru ekki heldur vel stæðir. Það gæti skeð, að málsvarar annarra atvinnuvega teldu eðlilegt, að eitthvað væri gert fyrir aðra fjárfestingarsjóði, sem væri þá skylt við það, sem hér er um að ræða.

Ég minntist á það hér í ræðu fyrir nokkrum dögum, að hv. 2. þm. Vestf., sem er einn af flm. þessa máls, hefði ekki getað haldið stoðunum undir fjárfestingarsjóðum landbúnaðarins 1958, þegar 55% yfirfærslugjaldið kippti rekstrargrundvelli undan sjóðunum. Ég hef haldið því fram, að þessi hv. þm. hafi reynt þá að fá eftir gefnar 30–40 millj. kr. til þess að grafa ekki algerlega undan sjóðunum. Og raunverulega hefði þurft miklu meira, því að 1958 var krónan fallin miklu meira en sem nam þessum 55%. En hv. 2. þm. Vestf. réð ekki við málið. Hann fékk ekki samkomulag í vinstri stjórninni um það að fá 30–40 millj. kr. eftir gefnar þessum sjóðum til handa, enda þótt hann nú telji sjálfsagt, að 160 millj. kr. verði gefnar eftir í einu lagi. Og það er ekkert sambærilegt að tala um eftirgjöf á erlendum lánum, sem eru ógreidd, og eftirgjöf á lánum, sem ríkissjóður hefur lánað þessum sjóðum. En þær eftirgjafir, sem sjóðirnir fengu 1953 og 1957, voru innlend lán, sem ríkissjóður hafði látið sjóðina hafa. Það er allt annað mál, vegna þess að um leið og það var samþykkt, að ríkissjóður gæfi þessar upphæðir eftir, þurfti engar ráðstafanir að gera til að afla fjár í því skyni að endurgreiða þetta fé. Það var þess vegna tiltölulega auðvelt. En um leið og samþ. er að gefa eftir erlendu lánin, sem einhver verður að greiða, þá verður að afla fjár eða láta ríkissjóð taka á sig árlegan bagga til að standa undir vöxtum og afborgunum af þessum lánum. Og ef ríkissjóður tæki á sig öll erlendu lánin, sem hvíla á ræktunarsjóði og byggingarsjóði, þá mundi það kosta ríkissjóð á ári 24 millj. kr., sem þyrfti þá að setja á fjárlög. Þetta er vitanlega miklu erfiðara en að gefa eftir innlend lán, sem ríkissjóður hefur einu sinni látið af hendi, og engum er þetta kunnara en hv. 2. þm. Vestf.

Satt að segja undrast ég, þegar hv. framsóknarmenn, eins og hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 1. þm. Norðurl. e., tala hér af miklum fjálgleik um efnahagsaðgerðir ríkisstj., rétt eins og þær hafi verið með öllu óþarfar. Það er ekki langt síðan hv. 1. þm. Norðurl. e. var staddur á flokksfundi í Hveragerði, – það var reyndar ekki flokksfundur, því að þangað komu nokkuð margir kommúnistar líka, — og hv. 1. þm. Norðurl. e. talaði á þessum fundi ákaflega illa um ríkisstj. og allt, sem hún hafði gert. Eftir ræðu hv. þm. kom upp í pontuna bóndi úr Ölfusinu og gerði fyrirspurn um það, hvernig á því stæði, að framsóknarmenn og kommúnistar hefðu farið úr ríkisstj. og látið þessum vondu mönnum völdin í hendur, úr því. að vandinn var í raun og veru sáralítill, sem við var að etja, því að þm. hafði lýst því, að það hefði; ekki þurft að gera nema einhverjar smávegis lagfæringar, til þess að allt væri í lagi. Bóndinn vildi ekki trúa því, að framsóknarmenn hefðu farið úr stjórninni af því, að þeir vildu ekki lengur vera við völd. En bóndinn fékk engin svör við. þessari spurningu, hvers vegna vinstri stjórnin fór frá völdum. Bóndinn fékk engin svör, sem hann tók til greina, og af þessu varð hálfgert grín, sem kom sérstaklega fram í fundarlokin, þegar menn fóru út úr fundarsalnum, því að þá var þar einn maður, sem lýsti því, þegar hann talaði um einn áberandi framsóknarmann: „Ja, þér ferst, Flekkur, að vera að gjamma á þann hátt, sem þú hefur gert hér á fundinum.“ En ég skal taka það fram, að hann mun ekki hafa átt við hv. 1. þm. Norðurl. e.

Þannig er það, að þegar hv. framsóknarmenn, bæði hér á þingi og á fundum úti á landi, eru að tala um, að ekki hefði þurft að gera nema smávegis breytingar á okkar efnahagsmálum, til þess. að atvinnuvegirnir gætu gengið snurðulaust, erfiðleikalaust, þá tekur almenningur í landinu ekki mark á þessu, vegna þess að almenningur í landinu minnist þess, að þessir menn höfðu stjórnarforustu og gáfust upp, og þeir gáfust upp vegna þess, að þeir réðu ekki við erfiðleikana. Það er þetta, sem allur almenningur man. Það er þetta, sem allur almenningur veit og skilur. Og almenningur í landinu veit það í dag, að þjóðarbúskapur okkar var á því stigi, þegar vinstri stjórnin skildi við, að það var ekki unnt að rétta okkar mál við öðruvísi en þjóðfélagsþegnarnir allir fyndu nokkuð til. Þess vegna er það ekkert undarlegt, þótt það komi fram á fundi útvegsmanna, að það hafi eitthvað að þeim kreppt eins. og öðrum landsmönnum. Og það er vissulega alveg rétt, að útvegurinn á við margs konar erfiðleika að stríða í dag, ekki þó aðallega vegna efnahagsráðstafananna, heldur einnig og ekki síður vegna aflaleysis og verðfalls á afurðunum.

En við Íslendingar eigum ekki nema um tvo kosti að velja, annaðhvort að sætta okkur við það, þótt nokkuð sé erfiðara í bili, og sigrast á erfiðleikunum, eða þá að láta undan síga og verða undir skriðunni, svo að við getum aldrei bjargað okkur.

Það er augljóst, hvernig hv: framsóknarmenn skipta algerlega um skoðun eftir því, hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, þegar þeir nú tala sérstaklega um bændastéttina og hvað illa sé komið fyrir henni og hversu mikil nauðsyn sé á því að bæta kosti bændastéttarinnar með alls konar fyrirgreiðslum. Út af fyrir sig finnst mér ánægjulegt, að framsóknarmenn skuli nú muna eftir landbúnaðinum. Þeir munu fá að reyna það seinna, þegar tækifæri gefst til, að standa við sín loforð og fyrirheit landbúnaðinum til handa.. Og ég mun, þegar tækifæri er til, hugsa mér gott til þess að fá þá til að rétta upp höndina með ýmsum þeim hagsmunamálum bændastéttarinnar, sem þeir nú bera fram, því að vissulega er margt,. sem þarf að gera til úrbóta og lausnar á vandamálum landbúnaðarins. En það er æskilegt, að þessir hv. menn muni eftir þessu, ekki aðeins þegar þeir reka ábyrgðarlausa stjórnarandstöðu, heldur einnig þegar eða ef þeir eiga að finna til ábyrgðar.

Það kemur oft fyrir, að hv. framsóknarmenn gera sig beinlínis hlægilega, þegar þeir ræða um .ýmis mál, sem snerta strjálbýlið. Það er ekki langt síðan hv. 2. þm. Vestf. var að tala um vegamál á Vestfjörðum og víðs vegar um land og lýsti því mjög átakanlega, hvernig þessum málum væri komið. Hann lýsti því, hvernig vegamálin voru á Vestfjörðum, en hann gat þess ekki, að sjálfur hefur hann um margra ára skeið verið vegamálaráðherra, um fjöldamörg ár verið í ríkisstjórn, og í 26 ár hefur hann verið þm. nokkurs hluta af Vestfjörðum. En svo er það, að á árinu 1960, þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu, þá er eins og hann fyrst komi auga á, hvernig vegamálum þessa landshluta er komið og það sé nú sérstaklega þörf á að bæta úr því. Auðvitað er þörf á að bæta úr vegamálunum, en það hefur alltaf verið þörf á því, einnig þegar hv. framsóknarmenn eru í stjórn. — Þetta eru aðeins dæmi um málflutninginn og þau sinnaskipti, sem þessir hv. þm. taka eftir því, hvernig vindurinn blæs.

Hv. framsóknarmenn hafa prédikað það, síðan þeir fóru úr stjórninni, að landbúnaðarframleiðslan drægist saman, að það þyrfti að flytja inn smjör og fleiri landbúnaðarafurðir. Þessa þurfti í ársbyrjun 1960. Þessa þurfti, áður en efnahagsaðgerðirnar komu til. Þessa þurfti vegna aðgerðanna 1958, sem vinstri stjórnin stóð að.

Hv. 1. þm. Vesturl. hefur sagt í haust, að það þyrfti að flytja inn smjör og osta í vetur og það væri dæmi um það, hvernig samdrátturinn væri í íslenzkum landbúnaði. Á laugardagskvöldið hlustaði ég á það í útvarpinu, að lesið var upp úr Árbók landbúnaðarins 1960, og þar var lýst, hvernig ástandið er í þessum málum, og beinlínis fram tekið þar, að ekki þurfi að búast við, að skortur verði á mjólkurvörum næstu missirin. Það var tekið fram þar, að mjólkin hefði aukizt allmikið á þessu ári, sem betur fer, og það er gleðilegur vottur. Það sannar ekki, að efnahagsaðgerðirnar komi ekki við bændur, mér dettur ekki í hug að neita því. Bændur taka á sig byrðar eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins. En þetta sannar það, að það er ekki rétt, sem hv. framsóknarmenn hér á þingi halda fram, að það sé uppgjafatónn i bændum. Þetta sannar einmitt það, að bændur eru tilbúnir að taka á sig sams konar byrðar og aðrir landsmenn. Þetta sannar það, að bændastéttin ætlar ekki að bregðast nú frekar en áður, enda var hún alltaf ólíklegust til þess. Þess vegna segi ég, að sá uppgjafartónn, sem hv. framsóknarmenn prédika, bæði hér á hv. Alþingi og í Tímanum, túlkar ekki skoðanir bænda. Bændur munu ekki una því að verða fyrir misrétti. Þeir munu ekki una því, að starf þeirra verði ekki viðurkennt og að þeir verði ekki látnir njóta jafnréttis við aðrar stéttir. En þeir munu ekki gefast upp, þótt þeim sé ætlað að taka á sig sams konar byrðar og aðrir landsmenn bera.

Það hefur svo oft verið rætt um efnahagsaðgerðirnar og ástæðurnar fyrir því, hvers vegná þær voru gerðar, að það er ekki ástæða til að orðlengja það að þessu sinni, því að það mundi vera endurtekning. Það er líka talað fyrir daufum eyrum, þegar talað er við hv. framsóknarmenn um þessi mál hér í deildinni ekki af því, áð eir skilji þetta ekki, heldur af því, að þeir hafa kosið að berja höfðinu við steininn hvað þetta snertir og halda öðru fram en staðreyndunum. Ég mun þess vegna stytta mál mitt og endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég tel aðalatriðið, að úr því vandamáli verði leyst, sem hér er um að ræða. Ríkisstj. er að því. Hún er að leita að ráðum til þess að leysa þennan vanda til frambúðar. Hún er að vinna að því, að bændur fái lán að þessu sinni með sama hætti og áður.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. spurði að því áðan, hvort ég vildi lýsa því yfir, að ekki væri gengisfyrirvari á skuldabréfum þeim, sem nú verða útbúin vegna lána úr sjóðum landbúnaðarins. Ég vil aðeins segja það við þennan hv. þm., að það verður ekki langt þangað til hann á þess kost að sjá þessi skuldabréf, og þá kemst hann að raun um, hvort þar verður þessi fyrirvari. Og ég vil segja það, að það væri eðlilegra, um leið og hv. framsóknarmenn eru vongóðir um, að núv. ríkisstj. leysi vandann, að þeir spöruðu sér þau stóryrði, sem hafa verið viðhöfð um þetta mál undanfarið, vegna þess að þau greiða ekki fyrir á neinn hátt.

Ég tel ekki ástæðu til að þessu sinni að ræða meira um þetta frv. Framsóknarmenn hv. vita, að frv. eins og þetta, með 160 millj. kr. eftirgjöf í einu lagi til handa þessum sjóðum, það verður erfitt að fá slíkt fram. Það hefði verið eðlilegra að taka slíkt í áföngum og kippa fótunum ekkí undan sjóðunum. En þegar þessi hv. flokkur fer úr ríkisstj., þá er viðskilnaðurinn á þennan veg. Till. til úrbóta hafa þessir hv. þm. ekki fram að færa. Þeir hafa ekki annað fram að færa en að gera kröfur til núv. ríkisstj. um, að allt verði lagfært á tiltölulega stuttum tíma, sem úr skorðum gekk í þeirra stjórnartíð. Ríkisstjórnin mun ekki skorast undan því að leysa þann vanda, sem við blasir. Verkefnið er erfitt, en það verður að leysa það. Og ég tel, að hv. stjórnarandstaða ætti að velja sér það hlutskipti frekar að veita þá aðstoð, sem hún gæti látið í té með hóflegum málflutningi og tillögum, ef þær væru fyrir hendi, heldur en að vera hér dag eftir dag með stóryrði um þessi mál án þess að koma með nokkra tillögu til úrbóta. Hafi þessir hv. þm. engar tillögur til úrbóta fram að færa, ættu þeir ekki að undrast, þótt ríkisstj. þurfi nokkurn tíma til þess að vinna að þessum málum.