19.12.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

1. mál, fjárlög 1961

Forseti (SÁ):

Ég vil fara nokkrum orðum í sambandi við þær fjórar tillögur, sem eru undir VIII. tölulið á þskj. 225. 6. þm. Norðurl. e. hafði hreyft því, að till. 3. þm. Vesturl. o.fl. á þskj. 225, tölul. VIII, um launamál opinberra starfsmanna, sé þess eðlis, að ekki sé leyfilegt að flytja hana sem brtt. við fjárlög, þar sé um að ræða breyt. á almennum lögum, þ.e. launalögum, sem ekki sé heimilt að gera í fjárlögum. 3. þm. Vesturl. telur, að till. feli ekki í sér breyt. á launalögum, heldur sé aðeins gerð breyting á greiðslum til starfsmanna ríkisins. Í stjórnarskránni er ákvæði um setningu venjulegra laga: Ekkert lagafrv. að fjárlögum og fjáraukalögum undanskildum má samþykkja, fyrr en það hefur verið rætt þrisvar sinnum í hvorri þingdeild, sjá 44. gr. stjórnarskrárinnar. Ef lagafrv. er samþ. í annarri hvorri þd., skal það lagt fyrir hina deildina, svo sem það var samþ. Ef þar verða breytingar á gerðar, fer frv. aftur til fyrri þd. Ef hér verða aftur gerðar breytingar, fer það að nýju til hinnar d., sjá 1. mgr. 45. gr. stjórnarskrárinnar. Nú gengur enn eigi saman og ganga báðar deildirnar saman í eina málstofu; og er þá málinu lokið með einni umræðu í sameinuðu Alþingi, sjá 2. mgr. 45. gr. stjórnarskrárinnar Frv. til fjárlaga og fjáraukalaga skal leggja fyrir Sþ. og afgreiða við þrjár umræður, sjá 2. mgr. 42. gr. stjórnarskrárinnar. Setning almennra laga er mjög frábrugðin setningu fjárlaga. Það er því almennt álit fræðimanna, að venjulegum lögum verði ekki breytt í fjárlögum. Hins vegar er það vafalaust, að í fjárlögum má auka lögboðnar greiðslur.

Hér þarf því að leysa úr því, hvort tillaga sú, sem hér um ræðir, felur í sér breyt. á almennum lögum eða hvort einungis er aukið við lögboðnar greiðslur. Till. er svo hljóðandi:

„Frá Halldóri E. Sigurðssyni, Karli Guðjónssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Garðari Halldórssyni.

Við 22. gr. XXXII. Nýr liður:

Ríkisstj. er heimilt að ákveða eftirfarandi bráðabirgðabreytingar á launakjörum starfsmanna ríkisins:

a. Laun, sem samkv. gildandi launalögum fara stighækkandi eftir starfsaldri, hækki á tveimur árum í stað fjögurra ára, þannig að byrjunarlaun verði samsvarandi núverandi launum með tveimur aldurshækkunum og hækki síðan á tveimur árum í hámarkslaun launaflokksins.

b. Starfsmönnum, sem laun taka samkv. XIII. og XIV. flokki launalaga, verði greidd laun samkv. XII. flokki.

c. Starfsmaður, sem verið hefur í þjónustu ríkisins í 10 ár samfleytt, fái launahækkun, er samsvari hækkun um einn launaflokk.

d. Laun barnakennara verði greidd með uppbót, er nemur 8%.“

Ég tel, að a- og b-liðir tillögunnar feli í sér breytingu á launalögunum, en að í c- og d-liðum sé aukið við lögboðnar greiðslur. Því úrskurðast: a- og b-liðum brtt. Halldórs E, Sigurðssonar o.fl. í VIII. tölulið á þskj. 225 er vísað frá, en c- og d-liðir koma til atkvæða á venjulegan hátt.