15.11.1960
Efri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. var fjölorður um stóryrðin hér í þessari hv. deild, en hann á nú sinn hlut í þeim, heyrðist mér áðan, þar sem hann var að tala margsinnis um kjaftæði. Það stendur ekkert upp á hann 1 þeim. En svo að ég nefni önnur stóryrði, þá vil ég aðeins minna á það, sem hæstv. viðskmrh. byrjaði á við upphaf þessara umræðna. Honum fórust orð á þá leið m.a., að fjárstjórn ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs Búnaðarbankans yrði að teljast til einhverra mestu mistaka í fjárhagsmálum íslenzku þjóðarinnar, frá því að innlendu bankakerfi var komið á laggirnar, svo að ég noti orðalag hans. Það var ekkert minna. Hann talaði um algert stjórnleysi hjá bankaráðinu, það hefði viðhaft fjárglæfra, það hefði ekkert gert til að bjarga sjóðunum og allt væri þetta hneyksli. Öll þessi ummæli eru í ræðu hæstv. ráðh. Til hvers er þá hæstv. landbrh. nú að koma hér upp og kvarta um, að menn hafi tekið of mikið upp í sig? Getur hann ekki snúið geiri sínum til félaga síns í ríkisstjórninni, sem byrjaði þessar umr. á þessum orðum? Og hver voru hneykslin, hverjir voru fjárglæfrarnir, sem bankaráðið hafði viðhaft? Þetta sundurgreindi hæstv. viðskmrh. alveg sómasamlega. Það voru of lágir vextir á lánum til bændanna, lánin voru til of langs tíma, í þriðja lagi, að meira væri lánað en nettótekjur sjóðanna segðu til á hverju ári, og í fjórða lagi, og það var kjarninn, að ekki voru sett gengisákvæði í skuldabréf bændanna. Þetta var það, sem hann lýsti og varði löngu máli í, tveimur eða þremur ræðum.

Nú ætla ég ekki að fara út í þessa sálma frekar, því að það hafa aðrir svarað hæstv. ráðh. þessum aðalatriðum. Ég vildi aðeins spyrja hæstv. viðskmrh. Nú hafa stjórnarflokkarnir meiri hluta í bankaráði Búnaðarbankans og ráða þar af leiðandi þessum sjóðum. Þeir eru búnir að gera það frá því snemma á þessu ári. Eru þeir ekki farnir að afnema hneykslin? Eru þeir ekki farnir að þurrka út fjárglæfrana þarna i Búnaðarbankanum? Hvað eru þeir búnir að gera til þess að bjarga sjóðunum, eins og þeir kalla það? Hefur ekki fulltrúi Alþfl. í bankaráðinu tekið í taumana? Maður skyldi halda það, ef nokkurn skapaðan hlut er að marka þessar ræður hæstv. ráðh.

En þá er að líta á það, hvers vegna sjóðirnir eru orðnir gjaldþrota, eins og hæstv. ráðh. segir að þeir séu. Hvert var mesta áfallið fyrir þessa sjóði nú í seinni tíð? Það er gengislækkun hæstv. ríkisstjórnar, sem kostaði þessa sjóði 68.8 millj. M.ö.o.: hefði gengislækkunin ekki komið til, ættu þessir sjóðir um 50 millj. fram yfir skuldir. Þarna er ástæðan fyrir því, að þeir eru gjaldþrota, eins og hæstv. ráðh. segir. Og hverjir eiga sökina? Nei, ég býst við því, að það standi eitthvað á því, að hæstv. viðskmrh. skýri frá neinni stefnubreytingu eða nýjum tillögum í stjórn þessara sjóða, þó að hans fulltrúi og fulltrúar Sjálfstfl. séu þar í meiri hluta. Ég held, að honum væri miklu nær að skýra hreinskilnislega frá því, að þeir hafa engar tillögur gert til neinna breytinga þarna, — engar. Ef þarna hafa verið framdir fjárglæfrar, þá er svo enn. Ef þarna hefur átt sér stað hneyksli, þá er sama hneykslið að gerast núna. Það hefur engin breyting orðið þarna á, svo að menn viti til.

Eitt atriði tók hæstv. viðskmrh. sérstaklega til meðferðar í þessum löngu ræðum sínum. Það var hinn gífurlegi rekstrarkostnaður á þessum sjóðum samanborið við aðrar lánastofnanir, og nefndi hann tvær til samanburðar, Framvæmdabankann og fiskveiðasjóð. Það er búið að sýna þessum hæstv. ráðh. fram á það, að hann geti ekki borið Framkvæmdabankann saman við ræktunarsjóð og byggingarsjóð, því að Framkvæmdabankinn láni aðeins stór lán, jafnvel gífurlega stór lán og fá, en þessir sjóðir aftur á móti lána mörg lán og smá. En það hlýtur að vera eitthvað álíka fyrirhafnarmikið fyrir lánastofnun að afgreiða lán, hvort sem það er 60 þús. eða 5 millj., það getur ekki munað miklu. En hæstv. ráðh. hafði þann mælikvarða á þennan rekstrarkostnað að reikna hann út eftir hæð lánanna, — ekki eftir tölu lánanna, nei, eftir hæð lánanna. Í næstu ræðu þar á eftir viðurkenndi hæstv. ráðh., að þetta væri rangt hjá sér, að bera sjóðina saman við Framkvæmdabankann. Hann viðurkenndi það, en hitt væri þó a.m.k. rétt, að bera sjóðina saman við fiskveiðasjóð. Nú skal ég gera það, taka bara eitt dæmi. Ég ætla að taka dæmi af tveimur mönnum. Annar er bóndi og hinn er útgerðarmaður. Bóndinn kemur i ræktunarsjóð og sækir um lán út á fjós, og hann sækir um 50 þús. kr. lán, því að hann hefur ekki skilyrði til að fá meira lán. En útgerðarmaðurinn sækir um lán út á bát, sem hann hefur keypt erlendis og flutt inn, 90–100 tonna bát, og hann sækir um 3 millj. kr. lán, því að bátur af slíkri stærð kostar nú frá 41/2 til 5 millj. og fiskveiðasjóður lánar 2/3. Nú segir hæstv. ráðh.: Rekstrarkostnaðurinn á ræktunarsjóði er 0.95% af lánunum, en hjá fiskveiðasjóði er hann ekki nema 0.29%, hann er meira en þrisvar sinnum minni. En hvað er þetta í krónum, ef það væri reiknað af þessum lánum, sem ég nefndi? Hvað yrðu 0.95% af 50 þús. kr. láni? (Menntmrh.: Þetta er ekki rétt. Þetta er ekki rétt reiknað.) Hver er misskilningurinn? (Menntmrh.: Misskilningurinn er sá, að þetta er ekki lánprósenta, sem tekin er í heild.) Er ekki alveg eins hægt að taka af einu láni til að sýna, hvaða gildi mælikvarðinn hefur? (Menntmrh.: Hvað er lántökugjaldið í fiskveiðasjóði og ræktunarsjóði?) Ég man nú ekki lántökugjaldið þar. (Menntmrh.: Það er það, sem á að bera saman.) Það var það, sem hæstv. ráðh. var að gera, hann var að reikna út rekstrarkostnaðinn og deila honum niður á lánaupphæðirnar — var það ekki rétt? — í báðum tilfellum. Og ég ætla að gera það sama með því að taka dæmi af tveimur lánum, öðru í ræktunarsjóði, hinu í fiskveiðasjóði, og vita, hvað kemur út í krónum. (Menntmrh.: Þeir borga það ekki, þessir menn, það veit þm. vel.) Ég er að tala um, hver rekstrarkostnaður sjóðanna er. (Gripið fram í.) En hvað þýðir þá fyrir hæstv. ráðh. að skýra frá þessum prósentum, ef ekkert má marka þær? (Menntmrh.: Það gildir í heild, en ekki fyrir einstaka lántakendur.) Nú, gildir i heild, en ekki fyrir einstakan lántakanda. En áttu ekki þessar prósentur að gilda sem mælikvarði á það, hvað það væri ósvifinn rekstrarkostnaður hjá ræktunarsjóði miðað við fiskveiðasjóð, og það er það, sem ég er að reikna út, ekki i prósentum, heldur í krónum? En þetta gjald, sem hæstv. ráðh. nefndi, 0.95% af litla láninu, 50 þús. kr., gerir ekki nema 475 kr., en hin prósentan, 0.29 í fiskveiðasjóði af 3 millj., gerir 8700 kr. Ég var ekkert að segja um það, hverjir ættu að borga þetta, heldur notaði hæstv. ráðh. þetta sem mælikvarða á hneykslanlegan rekstrarkostnað ræktunarsjóðs miðað við fiskveiðasjóð. Ég held, að ég hafi bent hér á veiluna hjá hæstv. ráðh.

Hæstv. landbrh. drap á launahækkanir hjá flugmönnum 1957, sem hann taldi hafa verið orsök launahækkana á sumrinu 1958, en þær launahækkanir 1958, þar sem sjálfstæðismenn og Alþfl: menn koma við sögu, taldi hann ekki saknæmar, heldur væri höfuðástæðan fyrir þeim hækkun á launum flugmanna í febrúar 1957, og af því að hann er um leið flugmálaráðherra, sýnist mér alveg sérstök ástæða til þess að drepa á þetta mál. Það má minna á það, að hæstv. ráðh. er búinn að gleyma gömlu kenningunni hjá Sjálfstfl., af hverju erfiðleikar höfðu átt sér stað í efnahagsmálunum. Þeir voru ekki þá að tala um flugmannalaun. Mér skildist, að það hefðu verið verkföllin miklu 1955. Nú er hæstv. ráðh. að söðla um og kominn yfir á flugmannakaupgjald 1957. Látum það vera. Það er einmitt það, sem ég ætla aðeins að drepa á. Þessi hæstv. ráðh. sagði í þessari ræðu sinni, að kaupgjald flugmanna 1957 hefði hækkað um 50%. Ég greip fram í fyrir honum og spurði: „Var það virkilega 50%?” „Já,” sagði ráðh., „það var mjög nálægt því, það varð gífurleg hækkun.”

Nú hef ég kynnt mér þetta mál, hversu gífurleg þessi kauphækkun flugmanna var 12. febr. 1957, en því aðeins geri ég þetta, að það er búið að halda uppi þeim áróðri hér um bil í fjögur ár, að þessi stétt manna hafi sýnt óviðeigandi óbilgirni og kröfur um laun. Breytingarnar, sem verða á kjörum flugmanna með samningum 12. febr. 1957, eru i aðalatriðum þessar: Í fyrsta lagi: Flugmennirnir höfðu áður greitt 10% af launum sínum í lífeyrissjóð, en flugfélögin 5%. Breytingin, sem varð með samningunum, er sú, að flugfélögin hækka sitt framlag upp í 10%, en framlag flugmannanna sjálfra helzt óbreytt eftir þessa launahækkun. En þetta eru hlunnindi. Það eru bætt skilyrði lífeyrissjóðsins. Annað atriði, sem gerist í þessum samningum flugmannanna 12, febr. 1957, er það, að allir flugmenn höfðu haft 18 daga sumarleyfi, en með þessum samningum fá þeir flugmenn 24 daga sumarleyfi, sem búnir eru að vinna lengur en 10 ár hjá sama flugfélagi, allir aðrir standa í stað. Ekki er þetta kauphækkun en þetta eru fríðindi. (Gripið fram í.) Ég hef þetta skrifað. Þriðja breytingin, sem gerð er með þessum samningum, er sú, að flugfélögin áttu að greiða skv. eldri samningum 150 kr. á dag í dagpeninga, ef flugmaður varð óvinnufær vegna slysa. Þetta ákvæði er hækkað upp í 200 kr. á dag og tíminn lengdur úr 180 dögum upp í 200 daga. Þetta eru líka fríðindi handa þeim — eða réttara sagt ofur lítið meiri sárabætur fyrir þá, sem verða fyrir slysum, en ekki bein kauphækkun. Og í fjórða og síðasta lagi kemur sjálf kauphækkunin, sjálf launahækkunin, sem hæstv. ráðh. sagði að hefði verið 50%. Hún er þessi: Hjá flugstjóra í millilandaflugi hjá Loftleiðum 7 þús. kr. yfir árið án verðlagsuppbótar, en þá var verðlagsuppbót 78%. Hjá flugstjórum í millilandaflugi hjá Flugfélagi Íslands 5 þús. kr. á ári. Hjá flugstjóra í innanlandsflugi 5 þús. kr. á ári. Hjá aðstoðarflugmanni hjá Loftleiðum 2 þús. kr. á ári. Hjá fyrsta flugmanni í innanlandsflugi 4 þús. kr. á ári. Og hjá aðstoðarflugmanni 3 þús. kr. á ári. Allt er þetta án verðlagsuppbótar. Mér hefur reiknazt til, að þetta mundi nema í kringum 5–6% hækkun á launum flugmanna, og þetta er eina beina launahækkunin, sem flugmenn fengu í febr. 1957. Hitt eru hagsbætur í öðru formi, sem ég hef þó nefnt allar. En þó að allt sé lagt saman, getur enginn maður fengið nein 50% og ekki neitt nálægt því út úr þessu dæmi. (Gripið fram í: Var það ekkert meira en þetta?) Ekki veit ég til þess. (Gripið fram í: Ekki hlunnindi?) Ég var að telja þrenn hlunnindi. (Gripið fram í: Jæja, þá bara gleymirðu.) Ég hef skoðað þessa samninga. (Gripið fram í: Jæja, við skulum hætta að tala um þetta.) Er það þá ekki eitthvað, sem hefur komið seinna? (Forseti: Ég bið hv. þm. að hafa ekki samtal.) Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. nefni þá, hvað er í þessum samningum, því að hann nefndi samningana. Það þýðir ekkert fyrir hann að nefna eitthvað annað, sem kann að hafa komið síðar. Hann nefndi launahækkun í febrúar 1957. 12. febr. er þessi samningur gerður. Mér er alveg ljóst, að það er búið að halda uppi óhæfilegum áróðri gegn flugmönnum í landinu allan þennan tíma, og svo gerist hinn stóri atburður í sumar, þegar hæstv. flugmrh. gefur út brbl. til þess að koma í veg fyrir samninga og bannar verkföll hjá þessari stétt. Vafalaust — ég segi vafalaust — hlýtur þessi hæstv. ráðh. að hafa þar til hliðsjónar launin, sem hann taldi að flugmennirnir hefðu fengið hækkuð um 50% 1957. (Landbrh.: Launin og öll hlunnindi.) Ég er búinn að telja fram þrjá flokka af hlunnindum, og ef hæstv. ráðh. getur talið fleiri, þá skal ég taka þau sannarlega til greina, ef ég finn þau í samningnum. (Landbrh.: Hvernig var með gjaldeyrinn?) Það er gjaldeyririnn, — ja, það er gott, að hæstv. ráðh. minnist á það. Það var ekki samið um nein gjaldeyrisfríðindi í þessum samningi, ekki nein, ekki einn einasti stafur. Ég vona, að hæstv. ráðh. hljóti að viðurkenna það. (Landbrh.: En þeir fengu það eigi að síður.) Ekki þarna, ekki í þetta skipti. (Forseti: Ég bið hv. þm. að hafa ekki samtal.)

Það er hart til þess að vita, þegar ein stétt manna, sem leggur jafnmikið á sig og flugmennirnir, hefur orðið fyrir slíkum árásum eins og hefur átt sér stað fyrst og fremst í blaðakosti hæstv. flugmrh. Þetta er búið að standa hér um bil í 4 ár. Og þeir hafa sannarlega ekki nein ráðherralaun, þessir menn, jafnvel þó að þeir séu flugstjórar. (Gripið fram í.) Hvað hafa þeir mikið? Vill hæstv. ráðh. nefna árslaun einhverra, sem hæst eru launaðir meðal flugmanna? Mig langar til að heyra það. Þó að hann telji með alla flugpeningana nákvæmlega, sem á auðvitað að telja með, því að það er kaup, þá ætla ég, að mikið skorti á, að flugmenn hafi ráðherralaun, a.m.k. almennt, ef nokkur einn einasti þeirra nær ráðherralaunum. Hitt er svo ekki rætt um, að þetta eru menn, sem gegna ábyrgðarmeiri stöðum en sennilega nokkrir aðrir í þjóðfélaginu, áhættusamari og ábyrgðarmeiri störfum, og í öðru lagi, þetta eru menn, sem geta ekki sinnt þessum störfum lengur en til 45—50 ára aldurs, þá verða þeir að hætta.

Ég skal ekki hafa þetta lengra að sinni. Ef hæstv. flugmrh. getur sannfært mig um, að ég fari rangt með samninga, sem gerðir voru 12. febr. 1957 við flugmennina, þá skal ég viðurkenna það. En ég ræddi um þá samninga af því, að hann ræddi um þá í sinni ræðu og nefndi þar 50% launahækkun.