15.11.1960
Efri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

68. mál, Ræktunarsjóður Íslands og Byggingarsjóður sveitabæja

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég kem ekki til þess að segja skrýtlu, heldur aðeins til þess að ganga úr skugga um, að hv. þm. geri sér alveg ljóst, um hvað er að ræða, þegar ég ræddi um reiknaðan kostnað sjóða Búnaðarbankans. Hann vildi leggja þann skilning í þau orð mín, að ég sagði að þetta væri ekki raunverulegur kostnaður þeirra, að málið væri þá ekki svo alvarlegt, fyrst þetta væri ekki raunverulegur kostnaður þeirra, heldur aðeins reiknaður kostnaður þeirra. En sannleikurinn er sá, að þó að kostnaðurinn sé fundinn þannig út, að hann sé talinn ákveðinn hluti af heildarkostnaði Búnaðarbankans, þá er hann raunverulegur fyrir sjóðina, því að þeir verða að bera hann, og það er auðvitað mergur málsins. Þess vegna skiptir ekki máli fyrir afkomu sjóðanna, hvort þessar háu tölur eru til komnar á þann hátt, að stjórn Búnaðarbankans, bankaráð og landbrh., ákveða kostnaðarhlutdeildina svona, eða hvort þetta er kostnaður, sem greiddur er starfsmönnum, í húsaleigu og því um líkt. Fyrir sjóðina skiptir engu máli, hvernig það er til komið, því að það kemur sem gjöld á sjóðina, sem frádráttur á það ríkisframlag, sem sjóðirnir fá, og það er það, sem skaðar sjóðina, því að þessi reiknaði kostnaður sjóðanna, sem er raunverulegur fyrir þá, hefur því miður orðið meiri en öll framlög Alþingis til þessara sjóða. Það er þetta, sem ég hef leyft mér að átelja mjög, að stjórn Búnaðarbankans, bankaráð og landbrh., skuli hafa látið það viðgangast um langt skeið undanfarið, — ég þori ekki að segja, hvað langt aftur í tímann, — að sjóðunum skuli hafa verið reiknaður svo hár raunverulegur kostnaður, að hann skuli hafa gert meira en gleypa allt framlag Alþingis til sjóðanna.