19.12.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1961

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þann úrskurð, sem hér hefur verið felldur, mun ég enga tilraun gera til að hrekja hann á einn eða neinn hátt. Ég ætla hins vegar að vekja athygli á því, að í þeim liðum, sem hér hefur verið vísað frá, þar sem ekki sé hægt að samþykkja þá inn í fjárlög, þá hagar því svo, að þótt forseti úrskurði nú, að þeir geti ekki komið til atkv. í fjárl., þá liggur það fyrir, að ríkisstj. framkvæmir þá með löglausum hætti eftir þessum úrskurði. Ég vil sem dæmi um þetta nefna það, að í 1. liðnum; þ.e.a.s. a-stafliðnum í till. VIII á þskj. 225, er gerð till. svo hljóðandi:

„Laun, sem samkv. gildandi launalögum fara stighækkandi eftir starfsaldri, hækki á 2 árum í stað 4 ára, þannig að byrjunarlaun verði samsvarandi núverandi launum með tveimur aldurshækkunum og hækki síðan á tveimur árum í hámarkslaun launaflokksins.“

Mér er kunnugt um það, að af ríkisstj. hálfu er það til í framkvæmd, að menn, sem eiga að taka laun í ákveðnum launaflokki, eru ekki látnir taka byrjunarlaun, þó að þeir eigi að gera það samkv. launalögum, heldur eru þeir látnir byrja á hærri launum, jafnvel á fullum launum. Ég vil því leyfa mér, og það var efni þess, að ég bað hér um orðið, — ég vil því leyfa mér að spyrja forseta um það, hvort þessi úrskurður hans um það, að till. sem þessi megi ekki koma hér undir atkv. í fjárlögum, hljóti ekki jafnframt að þýða það, að ríkisstj. sé óheimilt að framkvæma lögin með þeim hætti að bregða frá launalögum í þessu tilviki, eins og mér er kunnugt um að gert er. Og þá vil ég einnig láta það í ljós, að ég lít svo á, að þetta sé úrskurður Alþingis þar um, að slíkt sé ólöglegt. Enn fremur teldi ég ástæðu til þess, þegar svo er komið með úrskurði eins og nú er, að forseti gerði á því úrskurð fyrir Alþingis hönd, hvernig fara á með það, sem þannig hefur verið greitt, t.d. á yfirstandandi ári, hvort ekki beri að innheimta það.