10.11.1960
Efri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

73. mál, bústofnsaukningar og vélakaup

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 1. umr., fjallar um stuðning við þá bændur, sem lakasta aðstöðu hafa, frumbýlinga og fátæka bændur, þá bændur, sem hafa orðið fyrir einna þyngstum búsifjum af völdum núv. ríkisstj. Sá stuðningur er fólginn í hagkvæmum lánum eða jafnvel í undantekningartilfellum beinum styrk til þessara bænda til bústofnsaukningar, vélakaupa og til greiðslu þungbærra lausaskulda. Gert er ráð fyrir, að sett sé á fót föst stofnun, sjóður, til þess að annast þann stuðning og fyrirgreiðslu, sem fjallað er um í frv.

Ég hygg, að því verði tæplega mótmælt, að efnahagsaðgerðirnar s.l. vetur, efnahagsmálalögin og þeirra fylgifiskar, hafi komið sérstaklega harkalega niður á ungum bændum og frumbýlingum. Kostnaður við bústofnun, hvort heldur er við bústofnskaup, byggingar, jarðræktarframkvæmdir eða véla- og áhaldakaup, hefur af þeirra völdum stórhækkað. Kemur það náttúrlega fyrst og fremst niður á frumbýlingum, en bitnar einnig mjög tilfinnanlega á hinum, sem að vísu voru byrjaðir búskap, en þó nýlega, og áttu að verulegu leyti eftir að koma fótum undir sig, áttu eftir að stækka bústofn sinn, áttu eftir að kaupa nauðsynlegar búvélar og voru rétt að byrja á ræktunarframkvæmdum. Getur það einnig átt við um bændur, sem hafa ekki haft aðstöðu til verulegra jarðræktarframkvæmda fyrr en nú, t.d. vegna samgönguvandræða eða skorts á vinnuvélum, og hafa þá ekki heldur fyrr en nú haft aðstöðu til þess að fá sér búvinnuvélar.

Bændur hafa almennt staðið í stórfelldum framkvæmdum undanfarin ár, svo sem hver og einn getur séð, sem ferðast um sveitir landsins. Þeir hafa ræktað, byggt, keypt vélar og áhöld og fengið rafmagn á bæina, þar sem þess hefur verið nokkur kostur. Þessar framkvæmdir hafa kostað mikið fé. Vegna þessara framkvæmda, sem sumar hverjar eru til gagns um fjöldamörg ókomin ár, hafa margir bændur — og þó sérstaklega ungir bændur og hinir efnaminni — safnað miklum lausaskuldum. Sjálfsagt hefðu flestir þessara bænda og allir hinna dugmeiri þeirra komizt klakklaust frá þessum lausaskuldum að óbreyttum aðstæðum, þ.e.a.s. að óbreyttum aðstæðum frá því, er til lausaskuldanna var stofnað. En með hinni gífurlegu vaxtahækkun s.l. vetur var aðstöðu og afkomumöguleikum þessara manna gerbreytt. Eftir hina gífurlegu vaxtahækkun eru lausaskuldirnar orðnar þeim óbærilegar. Um ýmsa þeirra er þess vegna svo komið, að þeir eygja alls engar útgöngudyr frá skuldabaslinu, nema þá helzt þær að gefast upp, selja jörð og bú eða afhenda það upp í skuldirnar og hverfa að annarri atvinnu. Þá hafa þessir menn beðið ósigur. Þá fer margra ára erfiði þeirra fyrir lítið. Þeirra tjón, bæði sálrænt og fjárhagslegt, er því mikið og óumdeilanlegt. Í slíkum tilfellum mundu og óefað lánardrottnar bíða eitthvert tjón, því að þeir mundu ekki fá skuldir sínar að fullu greiddar, ef grípa þyrfti til nauðungarsölu á eignum manna. Það er alkunna, að þegar þannig stendur á, seljast eignir oftast nær undir sannvirði. Og slík öfugþróun, að bændur flosnuðu upp og hættu búskap, samtímis því að frumbýlingum fækkaði, mundi leiða til tjóns fyrir þjóðfélagið. Þá fækkaði sjálfstæðum atvinnurekendum í landinu, og þá fækkaði sennilega byggðum býlum í landinu. Afleiðingin yrði sú, að framleiðsla landbúnaðarafurða drægist saman. Má þjóðfélagið við því? Þörfin fyrir landbúnaðarafurðir hér innanlands fer vaxandi í náinni framtíð vegna fjölgunar fólksins.

Það er vert að gefa því gaum, að landbúnaðarframleiðslan má ekki dragast saman, ef við eigum að vera sjálfbjarga í þeim efnum. Hún þarf að vaxa, því að hvernig væri komið okkar þjóðarhag, ef við þyrftum að fara að flytja inn kjötvörur og mjólkurvörur að staðaldri? Slíkt má auðvitað alls ekki koma fyrir. En í þeim efnum er einmitt hættumerki á veginum. Sé ekki að því gaumur gefinn, er hætt við slysi. Þess vegna verður að búa þannig að landbúnaðinum, að hann dragist ekki saman, heldur færist í aukana. Það má ekki hefta framfarasóknina í landbúnaðinum. Það er alveg ómótmælanleg staðreynd, að efnahagsaðgerðirnar hafa valdið því, að aðstöðumunur þeirra bænda, sem búnir voru að koma sér sæmilega fyrir, og hinna, sem voru skemmra á veg komnir, hefur stórlega vaxið.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 80, um stuðning við bændur til bústofnsaukningar og vélakaupa, er leitazt við að ráða nokkra bót á þeim aðstöðumun og stefnt að því að létta undir með þeim bændum og bændaefnum, sem erfiðasta aðstöðu hafa og sérstaklega hafa orðíð fyrir barðinu af völdum efnahagsaðgerðanna s.l. vetur. Það er stefnt að því að greiða fyrir bústofnsaukningu hjá frumbýlingum og ungum bændum og öðrum þeim bændum, sem of lítinn

bústofn hafa. Það er stefnt að því að. greiða fyrir búvélakaupum þeirra bænda, sem eru vantar nauðsynlegar vélar. Og það er stefnt að því að greiða fyrir því, að bændur með óbærilegar lausaskuldir geti fengið hagstæð lán eða stuðning til þess að geta haldið búrekstri áfram. Ég skal ekki fjölyrða frekar um það á þessu stigi hver nauðsyn er á þvílíkri fyrirgreiðslu, en leyfi mér til viðbótar því, sem ég hef þegar um það efni sagt, að vísa til grg.

Um efni frv. skal þetta tekið fram: Samkvæmt 1. gr. frv. skal stofna sérstakan sjóð, er nefnist bústofnslánasjóður. Hlutverk hans er að veita frumbýlingum og efnalitlum bændum lán eða styrk til bústofnsaukningar, vélakaupa og til greiðslu bráðabirgðalána og lausaskulda, eftir því sem nánar segir í lögunum. Um stofnfé sjóðsins eru fyrirmæli í 2. gr. Á það að vera 50 millj. kr., þar af 20 millj. kr. í óafturkræfu framlagi ríkissjóðs, sem greiðist á næstu fjórum árum með 5 millj. kr. framlagi á ári. En síðan er gert ráð fyrir, að 30 millj. kr. séu fengnar að láni gegn ríkisábyrgð.

Flm. er að sjálfsögðu ljóst, að vel getur svo reynzt, að fé það, sem sjóðnum er hér ætlað, reynist ekki nægilegt til að fullnægja því hlutverki, sem honum er falið. Verður þá að sjálfsögðu að bæta við fé sjóðsins síðar, eftir því sem ástæður leyfa og þörf krefur.

Í 3. gr. eru nánari fyrirmæli um, hverjum bústofnslánasjóður veitir lán. Sé ég ekki ástæðu til þess að rekja það nánar.

Í 4. gr. frv. eru rakin skilyrði fyrir lánveitingu, og ég sé ekki heldur ástæðu til þess að rekja þau hér, heldur vísa til frv. þar um.

Í 5. gr. er kveðið á um það, gegn hvaða tryggingum lán megi veita. Eru þau ákvæði nokkuð frjálslegri en títt er um lánastofnanir, m.a. er gert ráð fyrir því, að lána megi út á vélar, verkfæri og bústofn. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að ábyrgð ábyrgðarmanna eða sveitarsjóðs geti verið nægileg trygging. Er einmitt í þessu fólgið mikið hagræði fyrir lántaka. Er sjóðsstjórninni falið að meta, hverja tryggingu skuli taka gilda í hverju einstöku falli.

Fjárhæð láns fer hverju sinni eftir ákvörðun sjóðsstjórnar samkvæmt 7. gr.

Um vexti og lánstíma eru fyrirmæli í 8. gr. frv., en skv. því ákvæði mega vextir aldrei vera hærri en 5% og lánstími aldrei lengri en 12 ár.

Samkvæmt 6. gr. er stjórn bústofnslánasjóðs heimilt að veita lánsumsækjanda styrk úr sjóðnum allt að 30 þús. kr., ef búrekstri hans verður ekki að öðrum kosti komið á heilbrigðan grundvöll að mati sjóðsstjórnar.

Bústofnslánasjóður skal vera í umsjá Búnaðarbankans, en lýtur sérstakri stjórn. Eru um stjórn sjóðsins fyrirmæli í 10. gr. frv. Skal hún skipuð fimm mönnum. Skulu fjórir skipaðir samkvæmt tilnefningu þingflokkanna, einn frá hverjum, en sá fimmti, sem á að vera formaðurinn, skal skipaður skv. tilnefningu Stéttarsambands bænda.

Ég mun svo ekki ræða frekar einstakar frumvarpsgreinar, en vil að lokum segja þetta:

Þrátt fyrir þá miklu árgæzku, sem verið hefur hér þetta ár og bændur hafa auðvitað haft ómetanlegt gagn af, er mörgum bændum áreiðanlega, eins og nú er ástatt, brýn þörf á stuðningi þeim, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eða einhverri annarri sambærilegri aðstoð. Þeir bændur eru t.d. allt of margir, sem hafa ekki vísitölubússtærð. Þeir bændur geta naumast haft sambærileg kjör við aðrar stéttir. Það verður að greiða fyrir því, að þeir geti stækkað búin, svo að þau svari til vísitölubús. Það er lágmark. Og það verður að stuðla að því, að frumbýlingar og bændur, sem dregizt hafa aftur úr, geti keypt nauðsynlegar vélar. Aðstöðumunur þeirra, sem vélar hafa, og hinna, sem engar hafa, er svo mikill, eins og allir vita, að búskaparaðstaða þeirra er alls ekki sambærileg. Og sannleikurinn er sá, að þeir, sem engar vélar hafa, eru úr leik, þeir geta ekki búið, eins og nú er komið. En efnalítill bóndi hefur enga möguleika til að kaupa t.d. dráttarvél nú með því verðlagi, sem á þeim er. Og síðast, en ekki sízt, verður að stuðla að því, að getulitlir bændur geti fengið sæmilega hagstæð lán í stað lausaskuldanna, sem eru að sliga þá. Ég er alveg sannfærður um, að hið opinbera kemst ekki hjá því til lengdar að sinna þessu máli á einn eða annan hátt.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til fjhn.