08.11.1960
Efri deild: 18. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

74. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Er frv. samhljóða þessu var til 1. umr. hér á Alþ. í fyrra, lýsti ég fylgi mínu við þá hugmynd, sem fram kemur í þessu frv. óbeint, að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til þess að greiða fyrir jarðgangagerð, þar sem svo hagar til, að samgöngumál fjölbyggðra staða verða ekki leyst á viðunandi hátt nema með jarðgöngum. Og ég vil aðeins, þegar málið nú kemur fyrir á nýjan leik á þessu þingi, undirstrika þá þörf, sem ég tel vera fyrir hendi í þessu efni. Í því sambandi eru mér að sjálfsögðu efst í hug samgöngumál Siglufjarðar, en Siglufjörður á við mjög erfiðar samgöngur að búa, eins og flestum hv. dm. er kunnugt, og þar hafa einmitt verið gerðar áætlanir um að leysa samgöngumálin með þeim hætti að gera jarðgöng í gegnum fjall, sem heitir Strákar. Sú jarðgangagerð, sem þar er fyrirhuguð, er hins vegar mjög kostnaðarsöm, og það er fyrirsjáanlegt, að þau jarðgöng komast seint á eða verða seint gerð, ef ekki er um aðrar fjárveitingar eða aðra fjáröflun til þeirra að ræða en þá, sem fæst á hverju ári veitt á fjárlögum til Siglufjarðarvegar.

Ég er þess vegna alveg sammála því, að það verður að leita að sérstökum ráðum til þess að leysa samgöngumál þessara staða, sem geta ekki fengið viðunandi samgöngur, nema jarðgöng séu gerð. Og ég álít það út af fyrir sig réttmætt að setja jarðgöng á bekk með brúm og vegum. En .ég verð hins vegar að segja það, að ég tel á þessu stigi hæpið að leggja jarðgöngin á brúasjóð, vegna þess, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að hann mun vera nokkuð févana, og ég býst við því, að ef honum væri ætlað einnig að standa undir kostnaði við jarðgangagerð, kæmu jarðgöngin heldur seint. Ég álít þess vegna, að það verði að leysa þetta mál með því að sjá jarðgöngum eða jarðgangagerð fyrir sérstökum tekjustofni, — að fara alveg sérstaka leið til þess að afla fjár í jarðgangasjóðinn, eins og gert hefur verið með brúasjóðinn. Ég held, að það verði að leita að leiðum i þessu efni. Ég dreg í efa, að þarna sé bent á réttu leiðina, en vil hins vegar lýsa fylgi mínu við þá hugmynd, sem frv. byggist á, sem sé þá hugmynd, að það þurfi að leita að sérstökum leiðum og gera sérstakar ráðstafanir til þess, að hægt sé að gera jarðgöng, þar sem það er beinasti og jafnvel eini vegurinn til þess að leysa samgöngumál þéttbyggðra staða á viðunandi hátt, eins og t.d. Siglufjarðar. Ég geri því ráð fyrir og vænti þess, að n., sem fær frv. til meðferðar, taki þetta til velviljaðrar athugunar, en leiti jafnframt að öðrum leiðum í þessu sambandi en þeirri, sem hér er bent á, að því er snertir fjáröflunina.