24.11.1960
Efri deild: 27. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

111. mál, meðferð drykkjumanna

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Ég fer ekki mörgum orðum um þetta frv. að þessu sinni. Ég flutti á síðasta Alþingi frv. til l. um meðferð drykkjumanna, og þetta frv. er algerlega samhljóða því frv. Auk þess fylgir allýtarleg grg. þessu frv., þar sem tildrög og efni eru nokkuð rakin, og því tel ég óþarft að hafa um þetta mörg orð, og það því síður sem ég flutti langa Íramsöguræðu fyrir frv. í fyrra.

Við athugun þessa frv. í fyrra upplýstist það fyrir hv. n., sem hafði það til meðferðar, að stjórnskipuð nefnd hafði endurskoðað lög um drykkjusjúka menn og ölvaða, og þessi nefnd hafði skilað áliti og lagt fram tillögur í ráðuneytinu. Landlæknir átti sæti í þessari stjórnskipuðu nefnd, og hann gaf þessar upplýsingar í álitsgerð um frv., sem send var til hv. félmn. Þessi stjórnskipaða nefnd mun hafa skilað till. sínum til rn. í byrjun ársins, að ég hygg í janúar 1960, og nefndin vænti þess þá, að frv., byggt á tillögum hennar, yrði lagt fyrir Alþingi, annaðhvort þingið í fyrra eða þá í síðasta lagi nú á þessu þingi. Nýlega hefur landlæknir tjáð mér, að hann hafi í haust reynt að ýta á málið í rn., en mér skildist á honum; að hann hefði fengið þar heldur litla áheyrn eða daufar undirtektir. Síðan spurðist ég einnig fyrir um þetta á hæstu stöðum og fékk það svar, að efasamt væri, að nokkurt stjórnarfrv. um þetta efni yrði lagt fram nú á þessu þingi.

Hv. Ed. afgreiddi málið í fyrra einróma á þann veg, að frv. til l. um meðferð drykkjumanna yrði lagt fyrir það þing, sem nú situr. Þetta virðist ekki ætla að verða eða a.m.k. heldur daufar horfur á því, og þess vegna er það, að ég hef leyft mér að leggja þetta frv. nú fram.

Gildandi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra eru mjög gölluð og það í veigamiklum atriðum. Þetta er dómur 12 ára reynslu, sem nú er fengin fyrir þessum lögum. Vegna þessara ágalla nýtist engan veginn það fé og sú fyrirhöfn, sem þegar er í té látin til þessara mála. Það nýtist hvorki fé né fyrirhöfn eins og verða mætti, ef verstu ágallar laganna væru sniðnir af.

Þær breytingar, sem felast í þessu frv., eru þær helztar, að gert er ráð fyrir, að ráðh. skipi sérstakan yfirlækni áfengisvarna ríkisins og hafi hann með höndum framkvæmdastjórn allra þeirra mála, sem um ræðir í frv. Þetta er gert fyrst og fremst í því skyni að samræma þær aðgerðir, sem þegar fara fram á vegum hins opinbera, og gera nýtingu fjár og starfskrafta sem bezta. Aðrar breytingar eru þær, að kaflanum um meðferð ölvaðra manna er alveg sleppt í þessu frv., en ákvæði þess kafla hafa aldrei verið framkvæmd á þessu 12 ára tímabili, enda alveg óvíst, að framkvæmd hans mundi svara kostnaði. Aðgreining ölvaðra manna og drykkjusjúkra hefur enga hagnýta þýðingu, þegar um meðferð eða læknishjálp þessara manna er að ræða. Þá er í frv. lögð sérstök áherzla á, að heilsuverndarstöðvar annist meðferð drykkjumanna, að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa, en meðferð drykkjumanna fer nú fram um allan heim á faraldsfæti fyrst og fremst. Hver einasti maður er þannig tekinn til meðferðar, síðar er gripið til annarra úrræða, ef það dugir ekki. Þá eru í þessu frv. öll tengsl við geðveikrahæli rofin og starfsemin í þess stað falin yfirumsjón sérfróðs læknis, yfirlæknis áfengisvarna ríkisins. Tengsl drykkjumannahjálpar við geðveikrahæli hafa hvergi gefizt vel og ekki hér frekar en annars staðar, og þess vegna er lagt til, að þau tengsl verði rofin. Loks er lögð á það rík áherzla í þessu frv., að ekki verði ráðizt í byggingu stofnana handa drykkjumönnum með tilstyrk hins opinbera, nema þörf þeirra hafi verið athuguð og viðurkennd af heilbrigðisstjórninni og ráðunautum hennar. Þetta er sérstaklega undirstrikað í frv. til þess að koma í veg fyrir það, sem þegar er hætta á að hafi orðið, að lagt sé út í dýrar framkvæmdir við að koma upp hælum, án þess að þörfin sé athuguð og án þess að þarfirnar séu sannaðar.

Þetta mál er að mínum dómi og sennilega allra þeirra, sem til þekkja, mjög brýnt. Meðferð drykkjumanna, læknismeðferð þeirra, er alltaf erfitt verk að vísu, en aldrei vonlaust. Drykkjumenn skipta hér á landi hundruðum og sennilega fáeinum þúsundum. Þeirra óhamingja er mikil og þó enn meiri óhamingja þess fjölda fólks, sem þeim er venzlað og háð að meira eða minna leyti. Hér er því um stórfellt félagslegt vandamál að ræða, sem ábyrgðarleysi er að sýna tómlæti. Þetta vildi ég aðeins undirstrika, og þetta er skýring á því, að ég kem með þetta mál aftur nú á þessu þingi, og ég vænti þess, að hv. deild skilji þessa þörf.

Ég lýk máli mínu og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.