21.02.1961
Efri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (2333)

196. mál, tollskrá o.fl.

Flm. (Daníel Ágústínusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 378 um breyt. á l.. nr. 90 frá 25. nóv. 1954, um tollskrá o.fl. Frumvarpið er um það, að í 77. kafla tollskrárinnar komi sú athugasemd, að fjmrn. sé heimilt að fella niður aðflutningsgjöld af sýningarvélum fyrir kvikmyndir, sem fluttar eru inn af félagsheimilum í sveitum eða kauptúnum með 500 íbúa eða færri, þó ekki nema af einni vél á hvern stað.

Bygging félagsheimila síðustu 14 árin hefur markað merkilegt framfaraskeið hér í landi, eins og öllum er kunnugt um, en með lagasetningu er svo ákveðið, að félagsheimilasjóður skuli greiða 40% af byggingarkostnaði þeirra eftir nánari reglum, sem settar eru. Það má fullyrða, að lög þessi hafa markað í þessum efnum mjög merkileg tímamót, enda bera þess vitni víðs vegar um landið hin glæsilegu samkomuhús, sem hafa risið upp á þessu 14 ára skeiði.

En það er ekki nóg að hafa glæsileg samkomuhús víðs vegar um landið. Þar þarf einnig margvisleg starfsemi að eiga sér stað, svo að húsin nái tilgangi sínum. Heima í hverri byggð er vitanlega um margt að ræða og margvísleg starfsemi, en hún nægir þó ekki þörf fólksins í þeim efnum. Úr þessu hefur verið bætt með ýmsu öðru, svo sem umferðarleikflokkum, bæði á vegum þjóðleikhússins og ýmsir aðrir héðan frá höfuðstaðnum, ferðakvikmyndasýningum á svonefndum 16 mm filmum, sem að vísu eru nokkuð einhæfar, því að þar er einkum um fræðslumyndir að ræða eða þá áróðursmyndir frá erlendum sendiráðum og annað þess háttar. Þó að þær geti verið góðar og blessaðar, þá fullnægja þær ekki þeirri þörf, sem fólkið hefur fyrir kvikmyndasýningar almennt. Fólkið sér yfirleitt ekki í heimabyggð sinni 35 mm kvikmyndir, sem eru hinar algengustu kvikmyndir, sem framleiddar eru, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að vélar af þeirri gerð eru yfirleitt hvergi til í dreifbýlinu. Þær eru dýrar, fólkið er fátt, og það getur ekki staðið undir þeim mikla kostnaði, sem samfara er kaupum á slíkum vélum. Þar er ekki heldur og getur aldrei orðið hagnaður af kvikmyndarekstri, eins og þar sem margt fólk býr, enda hefur það komið skýrt í ljós, að 35 mm kvikmyndavélar eru eingöngu til í hinum þéttbýlustu hlutum landsins. Í öllum kaupstöðum landsins eru starfandi kvikmyndahús, eitt eða fleiri. Í kauptúnum landsins, sem teljast alls um 62, eru 18 kauptún og þau fjölmennustu vitanlega, þar sem staðsettar eru 35 mm kvikmyndasýningarvélar, en 44 kauptún njóta þeirra ekki. Í 152 sveitarfélögum, þar sem eigi eru nein kauptún, eru hvergi til 35 mm sýningarvélar, að einu undanteknu, þar sem komizt var yfir gamlar vélar af sérstökum ástæðum.

Þetta stutta yfirlit segir sína sögu. Tæki þessi eru hvergi keypt nema þar, sem mannfjöldi er svo mikill, að reksturinn verði arðvænlegur. Í flestum sveitum og hinum stærri þorpum með 500 íbúa eða færri getur ekki verið um venjulegan kvikmyndahúsarekstur að ræða. Spurningin í málinu er þá nánast þessi: Er nauðsynlegt að binda venjulegar kvikmyndasýningar við þéttbýli landsins eða á að gefa allri þjóðinni kost á að njóta fullkominna kvikmynda?

Það er rúmlega 1/4 hluti þjóðarinnar, sem býr í þeim byggðarlögum, sem hafa ekki eignazt 35 mm sýningarvélar og engar líkur eru til að eignist þær, að óbreyttum aðstæðum. Þessir 45 þús. Íslendingar fara því að mestu á mis við þá skemmtun og fræðslu, sem góðar kvikmyndir veita. Samgöngur eru víðast hvar orðnar svo góðar og ökutæki almenn, að nokkrar fjarlægðir ættu ekki að hindra aðsókn. Kaupverð vélanna er hér þrándur í götu. Sýningarvél fyrir 35 mm myndir kostar nú með sýningartjaldi og öðrum nauðsynlegum útbúnaði rúmlega 1000 sterlingspund eða 107423 ísl. kr. í innkaupi. Samkvæmt útreikningum tollstjóraskrifstofunnar í Reykjavik eru aðflutningsgjöldin, sem hér er farið fram á að ráðuneytið hafi heimild til að fella niður, 174991 kr. og sundurliðast þannig:

1. Verðtollur 90% . ............... 96681 kr.

2. Tollstöðvagjald o..fl. ............. 1934

3. Söluskattur 16.5% ................ 33677

4. Innflutningsgjald 16.5% .......... 33677

5. Söluskattur 3.3% . . ......... 9022

Þetta verður samtals 174991 kr. Kaupverð vélanna, eftir að þær hafa komizt í gegnum tollinn. verður þá 282414 kr. Fámenn byggðarlög leggja ekki út í kaup á jafndýrum sýningarvélum.

Það er ekkert nýtt fordæmi, sem skapað er með frv. þessu, ef að lögum verður. Í lögum um tollskrá er að finna heimild fyrir fjmrn. til að veita undanþágu fyrir hljóðfæri í skóla, kirkjuhljóðfæri, hljómplötur með verkum eftir íslenzka höfunda og sitthvað fleira. Tel ég vafalaust, að undanþáguákvæði þessi hafi mjög stuðlað að því, að fátækir skólar og fámennir söfnuðir hafa eignazt hljóðfæri til mikillar ánægju og menningarauka, sem annars hefðu aldrei verið keypt. Það er því mjög sanngjarnt og eðlilegt, að þessum þætti sé bætt við undanþáguákvæðin, ef það gæti orðið til þess, að kvikmyndir næðu til allrar þjóðarinnar.

Fyrir ríkissjóð verður þetta ekki tekjurýrnun, því að engar líkur eru til þess, að byggðarlög þau, sem gert er ráð fyrir að njóti undanþágunnar, hafi minnstu möguleika til að eignast sýningarvélar þessar við því verði, sem á þeim er, eftir að aðflutningsgjöldin hafa bætzt við. Tekjur af rekstri þeirra yrðu alltaf sáralitlar í fámennum byggðarlögum. Með samþykkt þessa frv. er notagildi hinna mörgu myndarlegu félagsheimila víðs vegar um landið stóraukið og rúmlega fjórðungi þjóðarinnar sköpuð aðstaða til að njóta kvikmynda á borð við aðra þegna þjóðfélagsins.

Að lokum legg ég til, þegar að umr. þessari lokinni, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. deildarinnar.