17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

210. mál, fjáröflun til íþróttasjóðs

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Með íþróttalögunum frá 1940 var stofnaður sérstakur íþróttasjóður og íþróttanefnd ríkisins falið að úthluta fé úr honum. Hlutverk þessa sjóðs er að efla íþróttalifið í landinu, og skal Alþingi veita sjóðnum árlega fé til ráðstöfunar eða — eins og það er orðað í lögunum — „sjá honum fyrir öruggum tekjum á annan hátt“.

Þessi sjóður, íþróttasjóðurinn, hefur vafalaust á umliðnum árum orðið til mikils gagns íþróttalífinu í landinu, enda þótt hann hafi að staðaldri vantað tilfinnanlega fé til starfsemi sinnar. Hann hefur fengið árlega fjárveitingu úr ríkissjóði, sem á síðustu árum hefur numið frá 11/2—2 millj. kr. á árí.

Íþróttanefnd hefur úthlutað styrkjum úr þessum sjóði, og hefur sú styrkupphæð að jafnaði numið frá 20–40% af stofnkostnaði víðkomandi mannvirkja.

Eins og frá er sagt í grg. þessa frv., hefur íþróttasjóðurinn styrkt mörg og margs konar mannvirki á sviði íþróttanna. M.a. hafa með tilstyrk hans verið byggðar samtals 35 sundlaugar í landinu, 80 íþróttavellir og 20 íþróttahús og skíðaskálar. En þrátt fyrir þennan stuðning hefur samt reynzt mjög ófullkominn sá styrkur, sem íþróttasjóður hefur getað veitt til þessara íþróttamannvirkja, þannig að hann er stöðugt á eftir með sín framlög til íþróttamannvirkjanna, og eykst árlega sú upphæð, sem hann er á eftir með. 1960 var þannig talið, að hann ætti ógreitt til, íþróttamannvirkja, sem hann er þó skuldbundinn til að styrkja, um 15 millj. kr.

Íþróttanefnd ríkisins hefur fundið mikið til þess, hve lítið fé sjóðurinn hefur til umráða samanborið við þarfirnar, og það er í samræmi við óskir og vilja íþróttanefndar, að það frv., sem hér liggur fyrir, kemur fram, en með því er ætlunin að auka tekjur sjóðsins umfram það, sem veitt er úr ríkissjóði árlega til þessara þarfa. Með frv., er gert ráð fyrir, að næstu fimm ár verði greitt sérstakt gjald af ýmsum sælgætistegundum, sem framleiddar eru og seldar í landinu; og að þetta gjald, 2 kr. af hverju kg sælgætis, verði látið renna í íþróttasjóðinn. Með þessu, ef að lögum yrði, er gert ráð fyrir, að 1 millj. kr. mundi fást árlega til viðbótar sjóðnum. Þótt gert sé ráð fyrir; að sælgætið hækki sem þessu svarar, þ.e.a.s. um 2 kr. á hvert kg, er það í raun og veru ekkí nein tilfinnanleg hækkun á þessari vörutegund, því að í heildsölu kosta þessar sælgætistegundir frá 75 kr. upp í 125 kr. hvert kg.

Að þessi leið er valin til fjáröflunar íþróttasjóðnum, er ekki nein tilviljun, heldur styðst sú hugmynd við fordæmi. Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru þau fordæmi a.m.k. þrjú. Þannig fær landgræðslusjóður sérstakan skatt af vindlingum nú í mörg ár, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra fær skatt af eldspýtum, sem seldar eru, og Styrktarfélag vangefinna fær nú síðustu árin sérstakt gjald af öli og gosdrykkjum, sem framleitt er hér á landi og selt. Voru lög um það gjald samþ. hér á hinu háa Alþingi fyrir aðeins fáum árum.

Þetta frv. er sniðið að verulegu leyti eftir l. um flöskugjaldið, sem Styrktarfélag vangefinna fær nú, og eins og ég tók fram, er aðeins gert ráð fyrir, að þetta aukagjald standi um næstu fimm ár og að það verði 2 kr. af hverju kg. sem framleitt er og selt hér á landi.

Um innheimtu þessa gjalds fer eins og um innheimtu gjaldsins af gosdrykkjaflöskunum. Eins og við minnumst, vakti það nokkra óánægju í bili meðal framleiðenda gosdrykkja að eiga að innheimta þetta aukagjald, en ég held, að mér sé óhætt að segja, að nú telji þeir það ekki eftir sér, enda lítil aukavinna, og ég hef sannspurt það, að gosdrykkjaframleiðendur eru nú mjög hlynntir þessu gjaldi vegna þess félags, sem þess nýtur, og þeirra illa settu borgara, sem njóta góðs af.

Um gildi íþrótta fyrir þjóðina þarf ég ekki að ræða hér og um fjárþörfina ekki heldur fram yfir það, sem ég hef þegar gert.

Ég vænti þess, að sú hv. n., sem frv. fær til athugunar og afgreiðslu, sýni því verðskuldaðan velvilja, og æskilegast væri, ef unnt er, að frv. fengi jákvæða afgreiðslu þegar á þessu þingi.

Ég legg svo til, að frv. verið vísað til 2. umr., að þessari umr. lokinni, og til hv. allshn.