17.03.1961
Efri deild: 75. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (2344)

210. mál, fjáröflun til íþróttasjóðs

Björn Jónason:

Herra forseti. Það er aðeins örlítil athugasemd út af ræðu hv. 9. þm. Reykv. Mér virðist á hans síðari ræðu, að það staðfestist, sem ég sagði hér í upphafi, að þetta mál hafi aðeins frá hendi flm. verið skoðað frá einni hlið.

Hv. þm. sagði, að það væri miklu eðlilegra og betra, að öll þessi félög, SÍBS, Sjálfsbjörg og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, væru sameinuð í eitt félag, virtist mér hans skoðun, og ynnu saman, a.m.k. í nánum tengslum, og hefðu fjáraflanir sínar allar sameiginlega. Ég held, að í þessu sé nokkuð mikill misskilningur hjá hv. þm. Það er kunnugt, að t.d. SÍBS er stofnað upphaflega í ákveðnum tilgangi, með takmörkuðu verkefni, sem öllum er kunnugt um, og hið sama gildir raunverulega um Sjálfsbjörg og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Hitt er svo aftur á móti alveg rétt, að öryrkjasamtökin hafa ekki verið nægilega skipulögð hér á landi og miklu verr en í okkar nágrannalöndum. En það hefur verið nokkuð unnið að því að samræma nú störf þessara félaga, m.a. af milliþn., sem ég gat um í ræðu minni áðan, þar sem nú liggur fyrir samkomulag milli þessara félaga um að taka hvert fyrir sig að sér ákveðin og sérstök verkefni, þannig að starfsemi þeirra rekist síður en svo á á nokkurn hátt, og enn fremur hefur verið að því unnið, og vænti ég, að þess verði ekki langt

að bíða, að öryrkjafélögin myndi með sér landssamband, sem auðvitað hefur í för með sér, að þau vinni í nánari tengslum en áður hefur verið. En hins er svo líka að gæta, að auðvitað hafa hverjir áhugamannahópar í landinu sem er rétt til þess að stofna félög um sín sérstöku málefni, og ég ætla, að það væri ekki hyggilegt af löggjafarvaldinu, ef sú leið yrði valin að gera það að skilyrði fyrir nauðsynlegum fjárstyrk til þeirra, að þau væru sameinuð öll skipulagslega, og það mundi geta orðið til þess, að mikilsverðar framkvæmdir þessara félaga drægjust mjög mikið, auk þess sem það væri vitanlega bein skerðing á félagafrelsinu. Að öðru leyti er rétt að athuga það, að t.d. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra er félag allt annarrar tegundar en SÍBS og Sjálfsbjörg, félag lamaðra. Það eru ekki samtök öryrkjanna sjálfra, heldur mannúðarfélag, sem hefur veríð myndað af áhugamönnum til þess að vinna að ákveðnum mannúðarmálum, og það er fjarri öllu lagi um slík félög og félög, sem byggð eru upp sem hrein öryrkjafélög, félagsskapur öryrkjanna sjálfra, að þar geti verið um algera sameiningu að ræða. En ég held, að það hafi verið unnið að þessum málum á mjög skynsamlegan hátt að undanförnu með því, að félögin af

mörkuðu hvert fyrir sig sitt starfssvið, tækju á sig sína skyldu hvert fyrir sig og ynnu síðan saman í landssambandi, sem unnið er að því að mynda. Ég held, að þetta hafi allt farið fram með mjög eðlilegum hætti og þróazt á æskilegan hátt og það geti ekki verið um neitt að ræða í sambandi við þetta, sem geri það að verkum, að tafir séu gerðar á aðstoð við þessi félög.

Ég vil segja það að síðustu, að ég álít ekki vænlegt fyrir áhugamenn um íþróttamálefni, eins og hv. 9. þm. Reykv. og aðra, sem sérstakan áhuga hafa fyrir þeim efnum, — ég held, að það sé ekki vænlegt fyrir þeirra mál að vinna að því á þennan hátt, sem hér er gert, með því að setja fram tillögur, sem hljóta, ef taldar verða líkur á, að þær næðu fram að ganga, að vekja sár vonbrigði, annarra, sem eru ekki í minni þörf en þeir, sem þarna er um að ræða, og hlytu auk þess að vekja ýmsar deilur.