09.12.1960
Neðri deild: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

125. mál, veð

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni bankanna. Yfir það hefur farið prófessor Ólafur Lárusson í því skyni, að ákvæði þess séu í fullu samræmi við löggjöfina um veð að öðru leyti. Í frv. eru fjögur meginatriði. Það er kveðið skýrara á en í gildandi veðlögum frá 1927 um heimild til þess að setja vissar vörur að sjálfsvörzluveði. En með lagabreytingu frá 1927 var sú breyting gerð á veðlögunum frá 1887, að útgerðarmanni var heimilað að setja banka eða sparisjóði að sjálfsvörzluveði afla skips síns á einu útgerðartímabili í senn til tryggingar lánum, sem hann tekur til útgerðarinnar á því hjá stofnunum þessum. Síðan hafa atvinnuhættir breytzt mjög verulega, og það þykir ekki vera tvímælalaust, að heimilt sé að veðsetja með þessum hætti ýmsar afurðir, sem voru ekki framleiddar, þegar þessi breyting var gerð.

Fyrsta breytingin, sem þetta frv. hefði í för með sér, ef samþykkt yrði, er sem sagt að gera tvímælalausa heimild útgerðarmanna, framleiðenda sjávarafurða og landbúnaðarafurða og annarra, sem slíkar vörur hafa til sölumeðferðar, til að veðsetja banka eða sparisjóði þessar afurðir að sjálfsvörzluveði, og enn fremur að heimila framleiðendum að veðsetja rekstrarvörur, svo sem salt og tunnur, til tryggingar lánum, sem útgerðarmenn taka út á þessi veðsettu verðmæti.

Þá er það og nýmæli í frv., að gert er ráð fyrir að bæta í löggjöfina ákvæði til þess að tryggja rétt lánsstofnana gagnvart þriðja manni, sem tekur við veðsettum afurðum eða afla með því móti, að veðsetningin falli niður. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því, að veðkrafa veðhafa flytjist, ef afurðin er seld, frá afurðinni sjálfri yfir á þá kröfu, sem myndast við sölu afurðarinnar til þriðja manns.

Í þriðja lagi er það nýmæli í frv., að heimild fjmrn. til þess að lækka lögákveðin þinglestrargjöld af skuldabréfum er víkkuð og látin taka til stimpilgjalda, sem virðist sanngirnisatriði.

Og í fjórða og síðasta lagi er það nýmæli í frv., að kveðið er svo á, að víxlar til framlengingar á afurðavíxlum, sem Seðlabankinn hefur endurkeypt, skuli undanþegnir stimpilgjaldi. En það má teljast sanngirnisatriði og fullkomlega eðlilegt, að stimpilgjald sé greitt aðeins einu sinni af hverju endurkaupanlegu afurðaláni, enda munu þessi lán ætíð vera endurgreidd þegar í stað, þegar gerð hafa verið skil til framleiðandans á andvirði vörunnar.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.