16.11.1960
Sameinað þing: 14. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2380)

90. mál, fiskveiðar með netum

Flm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Vöruvöndun er frumskilyrði þess, að við getum selt afurðir okkar við góðu verði og byggt upp örugga markaði fyrir þær. Á þessu leikur enginn vafi, og í harðnandi samkeppni við aðrar þjóðir um fiskmarkaðina rekum við okkur hvað eftir annað á þessa staðreynd. Það er einnig staðreynd, að við Íslendingar höfum betri skilyrði en flestar aðrar þjóðir til þess að framleiða fyrsta flokks gæðavöru úr fiski okkar, ef rétt er að farið.

Ríkisútvarpið og blöðin héldu uppi miklum og gagnlegum áróðri s.l. vetur fyrir aukinni vöruvöndun, og á síðasta. þingi voru sett lög um ferskfiskmat. Í umr. um þessi mál beindist athygli manna ekki hvað sízt að þeirri meðferð, sem fiskurinn hlýtur, áður en komið er með hann að landi, og er það að vonum, því að engin leið er að gera góða vöru úr þeim fiski, sem kemur stórskemmdur í land. Hefur mönnum í þessu sambandi orðið tíðræddast um netjafiskinn, sem oft er sjódauður, þegar hann er innbyrtur, og um gegndarlausa netjanotkun og yfirleitt þær aðfarir við netjaveiðarnar, sem með engu móti fá samrýmzt því, að við séum að vernda fiskistofnana eða vanda vöruna. Fer það naumast á milli mála, að í þessum efnum þurfi að verða mikil breyting til batnaðar frá því ástandi, sem ríkt hefur, og með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er til þess ætlazt, að hafizt verði handa um skipulegar úrbætur í samráði við þá aðila, sem hlut eiga að máli. Koma þar fyrst til greina þeir, sem af opinberri hálfu annast eftirlit með vöruvöndun, samtök útgerðarmanna og sjómanna og raunar einnig fisksölusamböndin, þó að þau séu ekki nefnd sérstaklega í tillögunni.

Þáltill. er um þrennt:

1) Um takmörkun á veiðitíma netjabáta. Er þar átt við það, að reynt verði að draga úr veiðunum á hrygningarsvæðunum yfir hrygningartímann, t.d. með því að leyfa ekki, að netjaveiðar hefjist fyrr en 15. marz eða 15, apríl. Slíkt tímatakmark getur að sjálfsögðu verið breytilegt fyrir hina ýmsu staði, og þarf að fá um það álit fiskifræðinga og hinna kunnugustu manna. Einnig er átt við það, að spornað verði gegn því, að net séu látin liggja í sjó í meira en einn sólarhring í einu, ef veður hamlar ekki drætti, og enn fremur, að bannað verði að láta net liggja í sjó yfir helgidaga.

2) Um takmörkun á netjanotkun. Það er á vitorði allra, sem fylgzt hafa með þessum málum, að fjöldi báta hefur miklu fleiri net í sjó en áhafnirnar komast yfir að draga daglega. Af því leiðir, að einnar eða fleiri nátta sjódauður fiskur blandast saman við fisk, sem innbyrtur er lifandi og blóðgaður um leið, og verður þá netjafiskurinn í heild lélegri vara en vera þyrfti. Talið er hæfilegt, að hver bátur dragi 5 trossur eða 75 net á dag. Þó getur samhent og dugleg skipshöfn komizt yfir meira, ef netin eru ekki á mjög miklu dýpi. Breytilegar aðstæður geta þannig gert það að verkum, að erfitt sé að finna reglu um netjafjöldann, sem alls staðar eigi við. Mundi vafalaust verða áhrifaríkast í þessu efni að gera verulegan verðmun á fiski eftir gæðum, og hefur sú skoðun rutt sér æ meira til rúms, að það beri að gera. Yrði þá lögð meiri áherzla á að ná sem mestu af netjafiskinum lifandi og blóðga hann jafnóðum og hann er innbyrtur.

Tillögur um mismunandi verð á ferskfiski eftir gæðum hafa undanfarna daga verið til umræðu á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna og verða vafalaust samþykktar af aðalfundinum. Þar með er stigið spor í rétta átt, sem vonandi verður til þess að hvetja menn til vöruvöndunar, bæði skipstjórnarmenn og háseta. Annars tel ég það vera hlutverk útgerðarmannanna að reyna að hafa meira taumhald á netjanotkuninni en nú er.

Mönnum þótti það ótrúleg saga s.l. vetur, þegar það kom fram í útvarpsþætti, að netjakostnaður gæti orðið allt að því 1 kr. á hvert kg af fiski, en í áætlun Landssambands ísl. útvegsmanna um úthald 60 rúmlesta báts á línu- og netjaveiðum 1961 er talið, að netjakostnaður verði 90.36 aurar á kg af fiski eða 35.7% af verðmæti hvers kg af þorski. Þegar haft er í huga, að í áætlun Landssambands ísl. útvegsmanna er miðað við meðalbát, þá hættir sagan um 1 kr. kostnaðinn á kg að vera ótrúleg. Ein ástæðan fyrir þessum háa kostnaði er sú, að sumt af netjunum glatast blátt áfram vegna þess, að áhafnirnar komast ekki yfir að innbyrða allan staginn, og þegar bátur hefur þannig skilið við sig net í sjó, er hætta á, að þau haldi áfram að veiða tímunum saman, séu þau úr næloni eða öðrum efnum með svipaðan styrkleika. Á þessu hafa verið gerðar athuganir, sem naumast verða vefengdar, og hefur nýlega með tilliti til þessa verið sett reglugerð um takmarkaðan styrkleika kúluhanka. Þeirri reglugerð ber umfram allt að framfylgja. En bezt væri að fyrirbyggja sem mest af netjatjóninu með því að draga úr hinni óhóflegu netjanotkun.

Á það hefur verið bent, að síðustu árin hefur netjaúthald stöðugt verið að lengjast á kostnað línuveiðanna. Þessi þróun er vægast sagt miður æskileg, bæði vegna þess, að netjafiskur er yfirleitt miklu lélegri vara en línufiskur, og einnig vegna þess, að erlendur kostnaður við útgerð netjabáta er mun meiri en við útgerð línubáta. Samkv. upplýsingum, sem fram komu á aðalfundi L.Í.Ú. um síðustu helgi, er erlendur kostnaður við útgerð netjabáts 41.39%, en við útgerð línubáts er erlendi kostnaðurinn 36.55% eða 4.84% lægri. Er augljóst af framansögðu, að það er á allan hátt æskilegt að draga úr netjaveiðum, en auka aftur fiskveiðar með línu, og er þess að vænta, að mismunandi fiskverð eftir gæðum stuðli að þeirri þróun, auk þess sem það á að vera mönnum hvatning til þess að ná fiskinum daglega úr netjunum og tryggja þannig gæði hans betur en nú er gert.

3) Loks er í þáltill. lagt til, að settar verði reglur um sérstök veiðisvæði þeirra skipa, sem fiskveiðar stunda með netjum. Með því er átt við, að netjaveiði verði leyfð á tilteknum tímum á afmörkuðum svæðum og gangi þá fyrir öðrum veiðiaðferðum. Með því móti ætti að vera hægt að koma í veg fyrir átök um miðin milli þeirra skipa. sem nota mismunandi veiðiaðferðir, en slík átök hafa stundum valdið afla- og veiðarfæratjóni. Mun fiskmatsráð hafa þetta mál í undirbúningi, og ætti sú hv. nefnd, sem fær þessa þáltill. til athugunar, að afla sér nánari upplýsinga um þetta atriði m.a. hjá fiskmatsráði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að þáltill. fái góða afgreiðslu hjá nefnd, eins og raun varð á um sams konar till. á síðasta þingi, því að það er ætlun okkar flm. till., að reglur í þá átt, er hún fjallar um, verði settar fyrir komandi vertíð, sé þess nokkur kostur. Legg ég til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.