08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

90. mál, fiskveiðar með netum

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns undirstrika það, að ástæðan fyrir því. að við flm. þessarar till. teljum, að takmarka beri þann netjafjölda, sem bátar hafa í sjó hverju sinni, er sú, að það er í fjöldamörgum tilfellum, sem skipshafnirnar komast ekki yfir á sama sólarhringnum að draga öll þau net, sem þær eiga liggjandi í sjó. Og afleiðingin verður sú, að bátarnir koma að landi með tveggja eða fleiri nátta sjódauðan fisk, sem er engin leið að gera úr góða vöru.

Mér er alveg ljóst, og ég minnist þess, að s.l. vetur, þegar þessi till. var til umr., þá kom það fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það er mjög mismunandi, hvað skipshafnirnar eru duglegar við að draga netin. Ein skipshöfn getur kannske dregið 90 net, þegar önnur á fullt í fangi með að draga 75 net. En ég hygg þó, að það sé algengust skoðun meðal útvegsmanna og sjómanna, að hæglegt sé, eins og segir í grg, með þáltill., að netjafjöldinn sé takmarkaður við 75 net, eða við þann netjafjölda, sem sæmilega samhent og dugleg skipshöfn á að komast yfir á einum degi.

Það var í raun og veru ekki annað en þetta atriði, sem hv. 3. þm. Sunnl. hafði við till. að athuga eða vildi fá nánari skýringar á. En ég vil bæta því víð, að það er talsvert fjárhagslegt atriði fyrir þjóðina, hve miklu er eytt í veiðarfæri á netjabátunum. Ég held, að það hafi komið fram í skýrslum hjá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna í kostnaðaráætlun um útgerð netjabáta og línubáta fyrir yfirstandandi ár, að erlendur kostnaður við útgerð netjabáta er 4–5% meiri en við útgerð línubáta, og það segir sig auðvitað sjálft, að ef hægt væri að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að takmarka netjaveiðarnar frá því, sem nú er, þá væru líkur til þess, að línuúthaldið mundi aukast, og frá því sjónarmiði, að línuveiðarnar eru ódýrari í erlendum gjaldeyri, væri vinningur að því fyrir þjóðarbúið.

Enn fremur hefur það komið fram í skýrslum landssambandsins, og fyrir kemur, að veiðarfærakostnaður hjá bátum, sem veiða fyrri hluta vertíðar með línu og seinna með netjum, er allt að því 90 aurar til ein króna á hvert fiskkíló, og ég held, að það sjái hver heilvita maður, að slíkt bruðl getur ekki gengið og á engan rétt á sér.