08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2387)

90. mál, fiskveiðar með netum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla engan veginn að fara að mæla bót því ástandi, sem ríkt hefur hér í þessu sambandi undanfarin ár, þar sem vitað er og sannað, að bátar hafa notað eða lagt í sjó miklu fleiri net en þeir hafa ráðið við að draga á einum degi. Ég benti á það við umr. á síðasta þingi, þegar þessi till. lá einnig fyrir, að það væru mjög mikil vandkvæði á því að setja ákveðið mark um, hvað hver bátur mætti hafa mörg net í sjó, þar sem skipshafnir væru mjög misjafnar og afkastageta bátanna mjög misjöfn í þessu sambandi. En það, sem ég beindi nú til hv. flm., var það, hvernig þeir hefðu hugsað sér að framkvæma þessa takmörkun. Það er það, sem ég tel að flm. hljóti, áður en þeir báru þessa till. fram. að hafa gert sér einhverja grein fyrir, hvernig ætti að framkvæma eftirlit með þessari takmörkun veiðarfæranna.

Ég tók það fram í síðustu ræðu minni, að ég vekti athygli á þessu vegna þess, að ég veit ekki, hvort það er rétt fyrir hv. Alþingi að leggja til við hæstv. ríkisstj. að setja reglur, sem ég tel að fyrir fram sé útilokað að framfylgja eða hata eftirlit með. Ég hef ekki komið auga á, hvaða aðili það er eða getur verið frá löggjafarvaldinu, sem getur haft eftirlit með þessu og fylgzt með því, að þessu ákvarði, ef reglur verða um það settar, sé framfylgt.

Ég endurtek því fsp. mína til hv. flm. um það, hvernig og á hvaða hátt þeir hafa hugsað sér, að slíkum reglum sem þeir leggja til að verði gefnar út verði framfylgt.