02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2401)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í upphafi þessarar aldar vorum við Íslendingar ekki sjálfir málum okkar ráðandi. Við vorum nýlenda Dana, og þeir gerðu samning við Breta um 3 mílna landhelgi við Ísland. Sá samningur hélt gildi allt til ársins 1951. 3 mílna landhelgin náði aðeins yfir tæplega 25 þús. km2 svæði og var okkur og atvinnulífi okkar auðvitað algerlega ófullnægjandi. Hún var ekki heldur við okkar þarfir miðuð, heldur hafði hún orðið fórnarpeð Dana til þess að ná sér hagstæðari kjötmarkaðssamningi við Breta. En við þetta hlaut að sitja fram yfir miðja öldina, enda þótt öllum ráðandi mönnum hins sjálfstæða Íslands væri ljóst, að við svo búið mátti ekki lengur standa en óhjákvæmilegt var.

Það er því engin tilviljun, að upp úr lýðveldisstofnuninni 1944 er tekið að undirbúa stækkun landhelginnar þegar að dansk-brezka samningnum útrunnum. Eitt skrefið, sem stigið var í þeim undirbúningi á bernskuárum íslenzka lýðveldisins, einmitt á meðan hugir landsmanna sneru beint að framtíðarheill lands og þjóðar óblandaðri af erlendum sjónarmiðum en síðar varð, var setning landgrunnslaganna árið 1948. Í þeim lögum helguðu Íslendingar sér landgrunnið allt og fólu sjútvmrh. að ákveða það á hverjum tíma í samráði við hlutaðeigandi vísindastofnanir landsins og innan ramma, sem milliríkjasamningar leyfðu, hvernig fiskveiðitakmörkin skyldu dregin innan endimarka landgrunnsins. Við máttum ekki heldur seinni vera með setningu landgrunnslaganna, því að ári síðar en þau voru sett gengum við í Atlantshafsbandalagið illu heilli, og þaðan hefur jafnan síðan í sívaxandi mæli verið lagzt gegn eðlilegri þróun okkar landhelgismáls.

Um landgrunnslögin var enginn ágreiningur á þingi, og stóðu því allir flokkar að því að leggja þann lagagrundvöll, sem einhliða útfærsla fiskveiðilandhelginnar hefur hingað til byggzt á. Á grundvelli þessara laga var landhelgin svo stækkuð 1952 upp í 4 mílur með grunnlínubreytingum, þannig að hafflötur innan fiskveiðitakmarkanna varð 43 þús. km2 að stærð, og öll var þessi breyting gerð undir fiskverndunarákvæðum, sem bönnuðu ekki einasta veiðar útlendinga á hinu tiltekna svæði, heldur takmörkuðu einnig að verulegu leyti veiðar landsmanna sjálfra á því.

En þótt svona varlega væri í sakirnar farið um hagnýtingu þess hluta íslenzku fiskimiðanna, sem friðunarlínan spennti um, risu þó upp deilur um það mál. Bretar mótmæltu, og þeir svífðust þess ekki að setja löndunarbann á fisklandanir íslenzkra skipa í Bretlandi þvert ofan í milliríkjasamning þeirra við okkur á þeim tíma. Tilgangur þeirra með því var auðvitað allur annar en vinsemd við okkur. Þó er vafamál, hvort nokkur önnur ráðstöfun hefur orðið fremur þessari til þess að hraða atvinnuuppbyggingu okkar og forða okkur frá því að selja óunnin hráefni á erlenda markaði í stað unninnar vöru fyrir aukin verðmæti. Á löndunarbannstímabilinu fleygði fiskiðnaði okkar fram með tilkomu nýrra frystihúsa, og við fundum markaði, sem gerðu miklu betur en bæta upp löndunarbannið. Hinu er ekki að neita, að óvild Breta í 4 mílna deilunni dró allan mátt úr þeim stjórnmálamönnum á Íslandi, sem þeim voru vinveittastir, til þess að halda afram eðlilegri landhelgisstækkun í samræmi við þarfir hins stækkandi fiskiflota og vaxandi fiskiðnaðar.

Það var ekki lengur neinn sóknarhugur í stjórnarvöldum landsins í landhelgismálunum á tímabilinu fyrst eftir löndunarbannsaðgerðir Breta. Þau aðhöfðust ekkert annað en gefa út varnarrit fyrir aðgerðunum. Í einum ritlingi ráðuneytisins frá þeim tíma segir berum orðum, að samkv. alþjóðareglum hefðu íslendingar haft fullan rétt til þess að ákveða grunnlínur sínar utar en gert var á ýmsum tilteknum svæðum, í aðalatriðum á þeim stöðum, þar sem grunnlínubreyting er nú ráðgerð samkv. till. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. En þrátt fyrir þessar yfirlýsingar og þrátt fyrir augljósa þörf bátaflotans reyndist stjórn Ólafs Thors á árunum 1953–56 með öllu ófáanleg til þess að framkvæma neina þá stækkun, sem hún þó í ritum sínum taldi engum vandkvæðum bundna gagnvart alþjóðarétti. Öllum tillögum, sem fram komu á Alþingi á þessu tímabili og fólu í sér útfærslu á landhelginni, var stungið undir stól. Þær fengust ekki afgreiddar. Slík var samúð stjórnarinnar með Bretum, á meðan þeir voru að tapa löndunarbannsdeilunni.

Þegar vinstri stjórnin var mynduð árið 1956, var það eitt af ákvæðum í hennar stjórnarsáttmála, að landhelgin skyldi stækkuð. Enginn skyldi þó halda, að um framkvæmd þess ákvæðis hafi ríkt einhugur í þeirri stjórn. Alþfl. tregðaðist þar við svo sem hann mest mátti og alþjóð nú er kunnugt. Hann vildi bíða eftir ráðstefnu á ráðstefnu ofan og var ófáanlegur til þess að hreyfa svo mikið sem grunnlínurnar, á meðan beðið var eftir ráðstefnunum. Til allrar sinnar tregðu naut hann auðvitað hins fyllsta trausts og bakstuðnings Sjálfstfl. En þegar ekki varð lengur á móti 12 mílna útfærslunni staðið, fengu núv. stjórnarflokkar því þó til leiðar komið, að ekki var stærra skref stigið en 12 mílna útfærsla frá óbreyttum grunnlínum. Með 12 mílna landhelginni, svo sem hún varð 1. sept. 1958, var fiskveiðilögsagan 70 þús. km2 að stærð, en eftir lágu 7000 km2, sem hægt var að taka, hvenær sem samstaða var til þess innan íslenzkrar ríkisstj.

Viðbrögð annarra þjóða við 12 mílna landhelginni eru flestum enn í fersku minni. Allar bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu mótmæltu henni. En Bretar einir fóru að okkur með vopnuðu ofbeldi, og hafa þeir haldið því með mjög útdeyjandi þrótti í 21/2 ár, aluppgefnir í 3–4 vetrarmánuði 2 s.l. ár. Árangur þeirra af ránsveiðunum í básum sínum hefur verið næsta lítill, og aldrei munu þeir hafa náð að hersetja meira en 1–2 þús. km2 landhelginnar í einu.

Þannig standa þá málin, þegar ríkisstj. Íslands leggur fram till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Till. þessa boða stjórnarvöldin sem stórsigur Íslands í málinu. En það er dálítið merkilegt, um leið og þessi stórsigur er boðaður, að hæstv. ráðherrar, sem hér hafa talað á undan mér, skuli allir hafa verið með ofarlega í kokinu eina áletrun á gömlu kröfuspjaldi, þar sem stóð: „Samningar eru svik.“ En rök þeirra fyrir því, að hér væri um stórsigur að ræða, telja þeir vera að finna í blaðaummælum í Bretlandi, sem sýni, hvað Bretar séu óánægðir með þessi málalok. Rétt er það, að sumir Bretar munu hafa óskað eftir því, að lengra væri gengið í því að beygja íslenzk stjórnarvöld til framsals á landhelgi Íslands, eftir að þeir fundu ístöðuleysi þeirra. Engu að síður er það vitað mál og ómótmælt af íslenzkum aðilum, að það eru Bretar, sem á eftir reka um staðfestingu á þessum samningi. Og trúi því svo hver, sem trúa vill, að stjórn hennar hátignar Bretadrottningar reki á eftir því að fá auðmýkjandi samning eða uppgjafarsamning sér til handa úr hendi Íslendinga sem sigurvegara.

Hvað felst svo í efni þessa samnings, sem Alþingi er boðið upp á að samþykkja? Efnisatriðin eru aðallega fjögur. Ég verð að láta mér nægja að ræða hér aðeins tvö þeirra, en hlaupa yfir bæði fráhvarf Breta frá mótmælunum gegn 12 mílna landhelginni og fráhvarf okkar frá frekari útfærslu á grundvelli landgrunnslaganna. Réttindi þau, sem Bretum eru veitt samkv. till., og grunnlínubreytingarnar fyrirhuguðu eru þá eftir til að líta nokkru nánar á.

Réttindin til handa Bretum næsta þriggja ára tímabil ná með dálítið mismunandi tímatakmörkunum yfir allt ytra 6 mílna belti landhelginnar óslitið frá Reykjanesi að Ingólfshöfða og raunar allt austur um land og norður að Horni með þremur óverulegum skörðum í við Ingólfshöfða, Hornafjörð og Grímsey. Öll tímatakmörk eru sjáanlega sett eftir forskrift Breta. Veiðisvæðin eru þeim opin á þeim tímum, sem Bretar eru vanir að sækja á þau og þar er fisks að vænta. Á suður- austur- og norðurlandssvæðinu lætur því nærri, að till. jafngildi samningi um 6 mílna landhelgi í þrjú ár. Fyrir vestanverðu landinu eru réttindi Breta takmarkaðri og ekki gengið á 12 mílna landhelgi okkar nema út af Látrabjargi, Snæfellsnesi og norðaustanverðum Faxaflóa. Alls fá Bretar þarna til sinna afnota hafsvæði í okkar landhelgi, sem er 14500 km2 að stærð, og verður því a.m.k. 7–10 sinnum rýmra um þá á okkar miðum en á básum þeim, sem þeir gátu markað sér með herskipunum.

En þótt Bretar komi til með að þrengja hér að á miðunum, ef við þá verður gerður slíkur samningur, þá liggur auðvitað í hlutarins eðli, að sömu réttindi og þeir koma til með að hljóta innan landhelginnar verði veitt öllum öðrum þjóðum, sem þess óska, enda væri allt annað fráleitt. Það eru því ekki einasta brezkir togarar, sem við getum vænzt í heimsókn á miðin hjá okkur. Samningurinn nær til allra fiskiskipa. Þess vegna geta fiskiskip allra Evrópuþjóða komið hér með ekki einasta botnvörpur, heldur einnig með dragnætur, síldarnætur, síldarvörpur, reknet, handfæri, þorskanet, svo að eitthvað sé nefnt af þeim veiðarfærum, sem útlendingar notuðu hér við land fyrir eina tíð, þó að sleppt sé öllum þeim. sem við kunna að hafa bætzt, síðan þeir hurfu af okkar miðum. Og það sem máske er athyglisverðast af þessu öllu saman, er það, að öll okkar venjulegu síldveiðimið, þar sem sumarsíldveiðarnar eru stundaðar, standa opin upp að 6 mílunum fyrir öllum þeim þjóðum, sem þar vilja veiða, þegar þessi samningur er gerður, ef hann á fyrir sér að hljóta samþykki.

Það liggur í augum uppi, að það, sem við látum af hendi, er ekkert lítilræði. Smækkun landhelginnar í 6 mílur fyrir þremur landsfjórðungum og skörðótt 12 mílna landhelgi fyrir einum í milliríkjasamningi skyldi maður ætla að væri ráðstöfun, sem eitthvað verulegt kæmi á móti. Af öllum málflutningi forsvarsmanna þessa samnings má sjá, að gjaldið fyrir þetta telja þeir vera grunnlínubreytingarnar fjórar: út af Ströndum, sunnan Langaness, vestan Vestmannaeyja og norðvestur af Eldey. Ég vil taka það fram, að Alþb. er samþykkt öllum þessum útfærslum, og það hefði viljað hafa þær fleiri. Auk þessara breytinga eigum við ótvíræðan rétt á hliðstæðri útfærslu grunnlínanna í Meðallandsbugt, í Mýrnabugt og einnig við Grímsey, við Hvalbak og við Geirfugladrang. Það er sem sagt ekki ráðgert að taka inn í landhelgina nema 5 af 7 þús. km2, sem enginn vafi getur leikið á, að við eigum rétt til. Er það næsta torskilið, af hvaða ástæðum er látið hjá líða nú, þegar grunnlínubreyting er ráðgerð, að helga okkur einnig þessi svæði. Á hinn bóginn hlýt ég að mótmæla því eindregið, að hægt sé að líta á grunnlínuútfærsluna sem eftirgjöf af Breta hálfu fyrir réttindi, sem þeir eiga að fá í okkar landi.

Það er með eindæmum, hverjar blekkingar ríkisstj. og hennar málsvarar leyfa sér að hafa uppi í sambandi við þessa fyrirhuguðu samningsgerð. Stærsta blekkingin liggur þó í því að telja Breta hafa goldið sín réttindi með samþykkt á grunnlínubreytingunum. Réttindin til grunnlínubreytinganna áttum við að alþjóðalögum.

Hvað sem standa kann í brezkum blöðum samningum þessum til hnjóðs af brezkri hálfu, er enginn vafi á því, að brezka stjórnin getur sæl og ánægð brosað í kampinn yfir sigri sínum í þessari samningsgerð. Hingað til hefur hún þurft að gjalda fyrir þau réttindi, sem hún ávann landi sínu, annaðhvort með gagnkvæmum réttindum til viðsemjenda eða með sterlingspundum. Hér virðist hún hafa sloppið við hvort tveggja. Hér borgar hún Íslendingum með sneið af Selvogsbanka, sneið af Faxaflóa, sneið úr Húnaflóa og sneið úr Bakkafjarðarflóa, m.ö.o., hún borgar með eignum Íslendinga sjálfra. Og þennan samning leyfir ríkisstj. sér að kalla stórsigur Íslands. Sér er nú hver sigurinn!

Þessi samningstill. er gerð af þeim aðilum, sem lögðu af stað út í tvennar síðustu kosningar með sérstaka samþykkt, gerða á Alþingi hinn 5. maí 1959, sem sitt skjaldarmerki í landhelgismálinu. Í þeirri samþykkt lýsa þeir því yfir, eins og þar segir orðrétt, „að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið“. Ég var einn þeirra, sem í kosningabaráttunni á því ári drógu í efa, að það væri fullur vilji hjá öllum þeim, sem að þessari samþykkt stóðu, til þess að standa við hana. Því svöruðu þeir mér eins og öðrum, sem þá grunsemd ólu, að það væri eingöngu illur hugarburður vondra manna að gruna nokkurn Íslending um að láta sér detta í hug að hvika frá þessari samþykkt. Og það færi betur, að slíkur grunur hefði aldrei verið annað en hugarburður vondra manna. Þá hefði enginn þurft að telja sér trú um það í dag, að framsal á 14500 km2 af okkar landhelgi í hendur Breta væri stórsigur fyrir Íslendinga.

En samningurinn er aðeins til þriggja ára, svo að þetta er svo sem ekki neitt, heyrir maður stjórnarsinna stundum segja. Rétt er það, samningurinn á að gilda þetta ár, næsta ár og árið 1963. Það ár fara fram kosningar til Alþingis, verði þær ekki áður um garð gengnar. Í þeim kosningum ætla þeir, sem tala um stórsigur Íslands, að fá endurnýjaðan meiri hluta sinn á þingi út á stórsigurinn. Takist þeim það, getur máske rifjazt upp, að einhver fordæmi séu fyrir því, að samningar séu stundum endurnýjaðir. Og eftir allt, sem á undan er gengið, mundi það vera litið, þó að fullyrt sé af sömu manna hálfu, að framlenging samningsins komi ekki til mála, enda eru þeir byrjaðir á því strax í kvöld og þykjast eiga einhver skjöl frá Bretum í skúffunni sinni um það, en þeir hafa látið ógert að prenta þau sem fskj. með sinni grg.

Þessa síðustu daga, síðan till. var útbýtt hér á Alþ., hefur ríkisstj. og hennar lið rekið áróður fyrir málstað sínum af mikilli hörku, bæði í blöðum sínum og með sinni gamalkunnu misnotkun útvarpsins til margendurtekins lesturs á fyrirframgerðum áróðursplöggum í grg.-formi, þar sem engum aths. verður við komið. Og í kjölfar þessa hefur stjórninni tekizt að knýja fram fáeinar fundarsamþykktir um stuðning við málið, þótt auðvitað séu þær hverfandi á móti þeim samþykktum, sem móti máli hennar hafa verið gerðar bæði fyrr og síðar. Það er að vísu skiljanlegt, að stjórn, sem allt til þessa hefur engan stuðning fengið hjá þjóðinni, verði harla glöð, ef hún verður vör við hina minnstu samúð einhvers staðar við eitthvert sinna mála, jafnvel þótt hún viti, að fljótræði manna í áróðursmoldviðri muni vera helzta stoðin undir samþykkinu. Og nú er þeim stjórnarsinnum gjarnt að fullyrða, að till. ríkisstj. eigi stuðning meiri hl. þjóðarinnar. Þetta er vert að prófa. Sú stjórn, sem telur sig eiga slíkan stuðning vísan, ætti því með ljúfu geði að fallast á tilmæli okkar stjórnarandstæðinga um að leggja málið undir þjóðaratkv. Ekki liggur okkur Íslendingum svo á því að ljá Bretum 74 eða 15 þús. km2 af landhelginni okkar yfir hávertíðina, að við höfum ekki nægan tíma til þess að lofa þjóðinni að tala. Ef stjórnin hefur aðeins íslenzkt sjónarmið í málinu, hlýtur hún á þetta að fallast, og eftir slíka þjóðaratkvgr. verður óþarft um það að deila, hvort þjóðin vill gefa Bretum eftir landhelgisréttindi sín eða ekki. Ég óska ríkisstj. fyrir fram til hamingju með úrslit þeirra kosninga, en vænti þess líka jafnframt, að hún þrjózkist ekki við að láta atkvgr. fara fram.