06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2408)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eftir að þáltill. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta á þskj. 428 var vísað til utanrmn., átti n. fund um málið. Á þessum fundi n. mættu hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. eftir ósk nefndarmanna, og svöruðu ráðherrarnir fyrirspurnum um einstök málsatvik, sem beint var til þeirra. Herra fiskimálastjóri, Davíð Ólafsson, mætti einnig á þessum fundi nefndarinnar.

Það kom fljótt í ljós, að ekki gat orðið samkomulag innan utanrmn. um afgreiðslu málsins. Varð niðurstaðan sú, eins og fram kemur á þskj. 447, að meiri hl. leggur til, að till. verði samþykkt óbreytt. Fulltrúar Framsfl. í n., hv. 2. þm. Vestf. og hv. 7. þm. Reykv., skila séráliti og sömuleiðis fulltrúi Alþb. í n., hv. 3. þm. Reykv.

Ég vil nú leyfa mér, herra forseti, að gera nokkra grein fyrir afstöðu meiri hl. utanrmn.

Í utanrmn. voru rædd sérstaklega nokkur veigamikil atriði í orðsendingu utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands, sem prentuð er sem fskj. með þáltill. Andstæðingar þessa máls héldu því fram, eins og fram hefur komið í málflutningi þeirra hér í þinginu, að ekki væri sama að falla frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu og að viðurkenna 12 mílna fiskveiðilögsögu, sbr. 1. tölulið orðsendingarinnar. Lögð var á það rík áherzla af ráðherranum, að hér væri engin skilsmunur, enda styddi öll meðferð málsins í viðræðunum við Breta, að svo væri ekki. Bretar hefðu mótmælt rétti okkar til 12 mílna fiskveiðilögsögu, stutt mótmæli sín með herskipavaldi, þeir féllu nú frá mótmælum sínum, „will no longer object to a twelvemile fishery zone around Iceland,“ eins og stendur í enska textanum. Þetta væri endanleg og óafturkallanleg viðurkenning af hálfu Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.

Það var einnig upplýst í nefndinni, að ríkisstj. teldi sig vera örugga um það, að ekki mundi af hálfu Breta verða farið fram á neina framlengingu hinna takmörkuðu veiðiréttinda á ytri 6 mílunum, sem um getur í 3. tölulið orðsendingar utanrrh. Íslands, að 3 ára samningstímabilinu loknu.

Við Íslendingar ættum ekki að hafa löngun til þess að draga í efa það, sem alveg ótvírætt hefur samizt um réttarstöðu okkar við lok fiskveiðideilunnar við Breta.

Ætla verður, að efasemdir þær, sem ég hef vikið að, séu af góðum huga fram settar, og að því leyti er þá mikilsvert, að þær hafa komið til umræðu, að með því er öllum vafa um hinn ótvíræða rétt okkar Íslendinga eytt og sá rétti skilningur óvefengjanlega skjalfestur hér á Alþingi.

En er ekki samkomulagið, sem lagt er til að gert sé við Breta, tímabundið, uppsegjanlegt af okkar hálfu, eða er því ætlað að standa til eilífðarnóns? Þannig heyrum við andstæðinga málsins spyrja, og það er tortryggni í hreimnum. Við erum minnt á það, að þegar Danir gerðu landhelgissamninginn við Breta fyrir okkar hönd árið 1907, hafði þó verið svo um samið, að samningnum mætti segja upp af beggja hálfu. Þá var samið um þá minnstu landhelgi, 3 mílna landhelgina, eftir brezkri forskrift með opnum flóum og fjörðum. Jafnvel Bretar gerðu sér fullljóst þá, að slíkt samkomulag væri ekki til þess fallið að standa til lengdar. Stóð það nærri hálfa öld, þó að uppsagnarákvæði samningsins væri það, að hægt væri að segja því upp með tveggja ára fyrirvara.

En hvers eðlis er hið umrædda samkomulag nú? Í fyrsta lagi: Bretar viðurkenna nú þegar 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, endanlega og óafturkallanlega. Er einhver Íslendingur, sem vildi, að Bretar gætu sagt þessu samningsákvæði upp eftir tiltekinn tíma? Í öðru lagi: Bretar viðurkenna þýðingarmiklar breytingar á grunnlínum á fjórum stöðum umhverfis landið, en af því leiðir aukningu fiskveiðilögsögunnar um 5065 km2. Þetta er líka óafturkallanleg og ótímabundin viðurkenning á íslenzkum réttindum. Í þriðja lagi: Brezkum skipum verður heimilað að stunda veiðar á takmörkuðum svæðum á milli 6 og 12 mílna og takmarkaðan tíma á ári næstu þrjú ár. Hér eru tvær tímatakmarkanir, báðar Bretum í óhag. Þeir fá aðeins að njóta tiltekinna réttinda takmarkaðan tíma á ári og aldrei lengur en í þrjú ár. Og þá komum við loks að fjórða atriðinu, sem gjarnan er orðað svo af andstæðingum þessa máls, að við Íslendingar höfum samhliða framangreindu afsalað okkur einhliða rétti til frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar en nú er tilskilið um alla eilífð. Og er þetta þá rétt? Nei, þetta er ekki heldur rétt, heldur hið gagnstæða. Það, sem um þetta meginatriði segir, felst í niðurlagi hinnar fyrirhuguðu orðsendingar til utanrrh. Bretlands, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstj. Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Í þessu felst í fyrsta lagi, að Íslendingar tilkynna Bretum strax, að þeir muni halda áfram að vinna að frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar; í öðru lagi, að Íslendingar muni tilkynna Bretum slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara: í þriðja lagi, að ef ágreiningur rís um slíka útfærslu, skuli honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins; í fjórða lagi, að ef alþjóðadómstóllinn hefur ekki úrskurðað um málið innan 6 mánaða, kemur útfærslan til framkvæmda og Bretar skuldbinda sig til að beita ekki herskipum sínum eða annarri valdbeitingu gegn henni; í fimmta lagi, að einhliða útfærsla Íslendinga er skuldbindandi fyrir Breta um alla framtíð, nema alþjóðadómstóllinn kveði upp þann dóm, að útfærslan sé ekki í samræmi við alþjóðalög og rétt.

Það er því aðeins eitt atriði, sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til um alla framtíð með því samkomulagi, sem ráðgert er til lausnar fiskveiðideilunni við Breta, og það er að gera ekki ráðstafanir, sem skv. dómi alþjóðadómstólsins brjóta í bága við alþjóðalög og rétt. Er nú einhver hv. alþm. þeirrar skoðunar, að okkur Íslendingum væri sæmandi að hafa slíka skuldbindingu tímabundna, að við féllumst á það, en þó ekki nema í tiltekinn tíma, að gera ekki ráðstafanir, sem færu í bága við alþjóðalög og rétt að dómi alþjóðadómstólsins? Enn fremur spyr ég: Er þetta nokkur ný skuldbinding, sem við tökum hér á okkar herðar? Nei, þessa skuldbindingu höfum við áður undirgengizt með aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum, en skv. 93. gr. sáttmála hinna Sameinuðu þjóða eru allir meðlimir þeirra „ipso facto“ aðilar að samþykkt alþjóðadómstólsins, sem samkvæmt 7. gr. er ein af aðalstofnunum hinna Sameinuðu þjóða. Skv. 1. gr. sáttmála hinna Sameinuðu þjóða er markmiði þeirra þannig lýst, með leyfi hæstv. forseta: „að koma á sættum eða lausn milliríkjadeilumála á friðsamlegan hátt og í samræmi við grundvallarreglur réttvísi og þjóðaréttar“.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja að nokkrum atriðum, sem rædd voru innan utanrmn. á fundi hennar og hafa þýðingu að ljóst liggi fyrir.

Menn hafa spurt, hver afstaða annarra þjóða verði til þessa samkomulags milli Breta og Íslendinga — eða afstaða okkar til annarra þjóða í sambandi við þetta samkomulag. Í því efni verður að ráðgera, að við mundum ekki meina öðrum þjóðum réttindi þau, sem hér um ræðir, enda tækju þær þá á sig sömu skuldbindingar og Bretar. Enginn vafi er á því, að viðurkenningin á hinum nýju grunnlínum er mjög veigamikil, þó að hér skuli ekkert um það fullyrt. hvort við íslendingar fáum með samkomulaginu annað eða meira viðurkennt en við hefðum getað fengið okkur tildæmt með alþjóðadómi. Staðreynd er hins vegar, að ríkisstj. Hermanns Jónassonar gekk ekki svona langt með reglugerðinni frá 1. sept. 1958 og í till. sínum á þessu þingi hafa hv. stjórnarandstæðingar lagt til að lögfesta nú hinar gömlu grunnlínur. Það nýjasta, sem sézt hefur um helgina, er svo það í málgagni Alþb., að við Íslendingar höfum nú afsalað okkur rétti til að færa út grunnlínurnar á 7 tilteknum stöðum, sem dregnar eru upp á kortí og sýndar í þessu blaði. Að sjálfsögðu verður mönnum að spyrja: Hví ákvað ekki fyrrv. sjútvmrh., hv. 4. þm. Austf. (LJÓs), ekki aðeins þessar 7 grunnlínubreytingar, heldur og þær fjórar, sem hér eru ákveðnar, með reglugerðinni frá 1958? Látum alveg liggja á milli hluta, vegna hvers þessir menn, sem fóru þá með völdin í þjóðfélaginu, létu slíkt undir höfuð leggjast. En hverju er afsalað nú, jafnvel þó að það sé einlæg skoðun þessara manna, að þessar 7 útfærslur á grunnlínunum væru leyfilegar? Engu er með þessu samkomulagi slegið föstu um eða afsalað í því sambandi, aðeins hitt, að ef ágreiningur yrði um þá útfærslu, þá mundum við tilkynna Bretum það með 6 mánaða fyrirvara, og ef alþjóðadómstóllinn teldi, að þessi útfærsla samrýmdist ekki alþjóðalögum, m.ö.o. ekki þeirri alþjóðasamþykkt, sem gerð var á Genfarráðstefnunni 1960 og sagt er að slíkar útfærslur eigi að byggjast á, þá verðum við að hlíta því. Ef hins vegar niðurstaðan yrði önnur og þeir, sem með völdin fara, hafa trú á, að líkur séu til þess. þá er ævinlega opin leið til þessara og annarra útfærslna og yrði þeim þá ekki haggað nema vegna þess, að alþjóðadómstóllinn hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að þær samrýmdust ekki þeim alþjóðaályktunum, sem hér um gilda og mundu skoðast sem alþjóðalög í þessu sambandi og gerðar voru á hafréttarráðstefnunum í Genf.

Andstæðingar þessa máls hafa látið uppi, að þeir muni leggja til, að þetta mál fari undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar má að sjálfsögðu alltaf hverju sinni margt um það segja, hvort málum beri að skjóta til þjóðaratkvæðis eða ekki. Þó er þetta mál þess eðlis. að það er auðvitað þingsins fyrst og fremst og þingsins helgasta skylda, þeirra þm., sem hér sitja, að taka ákvörðun og afstöðu til málsins. Hitt er svo annað mál, að það er enginn vafi á því, að það gæti verið freistandi, að þjóðaratkvæðagreiðsla væri látin fara fram um mál eins og þetta, ekki sízt eftir að fyrir liggur, hvernig þessu máli hefur verið tekið hér á landi, eftir að það varð kunnugt. við stjórnarsinnar erum hins vegar á móti þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess, að þetta er þannig undirbúið, það er þess eðlis sem samkomulag, sem heimila á þinginu að staðfesta á milli tveggja ríkja, að þingið verður og þinginu ber að skera úr um það.

Áður en nokkuð varð uppvíst eða vitað um, hvers konar samkomulagi núv. hæstv. ríkisstj. mundi getra komizt að við ríkisstj. Bretlands um lausn fiskveiðideilunnar, hefur verið hafður uppi mikill áróður í þessu máli og margar ályktanir hafa verið gerðar á fundum og mannamótum úti um landið. En um hvað hafa þær ályktanir verið gerðar? Þær hafa engar verið gerðar um það samkomulag, sem hér er um að ræða, heldur um allt annað, svo fjöldamargt annað, sem fólki hefur fyrr og síðar, áður en vitað var um þetta samkomulag, verið sagt ósatt af þeim mönnum, sem höfðu fyrirsvar í þeim áróðri. Allt, sem gerzt hefur fyrir þennan tíma, að mál þetta var lagt fyrir þing, hefur þess vegna að þessu leyti ekkert gildi eða gefur neina vísbendingu um afstöðu almennings til þess máls, sem hér liggur fyrir. Hitt er svo mjög fróðlegt að athuga, að eftir að þetta mál var lagt fyrir þingið, hafa þinginu borizt margar ályktanir og verið birtar í blöðum og útvarpi um afstöðu mikilvægra félagasamtaka með þessu máli ekkert síður en móti. Ég hef að vísu ekki tæmandi upptalningu á því, en hún fer þó nokkuð langt og sýnir, að það er full ástæða til þess að ætla, að almenningur engu siður meti og skilji það samkomulag, sem lagt er til að heimila stjórninni með þessari þáltill. að staðfesta við Breta, heldur en hitt, að einhver andúð sé um það ríkjandi.

Mér þykir rétt, til þess að það komi fram í þessum umr., að minna á nokkrar veigamiklar ályktanir og ákvarðanir, sem gerðar hafa verið í þessu máli.

Á fjölmennum fundi Vélstjórafélags Vestmannaeyja, sem haldinn var hinn 1. marz s.l., er lýst yfir fylgi við þessa till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað sérstaklega á þingmenn Suðurlandskjördæmis að styðja þessa till. Sams konar ályktun var gerð 1. marz af matsveinum á sjó, þar sem sérstaklega er tekið fram, að stjórn matsveinafélagsins áliti, — þetta er ályktun stjórnarinnar, — að þetta sé mikilvægur áfangi á þeirri leið að fá viðurkenndan rétt íslendinga yfir landgrunninu öllu. Og þetta veigamikla atriði er einnig áréttað í ályktun frá stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem segir m.a., að sambandsstjórnin telji, að vel hafi tekizt í miklu vandamáli, og leggur áherzlu á, að ríkisstj. Íslands hafi haldið svo á máli þessu og fengið fram þær sáttatillögur, sem til gagns og sóma séu fámennri þjóð í átökum við voldugan andstæðing. Stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins lítur á það sem mikinn ávinning, að náðst hefur samkomulag um fækkun grunnlínupunkta og réttingu grunnlína, sem hefur í för með sér mikla stækkun fiskveiðilögsögusvæðisins eða svæðanna. Og enn fremur segir þar: „Sambandsstjórnin lítur á lausn þessa máls sem mikilsverðan áfanga á þeirri leið að fá aukinn yfirráðarétt yfir landgrunni Íslands, þar sem engin alþjóðalög eru til, sem fyrirbyggja þann rétt.“ Þessi sjómannasamtök leggja m.ö.o. megináherzlu á, að það samkomulag, sem hér er um að ræða, sé áfangi að hinu endanlega og setta marki, og það er með réttum skilningi á þeirri afstöðu hæstv. ríkisstj. að tilkynna Bretastjórn nú þegar, að ríkisstj. muni halda áfram að vinna að útfærslu fiskveiðilögsögunnar á grundvelli ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959, þar sem því er lýst sem lokatakmarkinu og ríkisstj. falið að vinna að því að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls.

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum sendir einnig ályktun, sem var samþ. með 41:3 atkv., þar sem lýst er yfir sérstakri ánægju félagsmanna með lausn þá, sem felst í þáltill. ríkisstj., og skorað á þm. Suðurlandskjördæmis að styðja till. í öðru mikilvægu sjávarútgerðarþorpi. Akranesi, hefur útvegsmannafélagið sent frá sér ályktun, þar sem fagnað er glæsilegum og óvæntum áfangasigri í landhelgismálinu. Bæjarstjórnir hafs gert ályktanir með þessu máli, bæði hér í Reykjavík og Siglufjarðarkaupstað. Sjómannafélag Reykjavíkur hefur skorað á þingið að samþykkja þessa ályktun og Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur sent frá sér mjög ýtarlega ályktun um málið, þar sem m.a. er lögð á það megináherzla, að með samkomulaginu sé fengin trygging fyrir því, að frekari útfærsla verði ekki hindruð með ofbeldi. Sams konar ályktun hefur borizt frá útvegsmannafélagi Hafnarfjarðar. Og eins og hv. þingmönnum er kunnugt um, hafa ýmsir málsmetandi menn, bæði í sjómannahópi og útgerðarmanna og þeir, sem um þessi mál hafa fjallað og haft mikla reynslu af framkvæmd og meðferð landhelgismálanna, eins og t.d. hinn ágæti og reyndi skipherra, Eiríkur Kristófersson, tjáð sig á opinberum vettvangi um mikilvægi þess samkomulags, sem hér væri kostur á að ná til úrlausnar hinni löngu og erfiðu deilu, sem við höfum staðið í, og sem, eins og ég sagði, áfanga að hinu endanlega merki.

Nú er það ekki svo, að ekki hafi heyrzt ýmsar raddir og sendar þinginu líka frá ýmsum öðrum aðilum í þessu máli. Sumt af því er, eins og verða vill, frá pólitískum aðilum og hefur í sjálfu sér minni þýðingu í þessu sambandi, eins og frá fundi Alþýðubandalagsins í Austurbæjarbíó, framkvæmdanefnd Æskulýðsfylkingarinnar, miðnefnd Samtaka hernámsandstæðinga, kjósendafundum Alþb. og Framsfl. og Sambandi ungra framsóknarmanna. En hins vegar eru þó ýmis stéttarfélög og verkalýðsfélög, sem eru ekki að þessu leyti pólitísk samtök, sem hafa einnig tjáð sig mjög andvíg þessu samkomulagi. t.d. lýsir Sveinafélag húsgagnasmiða því yfir, að það sé mjög andvígt þessu samkomulagi, og sama gerir Félag afgreiðslustúlkna í mjólkur- og brauðabúðum.

Það er þó að mínum dómi þannig, að miðað við þær almennu undirtektir, sem þetta mál hefur fengið, þá er ég sjálfur persónulega þeirrar skoðunar, að það væri lítill vafi á því, hvernig þjóðaratkvgr. mundi fara um þetta mál, enda mun að sjálfsögðu eiga eftir að koma fram, þótt síðar verði, afstaða almennings við þjóðaratkvgr. eða þingkosningar um þetta mál eins og mörg önnur, þegar þar að kemur.

En þar sem ég hef vikið að afstöðu almennings hér, eftir að þetta mál varð kunnugt á Alþ., þá er líka nokkuð fróðlegt, að það komi hér inn í umr. á þingi, hvernig almenningur og hlutaðeigandi aðilar í Bretlandi hafa nú brugðizt við þessu samkomulagi. Hvernig þeim lízt á blikuna eða hvað þeir segja um það, sem þeim er boðið. Þar höfum við séð, bæði af útvarpsfréttum og fréttum í blöðunum, að það er yfirleitt mjög mikil andstaða og að vissu leyti þung gremja hjá mörgum, sem eiga þar hagsmuna að gæta, varðandi þann undanslátt, sem Bretar sjálfir telja að brezk ríkisstj. hafi gert sig seka um í sambandi við þetta mál. Forustumenn brezka fiskiðnaðarins hafa skýrt sjútvmrh. brezka frá því, að þeir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum um lausn þessa máls. Sama kemur fram í yfirlýsingum brezka sjútvmrh. og félags brezkra togaraeigenda. Þegar sagt er frá fundum þessara aðila um málið, þá er því lýst yfir, að brezkir togaraeigendur séu sáróánægðir vegna þess, hve stuttur sá tími er, sem þeir fá að veiða á vissum svæðum innan 12 mílnanna. Einnig eru þeir óánægðir með hinar ströngu takmarkanir á ytri 6 mílunum. Stórblað í Bretlandi, eins og Daily Mail, hafa sagt það í forsíðufréttum og fyrirsögnum, að hinn brezki fáni hafi verið dreginn niður, að Bretar hafi dregið niður fánann í fiskveiðistyrjöldinni við Ísland og látið undan úrslitakostum Íslendinga um 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þeir eru ekki í nokkrum vafa um, um það ríkir enginn efi, að 12 mílurnar eru með þessu samkomulagi í eitt skipti fyrir öll viðurkenndar. Og þetta blað nefnir þennan samning uppgjafarkosti, „surrender terms“, og segir m.a., sem er eftirtektarvert, með leyfi hæstv. forseta, að það er ekki lengra síðan en á síðasta ári, að hámarkseftirgjöf Breta var að fá að veiða í 10 ár innan 12 mílnanna, meðan togaramenn væru að endurskipuleggja veiðarnar og togaraflotann. Um helmingur af afla 230 úthafstogara Breta, aðallega þorskur, er veiddur við Ísland. Uppgjöfin, „the surrender“, mun hafa í för með sér stórkostlegt fjárhagslegt tjón, segir í þessu blaði. Og mjög svipuð ummæli koma fram í mörgum blöðum öðrum. The Guardian tekur fram í sinni umsögn, að það sé að vísu gott, að þessi deila sé á enda, því að hún hafi alltaf frá öndverðu verið, eins og þar segir, Bretum til meiri álitshnekkis en Íslendingum. London Times segir um þetta samkomulag: „Togaraútgerðin óánægð“, og í grein, sem er skrifuð undir þessari fyrirsögn, segir, að Íslendingum standi til boða rausnarlegir skilmálar, er færi Íslendingum svo til allt það, er þeir kepptu að í landhelgismálinu undanfarið. Í Grímsby Evening Telegraph kemur fram viðhorf kannske frá þeim mönnum framast, sem hafa beinna hagsmuna að gæta, — þetta er ein af fiskiborgum Englands, — en þar segir um þetta samkomulag, með leyfi hæstv. forseta: „Samkomulagið við Noreg var erfiður biti fyrir fiskiðnaðinn brezka að kingja. En samkomulagið við Íslendinga er þó enn erfiðari biti. Fiskimennirnir okkar hófu veiðar undan Íslandi fyrir 500 árum, löngu áður en Íslendingar sjálfir hófu fiskveiðar. Við unnum að þróun þessara fiskveiða, fundum upp gufutogara og kenndum Íslendingum veiðarnar. Þetta eru launin, sem við fáum, að vera hreinlega sparkað út.“

Þetta lýsir viðhorfi Grímsby-manna til þessa máls og hvernig þeir líta á frá sínu sjónarmiði. Af fréttum þeim, sem okkur hafa borizt í sambandi við meðferð málsins í brezka þinginu, er það ljóst, að stjórnin þar hefur sætt mjög miklum ádeilum og ávítum fyrir málið, og réðst stjórnarandstöðuflokkurinn þar mjög harkalega að stjórninni fyrir að lúta í lægra haldi, að því er þeir vildu telja, fyrir Íslendingum í þessari deilu. Í einu brezku blaði, Daily Express, segir varaforseti félags brezkra togaraeigenda, Joseph Cobley, eða blaðið hefur eftir honum, með leyfi hæstv. forseta, að brezka stjórnin hefði með samkomulaginu svipt brezka togaramenn fiskimiðum í slíkum mæli, að jafna mætti til þess, að brezkir bændur misstu héruðin Cornwall, Devon, Sommerset, Dorset, Hampshire og Glocestershire í hendur keppinauta sinna á meginlandinu í einni svipan og um alla framtíð.

Það er svo í raun og veru, að hvar sem gripið er niður í blaðaummælum eða tekið eftir fregnum frá Bretlandi, þá þykir sem Íslendingar hafi fyrir sitt leyti getað náð svo hagstæðum samningum, að þeir hafi, eins og þeir orða það, fengið nærri því allt, sem þeir hafa verið að berjast fyrir að undanförnu. Og það kemur greinilega fram, sem er mjög þýðingarmikið í þessu atriði, að Englendingum dettur ekki í hug, eins og hv. stjórnarandstæðingar hér gera, að halda fram, að Íslendingar hafi afsalað sér rétti til frekari útfærslu, um leið og þeir tilkynna, að þeir muni halda áfram tilraunum til frekari útfærslu, heldur benda þeir réttilega á, að mesta hættan er þá sú, að Íslendingar eru staðráðnir í að halda þessu áfram. Einn af þm. Verkamannaflokksins segir, að hann sjái fram á, þegar þetta liggi fyrir, að eftir 3 ár muni Ísland friða allt landgrunnið og verði þá alvarlegt atvinnuleysi hjá brezkum fiskimönnum. Gerið ykkur ljósar þær ógnir, sem stafa af þessu hræðilega samkomulagi, „shocking settlement“, eins og þessi hv. brezki þm. kemst að orði, og er ykkur ljóst, að fiskimenn okkar kysu heldur að fara inn fyrir og veiða í íslenzkri landhelgi undir vernd herskipa en verða að lúta þessu lélega samkomulagi, sem að lokum mun gera þá atvinnulausa, segir þessi brezki þm. Hann óttast sem sagt, að mest hætta fyrir Breta felist í framhaldandi sókn Íslendinga til að eignast landgrunnið allt í samræmi við þær yfirlýsingar, sem Íslendingar sjálfir gefa Bretum samhliða því samkomulagi, sem hér er gert.

Ég vil svo aðeins að lokum vitna til ummæla fyrirlesara brezka útvarpsins, sem ræddi efnislega um lausn fiskveiðideilunnar, þar sem hann gerði brezku þjóðinni grein fyrir því svo, að það virtist vera, að samkomulagið væri Íslendingum mjög mikið í hag. Þeir fá allt, sem þeir hefðu getað fengið í Genf, ef bandarísk-kanadíska till. hefði verið samþ., og meira til. Brezkir togaramenn fá nú aðeins þriggja ára frest til að finna ný fiskimið og til að byggja ný og nothæf skip. En þeir verða jafnvel á þessum þriggja ára fresti að hlíta ströngum takmörkunum. Og svo vekur hann athygli á því, að enn hafa hinar svokölluðu grunnlínur verið dregnar að nýju Íslendingum mjög í vil. Hvað fá Bretar í staðinn? spyr þessi brezki útvarpsfyrirlesari og segir — með leyfi hæstv. forseta: Sáralítið eða ekkert, munu brezkir fiskimenn svara. Eina eftirgjöf Íslendinga er, að þeir fallast á að gefa Bretum sex mánaða uppsagnarfrest, ef þeir ætla að vikka fiskveiðilandhelgina enn frekar.

Ég hef leyft mér að minna á þessar undirtektir í Bretlandi annars vegar og svo hér á Íslandi hins vegar til þess að varpa nokkru ljósi yfir það, hvernig máli þessu hefur verið tekið almennt og á víðari vettvangi en hér innan þingsalanna einna. Ég tel ekki þörf á því að gera að þessu sinni í lengra máli grein fyrir afstöðu okkar í meiri hl. utanrmn. til þáltill. þeirrar, sem hér liggur fyrir. Málið hefur verið mjög ýtarlega rætt við fyrri umr. í þinginu, enn fremur í blöðunum, á fundum og í félagasamtökum. Meiri hl. utanrmn. er ljóst, að hæstv. ríkisstj. hefur haft til úrlausnar mikið vandamál. þar sem er fiskveiðideila Breta og Íslendinga. Ríkisstj. Íslands hefur borið gæfu til að leggja nú fyrir hv. Alþ. till. til lausnar þessa vandamáls, sem er Íslendingum til mikils sóma og mun verða þeim til ómetanlegs trausts og halds í viðskiptum við aðrar þjóðir í framtiðinni. Barátta Íslendinga í landhelgismálinu hefur oft verið erfið. Aðstaða þeirra hefur aldrei verið traustari en nú með samkomulagi því, sem hæstv. ríkisstj. fer fram á að Alþ. heimili henni að gera við ríkisstj. Bretlands. við í meiri hl. utanrmn. leggjum eindregið til, að till. til þál. um lausn fiskveiðidellunnar við Bretland á þskj. 428 verði samþykkt óbreytt.