06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2410)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Nú stendur yfir vetrarvertíð, mesti bjargræðistíminn við sjávarsíðuna. Nú er róið, alls staðar er róið, þegar gefur á sjó. Það hafa að vísu orðið stöðvanir hjá útgerðinni nú að undanförnu, jafnvel mánuðum saman, en slíkt hefur komið fyrir áður, þ.e.a.s., það kom fyrir fyrir fimm árum. Eiginlega kom það fyrir árlega þá, en sem betur fer, þá er núna róið. En það róa fleiri en sjómennirnir núna. Nú er ríkisstj. farin að róa. Hún hefur gert út sína háseta að undanförnu, og þeir hafa verið vel undirbúnir, aðeins látnir bíða eftir merkinu, hvenær þeir ættu að ýta úr vör.

Svo rann upp mánudagurinn 27. febrúar, og þá var merkið gefið: Útbýtt á Alþingi till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að gera landhelgissamning við Breta. Þeir brugðu við, þessir hásetar, þ.e.a.s. blaðamenn stjórnarblaðanna, alls staðar þar, sem þeir voru tiltækir. Inn á þetta atriði hefur hv. frsm. meiri hl. n. komið hér í dag og rökstutt þennan samning með árangrinum úr róðrinum hjá þessum hásetum hæstv. ríkisstj. úti um allt land. Já, þeim var það mikið kappsmál að afla nú meðmæla með landhelgissamningi við Breta, eins og hann liggur nú hér fyrir, og um að gera að fá þessi meðmæli fljótt, svo að hægt væri að birta þau strax. Þetta voru út af fyrir sig vel skiljanlegar aðgerðir hjá hæstv. stjórnarflokkum.

Í fyrrasumar, eins og menn muna, tók hæstv. ríkisstj. þá örlagaríku ákvörðun upp á eindæmi að fara að semja við Breta, — þá ákvörðun, sem var þvert ofan í samþykkt Alþingis frá 5. maí árinu áður og þvert ofan í þann einhug í málinu, sem fram hafði komið opinberlega til þess tíma. En þá varð hæstv. ríkisstjórn fyrir sárum vonbrigðum. Hvaðanæva að af landinu rigndi yfir hana mótmælum, mánuðum saman, gegn þessu athæfi. Þetta ruglaði áætlunina um samningana við Breta. Hæstv. ríkisstj. hafði auðsjáanlega ætlað sér að vera búin að semja, áður en Alþingi kæmi saman 10. okt. Brezkir forustumenn í þessu máli skýrðu frá því í viðtölum við brezk blöð, að áætlað væri, að samningarnir tækju 10 daga. Auðvitað gátu þeir ekki gert slíka áætlun nema í samráði við hæstv. ríkisstj. á Íslandi. En þá komu þessi mótmæli til sögunnar, og það var ekkert álitlegt að eiga að fara að semja þá strax í ágústmánuði, eins og á stóð. En samt var ekki með öllu horfið frá tíu daga áætluninni, og hingað komu Bretarnir í septemberlok, og byrjað var að semja 1. okt. Það stóð heima, 10 dagar til þings.

Það er engum blöðum um það að fletta, að vegna mótmælanna alls staðar að af landinu gegn þessu samningamakki við Breta entust þeim ekki þessir tíu dagar, og þá vandaðist málið. Alþingi sezt á rökstóla. Hvað átti nú að gera? Átti að hafa samráð við Alþingi eða þingflokkana, eins og alltaf hafði áður verið gert, þegar landgrunnslögin voru sett 1948, þegar útfærslan var gerð 1952 og þegar stækkun landhelginnar var gerð 1958? Átti nú að fara þessa hefðbundnu leið enn? Nei, það fannst hæstv. ríkisstj. útilokað. Það gat orðið til þess, að það næðust engir samningar. Þá var það, sem hæstv. ríkisstj. tók það ráðið, sem vafalaust hefur verið fráleitast af öllu, sem hún gat gert. Hún bara þrætti fyrir, að hún væri nokkurn hlut að semja við Breta. Sömu dagana og samningamennirnir, íslenzkir og brezkir, sitja við samningsborðið suður í Tjarnargötu 32, þá sverja ráðherrarnir fyrir það hér niðri í alþingishúsi, að það sé nokkuð verið að semja við Breta, og þetta gera þeir með köldu blóði, þó að þeir vissu það þá, að þetta kæmist allt saman upp. Þegar svona er unnið að málum, þegar heilindin eru af þessu tagi, þá er ekki við góðu að búast, — þá þarf enginn að búast við heiðarlegum samningi, enda er það nú komið í ljós. Mótmælunum linnti ekki. Þau dreif enn yfir hæstv. ríkisstj. og Alþingi. Enn var hættulegt fyrir hæstv. ríkisstj. að semja, og enn þótti henni ráðlegast að bíða. Loks er svo komið, að Bretar fara að ókyrrast. Þeir segja: Nú bíðum við ekki lengur. Vorvertíðin er að byrja. Nú verðið þið að ljúka þessum samningi. — Og þar með var hæstv. ríkísstjórn ekki lengur undankomu auðið. Nú varð hún annaðhvort að gera, að svíkja Breta og standa með íslenzku þjóðinni eða svíkja þjóðina og heitorð sín frá 5. maí 1959 og standa með Bretum. Við sjáum núna, hvorn kostinn hún valdi.

En hvernig átti að fara að, ef mótmælaaldan kynni að rísa á ný? Þá var það, sem hæstv. ríkisstj. hugkvæmdist að fara að gera út, gera út nógu marga blaðamenn út um allt land, í öllum verstöðvum, og safna meðmælum með hinum væntanlega samningi. Hv. frsm. meiri hl. n. hefur gert grein fyrir því, hvernig þetta hefur tekizt. Hann hefur talið upp meðmælendurna. Skráin var ekki löng, og ég veit ekki nema ég verði að fara aðeins yfir hana, ef mér gefst tími til. En þetta var mikið keppikefli fyrir hv. stjórnarflokka, þessi útgerð, að safna meðmælendum. Ef henni nú tækist að fá nógu mikið af meðmælum og fá þau strax, þá bæri minna á mótmælaöldu, sem kynni að rísa á ný. Svo fara fyrstu meðmælin að berast, á þriðjudag, daginn eftir að plagginu var útbýtt á Alþ., miðvikudag og fimmtudag og meðmælin birt í stjórnarblöðunum alltaf daginn eftir, miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Þetta gekk eins og í sögu. Og hæstv. ríkisstj. hafði látið róa á þrenns konar mið í þessari meðmælasöfnun. Í fyrsta lagi var látið fara til einstaklinga, sem höfðu unnið á einn eða annan hátt við sjávarútveginn, í öðru lagi var leitað til stjórna þeirra félaga, sem komu við sjávarútvegi, og loks var vikið frá sjávarútveginum og snúið sér beint til bæjarstjórna. Fyrstu meðmæli, sem bárust utan af landinu, voru birt í miðvikudagsblöðunum og hafa því komið daginn áður. Þau meðmæli hafa áreiðanlega verið send, áður en allir hlutaðeigendur hafa verið farnir að sjá samninginn. Svo fljótt kom þetta, enda urðu nokkur missmíð á meðmælunum sumum hverjum, þegar til kom.

En þrátt fyrir það, þó að finna megi að meðmælum, þá er samt skylt að taka tillit til þeirra. Það vil ég gera eftir því, sem efni standa til. En eins verður að taka tillit til mótmæla, þegar þau berast. Það er þá skylt að gera sér grein fyrir, hversu þessi meðmæli með samningnum við Breta eru almenn um landið, hversu það er fjölmennur hópur, sem stendur að þessum meðmælum, ekki sízt eftir að hv. frsm. meiri hl. n. hefur rökstutt samninginn m.a. með þessum meðmælum. Eftirtekjan eftir meðmælasöfnunina liggur nú fyrir, eins og hún er eftir úthaldið.

Fyrst koma einstaklingarnir, sem mæla með þessum samningi við Breta, og það eru eingöngu útgerðarmenn og yfirmenn á fiskiskipum. Það virðist alls ekki hafa verið talað við óbreytta sjómenn eða þá þeir hafa kannske ekki viljað mæla með þessu. A.m.k. komu ekki meðmælin fram frá þeim, Og hvað er nú þetta mikill sægur? Jú, í Reykjavík eru það 3 menn. Þeir eru þrír í höfuðstað landsins! Í Hafnarfirði er það skárra, því að þar eru þeir 4. Í verstöðvunum austanfjalls, öllum verstöðvunum í Árnessýslu, eru þeir 4. Í Sandgerði aftur á móti eru þeir 6, en í Keflavík ekki nema 5. Í Vestmannaeyjum eru þeir 11, þar eru víst gerðir út 100 bátar. Þetta er hérna sunnanlands. Svo kemur Norðurland. Þar eru líka meðmælendur með samningnum. Á Akureyri 2 menn. Á Húsavík er einn og þó eru meðmælin frá þessum Húsavíkurmanni þannig, að hann minnist ekki einu orði á þennan samning við Breta, en segir hins vegar, að hann hafi fiskað bara furðanlega, síðan landhelgin stækkaði, og í vetur sé hann búinn að fá 260 skippund. Það eru nú öll meðmælin hans með samningnum við Breta. Svo hefur fundizt einn maður í Flatey á Skjálfanda, einhver Páll Pálsson útgerðarmaður. Mér er sagt af nákunnugum manni, að það sé ekki einn einasti Páll Pálsson útgerðarmaður til í Flatey. Einn maður fannst í Grenivík og einn í Ólafsfirði og í Hauganesi einn. Þá er komið til Vestfjarðakjördæmisins. Þar fannst einn útgerðarmaður á öllum Vestfjörðum. Loks eru tveir staðir eftir, sem þarf að gera nánari grein fyrir. Það eru Akranes og Ólafsvík. Það voru þrír menn á hvorum stað, sem fréttaritarar stjórnarblaðanna sneru sér til og birt eru eftir ummæli í Morgunblaðinu. Þó að ég telji þessa þrjá með á Akranesi og þrjá í Ólafsvík og þennan eina á Húsavík, sem minntist ekki á samninginn, en sagðist hafa fiskað 260 skippund, og telji þá alla sem meðmælendur með samningi hæstv. ríkisstj., þá koma samt ekki út úr þessu nema 47 menn um allt land. Þetta eru meðmælin, sem hv. frsm. meiri hl. n. var að vitna í áðan sem röksemdir fyrir því, að samþykkja ætti samninginn við Breta.

Hvað ætli þessir 47 séu mikill hluti at öllum útgerðarmönnum og yfirmönnum á fiskiskipaflota landsmanna? Ég verð að játa það, að ég hef ekki reynt eða nennt að reikna þetta út. Sjálfsagt væri hægt að fá kannske einhvern hagfræðing til þess, en ætli „prósentin“ séu mörg?

En eins og ég sagði, þá er sitthvað að athuga við sum af þessum meðmælum. Úr Ólafsvík birti Morgunblaðið svokölluð meðmæli frá þremur mönnum. Einn þessara manna segir m.a., eins og Morgunblaðið skýrir frá, með leyfi hæstv. forseta: „Okkur hér í Ólafsvík finnst, að anzi nálægt okkur hafi verið höggvið með því að leyfa Bretum fiskveiðar á beztu netaveiðisvæðum okkar.“ Ég taldi þennan mann samt með þessum 47 meðmælendum. Það eru ekki slök meðmæli, þetta er meðmælandinn segir, að nærri sé höggvið lífsbjörg þeirra þar fyrir vestan að samþykkja samninginn.

Annar maður, sem Morgunblaðið birtir eftir „meðmæli“ úr Ólafsvík, segir m.a., eftir því sem birt er í Morgunblaðinu, með leyfi hæstv. forseta: „Það eitt er gott við, að Bretum skuli leyft að veiða upp að 6 mílum um ákveðinn tíma, að við vitum þá af þeim á þessum svæðum.“ Ég hef talið þennan meðmælanda með þessum 47. Það eru góð meðmæli þetta: „Það eitt er gott, að við vitum af Bretunum,“ m.ö.o.: það er ekkert gott við samning hæstv. ríkisstj. við Breta nema það eitt, að sjómennirnir í Ólafsvík vita, að þeir eru þarna. Sá þriðji og síðasti, sem talað var við í Ólafsvík og Morgunblaðið birtir „meðmæli“ eftir, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,.Ég hefði helzt ekki viljað hvika frá 12 mílna fiskveiðilögsögu.“ Og enn fremur: „Við Breiðfirðingar höfum með þessum aðgerðum fórnað mestu allra landsmanna.“

Svona eru þá meðmælin frá útgerðarmönnunum í Ólafsvík. Þetta eru rökin fyrir því m.a., að við eigum að samþykkja samninginn við Breta.

Á Akranesi spurði fréttamaður Morgunblaðsins þrjá menn um álit þeirra á samningnum. Þegar sá fyrsti er spurður, svarar hann: „Er það ekki ágætt?“ — og ekkert annað. Hann hafði ekkert að segja annað. Hver getur þýtt þetta svar? Ef ég ætti að þýða það, þá mundi ég telja, að hann hefði verið að gera gys að þessum Morgunblaðsmanni, og ekkert annað.

Annar, sem þar var spurður og er nú löngu hættur sjómennsku, segir: „Ja, ég veit nú ekki. Ég hef ekki grandskoðað þetta svo vel. Mér lízt bara vel á.“ Það vottar þó fyrir einhverju jákvæðu þarna.

Svona eru þá meðmæli þessara 47 einstaklinga, útgerðarmanna og yfirmanna á fiskiskipum, sem blaðamenn stjórnarblaðanna fengu til að lýsa meðmælum sínum með landhelgissamningi ríkisstjórnarinnar. Sum af þessum meðmælum a.m.k. eru hrein mótmæli. En allt er hey í harðindum. En það er sjálfsagt að meta meðmælin, þau sem eru það, af fullri sanngirni, og aðalblað hæstv. ríkisstj., Morgunblaðið, lagði mat á þessi meðmæli öll og birti það mat, þann dóm sinn, með einni geipilegri fyrirsögn í Morgunblaðinu 4. marz, og dómurinn var svo hljóðandi: „Bátaformenn um allt land ánægðir með samningana.“ Já, „bátaformenn um allt land ánægðir með samningana“. Stjórnarblöðin fundu samt ekki einn einasta bátsformann ánægðan með samningana alla leið frá Vestmannaeyjum austur um land og norður til Húsavíkur, og þar fundu þeir þennan eina, sem hafði ekkert að segja, nema hann væri búinn að fiska 260 skippund. Og þessir fréttamenn stjórnarblaðanna fundu ekki heldur einn einasta bátsformann, sem var ánægður með samningana, alla leið frá Ólafsfirði vestur allt Norðurland, um alla Vestfirði, allan Breiðafjörð og suður á Akranes. Hvað er þá „landið“, sem Morgunblaðið kallar? Það er alveg auðséð, hvað það er. „Landið“ á máli stjórnarflokkanna skv. þessu er frá Akranesi til Vestmannaeyja, og það er frá Húsavík til Ólafsfjarðar. Það er ekki annað.

En eins og ég sagði, þá var líka leitað meðmæla hjá félagsstjórnum og bæjarstjórnum, og það er alveg rétt, eins og hv. frsm. meiri hl. utanrmn. las hér upp í dag, að þá voru nokkrar félagsstjórnir, sem mæltu með samningi ríkisstj. (Gripið fram í.) Já, hvað voru þeir margir? (Gripið fram í.) Nei. (Gripið fram í.) Hér í Reykjavík er það stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna, — ekki félagið, það er stjórnin. Og meira að segja hv. frsm. meiri hl. n., sem ég vænti að vilji hafa alltaf það, sem sannara reynist, tók það sjálfur fram, að það hefði verið stjórnin. Jú, það var stjórn L.Í.Ú., þessi stjórn, sem útgerðarmenn og sjómenn hafa orðið að standa í styrjöld við núna í vetur. Það var stjórn Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, — ekki félagið. Já. Íslenzku togararnir munu eiga að fá að veiða í landhelginni alveg eins og Bretar. Þetta er skiljanlegt. Það var stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, — ekki sambandið sjálft, og það er rétt, þeir mæltu með samningnum. En það er ekki einn einasti maður úr bátaflotanum í þeirri stjórn. Það var stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur, — ekki félagsfundur. Þar er ekki einn einasti maður heldur úr bátaflotanum. En svo var það eitt félag, og það er rétt hjá hv. frsm. n., sem greip hér fram í. Þar er félag, að manni virðist, félagsfundur. Þó er ég ekki viss um það. Það heitir Matsveinafélag. — Nei, fyrirgefið þið. Það mun hafa verið stjórn þess bara, sem mælir með samningunum, en daginn eftir birtast harðorð mótmæli frá félagsmönnum úr þessu sama félagi gegn samningunum. Þá er upp talið það, sem gerðist í höfuðstaðnum.

Utan Reykjavíkur hafa líka komið meðmæli. Þau eru aðallega frá Vestmanneyingum. Ég held, að það séu ein þrjú félög útgerðarmanna og yfirmanna þar, sem hafa mælt með samningunum: eitt félag á Akranesi, að ég ætla, eða stjórn þess félags, útgerðarmannafélags, og eitt félag í Hafnarfirði.

Ég held ég hafi hér tíundað nákvæmlega, hve mikil meðmæli hafa komið, nema ég á eftir bæjarstjórnirnar. Þar er fljótt yfir sögu að fara. Þær eru tvær á öllu landinu. Bæjarstjórn Reykjavíkur, þar sem meðmæli voru samþykkt með 11 atkv. stjórnarsinna, stuðningsmanna ríkisstj., gegn 4 stjórnarandstæðingum. Og hinn staðurinn var Siglufjörður. Bæjarstjórnin þar samþ. meðmæli með samningunum með 5 atkv. á móti 4. Og sú samþykkt bæjarstjórnarinnar vakti alveg sérstakan fögnuð hjá Alþfl., því að Alþýðublaðið birtir eina geysilega fyrirsögn daginn eftir: „Siglufjörður fagnar samkomulaginu.“ Þessir 5, það var Siglufjörður. Fleira en þetta hef ég ekki getað fundið af meðmælum með þessum landhelgissamningi hæstv. ríkisstj.

Það er athyglisvert við öll þessi meðmæli, að þau berast öll 3 fyrstu dagana, eftir að till. var útbýtt hér á þingi, þ.e. þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag í síðustu viku, þá berast þau til blaðanna. En eftir útvarpsumræðurnar hefur ekki birzt eitt einasta meðmælaplagg í þessum stjórnarblöðum nema frá útgerðarmannafélagi Hafnarfjarðar. Þetta er svo sem skiljanlegt. Hin langa grg., sem hæstv. ríkisstj. lét fylgja þáltill., var öll lesin upp í útvarpið. En eftir fimmtudagskvöld hafa menn fengið skýringar, sem voru öllu haldbetri, á sjálfu innihaldi landhelgissamningsins, og þá er eins og skorið fyrir það, að þessi meðmæli komi fleiri. Þetta er ekkert undarlegt. Það er erfitt að átta sig á máli, sem er túlkað á sama hátt og grg. var með till., þótt menn heyri þetta í útvarpi einu sinni. — Ég hef nú heyrt sagt, að hún hafi verið lesin tvisvar í útvarp. Ég veit ekki, hvort það er rétt. Það hefði reyndar ekki veitt af því. Menn geta ekki áttað sig nægilega á slíku máli, nema sjá skjalið og hafa það fyrir framan sig og lesa það og lesa það oft. Þegar frá líður og menn hafa tækifæri til þess og eru búnir að heyra rökræður í útvarpi um málið frá öllum hliðum, þá hafa þeir betri skilyrði til þess að dæma um kosti og ókosti málsins, og það hefur líka komið fram í því, að meðmælin dóu út allt í einu.

En síðan eru farnar að berast álitsgerðir af öðru tagi, bæði úr höfuðstaðnum og úr útgerðarbæjum víðs vegar að af landinu. Það eru ekki vitnisburðir neinna einstakra manna, sem þar koma í ljós, ekki einu sinni álitsgerðir, sem neinu nemur, frá félagsstjórnum. Það eru samþykktir fjölmennra funda (Gripið fram í: Austur á Selfossi.) — eins og frá Ólafsvík, eins og í Reykjavík, ef hv. frsm. meiri hl. n. man eftir því, eins og á Vestfjörðum, eins og úr Vestmannaeyjum. Ætli það fari ekki eitthvað lítið fyrir þessum 47, sem smalað var, ef farið er að reikna saman höfðatöluna í meðmælunum og mótmælunum? Ósköp held ég, að þetta hafi verið misheppnað hjá hv. frsm. meiri hl. utanrmn., að fara að rökstyðja till. með meðmælunum.

Um efni landhelgissamningsins hefur nú verið rætt í útvarpi frá Alþ. Allir hæstv. ráðh. ríkisstj. komu þar fram, nema hæstv. landbrh., en hann mun vera einna minnsti sjómaðurinn á skútunni og ekki kannske nógu fimur að umþótta sig, eins og hinir. Hæstv. ráðh. hafa nú orðið að svara ádeilum stjórnarandstæðinga um hvert einstakt efnisatriði þessa samnings, og í svörum þeirra er öllu meiri fróðleik að fá en í sjálfri grg. löngu, sem fylgir till.

Fyrsta atriðið í þessum samningi er það, að Bretar falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. Um þetta segir hæstv. ríkisstj., að með þessu viðurkenni Bretar 12 mílna fiskveiðilögsögu. Og hv. frsm. meiri hl. utanrmn. hefur enn undirstrikað þetta, að það þýði viðurkenningu Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögu, og hann tók upp nýja aðferð til að sanna þetta. Hann fór að lesa textann á ensku. Hann hafði komizt að því, að hv. þm. skildu ekki íslenzkuna á þann veg, að þetta væri viðurkenning, og þá brá hann því fyrir sig að lesa textann bara á ensku. Hv. þm. eiga líklega að skilja enskuna betur en íslenzkuna. Já, það getur verið, að hæstv. stjórnarsinnar geri það, ekki geri ég það. Og ef það þarf að grípa til enskunnar, var þá ómögulegt að þýða þetta alveg rétt? Er þarna virkilega um ranga þýðingu að ræða í plagginu? Ekki þurfti hæstv. frsm. að fara að lesa þetta upp á ensku, nema hann væri að sýna fram á, að þýðingin væri ónákvæm eða bara röng. (Gripið fram í.) Það er bezt að spyrja hæstv. ríkisstjórn að því, hvort er frummálið. — Þeir hafa keppzt við að fullyrða, að orðalagið „að falla frá mótmælum“ sé sama og viðurkenning á 12 mílna lögsögunni. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvers vegna er þá viðurkenningin ekki nefnd á nafn í þessum samningi? Það skilur hver heilvita maður, að ef Bretar hefðu ætlað sér að viðurkenna 12 mílna landhelgina, þá hefði upphaf 1. gr. þessarar orðsendingar hljóðað eitthvað á þessa leið t.d.: „Ríkisstj. Bretlands viðurkennir óafturkallanlega 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.“ Því mátti ekki hafa þetta svona? Nei, þetta stendur ekki í samningnum. Enn þá hafa hæstv. ráðh. ekki fengizt til að svara því, af hverju þetta stendur ekki í samningnum. Auðvitað svara þeir þessu aldrei, af því að þetta er engin viðurkenning af hálfu Breta, þótt þeir falli frá mótmælum. Það hafa Bretar gert áður. Þeir hafa bara tekið upp mótmælin á ný. Þeir hafa t.d. fallið frá öllum mótmælum fyrir ári og ekki tekið þau upp aftur. Nú segir hæstv. ríkisstj., að ef ekki verði samið við Breta, þá taki þeir þessi mótmæli upp aftur. Þeir gefa í skyn, að Bretar muni senda herskip inn í landhelgina á ný til að vernda sína veiðiþjófa, þ.e. taka mótmælin upp aftur. Ef þeir geta það, geta þeir þá ekki alveg eins tekið mótmælin upp aftur eftir 3 ár, þótt þeir segi í samningi núna, að þeir falli frá þeim?

Í ræðum ráðh. sjálfra í útvarpinu má finna nokkra skýringu á þessu deiluatriði. Í ræðu hæstv. fjmrh., en hann er, eins og allir vita, fyrrverandi lagaprófessor, segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Hér er tekið skýrt fram, að Bretar falli frá fyrri andstöðu sinni og mótmælum. Ég ætla, að það verði ekki vefengt með réttu, að þessi yfirlýsing Breta mundi af Sameinuðu þjóðunum og alþjóðadómstólnum metin jafngild viðurkenningu berum orðum.“ Þarna viðurkennir hæstv. fjmrh. og fyrrverandi lagaprófessor, að það þurfi að meta orðalag samningsins, meta það, hvað það þýði „að falla frá mótmælum.“ Hann játar, að viðurkenning Breta á 12 mílunum sé ekki sögð berum orðum í samningnum. En hann álítur samt, að hún verði metin eins og hún væri sögð berum orðum. En hvers vegna má þá ekki segja þetta berum orðum? Hvers vegna þarf að viðhafa þennan skollaleik? Ráðh. segir, að Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðadómstóllinn muni meta þetta orðalag samningsins sem viðurkenningu. Ætlar hæstv. ríkisstj. að fara að biðja Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðadómstól að meta orðalag íslenzku ríkisstj., eftir að Alþ. hefur samþ. það? Vill hún ekki heldur breyta orðalaginu strax, svo að það þurfi ekki að fara að biðja neina útlendinga að meta orðalag hjá Alþingi Íslendinga og íslenzku ríkisstj.?

Ummæli hæstv. dómsmrh. í útvarpsumr. eru ekki síður athyglisverð um þetta atriði. Hann segir þar m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Hitt er svo annað mál. að Alþ. hefur aldrei falið ríkisstj. að afla viðurkenningar Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögu, þegar af því, að það taldi rétt okkar til hennar ótvíræðan og þess vegna óþarfa aðra viðurkenningu Breta en þá, að þeir hættu ofbeldisaðgerðum, eins og fram kemur í ályktuninni frá 5. maí 1959.“ Ég get ekki skilið þessi orð hæstv. dómsmrh, á annan veg en þann, að þarna sé óbein játning á því, að viðurkenning Breta á 12 mílunum hafi ekki fengizt. Hann afsakar hæstv. ríkisstj. með því, að Alþ. hafi aldrei falið henni að fá þessa viðurkenningu. Það hafi heldur ekki verið þörf á henni, ekki þörf á neinni annarri viðurkenningu en að Bretar hættu ofbeldisaðgerðum sínum í landhelginni. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um þetta atriði. Ég held það sé hárrétt hjá honum, að við þurftum enga viðurkenningu Breta á 12 mílunum aðra en þá, að þeir hættu ofbeldisaðgerðum í íslenzkri landhelgi, enda fáum við ekki aðra viðurkenningu, ef við fáum þessa. En þessa viðurkenningu fengum við fyrir ári. Þá hættu Bretar ofbeldisaðgerðunum, og þeir hafa ekki tekið þær upp aftur.

Til hvers er þá þessi samningur, fyrst við þurftum ekkert á þessari viðurkenningu að halda? Þá einu viðurkenningu, sem við þurftum, fengum við fyrir ári. Var það ekki nóg? Mér dettur í hug, að hæstv. ráðh. kynni að svara því, að samningurinn sé til þess, að Bretar byrji ekki á ofbeldinu aftur. En hver er þá tryggingin fyrir því? Hún er engin. Bretar mótmæltu 4 mílna landhelginni 1952 og beittu ofbeldi löndunarbannsins, en þeir féllu frá mótmælunum um nokkurt skeið, og þeir sömdu við íslendinga um landanir á fiski í Bretlandi. Bretar tóku aftur upp mótmæli 1958, neituðu að viðurkenna nema 3 mílurnar og beittu aftur ofbeldi með veiðiþjófnaði undir herskipavernd upp að 3 mílum. Þeir hættu þessu ofbeldi fyrir ári og létu mótmæli niður falla. Þeir drógu togara sína og herskip út úr landhelginni. Bretar segja með þessum samningi, að þeir falli enn frá mótmælum, en þeir segja ekkert um hitt, hvenær þeir kunni að taka mótmælin upp að nýju, taka þau upp í þriðja sinn. Og alltaf hafa Bretar vaðið fyrir neðan sig, það var að viðurkenna aldrei stækkun landhelginnar, hvorki 4 mílur 1952 né 12 mílur samkv. þessum samningi. Á þessum grundvelli að viðurkenna aldrei stækkun landhelginnar töldu Bretar sig í fullum rétti eftir 1952, og enn ætla þeir að geyma sér þennan rétt með því að viðurkenna ekki 12 mílurnar nú. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar fundi var frestað fyrir matarhléið, hafði ég nokkuð rætt fyrsta efnisatriði samningsins við Breta, sem hér liggur fyrir í þeirri orðsendingu, sem Alþingi er ætlað að samþykkja. Annað efnisatriðið í þessum væntanlega samningi er um þá útfærslu á grunnlínum, sem þar er ákveðin. Hæstv. ríkisstj. var bent rækilega á það í útvarpsumr., að hér þyrftum við ekkert að kaupa af Bretum, við hefðum fullan rétt til að færa grunnlínur út samkvæmt samþykkt Gefnarráðstefnunnar 1958. Hins vegar leggur hæstv. ríkisstj. mikla áherzlu á það, að nú fáum við útfærslu á grunnlínum, sem stækki okkar fiskveiðilandhelgi um svo og svo marga ferkílómetra, og það er helzt á hæstv. ríkisstjórn að skilja, að þetta sé nokkurs konar gjöf til Íslendinga. Þetta reyndi hæstv. landbrh. líka að túlka á fundi austur á Selfossi fyrir nokkrum dögum. En á þessum fundi var kona ein, sem fékk leyfi ráðherrans til að leggja fyrir hann eina spurningu, — spurninguna: „Áttu Bretar Selvogsbanka?“ Þetta var sannarlega einföld, kurteis og skýr spurning. Nei, Bretar áttu nú eiginlega ekki Selvogsbanka. Ég hygg, að þessi spurning konunnar á Selfossfundinum verði lengi í minnum höfð, meðan minnzt verður á landhelgismál á Íslandi. Í þessari spurningu felst svo mikill sannleikur annars vegar, en svo bitur ádeila á hæstv. ríkisstj. hins vegar, að það er ekki hægt að gleyma henni fyrst um sinn. En þrátt fyrir þetta er það staðreynd, að hæstv. ríkisstj. ætlar að afsaka landhelgisveiðar Breta næstu 3 árin með grunnlínuútfærslunni. Bretar eiga að borga fríðindin, sem þeir fá, veiðarnar í íslenzkri landhelgi um þriggja ára tímabil. Þessi fríðindi eiga Bretar að borga með Selvogsbanka og öðrum slíkum útfærslum. Þeir eiga með öðrum orðum að borga íslendingum með íslenzkri eign, sem enginn ágreiningur er um að sé íslenzk eign. Það eru góð viðskipti þetta eða hitt þó heldur! Það er þess vert, að í þessu máli muni þjóðin sem lengst sjálft innihaldið í spurningu konunnar: Eiga Bretar Selvogsbanka? Það er svo, að manni liggur við að minna á viðræður Auðar Vésteinsdóttur og Eyjólfs gráa, þegar maður heyrir þetta.

En hvernig hefur hæstv. ríkisstj. svarað þessu um grunnlínurnar? Hefur hún neitað því, að Íslendingar gátu fært út grunnlínurnar án þess að kaupa þær af Bretum? Nei, hæstv. ríkisstj. hefur ekki neitað þessu. Og það er ekki hægt að skilja hæstv. ríkisstj. á annan veg en þann, að hún sé okkur stjórnarandstæðingum alveg sammála um þetta, enda er ekki hægt að neita þessu, því að þetta liggur skjalfest fyrir síðan á Genfarráðstefnunni 1958. En hverju svarar þá hæstv. ríkisstj. þessum ádeilum? Hún spyr bara aftur á móti: „Af hverju færði vinstri stjórnin þá ekki út grunnlínurnar 1958? Henni hefur verið svarað því, að um það náðist ekki samkomulag við tvo stjórnmálaflokkana, Alþfl. og Sjálfstfl. Og það ætti núv. hæstv. ríkisstj. að vera ljóst, að ekki gat vinstri stjórnin gert neitt í því máli, ef Alþfl. a.m.k. dragnaðist ekki með. En jafnvel þótt hæstv. ríkisstj. tækist að sanna það á vinstri stjórnina, að hún hefði vanrækt þarna útfærslu, sem ekki er, þá yrði það ekki til neins annars en að sanna það, að hér er íslenzka ríkisstj. að borga Bretum með íslenzkri eign. Hún er að sanna það, að við þurftum ekkert af Bretum að kaupa. Við þurftum ekki að láta þá hafa neinar landhelgisveiðar í þrjú ár, því að þeir hafa ekkert fært Íslendingum frá sjálfum sér.

Þá hefur hæstv. ríkisstj. gagnrýnt stjórnarandstæðinga fyrir það, að þeir hafi flutt frv. í efri deild í vetur um að lögfesta núv. Landhelgisreglugerð og þar sé ekki lagt til að breyta grunnlínum. Um þetta töluðu þeir báðir í útvarpsumr., hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. Báðir lögðu þeir áherzlu á það, að í nál. minni hluta sjútvmn. í efri deild, sem útbýtt var 13. febr., hafi stjórnarandstæðingar lagt til, að frv. yrði samþykkt óbreytt, og þar með hefðu grunnlínur orðið óbreyttar um ófyrirsjáanlega framtíð. Það vill svo til, að ég er annar þeirra þm., sem gáfu út þetta nál., og ég tel því við eigandi, að ég svari hæstv. ráðherrum þessu.

Fiskveiðilandhelgi Íslands er nú ákveðin með reglugerð, þ. á m. grunnlínur. Við, sem fluttum frv., lögðum til, að landhelgin yrði ákveðin með lögum, einnig grunnlínur. Og auðvitað var frv. flutt af því tilefni, að hæstv. ríkisstj. var búin að sýna sig í því að ætla að breyta íslenzkri landhelgi upp á eindæmi. Ef stækka á landhelgina, hvort sem það er með breytingu á grunnlínum eða stækkunin er gerð út fyrir 12 mílur, þá þarf að breyta landhelgisreglugerðinni. Ef landhelgin er hins vegar ákveðin með lögum, þá þarf að breyta lögunum, eigi að stækka landhelgina m.a. með því að færa út grunnlínur. Í báðum tilfellum þarf að liggja fyrir samþykki meiri hluta Alþingis til þess að gera þessar breytingar. Hæstv. ríkisstj. ætlar nú að fá samþykki meiri hluta Alþingis til að breyta reglugerðinni um fiskveiðilögsöguna. Gat þá hæstv. ríkisstj. ekki alveg eins fengið þennan sama þingmeirihl., sem hún hefur nú, til þess að breyta lögum um íslenzka fiskveiðilögsögu, ef þar voru lög um? Eða hvaða þm. eru það, sem nú ætla að breyta landhelgisreglugerðinni hér á Alþingi, en hefðu hins vegar orðið á móti því að breyta lögum, ef til þess hefði þurft að gera sömu breytingu á fiskveiðilögsögunni? Eru það kannske þingmenn Sjálfstfl.? Eða þingmenn Alþf1.? Eða hvorir tveggja? Það er álíka fyrirhöfn að breyta reglugerð og breyta lögum um sama efni. Hvort tveggja þarf sinn undirbúning. Það tók nokkra mánuði að breyta landhelgisreglugerðinni 1958. Það hefur tekið núv. ríkisstj. enn fleiri mánuði að breyta reglugerðinni að þessu sinni, og ekki er því lokið enn. Hvað meina þá hæstv. ráðherrar, þegar þeir tala um það í útvarpi, að grunnlínur hefðu orðið óbreyttar um ófyrirsjáanlega framtíð, ef landhelgin hefði verið ákveðin með lögum? Auðvitað meina þeir ekki nokkurn skapaðan hlut með þessu tali. Öllum skyni bornum mönnum er ljóst, að það má breyta lögum alveg eins og má breyta reglugerðum, að lagabreytingar eru oft gerðar á Alþingi á einum degi. En til hvers fara þá hæstv. ráðherrar með þessa fjarstæðu hér í umr. á Alþingi? Það er af því, að þeir voru að tala í útvarp og þeir halda, að einhvers staðar finnist á landinu menn, sem eru ókunnugir þessum málum, það ókunnugir, að þeir kunna að trúa þessu, að ef landhelgi hefði verið ákveðin með lögum, þá væri ekki hægt að breyta henni um ófyrirsjáanlegan tíma. Virðing þessara hæstv. ráðherra fyrir hlustendum er nú ekki meiri en þetta.

Þriðja efnisatriðið í hinum væntanlega landhelgissamningi hæstv. ríkisstj. er það, að leyfa á Bretum veiðar í næstu 3 ár upp að 6 mílna mörkum í íslenzkri fiskveiðilandhelgi. Þetta er það ákvæði samningsins, sem menn telja að liggi einna ljósast fyrir af öllum ákvæðum hans. Og þetta ákvæði er það, sem einn af hinum svokölluðu meðmælendum úr Ólafsvík kallaði í viðtali við Morgunblaðið að væri nærri höggvið lífsbjörg þeirra þar vestra. En það getur farið svo, jafnvel áður en þessar veiðar byrja, að fleiri sjái, að nærri þeim er líka höggvið. Þó er trúlegast, að ýmsir sjái ekki fram á afleiðingarnar, fyrr en þeir hafa fyrir augunum þá mörg hundruð erlendu togara, sem nú munu ráðast hér á bátamiðin allt í kringum landið. Og það er líka trúlegt, að sjómennirnir kunni að verða þess varir, að landhelgisgæzlan verði nokkuð erfið á þessum nýju veiðisvæðum útlendinga, sem mörg eru í laginu líkt og ferhyrningar. Ég er ekki í neinum vafa um það, að sú landhelgisgæzla verður erfið, jafnvel svo erfið, að það verði lítil tök á að passa upp á öll þau mörk, sem þar hafa verið dregin. En takist illa til um varðgæzluna, þá stoða lítið strikin á kortinu, sem hæstv. ríkisstj. hefur dregið. Þau verða þá líkt og pennastrikið forðum.

Ekki er neinum vafa undirorpið, að hinir einstöku landshlutar gjalda misjafnlega mikið afhroð vegna veiða erlendra togara í landhelginni, eftir að þessi samningur verður búinn að öðlast gildi. Það hefur verið látið í það skína, að Vestfirðir sleppi einna bezt. Ég ætla ekki að neita því, að sumir aðrir landshlutar verði fyrir meira tjóni en Vestfirðir. En Vestfirðingar höfðu líka minna gagn af útfærslunni 1952 en aðrir landshlutar og hafa því síðan miklu minni landhelgi en aðrir landshlutar, og eiga að hafa það, eins og nú horfir, þar sem þar er ekki um neina verulega flóa eða firði að ræða, sem nutu friðunar með útfærslunni 1952. En hagsmunamál Vestfirðinga er tvímælalaust það, að stækkun á fiskveiðilögsögunni út fyrir 12 mílur fáist og fáist sem fyrst, því að þangað sækja Vestfirðingar meginhluta afla síns og hafa gert í langa tíð. En nú virðast horfurnar á því helzt til litlar, ef þessi samningur tekur gildi. Ekki þarf heldur að efast um það, að veiðisvæði, sem ætlað er erlendum togurum við Látrabjarg, muni hafa skaðlegar afleiðingar fyrir fiskigöngurnar norður með Vestfjörðum. Hve miklar þær afleiðingar verða, verður reynslan að skera úr. Um síldveiðar vestfirzkra skipa fyrir Norður- og Norðausturlandi gildir auðvitað það sama og um veiðar annarra skipa annars staðar á landinu. Þegar búið er að hleypa erlendum fiskiskipum upp að 6 mílum þar, mun einhverjum þykja þröngt fyrir dyrum, sem stunda þar síldveiðarnar. Og mikið mega sumar erlendar þjóðir vera hæstv. ríkisstj. þakklátar, — mér dettur í hug Norðmenn og Rússar, — þegar þeir geta nú komið með allan síldveiðiflotann sinn upp að 6 mílum við Norður- og Norðausturland.

Hæstv. ríkisstj. er margorð um það, að þetta sé þó ekki nema í þrjú ár, sem Bretum verði leyfðar veiðar í landhelginni. En veit hæstv. ríkisstj. nokkuð um það, hvað hægt er að eyðileggja mikið af fiskimiðum bátaflotans á þremur árum? Hitt er svo mál út af fyrir sig, hvaða trygging er fyrir því, að Bretar hverfi á brott úr landhelginni eftir þessi þrjú ár. Í samningnum, sem hér á að fara að samþykkja, er engin trygging í þá átt. Bretar viðurkenna ekki 12 mílna landhelgina, og þar af leiðandi segja þeir ekkert um það í samningnum, að þeir fari burt eftir þessi þrjú ár. Það er því ekki lítið í húfi, ef eitthvað er á huldu um þetta atriði. Hæstv. utanrrh. hefur gert þetta atriði samningsins að umtalsefni í útvarpsumr. Um þetta efnisatriði samningsins virðist hæstv. utanrrh. vera eitthvað veikari fyrir gagnrýninni en um sum önnur. Um þetta segir hann orðrétt í útvarpsræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. Íslands hefur í höndum yfirlýsingu ríkisstj. Bretlands um, að ekki verði farið fram á framlengingu heimildarinnar til veiða innan 12 mílnanna í lok þriggja ára tímabilsins.“ Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Hvers vegna er þessi yfirlýsing ekki í sjálfum samningnum? Hvers vegna eru Bretar ekki látnir staðfesta þessa yfirlýsingu sína opinberlega alveg eins og sjálfan samninginn, bæði frammi fyrir íslenzku þjóðinni og frammi fyrir þeirri brezku? Og hvað kemur til, að íslenzka ríkisstj. taldi þörf á þessari yfirlýsingu á sérstöku blaði? Var kannske eitthvað á huldu um það í samningnum, eins og hann liggur hér fyrir, hvort Bretar mundu fara eftir þrjú ár? Og hvaða gildi hefur þessi yfirlýsing, ef komin verður önnur ríkisstj. í Bretlandi eftir þessi þrjú ár? Mér sýnist, að hér muni vera alveg óvenjulegt plagg á ferðinni. Reyndar er það ekki mikið á ferðinni, því að svo er að heyra, að það sé falið niðri í vasa hæstv. utanrrh. Og á það kannske að vera þar í þrjú ár? Fær Alþ. ekki að sjá þetta plagg? Hvers vegna var það ekki prentað sem fskj. með þessum samningi, fyrst ekki þótti henta að hafa þessa yfirlýsingu í sjálfum samningnum? Kannske einhver leynisamningur hafi verið gerður samhliða landhelgissamningnum og þessi yfirlýsing sé þar.

Ég tók eftir því í ræðu hv. frsm. meiri hl. utanrmn. í dag, að hann sagði, að ef máli yrði skotið til alþjóðadómstóls, — þá yrði hann að vera búinn að dæma í því máli innan sex mánaða. Hvar er þetta sagt í samningnum? Eða er það í sama plagginu og hæstv. utanrrh. er með í vasanum? (JóhH: Hvorki sagði ég þetta svona, en auk þess stendur þetta í orðsendingunni.) Hv. þm. segir, að það standi í sjálfri orðsendingunni, samningnum, sem á að samþykkja, að dómurinn verði að hafa lokið störfum innan 6 mánaða. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) Nú, hvað er hv. þm. þá að kalla fram í. Hann hefur tækifæri til að leiðrétta þetta síðar í umr. (JóhH: Skal gert.) Það er gott, ég var nefnilega hræddur um, að það yrði ekki gert.

En fyrst hæstv. utanrrh. hefur gert að umtalsefni yfirlýsingu, sem hann segist vera með frá Bretum og snertir þýðingarmikið atriði í þessum samningi, þá tel ég, að þm. eigi rétt á því að krefjast þess, að þessi yfirlýsing Breta verði lögð fram hér á Alþingi. Eða er eitthvað að fela í þessum efnum?

Fjórða og síðasta efnisatriði þessa samnings, sem ég mun gera að umtalsefni, er það, að hæstv. ríkisstj. segist muni vinna að frekari útfærslu landhelginnar, en muni leita samþykkis Breta til þeirrar útfærslu, en annars vísa málinu til alþjóðadómstóls, ef ágreiningur verði við Breta. Hér er um svo stórkostlegt efnisatriði að ræða, að fullyrða má, að engan hafi grunað, að Alþ. yrði ætlað að samþykkja slíkt. Lengi hefur þjóðin búizt við því, að hæstv. ríkisstj. mundi gera hneykslanlegan samning við Breta. En hinu hafa menn áreiðanlega ekki búizt við, að samið yrði um slíkt afsal og hér er á ferðinni. Það er illt að þola þá niðurlægingu og þá smán að falla frá fyrri ákvörðunum og samþykktum Alþ. frá 5. maí 1959 um það, að aldrei skuli koma til minni landhelgi en 12 mílna við Ísland. Það er illt að þola það, að nú skuli erlendum þjóðum vera hleypt upp að 6 mílum samkv. þessum samningi og verða auk þess að taka á sig meiri og minni eyðileggingu á fiskimiðum kringum landið. En hitt er þó verra, sem hæstv. ríkisstj. staðhæfir sjálf, að hún afsali sér um ófyrirsjáanlega framtíð þeim rétti til einhliða útfærslu, sem öll stækkun landhelginnar hefur byggzt á til þessa dags. Þetta ákvæði samningsins telur hæstv. ríkisstj. í samræmi við samþykkt Alþingis frá 5. maí 1959. Í þeirri samþykkt segir, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslendinga til landgrunnsins alls. Það er m.ö.o. ekki dregið í efa í þessari samþykkt Alþingis, að Ísland eigi rétt til landgrunnsins alls, en hins vegar þurfi að afla viðurkenningar á þessum rétti. Og hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að afla þessarar viðurkenningar samkv. ákvæðum þessa samnings? Hún ætlar að spyrja Breta, hvort þeir vilji viðurkenna þennan rétt, og hún ætlar að láta Breta fá sex mánaða frest til að hugsa sig um, áður en hún svarar. Ætli menn fari ekki nærri um það, hverju Bretar muni svara, — þjóðin, sem viðurkenndi ekki 4 mílna landhelgina, heldur setti á okkur löndunarbann, þjóðin, sem viðurkenndi ekki 12 mílna landhelgina, heldur sendi gegn okkur herskip til að vernda veiðiþjófnað sinn. Á svo þessi þjóð að viðurkenna rétt íslendinga til landgrunnsins alls? Ja, mikil er trú þín, kona.

Nei, þetta er engin trú. Hæstvirt ríkisstjórn trúir þessu ekki sjálf, að Bretar viðurkenni nokkurn tíma rétt Íslendinga til landgrunnsins alls. Samt á nú að samþ., að ef Bretar viðurkenni ekki þennan rétt til landgrunnsins alls, þá skuli alþjóðadómstóll úrskurða í málinu. Hvaða þjóð hefur lagt rétt sinn til landgrunnsins undir úrskurð alþjóðadómstóls? Það hefur ekki ein einasta þjóð í heiminum gert. Það gerir engin þjóð, sem treystir betur sjálfri sér en öðrum þjóðum til þess að sjá lífshagsmunum sínum borgið. Þessi samningur er nauðungarsamningur, sem þvingað er upp á Íslendinga undir hótunum um hernaðarlegt ofbeldi, og þannig hljóta menn að líta á þennan samning. Hann er bókstaflega rökstuddur með því, að ef við semjum ekki við Breta, þá verði herskip á ný send hingað inn í landhelgina. Allt þetta minnir sannarlega á Kópavogssamþykktina 1662. Og svo er þessi samningur óuppsegjanlegur.

Samkvæmt rökstuðningi hæstv. ríkisstj. og talsmanna hennar á þetta ákvæði um alþjóðadómstólinn að gilda um ófyrirsjáanlegan tíma. Hæstv. ríkisstj. telur sig og sinn þingmeirihl. hafa umboð til að leggja þessa fjötra á komandi kynslóðir.

Ég vil lýsa þeirri ósk minni, að svo reynist, að þessi neyðarsamningur hafi ekki gildi lengur en sú ríkisstj. situr, sem hefur gert hann. Ég vil trúa því í lengstu lög, að þannig verði litið á þennan samning. Þetta eru mínar persónulegu skoðanir á þessum samningi. Ég ætla hins vegar ekki að spyrja hæstv. ríkisstj. um álit hennar á þessu atriði. Hún er nógu oft búin að tala af sér í þessu máli.

Stjórnarandstæðingar hafa lagt til, að þjóðaratkvæði fari fram um þennan samning. Hæstv. ríkisstj. hefur neitað að fallast á þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Hv. frsm. meiri hl. n. segir þó í dag, að það sé alveg sérstaklega freistandi að verða við þessum tilmælum. Af hverju? Af því að það komu svo góð meðmæli með samningnum, sem birt voru í Morgunblaðinu. Er ómögulegt að fá þá til að falla fyrir þessari freistingu?

Nei, þessi afstaða hæstv. ríkisstj. að neita að leggja þennan samning undir þjóðaratkvæði er sannarlega skiljanleg. Hæstv. ríkisstj. og þingmeirihl. hennar hefur brugðizt þjóðinni. Hún hefur brugðizt einhverju mesta hagsmunamáli hennar og jafnframt sjálfstæðismáli hennar. Slík ríkisstj., sem bregzt, gefur ekki þjóðinni dómsvald um málið.