06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2411)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Því fer fjarri, að það sé rétt, sem síðasti hv. ræðumaður hélt fram, að með þessu samkomulagi, sem nú er til ákvörðunar hæstv. Alþingis, séu fjötrar lagðir á íslenzku þjóðina. Þvert á móti er henni með því tryggður mikilsverður réttur. Hv. þm. taldi, að ákvæðið um alþjóðadómstólinn væri þessi fjötur, og fullyrti, að við þyrftum að spyrja Breta um það, hvort við ættum og að því er mér skildist mættum færa út okkar fiskveiðilögsögu, þegar við teldum tímabært.

Því fer fjarri, að við þurfum að spyrja Breta um nokkuð í þessu sambandi. Það, sem ákveðið er samkvæmt samkomulaginu, er hitt, að við tilkynnum Bretum og þar með öðrum með sex mánaða fyrirvara um okkar einhliða útfærslu, sem tekur gildi að þeim sex mánuðum liðnum, ef ekki er áður búið að hnekkja henni með úrskurði alþjóðadómstóls. Þá tekur hin einhliða ráðstöfun íslenzku ríkisstjórnarinnar gildi. þegar að þessum sex mánuðum liðnum.

Það er skoplegt að heyra hv. stjórnarandstæðinga tala um það, að þarna sé um óhæfilega langan frest að ræða, – mennina, sem nú fullyrða hér hver á fætur öðrum, að við höfum með Genfarsamþykktunum 1958, fyrir nær þremur árum, öðlazt rétt til þeirra grunnlínubreytinga, sem nú er ákveðið að gera. Þeir hafa þó dregið það í þessi nærri þrjú ár að neyta þessa réttar, og þeir eru svo fjarri því enn að vilja neyta þessa réttar, sem þeir fullyrða að við höfum fengið fyrir nærri þremur árum, að þeir eru ekki enn þá búnir að bera fram brtt. við sitt eigið frv., sem liggur fyrir í hv. Ed. um að lögfesta hinar gömlu grunnlínur um ófyrirsjáanlega framtíð. Ætla mætti, að þeir hefðu þó rankað við sér, eftir að þessi till. var komin fram, og vikan hefði enzt þeim til hess að bera fram brtt. því fer fjarri. frv. er enn óbreytt. Enn í dag liggur það svo fyrir. En þeir vilja láta okkur lögfesta það, sem þeir sjálfir segja nú fyrst — eftir leiðbeiningum gamallar konu austur á Selfossfundi, að við höfum átt rétt til, að því er mér skilst, ekki aðeins s.l. þrjú ár, heldur miklu lengur.

Þeir menn, sem svona fara að, ættu ekki að setja fyrir sig, þó að við veitum nokkurn fyrirvara, áður en nýjar ákvarðanir í þessum efnum taki gildi. Sjálfir sýndu þeir það og með málsmeðferð sinni 1958 og þeim fresti, sem leið frá því, er ákvörðun var tekin um útgáfu reglugerðarinnar þá, og þar til hún skyldi taka gildi, að þeir töldu eðlilegan nokkurn frest í þessum efnum. Hið sama kemur fram í rökstuðningi þeirra nú, þegar þeir telja eðlilegt, að þeir lögðu það til við brezku stjórnina og Atlantshafsbandalagið allt, að meðlimaríkjum þess yrði um þriggja ára skeið veittur fiskveiðiréttur upp að sex mílum. Þá sýndu þeir með þeirri till., að þeir töldu eðlilegt, að nokkur frestur væri veittur í þessu sambandi. Nú segja þeir, að það sé allt annað að veita slíkan þriggja ára frest í upphafi fyrir fram heldur en að veita hann eftir á, eins og gert er um þá þriggja ára veiðiheimild, sem felst í þessu samkomulagi. Látum þann rökstuðning eiga sig. Það er búið að margsvara honum áður. En þessir menn eru búnir að sýna og rökstyðja nú hvað eftir annað, að þeir töldu eðlilegt að veita Bretum fyrir fram ekki aðeins nokkurra mánaða frest, þangað til reglugerðin sjálf tæki gildi, heldur veita þeim fulla veiðiheimild upp að sex mílum í þrjú ár, aðeins ef það var gert í upphafi. Nú ætla þeir að ærast yfir, að slíka ákvörðun skuli eiga að tilkynna öðrum með sex mánaða fyrirvara.

Ósamræmið í öllum þessum rökstuðningi er allt of mikið til þess, að um það þurfi að fjölyrða. En hér er ekki einungis um það að ræða, sem er alveg ljóst, að hin einhliða ráðstöfun Íslendinga tekur gildi strax að þessum sex mánuðum liðnum, ef henni hefur ekki verið hnekkt af alþjóðadómstóli áður, heldur er okkur með þessu veitt ómetanleg trygging.

Hv. síðasti ræðumaður talaði um það, að við gætum seint vænzt viðurkenningar af hálfu Breta á frekari stækkunum, — frá mönnunum, sem fyrst hefðu beitt löndunarbanni og síðan sent herskip hingað til landsins. Þarna er einmitt komið að meginatriði málsins, þeirri ómetanlegu tryggingu, sem þetta ákvæði veitir Íslendingum. Þarna skuldbinda Bretar sig til þess að beita, okkur ekki ofbeldi, engri kúgun, heldur að láta hugsanlegan ágreining af þessum ástæðum koma fyrir alþjóðadómstól, verða metinn eftir alþjóðalögum. A.m.k. fram á síðustu daga hefur jafnvel hv. formaður Framsfl. haldið því fram, að ekki kæmi til mála annað en frekari aðgerðir okkar í þessum efnum yrðu að byggjast á alþjóðalögum. Það er alveg nýtt og hefur aldrei fyrr heyrzt í sölum Alþ., að Íslendingar ættu að gera nokkuð í þessu efni, sem styddist ekki við alþjóðalög, og það er engin stofnun betur hæf til þess að tryggja, að við njótum gildandi alþjóðalaga, eins og þau á hverjum tíma eru, heldur en alþjóðadómstóllinn.

Það er talað um, að þetta ákvæði sé óuppsegjanlegt og með því séu lögð höft á Íslendinga. En ef það væri uppsegjanlegt, þá væri það í raun og veru okkur einskis virði. Þá gætu Bretar ekki síður en við sagt upp ákvæðinu til þess að geta, í stað þess að lúta alþjóðalögum og rétti og úrskurði alþjóðadómstólsins um þau, á ný tekið upp sínar gömlu aðferðir, sem þeir hafa beitt við okkur í þessum efnum. Þess vegna hljóta Íslendingar að halda fast við, að ákvæðið sé óuppsegjanlegt af beggja hálfu, til þess að lög og réttur gildi, en ekki máttur hins sterkara.

Það er svo sagt, að Íslendingar eigi með þjóðaratkvæði að skera úr um þetta samkomulag. En Íslendingar hafa sett sér stjórnarskrá, sem um þessi efni kveður alveg skýrt. Í stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins er það ótvírætt, að samningagerð er á valdi ríkisstj. og eftir atvikum á valdi Alþ. Íslendinga. Þetta er réttur og skylda, sem er lögð á Alþ. og ríkisstj., og þessir aðilar hafa ekki heimild til þess að skjóta sér undan þeirri skyldu og þeim rétti, sem þeim er fenginn í hendur í hinum mikilsverðustu málum. Um það verður ekki deilt, að það er ríkisstj, og Alþ., sem ber að taka ákvörðun í þessu efni. Annað væri að víkja sér undan þeirri skyldu, sem við höfum tekizt á hendur gagnvart okkar þjóð.

Þá er því einnig haldið fram, að okkur skorti þinglegt umboð til þess að útkljá þetta mál, vegna þess að um annað hafi verið talað fyrir síðustu kosningar.

Ég sýndi fram á það, svo að ekki verður á móti mælt, í þeim orðum, sem ég talaði við fyrri umræðu þessa máls, að því fer svo fjarri, að með þessari till. sé verið að brjóta á móti samþykktinni 5. maí 1959, sem með réttu má skoða sem umboð frá Alþ. til ríkisstj., — umboð, sem síðan var staðfest í tvennum alþingiskosningum, að í einu og öllu hefur samþykktinni frá 5. maí verið fullnægt með því samkomulagi, sem hér liggur fyrir. Sérstaklega er það þó alveg ótvírætt, að Alþ. 5. maí 1959 leggur það fyrir ríkisstj., að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Alþ. gerði sér þá fullljóst, að þeirrar viðurkenningar varð að afla, að það var ekki ráðlegt, ekki hægt, án þess að slík viðurkenning væri fyrir hendi, að ráðast í frekari útfærslur.

Ég sýndi fram á það á dögunum, með hverjum hætti væri hugsanlegt að afla slíkrar viðurkenningar, sem Alþ. lagði fyrir ríkisstj. að gera, og það er tvímælalaust, að Íslandi er það hagkvæmast að afla hennar á þann veg, að ágreiningur, sem upp kann að rísa af þessum sökum, verði lagður undir alþjóðadómstólinn. Með því að Bretar sætti sig við þetta, hafa þeir fyrir fram játazt undir, að einhliða mótmæli af þeirra hálfu stoði ekki og veiti þeim hvorki lagalegan né siðferðilegan rétt til neinnar valdbeitingar gegn okkur. Þeir verða að lúta alþjóðalögum, og sá, sem segir, að Bretum sé með þessu veittur réttur og hömlur eða fjötrar lagðir á Íslendinga, hann segir þar með, að Íslendingar ætli sér, hugsi sér eða muni í aðgerðum sínum brjóta á móti alþjóðalögum. En hver er sá hér inni, sem vill halda því fram, að Íslendingar hafi í nokkru brotið á móti alþjóðalögum í því, sem þegar hefur verið gert? Hver er sá, sem í alvöru ráðleggur, að Íslendingar eigi að halda þessu máli áfram á þann veg, að brotið verði á móti alþjóðalögum? En það felst í því, ef menn segja, að fjötrar séu lagðir á okkur með þeirri samþykkt, sem hér er lagt til að gerð verði.

Því hefur að vísu heyrzt fleygt, að það væri skynsamlegra að semja um það hverju sinni, hvort slíkan ágreining ætti að leggja undir alþjóðadómstólinn, heldur en að gera um það bindandi samning til framtíðar. Jafnvel sá, sem því hélt fram, sagði einnig, að við yrðum ætíð og hverju sinni að hafa málsmeðferð slíka og búa þannig um, að við værum reiðubúnir að bera málið undir alþjóðadómstólinn. En með því að láta það vera komið undir samningum hverju sinni, þá erum við að gefa okkar andstæðingi færi á því að velja um, hvort hann eigi að beita valdi, ofbeldi svipuðu því, sem við hingað til höfum verið beittir, eða fara til alþjóðadómstólsins, hlíta alþjóðalögum.

Það er enginn vafi á því, að Íslandi er það ekki einungis hentara, það er okkur nauðsyn, að það sé fyrir fram tryggt og enginn efi á því, að okkar helzti andstæðingur í þessu máli geti ekki neytt aflsmunar, heldur verði það lög og réttur, sem úr sker, og það verði ekki á hans valdi að kveða á um, hvort hann vilji fara að alþjóðalögum. Úr því að hann nú fæst til þess að gefa þessa þýðingarmiklu yfirlýsingu, þá verður hann þar við bundinn og á ekki annars úrkostar en að hlíta skuldbindingu sinni um það. (Gripið fram í.) Efast hv. þm. um það, að 12 mílurnar hvíli á alþjóðalögum? Já, svari þingmaðurinn. Efast þm. um það, að 12 mílurnar hvíli á alþjóðalögum? (KK: Efast ráðherrann um það, að réttur okkar til landgrunnsins sé að alþjóðalögum?) Ég efast um það, að í dag mundum við fá hann okkur tildæmdan, alveg eins og hv. þm. Hermann Jónasson, sem er sessunautur hv. fyrirspyrjanda, efaðist um það á dögunum í Ed. En ég er sannfærður um það, að réttarþróunin gengur í þá átt, að við fáum þennan rétt. Við erum allir sammála um það, að ef við værum sannfærðir um það, að í dag styddist það við alþjóðalög, að við gætum tekið hann með einhliða ákvörðun, þá værum við búnir að gera það. Það er einmitt vegna þess, að ég hef trú á rétti Íslands í þessum efnum, að ég er hiklaust fylgjandi því, að við treystum á alþjóðalög.

Hv. frsm. 1. minni hl. (ÞÞ) sagði í dag, að það væri vafasamt og raunar meira en vafasamt, að við mundum fá rétt okkar viðurkenndan fyrir alþjóðalögum, fyrir alþjóðadómstólnum, þó að líklegt væri, að við ættum skjóls að vænta hjá Sameinuðu þjóðunum eða allsherjarþinginu, að því er mér skildist, vegna þess að stórveldin hefðu meiri áhrif á skipun alþjóðadómstólsins en yfirráð í sjálfum Sameinuðu þjóðunum. Þetta er alger misskilningur. Varðandi allar meiri háttar ákvarðanir hjá Sameinuðu þjóðunum hafa stórveldin hvert um sig algert neitunarvald. En þau hafa ekki neitt slíkt neitunarvald varðandi val manna í alþjóðadómstólinn. Við höfum þess vegna þvert á móti meiri líkur til þess að mæta skilningi hjá alþjóðadómstólnum heldur en hjá öðrum aðilum Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem alþjóðadómstóllinn er skyldugur til þess að fara eftir alþjóðalögum og dómarar þar eru bundnir við sannfæringu sína um, hver séu rétt alþjóðalög hverju sinni. En hjá Sameinuðu þjóðunum eru það pólitískir hagsmunir og aflsmunur og aðstaða í alþjóðamálum, sem hverju sinni ræður úrslitum.

Þess vegna er ekki um það að villast, að réttur okkar er miklu betur tryggður með málskoti til alþjóðadómstólsins en með nokkru öðru formi á viðurkenningu á okkar rétti, en Alþ. 5. maí 1959 lagði það beinlínis fyrir ríkisstj., að afla bæri slíkrar viðurkenningar. Hv. þm. ættu vissulega að athuga betur, hvað þeir hafa áður samþ. í þessum efnum, áður en þeir fara, eins og hv. framígrípandi hér áðan, að gefa í skyn, að við eigum nú að fara að taka upp allt önnur vinnubrögð í þessum efnum en við hingað til höfum allir verið sammála um að þjóð okkar væri ekki einungis happasælast, heldur nauðsynlegast að fylgja. Vill hv. þm. gera athugasemd? Nei, nú þegir hann. (KK: Ég á við, að við eigum að hafa svipuð vinnubrögð og við höfum haft, af því að þau hafa reynzt okkur vel, en ekki skuldbinda okkur til vinnubragða, sem hefðu verið okkur ónýt.) Vill hv. þm. halda því fram, — við skulum nú fá hreint svar, — vill hv. þm. halda því fram, að aðgerðirnar 1958 hafi verið á móti alþjóðalögum? (KK: Engin lög til um þessi mál.) Jú, það eru víst lög til um þessi mál. (Gripið fram í. — Forseti: Ekki meira samtal. Hv. þm. getur fengið að tala seinna. — KK: Ræðumaður bað um það.) Byrjaði ég að kalla fram í fyrir sjálfum mér?

Það er mjög athyglisvert, að þm. hafa hér rangmeðfarið það, sem ég sagði í umr. á dögunum varðandi eitt helzta atriðið, sem þeir hafa haft í frammi til gagnrýni á þetta samkomulag. Í nál. hv. 2. minni hl. utanrmn. stendur orðrétt svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur dómsmrh., Bjarni Benediktsson, raunverulega viðurkennt í umr. á Alþ. um málið, að það sé rétt, að formleg viðurkenning hafi ekki fengizt. Orðrétt sagði Bjarni Benediktsson þetta: „Hitt er annað mál, að Alþ. hefur aldrei falið ríkisstj. að afla viðurkenningar Breta um 12 mílna fiskveiðilögsöguna, þegar af því, að það taldi rétt okkar til hennar ótvíræðan og þess vegna óþarfa aðra viðurkenningu Breta en þá, að þeir hættu ofbeldisaðgerðum.“ Dómsmrh. játar þannig, að viðurkenningin hafi ekki fengizt“ o.s.frv.

Þetta endurtók hv. frsm. í sinni ræðu og síðasti hv. ræðumaður sagði eitthvað svipað. En hvað er nú það, sem ég sagði um þetta, svo að alþjóð heyrði, og ótvírætt stendur í minni ræðu? Ég les einungis næstu setningu á undan því, sem hér er vitnað til eftir mig, og þar segir:

„Nú falla Bretar ekki einungis frá valdbeitingu, heldur berum orðum frá mótmælum sínum. Þetta er svo skýr viðurkenning sem á verður kosið.“

Þetta er svo skýr viðurkenning sem á verður kosið. Hinu bæti ég svo við, sem er satt og rétt og hver sá sér, sem les yfirlýsinguna frá 5. maí 1959, að það er ekki lagt fyrir ríkisstj. að afla slíkrar viðurkenningar frá Bretum. Það er óhrekjanlegt. En ríkisstj. hefur engu að síður aflað viðurkenningarinnar. Og ég tek það berum orðum fram næst á undan því, sem þessir hv. þm. leyfa sér að taka sem játningu mína fyrir því, að viðurkenning hafi ekki fengizt, að viðurkenningin hafi fengizt, eins skýrt og á verði kosið. Þetta er hrein fölsun. Og hvernig hyggja menn, að þessir hv. þm. fari með aðrar heimildir, þegar þeir leyfa sér að fara þannig með orð, sem fyrir fáum dögum voru mælt hér á þessum stað í áheyrn allra hlustenda og standa skýrum stöfum skráð í heimildum, sem liggja fyrir þm. til skoðunar?

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessa fjarstæðu, að ekki hafi fengizt fullkomin viðurkenning. Það er fróðlegt t.d. að athuga, hvað blað, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa vitnað í að öðru leyti máli sínu til stuðnings, Manchester Guardian, segir um þetta. Þeir hafa einmitt vitnað í sömu greinina og þau orð standa í, sem ég skal nú lesa. En alveg eins og þeir bara taka það úr greininni, sem þeim hentar, þá þegja þeir um hin meginatriðin, sem alveg hnekkja þeirra rökstuðningi hér á þann veg, að Bretar skilji þetta svo, að þeir hafi ekki viðurkennt 12 mílur. Í Manchester Guardian, vikuútgáfunni, stendur s.l. fimmtudag, 2. marz, í grein, sem heitir: „Agreement with Iceland“, — Samningur við Ísland, í íslenzkri þýðingu:

„Vissulega hafa Bretar með því að viðurkenna 12 mílna svæðið og fallast á bráðabirgðaskipun um einungis 3 ár látið undan í mestu af því, sem þeir hafa haldið fram, frá því að deilan hófst“.

Þarna segir þetta brezka blað, sem er óýkt eitt vandaðasta og öruggasta blað í heimi, að Bretar hafi viðurkennt 12 mílna svæðið, „by acknowledging the twelve miles zone“.

Annað blað, að vísu ekki brezkt, en blað, sem nýtur meira álits en flest önnur blöð yfirleitt, New York Times, segir 28. febr. s.l., með leyfi forseta, á síðu 3, með stórum stöfum:

„Bretar samþykkja 12 mílna mörkin til að enda fiskistríðið við Ísland.“

Þetta er mat þessa blaðs, sem er hlutlaus aðili í þessari deilu og dregur saman í einni setningu það, sem því finnst vera eitt af aðalatriðum þessa samkomulags. Í greininni segir svo þar fyrir utan, að samkomulagið láti Íslendingum í té raunverulega allt sem þeir hafi farið fram á. Þetta er einnig mat þessa hlutlausa aðila á því, hverjum þessi samningur sé til hags.

Nú má segja, að það sé ekki víst, að það séu sérfræðingar, sem hafi skrifað þessi blöð, og því megi um það deila, hvort þetta sé byggt á fræðilegri athugun. Einmitt til þess að fá úrskurð hinna færustu manna hér á landi um þessi efni, þetta lögfræðilega deiluatriði, sem — þótt ótrúlegt sé hefur komið hér upp um það, hvort Bretar hafi viðurkennt 12 mílna fiskveiðilögsöguna eða ekki, ef þeir fallast endanlega á samkomulagið, þá ritaði ég lagadeildinni svo hljóðandi bréf:

„Þess er hér með óskað, að lagadeild Háskólans láti uppi skoðun sína á því, hvort brezka ríkisstj. viðurkenni 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, ef hún fellst á þá lausn fiskveiðideilunnar, sem ráðgerð er í till. til þál. um það efni á þskj. 428. er fylgir hér með.“

Ég fékk í dag svo hljóðandi bréf frá laga- og viðskiptadeildinni, Háskóla Íslands, sem ég leyfi mér að lesa, með samþykki hæstv. forseta:

„Með bréfi, dags. í dag, hafið þér, hæstv. dómsmrh., óskað álits lagadeildar á því, „hvort brezka ríkisstj. viðurkenni 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, ef hún felist á þá lausn fiskveiðideilunnar, sem ráðgerð er í till. til þál. um það efni á þskj. 428 o.s.frv.“ Prófessor Ólafur Jóhannesson óskaði ekki að taka þátt í meðferð málsins í deildinni, með því að hann á sæti á Alþ., og prófessorar í viðskiptafræðum hafa ekki heldur fjallað um það.

Í upphafi þykir rétt að taka fram, að deildin hefur einskorðað athugun sína við 1. tölulið 1. mgr. í orðsendingu utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands, en þar segir svo:

Ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. sem mæld er frá grunnlínum samkv. 2. gr. hér á eftir, og er þá eingöngu átt við fiskveiðilögsögu.“

Þegar á þessu stigi þykir ástæða til að benda á, að í íslenzka textanum segir, að ríkisstjórn Bretlands falli frá mótmælum sínum, en í enska textanum segir: „The United Kingdom government will no longer object to.“ Þótt sérfræðiþekkingu á ensku máli sé ekki til að dreifa meðal deildarmanna, verður deildin þó að telja, að hér sé a.m.k. um nokkurn blæbrigðamun að ræða á textunum tveimur.“

(SE: Þarna kemur það.) Eru fleiri athugasemdir? Ég ætla að halda áfram.

„Þegar reglugerð nr. 21/1952, um fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, var sett, andmælti brezka ríkisstj. þegar í stað þeirri ákvörðun á þeim grundvelli, að hún væri andstæð alþjóðarétti. Hinu sama gegndi, þegar reglugerð nr. 70/1958 um sama efni var sett, en þá fylgdi brezka ríkisstj. eftir andmælum sínum með virkum aðgerðum, svo sem kunnugt er. Af Íslands hálfu hefur því ávallt verið haldið fram, að ákvarðanir íslenzku ríkisstj. hafi verið samkvæmt alþjóðalögum. Hér hefur því verið um milliríkjadeilu að ræða, og er til þess stofnað með framangreindum orðsendingum að útkljá hana til frambúðar. Þegar skýra á framangreint orðalag í orðsendingu utanrrh. Íslands, verður að hafa í huga annars vegar, að ekki er að því stefnt að kveða á um, hvor aðilinn hafi hér á réttu að standa, heldur að því að leysa deiluna til frambúðar, og verður þá skiljanlegt, að sneitt sé hjá að nota orðið „að viðurkenna“ í þessu sambandi.

Þegar réttarágreiningur er milli tveggja aðila og annar hefur andmælt skilningi hins eða aðgerðum, en lýsir síðan yfir því fyrirvaralaust, að hann falli frá andmælum sínum, er það skýrt svo samkvæmt almennum lagasjónarmiðum, að með því skuldbindi sá aðili sig til að hverfa endanlega frá andmælum sínum og tjói ekki að hafa þau uppi síðar. Gegnir þessu eigi síður í milliríkjaviðskiptum. Ef greint orðalag verður þáttur í samningi milli brezku og íslenzku ríkisstj., teljum við því, að samningurinn feli í sér skuldbindingu fyrir brezka ríkið um að virða framvegis 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.

Samkvæmt þessu er það skoðun okkar, að framangreint orðalag feli efnislega í sér viðurkenningu brezku ríkisstj. á 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, ef fiskveiðideilan verður leyst með þessum hætti.

Með sérstakri virðingu.

Theodór B. Líndal. Ármann Snævarr

Magnús Þ. Torfason.“

(HÁ: Má ég spyrja ráðh.? Heldur hann ekki, að það sé réttara sagt, þótt þetta sé nú ágætt, að fá hreina viðurkenningu ríkisstj. Breta um þetta atriðl heldur en að fá skýringu Háskóla Íslands?)

Á ég að lesa þetta upp aftur, sem stendur hér? Ég skal lesa þetta upp aftur, niðurlagið á því, ef hv. þm, kynni þá kannske að átta sig á málinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar réttarágreiningur er milli tveggja aðila og annar hefur andmælt skilningi hins eða aðgerðum, en lýsir síðan yfir því fyrirvaralaust, að hann falli frá andmælum sínum, er það skýrt svo samkvæmt almennum lagasjónarmiðum, að með því skuldbindi sá aðill sig til að hverfa endanlega frá andmælum sínum og tjói ekki að hafa þau uppi síðar. Gegnir þessu eigi síður í milliríkjaviðskiptum. Ef greint orðalag verður þáttur í samningi milli brezku og íslenzku ríkisstj., teljum við því, að samningurinn feli í sér skuldbindingu fyrir brezka ríkið um að virða framvegis 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.

Samkvæmt þessu er það skoðun okkar, að framangreint orðalag feli efnislega í sér viðurkenningu brezku ríkisstj. á 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, ef fiskveiðideilan verður leyst með þessum hætti.“

Ég veit sem gamall kennari, að tregir nemendur þurfa stundum að heyra tvisvar, áður en þeir skilja, og það skal ekki stranda á mér að lesa þetta upp oftar, ef hv. þm. vill. Dómur hinna færustu íslenzku sérfræðinga í þessum efnum er alveg ótvíræður. Hér er um að ræða augljósan skilning á orðalagi og yfirlýsingum brezku stjórnarinnar. Það er sannað, hvernig helztu heimsblöð bregðast strax við, um leið og þau sjá það samkomulag, sem um er að ræða, og það er nú einnig sannað, hver er skoðun færustu íslenzkra sérfræðinga á þessu efni, eftir að þeir hafa sérstaklega kynnt sér það og að sjálfsögðu heyrt um þá gagnrýni, sem um þetta atriði hefur hér, þótt ótrúlegt megi virðast, verið höfð uppi.

Hitt er svo einungis til gamans fyrir ríkisstj., sá fögnuður, sem hv. þm. sumir létu hér uppi, þegar prófessorarnir vekja athygli á þeim blæbrigðamun, sem sé á enska textanum og hinum íslenzka. En það sýnir, hversu varlega íslenzka ríkisstj. fer í þessu máli og hversu fjarri hún er að vilja túlka þetta samkomulag hagkvæmar fyrir Íslendingum en það í raun og veru er, að ef einhver munur er þarna á blæ á enska og íslenzka textanum, sem ég skal ekkert segja um hvort er, þá er okkur veittur meiri réttur eftir enska textanum en þeim íslenzka. Bretar ganga undir enn skýrari skuldbindingu eftir enska orðalaginu heldur en því íslenzka.