06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2415)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Mér er kunnugt um, að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur í húsinu, þannig að ég tel ekki ástæðu til þess að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann geri ráðstafanir til að hann mæti. En hins vegar er mér kunnugt um, að hæstv. utanrrh. var hér í húsinu rétt áðan, og vildi ég leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann gerði ráðstafanir til þess, að hann verði hér, á meðan ég flyt ræðu mína. (Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess.)

Þegar rætt er um þáltill. þá, sem hér er til umr., er nauðsynlegt, að höfð sé í huga sú grundvallarstaðreynd, að engin þjóð í heiminum á lífsafkomu sína jafnmikið undir sjávarafla og sú íslenzka. Sem dæmi þessa nefni ég, að sjávarafli nemur á s.l. ári um 92% af heildarútflutningi landsmanna, en einungis um 7% af heildarútflutningi Norðmanna, sem þó stunda miklar fiskveiðar. Þessi staðreynd leiðir til þess, að Íslendingar geta ekki og mega ekki sætta sig við minni rétt um víðáttu fiskveiðilandhelginnar en aðrar þjóðir, sem minna eiga undir fiskveiðum en við, hafa tekið sér og haldið áreitnislítið. Þessi hefur líka verið skoðun allra íslenzkra stjórnmálamanna til þessa og aðgerðir þeirra í landhelgismálinu miðazt við það.

Setning laga nr. 44 frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, er ljósasta dæmið um þetta. Í þeim lögum er því slegið föstu. að sjútvmrh. skuli með reglugerð ákvarða takmörkun verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti. Alþingi og ríkisstjórnir hafa ætíð túlkað ákvæði laganna svo. að þeim væri heimil einhliða útfærsla fiskveiðimarkanna og réttur þjóðarinnar að þessu leyti gagnvart öðrum þjóðum takmarkaðist af því einu, að aðgerðirnar brytu ekki í bága við milliríkjasamninga um þessi mál, sem Ísland er aðili að á hverjum tíma, eins og segir í 2. gr. landgrunnslaganna. Þessari takmörkun til viðbótar mundi ég vilja telja viðurkenndar alþjóðareglur um víðáttu fiskveiðilögsögu, enda þótt það sé ekki tekið fram berum orðum í landgrunnslögunum.

Síðan landgrunnslögin voru sett, hafa íslenzk stjórnvöld framkvæmt þrjár friðunaraðgerðir á grundvelli þeirra og allar með einhliða aðgerðum Íslendinga. Árið 1951 voru fiskveiðitakmörkin á svæði fyrir Norðurlandi færð út í 4 mílur og grunnlínur réttar. Árið 1952 var með reglugerð ákveðið að færa fiskveiðimörkin í 4 mílur umhverfis landið allt, flóum og fjörðum var lokað og grunnlínur dregnar beint fyrir mynni þeirra. Árið 1958 voru svo fiskveiðimörkin færð út í 12 mílur, en grunnlínubreytingar ekki framkvæmdar í það skiptið, þar sem ekki náðist samkomulag um það innan ríkisstj. né við stjórnarandstöðuna, sjálfstæðismenn. En eins og hv. þm. rekur minni til, þá var stjórnarandstaðan látin fylgjast með öllum undirbúningi útfærslunnar 1958, og átti hún sinn fulltrúa í landhelgisnefnd flokkanna, sem starfaði þá, Sigurð Bjarnason alþm.

Bretar og margar aðrar fiskveiðiþjóðir mótmæltu öllum þessum friðunaraðgerðum Íslendinga og töldu, að með þeim væru Íslendingar að slá ólöglega eign sinni á hluta af úthafinu, sem öllum væri frjálst. Vegna útfærslunnar 1952 var sett löndunarbann á íslenzkan fisk í Bretlandi, og átti með því að kúga Íslendinga til að falla frá fjögurra mílna fiskveiðimörkunum, og 1958 sendu Bretar herskip á Íslandsmið til að vernda skipulagðan veiðiþjófnað brezkra togara við Ísland.

Þrátt fyrir fyrirsjáanlega erfiðleika, áður en til útfærslunnar kom árið 1958, er mér ekki kunnugt um, að einn einasti af forustumönnum núv. stjórnarflokka legði til, að reynt yrði að opna samninga við Breta um útfærsluna fyrir fram, og engin rödd heyrðist þá frá þessum aðilum, eftir að deilan byrjaði, um að leggja hana í dóm hjá alþjóðadómstólnum í Haag. Sjálfstæðismenn ýjuðu hins vegar í þá áttina, að rétt væri að reyna frekari viðræður á vegum NATO um þetta deilumál, enda mun okkur hafa borið til þess skylda skv. NATO-sáttmálanum.

Sú stefna, sem marka á nú með samþykkt þessarar þáltill., sem hér er verið að ræða, er því fráhvarf frá landgrunnsstefnunni. Með samþykkt hennar skuldbinda Íslendingar sig til þess að tilkynna Bretum með sex mánaða fyrirvara fyrirætlanir um frekari friðunaraðgerðir á landgrunninu. Í framkvæmd þýðir þetta, að teknir verða upp samningar við þá þjóð, sem verst hefur reynzt okkur í þessum málum, í hvert eitt skipti sem framkvæma á frekari aðgerðir í landhelgismálinu, hvort sem um er að ræða útfærslu sjálfra fiskveiðimarkanna, réttingu grunnlína eða hverjar aðrar friðunaraðgerðir. Þetta þýðir m.a., að þótt Íslendingar vildu lagfæra grunnlínu, t.d. í Meðallandsbugt, sem allir eru sammála um að væri í samræmi við alþjóðareglur um grunnlínur frá 1958, þá yrðu þeir að fá dóm hjá alþjóðadómstólnum áður, ef Bretar krefjast þess. Nú er ekki ósennilegt, að það tæki nokkur ár, t.d. 3 ár, að fá slíkan dóm upp kveðinn, ef vilji væri fyrir hendi af Breta hálfu, sem ekki er að efa, til þess að tefja dómsuppsöguna. Þetta þýðir, að íslendingar yrðu að bíða, svo að árum skipti, eftir rétti, sem þeir eiga að alþjóðalögum, af því að með samþykkt þáltill. er Bretum veitt stöðvunarvald skv. samningi, — stöðvunarvald, sem þeir höfðu alls ekki áður. Setjum svo, að alþjóðareglur fengjust samþykktar, t.d. á næstu árum, um, að víðátta fiskveiðilögsögu strandríkja mætti vera allt að 20 mílum. Gætu Bretar þá ekki skv. samningi stöðvað slíka útfærslu hér við land, svo að árum skipti, fyrst með því að heimta, að á mánaða tilkynningarskyldunni væri fullnægt, síðan með löngum samningsviðræðum og svo með því að heimta, að málið yrði dæmt af alþjóðadómstólnum? Ég óttast þetta, því að ég veit, að þótt talið sé, að réttarregla sé til, er kveði skýrt á um tiltekið atriði, þá geta óprúttnir einstaklingar og þjóðir efnt til málaferla um það atriði í þeim tilgangi einum að skapa sér frest.

Hv. 5. þm. Reykv., sem mælti hér áðan fyrir meiri hl. hv. utanrmn., kom með furðulegar upplýsingar um þetta atriði. Hann hélt því fram, að því er virtist, að hefði alþjóðadómstóllinn í Haag ekki kveðið upp dóm innan sex mánaða, frá því að ósk hefði komið fram frá öðrum hvorum samningsaðila um að leggja friðunaraðgerð fyrir dómstólinn, þá mættu Íslendingar láta friðunaraðgerðina koma til framkvæmda og yrðu Bretar að sætta sig við það. Hvergi er að finna í þáltill. þessari eða fylgiskjölum, sem lögð hafa verið fram, staf um þetta atriði, og væri því fróðlegt, ef hv. þm. vildi færa rök að þessari staðhæfingu sinni. Mér er tjáð, að þegar deila Norðmanna og Breta út at grunnlínunum við Noreg fór til alþjóðadómstólsins, hafi það tekið rúm 2 ár að fá dóm þar þrátt fyrir gagnkvæman vilja beggja deiluaðila til að hraða gangi málsins. Menn geta því rétt gert sér nokkurn veginn í hugarlund, hvort hugsanlegt málskot Íslendinga eða Breta út af fiskveiðilandhelginni hér við land gæti ekki tekið tíma, ef vilji væri fyrir hendi til að tefja málið. En samkvæmt samkomulaginu og almennri túlkun á því yrðu friðunarráðstafanir okkar að bíða, á meðan sá dómur gengi.

Það kom einnig fram í umr. hér í kvöld, að hæstv. utanrrh. hefði lýst því yfir á fundi utanrmn. um síðustu helgi, að hann hefði í vasanum plagg frá brezkum stjórnvöldum, þar sem því væri yfir lýst og skýrt og skorinort fram tekið, að framlenging á 3 ára veiðileyfi Breta hér inn að sex mílna mörkunum kæmi ekki til greina, ekki fékkst þó hæstv. ráðh. til þess að sýna nm. plagg þetta, þótt eftir því væri gengið. Hvað sem rétt er um tilvist þessa plaggs, þá verð ég að segja, að fullkomin óhæfa er að fella ekki efni þess inn í meginmál orðsendingarinnar, sem utanrrh. Íslands ætlar að senda utanrrh. Breta að þál. þessari samþykktri, orðsendingu, sem verður grundvöllur samkomulagsins og mundi í hugsanlegu deilumáli fyrir alþjóðadómstólnum ein skera úr um ágreiningsatriði. Ég legg það svo undir þöglan dóm hvers og eins alþm., hvaða nafni ætti að nefna það framferði hæstv. ráðh. að halda fyrir hv. alþm. leyndu og neita að sýna þeim svo mikilvægt skjal, sem hugsanlega gæti ráðið úrslitum um afstöðu þm. til samkomulagsins.

Deilt er um, hvort orðalag orðsendingar utanrrh. Íslands og Bretlands, þar sem talað er um, að Bretar falli frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilandhelgi, sé það sama og fengizt hafi full og óafturkallanleg viðurkenning af Breta hálfu á 12 mílna fiskveiðilandhelgi. — Talsmenn stjórnarflokkanna telja, að svo sé. En hver er skilningur Breta á þessu orðalagi? Er víst, að hann sé sá sami og okkar Íslendinga? Ég tel ástæðulítið að fara mörgum orðum um þessa deilu, en ljóst er, að orðalagið er afbrigðilegt. Hv. alþm. hljóta allir að geta verið sammála um, að sjálfsagt sé að gefnu tilefni að breyta orðalagi þessu úr: „að falla frá“ í „að viðurkenna“, með því væri deilan leyst á mjög auðveldan hátt.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh., hvort hann geti ekki fyrir sitt leyti samþykkt slíka brtt., eins og liggur hér frammi á þskj. 450.

Mér er tjáð, að hæstv. dómsmrh. hafi hér áðan lesið upp álitsgerð lagadeildar háskólans um þetta orðalag. Ég var því miður ekki staddur í deildinni, þegar hann las það upp, og get því ekki dæmt um, hversu greinilega það sker úr þessu ágreiningsatriði. En eitt með mörgu, sem vakti tortryggni hjá mér, um, að þetta orðalag kynni að fela í sér einhverjar gildrur, sem við Íslendingar þyrftum að varast vel, voru einmitt ummæli hæstv. dómsmrh. í útvarpsumræðunum á fimmtudagskvöldið var. Hann sagði þá efnislega, að því er mig minnir, þegar hann var að tala um umboð það, er ríkisstj. ætti að fara eftir í þessum samningum, — þá sagði hann eitthvað á þá leið, að Alþingi hefði aldrei falið ríkisstj. að leita eftir viðurkenningu á 12 mílna reglunni, henni hefði aðeins verið falið af Alþingi að fá Breta til þess að falla frá mótmælum. Hæstv. dómsmrh. er að mínu áliti einn rökvísasti þm., sem talar á hv. Alþingi, og strax þegar hann sagði þetta í útvarpinu, staðfesti það hjá mér og styrkti þann grun, sem fyrir var, að þetta orðalag: „að falla frá mótmælum“ — væri ekki nákvæmlega það sama og ef um fulla viðurkenningu væri að ræða.

Þegar hv. þm. ræða kosti og galla þessa væntanlega samkomulags við Breta, er rétt að gera sér vel ljóst, að það er hreint nauðungarsamkomulag, sem neytt hefur verið upp á Íslendinga. Íslenzkir alþm. hafa aldrei, svo að mér sé kunnugt um, hvar í flokki sem þeir standa, látið í ljós vafa um, að Íslendingum hafi verið heimilt samkv. alþjóðareglum að færa fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur, eins og gert var 1958. Hæstv. dómsmrh. lýsti yfir í umr. í Ed. á þessu þingi, að við hefðum sigrað í málinu og héðan af yrðu 12 mílurnar ekki af okkur teknar. En hvers vegna er það þá talið eitt helzta afrekið við væntanlegt samkomulag, að með því fáist viðurkenning Breta á lögmæti 12 mílna landhelginnar? Það er vegna þess, að með samkomulaginu er talið, að Bretar hætti því ofbeldi hernaðarofbeldi, sem þeir hafa rekið á Íslandsmiðum síðan 1. sept. 1958. Við höfum sem sagt neyðzt til þess að kaupa þá með þessum samningi til að hætta ofbeldinu.

En hver var þá tilgangur Breta með því að senda hingað herskip í upphafi? Þeir höfðu mótmælt útfærslunni og geymt sér allan rétt í því sambandi. Ekki högnuðust Bretar fjárhagslega á veiðum undir herskipavernd á Íslandsmiðum. Nei, tilgangurinn var fyrst og fremst einn: sá að kúga Íslendinga til að slaka til frá 12 mílna fiskveiðilínunni eða a.m.k. reyna að koma þeirri hnappeldu á Íslendinga að þeim yrði erfiður róðurinn um framtíðaraðgerðir í landhelgismálinu. Og að áliti brezku stjórnarinnar hefur einmitt þetta tekizt. Að öðrum kosti væri nú ekki verið að ræða þessa samninga á hv. Alþingi. Þetta er staðreynd. Við kaupum okkur frið á miðunum gegn því að skerða verulega möguleikana á frekarí útfærslu í framtíðinni.

Talsmenn stjórnarflokkanna og blöð þeirra gera mikið úr viðtökum almennings í Bretlandi og brezkra blaða við væntanlegum samningum og segja, að þær sanni glögglega, hversu samningarnir séu Íslendingum hagkvæmir. Því er jafnvel slegið upp í íslenzkum blöðum, að álit Breta sé, að íslenzka ríkisstjórnin hafi svínbeygt þá brezku og leikið á hana. Ég tek svona skrifum með allri varúð. Reynslan mun væntanlega sýna, hvor svínbeygt hefur hinn í þessum viðskiptum. Hitt vil ég hins vegar benda á, að dómur Breta um ágæti eða ekki ágæti væntanlegs samkomulags getur aldrei skorið hlutlægt úr. Bretar hafa, eins og kunnugt er, aldrei viljað viðurkenna stærri fiskveiðilandhelgi umhverfis Ísland en þrjár mílur. Þeir halda því fram, að þeir hafi fundið miðin við Íslandsstrendur og kennt Íslendingum að nytja þau. Viðskipti Íslendinga og Breta á undanförnum árum út af þessu máli hafa sýnt glögglega, að Bretar hafa mjög takmarkaðan skilning á rétti okkar á hafinu umhverfis landið eða þörfinni á friðun þar. Hvaða heilvita Íslendingi gæti dottið í hug, að menn, sem hafa slíka sannfæringu, slíkan skilning á lífsrétti íslenzku þjóðarinnar, geti dæmt af viti um samkomulag þetta?

Í útvarpsumræðunum s.l. fimmtudagskvöld mælti hæstv. forsrh. m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „að sáttargerðin bæri órækt vitni um sáttfýsi Breta og sýni, að þeir skilji hvort tveggja, að öll afkoma íslendinga velti á landhelginni, sem og hitt, að vestræn samvinna fái aldrei staðizt, ef stærsti bróðirinn brjóti upp búrhurð hins minnsta, leggi sér matarforða hans til munns og skilji hann eftir í svelti. Og þetta gildir alveg jafnt, hvort sem slíkt atferli á stoð í lögum eða ekki. Þetta er og verður kjarni málsins,“ sagði hæstv. forsrh. Ég get tekið undir niðurlag þessara ummæla, þó með þeim fyrirvara, að ég skil ekki, hvernig innbrot stærsta bróður í búr hins minnsta geti verið lögleg athöfn. Hæstv. forsrh. virðist gera ráð fyrir, að svo geti verið. En hugsunin í niðurlagssetningunni er góð.

Ég lít nefnilega þannig á, alveg eins og hæstv. forsrh. virðist gera, að lífsréttur einnar þjóðar sé mikill og henni heimilist margt til að vernda hann og varðveita.

Þegar menn tala um, að lítil þjóð verði að fylgja alþjóðareglum í þessu máli, verða menn jafnframt að hafa í huga, að alþjóðareglur um víðáttu fiskveiðilandhelgi eru mjög ófullkomnar og óljósar. Það er staðreynd, að 31 þjóð hefur tekið sér með einhliða aðgerðum 12 mílna fiskveiðilandhelgi og margar aðrar enn þá stærri. Engin þessara þjóða á neitt í líkingu lífshagsmuni sína undir slíkri ráðstöfun sem við Íslendingar. Hvers vegna eigum við þá að búa við minni rétt en þær? Einhver kann að segja, að smáþjóð gangi lítt í viðsjálum heimi að byggja aðgerðir sem þessar á grundvelli lífshagsmuna þjóðarinnar. Styðjast verði við viðurkenndar alþjóðareglur. Það er nokkuð til í þessu. En hver er reynsla okkar Íslendinga? Hún er sú, að þrátt fyrir það, að mjög sé um það deilt þjóða í milli, hvort útfærslan í 12 mílur 1958 sé byggð á alþjóðareglum, þá höfum við haft friðað hafið umhverfis landið út að 12 sjómílum allt frá 1. sept. 1958 fyrir ágengni erlendra togara, annarra en brezkra, þjóðinni allri til ómetanlegs gagns. Hvaða hv. alþingismanni dettur í hug, að Íslendingar hefðu náð þeim árangri, sem þeir hafa náð allt frá árinu 1950, er við framkvæmdum fyrstu friðunaraðgerðina, sem byggðist á landgrunnslögunum, ef samningur sem þessi hefði verið í gildi þá við aðrar þjóðir, er veiðar stunda við Ísland? Ég er sannfærður um, að við værum vart komnir hálfa þá leið, sem nú er að baki.

Svo er á eitt að líta í þessu sambandi, og það er, að alþjóðareglur um víðáttu fiskveiðilögsögu á hafinu eru alltaf að breytast og ætíð í þá stefnu, að fiskveiðilandhelgin stækkar ár frá ári. Þessi breyting á reglunum á sér ekki hvað sízt orsakir í því, að þjóðir þær, sem mest eiga undir víðáttumikilli fiskveiðilandhelgi og fiskveiðum, hafa lagt í útfærslur, stundum ef til vill með hæpnum lagarétti, en þá því meiri siðferðilegum rétti. Þær hafa mætt tímabundinni mótspyrnu um skeið, sumar látið undan og hörfað, en aðrar náð fram rétti sínum, því að rödd skynsemi og réttsýni hefur talað þeirra máli, hvað sem lagareglum líður. Við Íslendingar höfum einmitt hælt okkur af því að hafa verið brautryðjendur í þessari baráttu þjóðanna. Við vorum t.d. upphafsmenn þeirrar tillögu hjá Sameinuðu þjóðunum, að laganefnd Sameinuðu þjóðanna reyndi að móta réttarreglur um fiskveiðar á höfunum.

Með samkomulagi því, sem nú stendur til að gera, á að gefa Bretum, þeirri þjóðinni, sem hefur reynzt okkur verst og sýnt hvað minnstan skilning á þörf okkar í þessum efnum, mikinn íhlutunarrétt um, hvernig við getum rækt þetta forustuhlutverk okkar. Hvílík skammsýni! Talsmenn stjórnarliða og blöð þeirra finna líka, að þeir eru tortryggðir um að leggja einmitt í þessu atriði verulega fjötra á aðgerðir Íslendinga með því að gera þeim skylt að tilkynna Bretum með sex mánaða fyrirvara um framtíðar friðunaraðgerðir, sem sagt opna við þá samninga um málið í hverju tilfelli og skylda okkur síðan til þess að leggja málið í dóm, ef Bretar krefjast þess. Svar stjórnarliða við þessu er, að utanrrh. Íslands lýsi því yfir í væntanlegri orðsendingu sinni til Breta, að ríkisstj. muni vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi frekari útfærslu fiskveiðilandhelginnar. Á þetta er lögð áherzla og jafnframt það af hæstv. utanrrh., að Bretar hafi veitt þessari tilkynningu viðtöku, eins og það sé eitthvert stórt atriði í málinu. En hvert er þá mikilvægi þessarar tilkynningar? Það er harla lítið, ef það er skoðað ofan í kjölinn. Tilkynningin um þetta atriði segir raunar ekkert annað en það, sem Alþingi hefur samþykkt með landsgrunnslögunum frá 1948, sem þessi ríkisstj. eins og aðrar ríkisstjórnir á Íslandi er að sjálfsögðu bundin af og Bretum er alveg fullkunnugt um, sem sé, að Íslendingar telja sig geta einhliða framkvæmt friðunaraðgerðir á landgrunninu og munu neyta allra ráða til þess að koma þeim friðunaraðgerðum í framkvæmd.

Ég þykist hafa fært að því nokkur rök, að í væntanlegu samkomulagi felist viss hætta, og mér segir svo hugur um, að reynslan af samningunum muni sanna það. Hæstv. forsrh. lét í það skína í útvarpsræðu sinni á fimmtudagskvöld, að einn af mörgum kostum samningsins væri sá, að undanþágur Breta til að veiða innan 12 mílna línunnar væru valdar á þeim tíma og á þeim stöðum, er væru okkur skaðminnstar. Um þessa staðhæfingu hef ég leitað álits reynds skipstjóra, manns, sem nýtur trausts í sinni stétt og gegnir þar trúnaðarstörfum. Hann hefur gefið mér skýrslu um þetta atriði, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp úr henni nokkuð. Hann hefur skipt því svæði, sem Bretarnir hafa tímabundinn veiðirétt á, í 11 bása, og segir svo:

Svæði 1, þ.e. svæðið frá Horni að Langanesi. Það á að vera opið Bretum til veiða frá 1/7 til 30/9 þau árin, sem undanþágan er í gildi. Um það segir skipstjórinn og veiðirétt Bretanna þar: „Þetta svæði er opið á þeim tíma, sem síldveiðarnar eru fyrir Norðurlandi. Á þessum tíma er mikill þorskur á eftir síldinni og hefur verið mikill færafiskur hjá smærri bátum á þessum tíma. Nú síðustu 2 árin hefur verið róið með línu frá ýmsum stöðum á Norðurlandi á haustin, og hefur það gefizt vel, sem eingöngu má þakka því, að 12 mílurnar voru settar 1958. Fyrir þann tíma þýddi yfirleitt ekki að reyna með línu fyrir norðan á haustin, því að það fékkst enginn fiskur á línuna. Með því að hleypa fjölda af erlendum togurum inn á þetta svæði svo og síldveiðiskipum, er það nokkurn veginn víst, að þar fæst ekki fiskur á línu næstu árin.“

Um svæði nr. 2, sem er frá Langanesi að Glettinganesi og á að vera opið Bretum til veiða 3 næstu ár frá 1/5 til 31/12 ár hvert, segir hann þetta: „Á svæði þessu er mikill fiskur yfirleitt og þá sérstaklega á vorin. Þarna hefur verið bæði neta- og línuveiði og mikið af fiski á handfæri veitt þar undanfarandi ár. Ef fjölda af togurum er hleypt inn á þetta svæði, hirða þeir fiskinn, áður en hann kemst það grunnt, að bátarnir geti farið að veiða hann, og má því búast við, að þarna verði um mjög litla veiði að ræða í framtíðinni.“

Um svæði 3 og 4, sem hann hefur tekið saman, en svæði þetta nær frá Glettinganesi allt út að miðunum út af Hornafirði og á að vera opið frá janúar til ágúst, einhverjir hlutar þess. „Þarna er eins ástatt,“ segir skipstjórinn, „og á svæði nr. 2“, sem ég var að lesa um áðan. „Má segja, að það sé sama með fiskigöngur. Það hefur verið róið frá Austfjörðum á haustin, og hefur verið góður afli þar á línu, síðan landhelgin var færð út. Þetta svæði er opið á þeim tíma, sem fiskurinn er að ganga. Þó má segja, að þetta svæði hafi sérstöðu vegna þess, að í kringum Hvalbak er uppeldisstöð fyrir smáfisk, og þyrfti því að rétta þarna af grunnlínuna, svo að það svæði, sem smáfiskurinn er á, kæmi inn fyrir 12 mílna línuna, og ætti þetta svæði að vera algerlega lokað fyrir togveiðum. Á þessu svæði gengur fiskur eftir áramót, og sjá allir, hvaða áhrif það hefur á fiskigöngur að hleypa fjölda af togurum inn á þetta svæði. Þarna kemur fiskurinn fyrst upp að landinu og gengur svo vestur með landi allt vestur að Snæfellsnesi, og má því geta nærri, að það hafi mjög mikli áhrif á veiði þeirra báta, sem gerðir eru út frá Hornafirði allt vestur að Látrabjargi. Þessar verstöðvar eru á þessu veiðisvæði: Hornafjörður, Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn, Eyrarbakki, Stokkseyri, Grindavík, Sandgerði, Keflavík, Njarðvík, Vogar, Hafnarfjörður, Reykjavík, Akranes, Rif, Ólafsvík, Grundarfjörður og Stykkishólmur.“

Svæði nr. 5 er út af Mýrabugt. Það á að vera opið Bretum til veiða í 3 ár frá marz til júlí ár hvert. Um það segir skipstjórinn: „Á þetta svæði gengur fiskur úr djúpi, og með því að hleypa togurunum inn á þetta svæði á þeim tíma, sem ráð er fyrir gert, þá hirða þeir meginhlutann af þeim fiski, sem gengur inn, og er hætt við, að það hafi mjög mikil áhrif á vertíðina sunnanlands.“

Svæði nr. 6 og 7, þ.e. frá Meðallandsbugt og vestur á móts við Vestmannaeyjar. Á þessu svæði eiga Bretar að hafa veiðirétt frá marz til júlí og apríl til ágúst ár hvert. Um það segir skipstjórinn: „Hér gildir það sama og á svæði nr. 5 hvað þorskinn snertir. Á þetta svæði gengur ufsi í júlí, er þá oft mikil veiði þarna, og er það stór skaði að láta erlenda togara hirða hann.“

Svæði nr. 8, sem á að vera opið frá marz til maí, nær frá Vestmannaeyjum og allt vestur að Geirfugladrangi. „Eins og sjá má af kortinu,“ segir skipstjórinn, „er þetta aðalveiðisvæðið fyrir Suðvesturlandi, og sjá því allir, hvers konar glapræði það er að hleypa mörg hundruð togurum á þetta svæði. Með því að opna þarna fyrir togurunum má gera ráð fyrir, að minna komi af fiskinum í hlut Íslendinga, einmitt fyrir það, að togurunum er hleypt inn á 6 mílurnar, því að þarna gengur fiskur úr hafi, og áður en við getum náð honum, eru togararnir búnir með hann, eins og reynslan var, áður en landhelgin var færð út, sem þeir muna vel, sem áttu við fiskveiðar á þessum slóðum þá. Á þessu svæði eru aðalhrygningarsvæði þorsksins við Ísland, og er það skaði, að togararnir skuli vera látnir hirða fiskinn á þessum stað. Mun það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér um ókomin ár og jafnvel áratugi fyrir fiskveiðar Íslendinga.“

Svæði nr. 9, þ.e. út af Faxaflóa, á að vera opið Bretum til veiða frá marz til maí. Um það segir skipstjórinn: „Hér er sama sagan og annars staðar. Togurunum er hleypt inn, þegar göngufiskur er þarna. Auk þess eru þarna netasvæði Faxaflóabáta í apríl og maí, nú síðustu tvö árin sérstaklega að sunnanverðu á þessu svæði í apríl og að norðanverðu á svæðinu í maí.“

Svæði nr. 10, sem er út af Snæfellsnesi og á að vera opið Bretum frá marz til maí. Um það segir skipstjórinn: „Hér gildir sama og á svæði nr. 9. Hér eru netasvæði Breiðafjarðarbáta seinni part vertíðar.“

Og síðast um svæði nr. 11, sem er út af Bjargtöngum og á að vera opið Bretum frá marz til maí, segir skipstjórinn: „Hér er aðallega um kolamið að ræða, en þó er þarna mikið róið með línu, og er yfirleitt gott línufiskerí þarna, þó sérstaklega eftir að landhelgislínan var færð út í 12 mílur.“

Þetta er álit skipstjóra, sem gegnt hefur sínum starfa um fjölda ára, nýtur sérstaks trúnaðar í sinni stétt og hafa á undanförnum árum verið falin mörg trúnaðarstörf. Ég dreg enga dul á, að ég tel, að dómur hans um þetta atriði sé miklu traustari en hæstv. forsrh., enda hefur skipstjórinn ólíkt meiri þekkingu á því, sem hann er hér að segja, en hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. sagði enn fremur í ræðu sinni á fimmtudagskvöld — og takið þið nú eftir: að sitt mat væri, að samningarnir væru okkur ósambærilega miklu hagstæðari en þótt okkur hefðu boðizt 12 mílurnar óskertar og skilmálalaust þegar í stað. Ég ætla að lesa þetta aftur, svo að það fari ekki fram hjá mönnum, hvers konar áróður er hér rekinn fyrir ágæti þessara samninga, skipulagður áróður. Það hefur átt að taka þjóðina með stormi á nokkrum dögum, og lýsingar ábyrgra ráðamanna eins og hæstv. forsrh. eru svo öfgakenndar og lítið grundvallaðar, að manni bókstaflega blöskrar, þegar maður heyrir þessi ummæli og les þau eftir honum höfð í Morgunblaðinu. Hæstv. forsrh. sagði sem sagt á fimmtudagskvöld: að sitt mat væri, að samningarnir væru okkur ósambærilega miklu hagstæðari en þótt okkur hefðu boðizt 12 mílurnar óskertar og skilmálalaust þegar í stað. — Ég verð að segja, að mig rak í rogastanz, þegar ég heyrði þessa fráleitu fullyrðingu. Hvaða hugarfar er eiginlega á bak við slíkar staðhæfingar? Og á hverju er þetta mat byggt? Finna fleiri hv. alþm. virkilega eitthvað svipað til í þessu máli? Ég á mjög bágt með að trúa því. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það hefði verið ósambærilega miklu hagkvæmara fyrir Íslendinga, að þeir hefðu fengið sínar 12 mílur óskertar og skilmálalaust 1. sept. 1958, en sú niðurstaða, sem nú á að fást. Við hefðum þá losnað við að standa í hálfgerðri styrjöld við Breta á þriðja ár. Og við værum þá lausir við þá fjötra um frambúðaraðgerðir í landhelgismálinu, sem brezka stjórnin vill fá okkur til að semja á okkur með þessu samkomulagi. — Lausir við, að hundruð brezkra togara og togarar annarra þjóða gætu skafið fiskimiðin allt inn að 6 mílum næstu þrjú ár a.m.k.

Hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, sagði s.l. fimmtudag, um sigra sína í landhelgismálinu ættu Íslendingar öðru fremur því að þakka, að þeir hefðu leitazt við að byggja allar aðgerðir sínar á sem traustustum réttargrundvelli og jafnframt unnið kappsamlega að túlkun málstaðar síns á alþjóðavettvangi. Þetta er alveg rétt, og þessari vinnuaðferð eigum við að halda áfram og alls ekki slá af sókninni. En hver man eftir því, þegar stærsta skrefið var stigið í þessu máli á árinu 1958, útfærsla út í 12 mílur, að þessi hæstv. ráðherra teldi, að það væri ekki hægt að stíga það skref nema opna fyrst viðræður við Breta um málið og selja þeim síðan eindæmi um, að það yrði að dæmast hjá alþjóðadómstóli, gagnstætt því, sem þá gilti í praksís hjá fjölda annarra þjóða? Hvað er það, sem orsakað hefur þessa breyttu afstöðu og þetta breytta mat hjá hæstv. utanrrh.?

Í fréttatíma ríkisútvarpsins í kvöld var fróðlegt viðtal við ungan íslending. Gunnar Schram lögfræðing, sem nýlega hefur lokið doktorsvörn við Cambridgeháskóla, um alþjóðlegar lagareglur til verndunar fiskstofnum á hafinu. Ég held, að prófritgerðin hafi heitið þessu nafni. Ég hjó eftir því, að Gunnar sagði m.a. í þessu viðtali þetta, efnislega: „Þróun lagareglna um verndun fiskstofna að úthafinu hefur orðið á eftir þeirri þróun, sem fengizt hefur til verndunar fiskstofna með milliríkjasamningum, svæðasamningum.“ Þetta er einmitt ein af veigameiri ástæðunum fyrir því, að ég tel það ákvæði samkomulagsins sérstaklega hættulegt, er gefur Bretum rétt til þess að skuldbinda okkur um alla framtíð til þess að leggja allar friðunaraðgerðir Íslendinga, hvort sem þær byggjast á almennum lögum, ótvíræðum eða vafasömum, fyrir Haagdómstólinn. Í því felst ekki snefill af sanngirni, að frjáls þjóð undirgangist með samningum við stærsta mótgangsmann sinn, að hann geti stefnt henni og málefnum hennar til dóms út af sams konar aðgerðum og aðrar þjóðir, smáar sem stórar, telja sig geta framkvæmt einhliða. Og ég er sérstaklega hræddur við þá niðurstöðu hjá þessum alþjóðadómstól, að hann neiti Íslendingum um allar frekari leiðréttingar á fiskveiðilandhelginni á þeirri forsendu einni, að þær styðjist ekki við almennar, viðurkenndar lagareglur. Í þessu felst geysihætta, sem verður ekki ofmetin.

Í orðsendingu utanrrh., sem liggur frammi á fskj. í með þáltill. þessari, í staflið 3, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þrjú ár frá dagsetningu svars yðar“ (þ.e. svars utanrrh. Bretlands) „við orðsendingu þessari mun ríkisstjórn Íslands ekki hindra, að skip, sem skrásett eru í Bretlandi, stundi veiðar á svæði milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögu, sem um getur í 1. og 2. gr., á eftirgreindum svæðum og tímum.“

Á eftir kemur upptalning, sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér upp. Af ræðu hv. 5. þm. Reykv. áðan skildist mér, að öðrum þjóðum, er fiskveiðar hafa stundað hér við land á undanförnum árum, verði gefinn kostur á að ganga inn í þetta samkomulag. Það mundi m.a. leiða til þess, að a.m.k. eftirtaldar þjóðir gætu öðlazt sama rétt með samningum við Íslendinga og Bretar eiga að fá nú: Þjóðverjar, Belgir, Frakkar, Rússar, Svíar, Norðmenn og Danir og e.t.v. fleiri þjóðir.

Vegna þess atriðis í samkomulaginu, sem ég las hér upp áðan, langar mig sérstaklega, — og það var aðalástæðan til þess, að ég óskaði eftir því við hæstv. forseta, að hæstv. utanrrh. væri hér viðstaddur, — langar mig til þess að bera upp fyrir hann nokkrar spurningar, sem ég vona, að hann svari afdráttarlaust.

Í fyrsta lagi: Við hvaða tímamark verður upphaf veiðitímabils annarra erlendra fiskveiðiþjóða en Breta, er sækja um að gerast aðilar að þessum samningi, miðað? Verður upphaf þess tímamarks e.t.v. miðað við þá stund, er svar hefur borizt frá íslenzku ríkisstj. við beiðni frá einhverjum af áður töldum fiskveiðiþjóðum um, að íslenzka ríkisstj. samþykki t.d., að Þjóðverjar skuli fá sama rétt og Bretar hér? Sé svo, sem sennilegast er og í samræmi við almenna lagatúlkun og samningstúlkun, verður að telja, að þá gæti t.d. það skeð, að Þjóðverjar sæktu um aðild að samkomulagi þessu, þegar þriggja ára undanþágutímabil Breta væri að renna út, og þá yrði samkv. skýrum yfirlýsingum, sem komu fram hér í dag, að framlengja undanþágutímabilið um 3 ár til viðbótar gagnvart Þjóðverjum og þannig koll af kolli gagnvart hvaða erlendri þjóð, er um þetta mundi sækja. Hætt er við, að árin þrjú væru þá orðin nokkuð langur biðtími fyrir Íslendinga. Og ekki nóg með þetta.

Það væri vel hugsanlegur möguleiki, og um það vildi ég spyrja hæstv. utanrrh. líka, að með hinum útlendu togaraeigendum gæti tekizt samkomulag þannig, að þýskir, belgískir og franskir togaraeigendur skráðu skip sín í Bretlandi, meðan undanþáguheimildin væri í gildi gagnvart Bretum, og að Bretar svo aftur skráðu sín skip og togara í Þýzkalandi, meðan undanþágutímabilið væri í gildi gagnvart Þjóðverjum. Það getur vel verið, að einhverjum finnist, að það séu ekki miklir möguleikar á, að þetta geti orðið, en samkv. samkomulaginu, eins og það liggur hér fyrir, og ef byggja má á þeim yfirlýsingum, sem fram komu hér í kvöld í ræðu hv. 5. þm. Reykv., þá eru þessir möguleikar fyrir hendi.

Ef hv. alþm. kryfja það samkomulag, sem hér stendur til að gera við Breta, í ró til mergjar, þá hygg ég, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, enda viðurkennt af hæstv. dómsmrh. í umr. hér á hv. Alþ., að eina eða a.m.k. ein aðalástæðan fyrir samkomulagi þessu er sú, að með því á að kaupa brezku herskipin út úr íslenzku fiskveiðilandhelginni. Er sá sigur þá ekki of dýru verði keyptur Ég held það. Mín skoðun hefur ætíð verið sú, síðan brezku herskipin réðust inn í fiskveiðilandhelgina 1. sept. 1958, að við hefðum þá þegar átt að skjóta því máli til hinna Sameinuðu þjóða, kæra Breta fyrir árás á íslenzkt yfirráðasvæði og fá málið þar rætt fyrir opnum tjöldum. Ákjósanlegri vettvang til þess að túlka málstað Íslendinga var ekki hægt að velja. Á þessum vettvangi m.a. heyja nýlenduþjóðirnar sína sjálfstæðisbaráttu, og þeim ríkjum fer alltaf fjölgandi á þessum vettvangi, sem áður lutu nýlenduveldunum, en hafa öðlazt frelsi sitt. Við eigum því vísan stuðning og skilning hjá þessum þjóðum og mörgum fleiri, og ég er sannfærður um, að það mundu renna á Breta tvær grímur. Og það væri ástæða til þess að vona, að ef slíkt mál kæmi til umræðu á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða, t.d. nú, eftir að meðlimaríkin eru orðin um 100 og þar á meðal a.m.k. 20–30 þjóðir, sem nýlega hafa öðlazt fullveldi sitt, en áður voru nýlenduþjóðir í Afríku, — það er fyllsta ástæða til þess að ætla, að ef vel væri á málum haldið á þessum vettvangi, þá gætum við þröngvað svo að Bretum, að þeir teldu engan kost betri en draga herskipin sín aftur til baka við lítinn orðstír. Ég held því, að við hefðum átt að reyna að fara þá leiðina, reyna hana til þrautar, áður en við færum að afsala mikilsverðum réttindum með þessu væntanlega samkomulagi, — mikilsverðum réttindum til þess eins að fá Bretana keypta burt úr íslenzkri landhelgi.

Herra forseti. Komin er fram till. um, að um þetta mikilvæga mál verði látin fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég tel þá kröfu eðlilega. Bæði er málið stórt og þó er ástæðan ekki síður sú, að ég hygg, að flestir, ef ekki allir þm. hafi í kosningunum 1959 margítrekað lýst því yfir, að þeir mundu ekki samþykkja neitt undanhald í landhelgismálinu. Við þessar yfirlýsingar eru alþm. því siðferðilega bundnir, nema þeim verði gefið nýtt umboð og breytt. Því er krafan um þjóðaratkvæði sjálfsögð og eðlileg, og tæplega ættu þm. í stjórnarliðinu að bregðast illa við slíkri kröfu, ef rétt er það, sem þeir segja og blöð þeirra hamra á dag eftir dag, að almenn ánægja sé hjá þjóðinni með samkomulagið.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði hér áðan, að ekki væri hægt að samþykkja fram komna kröfu um þjóðaratkv., vegna þess að Alþ. ætti að afgreiða málið og yrði að gera það. Að sjálfsögðu breytir það engu um það atriði, hvort þjóðaratkvgr. yrði látin fara fram áður eða ekki. Alþingi mundi alveg á sama hátt afgreiða málið. Ég held því, að ekki séu nein frambærileg rök fyrir því af hálfu stjórnarliða að neita fram kominni kröfu. Hún er lýðræðisleg á fyllsta máta og á einmitt um þetta mál sérstakan rétt á sér.