06.03.1961
Sameinað þing: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2416)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Menn rekur minni til þess, að á sínum tíma var Alþ. og raunar allri þjóðinni heitið því af hæstv. ríkisstj., að Alþ. skyldi verða látið fylgjast með eða haft skyldi samráð við Alþ. um þá samninga, sem þá voru hafnir við Breta um landhelgismálið. Nú vitum við, hvernig hefur verið staðið við þetta fyrirheit um að hafa samráð við Alþ. En það þykir mér þó alveg kóróna svikin í þeim efnum, þegar nú er þannig staðið að afgreiðslu þessa máls hér á Alþ., eftir að búið er allan tímann, sem makkað hefur verið við Breta um þetta mál, að svíkjast um að hafa eðlilegt samráð við Alþ., að halda þannig á þessu stærsta máli, sem fyrir þingið hefur komið, að það eigi fyrst og fremst að ræðast hér á næturfundum, þannig að fólk geti yfirleitt ekki fengið aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem hér fer fram. Sá óvenjulegi háttur hefur verið hafður á nú við þessa umr., að það hefur ekki einu sinni þótt taka því að gefa hér kaffihlé, eins og allajafna hefur verið, þegar um kvöldfundi hefur verið að ræða, en nú hefur þótt nauðsynlegt að keyra hér áfram linnulaust. Ég fyrir mitt leyti vil mótmæla þessum vinnubrögðum, og ég vil vænta þess af hæstv. forseta, að hann sjái ástæðu til þess að fresta fundi á eðlilegum tíma um þetta mál og sjá um það, að hægt sé að halda áfram umr. um málið á venjulegum þingfundartíma á morgun og næstu daga. Ég skal ekki skorast undan því eð flytja mitt mál hér, þótt seint sé orðið, en hitt er alveg augljóst mál, að það er engin sanngirni til þess, að þetta mál sé fyrst og fremst rætt hér um hánótt. Ég vænti þess, að hæstv. forseti taki þessi orð mín til greina og sjái um það, að þingfundur verði ekki úr hófi fram fram eftir nóttu, heldur verði þingfundi haldið áfram á venjulegum tíma á morgun, en frestað umr. nú í nótt, því að það er það minnsta eftir þau loforð, sem Alþ. hafði fengið í þessum efnum um samráð um afgreiðslu málsins, að þm. gefist kostur á því að ræða við hæstv. ríkisstj. þannig, að fullur tími sé til og menn fái þá gjarnan að heyra þau svör, sem hæstv. ríkisstj. hefur að gefa um þetta mikilsverða mál.

Það er greinilegt á þeim umr., sem hér hafa farið fram, að hæstv. ríkisstj. hefur þegar fundið, að það bögglast nokkuð fyrir henni að geta sannfært menn um, að þau atriði felist í þessu samkomulagi, sem hún hafði boðað í upphafi. Hún hafði mjög haldið því fram, að með þessu samkomulagi væru Íslendingar að fá óafturkallanlega viðurkenningu Breta á 12 mílna landhelginni við Ísland. Þetta hafði verið boðað í grg. þáltill., og þetta hafði verið boðað dögum saman í blöðum ríkisstj. Síðan hafa komið fram aths. þm. við þessa fullyrðingu, ákvæði samkomulagsins sjálfs hafa verið lesin upp, og það hefur verið rætt og það er greinilegt, að ríkisstj. hefur orðið að viðurkenna það, að ekki mun vera fylillega glöggt um þessa viðurkenningu í samkomulaginu. Það var mjög greinilegt hjá hæstv. dómsmrh., sem kom upp í ræðustólinn hér í kvöld, að hann hafði nokkrar áhyggjur af þessu. Það hefur brotizt nokkuð um í hæstv. ráðh. síðan í útvarpsumr. á dögunum, að líklega væri ekki öruggt, að menn tryðu því, sem hann hefur verið að reyna að halda fram í blaði sínu, að hér væri um ótvíræða viðurkenningu að ræða. Nú kom þessi hæstv. ráðh. hér fram með sérstaka lagaskýringu frá lagadeild háskólans á þessu mjög svo umdeilda atriði. Og það leyndi sér ekki, að nú átti þetta að taka af öll tvímæli um það, hvað raunverulega fælist í þessu ákvæði, þar sem segir í samkomulaginu, að Bretar falli frá mótmælum, og það hefur síðan verið túlkað þannig, að með því séu þeir að viðurkenna 12 mílna landhelgi við Ísland framvegis. Og svo kom þessi skýring lagadeildar Háskóla Íslands. Ég veitti því athygli, þegar þessi lagaskýring var lesin hér upp, að þar var fram tekið af þeim lagaprófessorum, sem stóðu hér að, að þar sagði nokkurn veginn orðrétt, hygg ég, á þessa leið, því að ég skrifaði það upp, og það getur ekki farið mjög langt frá hinu rétta hjá mér, að þeir sögðu: Það verður að skoða, að það samkomulag, sem hér um ræðir, sé gert til þess að útkljá deiluna til frambúðar. — Síðan er lagaskýringin, sem fram er sett, byggð á þeirri forsendu, sem lagadeildin gefur sér, að það verði að líta svo á, að þetta samkomulag sé gert til þess að útkljá þá deilu, sem uppi hefur verið í þessum efnum, til frambúðar.

En ég vil nú spyrja: Hvar stendur það í þessu samkomulagsplaggi, sem hér liggur fyrir, að það eigi að vera til þess að útkljá þessa deilu til frambúðar? Hvar stendur það? Mér væri það mjög kært, að hæstv. dómsmrh. vildi koma hér upp og lesa það upp fyrir mönnum, hvar það stendur í þessu plaggi, að það sé grundvöllur þess að leysa þessa deilu til frambúðar. En lagaskýringin hjá prófessorunum við háskólann var öll byggð á því, að með tilliti til þessa væri eðillegt að telja, að sá, sem félli þarna frá mótmælum sínum, gerði það um alla framtíð, vegna þess að verið væri að leysa deiluna á þessum grundvelli.

Ég held því hins vegar fram, að það séu mjög sterk rök frá hálfu Breta, sem þeir geti vissulega notað máli sínu til stuðnings, að þetta plagg, þetta samkomulag sé þannig orðað, að það eigi fyrst og fremst að binda þá til stutts tíma eða í þrjú ár og skuldbindingar þeirra nái ekki lengra.

Eitt atriði er það í þessu samkomulagi, sem sannar þetta betur en allt annað. Það er það atriði, sem felst í 4. tölulið samkomulagsins, en þar er verið að telja upp tiltekin svæði við landið, sem Bretar mega ekki veiða á. Það er verið að telja upp tiltekin svæði við landið, sem Bretar mega ekki veiða á, — og hvernig er orðalagið varðandi þetta í samkomulaginu? Þegar er verið að telja upp þau svæði, sem þeir mega ekki veiða á, þá er sagt: Á áðurgreindu þriggja ára tímabili er þó skipum, sem skráð eru í Bretlandi, óheimilt að stunda veiðar á svæðunum milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögunnar. M.ö.o.: þegar verið er að taka fram í þessu samkomulagi, að Bretar megi ekki veiða á tilteknum svæðum, þá er ekki verið að segja það, eins og allir Íslendingar mundu hafa orðað það, sem kunna að orða sitt mál, að þeim sé bannað framvegis að veiða á þessum svæðum, þeim sé bannað það, frá því að samkomulagið tekur gildi og framvegis. Það er ekki verið að taka það fram í þessu samkomulagi. Það er sagt, að það sé aðeins um þetta þriggja ára tímabil, sem þeim er bannað að veiða þarna, — vegna þess að þess er stranglega gætt, að Bretar séu aldrei skuldbundnir í þessu samkomulagi nema um þriggja ára tímabil, aldrei. Þeir eru skuldbundnir í þrjú ár, en ekki heldur lengur. Það er því alveg ljóst mál, að sú forsenda, sem prófessorarnir við Háskóla Íslands gáfu sér og miðuðu sína lögskýringu við, er beinlínis röng.

Það er ekki að finna eitt einasta ákvæði í þessu samkomulagi, sem sker úr um það, að Bretar séu raunverulega skuldbundnir samkv. því fram yfir þessi þrjú ár. Það er rétt, samkvæmt samkomulaginu hafa þeir líka heimild til þess að veiða innan markanna í þrjú ár, og þeim er bannað að veiða innan markanna á tilteknum svæðum í þrjú ár, en það er ekkert orð um það, að þeim sé bannað að veiða utan þessara þriggja ára. Og það er ekkert orð að finna í samkomulaginu um þetta, að þeir séu óumdeilanlega skyldir til þess að fara út fyrir mörkin eftir þrjú ár.

Nú dettur mér ekki í hug að halda, að þeir Íslendingar, sem hafa staðið í samningunum við Breta í þessum tilfellum, hafi ekki óskað eftir því að hafa þessi ákvæði skýrari, þegar þeir sömdu við þá. Ég hafði veitt því athygli eins og aðrir hér á Alþingi, að ráðh. höfðu, áður en þetta samkomulag var gert, í umr. hér á Alþ, lýst því yfir, að það yrði grundvallarskilyrði fyrir samningum við Breta, að þeir viðurkenndu 12 mílna landhelgina við Ísland. Þá sögðu menn: „að viðurkenna“, þá notuðu menn það orð. Hitt kom ekki fyrr en á eftir: „að falla frá mótmælum“. Íslenzku ráðherrarnir höfðu aldrei notað þessi orð. Þeir höfðu beinlínis lýst því yfir, að grundvöllurinn að samningunum við Breta væri sá að fá þá til þess að viðurkenna 12 mílna landhelgina við Ísland, annars yrði ekki við þá samið. Ég skil því ekki, að nokkur maður geti efazt um það, að þeir muni hafa reynt í samningunum að fá fram þessa viðurkenningu með því orðalagi, sem þeir höfðu alltaf notað sjálfir áður og allir höfðu notað. En þeir hafa bara ekki reynzt menn til þess fram til þessa að viðurkenna það, að þetta orðalag hafi þeir ekki fengið inn í samninginn: Að Bretar hafi neitað þeim eins og Norðmönnum og öðrum að láta þetta orð frá sér fara um formlega viðurkenningu. Bretar höfðu við Norðmenn og aðra notað sams konar orðalag, að þeir mundu ekki fást um það, þó að Norðmenn settu slíkar reglur o.s.frv., og við okkur þannig, að þeir mundu falla frá mótmælum sínum, en vitanlega algerlega ótímabundið. En ég skil það mætavel, að hæstv. ráðh. hafi nokkrar áhyggjur af því, hvernig komið er hjá þeim varðandi þessa viðurkenningu í samningnum, af því að þeim er það ljóst núna, að þjóðin hefur áttað sig á því, að þeir hafa með þessu samkomulagi ekki fengið neina formlega viðurkenningu, og þeim er órótt. Af því þurfa þeir að reyna að fá stimpil eins og þennan frá prófessorunum við háskólann, sem verða aldrei, þegar þetta mál kæmist á það stig að verða deilumál á milli Íslendinga og Breta, spurðir um skýringar í þessum efnum. Þá eru það aðrir, sem skera þar úr, en þeir.

En hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. vill ekki í þessum efnum minnast einu orði á þær staðreyndir, sem liggja fyrir hvers manns augum á Íslandi varðandi þessi atriði um formlega viðurkenningu og það að falla frá mótmælum? Hvernig stendur á því, að hæstv. dómsmrh., þegar hann ræðir þessi mál hér af miklum vandræðum, minnist ekki á þær staðreyndir, sem liggja fyrir, að Bretar hafa áður í landhelgismáli við Íslendinga fallið frá mótmælum einnig opinberlega? Þeir féllu frá mótmælum sínum á tímabili varðandi 4 mílna landhelgina við Ísland, en þeir tóku upp þau mótmæli aftur, þegar þeir þurftu á því að halda, og sögðu þá alveg skýrum orðum, að þeir hefðu aldrei viðurkennt 4 mílna landhelgina formlega. Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. vill ekki minnast á þetta, sem hefur gerzt í þessu máli hjá okkur og liggur fyrir? Og hvaða ástæða er þó til þess að neita því, að Bretar gætu alveg eins nú varðandi 12 mílna landhelgina notað sömu vinnubrögð og þeir hafa sjálfir notað áður varðandi 4 mílna landhelgina, að þeir geta fallið frá þessum mótmælum sínum, á meðan þeir eru að hirða verðmæti í okkar fiskveiðilandhelgi á þriggja ára tímabilinu, en tekið mótmælin upp aftur á eftir, ef við værum ekki þægir við þá í öllum greinum?

Og svo sækir hæstv. dómsmrh. röksemdir sínar svo langt, að hann fer að lesa hér upp greinar úr enskum blöðum, eins og Manchester Guardian og öðrum slíkum blöðum, þar sem hann segir, að það komi fram hjá þeim, sem þar rita í blöðin, að þeir noti orðið: að viðurkenna, Bretar hafi viðurkennt 12 mílna landhelgina við Ísland. Og hæstv. ráðh. sagði, að menn yrðu að gæta að því, að það séu hlutlausir aðilar, sem segi þetta. Sér er nú hvert hlutleysið, sem hefur verið hjá þeim piltum, sem þetta hafa skrifað, yfirleitt í okkar garð. Sér er nú hvert hlutleysið, sem við höfum átt að venjast úr þessari áttinni. Nei, þetta eru þeir sömu aðilar sem hafa skrifað það, sem hér var líka lesið upp af einum hv. þm., að Bretar ættu hér allan rétt til fiskveiða við Ísland, af því að þeir hefðu veitt í s.l. 500 ár á þessum miðum, þeir hefðu kennt okkur togveiðar o.s.frv., og af því ættu þeir þennan rétt. Það eru sömu aðilarnir, sem hafa skrifað þetta og hæstv. dómsmrh. kallar nú hlutlausa menn í þessu máli og það megi reiða sig á það, sem þeir segja, slíkt verður vitanlega léttvægt fundið. Það, sem eftir stendur viðvíkjandi þessu atriði, er það, að hæstv. ríkisstj. verður að játa það og það er bezt fyrir hana að játa það, að hún fékk ekki inn í þetta samkomulag það orð, sem hún hafði alltaf notað áður, og það orð, sem hún hafði sagt, að við þyrftum að fá til fullrar viðurkenningar Breta á 12 mílna landhelginni við Ísland. Hún fékk ekki þetta orð inn í samkomulagið. En hún ætlar að reyna að telja a.m.k. Íslendingum á þessu stigi málsins trú um, að það orðalag, sem er í greininni: að falla frá mótmælum, muni duga okkur. En það vitanlega dugir okkur ekki. Það er ekkert öryggi í því. Ríkisstj. getur svo auðvitað haft uppi mismunandi afsakanir á því, hvernig á því stóð, að svona fór.

Hæstv. dómsmrh. var hér í umr. heldur aumur yfir því, að það hafi verið vitnað hér í umr. í hans eigin ummæli, sem hann hafði í þessum efnum í útvarpsumr. En því er ekki að neita, að í þeim umr. fór hæstv. dómsmrh. að afsaka það, hvernig á því stæði, að ríkisstj. hefði ekki fengið þessa formlegu viðurkenningu fyrir 12 mílunum. Það er ekki hægt að neita því, að hæstv. dómsmrh. viðhafði þessi orð, sem ég skal lesa nú upp og hafa verið lesin hér upp af öðrum. Hann sagði orðrétt í þessum umr. um þetta:

„Hitt er annað mál, að Alþingi hefur aldrei falið ríkisstjórninni að afla viðurkenningar Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögu, þegar af því, að það taldi rétt okkar til hennar ótvíræðan og þess vegna óþarfa aðra viðurkenningu Breta en þá, að þeir hættu ofbeldisaðgerðunum.“

Eru þetta ekki afsakanir á því, að hann hafi ekki getað fengið þessa formlegu viðurkenningu? Hann segir, að það hafi verið óþarfi að fá frekari viðurkenningu Breta en þá að hætta ofbeldisaðgerðunum. Hefur nokkrum manni komið til hugar hingað til, að það, þó að Bretar hættu ofbeldisaðgerðum sínum, jafngilti fullkominni viðurkenningu þeirra á 12 mílna landhelginni við Ísland? Vissulega var það mikils virði, ef Bretar hefðu hætt ofbeldisaðgerðum sínum. En það jafngilti ekki viðurkenningu á 12 mílna landhelginni. Grundvöllurinn fyrir því, að það átti að veita Bretum viss fríðindi innan landhelginnar, átti að vera sá, að þeir viðurkenndu formlega og óumdeilanlega landhelgina. En nú á að veita þeim þessi fríðindi, án þess að þeir skuldbindi sig til þess að viðurkenna 12 mílna landhelgina. Og svo segir hæstv. dómsmrh., að Alþingi hafi ekki falið ríkisstj. að afla þessarar viðurkenningar, af því að Alþingi hafi talið rétt okkar til 12 mílna fiskveiðilandhelginnar svo mikinn. Ja, drottinn minn dýri! Eins og við getum ekki þurft, jafnvel þó að við teljum rétt okkar fyllsta rétt, að fá viðurkenningu annarra þjóða fyrir því sjónarmiði okkar eftir sem áður. Og auðvitað var það ekkert deiluefni á milli manna eða flokka, að við þurftum að fá viðurkenningu sem flestra á 12 mílna landhelginni og viðurkenningu Breta líka.

Nei, varðandi þessa viðurkenningu stendur málið óumdeilanlega að mínum dómi þannig: Formleg viðurkenning hefur ekki fengizt í samkomulaginu. En þrátt fyrir það hefur ríkisstj. leyft sér að segja þjóðinni, að slík viðurkenning hafi fengizt. Þeir voru ekki í Morgunblaðinu, daginn sem þeir tilkynntu hinn mikla sigur þjóðarinnar í þessu máli, að nota það orðalag, að Bretar hefðu ákveðið að falla frá mótmælum sínum. Nei, það stóð yfir þvera síðuna, að Bretar viðurkenndu 12 mílna landhelgina við Ísland. Þá var talað því máli, sem menn skildu: Þeir viðurkenndu 12 mílna landhelgi. Þá var ekki verið að nota það orðalag, sem var í samningnum, að þeir féllu bara frá mótmælum.

En það er fleira en þetta með viðurkenninguna, sem kemur nú í ljós varðandi þetta samkomulag, að er harla einkennilegt og tortryggilegt í þessum samningi. Það var greinilegt á hæstv. dómsmrh., þegar hann tók hér til máls í kvöld, að hann hafði líka miklar áhyggjur út af ákvæðunum varðandi alþjóðadómstólinn. Hann hefur sýnilega veitt því athygli, að almenningur í landinu er ekki ánægður með þetta ákvæði, eins og það er. Hann fór því allmörgum orðum um það. Og í þeim efnum var það helzt þetta: Hver er á móti alþjóðalögum? Hver er á móti alþjóðadómstól? Förum við ekki að lögum? Er hér einhver inni, segir hann, sem vill fara aðra leið en að lögum, og eru þá nokkrir hræddir við að bera þetta undir alþjóðadómstól? Erum við ekki réttarríki o.s.frv.? Allt eru þetta falleg orð, það vantar ekki. Og svo hvessti mjög í hæstv. ráðh. við einn ákveðinn þm., þegar hann spurði með miklum þjósti, hvort þm. efaðist um það, að 12 mílna fiskveiðilandhelgi við Ísland væri samkvæmt alþjóðalögum. Og hann heimtaði svar á stundinni. Hann var þá, hæstv. ráðh., spurður reyndar annarri spurningu um leið um það, hvort ráðh. áliti, að lögsaga okkar yfir landgrunninu væri samkv. alþjóðalögum eða ekki, og það vafðist nokkuð fyrir hæstv. dómsmrh. að svara því. En þó var helzt á honum að heyra, að hann efaðist um, að það yrði litið svo á, að það væri samkv. alþjóðalögum.

Nú er það alveg furðulegt, að hæstv. dómsmrh. skuli tala svona um þetta mál og það einmitt sérstaklega í sambandi við það deiluatriði, sem hér hefur risið upp varðandi málskot til alþjóðadómstólsins. Það er ekkert launungaratriði, það veit hvert mannsbarn á Íslandi, að alþjóðadómstóllinn hefur ekki viðurkennt 12 mílna landhelgi. Það veit hvert mannsbarn á Íslandi, að þjóðréttarfræðingar hafa komið saman á tvær fjölmennar ráðstefnur, Genfarráðstefnurnar svonefndu, og deilt þar hart og fast um það, hvað væru alþjóðalög í þessum efnum. Og við vitum það líka, að alþjóðadómstóllinn hefur ekki kveðið upp einn einasta dóm til þessa um víðáttu landhelgi — engan. Og það efast heldur enginn um það, að ef nú væri lögð fyrir alþjóðadómstólinn spurningin um lögmæti 12 mílna landhelgi, þá mundi dómstóllinn annað tveggja gera að vísa slíku máli frá sér, þar sem skorti algerlega alþjóðalög eða reglur til að dæma eftir, eða þá hann mundi synja viðurkenningar á 12 mílna landhelgi. Á þessu leikur enginn vafi. Ég fullyrði þetta m.a. af því, að ég hef hlustað á nokkra tugi af heimsþekktum þjóðréttarfræðingum ræða einmitt um þetta atriði, þar sem þeir hafa lýst því yfir hver af öðrum, — og það var enginn ágreiningur hjá þeim um það, — að það vantaði einmitt nú í dag alþjóðalögin til þess að dæma eftir viðvíkjandi víðáttu landhelgi, og til þess hefðu einmitt þessar ráðstefnur verið haldnar að reyna að koma sér saman um alþjóðalög, sem hægt væri síðan að dæma eftir hjá þeim, sem vildu leggja mál sín fyrir dóm varðandi þessi atriði. Svo sperrir hæstv. dómsmrh. sig hér og virðist ætla að ásaka einstaka þm. um það, að þeir séu að bera á okkur einhverjar lögleysur í sambandi við það atriði, þó að við værum ekki á það sáttir að vísa slíku máli sem 12 mílna landhelgi okkar til úrskurðar alþjóðadómstólsins. Við vitum það, og hann veit það líka, að við gætum ekki nú fengið alþjóðadómstólinn til þess að viðurkenna fyrir okkur okkur 12 mílna landhelgi. Við gætum það ekki, og það gæti engin sú þjóð af þeirri 31 þjóð, sem þegar hefur tekið sér 12 mílna landhelgi, — það gæti engin þeirra, og það hefur engin þeirra beðið alþjóðadómstóllinn um að kveða upp slíkan dóm. Hitt gefur svo auðvitað alveg auga leið, að á meðan málin standa svona, hvað þýðir þá að setja ákvæði inn í milliríkjasamning um það, ef hugsað sé til eitthvað frekari útfærslu en í 12 mílur, að þá skuli það vera bundið við að leggja það undir úrskurð alþjóðadómstóls, sem vitað er, að í dag mundi ekki viðurkenna 12 mílur? Haldið þið, að hann mundi þá dæma meira en 12 mílur, eins og málum er háttað nú í heiminum? Nei, þeir aðilar, sem setja slíkt inn í milliríkjasamning í dag, vita það allir og enginn betur en hæstv. dómsmrh., að slíkt ákvæði í milliríkjasamningi þýðir að loka fyrir það með öllu, að við getum fengið nokkra tommu út fyrir 12 mílur. (Fjmrh.: Má ég spyrja?) Já, hæstv. ráðh. má spyrja. (Fjmrh.: Ber þessi ummæli að skilja þannig, að ákvörðun hans hafi verið lögleysa að alþjóðalögum?) Nei, ég skal útskýra þetta fyrir hæstv. fjmrh. Ég viðurkenni það ekki, að sú aðgerð, sem Íslendingar gerðu í þessum efnum ásamt með 31 annarri þjóð, hafi verið löglaus. Þjóðirnar hafa margar tekið sér rétt, einhliða rétt, og hann hefur verið viðurkenndur þannig í framkvæmd, að aðrar þjóðir hafa virt hann. En þær hafa tekið sér slíkan rétt í mörgum tilfellum án þess, að slíkur réttur væri orðinn viðurkenndur af alþjóðadómstól. Ég skal t.d. minna þennan hæstv. ráðh. á það, að þegar árið 1945, þegar Bandaríkjaforsetinn Truman lýsti því þá yfir, að þeir köstuðu eign sinni á landgrunn sitt jafnvel yfir 100 mílur út frá landi, þá voru engar alþjóðareglur til, sem heimiluðu slíkt sem þetta. En Bandaríkin viðurkenndu það ekki, að þau væru að gera lögleysu í þessum efnum. En það var ekki fyrr en árið 1958, eins og hæstv. ráðh. hlýtur að vita, að sett voru fyrst alþjóðalög, sem alþjóðadómstóll hefði getað dæmt eftir í þessum efnum. Það var ekki fyrr en 1958, að alþjóðalög um þetta voru sett.

En þjóðirnar hafa talið sig hafa rétt til þess í ýmsum tilfellum að gera einhliða ákvarðanir, sem náðu miklum mun lengra en viðurkenndar lagareglur stóðu til um og dómstóll hefði treyst sér til að fara eftir. Og ég efast ekkert um það, að hæstv. fjmrh. veit það mætavel, að alþjóðadómstóllinn mundi ekki í dag treysta sér til þess að viðurkenna með dómi 12 mílna landhelgi. Hann veit það. Mætti ég t.d. spyrja: Hvernig stendur á því, að engin sú þjóð, 31 talsins, sem tekið hefur sér 12 mílna landhelgi, hefur beðið alþjóðadómstólinn um það að úrskurða um réttmæti þessarar landhelgi? Hvernig skyldi standa á því? Það stendur einfaldlega þannig á því, að menn vita, að hún er ekki búin að fá þá hefð, þessi aðgerð þjóðanna, þessi einhliða aðgerð þjóðanna hefur ekki fengið þá hefð, að dómstóll vilji slá því föstu, að þetta séu þau lög, sem allir megi fara eftir. Af þessum ástæðum er fásinna allt tal manna um alþjóðadómstólinn, þar sem verið er að stilla þessu upp á þá lund, að þeir, sem ekki vilja hafa það ákvæði hjá sér í lögum að vera skuldbundnir til þess að vísa málum eins og þessu til alþjóðadómstólsins, þeir vilji fara löglausar leiðir, þeir séu á móti lögum og rétti. Ef menn væru á þessari skoðun, sem hæstv. ríkisstj. er að reyna að láta skína hér í, þá hefðum við ekki þurft á neinni Genfarráðstefnu 1958 að halda og ekki heldur 1960. Af hverju? Af því að þjóðirnar, sem allar eða velflestar voru aðilar að alþjóðadómstólnum, hefðu bara vísað þessu vandamáli til alþjóðadómstólsins og látið hann skera úr um þetta. Hvernig stóð á því, að menn fóru ekki þá leið? Voru virkilega allar þjóðirnar, 90 talsins, sem tóku þátt í Genfarráðstefnunum, svona löglausar, að þær vildu ekki lúta lögum? Voru þær allar saman slíkar ofbeldis- og ólagaþjóðir, að þær vildu kjósa sér einhverja aðra leið? Nei, þær viðurkenndu bara þá staðreynd, að alþjóðalög voru ekki fyrir hendi um víðáttu landhelgi, enda hafði alþjóðanefnd innan Sameinuðu þjóðanna unnið að undirbúningi þessa máls í mörg ár og þeir mörgu þjóðréttarfræðingar, sem stóðu að þeirri nefnd, höfðu komið sér saman um eina nokkuð loðna yfirlýsingu í þessum efnum, og hún var þannig, að þeir sögðu: Við játum það, að það eru engar fastar alþjóðareglur um víðáttu landhelgi til. En þeir sögðu: Við komum okkur saman um, að það sé okkar mat, að milli 3 og 12 mílna liggi þessi mörk. — Það er því fullkomlega út í bláinn, þegar menn eru að breiða sig út yfir alþjóðalög og alþjóðadómstólinn á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Ég er t.d. á þeirri skoðun, að við gætum samkv. eðlilegum reglum nú vísað til alþjóðadómstólsins ágreiningi um grunnlínur, vegna þess að árið 1958 komu þjóðirnar sér saman um alþjóðalög varðandi það, hvernig á að draga grunnlínur. Íslendingar skrifuðu undir það og Bretar líka. Við erum báðir tveir bundnir af þeirri alþjóðalagasamþykkt, sem þar var gerð um grunnlínur. Það er hægt að skjóta því máli til alþjóðadómstóls að láta hann skera úr um það, hvort tiltekin grunnlína sé samkv. þessum lögum, sem menn hafa orðið ásáttir um. En það er ekki, eins og nú standa sakir, hægt að leggja fyrir alþjóðadómstól spurninguna um það, hvað landhelgin megi vera breiðust. Og þeir Íslendingar, sem lýsa því yfir og gera það jafnvel í sérstaklega ríkum mæli, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert æ ofan í æ, að aðalatriði í landhelgismálum okkar sé þó að fá fullnaðarviðurkenningu okkar fyrir öllu landgrunninu, — en það þýðir það, að við erum þar að berjast fyrir viðurkenningu okkar yfir 50 mílur frá landi í ýmsum tilfellum, ekki bara 12 mílur, — þeir, sem undirstrika það, að þetta sé hið mikilvæga mál Íslendinga í landhelgismáli þeirra, að berjast fyrir fullkomnum yfirráðum yfir landgrunninu öllu og veiðunum þar, þeir ætla sér ekki svo lítið. Og það ætti því allra sízt að sitja á þeim að standa fyrir því að hneppa okkur í einhverjar þannig reglur, að það séu engar líkur til þess, að við getum náð svo mikið sem hluta af þessu landgrunni til viðbótar við það, sem nú er orðið. En það er enginn vafi á því, eins og málin hafa staðið og standa enn, að það eru engar líkur til þess, að við getum fengið alþjóðadómstól til þess að dæma okkur landgrunnið.

Það var að vísu unnið hið versta verk árið 1958, þegar stórþjóðirnar knúðu það í gegn, að sá skilningur skyldi vera á landgrunni og rétti viðkomandi þjóðar yfir landgrunni, að strandríkið skyldi eiga fullkominn yfirráðarétt yfir landgrunninu, þ.e.a.s. eingöngu yfir botninum og öllum þeim verðmætum. sem eru á botninum og í botninum og þau geta unnið þaðan, — það átti strandríkið, vegna þess að stórveldin höfðu þegar byrjað mikilvæga vinnslu á olíu úr hafsbotninum, hvert stórveldið á fætur öðru, og sum voru jafnvel með turna sína úti í hafinu yfir 100 mílur frá ströndinni. Þeir vildu kasta eign sinni á þessi verðmæti. Þar átti strandríkið botninn. En þeir tóku það fram og knúðu það í gegn, að þau verðmæti, sem væru í sjónum fyrir ofan botninn, tilheyrðu ekki á sama hátt strandríkinu. Nú var það svo með okkur, að við hlutum auðvitað að halda því fram, að það væri einkennileg kenning að halda því fram, að aðili ætti botninn og allt, sem á botninum er, en sá aðili, sem þennan botn á, gæti þá ekki jafnframt bannað óviðkomandi aðilum að skarka á þessum botni, draga á honum stálkefli og veiðarfæri, skrapa hann til og hefla hann allan til. Það eru einkennileg eignarráð einnar þjóðar á landssvæði, að hún skuli eiga allt það, sem laust er á svæðinu, en hún má ekki ráða því að banna öðrum að skarka á þessu sínu eigin landssvæði. Það hefði verið út af fyrir sig að halda sér við það, að aðrar þjóðir mættu veiða þar uppi í hafinu, en að þær megi líka skarka á landsins eigin botni, það var nokkuð langt gengið. En þar réð eins og stundum áður regla hinna stóru. Stórveldin þurftu á hinu að halda, og þau knúðu það í gegn. En við hinir smáu, sem bundum hagsmuni okkar við annað, urðum þarna að víkja. Svona réttlát geta nú alþjóðalögin verið.

Og svo kemur ein túlkunin enn á þessu margumtalaða plaggi, að nú er mönnum sagt, að það orðalag þessa samkomulags, sem hér er í 5. mgr. varðandi tilkynningarskyldu okkar til Breta og um skyldu okkar til þess að skjóta ágreiningi, ef hann kann upp að rísa, til alþjóðadómstólsins, — nú er okkur sagt, að það beri að skilja þetta ákvæði þannig, að við þurfum að vísu að tilkynna Bretum með sex mánaða fyrirvara fyrirætlanir okkar, en þó að Bretar notfæri sér ákvæði samkomulagsins og heimti málinu vísað til alþjóðadómstólsins til úrskurðar, þá geti útfærsla okkar staðið, á meðan dómstóllinn fjallar um málið. Nú kemur allt í einu þessi lagaskilgreining. Hvernig stendur nú á því, að hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh., fyrrum lagaprófessorar, og hæstv. utanrrh., þekktur lögfræðingur, hvernig stendur á því, að allir þessir vísu menn skuli búa til slíkan samning eða samkomulag, sem þarf allrar þessarar túlkunar við og lagaskýringa? Það þarf að elta uppi í skyndi prófessora við háskólann og reyna að láta þá koma einhverju viti í þetta með einhvers konar skýringum. Svo þarf að koma slík skýring sem þessi og aðrar túlkanir og skýringar á þessu öllu saman. Hvernig stendur á því, að það er ekki hægt að hafa það orðalag, sem á þó að vera byggt upp þannig, að það erum við, sem sendum Bretum tiltekna nótu, að svona skuli þetta vera? Hvernig stendur á því, að það er ekki hægt að hafa það orðalag á þessu, sem almenningur getur skilið? Af hverju mátti ekki segja þetta með skýrari orðum, ef þetta var meiningin? En í greininni stendur á þessa leið:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstj. Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Auðvitað segir ekkert um það í þessu efni, að við megum hér færa út, jafnvel þó að hinir hafi lýst ágreiningi og heimti málið borið undir alþjóðadómstólinn. Eftir öllum venjulegum reglum í samningum mundi þetta vera skoðað á hina lundina, að ef aðilar koma sér saman um það, að verði ágreiningur þeirra í milli, skuli tiltekinn aðili skera þar úr, þá yrði auðvitað beðið eftir því, að sá aðili skæri úr, áður en farið er að framkvæma deiluefnið. En þegar á það hefur verið bent, að þetta atriði gæti torveldað okkur eðlilega útfærslu hjá okkur, með því að fyrst þyrftum við að tilkynna Bretum í 6 mánuði og síðan gætu þeir eðlilega þvælt málið a.m.k. í 2–3 ár, sennilega í 5–6 ár, vil ég segja, eins og málarekstur gengur fyrir alþjóðadómi, þar til úrskurðurinn endanlega kæmi, þegar menn sjá það, að þetta er ótrúlega óþægilegt, þá kemur bara ný lagaskýring á þessu. Ég verð að segja það, — hæstv. ríkisstj. má lá mér það, ef hún vill, — ég verð að álíta það, að ríkisstj. Íslands hafi vitað betur og getað betur en þetta. Ég álít, að hún hefði getað samið þetta miklu skýrar. Ég álít, að hún hefði getað haft þetta miklu ótvíræðara. En ég dreg þá ályktun af því, að þetta er svona, að hún hafi ekki fengið þessu ráðið, og af því að hún fékk því ekki ráðið, hún var að semja við annan, sem vildi hafa þetta á hinn veginn, þá hljóta að hafa verið til þess einhverjar ástæður, að hinn aðilinn vildi hafa það á hinn veginn. Það voru einhverjar ástæður til þess, að Bretinn vildi endilega hafa þetta: að falla frá mótmælum, en viðurkenna ekki. Það hljóta að hafa verið einhverjar ástæður til þess, að hann vildi ekki láta banna sér að veiða á tilteknum svæðum innan landhelginnar nema í 3 ár, ekki framvegis. Það hljóta að hafa verið einhverjar ástæður til þess, að þetta orðalag er haft svona, að hægt er að snúa því við, það er hægt að teygja það eins og hrátt skinn.

Nú er það vitað mál, að Bretar hafa að undanförnu verið að semja við Norðmenn um sams konar mál og þeir eru að semja hér við okkur um. Þeir eru að semja um fríðindi handa sínum skipum um að mega veiða í norskri landhelgi á milli 6 og 12 mílna um tiltekið árabil. Það hefur verið skýrt nokkuð frá þessu samkomulagi. Ég hef aldrei heyrt á það minnzt, — það væri mjög fróðlegt að fá það upplýst hér, ef hæstv. ríkisstj. getur gefið upplýsingar um það, — er það tilfellið, að Norðmenn hafi samið um það við Breta, að þeir skuli aldrei neitt gera í sínum landhelgismálum, eftir að því samningstímabili lýkur, sem þar er um að ræða, nema á þeim grundvelli að tilkynna Bretum þar um og hlíta úrskurði alþjóðadómstóls um það, sem þeir gera? Er það í þeirra samningi? Er það ekki einkennilegt, að maður skuli hafa séð í norskum blöðum skýrt frá þessu samkomulagi og aldrei á þetta minnzt. Það kann að vera, að skýringin sé sú, að annaðhvort hafi Norðmenn neitað að taka slíkt ákvæði inn eða þá Bretar ekki talið, að það skipti svo miklu máli með Norðmenn, af því að þeir hafa vitað það allan tímann, eins og við Íslendingar höfum mátt hlusta á, að Norðmenn hafa stutt þá í þessum landhelgismálum allan tímann, þeir hafa verið á móti 12 mílunum. Þeir hafa bara togazt áfram á eftir okkur og ýmsum öðrum. Bretar halda kannske, að það skipti ekki miklu máli að loka fyrir Norðmenn eftirleiðis, að þeir fari út fyrir 12 mílur, en þeir hafa sýnilega talið það skipta verulegu máli að loka fyrir það, að Íslendingar gætu farið út fyrir 12 mílur, og af því er þetta ákvæði komið, að það er talið mikils virði af hálfu Breta að loka fyrir okkar möguleika.

Hæstv. dómsmrh. minntist hér á till. um þjóðaratkvæði. Það var nú heldur skemmtileg afsökun, sem hann hafði þar í frammi, að hann gæti ekki stutt þá till. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri réttur og skylda ríkisstj. og Alþ. að gera samninga fyrir Ísland. Það væri réttur og skylda ríkisstj. að gera samninga, og ríkisstj. ætti ekkert að skjóta sér undan slíkum skyldum. En þetta er auðvitað mesti misskilningur. Auðvitað er ríkisstj. búin að búa til þetta samkomulag. Hún er búin að vinna að því að gera þennan samning. Alþ. á að fjalla um samninginn, og samkv. till. okkar, sem flutt hefur verið hér um þjóðaratkv., er gert ráð fyrir því, að í því tilfelli, að þessi gerði samningur ríkisstj. verði staðfestur hér af Alþ., þá verði síðan ákveðið, að hann skuli þó ekki taka gildi, fyrr en þjóðin hafi staðfest hann með þjóðaratkvgr. Það er svo sem ekki verið að taka neina vinnu af hæstv. ríkisstj. Hún hefur búið til samninginn. Það er ekki heldur verið að taka neitt af hv. Alþ. Alþingi á að fjalla um samninginn. Ef Alþ. fellir samninginn, þarf vitanlega ekki lengra að fara, en aðeins þetta, að það er lagt til að ákveða það, að samningurinn skuli ekki taka gildi, þó að Alþ. hafi samþ. hann, fyrr en þjóðin er búin að staðfesta hann með meiri hl. atkv. í þjóðaratkvgr. Ríkisstj. og Alþ. eru því ekki að skjóta sér undan neinni skyldu. Hér er aðeins um það að ræða, hvort ríkisstj. og Alþ. þora að leggja gerðir sínar undir þjóðardóm. Spurningin er aðeins sú: Vilja menn fá staðfestingu á því, sem þeir eru að gera, eða óttast þeir það kannske, að þeir fái ekki þessa staðfestingu? Það auðvitað sjá allir, að ef hæstv. ríkisstj. tryði virkilega á sinn málstað, ef hún tryði því, að meiri hl. þjóðarinnar stæði með hennar málstað, þá mundi hún samþykkja slíka þjóðaratkvgr. sem hér er lögð til. Ríkisstj. fengi þá allt sitt fram og staðfestingu þjóðarinnar á málinu. Nei, það getur ekki verið nein önnur skýring á því, að ríkisstj. bregzt svona við, að hún neitar þjóðaratkvgr., en að hún óttast það að bera málið undir þjóðina. Og það skiljum við flestir hér, því að hún veit auðvitað, eins og við vitum, að þjóðin mundi kolfella svona samning sem þennan.

Svo sagði hæstv. dómsmrh., að Alþ. hefði svo sem rétt umboð til þess að gera svona samning og alþm. allir úr síðustu kosningum, vegna þess að hér hefði verið nákvæmlega þrædd samþykkt Alþ. frá 5. maí 1959 um landhelgismálið. En í þessari samþykkt er til viðbótar við almenn mótmæli gegn ofbeldi Breta um tvö atriði að ræða. Þar stendur til viðbótar við mótmælin í þessari samþykkt: afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.

Fyrra atriðið er, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Hvað hefur verið gert í þeim efnum? Er að finna í þessu plaggi einhverja viðurkenningu á rétti Íslands til landgrunnsins alls? Eru menn virkilega svona forhertir, að reyna að halda því fram, að það sé að finna eitthvert ákvæði í þessu samkomulagi, sem miði að því að viðurkenna rétt okkar til landgrunnsins alls? Ekki eitt einasta atriði í þessu samkomulagi stefnir að þessu, heldur, eins og ég hef vikið hér að áður, miklu fremur hitt, það er verið að setja ákveðnar skorður við því, að við getum fengið fram þau réttindi á öllu landgrunninu, sem við höfum þó lýst yfir í íslenzkri löggjöf, að við eigum að hafa, sem er lögsaga yfir landsgrunnssvæðinu. Þessi till. er því ekki þrædd í þessum efnum.

En viðvíkjandi hinu atriðinu, að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið, — er þetta þrætt? Er þetta þrætt í þessu samkomulagi? Allir menn sjá það, að með þessu samkomulagi er raunverulega verið að gera fiskveiðilandhelgina svo að segja í kringum allt landið að 6 mílna landhelgi nú um 3 ára tímabil a.m.k. Hér er því beinlínis brotið á móti þessu meginatriði í þessari samþykkt, sem hæstv. dómsmrh. viðurkenndi hér, að hefði verið sú samþykkt, sem gengið hefði verið til kosninga um og umboð þm. í þessum efnum miðaðist við. Umboð þm. miðaðist því við það, að ekki kæmi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið. Í þessum efnum er verið að brjóta eða víkja frá því umboði, sem þm. hafa. Það þýðir svo vitanlega ekkert að endurtaka það hér, að með þessu samkomulagi sé verið að þræða innihald þessarar samþykktar Alþ. Það er beinlínis verið að brjóta þessa samþykkt Alþ. með því að samþ. þetta samkomulag. Um það er ekkert að villast.

Þá vék hæstv. dómsmrh. að nokkru að grunnlínubreytingunum, og hann minntist á það, að það hefði dregizt í þrjú ár, að Íslendingar neyttu þess réttar, sem við stjórnarandstæðingar teldum, að við Íslendingar hefðum um útfærslu á grunnlínum. Ég vil nú spyrja hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv. dómsmrh.: Heldur hann því fram, að við eigum ekki rétt að alþjóðalögum til þess að færa grunnlínurnar út, eins og gert er ráð fyrir í þessu samkomulagi, og einnig til útfærslu á öðrum grunnlínum, sem eru ekki teknar með í þetta samkomulag? Vill hann halda því fram, að við eigum ekki að alþjóðalögum rétt til þessarar útfærslu? Það væri mjög fróðlegt að fá svar hans við því. En í þeim efnum vil ég minna á það, að íslenzk stjórnarvöld hafa hvað eftir annað gefið út og útbýtt á meðal flestra þjóða heims varðandi landhelgismálið nokkrar hvítar bækur, þar sem við höfum tekið skýrt og greinilega fram, að við ættum samkvæmt alþjóðalögum rétt til allra þessara grunnlínubreytinga, sem er að finna í þessu samkomulagi, og þar að auki til 7 annarra grunnlínubreytinga, sem við höfum talið upp. Hefur þetta verið sagt ósatt í þessum hvítu bókum? Höfum við ekki talið það alveg tvímælalaust, að við ættum þennan rétt skv. alþjóðalögum? Hvað heldur hæstv. utanrrh. um það? Telur hann, að hann og þeir starfsmenn, sem hafa unnið á hans ábyrgð, hafi verið að skrökva í þessum efnum, þegar þetta hefur verið birt í hvítu bókunum? Nei, ég efast ekki um, að það er hans skoðun, að við eigum skv. alþjóðalögum, þeim sem gerð voru árið 1958 í Genf, tvímælalausan rétt til þessara grunnlínubreytinga og til 7 annarra grunnlínubreytinga, sem eru ekki teknar hér með. Og nú vil ég spyrja, hvernig stendur á því, þegar þessar fjórar grunnlínubreytingar eru nú teknar í þetta samkomulag, að hinar 7 eru skildar eftir af þeim, sem við höfum lýst yfir erlendis, að við ættum rétt til? Hvernig stendur á því, að þær eru ekki teknar með?

Það kemur vitanlega ekki til mála, að sá maður finnist hér á Íslandi a.m.k., sem reynir að halda því fram, að við eigum ekki jafnmikinn rétt til þess að draga beina grunnlínu fyrir Meðallandsbugtina eins og þær löngu grunnlínur, sem við höfum dregið fyrir Faxaflóa og Breiðafjörð. Beina grunnlínan fyrir Meðallandsbugtinni er miklu styttri og miklu óumdeilanlegri og skýrari en hinar. Það hefur verið skoðun okkar, að þær grunnlínur, sem nú hafa verið dregnar, væru örugglega skv. alþjóðalögum. En við vissum það vel, að Bretar voru líklegir til þess og höfðu sýnt það í sínum fyrri mótmælum, að þeir vildu mótmæla sumum þeirra, þar sem grunnlínurnar voru lengstar og þar sem var miðað við smádranga eða sker nokkuð langt út frá aðallandinu. En í Meðallandsbugtinni var engu slíku til að dreifa. Hvernig stendur þá á því, fyrst ráðizt er hér í útfærslu á grunnlínum, að þessi grunnlínubreyting var ekki tekin líka? Hvernig stendur á því? Auðvitað er þetta auðskiljanlegt öllum þeim, sem þekkja gang þessara mála. Hér er aðeins um það að ræða, að það er byrjað að semja við Breta um okkar réttindi, og það er látið af tilteknum rétti, sem við eigum. Það er ákveðið að fara ekki út í það að nota Grímsey sem grunnlínupunkt og rétta af línurnar sitt hvorum megin við Grímsey, vegna þess að Bretar vilja hafa þau svæði áfram opin fyrir sína togara. Þeir veiða þar á austara svæðinu, fyrir austan Grímsey, út af Rauðanúp mjög mikið, enda er þar talið mjög gott togveiðisvæði, mikið fiskisvæði fyrir togara. Bretar neita því, og íslenzka ríkisstj. semur af okkur þennan rétt nú í þessu tilfelli að breyta þessum grunnlínum. Nákvæmlega sama gerist við Hvalbak fyrir Suðausturlandi. Við gátum dregið grunnlínuna beint frá Glettinganesi í Hvalbak og beint úr Hvalbak í Stokksnes við Hornafjörð. Á þann hátt hefðum við lokað allstórum svæðum sitt hvorum megin við Hvalbak, sem Bretar hafa skarkað á meira jafnvel en á flestum öðrum svæðum við landið. En Bretar vilja hafa þetta opið, og íslenzka ríkisstj. í samningamakki sínu við Breta kemur þessu ekki í gegn. Og nákvæmlega sama hefur átt sér stað með svæðin hér fyrir Suðurlandi, í Mýrabugt, í Meðallandsbugt. En einmitt í Meðallandsbugtinni er eitt allra bezta fiskisvæði við Ísland. Þangað sækja Bretar, og þar vilja þeir hafa bugðuna inn í bugtina áfram, svo að þeir geti haldið áfram veiðum þar á þeim slóðum, sem þeir hafa fiskað svo mikið á á undanförnum árum. Og hið einkennilega atriði gerist svo, þegar ríkisstj. ræðst þó í það eða fær samkomulag við Breta um það að gera Geirfugladrang hér út af Reykjanesi að grunnlínupunkti, þannig að grunnlínan fyrir Faxaflóa er miðuð við Geirfugladrang, að það er ekki dregin grunnlína beint frá Geirfugladrangi út af Reykjanesi beint í Geirfuglasker fyrir sunnan Vestmannaeyjar. Nei, heldur leggja menn þar lykkju á leið sína og draga línuna frá Geirfuglaskeri fyrir sunnan Vestmannaeyjar í Eldeyjardrang og úr Eldeyjardrangi í Geirfugladrang. En á þennan hátt töpum við af því svæði, sem við höfum áður lýst yfir, að við ættum rétt á, allverulegum skika, af vestanverðum Selvogsbanka og á Eldeyjarbanka, einmitt því svæði, sem brezkir togarar sækja sem fastast á og fá einna mest af ýsu á. Hér er aðeins um það að ræða, að Bretarnir, þegar farið er að semja við þá, pína okkur til þess að láta af þessum réttindum okkar. Og þó að við vildum skv. þessu samkomulagi síðar sækja þessi svæði með frekari útfærslu, þá erum við seldir undir þann vanda að verða að tilkynna Bretum það fyrst með 6 mánaða fyrirvara og síðan að verða að lúta því, að alþjóðadómstóllinn fjalli um málið, og það mundi geta tekið nokkur ár að fá upp kveðinn dóm þar um þessi atriði. En það er mín skoðun, að þar mundi dómstóllinn verða okkur hagstæður, því að ég tel, að alþjóðalögin í þessum efnum séu svo skýr, að það verði erfitt að dæma af okkur réttinn í þessum efnum.

Það er auðvitað hlægilegt að vera að eyða orðum að því að svara því, sem hæstv. dómsmrh. kom hér með varðandi þessar grunnlínur, þar sem hann talar um það, að við, sem stóðum að útfærslunni í 12 mílur, hefðum ekki notfært okkur þennan rétt, sem við teljum, að þjóðin hafi átt, til þess að gera þessar grunnlínubreytingar. Þegar ráðizt var í útfærsluna út í 12 mílur, þá gerðum við okkur fyllilega grein fyrir því, að þessi ráðstöfun mundi verða mjög umdeild. Við vissum það alveg upp á hár, eftir það sem hafði gerzt á Genfarráðstefnunni veturinn 1958, að Bretar og aðrir mundu mótmæla þessari útfærslu í 12 mílur mjög harkalega, flestar Vestur-Evrópuþjóðirnar, sem barizt höfðu gegn 12 mílna landhelgi á Genfarráðstefnunni 1958. Við vissum því, að við vorum hér að ráðast í mikið verk og vandasamt, að færa út í 12 mílur. Og eins og við höfum tekið fram, skipti vitanlega höfuðmáli að geta fengið algera samstöðu flokkanna hér innanlands á bak við þá ákvörðun, sem tekin yrði. Vegna þess voru haldnir fundir eftir fund með fulltrúum flokkanna allra og reynt að fá samstöðu flokkanna um það, hvernig skyldi staðið að málinu. Við lögðum það til, bæði fulltrúar Alþb. og fulltrúar Framsfl., svo að ekki verður um villzt, því að það liggur alveg opinberlega og skriflega fyrir, að við lögðum það til, að það yrði ráðizt í útfærsluna 1958 þannig, að við færðum út í 12 mílur og gerðum einnig útfærslu á grunnlínunum, öllum þeim, sem ég hef hér minnzt á. Þessa leið kysum við helzt. En því var lýst yfir, að við mundum ekki treysta okkur til þess að fara í svona stórfellda útfærslu, bæði út í 12 mílur og taka þá miklu stækkun, sem líka varð við breytingu á grunnlínum, nema alger samstaða gæti orðið um það hjá íslenzku stjórnmálaflokkunum. En það var einmitt þarna, sem Sjálfstfl. brást fyrst og fremst og svo auðvitað Alþfl. með honum. Þeir fengust ekki til þess að samþykkja þetta, þó að fulltrúar hinna flokkanna, tveggja byðu upp á þetta. Þeir lýstu því strax yfir um þetta leyti, að þeir vildu fresta öllu málinu, útfærslunni í 12 mílur og breytingu á grunnlínum og tala við erlenda aðila um málið og freista þess að ná einhverju samkomulagi. Þeir vildu ganga í það samningamakk, sem þeir hafa verið nú í um landhelgi Íslands.

Nú það var ekki óeðlilegt sjónarmið, sem kom fram hjá forsrh. þá, Hermanni Jónassyni, að hann undirstrikaði það mjög um þetta leyti, að hann mundi ekki vilja sem forsrh. standa að því að gera þær ráðstafanir í landhelgismálinu, sem ekki væri tvímælalaust meiri hluti Alþ. á bak við, og þar sem Framsfl. og Alþb. höfðu ekki meiri hl. á Alþ. tveir, þá varð að leita samkomulags við Alþfl., og auðvitað var æskilegast að hafa Sjálfstfl. líka. En það tókst ekki að fá þetta samkomulag um breyt. á grunnlínunum. Þetta er eina ástæðan til þess, að ekki var farið í þessar grunnlínubreytingar. En þegar útfærslan var gerð, tók ríkisstj. það skýrt fram í sinni opinberu tilkynningu, að ríkisstj. geymdi sér rétt, eins og það var orðað, til grunnlínubreytinga síðar, af því að menn vissu, að við áttum réttinn, og við bara geymdum okkur þetta, því að það var algert innanríkismál okkar að ákveða það, hvernig við höguðum breyt. á okkar grunnlínum.

Svo kemur sú fullyrðing frá hæstv. dómsmrh., að flutningur okkar Alþb.-manna og framsóknarmanna á frv. í Ed. um það að lögfesta fiskveiðilandhelgina, eins og hún hefur verið að undanförnu, með óbreyttum grunnlínum, sanni það, að við höfum verið á móti grunnlínubreytingu. Það er rétt eins og hæstv. ráðh. vilji ekki reikna með því, að það sé auðvelt fyrir meiri hl., sem til er á Alþ., að breyta íslenzkum lögum. Auðvitað lá málið ákaflega greinilega fyrir, að það þurfti aðeins að myndast meiri hl. á Alþ. fyrir tilteknum útfærslum á grunnlínum, þá var auðvelt að gera það. En eina ástæðan til þess, að það þótti nauðsynlegt að flytja hér frv. um að lögbinda reglugerðina frá 1. sept. 1958, var sú, að það væru miklar líkur, sem bentu til þess, að ríkisstj. ætlaði að fara að semja um breyt. á fiskveiðilandhelgi Íslands við aðrar þjóðir án þess að bera það mál undir Alþ. Af því var eðlilegt, að gildandi fiskveiðilandhelgi yrði bundin í lög, svo að það þyrfti að fara hér fram formleg og eðlileg breyt. á lögum á Alþ., til þess að hægt væri að koma slíkum samningum við.

Þær deilur, sem hér hafa nú orðið og eflaust eiga eftir að verða um fiskveiðilandhelgi Íslands, eru ekkert nýjar af nálinni hér á milli íslenzku stjórnmálaflokkanna eða forustumanna þeirra. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá mönnum, að ýmsir af forustumönnum Sjálfstfl. og Alþfl. hafa verið meira og minna á móti 12 mílna landhelginni, sem ákveðin var 1958, og af því fengust sjálfstæðismenn ekki til þess að vilja standa að útfærslunni þá, og af því voru sjálfstæðismenn í sífellu með alls konar aðfinnslur út af setningu reglugerðarinnar um 12 mílna landhelgina. Ég skal nefna hér aðeins eitt lítið dæmi um t.d. afstöðu hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar. Hann var strax í hópi þeirra manna, sem byrjuðu að ráðast á mig bæði leynt og ljóst fyrir útgáfu þessarar reglugerðar og finna henni allt til foráttu. Það var sagt, eftir að ákveðið var að standa að útgáfu þessarar reglugerðar, með stórum fyrirsögnum eins og venjulega í Alþýðublaðinu, að með þessari reglugerð væri beinlínis kveðinn upp dauðadómur yfir togara- og togbátaútgerð Íslendinga. Það sagði Alþýðublaðið. Mér var kennt um það, að ég væri að leggja togaraútgerð Íslendinga í rúst. Bjarni Benediktsson segir, — og það má finna í Morgunblaðinu 25. júní 1958, — þá segir hann á fundi á Suðureyri, orðrétt svona : „En getur útgerð togaranna staðizt, ef þeir eru allt árið alveg reknir af þessum miðum og samsvarandi miðum erlendis, svo sem gera verður ráð fyrir? Ég fer ekki dult með þá skoðun, að ekki sé fært annað en að leyfa þeim veiðar að einhverju leyti á viðbótarsvæðinu.“ Það komu sem sagt alveg strax upp hjá þessum hæstv. ráðh. áhyggjurnar af togaraútgerðinni, og þó að borin væri fyrir sig íslenzka togaraútgerðin, þá var allt annað og meira hér á bak við. Það var strax byrjað á því að kveinka sér undan því, að 12 mílurnar mundu hálfdrepa íslenzku togaraútgerðina, þó að allir þeir, sem þar þekktu til, vissu það, að íslenzkir togarar stunduðu sáralítið veiðar innan við 12 mílna mörkin, og það var engin ástæða til þess að veita íslenzkum togurum né auðvitað neinum öðrum togurum nein réttindi innan 12 mílna markanna. Við urðum hins vegar að gera það til þess m.a. að lokka Alþfl. til að standa með málinu. Það var eitt af skilyrðunum, sem hann gerði fyrir því að standa að útfærslunni í 12 mílur, að íslenzkum togurum yrði þó heimilað að veiða á tilteknum svæðum á tilteknum tímum innan landhelginnar, og Bjarni Benediktsson, núv. hæstv. dómsmrh., barði auðvitað bumbur í þessum efnum. Hann var að reyna að æsa upp Alþfl. allan tímann, að það væri verið að drepa togaraútgerðina og það yrði eitthvað að gera í þessum efnum. Það yrði að reyna að mynda einhverja smugu fyrir þá. Það hafði nefnilega verið þannig alveg frá upphafi, að þessir menn voru alltaf óheilir í landhelgismálinu. Þeir vildu ekki standa að útfærslunni. Þeir fundu útfærslunni allt til foráttu, vildu taka upp samninga við erlenda aðila og skoruðu jafnvel í Morgunblaðinu, nokkrum dögum áður en reglugerðin átti að ganga í gildi 1. september, — skoruðu þá jafnvel á ríkisstj. og aðra opinberlega að skjóta málinu þá, áður en reglugerðin gengi í gildi, undir sérstakan NATO-fund.

Á landsfundi sjálfstæðismanna, sem haldinn var 14. marz 1959, sagði Bjarni Benediktsson m.a. orðrétt um þessi atriði, þegar hann var að skýra út landhelgismálið og hvernig að því hefði verið staðið, — þá sagði hann orðrétt svona:

„Lúðvík Jósefsson réð, hvernig að var farið. Sök Guðmundar Í. Guðmundssonar er fólgin í því, að hann skyldi ekki hindra Lúðvík í þessu og gæta þess, að um landhelgismálið eitt væri hugsað.“

Meira að segja Guðmundur Í. Guðmundsson átti mikla sök 1958, að hann skyldi ekki hindra mig í því að gefa út 12 mílna reglugerðina, að dómi Bjarna Benediktssonar, núv. hæstv. dómsmrh. Svona var litið á þessi mál. Hæstv. forsrh. auðvitað var, eins og allajafna er hjá honum, miklu stórorðari í þessum efnum, sagði, að ég hefði ráðið stefnunni til góðs eða ills og til ills að sínum dómi í þessu máli. Þannig var það, að þetta hefur verið að grafa um sig allan tímann, fyrst andstaðan 1958, tregðan öll, og allir landsmenn vissu það, að Alþfl. var beinlínis dreginn á eyrunum til þess undir lokin að vera með. Honum var ógnað með því, að það skyldi efnt til kosninga og kosið um landhelgismálið, og þá guggnaði hann. Þetta vita allir landsmenn. Og framhaldið varð síðan það, eftir að þessir menn höfðu orðið að láta í minni pokann, útfærslan var framkvæmd, reglugerðin gekk í gildi 1. sept. 1958, og þjóðin öll stóð alveg einróma að framkvæmd málsins, þá auðvitað sá Morgunblaðið sitt óvænna og snarsneri við og fór að mæla með málstað Íslendinga og móti Bretum. En við vissum það, sem höfðum verið í fremstu víglínu í þessum málum allan tímann, að það lá hér undir falinn eldur. Það var hætta á, að sá eldur kæmist upp, og þegar svo fór, að þeir tveir flokkar náðu meirihlutaaðstöðu á Alþ., þeir sem nú fara með ríkisstj., Sjálfstfl. og Alþfl., og þegar þeir tveir menn höfðu forustu í landhelgismálinu, sem nú hafa það, hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh., þá vissu menn það, að þeir tveir hlekkirnir voru nú komnir í þetta, sem veikastir voru hjá Íslendingum að allra dómi. Og nú hvíldi allt á þessum tveimur veikustu hlekkjum. Menn þurfti því ekki að undra svo mjög á því, þó að þetta þróaðist í þá átt, sem það hefur þróazt, að það verði læðzt skref fyrir skref í málinu, fyrst farið að tala við Breta um samninga án þess að gefa þjóðinni það upp, síðan var það viðurkennt, að menn væru byrjaðir að tala, en væru bara í almennu snakki um málið, ekki stæði til að semja neitt. Síðan var farið að semja og svo stig af stigi, og svo í lokin, þegar samningurinn er fullgerður, er reynt að halda því að landsmönnum, að allt sé þetta gert til þess að bæta hag Íslendinga í landhelgismálinu. Þeir voru þá líklegastir til þess, þessir menn, sem að þessu standa, miðað við þá sögu, sem menn þekkja, að þeir eiga í þessu máli.

Eitt af því, sem hæstv. dómsmrh. lofaði hér í umr. á Alþingi varðandi þetta mál fyrir nokkru, var það, að það skyldi ekki koma til greina, að einstökum landshlutum yrði mismunað í sambandi við þá samningagerð, sem hér væri fyrirhuguð. Það var 27. okt., að hæstv. dómsmrh. sagði hér á Alþingi, orðrétt, sem hér segir um þetta atriði:

„Þá vil ég segja, að það kemur ekki til greina, eins og fullyrt hefur verið af hálfu stjórnarandstæðinga, að standi til að fórna hagsmunum einstakra landshluta vegna annarra.“

Menn treystu því, að það mundi vera ætlun ríkisstj., að þeir samningar, sem gerðir kynnu að verða, ættu að vera réttlátir í þessum efnum gagnvart hinum ýmsu landshlutum. En það hefur orðið harla lítið úr þessu loforði eins og fleiru. Samkvæmt þessu samkomulagi er gert ráð fyrir því, að erlend veiðiskip fái rétt til þess að veiða fyrir Austurlandi á ekki minna svæði en frá Langanesi og suður undir Reyðarfjörð, eða á hálfri strandlengjunni fyrir Austurlandi, — að þeir fái leyfi til þess að veiða á þessu svæði alla mánuði ársins, hvern einn og einasta.

Það er alveg greinilegt, að hinum erlenda vargi er alveg sérstaklega sigað á Austfirðinga með þessu samkomulagi. Enginn landshluti fer eins illa út úr því og hann samkvæmt þessu samkomulagi, að því leyti til, sem hægt er að dæma út frá heimildinni handa erlendum skipum til að ryðjast inn í landhelgina, því að á Austurlandssvæðinu fá erlendu skipin langlengstan tíma, og þeim er beinlínis heimilað að veiða þar á þeim tímum, sem eru allra viðkvæmastir fyrir útgerð á þessum slóðum. Það er engu líkara en það hafi verið fengnir einhverjir talsvert kunnugir til þess að velja þannig úr, að sem allra verst kæmi bátaflotanum á Austurlandi. Það er því engin tilviljun, að Austfirðingar hafa verið fljótari til en flestir aðrir og gert það verklegar en flestir aðrir að mótmæla þessum fyrirhugaða samningi, því að það má segja, að allur þorrinn af fólkinu á Austurlandi sé þegar búinn að láta álit sitt í ljós og annaðhvort skrifa undir skjöl og senda til Alþ. eða senda almennar fundarsamþykktir til þess að mótmæla þessu. Og það vekur sérstaka athygli auðvitað, að framámenn Sjálfstfl. á Austurlandi draga sig ekki í hlé í þeim efnum að mótmæla þessum samningi. Framámenn Sjálfstfl. þar um slóðir draga ekki af sér heldur. Það er svo sem eðlilegt. Hvernig ættu menn, sem búa á þessum slóðum og eiga allt sitt undir útgerð á þessu svæði, að geta, jafnvel þótt þeir vilji vera flokkshollir, léð samþykki sitt slíku sem þessu? á einni af stærri útgerðarstöðvum fyrir austan segja bæði útgerðarmenn og sjómenn, að þeir sjái ekki annað en þeir verði hreinlega að flytja sig um set og hverfa úr sinni heimabyggð, eftir að búið er að senda hinn erlenda skipaflota svona inn á þeirra mið. Það er nefnilega þannig, að það er svipað fyrir Austfjörðum og Vestfjörðum, að 12 mílna landhelgi er ekki breið skák, þar sem ekki er um neina flóa að ræða. Þetta er örmjó skák. Það er það versta, að menn, sem eru óvanir allri sjómennsku og þekkja ekki til aðstæðna, gera sér engan veginn grein fyrir því, hve lítið svæði hér er um að ræða. Venjulegur mótorbátur, þó að hann byrjaði að leggja línuna sína þannig, að hann hnýtti annan endann í bryggjuna inni í firði, þá fer hann langt út fyrir 12 mílurnar með hinn endann. Þannig er þessu varið. Venjuleg línulengd tekur frá 18 upp í 25 mílur á lengd. Það þarf því ekki að leggja mikið út frá landi, til þess að farið sé út fyrir 12 mílna mörkin. Sannleikurinn er sá, að 12 mílna mörkin á þessum svæðum, bæði fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum, hafa auðvitað verið allt of knöpp fyrir bátaútgerðina á þessum slóðum. En þegar búið er að heimila innlendum og erlendum togurum að koma upp að 6 mílna mörkunum, þá eru þeir komnir innan um alla opnu trillubátana og eru að fiska á þeirra slóðum. Það er vitanlega ekki eðillegt, að þeir, sem við slíkt sem þetta eiga að búa, taki því með neinum þökkum. Og ég er hræddur um það, að stjórnarflokkarnir eigi eftir að finna það á Austurlandi, en þar þekki ég bezt til, að þeim mun ekki verða þakkað þetta. Þeir eiga eftir að finna það, þegar þeir fara að heilsa upp á fylgjendur sína, ef þá hæstv. ráðh. hafa fyrir því að koma til Austurlandsins, eftir að þeir hafa samþ. þetta.

En sú skýring er kannske á þessu, að Sjálfstfl. hefur ekki átt ýkjamikið fylgi á Austurlandi. Alþfl. var búinn að brenna sitt af sér nokkurn veginn, — og það sé þá skýringin, að stjórnarflokkarnir segi, að það geri ekki svo mikið til, það þurfi að hleypa Bretanum einhvers staðar inn og þá sé kannske ódýrast upp á atkvæði að senda þá þangað. En ekki er það mikilmannlegt eigi að síður að gera þetta á þennan hátt og það ofan í slíka yfirlýsingu eins og hæstv. dómsmrh. hafði gefið hér á Alþ. um það, að einstökum landshlutum skyldi ekki verða mismunað í sambandi við þá samninga, sem hér ætti að gera.

En það er eins og, ég hef sagt áður, að það atriði að hleypa erlendum veiðiskipum — og þá sérstaklega togurum — inn í fiskveiðilandhelgina, það er þess eðlis, að það getur aldrei komið þannig út, jafnvel þó að til þess væri ætlazt, að það geti verið eingöngu tjón fyrir þá aðila, sem verða fyrir mestum ágangi á sínum heimamiðum í svipinn. Ef erlendur floti ryðst upp að Austurlandi og Norðurlandi, eins og ætlað er, og meginhluta Suðurlandsins jafnlangan tíma og gert er ráð fyrir, þá hlýtur það að koma fram í því, að fiskstofnarnir við landið verða fyrir miklum ágangi, og það mun bitna síðan á fiskveiðunum annars staðar. Við vitum það, það er alþekkt staðreynd, að göngufiskurinn við Ísland, sem okkar veiði byggist á, ferðast í kringum landið. Fiskur, sem merktur er hér í Faxaflóa, er veiddur úti fyrir Vestfjörðum eftir einn eða tvo mánuði, og fyrir Austfjörðum er fiskur, sem merktur kann að vera hér, veiddur eftir stuttan tíma. Það getur aldrei orðið björgun fyrir þá á Vestfjörðum, jafnvel þó að þeirra litla svæði sé tekið út úr og þangað eigi ekki að hleypa togurum inn þennan tíma. Þá vantar fljótlega fiskinn, sem þangað átti að koma, ef búið er að hleypa hinum erlenda vargi á fiskgöngurnar annars staðar. Þetta verður því sameiginlegt skipbrot fyrir alla fiskimenn landsins og fyrir alla þjóðina. Hitt er svo líka augljóst mál, að það verða fleiri en Austfirðingar, sem fara illa út úr þessu í fyrstu lotu. Þeir vita alveg, hvað þeir eru að segja núna, útgerðarmennirnir og sjómennirnir á Snæfeilsnesi, þegar þeir benda á það, að þau svæði, sem brezkir togarar eiga að fá á þeirra fiskislóðum úti fyrir Snæfellsnesi, eru þeirra beztu veiðisvæði. Það er haft eftir einum þekktum formanni þar, að nú muni ástandið verða þannig hjá honum í vetur, að það verði ekki aðeins, að brezku togararnir fari með aflann frá honum, heldur mun hann jafnvel koma í land veiðarfæralaus líka, af því að nú á að stefna togurunum inn á þau svæði, þar sem bátarnir hafa haft netin sín fram til þessa og þurfa a,ð hafa netin sín, ef þeir eiga að veiða. Eitt bezta fiskisvæði úti fyrir Snæfellsnesi er við Kolluálinn. Bretar fá aðstöðu til að toga þannig, að þeir geta beinlínis lokað fyrir allar fiskgöngur, sem ganga upp með Kolluálnum. Þetta er dómur einmitt fiskimannanna þarna að vestan.

Það er enginn vafi á því, að mikil spjöll verða af þessu fyrir bátaflotann um allt land, og sérstaklega er hætt við því, að hér verði um mikið fjárhagslegt tjón að ræða, þegar fram líða stundir. Eða hvað er að segja um síldveiðarnar fyrir Norðurlandi? Nú síðustu árin hefur það verið eitt aðalumkvörtunarefníð hjá íslenzkum skipstjórum, hvað veiðiflotinn íslenzki væri allt of stór, með alla þá tækni, sem hann hefur yfir að ráða núna. Okkar gleggstu veiðimenn hafa bent á það, að síldin fær aldrei aðstöðu til þess að komast upp á yfirborðið. Mælarnir eru í gangi í bátunum um allan sjó, flotinn er stór, á þriðja hundrað skip, og þeir finna torfurnar langt niðri í kafinu og eru strax komnir á torfuna, þegar hún lyftir sér upp, og halda henni þannig, að síldin nær ekki að vaða, vegna þess að tæknin er orðin svona mikil, og þessi veiðifloti er farinn að jafngilda margfalt stærri veiðiflota, sem áður var á miðunum, að veiðigetu. En upp á hvað er nú boðið hér af hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum? Það er ekki aðeins allur íslenzki flotinn, sem fær nú leyfi til þess að veiða á þessum slóðum, heldur geta Norðmenn komið með allan sinn veiðiflota fyrir öllu Norðurlandi og Austurlandi yfir allan síldveiðitímann upp að 6 mílum. Það er aðeins smáblettur Landmegin við Grímsey, sem er undanskilinn. En á öllu hinu svæðinu, sem síld hefur veiðzt á nú síðustu árin, vestan frá Horni, fyrir öllu Norðurlandi og suður undir Reyðarfjörð á Austfjörðum, — á öllu þessu svæði má erlendi síldarflotinn vera yfir allan síldveiðitímann upp að 6 mílum. Og það er eins og ég sagði, það er ekki aðeins boðið upp á það, að þangað komi allur norski flotinn, heldur einnig allur færeyski flotinn, sem stundar síldveiðar, og hann er stór. Svo er það beinlínis tekið fram hér líka, að Rússar megi koma með allt sitt. Þeir eiga langstærsta síldveiðiflotann hér í Norður-Atlantshafi. Hann er svo stór, að norski fiskifræðingurinn Devold sagði frá því nú nýlega, að hann hefði á sínu fræga rannsóknarskipi, G.O. Sars, keyrt það í gegnum rússneska síldveiðiflotann úti fyrir Noregi, og hann hefði stímað þar á 12 mílna ferð á sínu skipi í gegnum rússneska flotann og það hafi tekið sig 41/2 klukkustund að fara í gegnum flotann, slík borg hefði verið þarna úti. Rússum er boðið upp á þetta eins og öðrum, upp að 6 mílum. Halda menn ekki, að það verði gaman að vera á síld, þegar ástandið er orðið svona? Halda menn ekki, að það sé girnilegt fyrir okkar þjóðarbúskap að eiga að treysta á veiðar, eftir að svona er búið að búa að hlutunum? Ég vil spyrja hæstv. ríkisstjórn: Hefur hún fengið í sambandi við þessa ákvörðun umsögn einhverra manna, sem eitthvert vit hafa á þessum málum, í sambandi við möguleika til síldveiða? Hefur hún meðal annars fengið ráðleggingar fiskimálastjóra til þess að haga málunum á þennan hátt? Það væri mjög fróðlegt að fá það upplýst hér á Alþingi, hvort fiskimálastjóri landsins, sem hefur verið trúnaðarmaður ríkisstj. í þessum efnum, hefur mælt með því að haga málunum á þennan hátt? Ég fullyrði það, að verði þessi háttur á, að norska flotanum verði boðið hér inn, færeyska flotanum boðið hér inn að 6 mílum, á öllu þessu svæði, ásamt með íslenzka flotanum, og Rússum einnig boðið, þá verður ómögulegt fyrir íslenzku skipin að veiða á þessu svæði. Eina leiðin, sem ég er sannfærður um, að góðir skipstjórar líka mundu fara, væri að flýja sem lengst frá Íslandi út í haf og reyna að fiska eitthvað þar. Það ætti svo sem eftir að verða útkoman úr þessu, að Íslendingar yrðu að hrekjast af sínum eigin heimamiðum, af því að ríkisstjórnin væri búin að selja þau á leigu til erlendra aðila.

Það er enginn vafi á því, að hættan af því að veita erlendum aðilum þessi réttindi er gífurlega mikil.

Svo er hitt atriðið, sem oft hefur verið bent á, að allri veiðitækni, einnig meðal brezkra skipa, hefur fleygt alveg gífurlega fram og fleygir nú fram með hverju ári. Það er enginn vafi á því, að á næstu þrem árum, sem Bretar eiga að fá þessi réttindi, fleygir veiðitækninni áfram fram, og þeir munu því geta gert hér miklu meiri usla á okkar miðum á þessu tímabili en flesta grunar. Svo eru menn að bera þetta saman við það, sem Íslendingar hafa búið við um 21/2 árs skeið, þegar segja má, að okkar fiskimið hafi verið fyrir erlendum veiðiskipum betur friðuð en nokkurn tíma áður, nema þá aðeins að stríðsárunum einum undanskildum. Það vita allir, að brezku togararnir gátu ekkert veitt hér við land og veiddu ekki neitt. Þeir veiddu ekkert orðið hér undir þessari herskipavernd. Þeir gátu það ekki, því að slíkt er óframkvæmanlegt. Þegar þeir hótuðu okkur því árið 1958, áður en kom til útfærslunnar, að þeir mundu beita þessari aðferð, þeir mundu senda sín herskip hingað og láta gæta flotans síns, þá sögðu margir það, í þeirra hópi var ég, — ég brosti að þeim og sagði þeim, að þetta væri óframkvæmanlegt, þeir mundu reka sig á það, að svona gæti enginn maður fiskað við Ísland, það væri útilokað að stunda fiskveiðar með þessum hætti, og þeir hafa auðvitað viðurkennt það síðan sjálfir, margviðurkennt það í brezkum blöðum, og þetta er óframkvæmanlegur hlutur, þetta er ekki hægt, ekki með neinum árangri.

Ég hef sagt það áður, að mig hefði langað mjög til þess, miðað við aðstöðuna til friðunar á Íslandsmiðum, að semja beinlínis við Breta um það, að þeir héldu áfram í eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár þessari vitleysu, sem þeir voru að gera hér, vegna þess að það, sem þeir kroppuðu inni á landhelginni hjá okkur, skipti okkur engu máli, það var svo ómerkilegt. En það var annað, sem þeir gerðu fyrir okkur. Þeir lokuðu skipin sín, sem hér voru, í þröngum básum undir herskipastjórn, en meginhlutinn af fiskveiðisvæðinu fyrir utan 12 mílur var algerlega laus við öll skip. Bátasjómennirnir okkar, sem voru að róa norðan til á Austfjörðum, sögðu: Við höfum aldrei lifað svona dægilega daga. Nú getum við róið út í okkar 50 mílur. Við sjáum ekki togarareyk nokkurs staðar. — Þá var ekki aðeins friðað svæðið innan 12 mílna, heldur út í 50 mílur, af því að Bretar höfðu geymt skipin sín í verkleysi inni í smábás einhvers staðar við landið, og þar gátu þau ekkert fiskað. Þetta var langbezta ráðstöfunin, sem var hugsanleg fyrir fiskfriðunina við Ísland. Eins og ég sagði, hefði ég gjarnan viljað semja við þá um að halda áfram svona fíflaskap, því að það var bezt fyrir okkur. En það hefði auðvitað ekki tekizt, vegna þess að þeir voru orðnir uppgefnir á þessu og sáu, að þetta var eintóm vitleysa frá upphafi til enda, og eini tilgangurinn með þessari vitleysu var sá, að þeir voru að reyna með þessu að hóta Íslendingum: Þið verðið að semja við okkur, við erum hér enn með herskipin. — Og annaðhvort var það, að það voru svo svikulir ráðamenn Íslendinga, sem stjórnuðu þessum málum í ríkisstjórn Íslands, eða skilningslausir á það, hvað var að gerast í þessum efnum, að þeir glæptust á að fara að semja við Breta, semja þá út úr þessari klípu, sem þeir voru í.

Það er því argasta öfugmæli í þessum efnum, að það hafi legið á okkur einhver pressa til þess að leysa þessa deilu, við hefðum þurft að leggja eitthvað á okkur til þess að leysa deiluna. Nei, það voru Bretar, sem þurftu þess mjög með að fá einhverja til þess að leysa deiluna fyrir sig. Það er sannleikur málsins. Það var leiðinlegt fyrir brezka heimsveldið að snauta heim eins og rakki eftir að hafa tapað deilunni hér að fullu og öllu, snúa skipum sínum héðan í burtu, gefast upp að fullu og öllu. Og af því var það vitanlega miklu betra fyrir þá, þegar svona var komið og þeir vissu, að þeir hefðu tapað öllu, að ná í einhvern samning sem þennan, þegar sá samningur getur í fyrsta lagi veitt þeim hér mikil réttindi til að skaka hér a.m.k. þrjú ár, og auk þess veitir þeim þau stóru réttindi að binda hendur Íslendinga í framtíðinni með það, sem var orðið knýjandi fyrir þá að fara eð gera. Það var vitanlega alveg augljóst mál, að þó að 12 mílna landhelgin sjálf væri okkur dýrmæt og þýðingarmikil, þegar við vorum að færa úr 4 mílum, þá vissum við það, að það var okkur lífsnauðsyn að fara að vinna að því að ná í önnur þýðingarmikil svæði fyrir utan 12 mílur. Við vissum það, að allir stærri mótorbátar okkar, sem til dæmis stunda veiðar með línu, veiða næstum allan fisk sinn fyrir utan 12 mílur, en minni bátarnir hins vegar eru á grunnmiðunum, og grunnmiðin friðuð þýða það í framkvæmd, að við fáum fisk fyrir utan. Það, sem skipti því miklu máli fyrir okkur, var að halda friðuninni innan 12 mílna hringsins og fara að færa okkur út fyrir, eftir því sem tök voru á, og ná okkur í þau svæði, sem þar voru dýrmætust. En þá gerir ríkisstj. þennan ólukkusamning, sem bindur hendur okkar þannig, að það eru engar líkur til þess, ef þessi samningur verður gerður, að við getum fyrst um sinn náð nokkrum rétti fyrir utan 12 mílur.

Það hefur verið hér játað af hæstv. ríkisstj. um ákvæðið í þessu samkomulagi, sem skuldbindur Íslendinga til þess að tilkynna Bretum um alla frekari útfærslu og skjóta ágreiningi undir alþjóðadómstólinn, að þar sé um að ræða óuppsegjanlegt ákvæði, — ákvæði, sem eigi að standa um alla framtíð. Þetta hefur verið játað hér. En hafa menn gert sér grein fyrir því í þessum efnum, þegar þeir eru að gera milliríkjasamning, sem á að binda þjóðina um alla framtíð, — hafa þeir þá gert sér grein fyrir því, hvílíkar feiknalegar breytingar hafa verið að verða í þessum málum öllum síðustu áratugina? Við vitum, að um síðustu aldamót og árin þar á eftir var það víðast hvar viðurkennt, að 3 mílna landhelgi væri allsæmilegt friðunarbelti. Þá var veiðitæknin á því stigi, að þetta var talið mjög sæmilegt. Nú benda menn á, að 12 mílna belti sé raunverulega orðið miklu minna, borið saman við alla veiðiaðstöðu, heldur en 3 mílna beltið var t.d. um síðustu aldamót. Ég minnist þess í þessum efnum að hafa hlustað á umr. á sjóréttarráðstefnunni í Genf, þar sem einmitt var verið að ræða þessi efni, um gömlu 3 mílna landhelgislínuna og svo aftur 12 mílna línu nú. Þar var mest um að ræða umr. varðandi almenna landhelgi, en ekki aðeins fiskveiðilandhelgi, sem við tölum nú mest um. En eigi að síður er hér um alveg sams konar breytingu að ræða í báðum tilfellunum. Ég man þá eftir því, að einn af ræðumönnunum komst að orði eitthvað á þá leið, að þegar 3 mílurnar hefðu gilt sem almenn landhelgi, miðuðust þær við það, að ekki væri um það leyti, þegar hún var fyrst og fremst eða aðallega viðurkennd, að þá væri ekki hægt að skjóta fallbyssukúlu lengra en þessar 3 mílur, eða tæplega það, og við það hafa mörkin þá verið miðuð, vegna þess að það þótti eðlilegt að hafa slík friðunarbelti tilheyrandi strandríkinu, að óviðkomandi aðili gæti ekki komizt nær en þannig, að hann gæti tæplega skotið til lands frá ytri mörkum svæðisins með þeirri tækni, sem þeir réðu þá yfir. En hvað eru svo 12 mílurnar nú miðað við þá tækni, sem nú er þekkt, jafnvel þó að við miðum ekki við það, hvað menn geta skotið langt? Þessi ræðumaður komst að orði eitthvað á þá leið: Nú hefði tækninni þannig fleygt fram, að segja mætti, að sá, sem væri í 12 mílna fjarlægð frá ströndinni, hefði álíka aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem í landi væri að gerast, eins og sá, sem legðist hreinlega á gluggann hjá nágrannanum og kíkti inn. Slík stórfelld breyting hefði orðið í öllum greinum, og því væri 12 mílna beltið nú sízt af öllu meira en 3 mílna beltið hefði verið á sínum tíma, heldur miklu fremur minna, og á því væri enginn vafl, að við yrðum að reikna með því, að í framtíðinni yrði hér um enn þá víðara belti að ræða og alveg sérstaklega þar sem rætt væri um fiskveiðar. Ég er ekki heldur í nokkrum vafa um það, að sú mun þróunin verða, að eftir nokkur ár verður 12 mílna beltið viðurkennt sem almenn landhelgi, nokkurn veginn með öllum þjóðum í heiminum, og þá þykir það alveg, sjálfsagt, að strandríki hafi ekki aðeins 12 mílna fiskveiðilandhelgi, heldur hafi strandríkið miklum mun stærri fiskveiðilögsögu út frá sínum ströndum.

Á það hefur réttilega verið bent, að til þess getur komið og er raunverulega komið það ástand, að það sé nauðsynlegt, að einhver aðili hafi lögsöguvald yfir þeirri starfsemi, sem fram fer fyrir utan 12 mílna mörkin, þar sem margar þjóðir kunna að vilja stunda veiðar. Fiskimiðin eru oft tiltölulega lítil, og veiðiflotinn getur verið stór, og aðstaða er orðin þannig, að meira að segja veiðifloti frá einu landi getur svo að segja lagt undir sig stór fiskisvæði fyrir utan 12 mílurnar með því að liggja þar stöðugt. Það er því þegar komið upp það ástand, að það getur verið nauðsynlegt, að það sé einhver lögformlegur aðili, sem hafi rétt til að halda uppi eðlilegum lögum og reglu meðal þeirra, sem veiðar stunda á svæðinu fyrir utan 12 mílurnar. Þetta er þegar að verða aðkallandi. En með því að fara þá leið, sem lagt er til að farin verði í þessari till., að við eigum að binda okkur um alla frekari útfærslu við úrskurð alþjóðadómstólsins, þá má búast við því, að við verðum í hópi þeirra, sem hægast fara í þessum efnum, vegna þess að það er viðurkennd staðreynd, að dómstóllinn sjálfur er alltaf alllangt á eftir þeim reglum, sem þjóðirnar eru meir og minna búnar að taka sér, jafnvel af beinni nauðsyn.

Hvað mundu menn t.d. hér á Íslandi segja um það, ef það gerðist, að t.d. á næsta áratug eða svo færi hver þjóðin af annarri að lýsa yfir hjá sér 20 mílna fiskveiðilandhelgi og þær kæmust upp með það, það yrði ekki haft á móti því frekar en nú hefur verið haft á móti 12 mílunum hjá öllum nema Íslendingum, en hins vegar værum við bundnir samkvæmt þessu samkomulagi við Breta við það, hvort alþjóðadómstóllinn vildi dæma þetta löglegt eða ekki? Nú höfum við Íslendingar haldið því fram, að við hefðum meiri þörf en allar aðrar þjóðir fyrir stóra fiskveiðilandhelgi vegna þess, hvað efnahagur okkar er bundinn við fiskveiðarnar. Ég er hræddur um, að mönnum mundi líða allilla hér á Íslandi, þegar þeir sæju það, að hver þjóðin af annarri tæki sér 20 mílna landhelgi, en við værum bundnir þar við 12. Og ég er hræddur um, að ef það ástand kæmi upp, að hver þjóðin af annarri lýsti yfir fullkominni lögsögu hjá sér yfir öllu sínu landgrunni og þjóðirnar kæmust upp með það, þá þætti mörgum súrt í brotið hér að vera bundinn af því að bíða eftir því, að alþjóðadómstóllinn vildi slá þessari reglu fastri sem alþjóðalögum, — en slíkt gerir dómstóllinn ekki, fyrr en slíkar framkvæmdir þjóðanna eru orðnar svo almennar, að það megi segja, að meiri hluti þjóðanna sé búinn að löghelga þessa reglu.

Hér er því vissulega um mjög varhugavert atriði að ræða, að ætla að binda okkur með milliríkjasamningi þannig, að við eigum að vera bundnir um alla framtíð því ákvæði að mega ekki færa fiskveiðilandhelgina frekar út en nú er orðið nema samkvæmt því, sem alþjóðadómstóllinn kann að viðurkenna.

En það er margt fleira en hér hefur verið minnzt á í sambandi við þennan samning, sem er æði einkennilegt. Hér er gert ráð fyrir því að gera milliríkjasamning, sem meira að segja á að gilda um svo mikilvæg atriði eins og ég var að tala um um alla framtíð. En hvaða form á að nota til þess að gera þennan milliríkjasamning? Hann er ekki í því formi, sem algengast er með milliríkjasamninga. Þessi samningur á að vera í formi svonefndra nótuskipta, þannig að utanrrh. Íslands sendir utanrrh. Bretlands tiltekna nótu, sem er birt með þessu þskj. og er meira að segja ódagsett, og er sýnilega gert ráð fyrir því, að utanrrh. Bretlands eigi að lýsa því yfir, að hann fallist á þessa nótu. Það er alls ekki gert ráð fyrir því, að neinn undirskrifi þetta út af fyrir sig. En það er ekki nóg með það, að það er valið í þessu efni lakasta form, sem hægt er að velja í þessum efnum á svo mikilvægum samningi, og þetta er yfirleitt ekki gert nema þar, sem er um að ræða samkomulag á milli ríkisstjórna, sem þá venjulega gildir aðeins til eins árs eða svo, — þá er farin þessi leið með nótuskiptum, — en um meiri háttar samninga ríkja á milli er gildandi allt annað form. En það er ekki nóg með það, að þetta sérkennilega form er hér valið, heldur er sú aðferð, sem hugsuð er hér til afgreiðslu á málinu á hv. Alþingi, líka alveg óvenjuleg. Það er ekki gert ráð fyrir því að gefa þessu samkomulagi lagagildi á Íslandi, heldur er aðeins gert ráð fyrir því að afgreiða málið á Alþingi með almennri þál., þar sem ríkisstj. er heimilað að leysa málið á þennan sérstaka hátt. Við Íslendingar höfum gert fleiri milliríkjasamninga en þennan, og það hefur þótt nauðsynlegt með þá ýmsa að gefa þeim sérstakt lagagildi og leggja þá fram hér á Alþingi í lagaformi og binda þá þannig. En þegar menn athuga þetta mál nánar, sjá þeir það líka, að á því leikur enginn vafi. að það samkomulag, sem hér er hugsað að gera, breytir gildandi lögum á Íslandi. Það breytir landgrunnslögunum frá 1948, þar sem Ísland lýsir yfir lögsögurétti sínum yfir öllu landgrunninu. En það er hins vegar tekið fram í 2. gr. þeirra laga, að framkvæma skuli þau lög í samræmi við gerða milliríkjasamninga. Um leið og þessi milliríkjasamningur er gerður, takmarkast fyrri lögin, frá 1948, við þennan samning, eða m.ö.o. á að samþykkja hér á Alþingi þál., sem raunverulega felur í sér breytingu á íslenzkum lögum. Því hefur verið lýst yfir hér á Alþingi áður, að það sé ekki hægt að breyta gildandi lögum með þingsályktunum frá Alþingi. Það er enginn vafi á því, að þessi afgreiðsla, sem hér er valin, er óeðlileg og ekki í samræmi við þær skýringar í þessum efnum, sem hér hafa verið gefnar áður. En ríkisstj. velur þessa leið að ætla að gera milliríkjasamning á þennan hátt samkvæmt þáltill., vegna þess að það er hægt að afgreiða þáltill. með enn þá meiri hraða í gegnum þingið, þannig að alþm. og allra sízt þjóðinni gefist eins tækifæri á því að fylgjast með því, sem raunverulega er verið að gera. Hér hefði auðvitað verið miklu eðlilegra, að þannig hefði verið staðið að málinu, að lagður hefði verið fyrir Alþingi fullkominn samningur í venjulegum samningsbúningi og um málið hefði síðan verið flutt frv. á Alþingi, sem hefði auðvitað átt að fá afgreiðslu í gegnum 3 umr. í hvorri d. eða 6 umr. samtals hér á Alþingi, en ekki ætla að afgr. málið á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. meira að segja gerði ráð fyrir að hægt væri, að afgreiða það með þáltill. og einni umr.

Hér hefur nokkuð verið minnzt á það í þessum umr., hver hafi orðið viðbrögð bæði Íslendinga og útlendinga í sambandi við þetta samkomulag ríkisstj. við Breta. Hv. frsm. meiri. hl. utanrmn. sagði í ræðu sinni í kvöld, framsöguræðu sinni fyrir málinu, að hann teldi,. að það, sem mælti m.a. með þessu máli, væri það, að ýmis samtök hefðu beinlínis lýst yfir fylgi sínu við málið og hann taldi svo upp nokkur samtök, sem hefðu sent frá sér samþykki við málið. En hann skýrði það lítið í sínu máli, hverjir það raunverulega eru, sem standa að þessum umsögnum, sem mælt hafa með þessu máli. Þar í hópi var m.a. stjórn Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. Mikið held ég að það hafi að segja í þessum efnum. Það auðvitað hefur ekki farið neitt leynt, að Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda hefur allt verið á móti 12 mílna landhelginni við Ísland allan tímann, og ýmsir forustumenn þar hafa ekki dregið það neitt við sig að lýsa því yfir, að þeir væru andvígir þessari útfærslu og teldu, að heimila ætti togurum að veiða innan þessara marka. Meðmæli frá þessum aðilum segja því ekki neitt annað en það, að þeir, sem hafa verið á móti aukinni fiskfriðun hér á grunnmiðunum, eru hér að mæla með samþykkt þessa samkomulags. Stjórn Landsambands ísl. útvegsmanna segir nú líka harla lítið, því að helmingurinn í stjórninni þar er togaraeigendur, en hins vegar hafa margfalt fleiri útvegsmenn úr hinum ýmsu verstöðvum landsins, margfalt fleiri menn en þeir, sem skipa stjórn Landssambands Ísl. útvegsmanna, mótmælt við Alþingi þessu samkomulagi. Jú, svo er bæjarstjórnarmeirihluti íhaldsins hér í Reykjavík með Alþýðuflokksmanninn í slefi, eins og venjulega, og meiri hl. stjórnarflokkanna í bæjarstjórninni á Siglufirði. Þetta segir nú ekki stóra sögu. Ríkisstj. hefði alveg eins getað hælt sér af því, að hún væri búin að telja í flokkum sínum þá þingmenn, sem hún er með hér á Alþingi, og þeir ætluðu að samþykkja málið. Hún hefði þó fengið hærri tölu út úr því en út úr þessu. Slíkt vitanlega segir ekki nokkurn skapaðan hlut.

Jú, það er rétt, það eru hér raunverulega tveir aðilar, sem nafn er gefandi af þeim, sem hv. frsm. utanrmn. tilnefndi hér og hafa mælt með samþykkt þessarar till. — það eru tveir aðilar, sem raunverulega er nafn gefandi í þessum efnum. Annað er skipstjórafélagið í Vestmannaeyjum, sem mun hafa samþykkt með 41 atkv. gegn 3 að mæla með þessari samþykkt. Hitt var vélstjórafélagið, sem samþykkti með 16 atkv. að mæla með þessu frv., en báðir þessir aðilar samþykktu meðmæli sín þann 1. marz eða einmitt um það leyti, sem var verið að marglesa yfir landsmönnum ósannindin öll frá ríkisstj. í grg. frv. um það, hvað í því fælist. Þá samþykktu þeir það. Því er ekki að neita, að eftir að ríkisstj. lagði málið hér fram og var svo að segja ein um áróðurinn fyrstu tvo dagana, lagði undir sig útvarpið á hinn ósvífnasta hátt og sagði jafnvillandi og nú er margbúið að sanna frá innihaldi málsins í blöðum sínum, þá voru auðvitað ýmsir, sem hikuðu og sögðu: Ja, er þetta nú bara svo mjög bölvað? En þegar þessir aðilar voru búnir að hlusta á útvarpsumræðurnar, þegar þeir voru búnir að heyra frá fleiri hliðum, hvað raunverulega felst í málinu, þá sneru þeir við blaðinu, og ég spái því, að það verði ekki margir dagar þangað til skipstjórar þessir, líka í Vestmannaeyjum, sem þetta hafa samþykkt, koma til ríkisstj. og bölva þessu plaggi. Það þarf ekki að segja mér það, að þeir fallist á það sem eitthvað gott að fá erlendan togaraflota inn á netasvæðin sín, eins og þeir koma til með að fá. En það er alveg rétt hjá þessum skipstjórum í Vestmannaeyjum, að hér væri verið að fá mjög stóra sneið af Selvogsbanka, sem þeir höfðu þráð að fá í langan tíma inn fyrir landhelgislínuna, og það, sem þeir voru raunverulega að samþykkja á þessum fundi, var það, að þeir samþykktu að fá þessa sneið af Selvogsbanka inn fyrir landhelgislínuna, það vitum við. En ég hefði gaman af að sjá það, þar sem ég þekki allmarga þessara manna, að þeir syngi því lof og prís, þegar þeir koma á síldveiðarnar í sumar. Ég hefði gaman af að vita um það, hvort þeir óska þá eftir því að endurtaka það, að þeir samþykki þetta plagg. Það mætti segja mér, að þegar fer að líða svolítið á netatímann þeirra, þættust þeir illa sviknir.

Þetta var líka svona á Snæfellsnesinu. Morgunblaðið birti það mjög hreykið eftir skipstjórum þaðan, að þeir hefðu sagt, að þetta væri ágætislausn, — sú bezta, sem þeir hefðu getað hugsað sér. En hvað svo: Þegar þeir voru búnir að sjá innihaldið og átta sig, þá mótmæltu þeir allir, þá skrifuðu þeir undir plögg og sendu Alþingi og mótmæltu allir.

Svo má búast við því, að meira en helmingurinn hafi verið lygi af því, sem Morgunblaðið sagði.

En hinir, sem samþykktu meðmælin, stjórn matsveinafélagsins, — síðan hafa flestir starfandi matsveinar sent skriflega mótmæli sín. Þeir ættu heldur að veita því athygli.

Stjórn Farmannasambandsins er ein af þessum góðu stofnunum, sem aldrei hefur haft neinn áhuga á útfærslu landhelginnar fram til þessa.

Svo var eitt félag lesið hér upp, og það heitir Útvegsmannafélagið á Akranesi. Ég hefði haft gaman af því að fá svolitlar upplýsingar um það, ég veit, að það eru varla til þar nema 5 útgerðarmenn, sem eiga nokkuð af bátum, fyrir utan trillumenn. Ég hygg, að þeir séu fjórir eða fimm, útgerðarmennirnir þar.

En svona má rökstyðja sitt mál, að benda á þessar umsagnir sem sönnun fyrir því, að almenningsálitið sé með þessum samningi. Þeir hafa bara fengið meðmælasamþykktir. En það er auðvitað stigið yfir það, þó að til Alþingis hafi komið, nú eftir að þetta samningsuppkast kom fram, skrifleg mótmæli margra hundraða, í fyrsta lagi frá fjölmennum fundum, sem haldnir hafa verið. Mér er t.d. kunnugt um það, að svo að segja, úr hverju einasta byggðarlagi á Austurlandi hafa nú komið mótmæli frá almennum fundum og þar sem kjósendurnir á viðkomandi stöðum hafa almennt skrifað undir mótmælaorðsendingu til Alþingis. Allir skipstjórarnir og allir útgerðarmennirnir, bæði heimamenn og aðkomumenn, á Hornafirði hafa sent hingað til Alþingis skrifleg mótmæli, og síðan kom tilkynning um það, að um 160 kjósendur þar á staðnum ásamt 56 aðkomumönnum á Höfn í Hornafirði hefðu skrifað nöfn sín undir mótmælaskjal til Alþingis út af þessum samningi. Þar í hópi eru fremstu menn Sjálfstæðisflokksins.

Hér í Reykjavík var haldinn í Austurbæjarbíói líklega um þúsund manna fundur, annar fundur var haldinn hér í Framsóknarhúsinu, líklega 300–400 manna fundur, um 250–300 manna fundur var haldinn á Akranesi. 200–250 manna fundur var haldinn á Ólafsvík, og þannig mætti lengi telja, þar sem menn hafa svo að segja einróma mótmælt þessu samkomulagi. En auk þessa hafa svo borizt til ríkisstj. og til Alþingis undirskriftir og mótmæli margra þúsunda Íslendinga gegn því, að ríkisstj. semdi við Breta um þetta mál.

Það er vitanlega þýðingarlaust fyrir hæstv. ríkisstj. að ætla að halda því fram, eins og hún reynir nú, að fyrri mótmæli, sem borizt hafa frá mönnum víðs vegar af landinu varðandi þetta mál, að þær umsagnir gildi ekki, þau mótmæli gildi ekki gagnvart þessu samkomulagi, sem nú hafi fram komið, vegna þess að þessi mótmæli voru öll þannig orðuð, að aðilarnir mótmæltu því, að samið væri við Breta um nokkurn minnsta undanslátt frá 12 mílna mörkunum. Hér stendur til að gera undanslátt frá 12 mílna mörkunum. Hér stendur til að gera undanslátt frá 12 mílna mörkunum og semja við Breta um það, og því standa öll þessi fjölmörgu mótmæli, sem hingað hafa borizt áður, í fullu gildi. En ríkisstj. vill bara líta fram hjá þessu, hún vill ekki minnast á þetta, en hins vegar fara fleiri orðum um það, hvað stjórnin í matsveinafélaginu og hvað togaraeigendur hafa sagt í málinu, svo að ég tali nú ekki um það, hvað útlendingar hafi sagt um þessa samninga.

En allir þeir, sem fylgzt hafa með landhelgismálinu á undanförnum árum, vita það mætavel, hvaða boðskap brezk blöð og reyndar blöð í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum hafa yfirleitt flutt varðandi landhelgismál okkar Íslendinga. Það, sem brezku blöðin og þessir brezku aðilar, sem aðallega er nú verið að hafa ummæli eftir, hafa fyrst og fremst verið að segja núna, það er, að það sé fjandi hart, að brezka ríkisstj. skuli ekki hafa getað fengið jafngóðan samning við íslenzku ríkisstj. og hún hafi fengið við Noreg, en þar fékk hún heimild til þess, að brezku skipin mættu veiða í 10 ár. Ef þetta getur heitið stuðningur við þann samning, sem hér er verið að gera, að þessir fjendur okkar í Bretlandi skuli vera óánægðir með það, að þeir hafi ekki fengið heimild til þess að veiða enn þá lengur, þá er ekki nokkur vafi á því, að þó að ríkisstj. hefði í þessu samkomulagi heimilað brezkum togurum að veiða fyrir innan í 5 ár eða 7 ár, þá hefðu þeir verið jafnóánægðir, þeir hefðu sagt: Af hverju fenguð þið ekki 10? Íslendingar áttu aldrei rétt á neinu, hafa þeir allan tímann sagt, þetta er eftirgjöf, eins og þeir segja í sumum blöðunum, mesta eftirgjöfin, sem við gátum hugsað okkur, brezkir sjómenn, var að heimila, að Bretar fengju þó að veiða þarna í 10 ár. — Þeir eru óánægðir yfir því að hafa ekki fengið í samninginn ótvíræð ákvæði um það að hafa hér heimild til veiða í meira en þessi 3 ár. En hinu ber svo ekki að leyna, að í þessum brezku blöðum kemur það yfirleitt fram og það hjá öllum þeim, sem betur þekkja til í þessu máli, að þeir fagna því, þessir aðilar, að það skuli þó hafa tekizt að fá samkomulag við Ísland um það, að um frekari útfærslu verði ekki að ræða, og því megi, eins og hið þekkta blað, Fishing News, sagði, vænta þess, að fiskveiðilandhelgin við Ísland verði nú óbreytt um næstu áratugi. Það er þetta, sem þeir festa vonir sínar við. Þeir vissu, að hugur okkar og þarfir stóðu til þess að taka hér meira, að færa okkur upp á skaftið. því að við þurftum á því að halda. Það var því algert aðalatriði hjá þeim einmitt að reyna að loka fyrir þetta, og það hefur þeim tekizt. Og hvernig skyldi standa á því, að brezki ráðherrann, sem flutti þinginu boðskapinn um málið, sagði nokkuð hróðugur í brezka þinginu, að hann gæti þó glatt þingið með því, að allar greinar brezka sjávarútvegsins hefðu samþykkt þetta samkomulag, togaraeigendur, togarayfirmenn, sjómenn, löndunarmenn, fiskiðnaðarmennirnir, allar greinarnar hefðu samþykkt samkomulagið? Af hverju ætli þeir hafi samþykkt það? Hver ætli hafi verið ástæðan? Vitanlega var ástæðan sú, að þessir fjendur okkar í málinu, sem verið hafa allan tímann, samþykktu allir, að þeir sáu sér mikinn hag í þessu. Í fyrsta lagi fengu þeir að veiða hér örugglega næstu 3 árin, án efa með miklum vonum um það, að þessi 3 ár gætu orðið þrisvar sinnum þrjú í framtíðinni, og enn fremur hið mikla atriði, að Íslendingar hefðu þó ekki aðstöðu til að gera meira í þessum efnum en þeir væru búnir að gera. Það er út á þetta, sem þeir hafa verið að samþykkja þetta allir saman. Hitt vissu svo allir, að þessir aðilar mundu berja lóminn, eins og þeir mögulega gátu, til þess að reyna að fá sér peningalegan styrk út á þetta. Það höfðu þeir alltaf hugsað sér og margsinnis gert kröfu um til brezku ríkisstj., að ef þeir yrðu reknir út af svæðinu við Ísland, þá yrði að styrkja þá gífurlega úr brezka ríkissjóðnum. Af því hafa þessir aðilar m.a. borið sig illa í þessum efnum, þó að íslenzka ríkisstj. ætli að taka þetta sem innlegg fyrir sig í málið.

Menn verða svo auðvitað að hafa í huga, þegar verið er að bera saman þennan samning okkar og Breta og samning Norðmanna og Breta, hver afstaða Norðmanna hefur verið allan þann tíma, sem við höfum verið að berjast fyrir stækkaðri landhelgi. Hver hefur afstaða þeirra verið? Þeir hafa alltaf á Genfarráðstefnunum greitt atkvæði með öllum þeim verstu till., sem við höfum talið að þar hafi komið fram. Fulltrúar Norðmanna héngu alltaf aftan í Bandaríkjunum og Bretum í þessum málum, enda vitum við það, að stórútgerðin í Noregi var öll á móti 12 mílum, barðist gegn þeim. Það er rétt, að smáútgerðin í Norður-Noregi hafði alveg sömu aðstöðu og afstöðu og við. Hún heimtaði a.m.k. 72 mílna landhelgi og það strax og hafði marggert kröfu um það, en hún var bara undir í Noregi. Þegar þeir tveir aðilar, Bretar og Norðmenn, þeir Norðmenn, sem höfðu hangið aftan í Bretum allan tímann, — þegar þeir gera samning í þessum efnum, þar sem Bretar fá leyfi til þess að veiða í tíu ár, þá þarf enginn Íslendingur að vera neitt hissa á því. Það var nefnilega mikill skilsmunur á Norðmönnum og okkur Íslendingum. Við höfðum miklu ákveðnari skoðanir í þessum efnum en þeir. Við höfðum ráðizt í okkar útfærslu þrátt fyrir erfiðleika, og við höfðum knúið hana í gegn. Við vorum þegar farnir að njóta góðs af útfærslunni. En þeir stóðu á móti okkar útfærslu.

Hér hefur í þessum umr. verið þráttað allmikið um ýmis efnisatriði þessa samkomulags, og menn hafa ekki verið á einu máli um það, hvað raunverulega fælist í sumum ákvæðum þessa samkomulags. Nú höfum við, sem erum á móti þessum samningi, lagt hér fram brtt. til þess að gera efnisatriði samkomulagsins skýrari og ótvíræðari. Þannig leggjum við til, að samþykkt verði, að í staðinn fyrir orðin í 1. tölulið: „falli frá mótmælum sínum gegn“, þessi umdeildu orð, sem virðist þurfa margfalda lagaskýringu til þess að geta komizt eitthvað áfram með, þar leggjum við til, að í staðinn fyrir þessi umdeildu orð komi: „viðurkenni óafturkallanlega“. Enginn vafi leikur á því, að þetta orðalag, sem við leggjum til, er óumdeilanlegt. Það verður ekkert hálft orð, að Bretar viðurkenni óafturkallanlega 12 mílna fiskveiðilögsöguna við Ísland. Þetta ætti að vera nokkurn veginn þétt. Og ef það er þetta, sem ríkisstj. telur sig hafa samið um, hvers vegna þá ekki að fallast á þessa breyt. til þess að taka hér allan vafa af? Hvernig stendur á því? Vill ekki ríkisstj. svara því í þessum umr., hver er ástæðan til þess, að orðalagið má ekki vera eins og við leggjum til, alveg ótvírætt? Hver er ástæðan til þess?

Þá leggjum við til, að við 3. tölul. í orðsendingunni bætist þessi orð: „Ríkisstjórn Bretlands heitir því að fara ekki fram á framlengingu þessarar undanþágu að þessu tímabili loknu og sjá til þess, að brezk veiðiskip hverfi að fullu og öllu burt af þessum svæðum, er þessu tímabili lýkur.“ Hvernig stendur á því, að ríkisstj. getur ekki fallizt á að orða þetta á svo skýran hátt, eins og við leggjum hér til? Íslenzka ríkisstjórnin heldur því fram, að Bretar ætli ekki að fara fram á það að fá þessa undanþágu framlengda. Það er jafnvel sagt, að utanrrh. hafi eitthvert bréfkort í sínum vasa um það, að þessu sé lofað. Hvernig stendur þá á því, að það má ekki taka þetta fram beint í samkomulaginu, að þeir lofi þessu, og þetta sé skráð í samninginn? Ríkisstj. íslenzka vill túlka þetta mál þannig, að Bretar eigi að fara út fyrir landhelgismörkin að þremur árum liðnum. En hvers vegna þá ekki taka það fram í samkomulaginu? Nú er þetta ekki að finna neins staðar í samkomulaginu, að þeir séu skuldbundnir til þess að fara út fyrir. Hvaða ástæða getur verið til þess? Ég spyr. Ef ástæðan er sú, að brezka stjórnin neitar að hafa þetta í samkomulaginu, þá þýðir ekkert annað en viðurkenna það, að þetta sé eitthvað vafasamt. En ef brezka stjórnin viðurkennir, eins og íslenzka ríkisstj. reynir að halda fram, að þetta sé hennar meining, hún sé skyldug til þess að fara út fyrir með skipin eftir þrjú árin, hvernig getur þá staðið á því, að hún er á móti því að taka þetta fram í samkomulaginu? Hvernig getur staðið á því, að þetta má ekki vera í samkomulaginu? Vilja ekki íslenzku ráðh. svara því hér í þessum umr., hvaða ástæður liggja til þess?

Þá leggjum við til, að í 4. tölulið orðsendingarinnar komi í upphafi töluliðarins í stað orðanna: „á áðurgreindu þriggja ára tímabili er þó“ orðin: „framvegis er“. Okkur þykir einkennilegt, að það skuli vera þörf á því að hafa þetta orðalag. Þegar verið er að taka fram, að brezk skip megi ekki nú strax frá byrjun þessa samnings veiða á tilteknum svæðum innan landhelginnar, þá finnst okkur óeðlilegt, að það skuli ekki standa bara, að framvegis sé þeim óheimilt að veiða á þessum svæðum. Hvers vegna er verið að taka fram, að aðeins í þessi þrjú ár sé þeim það óheimilt? Það er rétt eins og eftir 3 árin ættu þeir að fá leyfi til þess að veiða fyrir innan. Ég skil varla í því, að hæstv. ríkisstj. geti ekki fallizt á það að laga svona öfugmæli eins og þetta hlýtur að vera, ef sú er meiningin, sem hún vill vera láta, um hina raunverulegu merkingu þess.

Þá leggjum við einnig til, að í staðinn fyrir skuldbindinguna um það að þurfa að tilkynna Bretum með sex mánaða fyrirvara ráðgerða útfærslu á landhelginni og hlíta úrskurði alþjóðadómstólsins um réttmæti útfærslunnar standi, að við munum vinna að frekari útfærslu samkv. íslenzkum lögum og alþjóðarétti. Hvað segja nú þeir í stjórnarliðinu, sem miða allar sínar aðgerðir við alþjóðarétt og lög? Er kannske meining þeirra, að við eigum að standa að frekari útfærslu landhelginnar á einhverjum öðrum grundveili en á grundvelli íslenzkra laga og alþjóðaréttar? Er það ekki ofur eðlilegt, að við höslum okkur völl þannig, að við þetta verði miðað, íslenzk lög og alþjóðarétt? Það er einmitt á þessum grundvelli, sem við teljum, að við höfum unnið fram til þessa. Við höfum okkar íslenzku landgrunnslög, sem við byggðum allar okkar ráðstafanir á, og við töldum, að þau væru og okkar aðgerðir í samræmi við alþjóðarétt, eins og hann er almennt túlkaður af þjóðum, og við t.d. gátum bent á, að 31 önnur þjóð hafði þegar skilgreint hann með sínum ráðstöfunum.

Og svo er brtt. okkar, sem ég hef gert nokkra grein fyrir áður, þar sem lagt er til, að við tillgr. bætist ný mgr., svo hljóðandi, við heimild handa ríkisstj. til að gera þetta samkomulag bætist: „Áður en sú heimild öðlast gildi, skal þó samningsuppkastið hafa verið lagt undir þjóðardóm í þjóðaratkvgr. og hlotið meiri hl. greiddra atkv.“ Þ.e.a.s.: ríkisstj. fái heimild til þess að gera samkomulagið við Breta með þeim fyrirvara, að þjóðin fallist á samkomulagið í þjóðaratkvgr. Er ekki alveg augljóst mál, að fáist ríkisstj. ekki til þess að fallast á þessa till. um þjóðaratkvgr., þá treystir hún því ekki, að þjóðin sé á hennar máli? Er það ekki alveg augljóst mál? Það er mín skoðun, að það væri hægt að framkvæma þjóðaratkvgr. á mjög stuttum tíma. Ég hugsa, að mánaðartími væri alveg fyllilega nægur. Samkomulagið liggur fyrir. Það er þegar búið að kynna þjóðinni þetta nokkuð. Flokkarnir mundu áreiðanlega leggja það á sig að kynna þjóðinni samkomulagið betur. Menn mundu áreiðanlega ekki telja það eftir sér að koma á kjörstað og greiða atkv. um þetta mál. Ég efast ekkert um það, að þátttaka í atkvgr, mundi verða mikil. Þjóðin hefur slíkan áhuga á þessu máli. Og hvað getur þá gerzt óþægilegt fyrir ríkisstj. í málinu? Jú, það er rétt, það væri hugsanlegt, að Bretum yrði haldið fyrir utan einum mánuði lengur en annars yrði. En getur þeim verið orðið svo brátt, að þeir þurfi endilega að fá þennan mánuð líka? Getur það verið frambærileg röksemd, þegar verið er að gera milliríkjasamning, sem á að gilda um aldur og ævi, að menn geti ekki gefið sér tíma í einn mánuð til þess að leggja slíkan samning undir þjóðaratkvgr.? Getur það verið frambærilegt að neita slíku? Nei, það sjá vitanlega allir menn, að það er ekki frambærilegt. Það eru engin rök til gegn því að hafa þennan hátt á um afgreiðslu málsins önnur en þau, að ríkisstj. Íslands og meiri hl. Alþ. þori ekki að láta þjóðina greiða atkv. um málið. Það er engin önnur skýring til. Og það verður ríkisstj. að hafa í huga, að neiti hún svona till. eins og þessari, þá verður sannarlega tekið eftir því, bæði innanlands og utanlands. Því verður veitt athygli, að íslenzka ríkisstj. neiti því að leggja mál eins og þetta undir dóm þjóðarinnar. Og það er alveg víst, að sá dómur verður kveðinn upp bæði hérlendis og erlendis, að þessi samningur sé gerður gegn vilja þjóðarinnar, án hennar samþykkis, ef ríkisstj. færist undan því að hafa þennan hátt á um afgreiðslu málsins.

Hitt veit ríkisstj. vel, að hv. alþm. hafa ekkert umboð frá þjóðinni til þess að gera slíkan samning sem þennan. Þær yfirlýsingar, sem hv. alþm. og allir frambjóðendur gáfu fyrir síðustu kosningar, voru allar þveröfugar við það að heimila slíkan samning sem þennan. Það er því ekki hægt að líta á samningsgerð eins og þessa, sé neitað um þjóðaratkv., á annan hátt en sem ofbeldissamning, sem gerður er gegn vilja þjóðarinnar og án löglegs umboðs, og markleysu. Nýr meiri hl. á Alþ., sem vissulega hlýtur að koma hér, áður en langir tímar líða, getur ekki talið sig skuldbundinn af þessum samningi. Það verður verkefni nýs meiri hl. hér á Alþ. að gera Bretum það ljóst, að þessi samningur hefur verið þvingaður upp á okkur á þeim tíma, sem þeir hótuðu að senda herskip sín til Íslands, og með þeim hætti, að þeir hafa lokkað veikgeðja íslenzka ríkisstj. gegn vilja þjóðarinnar til þess að gera samninginn þvert gegn vilja þjóðarinnar. Og slíka samninga hefur nýtt Alþ. og meiri hl. þjóðarinnar auðvitað að engu. Það getur því svo farið, að þau fríðindi, sem Bretar ætla að fá hér samkv. þessum samningi, fái þeir aðeins þá daga, á meðan þessi ríkisstj. hangir, en eftir að hún hefur verið lögð á hilluna og er hætt að ráða hér stjórn landsins, þá falli niður um leið öll fríðindi Breta hér og við teljum okkur ekki skuldbundna samkv. þessum samningi eftir þann dag.

Eitt atriði er það enn varðandi þennan samning, sem mig langaði til að víkja nokkrum orðum að, af því að það hefur dregizt hér dálítið inn í þessar umr. Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. minntist á það í útvarpsumr, um þetta mál, að ef Íslendingar gerðu ekki þetta samkomulag við Breta, mundi það m.a. gerast ásamt því, að við fengjum brezkan herskipaflota væntanlega inn í landhelgina, að þá yrðum við áfram án hins góða ísfisksmarkaðar í Bretlandi. Það má vel vera, — ég er hreint ekki frá því, að það kynni að vera svo, að þetta sé rétt. Ég efast hins vegar ekkert um það, að ef þessi samningur verður samþykktur og nær fram að ganga, þá er óhætt að bóka það um allan fiskiðnað hér á Íslandi, sem hefur byggzt á fiskveiðum togaraflotans, að það er óhætt að strika yfir hann. Þá verða íslenzku togararnir allir gerðir út þannig allt árið, þeir verða gerðir út fyrir brezka markaðinn og fyrir vestur-þýzka markaðinn, allir og allan tímann. Við gerumst þá á nýjan leik hráefnaaflendur fyrir brezkan fiskiðnað og vestur-þýzkan fiskiðnað. Þeir koma þá til með að flaka allmikið af fiskinum okkar og frysta hann og selja hann á ýmsa þá markaði, sem við höfum selt á áður, eins og þeir gerðu. Við komum auðvitað til með að tapa hér á Íslandi gífurlegum þjóðartekjum við þetta. Skipin nýtast illa við fiskveiðarnar með þessum hætti, og gjaldeyrislega stórtapar þjóðin við þessa ráðstöfun. Það kemur t.d. til að gerast, að meginhlutinn af fiskiðnaðinum hér í Reykjavík hlýtur að leggjast niður. Hvað höfum við að gera hér í Reykjavík við þessi stóru fiskiðjuver, sem nú eru starfandi hér, aðeins fyrir bátaflotann, sem héðan er gerður út? Ef togarafiskurinn á allur að fara út sem óunnið hráefni, þá höfum við ekkert við þetta að gera. Á því er enginn vafi. Ég spái því líka, að allmikið af stærri bátunum muni taka upp á því að sigla að haustinu til á brezka markaðinn, þennan dásamlega góða markað, sem fjmrh. var að tala um. Það er nefnilega enginn vafi á því, að út frá þrengstu sjónarmiðum togaraeigenda getur það verið hagstæðara fyrir þá að sigla út með fiskinn óunninn heldur en leggja hann upp til vinnslu hér heima.

Flestar aðrar þjóðir setja mjög strangar reglur í slíkum efnum sem þessum, varðandi útflutning á óunnu hráefni hjá sér. Þær banna beinlínís að flytja út óunnið hráefni. En hér á landi virðast vera þeir stjórnarherrar til, sem dreymir sérstaklega um það, að Íslendingar taki upp á — mér liggur við að segja þessum molbúahætti, að ætla að gera út fiskiskip sín á þann hátt að sigla með fiskinn út í þessu ástandi og selja hann á uppboðsmarkaði og áhættumarkaði í Bretlandi og Vestur-Þýzkalandi í staðinn fyrir að fullvinna fiskinn hér heima. Við auðvitað þurftum og hefðum þurft að sækja fram í þessum efnum og vinna þennan fisk enn þá meira en við höfum gert, því að það eru möguleikar á því, en ekki snúa nú aftur til gamla lagsins í þessum efnum og ætla að beina að því öllum okkar togaraflota, sem ég er viss um að á framtíð sem úthafsveiðiskip þrátt fyrir vissa erfiðleika, sem mætt hafa flotanum nú. Við áttum auðvitað að byggja upp þennan rekstur sem mest fyrir okkar fiskiðnað, til aukinnar gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðina, til aukinnar vinnu fyrir fólkið í landinu.

Það er í þessum efnum ákaflega fróðlegt að veita því athygli í erlendum fréttum, sem maður les, að nú segja t.d. efnahagssérfræðingarnir í Bandaríkjunum, að pólitík lík þeirri, sem rekin hefur verið síðustu árin þar af Eisenhower-stjórninni og miðazt hefur við háa vexti og þrönga útlánapóiltík og þetta eilífa jafnvægi í fjármálum, sem menn hafa alltaf verið að stagast á, — nú segja aðalsérfræðingarnir þar: Þetta eru allt aukaatriði. Það er stórhættulegt að ætla að einblina á þetta. Það, sem skiptir mestu máli, segja þeir, og er okkur lífsnauðsyn, — nákvæmlega sama segja Bretar núna, — það er, að við þurfum að auka okkar þjóðartekjur.

Svo framarlega sem við aukum ekki þjóðartekjurnar miðað við visst mark, þá erum við að reka ranga efnahagspólitík. Við þurfum því að miða okkar efnahagspólitík við það, að við vinnum sem mest úr okkar hráefnum og höfum allt okkar fólk starfandi að framleiðslustörfum og þjóðartekjurnar geti á þann hátt orðið sem mestar. Aukinn fiskiðnaður einmitt var ráðstöfun í þessa átt hjá okkur. Á undanförnum árum, þangað til viðreisnarstefnan tók við, vorum við að vinna að auknum þjóðartekjum, meiri þjóðarframleiðslu, einmitt í gegnum okkar fiskiðnað. Ef nú á að taka upp þetta gamla, góða lag, að gera allan togaraflotann og stærri bátana út fyrir brezkan fiskiðnað og vestur-þýzkan fiskiðnað, þá er enginn vafi á því, að þjóðarframleiðsla Íslendinga minnkar, tekjurnar detta niður. Þúsundir manna, sem hafa unnið í Reykjavík og víðar á landinu að fiskiðnaði, sem byggzt hefur á veiðum togaranna, þetta fólk verður atvinnulífið eða atvinnulaust. Það getur vel verið, að það megi takast hjá okkur eins og hjá þeim í Bandaríkjunum að ná einhverju jafnvægi hér, jafnvægi fátæktarinnar, þannig að menn flytji lítið inn og geti lítið keypt, en samt verður jafnvægi á öllu saman. Það er hægt að ná jafnvæginu alveg niðri undir eymdinni. Það getur vel verið, að það sé hægt að ná jafnvægi, eftir að búið er að skipta þannig yfir, að við förum að reka okkar veiðiflota á þennan ranga hátt. En það er enginn vafi á því, að við töpum þjóðartekjum, og einnig á þessu sviði er þessi samningur við Breta byggður á röngum forsendum og hættulegum fyrir íslenzka þjóð.

Hér er verið að verðlauna ofbeldið og semja við þá aðila, sem virtu okkar rétt minnst af öllum og áttu síst skilið af okkur af öllum, að við semdum við þá. Það eru engin rök, sem mæla með því, að við gerum sérstakan samning við Breta út af okkar fiskveiðilandhelgi. Frá efnahagslegu sjónarmiði er það þvert á móti. Og eftir heilbrigðum metnaði okkar er það vitanlega alveg öfugt. Það er niðurlægjandi að semja við Breta undir þessum kringumstæðum. Við erum í þessum efnum að verðlauna ofbeldið, og við erum beinlínis að bjóða öðrum þjóðum að leika okkur eins.

Hvað mundi núv. ríkisstj. gera, þegar þriggja ára tímabilið er búið, ef Vestur-Þjóðverjar tækju upp á sama laginu og Bretar og segðu: Við höfum ekki sent nein herskip hingað. Við gætum vel sent einhverja góða báta hingað líka og truflað ykkur við að taka togarana okkar, — og þeir tækju upp á því að gera okkur alls konar skráveifur líka, auðvitað í þeirri trú, að Íslendingar hljóti að fara eins með þá og Breta? Ættum við þá að verðlauna ofbeldið á ný? Það væri ósköp eðlilegt, að fulltrúar annarra þjóða litu svo á, þegar þeir líka sjá, að við erum að gera þetta gersamlega að ástæðulausu. Það er ekkert, sem rekur okkur út í þetta, — ekki neitt.

Hver er þá annars skýringin á því, að það er verið að þessu? Hvernig stendur á því? Ekki reynir þó ríkisstj. að halda því fram, að hún hafi farið út í þessa samningagerð við Breta af því, að þjóðin hafi heimtað það af stjórninni að semja. Ekki einn einasti aðili hafði opinberlega skorað á ríkisstj. að semja við Breta, engin sjómannasamtök, engin útgerðarmannasamtök, nema þá ef togaraeigendur hafa gert það leynilega, hafa skorað á ríkisstj. að fara út í þessa samninga. Bretar voru hins vegar alltaf að heimta samninga. En hvernig getur staðið á því, að íslenzka ríkisstj. fer út í þessa samninga óbeðin af þjóðinni og móti vilja þjóðarinnar? Hún sér það auðvitað, að þetta er á móti hagsmunum landsins í heild, því þó að hún sé að segja, að þetta sé gott, þá veit hún allt annað, — þetta er ekki gott. Hvernig getur þá staðið á því? Jú, það er ein skýring, sem hefur verið að læðast upp alltaf annað slagið. Og það er sú skýring, sem brezku blöðin eru að minnast á líka annað slagið, að með þessu sé forðað allri hættu af árekstri eða erfiðleikum í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins. Það hefur sem sagt verið klifað á því við okkur Íslendinga, að það, að við séum að stækka okkar landhelgi, geti truflað eitthvað samstarfið í Atlantshafsbandalaginu.

En hvers konar bandalag var nú þetta Atlantshafsbandalag? Var það stofnað eitthvað sérstaklega til þess að halda mjórri okkar landhelgi? Ég man eftir því, að það voru æðimargir erlendir aðilar, sem komu hingað um það leyti, sem við vorum að færa út í 12 mílurnar, og þeir spurðu mig þá að því, hvort þetta væri ekki þannig, að ég hefði svona mikinn áhuga á að færa út í 12 mílur bara af því, að ég vildi sprengja NATO. Ég benti þá á það, sem allir Íslendingar þekkja, að landhelgismálið hjá Íslendingum og yfirlýsingar allra íslenzkra stjórnmálaflokka og flestra íslenzkra stjórnmálamanna í sambandi við landhelgismálið væru miklu eldri en NATO. Við hefðum allir verið búnir að lýsa yfir stefnu okkar og baráttumálum í þessum efnum, að hverju við stefndum, hvað við ætluðum að gera, áður en NATO varð til. Og ekki hefðum við sett okkur þessa stefnu af einhverjum fjandskap við NATO þá, það hlytu þeir að geta skilið. En það er svona, það er eins og vissir menn álíti, að það að berjast fyrir rúmri fiskveiðilandhelgi við Ísland, sem er Íslendingum lífsnauðsynlegt, hljóti að verða til þess að sprengja það samstarf, sem hefur verið í Atlantshafsbandalaginu. Mér er þá spurn: Um hvað er þetta samstarf, ef útfærsla á okkar landhelgi þarf að verða til þess að spilla þessu samkomulagi? Það er hins vegar rétt, að allir sterkustu aðilarnir, sem eru í NATO, gömlu Vestur-Evrópuríkin, þau sem þar ráða allri ferð, hafa verið svæsnustu andstæðingar okkar í landhelgismálinu allan tímann. Þetta hafa verið okkar mestu andstæðingar, Bretar, Belgir, Hollendingar, Frakkar hafa verið okkar mestu fjendur í landhelgismálinu á öllum alþjóðaráðstefnum, sem haldnar hafa verið. Allir hafa sent fram alla sína ræðumenn, og þeir hafa allir prédikað 3 mílur sem það eina sáluhjálplega. NATO-þjóðirnar hafa því verið okkur fjandsamlegar. En svo hafa þær bara viljað snúa þessum samtökum upp í það gagnvart okkur að ætla að nota Atlantshafsbandalagið til þess að keyra okkur niður í landhelgismálinu. Svo koma íslenzkir ráðherrar, og þeir eru þá svo auðmjúkir NATO-vinir, að þeir geta ekki verið að neita vinum sínum í NATO um það, þótt þeir láti þá nú hafa svolitla sneið af þessum auðlindum Íslands. Fyrst mennirnir vilja þetta endilega, þá verður að sætta þá, því að annars er NATO-samvinnan öll í hættu. Þetta er ekki merkilegur hugsunarháttur hjá stjórnendum Íslands, að hugsa á þessa leið. En það er svona.

Við vitum það, að Atlantshafsbandalagið er hernaðarsamtök. Og það er svo, að þeir hugsa fyrst og fremst í þeim málum. Það var því á margan hátt athyglisvert, þegar hæstv. forsrh. var að segja frá samtali sínu við forsrh. Bretlands, Macmillan, hér á Keflavíkurflugvelli, að þá sagði hæstv. forsrh., að brezki forsrh. hefði sagt, að hann yrði að skilja vel aðstöðu þeirra í Bretlandi, því að brezkir sjómenn ættu afskaplega mikla samúð brezku þjóðarinnar. Og ástæðan væri sú, að brezku sjómennirnir væru ákaflega þýðingarmiklir fyrir þá í Bretlandi, vegna þess að það eru bresku fiskimennirnir, brezku sjómennirnir, sem beinlínis væru meginstofninn í brezka sjóhernum. Og ég tók eftir því, að forsrh. orðaði þetta þannig í útvarpsumr., að það mætti segja, að þessir brezku fiskimenn væru eiginlega uppeldisstöð fyrir sjóherinn brezka. Spurningin var þá bara þessi, hvort átti að metast hærra af okkur: uppeldisstöð brezka sjóhersins, að leyfa þeim að hafa þessa uppeldisstöð hér á milli 6 og 12 mílna hjá okkur, eða hafa jafnvel ómerkilega uppeldisstöð, eins og við höfum hugsað okkur, til að ala upp fisk. Þeir höfðu hugsað sér þetta svæði sem uppeldisstöð fyrir brezka herinn, en við höfðum bara hugsað okkur þetta sem uppeldisstöð fyrir fisk. Svona eru hugsanir þessara aðila alltaf. Brezki herinn verður þó að blífa, og meðlimir í Atlantshafsbandalaginu eru auðvitað minntir á þetta á réttan hátt, að þeir verða þó að hugsa um hagsmuni í Atlantshafsbandalaginu, hvað sem öllum fiskveiðum liði.

Það er enginn vafi á því, að það, sem hér er að gerast, er það, að íslenzka ríkisstj. er að færa hér fórn á altari Atlantshafsbandalagsins. Það er það, sem hér er að gerast. Íslenzkir ráðherrar vita þetta mætavel. Þeir eru ekki að vinna neinn stórsigur fyrir Ísland í fiskveiðimálum eða landhelgismálinu. Þeir eru að vinna tiltekin verk fyrir þá aðila í Atlantshafsbandalaginu, sem hafa verið á móti útfærslu landhelginnar við Ísland allan tímann og reyndu að leggjast á okkur eins og þeir gátu sumarið 1958 og stöðva okkur í því að færa út í 12 mílur. Það eru þessi öfl Atlantshafsbandalagsins, sem eru hér að verki og eru hér að vinna í gegnum íslenzku ríkisstj. Það voru þessi sömu öfl, sem sögðu til sín 1958, þannig að þeir ætluðu að stöðva Alþfl. frá því að vera með í útfærslunni, og þeir fengu forustumenn Sjálfstfl. til þess að lýsa því yfir opinberlega, að þeir vildu fresta útfærslunni og ganga til samninga við forustumenn NATO um lausn á landhelgismáli Íslands. Það er enginn vafi á því, að ástæðan til þessa ólukkusamnings er einmitt þessi, sem ég var að minnast á nú. Það geta ekki legið neinar íslenzkar hvatir að því, að slíkur smánarsamningur sé gerður.

Það væri auðvitað ástæða til þess að minnast hér á mörg fleiri atriði varðandi þetta mál og spyrja hæstv. ríkisstj. um fleiri atriði en ég hef spurt hana. Mér finnst t.d. ástæða til þess að spyrja: Er það tilfellið, að einhverjir leynisamningar hafi verið gerðir samhliða þessum samningi. sem hér er nú óskað eftir staðfestingu á? Það er verið að tala um bréf eða yfirlýsingu, sem hæstv. utanrrh. hafi varðandi viss atriði í tengslum við þennan samning. Það er fullyrt hér um hinar furðulegustu lagaskýringar, vil ég segja, hvernig hafa eigi framkvæmd á vissum atriðum í þessu samkomulagi. Styðst það við eitthvert leyniplagg, sem ríkisstj. hefur, einhvern baksamning? Það er full ástæða til þess, að um þetta sé spurt, hvort hér séu til einhverjir viðaukasamningar, sem ríkisstj. hefur gert og hér er ekki sagt frá. Eða hvað hugsar ríkisstj. sér að gera gagnvart íslenzkum togurum? Nú gilda um veiðar íslenzkra togara innan landhelginnar ákveðnar reglur. Er meining ríkisstj. að láta nákvæmlega sömu reglur gilda um íslenzka togara hér eftir og um brezka togara, eða eiga íslenzku togararnir að fá hér enn þá einhver sérstök fríðindi fram yfir þá brezku? Þetta skiptir vitanlega miklu máli að fá að vita í þessum efnum, því að það varðar mikið þessi fiskfriðunarmál. Í grg. ríkisstj. með till. er ekki minnzt á þetta einu orði, og ríkisstj. hefur ekki heldur séð ástæðu til þess að minnast á þetta í umr. á þinginu. En hvað hugsar ríkisstj. sér að gera í þessum efnum?

Þá er annað atriði: Hvað hugsar ríkisstj. sér, fái hún þetta nú samþ. hér á Alþ. og Bretana til þess að samþykkja þetta, sem hún mun hafa tryggt sér, — hvenær hugsar hún sér að láta þetta samkomulag taka gildi? Á það að baka gildi nú á þessari vertíð, eða hefur ríkisstj. hugsað sér að draga gildistökuna eitthvað fram yfir viðkvæmasta tímann hjá bátunum á þessu ári? Hefur ríkisstj. hugsað sér að hafa samráð við Alþ. um það, ef hún setur nýjar reglur varðandi íslenzka togara, eða hugsar hún sér að setja þessar reglur án þess að hafa nokkurt samráð við Alþingi um það? Það væri mjög fróðlegt að fá um það að vita.

Ég sé nú, að það er allmikið áliðið nætur og líklega rétt að stytta mál sitt. Ég minntist á það í upphafi máls míns, að mér fyndist eðlilegt og sanngjarnt, að umr. um þetta mál, svo stórt og þýðingarmikið sem það er, gætu farið fram á eðlilegum og venjulegum þingfundatíma, en ekki sé leitazt við að hafa aðalumr. um málið um hánótt, á algerlega óvenjulegum þingtíma. Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að endurtaka áskorun mína til hæstv. forseta um það, að hann sjái sér fært að fresta þessum þingfundi nú þar til á eðlilegum þingfundatíma á morgun, svo að þeim þm., sem eiga eftir að tala eða eru á mælendaskrá, megi gefast kostur á því að ræða málið hér á venjulegum þingfundatíma og með eðlilegum hætti, því að það telst vitanlega alveg óvenjulegt að ætla að þvinga menn til þess að ræða jafnmikið stórmál og þetta seint á nóttu eða jafnvel þegar komið er fram undir morgun. Ég vænti þess, að hæstv. forseti sjái sér fært að verða við þessari ósk minni um það að fresta þingfundi nú.