07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2418)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Þegar útbýtt var á Alþingi þáltill. frá hæstv. ríkisstj. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta, komu mér í hug hin gömlu ummæli: Ill var þín fyrsta ganga, og munu hér margar illar eftir fara. Mun þó verst hin síðasta. — Ekki er það mín ósk, að þessi hin gömlu ummæli verði að áhrínsorðum á hæstv. ríkisstj., en því miður gefur starfsferill hennar tilefni til hugleiðinga, sem ekki spá neinu góðu, hvorki um upphaf né endi á ferli hennar.

Er hæstv. ríkisstj. tók við völdum 20. nóv. 1959, birti hæstv. forsrh., Ólafur Thors, stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Í stefnuyfirlýsingunni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá þykir ríkisstj. rétt að taka fram, að stefna hennar í landhelgismálinu er óbreytt, eins og hún kom fram í samþykkt Alþingis 5. maí 1959.“

Yfirlýsing Alþingis frá 5. maí 1959 er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameinað Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan fjögurra mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Ályktun þessi var samþykkt einróma af öllum alþm. Enginn skyldi samt halda, að þessi ályktun hafi til orðið að undirlagi og fyrir tilverknað Sjálfstfl. og Alþfl. Um miðjan febrúar 1959 bar fulltrúi Framsfl. í utanrmn. fram formlega till. um það, að Alþingi lýsti yfir því, að ekki yrði samið um neitt fráhvarf frá 12 mílna landhelginni. Fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. tóku slíkri till. mjög fálega, svo að ekki sé meira sagt, og beittu sér gegn því, að í till. yrðu nefndar á nafn 12 mílur. Það var þá fyrst, eftir að Alþb. hafði gert þessa afstöðu lýðum ljósa, að Sjálfstfl. og Alþfl. létu undan og samþykktu till. En það tók þessa flokka tvo og hálfan mánuð að ráða það við sig, hvort þeir ættu að standa að slíkri ályktun. Menn geta svo velt því fyrir sér eins og þeir vilja, hvort áhuginn fyrir málinu hefur verið sérstaklega áberandi hjá Sjálfstfl. og Alþfl.

Í yfirlýsingunni frá 5. maí 1959 er mjög ákveðið og á ótvíræðan hátt tekið fram, að í engu skuli hvikað frá 12 mílna fiskveiðilögsögunni umhverfis landið. Um það voru allir hv. alþm. sammála. Vert er þó að benda á þá staðreynd, að bæði Sjálfstfl. og Alþfl. voru mjög tvístígandi í málinu frá fyrstu tíð og gerðu allt, sem þeir gátu, til þess að skjóta málinu á frest.

En til þess nú að skilja hina miklu tregðu Sjálfstfl. og Alþfl. í því að ganga frá ótvíræðri yfirlýsingu í sambandi við 12 mílna fiskveiðitakmörkin og til að skilja það, sem nú er að gerast, verður að fara aftur í tímann og rifja upp afstöðu þessara flokka til útfærslu fiskveiðilínunnar úr 4 mílum í 12.

Er vinstri stjórnin tók við völdum, 12. júli 1956, gaf hún út stefnuyfirlýsingu um stækkun landhelginnar. Segir í stefnuyfirlýsingunni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. leggur höfuðáherzlu á stækkun íslenzku landhelginnar og telur, að stækkun friðunarsvæðisins í kringum landið sé nú brýn nauðsyn vegna atvinnuöryggis landsmanna, og mun því beita sér fyrir framgangi þess máls.“

Lúðvík Jósefsson, þáv. sjútvmrh., hóf þegar undirbúning málsins. 17. sept. s. á. sneri hann sér til H. G. Andersens sendiherra, en hann hafði verið einn aðalsérfræðingur Íslands í þessum málum, og óskaði eftir því, að sendiherrann legði fram tillögur sínar í málinu. Í bréfi, sem hann sendi ráðun. 15, okt., kvaðst hann ekki reiðubúinn að leggja fram neinar till., lagði til, að málinu yrði frestað fram yfir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, en það átti að haldast þá um veturinn.

Rétt er að geta þess, að alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna hafði þá um sumarið gert samþykkt um víðáttu landhelginnar. Laganefndin benti á m.a., að stærri landhelgi en 12 mílur væri ekki í samræmi við alþjóðalög. Í þessu áliti fólst að sjálfsögðu bein viðurkenning á því, að heimilt væri að alþjóðalögum að miða landhelgina við 12 mílur. Þá var og tekið fram í ályktuninni, að þar sem þjóð byggir afkomu sína fyrst og fremst á fiskveiðum innan sanngjarnrar fjarlægðar frá ströndum, ætti hlutaðeigandi ríki að hafa lögsögu yfir fiskveiðum innan sanngjarnrar fjarlægðar frá ströndum með tilliti til aðstæðna á staðnum, ef nauðsyn ber til, í því skyni, að íbúarnir geti notað fiskveiðarnar sér til framdráttar og lífsviðurværis. Þar með var viðurkennd sérstaða Íslands í málinu. Slík viðurkenning hafði að sjálfsögðu mikla þýðingu fyrir málstað Íslendinga. Þar sem ákveðið hafði verið, að tillögur n. skyldu ræddar á þingi Sameinuðu þjóðanna, var af ríkisstj. ákveðið að bíða með frekari framkvæmdir, þar til þeim umr. yrði lokið. Á þingi Sameinuðu þjóðanna var ákveðið að fresta frekari aðgerðum í málinu á því stigi. Þess í stað var ákveðið að kalla saman sérstaka alþjóðaráðstefnu um landhelgismálið, sem halda skyldi í Genf í marz 1958. Fulltrúar Íslands mótmæltu því, að málinu yrði skotið á frest um eitt ár, og lýstu því yfir, að þeir teldu sig ekki skuldbundna til þess að bíða með aðgerðir sínar fram yfir fyrirhugaða ráðstefnu.

Um miðjan febrúar 1957 boðaði þáverandi sjútvmrh. til ráðstefnu í Reykjavík um landhelgismálið. Á þeirri ráðstefnu mættu fulltrúar frá Miðvesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Vestmannaeyjum, sömuleiðis fulltrúar frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, Alþýðusambandi Íslands og Fiskifélagi Íslands. Síðan var svo haldinn annar fundur með fulltrúum af Suðvesturlandi. Á þessum fundum komu fram ýmsar till., um breytingar á grunnlínum, stækkun landhelginnar í 12 mílur og um aukin friðunarsvæði utan 12 mílnanna.

Í apríl s.l. sendi Alþb. hinum stjórnmálaflokkunum ýtrarlega grg. um málið og lagði þar til m.a., að hafnar yrðu þá þegar viðræður um útfærslu landhelginnar, þar sem reynt yrði að ná sameiginlegri niðurstöðu á milli flokkanna. Engar gagntillögur bárust frá hinum flokkunum, og fengust þeir ekki til að láta uppi ákveðnar skoðanir á því, hvernig framkvæmdum skyldi háttað.

Vorið 1957 hafði H. G. Andersen verið kvaddur á fund ríkisstj. til viðræðna um málið. Lagði hann enn til, að málinu yrði frestað, og tók hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, mjög undir það, að öllu yrði slegið á frest um óákveðinn tíma.

Þegar hér var málum komið, mótmæltu fulltrúar Alþb. því mjög ákveðið, að málinu yrði enn frestað um óákveðinn tíma, og kröfðust þess, að ríkisstj. segði alveg afdráttarlaust til um, á hvern hátt og hvernig hún ætlaði sér að haga framkvæmdum í málinu. Eftir allmikið þóf tókst samkomulag um, að landhelgin skyldi stækkuð þegar að Genfarráðstefnunni lokinni. Var um þetta gert skriflegt samkomulag og birt yfirlýsing um málið á Alþingi.

Rétt er að geta þess, að gerðar voru ýtarlegar tilraunir til að fá Sjálfstfl. til að taka þátt í ákvörðun um landhelgismálið, en án nokkurs árangurs. Sjáanlegt var, að sá flokkur vildi hafa og hafði kápuna á báðum öxlunum og vildi ekki styðja að eða stuðla að allsherjarlausn um landhelgismálið, en vildi nota sér það í pólitískum tilgangi í átökunum við ríkisstj.

Það yrði allt of langt mál að skýra að nokkru ráði frá störfum Genfarráðstefnunnar, enda er þess ekki þörf, þar sem mönnum mun í fersku minni það, sem þar gerðist. Bretar urðu þar í algerum minni hluta og beinlínis gáfust upp á því að halda fram kenningu sinni um 3 mílna landhelgi. Þess í stað báru þeir fram till. um 6 mílna fiskveiðilögsögu. Till. um 12 mílna fiskveiðilögsögu fékk meiri hluta atkvæða, en til þess að hún teldist samþykkt, þurfti 2/3 hluta atkvæða fulltrúa, svo að hún gæti tekið gildi sem alþjóðalög. Það, sem reið baggamuninn, var, að Bandaríkin sviku fyrri yfirlýsingar sínar um stuðning við 12 mílna regluna. Þess í stað gengu þau nú í lið með Bretum, en á móti vilja og hagsmunum Íslendinga. Þessa framkomu Bandaríkjanna er vert að hafa í huga nú, þegar þessi mál eru rædd. Það eru fyrst og fremst þau, sem hafa orðið þess valdandi, að við höfum orðið að standa í styrjöld við Breta út af landhelginni. Það eru þau, Bandaríki Norður-Ameríku, sem beint og óbeint hafa stutt Breta í því að beita herskipum sínum til verndar brezkum togurum til landhelgisþjófnaðar í íslenzkri landhelgi. Það voru þau, sem fluttu till. þess efnis, að landhelgin skyldi vera 6 mílur, en á 6 mílna belti þar fyrir utan skyldu strandríkin hafa einkarétt til veiða ásamt þeim öðrum ríkjum, sem hefðu stundað þar veiðar að staðaldri undanfarin fimm ár. Utanrrh. sá sér ekki annað fært en bera fram harðorð mótmæli við sendifulltrúa Bandaríkjanna út af fram kominni till., en Bandaríkin fóru sínu fram. Þrátt fyrir það náði till. þeirra ekki tilskildum meiri hluta.

Þegar hér var komið málum eða nánar tiltekið 28. apríl, daginn sem Genfarráðstefnunni lauk, kallaði sjútvmrh. saman fund í landhelgisnefndinni, en hún hafði verið skipuð í byrjun Genfarráðstefnunnar. Í henni áttu sæti alþm. Karl Guðjónsson, Gísli Guðmundsson, Guðmundur Í. Guðmundsson og Sigurður Bjarnason, einn frá hverjum þingflokki. Á þeim fundi lagði ráðh. fram endanlegar tillögur um stækkun landhelginnar. Því hefur verið haldið fram, að þáv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, hafi ekki viljað breyta grunnlínupunktum frá 1952. Þetta eru ósannindi. Lúðvík Jósefsson lagði til í aðaltillögunni, að grunnlínum yrði breytt. Í aths., sem fylgdu þeirri till., segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel aðaltillöguna æskilegri. Hún ákveður nokkru meiri stækkun landhelginnar en varatillagan og nær til veiðisvæða, sem Íslendingum væri mikils virði að hafa einkarétt til að nýta. Hún er í samræmi við rökstuðning, sem Íslendingar hafa áður flutt fyrir rétti sínum til grunnlínuákvarðana á alþjóðavettvangi. Ef landhelgin yrði ákveðin eftir grunnlínureglu aðaltillögunnar, yrði landhelgislínan beinni og auðveldari í vörzlu en ella.

Þó að ég telji varatillöguna nokkru lakari en aðaltillöguna svo sem áður er lýst, þá álít ég þó, að eftir að komið er í 12 mílna landhelgi, þá sé ekki frágangssök að halda óbreyttri grunnlínureglu, og mundi ég fallast á það til samkomulags, náist ekki samkomulag um aðaltillöguna, enda tel ég mikils um það vert, að innanlandssamstaða í málinu sé alger.“

En hverjir og hvaða flokkar voru á móti því, að grunnlínum yrði breytt? Ekki var það Alþb. Nei, það voru fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl., sem fengust aldrei til að taka neina ákveðna afstöðu um breytingar á grunnlínunum þrátt fyrir margítrekaðar fyrirspurnir þar um. Svo halda þessir herrar því fram, að Lúðvík Jósefsson, þáv. sjútvmrh., hafi ekki viljað breyta grunnlínunum frá 1952. Þessi tregða þeirra og óvilji til þess að taka ákveðna afstöðu til grunnlínubreytinganna var vitanlega í beinu samræmi við framkomu þeirra í landhelgismálinu, frá því að það kom á dagskrá hjá vinstri stjórninni. Þar réðu sjáanlega meiru flokkspólitísk sjónarmið Sjálfstfl. og þess hluta Alþfl., sem andvígur var ríkisstj., en hagsmunir íslenzku þjóðarinnar.

Á þessum sama fundi lagði Lúðvík Jósefsson, þáv. sjútvmrh., til, að reglugerðin yrði gefin út 5. maí. Brátt kom í ljós, að hæstv. utanrrh. var ekki við því búinn að samþykkja það, að reglugerðin yrði gefin út 5. maí. Bar hann því við, að hann ásamt H. G. Andersen yrði að mæta á fundi með utanrrh. Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn yrði dagana 5.–7. maí í Kaupmannahöfn. Fulltrúar Alþb. mótmæltu þessum drætti á því, að reglugerðin yrði gefin út. Töldu þeir, að eflaust yrðu gerðar tilraunir til þess að beygja Íslendinga og fá okkur til samninga, enda lá það ljóst fyrir, að aðalandstæðingar okkar væru innan Atlantshafsbandalagsins og því einskis góðs að vænta úr þeim herbúðum málinu til stuðnings.

Eftir miklar umr. milli stjórnarflokkanna varð það að samkomulagi, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að hægt yrði að gefa reglugerðina út dagana 10.–20. maí.

Margt hefur sjálfsagt verið rætt á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, enda skýrði hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, lítið frá þeim umræðum, annað en það, sem segir allmikið þó, að átta ráðherrar bandalagsins hefðu harðlega mótmælt útfærslu landhelgislínunnar í 12 mílur.

Á sameiginlegum fundi ríkisstj. og landhelgisnefndarinnar lagði sendiherrann hjá Atlantshafsbandalaginu, H. G. Andersen, fram þá till., að landhelgin yrði stækkuð í 12 mílur og grunnlínum breytt, en erlend ríki fengju undanþágu til að veiða allt upp að 4 mílna takmörkunum um fimm ára skeið. Nokkru síðar breytti svo sendiherrann till. þannig, að erlend skip skyldu fá að veiða upp að 6 mílum um tveggja ára skeið. Ótrúlegt má teljast, að þessi sendiherra hafi fundið upp þessa till. hjá sjálfum sér. Hún hlýtur að vera runnin undan annarra rifjum.

Nú var samningamakkið við fulltrúa Atlantshafsbandalagsins í fullum gangi. Margs konar skeytasendingar fóru á milli, og lét hæstv. utanrrh. formann Sjálfstfl., Ólaf Thors, hafa afrit af orðsendingunum, jafnóðum og þær bárust, en fulltrúum Alþb. var aðeins skýrt lauslega frá sumum þeirra, en afrit af þeim fengu þeir ekki þrátt fyrir mjög ákveðnar kröfur frá þeirra hendi.

Rætt var nú við fulltrúa Sjálfstfl., þá Ólaf Thors, Sigurð Bjarnason og Magnús Jónsson, um málið. Í þeim umr. kom í ljós, að Sjálfstfl. taldi rétt að halda áfram viðræðum við Breta og aðrar þjóðir í Atlantshafsbandalaginu. Alþfl. hafði nákvæmlega sömu afstöðu. Framsfl. taldi sig andvígan öllum samningum um málið. En Alþb. krafðist þess, að tekin yrði endanleg ákvörðun um útgáfu reglugerðarinnar.

Andstæðingar landhelgismálsins hér heima létu sinn hlut ekki eftir liggja, svo sem forustumenn togaraútgerðarmannanna, sem gerðu allt, sem þeir gátu, til að torvelda framgang málsins. Blöð stjórnarandstöðunnar skrifuðu hverja árásargreinina annarri verri gegn stækkun landhelginnar. Munu þær árásargreinar hafa verið runnar undan rifjum togaraeigenda og annarra aðdáenda Atlantshafsbandalagsins. Hinn 12. maí gekk sendiherra Bandaríkjanna á fund utanrrh, og flutti harðorð mótmæli ríkisstjórnar sinnar gegn fyrirætlunum Íslendinga um stækkun fiskveiðilögsögunnar. Áður höfðu brezki og franski sendiherrann flutt sams konar mótmæli. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika það og minna á, að það voru aðeins þjóðir Atlantshafsbandalagsins, sem mótmæltu stækkun íslenzku landhelginnar. Á sama tíma kröfðust að sjálfsögðu verkalýðssamtökin skjótra aðgerða og lýstu fyllsta stuðningi við útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Sama gerðu og fjöldamörg önnur samtök. T.d. gerði útgerðarmannafélagið á Akranesi svo hljóðandi samþykkt 23. maí:

„Treystum heildarsamtökum vorum til baráttu fyrir 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Skorum á ríkisstj. að ákveða línuna tafarlaust og verja hana.“

Líkur benda til, að till. þessi hafi verið til komin að tilhlutan Péturs Ottesens, þáv. þm. Borgi., en hann hafði verið og er hinn ötulasti baráttumaður fyrir stækkun landhelginnar frá fyrstu tíð. Ótal áskoranir bárust frá öllum bæjarstjórnum utan Reykjavíkur, þar sem skorað var á ríkisstj. að ákveða landhelgina 12 mílur og gefa reglugerðina sem fyrst út. Fjöldi félagasamtaka sendi frá sér sams konar áskoranir.

Eins og áður hefur verið bent á, hafði Atlantshafsbandalagið beitt öllum sínum áhrifum til þess að kúga Íslendinga, til að falla frá að færa landhelgislínuna út í 12 mílur. Sjálfur framkvæmdastjóri bandalagsins, Spaak, sendi forsrh., Hermanni Jónassyni, langt skeyti, þar sem hann skoraði á forsrh. vegna tilfinninga hans og umhyggju fyrir samstöðu Atlantshafsbandalagsríkjanna að fallast á, að samningum yrði haldið áfram. Áður í skeytinu bendir framkvæmdastjórinn á, að það að neita tillögum um samninga mundi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland og bandalagið. Í skeytinu var jafnvel hótað, að þjóðir í Efnahagssamvinnustofnun Evrópu mundu hætta að kaupa íslenzkan fisk, ef Íslendingar stækkuðu landhelgi sína. Við munum eftir gömlu hótuninni, sem Spánverjar beittu við Íslendinga í sambandi við fiskkaup, ef þeir féllust ekki á að kaupa af þeim spænsku vínin.

Það yrði allt of langt mál að skýra nákvæmlega frá því, sem síðar gerðist í málinu. Skv. yfirlýsingu, sem formaður Sjálfstfl. birti ríkisstj. 21. maí, sést, að hann vill áframhaldandi samningamakk við Atlantshafsbandalagið um landhelgi Íslands um 2 mánaða skeið a.m.k. og er andvígur útgáfu reglugerðarinnar um stækkun í 12 mílur, eins og málin stóðu þá. Sjálfstfl. taldi, að á miklu ylti fyrir Íslendinga, að gagnkvæm vinátta héldist með þeim og bandalagsþjóðum þeirra, þ.e.a.s. Bretum, sem allt gerðu til þess að eyðileggja það, að Íslendingar gætu fært út landhelgi sína í 12 mílur. Þannig tók Sjálfstfl. hagsmuni Breta og annarra Atlantshafsbandalagsþjóða fram yfir hagsmuni Íslendinga. Alþfl. hafði líka afstöðu til málsins og krafðist áframhaldandi samningamakks við þjóðir Atlantshafsbandalagsins.

Nú töldu andstæðingar stækkunarinnar, að málinu væri lokið og stjórnin mundi segja af sér næstu daga. Bæði Morgunblaðið og Alþýðublaðið sögðu frá því, að ríkisstj. væri þegar fallin, og voru sýnilega mjög ánægð yfir þeim úrslitum.

21. maí undirritaði sjútvmrh. reglugerðina og sendi hana forsrh. Lýsti þá forsrh. því yfir, að hann mundi neyðast til að biðjast lausnar, annað hvort fyrir Lúðvík Jósefsson einan eða, allt ráðuneytið, þar sem reglugerðin hefði ekki fylgi meiri hl. Alþingis. Voru nú teknar upp enn á ný viðræður við Alþfl. um afstöðu hans til reglugerðarinnar, sem enduðu á þann veg, að Alþfl. beygði sig og féllst á að standa að útgáfu reglugerðar um fiskveiðilandhelgi Íslands, sem skyldi öðlast gildi 1. sept. 1958. 23. maí var svo gert sérstakt samkomulag milli stjórnarflokkanna um nokkur atriði viðkomandi reglugerðinni. m.a. um heimild fyrir íslenzk fiskiskip að veiða með botnvörpu innan fiskveiðitakmarkanna yfir tiltekinn tíma og á tilteknum svæðum. Fiskveiðilandhelgin skyldi verða 12 sjómílur út frá grunnlínum. Réttur til breytinga á grunnlínum var áskilinn. Reglugerðin skyldi taka gildi, eins og áður segir. 1. sept. 1958.

Nú skyldi maður ætla, að blöðin hefðu fagnað hinni nýju útfærslu landhelginnar, fullur sigur hafi unnizt, langþráðu takmarki hafi verið náð. En það er eitthvað annað en svo væri. Bæði Alþýðubl. og Mbl. helltu úr skálum reiði sinnar yfir fulltrúa Alþb. Alþýðublaðið birti grein um málið, ásamt mörgum öðrum, þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðin hefur verið áhorfandi nú um skeið að einum ljótasta leik, sem nokkru sinni hefur farið fram á íslenzkum stjórnmálavettvangi. Þennan leik hefur verið hægt að leika af þeirri ástæðu einni, að kommúnistar hafa verið leiddir til sætis í ríkisstj. Íslands. Hann hefði ekki átt sér stað hefðu þeir ekki setið þar. Kommúnistarnir hafa tvær línur til að fara eftir: að vinna af öllum mætti að því að slíta Ísland úr tengslum við vestrænar þjóðir og sprengja samvinnu Íslendinga við þær.“

Síðar segir í sömu grein:

„Þeir stöðvuðu framhaldsumræður um efnahagsmálin fyrir hálfum mánuði. Síðan hafa þau verið í strandi á Alþingi. Jafnframt settu þeir fram kröfu um framsetningu á viljayfirlýsingu Íslendinga í landhelgismálinu, sem fyrst og fremst var miðuð við það að móðga á hinn freklegasta hátt þær þjóðir, sem við áttum í deilu við. En eitt hefur áunnizt, það er það, að enn ein sönnun hefur fengizt fyrir því, að það er ekki hægt að vinna með kommúnistum. Það eru ekki nema 3 starfhæfir stjórnmálaflokkar á Alþingi.“

Eitthvað líkt þessu sagði hæstv. menntmrh. í útvarpsumr. s.l. fimmtudagskvöld. Hann hefur sjáanlega tileinkað sér rithátt Alþýðublaðsins um þessi mál.

Ekki lét Morgunblaðið sitt eftir liggja í æsingaskrifunum um málið. Eitt af því marga, sem það blað sagði, var m.a. þetta:

„Öll þjóðin hefur horft upp á niðurlægjandi háttalag stjórnarinnar með örlagaríkasta utanríkismál hennar í heila viku. En hin úrræðalausa og sundurþykka vinstri stjórn hefur aðeins keypt sér gálgafrest.“

Og síðan segir:

„Það er engu líkara en óðir menn hafi stjórnað skrifum Þjóðviljans um landhelgismálið.“

Þetta hafði Mbl. um málið að segja.

Ég gæti óendanlega komið með ummæli eftir andstæðinga landhelgismálsins, en þau eru öll á einn veg: ógeðslegar skammir um alla þá, sem beitt höfðu sér fyrir framgangi málsins. T.d. sagði dagblaðið Vísir, að íslenzkir kommúnistar óskuðu þess, að til stórtíðinda drægi og manndráp yrðu framin í sambandi við vörzlu íslenzku landhelginnar.

Þegar Bretar hótuðu að skjóta á varðskip okkar, notuðu blöð Sjálfstfl. það sem tilefni til æðisgenginna árása á þá Íslendinga, sem héldu fram rétti okkar í landhelgismálinu.

Ég efast um, að hægt sé að finna þess dæmi, að nokkrir stjórnmálamenn hafi lagzt svo lágt sem forsvarsmenn Sjálfstfl. og Alþfl. hafa gert í vörn sinni fyrir hinu brezka ofbeldi. Og orsakirnar fyrir þessu ógeðslega athæfi er að finna í afstöðu þessara flokka til Atlantshafsbandalagsins. Það var því ekki við góðu að búast, þegar þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., komust til valda, enda er nú komið á daginn, hver er hin raunverulega stefna þeirra og lokatakmark í þessu máli. Allur almenningur hefur vantreyst núv. ríkisstj. til að standa á móti kröfum Atlantshafsbandalagsins. Þessum mönnum er ekki sjálfrátt, þegar það bandalag er annars vegar. Það er engu líkara en hæstv. ráðherrar verði slegnir einhverri starblindu og hætti að hugsa og tala sem Íslendingar, þegar um er að ræða hagsmuni Atlantshafsbandalagsins annars vegar og hagsmuni Íslands hins vegar. Það er t.d. tvímælalaust lífshagsmunamál fyrir Íslendinga, að allar erlendar herstöðvar hér verði lagðar niður og hinn erlendi her hverfi burt af landinu. Herstöðvar á Íslandi eru vísasti vegurinn til tortímingar íslenzkri þjóð, ef svo hörmulega vildi til, að til styrjaldar kynni að koma milli stórveldanna. Þrátt fyrir þennan augljósa sannleika er hæstv. ríkisstj. staðráðin í því að leyfa herstöðvar hér áfram vegna ímyndaðra hagsmuna þjóða Atlantshafsbandalagsins. Tilvera íslenzku þjóðarinnar er látin víkja fyrir hagsmunum erlendra aðila.

Það eina, sem haldið hefur aftur af hæstv. ríkisstj. um undanlátssemi gagnvart Bretum, eru hin geysilegu og ákveðnu mótmæli, sem fólk um allt land, í öllum flokkum, hafði látið dynja yfir ríkisstj. Þessi mótmælaalda náði hámarki sínu um það leyti, sem samningaviðræður við Breta voru upp teknar á s.l. hausti. Vegna þessarar miklu mótmælaöldu hörfaði ríkisstj. í bili. Margir voru þeir, sem héldu, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki þora að svíkja í landhelgismálinu, fallast á sjónarmið Breta. Nú liggur það ljóst fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur látið svínbeygjast fyrir hinu brezka ofbeldi. Íslenzk þjóð hefur verið svikin af sínum eigin forustumönnum, — mönnunum, sem svarið höfðu frammi fyrir alþjóð fyrir síðustu kosningar, að ekki kæmi til mála neitt undanhald í baráttunni við árásarríkið Bretland.

Hvað er svo það, sem nú er að gerast í þessu stærsta lífshagsmunamáli okkar Íslendinga? Það, sem nú er að gerast, er beint áframhald af þeirri stefnu og starfsháttum, sem þessir flokkar hafa fylgt frá öndverðu og ég hef hér að nokkru lýst. Hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi þáltill. um lausn á fiskveiðideilunni við Breta. Í þessari till. eru Bretar ekki einu sinni látnir viðurkenna 12 mílna landhelgi, heldur aðeins falla þeir frá mótmælunum. Í því felst vitanlega engin formleg viðurkenning af Breta hálfu um, að þeir viðurkenni rétt Íslendinga til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, hvað sem svo líður fullyrðingum hæstv. ráðh. um, að í því felist full viðurkenning. Að falla frá mótmælum er allt annað en að Bretar viðurkenni 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Á þessu tvennu: að hætta að mótmæla og að viðurkenna — getur verið mikill mismunur, sem enginn getur neitt fullyrt um nú, hverjar afleiðingar kunni að hafa. Í staðinn fyrir það, að Bretar hætti að mótmæla 12 mílna fiskveiðilandhelgi, skulu þeim heimilaðar togveiðar inn að 6 mílum í 3 ár á flestum þýðingarmestu veiðisvæðunum í kringum landið allt árið, mismunandi lengi á hverjum stað. Aðeins svæðið út af Vestfjörðum er undanskilið. Fyrir Norðurlandi fá þeir að veiða á svæðinu frá Horni til Langaness á tímabilinu júní–september, þ.e. yfir aðalfiskveiðitímabilið og síldveiðitímabilið. Aðeins smápartur í kringum Grímsey er undanskilinn.

Þannig eru Bretum úthlutuð veiðisvæði hringinn í kringum landið, með nokkrum frávikum fyrir Suður- og Vesturlandi. Allir Austfirðir og allt Norðurland er ofurselt brezkum og — vel að merkja annarra ríkja fiskiskipum til veiða inn að 6 mílum í 3 ár. Erlendir síldveiðiflotar fá nú óhindrað að stunda síldveiðar upp að 6 mílum fyrir Norðurlandi og Austfjörðum, að undanskildu svæðinu í kringum Grímsey. Mig skal ekki furða, þó að íslenzkir útvegsmenn eða réttara sagt landssamband þeirra hafi lýst blessun sinni og aðdáun yfir hinni farsælu lausn landhelgisdeilunnar við Breta. Skyldi ekki íslenzkum síldveiðimönnum þykja fullþröngt fyrir dyrum á síldarmiðunum fyrir Norður- og Austurlandi, þegar hundruð erlendra fiskiskipa verða að veiðum upp að 6 mílum á öllu svæðinu frá Horni og austur fyrir land, að undanskildu svæðinu kringum Grímsey? Þetta þýðir, að aðalsíldarmið okkar fyrir Norður- og Austurlandi eru í 3 ár ofurseld erlendum síldveiðiskipum, sem eiga óhindrað að fá að stunda síldveiðar upp að 6 mílum. Þetta getur þýtt eyðingu á hinum íslenzka síldarstofni um langan tíma.

Öll tækni síldveiðanna hefur stóraukizt. Nú þarf síldin ekki að koma upp á yfirborð, til þess að hægt sé að veiða hana. Ef leitartækin verða síldarinnar vör, er hægt fyrir veiðiskipin í langflestum tilfeilum að ná í síldina. Nú er það mjög misjafnt frá ári til árs, hvort síldin gengur upp á grunnmiðin eða hún heldur sig lengra til hafs. Gangi síldin á grunnmiðin, fylgir veiðiflotinn að sjálfsögðu eftir, þar með værum við búnir að fá hinn erlenda veiðiflota upp að 6 mílna línunni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Leyfi fyrir erlend veiðiskip til veiða upp að 6 mílum gæti þýtt algert veiðileysi og rothögg fyrir íslenzka síldveiðimenn, síldarsaltendur og síldarverksmiðjur. Slíkt ástand mundi svo þýða stórkostlegt atvinnuleysi í bæjum og sjávarþorpum Norðurlands og á Austfjörðum. Finnst hæstv. ríkisstj., að Norðlendingar og reyndar allir landsmenn hafi ekki beðið svo mikið og alvarlegt tjón vegna síldarleysis undanfarinna ára, að ekki sé þar á bætandi? Hafa hæstv. ráðh. gert sér það ljóst, hvað þær breytingar, sem þáltill. gerir ráð fyrir að gerðar verði á fiskveiðilandhelginni, geta kostað vissa landshluta og þá vitanlega um leið þjóðina alla? Ég dreg mjög í vafa, að svo sé. Ég held, því miður, að hæstv. ráðherrar hafi gengið til þessa verks með annarlegri sjónarmið fyrir augum en íslenzk. Mér skilst, að öll saga landhelgismálsins bendi til að svo sé.

Undanfarin ár hafa þorskveiðar aukizt á miðunum fyrir Norðurlandi. Ber fyrst og fremst að þakka það útfærslu landhelgislínunnar. Af þessum sökum hafa fiskveiðar stóraukizt frá öllum sjávarþorpum norðanlands. Nú t.d. í vetur eru gerðir út margir línubátar á þorskveiðar fyrir Norðurlandi með ágætum árangri. Þetta hefur skapað mikla atvinnu fyrir verkafólkið í landi, þar sem fiskurinn er lagður upp til vinnslu í hraðfrystihúsunum.

Nú á að fara að leyfa brezkum togurum og einnig annarra þjóða fiskiskipum veiðar upp að 6 mílum í marga mánuði á ári í þrjú ár og það yfir bezta veiðitímann. Vitanlega þýðir slíkt stórkostlega eyðileggingu á fiskimiðunum fyrir Norðurlandi, og má því ganga út frá því sem gefnu, að sama fiskileysi verði þar á komandi árum og var fyrir útfærslu landhelginnar. Það er sannarlega alvarlegt að leyfa erlendum togurum að fiska upp að 6 mílum í 3 ár og eyðileggja þar með lífsafkomu íslenzku þjóðarinnar að meira eða minna leyti um óákveðinn tíma.

Það, sem er þó langalvarlegast í þessu nauðungarplaggi, er það atriði, að við með þessu samkomulagi við Breta afsölum þeim í hendur rétti okkar til áframhaldandi einhliða útfærslu landhelginnar, — þeim rétti, sem allar aðrar þjóðir, sem fært hafa út fiskveiðilögsögu sína, hafa tekið sér. Þess í stað skuldbindum við okkur til þess að láta brezku stjórnina vita um allar útfærslur á fiskveiðilandhelginni með sex mánaða fyrirvara, þar með taldar breytingar á grunnlínum. Rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar þess, skotið til alþjóðadómstólsins. Hér liggur málið mjög ljóst fyrir. Íslenzk stjórnarvöld skuldbinda sig til þess að láta það ríki, sem eitt af öllum ríkjum hefur beitt Íslendinga vopnuðu ofbeldi, vita um aðgerðir Íslendinga í þá átt að færa út fiskveiðitakmörkin frá því, sem nú er. Hér er ekki verið að skera hlutina við nögl sér. Árásarþjóðin skal fá hálfs árs fyrirvara, svo að hún hafi nægilegan tíma til undirbúnings gegn aðgerðum. Auk þess er svo samið um það fyrir fram, að Bretar geta skotið málinu til alþjóðadómstólsins. M.ö.o.: öll frekari útfærsla Íslendinga á fiskveiðilandhelginni skal háð úrskurði erlends dómstóls. Nú veit enginn um, hvernig þessi alþjóðadómstóll kann að verða skipaður þá. Því má samt ganga út frá sem alveg vísu, að eins og þjóðir Atlantshafsbandalagsins hafa nú beitt öllum hugsanlegum ráðum og meðulum til þess að kúga íslendinga til samninga við Breta, þá munu sömu þjóðir beita áhrifum sínum á dómendur í alþjóðadómstólnum og reyna að fá þá til þess að úrskurða Bretum í vil. Í þessu liggur aðalhættan. Svo er annað: Eftir hvaða alþjóðalögum á slíkur alþjóðadómstóll að dæma um rétt Íslendinga til nýrrar útfærslu fiskveiðilandhelginnar? Allir vita og almennt er viðurkennt, að á þeim sjóréttarráðstefnum, sem haldnar hafa verið, hefur ekkert samkomulag náðst um rétt strandríkis til fiskveiðilögsögu. Ekki eru miklar líkur til þess, að um slíkt náist alþjóðlegt samkomulag nú á næstunni. Alþjóðadómstóllinn hefur því engin lög, sem hann getur dæmt eftir. Dómur, sem alþjóðadómstóllinn dæmdi í slíku ágreiningsmáli, gæti því aldrei orðið annað en persónulegt mat dómendanna sjálfra án nokkurs stuðnings í lögum. Auk þess gæti það svo tekið dómendurna máske mörg ár að kveða upp endanlegan úrskurð. Vitanlega er þetta ákvæði sett inn til þess eins að stöðva allar frekari tilfærslur fiskveiðilandhelginnar.

Allar þjóðir, sem hafa fært út landhelgi sína í 12 mílur eða meira, hafa tekið sér einhliða rétt þar til og án þess að leita þar um álits nokkurs alþjóðadómstóls. Þessum sjálfsagða hætti leggur hæstv. ríkisstj. nú til, að Íslendingar afsali sér í eitt skipti fyrir öll eða um alla framtíð. Og Mbl. leyfir sér að kalla þetta plagg, sem þetta er lagt til í, stærsta pólitíska sigurinn. sem Íslendingar hafi nokkurn tíma unnið.

Hæstv. ráðherrar og blöð þeirra guma mikið af grunnlínubreytingunum og hvað Bretarnir hafi verið góðir og gjafmildir við Íslendinga að láta þá hafa svona mikið svæði með nýjum grunnlínubreytingum. Ég vil spyrja: Áttu Bretar svæðin út af Húnaflóa, Bakkafjarðarflóa, út af Faxaflóa og sneiðina af Selvogsgrunni? Ekki vildi hæstv. landbrh. viðurkenna eignarrétt Breta á Selvogsgrunni, þegar hann var spurður að því á fundi á Selfossi nú á dögunum, hvort Bretar ættu það svæði. Nei, hann sagði, að þeir ættu ekkert í því. Sannleikurinn er sá, að Bretar geta ekkert gefið Íslendingum af hafsvæðunum kringum Ísland. Að tala um slíkt er hrein fjarstæða, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir eiga ekkert í því. Landgrunnið hringinn í kringum Ísland er hluti af Íslandi sjálfu, sem ekki verður frá því skilinn. Þetta landgrunn tilheyrir engu öðru landi en Íslandi. Því getur engin þjóð, hvorki Bretar né aðrar þjóðir, gefið eða athent Íslendingum það, sem þeir eiga ekki eða réttara sagt ráða ekki yfir. Réttinn til grunnlínubreytinga áttum við, hvenær sem við vildum notfæra okkur þann rétt, að alþjóðalögum og gátum því fært út grunnlínurnar algerlega án þess að biðja Breta eða aðrar þjóðir um nokkur leyfi.

Hvernig sem menn velta þessu máli fyrir sér nú og hvað miklum blekkingum sem hæstv. ríkisstj. beitir í blöðum, útvarpi og á mannfundum, verður útkoman ætíð hin sama: Samningurinn er mesti smánarsamningur, sem Íslendingar hafa nokkurn tíma gert við erlenda þjóð. Honum verður ekki sagt upp. Hann er óuppsegjanlegur um alla framtíð, nema því aðeins að Bretarnir samþykki uppsögn samningsins. Ef við samþykkjum þetta þjóðhættulega plagg, höfum við um aldir og um alla framtíð bundið í fjötra komandi kynslóðir, en gefið Bretum, þeirri þjóð, sem beitt hefur okkur svívirðilegu, vopnuðu ofbeldi, samningsrétt um stækkun fiskveiðilandhelgi Íslands.

Íslendingar voru búnir að sigra Breta í þessari deilu. Í tæpt eitt ár höfðu engar árásir brezkra herskipa átt sér stað innan íslenzkrar landhelgi. Það er því fjarstæða að halda því fram, að Bretar hefðu tekið upp fyrri aðgerðir sínar, þ.e. að láta togara sína fiska undir herskipavernd innan íslenzkrar landhelgi. Þeir voru búnir að reyna það áður, og þeir voru búnir að tapa svo miklu á slíkum veiðiaðferðum, að þeir hefðu aldrei tekið þær upp aftur. Þeir voru búnir að gefast upp. En jafnvel þó að Bretar hefðu tekið upp fyrri ránskap, hefði það aldrei staðið nema mjög takmarkaðan tíma. En Íslendingar hefðu staðið óbugaðir og komið út úr þeim hildarleik með fullri reisn, gefandi öðrum þjóðum hið fegursta fordæmi og hlotið alheimsaðdáun að launum.

Ef sú þjóðarógæfa á eftir að ske, að svikaplagg það, sem hér liggur fyrir, verði samþykkt. verður þjóð vor særð sári, sem seint mun gróa. Þjóðarstolti voru væri þar með misboðið og við minnkaðir í augum alheimsins. Hamingjan forði þjóð vorri frá slíkri himinhrópandi smán og niðurlægingu. Ég skora á hv. alþm., hvar í flokki sem þeir standa, að sýna þann manndóm að greiða atkv. á móti þessu nauðungarsamkomulagi. Allir alþm. eru bundnir af loforðum og yfirlýsingum sjálfra sín og flokka sinna frá síðustu kosningum að hvika í engu frá gerðum samþykktum og framkvæmdum í landhelgismálinu. Ef þeir vilja ekki standa við marggefin loforð, væri þó það minnsta, sem hægt væri af — þeim að krefjast, að þeir samþykktu að skjóta málinu undir dóm þjóðarinnar og að fram verði látin fara þjóðaratkvæðagreiðsla um till. Slík afgreiðsla stórdeilumála er byggð á fyllsta lýðræði. Fyrir því ber að fara þá leið við endanlega afgreiðslu þessa máls.