07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2425)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. flutti hér alllanga ræðu við umr. í dag og reyndi að verja þá ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar og væntanlega meiri hluta Alþingis að samþ. þáltill. þá, sem hér hefur verið lögð fram. Þessi ræða hæstv. utanrrh. sýndi venjulegt undanhald í réttinda- og sjálfstæðismálum þjóðarinnar og bar einkenni undanhaldsmanna á öllum tímum og öldum. Það var hræðsla við verkefnin, það var ótti við eitt og annað, sem fram undan væri, við yrðum að láta undan, stórslys gætu verið fyrir höndum, og það væri alls ekki víst, að 12 mílna landhelgin, ekki einu sinni 4 mílna landhelgin, yrði viðurkennd, nema þessi þokkalega þáltill. yrði samþ. Öll þessi ræða bar þess merki, að stjórnarliðið er á hröðu undanhaldi í málinu. Hvar væru sjálfstæðismál Íslendinga í dag, hefði alltaf verið haldið á málunum eins og þarna er, í stað þess að gefa aldrei neitt eftir, sem unnizt hefur, en sækja jafnt og þétt fram úr nýju vígi, sem náðst hefur í sjálfstæðisbaráttunni? En út yfir tekur þó, þegar hæstv. ráðh. fer að lesa upp úr bréfi drottningarinnar, sem minnzt hefur verið á hér á undan. Hann sagði frá því í útvarpsræðu um daginn, að hann hefði þetta plagg í höndum. Hann neitar í utanrmn. að sýna þetta plagg, og þó er utanrmn. æðsta trúnaðarstofnun þingsins í utanríkismálum. Í dag leyfir þessi ráðherra sér að koma með plaggið, og hann gall fram í fyrir síðasta ræðumanni og sagði: „Ég las þetta upp.“ En þarna segir hæstv. utanrrh. ósatt framan í öllum þm. Ég sá þetta plagg hér í næsta sæti, og það var meira en hann las, því að það voru tvær stórar vélritaðar síður á folíópappír, og hann las lítið brot af því. Hann las aðeins, að það væri frá Bretadrottningu eða stjórn hennar til ríkisstjórnarinnar og að hún mundi telja orðalagið svona og svona, en meira var það ekki. Það er skilyrðislaus krafa allra þm., að hæstv. ráðh. láti prenta þetta skjal og útbýti því sem þskj., eins og gerð hefur verið krafa um áður, og það er ekki hægt undir neinum kringumstæðum að láta fara fram atkvgr. um þessa þáltill., fyrr en þetta bréf drottningarinnar liggur fyrir öllum alþm. Það er eitthvað gruggugt við þetta mál, fyrst þarf að fara svona með það: Fá vottorð frá prófessorum um vissan skilning, í staðinn fyrir að fá samþykki Bretastjórnar fyrir orðalaginu. Hins vegar þarf að fá íslenzka lagaprófessora sem millilið eða tengilið á milli brezku og íslenzku ríkisstjórnanna? Það ber vott um slæman málstað, en verst er þó að þora ekki að lesa upp bréfin frá brezku stjórninni, sem eiga að vera viðbót við þennan samning.

Þetta er í samræmi við það, að þetta mál skuli vera rætt á næturfundum í staðinn fyrir að ræða það á daginn, þegar þm. yfirleitt eru viðstaddir. (Gripið fram í: Þetta hefur verið rætt á daginn.) Það hefur verið rætt á daginn, en það er rætt á nóttunni líka, og það er ætlazt til þess af hæstv. forsetum, að umr. haldi áfram sleitulaust alla nóttina, þó að engir ráðh. eða mjög fáir og sárafáir þm. úr stuðningsliði stjórnarinnar séu viðstaddir. Öll þessi málsmeðferð ber þess vitni, að hér er einhvers konar myrkraverk á ferðinni, sem þolir ekki dagsljósið og ekki hægt að ræða með venjulegum hætti. Þetta er stórkostlegt mál, sjálfstæðismál og hagsmunamál fyrir íslenzka þjóð, og það á að ræða þetta mál á reglulegum og venjulegum fundum Alþingis, eins lengi og þm. óska eftir. Það er sú rétta og heiðarlega málsmeðferð.

Þá var annað atriði í ræðu hæstv. utanrrh., sem hann er búinn að margtaka fram í umr. að undanförnu, byrjaði í útvarpinu, tók fram í dag, og ég held, að hæstv. dómsmrh. hafi minnzt á þetta líka. Það er það, að Framsfl. og Alþb. hafi viljað láta lögbinda 12 mílna fiskveiðilögsöguna með frv., sem liggur fyrir Ed., án þess að hirða frekar um grunnlínur, rétt eins og þessir hæstv. ráðh. geri ráð fyrir því, að hafi eitthvað verið tekið í lög núna, þá sé aldrei hægt að breyta slíku. Ég veit ekki betur en hér á dagskrá sé nú fyrir Alþ. breyt. á bankalöggjöfinni. Þó var henni breytt fyrir fáeinum árum. Ekki hefur sú breyting þýtt, að bankalöggjöfin ætti að vera þannig um aldur og ævi. Í sambandi við fræðslumál, tryggingamál og annað þess háttar eru stöðugar breytingar, og þetta er bara gangur lífsins, að lögum er breytt með misjafnlega löngu millibili, og það er þess vegna undarlegt, ef ekki væri hægt að breyta þessum lögum strax, þegar ástæður þykja til. Nei, ástæðan var önnur, og það veit hæstv. ráðh. Hún var fyrst og fremst sú að koma í veg fyrir það, að ríkisstjórnir gætu með einfaldri reglugerð, jafnvel á bak við Alþ., breytt fiskveiðilögsögu landsins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu þjóðinni hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Við, sem nú erum miðaldra, munum það, að það voru rúmlega 100 þús. íbúar í þessu landi. Nú munu þeir vera milli 170 og 180 þús. Það er mikil nauðsyn á því, þegar þjóðinni fjölgar svo, að auka framleiðsluna og skapa fjölbreyttara atvinnulíf. Sjávarútvegurinn hefur verið burðarásinn í atvinnulífi Íslendinga á undanförnum árum og hefur gefið um 95% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Samningurinn við Dani, sem gerður var 1901 og var til 50 ára, var verulegur hemill á því, að Íslendingar gætu notið þeirrar auðlegðar, sem hafið í kringum landið geymir. Upp úr 1940 kemst landhelgismálið á dagskrá, miðað við það, að þessi 50 ára illræmdi samningur var þá senn úr gildi. Stríðsárin voru mikil friðunarár fyrir íslenzkt landgrunn, og kom það greinilega í ljós, að eftir stríðsárin hafði fiskurinn aukizt mjög og fiskgengdin. En veiðin jókst stöðugt. Þegar togarar, brezkir, belgískir og þýzkir, komu í stórhópum á miðin og þegar kom fram um 1950, eða fáum árum eftir að stríðinu lauk, þá var sjáanlegt, að horfði til auðnar. Rányrkja jókst stórkostlega, enda fleygði veiðitækni mjög fram frá því, sem áður hafði verið. Þess vegna var það, að hin svonefndu landgrunnslög voru samþykkt 1948, og þegar samningurinn 1951 rann út, var samþykkt að færa fiskveiðilögsögu landsins í 4 mílur eða stækka fiskveiðilögsöguna um 18375 km2, og þar í voru flóar og firðir, sem mest munaði um. Þetta hafði strax nokkur áhrif, nema sízt á Vestfjörðum og við Austurland. Bretar mótmæltu þessu, svo sem kunnugt er, og svöruðu með löndunarbanni á íslenzkan fisk, sem stóð 1952–56, en þá gáfust Bretar hreinlega upp á löndunarbanninu, svo sem kunnugt er. Íslendingar töpuðu ekkert á þessu, nema síður sé. Þeir tóku til að verka togarafiskinn sjálfir með ýmsum hætti, og skapaði þetta mjög aukna atvinnu í landinu. Það má þess vegna segja, að þetta löndunarbann Breta í þessi fjögur ár hafi verið til þess að efla atvinnulífið og íslenzkan fiskiðnað.

Þessi áfangi, sem gerður var með 4 mílunum 1952, var ekki neitt lokatakmark, og um það voru allir sammála. En það voru einnig allir sammála um það, sem að þessum málum stóðu, að það væri óhjákvæmilegt að taka útfærslu landhelginnar í áföngum. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga var ekki unnin á einum degi, og eins er það með landhelgismálið. Það er ekki heldur sigrazt í því á einum degi. Þar þarf að fara marga áfanga á sama hátt og í sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Árið 1952 var Ólafur Thors sjútvmrh. Hann var þá mjög djarfur í ummælum sínum um Breta og virtist þá vera alls ósmeykur við þá. Og ef þið lesið Morgunblaðið fyrsta þriðjudag í júnímánuði ár hvert á þessum árum, þá er hægt að kynnast afstöðu hans mjög rækilega. Það var nefnilega siður, og sá siður helzt enn, að sjútvmrh. eða nánar tiltekið siglingamálaráðherra talar á sjómannadaginn, fyrsta sunnudag í júní, og Ólafur Thors lýsti áhuga sínum í landhelgismálinu yfirleitt í þessum ræðum meira og minna. Ég vildi aðeins — með leyfi hæstv. forseta — minna á eina slíka ræðu, sem Ólafur Thors hélt, en það var í fyrsta skipti, að hann talaði á sjómannadegi, eftir að 4 mílna landhelgin var ákveðin, og það er fróðlegt og nauðsynlegt að bera þessi ummæli Ólafs Thors saman við það, sem nú er að gerast hjá hæstv. ríkisstj. og stuðningsliði hennar.

Það er það fyrsta, að Ólafur Thors segir, að íslenzka stjórnin hafi reynt að hafa áhrif á ákvörðun brezku stjórnarinnar í sambandi við löndunarbannið. sem var afleiðing fiskveiðilandhelginnar. „Enn hefur það þó ekki borið árangur,“ segir Ólafur Thors, „sem raun ber vitni um. En íslenzka ríkisstj. vill að það liggi ljóst fyrir, að það er vegna þess, að brezka stjórnin hefur valið þann kostinn að sætta sig við málstað og baráttuaðferð brezkra útgerðarmanna fremur en að taka á sig þann vanda að hefja til vegs siðferðilegan og lagalegan rétt Íslendinga, að enn hefur ekki tekizt að koma á umr. um það, með hverjum hætti þessi þjóðhættulega deila skuli lögð fyrir alþjóðadómstólinn. Enn segja menn: Er þá víst, að kröfur Íslendinga séu ekki svo fjarri sanni, að brezka stjórnin geti með engu móti við þær unað? Þessari spurningu er margsvarað í þeim einörðu og rökföstu orðsendingum, sem utanrrh. Íslands hefur fyrir hönd íslenzku ríkisstj. sent utanrrh. Bretlands, en þar er réttur Íslendinga studdur óbifanlegum rökum. Þau rök skulu ekki endurtekin hér. Hins vegar má nú svara þessum spurningum með því að spyrja: Við hvað á stjórn Bretlands, þegar hún í síðustu orðsendingu sinni segist fús til að taka til athugunar hvers konar raunhæfar tillögur, sem íslenzka ríkisstj. kynni að vilja gera um lausn málsins? Hvað er það, sem stjórn Bretlands á við með raunhæfum tillögum? Hún hlýtur að eiga við tillögur, sem leiða til friðar og fullra sætta í málinu, þannig að forn vinátta og viðskipti þjóðanna hefjist á ný. En væri það þá raunhæft, ef stjórn Íslands tæki upp þá till. stjórnar Bretlands að leggja Faxaflóalínuna eina fyrir Haagdóminn, nú eftir að brezkir útgerðarmenn neita að fallast á að aflétta einkalöndunarbanni sínu, þótt samkomulag náist um málsmeðferð, og stjórn Bretlands hefur lýst yfir því, að löndunarbannið sé löglegt og utan umráðasviðs ríkisstj. Bretlands? Við skulum alls ekki reikna með því, að nokkuð það komi fyrir í málarekstri eða dómsniðurstöðu, sem gefur brezkum útgerðarmönnum byr í seglin, heldur ganga út frá því, sem líka ætti að mega treysta, að dómstóllinn staðfesti ákvörðun Íslendinga um Faxaflóalínuna. En mundu ekki brezkir útgerðarmenn eftir sem áður neita að aflétta banninu? Mundu þeir ekki krefjast, að næst dæmdi dómurinn um 4 mílna línuna? Og segjum, að einnig það mál vinni Íslendingar. Mundu þá ekki brezkir útgerðarmenn fá önnur málsatriði sannprófuð? Segjum, að við vinnum einnig þessi mál.“ Svo kemur niðurstaða Ólafs Thors, og berum hana saman við það, sem nú er sagt um alþjóðadómstólinn og það starf. Hann spyr hérna: „Hvað yrði mikið vatn runnið til sjávar, áður en allir þeir dómar yrðu gengnir, og hversu margar milljónir hefði sá málarekstur kostað Íslendinga?“ Þarna víkur hann að tveimur atriðum: Það getur orðið endalaus dráttur í sambandi við alþjóðadómstólinn, og slíkur málarekstur getur kostað Íslendinga margar milljónir.

Það var sagt frá því í haust, að hæstv. forsrh. hafi átt viðtal við Macmillan forsrh. Bretlands um landhelgismálið. Það er þess vegna fróðlegt að skýra frá því, hvað hæstv. sjútvmrh. 1952–53, Ólafur Thors, sagði við brezku stjórnina þá um þetta mál, og það er fróðlegt að bera þetta álit hans saman við afstöðu núv. ríkisstj. í málinu, og ég held að það mætti ýmislegt af þessu læra, sem hæstv. núv. forsrh., þá sjútvmrh., segir um þetta, en hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta.

„Þegar ég lagði málið fyrir Alþingi hinn 6. nóv. s.l., mælti ég m.a. á þessa leið: „Það er málinu sjálfu og öllum aðilum þess fyrir beztu, að ekki sé farið dult með þá staðreynd, að núv. ríkisstj. Íslands mun halda fast á málstað Íslendinga. Ef henta þykir, mun stjórnin ekki hika við að flytja málið með fullri einurð á sérhverjum erlendum vettvangi, þar sem rödd Íslands heyrist. Stjórnin mun hvergi hopa, heldur sækja fram til sigurs með öllum löglegum ráðum. Íslendingar munu aldrei þola ríkisstj. sinni undanhald í málinu. Rík þjóðarþörf og einhuga þjóðarvilji er slagbrandur fyrir öllum útgöngudyrum til undanhalds í þessu mikla velferðarmáli Íslendinga.“ Og loks sagði ég í viðræðum, er ég átti um síðustu áramót við stjórn Bretlands, að hvorki núv. ríkisstj. Íslands né nein önnur vildi víkja í þessu máli. Það gæti heldur engin íslenzk ríkisstj. gert, þótt hún vildi. Sú stjórn, sem það reyndi, yrði ekki lengur stjórn Íslands, hún yrði að láta sér nægja að vera fyrrv. ríkisstj.

Og að lokum segir Ólafur Thors:

„Tillögur ríkisstj. liggja ljóst fyrir. Þeim verður ekki breytt. Það fyrirheit tel ég mig geta gefið íslenzkum sjómönnum á þessum hátíðisdegi þeirra, enda treysti ég því, að sérhverri stjórn, sem reynir að bregðast hagsmunum Íslendinga í þessu máli, muni tafarlaust vikið frá völdum.“

Það er fróðlegt að bera þessi ummæli hæstv. núv. forsrh., sem þá var sjútvmrh., saman við þau vinnubrögð, sem höfð hafa verið við þennan síðari áfanga í landhelgismáli þjóðarinnar. Þetta var fyrsti áfanginn, 4 mílna útfærslan. Næsti áfanginn var 12 mílna útfærslan. Sumarið 1958 gerðist margt meira, og hefur það verið rakið hér af ýmsum ræðumönnum áður. Ég vil þó aðeins drepa á það, að Sjálfstfl. sagði: „Haltu mér, slepptu mér.“ Í öðru orðinu virtist hann vilja vera með málinu, og að hinu leytinu reyndi hann að spilla fyrir málinu, eins og hann gat. Þeir, sem muna skrif Morgunblaðsins allt sumarið, muna mjög greinilega, að þar bar mest á umsögnum erlendra blaða, sem voru íslenzkri ríkisstj. óhagstæð, og það var talað um það þá eins og nú, að íslenzka stjórnin væri að stíga mikið óhappaspor með útfærslu sinni í 12 mílurnar. Og það var líkast því, að ritstjórn Morgunblaðsins væri þá stjórnað af brezkum togaraútgerðarmönnum. Það var þeirra málstaður, sem var fyrst og fremst túlkaður allt sumarið, auk þess sem Sjálfstfl. fékkst ekki til þess að hafa samstarf við þáv. ríkisstj. um málið. Bergmál af því, sem skeði þetta sumar, — það má segja bergmál af skrifum Morgunblaðsins þetta sumar var hin fræga ræða, sem Pétur Benediktsson bankastjóri flutti í Hafnarskógi. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — gefa aðeins sýnishorn af þessari ræðu, því að það má segja, að þar endurspeglist starfsaðferðir og vinnubrögð Sjálfstfl. í þessu máli. Samkv. því, sem Morgunblaðið segir 26. ágúst, en ræðan var flutt sunnudaginn 24. ágúst, — þá stendur þar eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það voru ójafnir samningsaðilar, sem að Hræðslubandalaginu stóðu. Alþýðuflokknum hefði verið hollt að hafa í huga hið fornkveðna, að jafnar kvígur draga beztan arð.“ Þetta átti nú Alþýðuflokkurinn. „Framsókn notar hvert tækifæri til að sýna, að hún metur kommúnista meira en Alþýðuflokkinn. Við sáum, hver viðbrögðin voru, þegar þessum tveim samstarfsflokkum Framsóknar lenti saman út af landhelgismálinu fyrir tveimur mánuðum. Þá var Alþýðuflokkurinn svínbeygður undir ok kommúnista. Hvers vegna lét hann fara svona með sig? Sú saga gekk í Reykjavík, að Eysteinn Jónsson hefði kallað foringja Alþýðuflokksins fyrir sig og tjáð þeim, að ef til kosninga kæmi út af þessari deilu, þyrftu þeir einskis stuðnings að vænta, heldur fulls fjandskapar frá Framsókn og SÍS. Ég var ekki viðstaddur þetta samtal og veit ekki sönnur á því. Það er ekki heldur aðalatriðið, hvort Eysteinn Jónsson hafi haft þetta form á. Hitt skiptir mestu, að það er þessi hótun, sem alltaf hangir yfir Alþýðuflokknum eins og sverð á mjóum þræði, meðan hann kýs það hlutskipti að leika rangindaleikinn með Framsókn.“

Síðan veittist ræðumaður hart að ríkisstj. fyrir frammistöðu hennar í varnarmálunum, þar sem hún gerði varnir landsins að verzlunarvöru, og hélt áfram:

„Eftir frammistöðuna út á við í þessu máli er von, að viðbrögð útlendinga við ákvörðunum okkar um stækkun landhelginnar hafi verið með nokkuð sérstökum hætti. Það er auðséð á erlendum fréttaskeytum,“ — fréttaskeytum, takið þið eftir, — „að víða hefur sama spurningin vaknað: Hvað kostar það margar milljónir dala að fá íslenzku ríkisstj. til þess að renna þessum kröfum niður?“ — Já, það kostar margar milljónir dollara. Það er von, að maðurinn spyrji. — „Ég minntist á landhelgismálið. Allir Íslendingar eru sammála um nauðsyn þess að vernda fiskimiðin, og enginn flokkur getur öðrum fremur eignað sér kröfuna um 12 mílna fiskveiðilögsöguna frá grunnlínum. En það er með þetta mál sem önnur fleiri, að veldur, hver á heldur. Meðan sjálfstæðismenn höfðu stjórn þessara mála, var stefnt sigurvisst að marki. Núv. utanrrh. hélt upptekinni stefnu í málinu, oft í fullu trássi við kommúnista. Á Gefnarráðstefnunni í vetur var málstaður Íslands í hinum beztu höndum. Þótt ráðstefnan færði okkur engan fullnaðarsigur, var það allra manna mál, að við hefðum þar unnið stórkostlega á og taflið stæði betur fyrir okkur en nokkru sinni fyrr. En nú urðu þáttaskil. Utanrrh. missti,“ — það er hæstv. núv. utanrrh. — „a.m.k. í bili alla forustu í málinu í hendur kommúnistum. Þeim er þetta mál hið mesta kappsmál, því að þeir ætla sér að slá tvær flugur í einu höggi, skapa sér vinsældir með því að látast vera eindregnari í málinu en aðrir, sem er fáránlegasta skröksaga, en jafnframt að ná öðru enn æðra marki: að spilla vinfengi Íslendinga við vestrænar þjóðir og helzt koma okkur úr NATO. Vonandi tekst að afstýra þessum áformum. En allt er þetta mjög á huldu, því að um þetta mál er sama laumuspilið og flest annað. Ríkisstj. hefur neitað að verða við kröfum sjálfstæðismanna að birta gögn málsins, svo að helztu fregnirnar koma frá útlöndum og bera oft á sér hviksögublæ. Þó er eitt engin hviksaga. Meðan Lúðvík Jósefsson sjútvmrh. átti að vera á fundi með félögum sínum á Norðurlöndum og skýra þeim frá málstað Íslands, svo að við gætum betur notið fulltingis þeirra, sat hann að fagnaði í Moskvu og kom heim með digran sjóð, 50 millj. kr., úr því ferðalagi. Það er erfitt að bera virðingu fyrir þeirri ríkisstj., sem í alþjóðaviðskiptum þarf að kaupa til þess að gera það, sem rétt er, og það er varasamt að treysta henni, þegar hún er í eilífri fjárþröng. Á tveimur árum hafa nær 20 millj. dollara fengizt að láni hjá Bandaríkjum og Vestur-Þýzkalandi, allt með veði í áhuga fyrir vestrænni samvinnu, en hítin er óseðjandi. Hvað tákna þessar 50 milljónir, sem Rússar eru að rétta að okkur með óeðlilega lágum vöxtum? Samkv. blaðaskrifum þykir fréttin um þetta rússneska lán ískyggileg meðal vestrænna þjóða. Hafi útlendingar ástæðu til tortryggni af þessum sökum, þá höfum við það ekki síður sjálfir. Rússar gáfu aldrei neitt án þess að hyggja til launa, þótt síðar yrði. Sannleikurinn er sá, að þáttur Rússa í utanríkisviðskiptum Íslands er nú þegar hættulega mikill, og full ástæða er til að vera á verði, þegar þeir fara að færa okkur gjafir, og hafa hugfast, að margur tók við mútunni og missti frelsið. Í sambandi við þetta mál kemur tvennt fram: Landhelgismálið átti að vera fyrst og fremst málefni kommúnista, og íslenzka ríkisstj. átti að vera tilbúin, hvenær sem væri, að taka við mútum frá útlendum þjóðum til þess að falla frá öllum kröfum sínum í málinu.“

Það hefur flogið fyrir, að höfundur þessarar greinar hafi verið í leit að láni í Bandaríkjunum og ekkert lán fengið þar. Það hefur líka flogið fyrir að bankastjóri Framkvæmdabankans hafi leitað fyrir sér um lán í Þýzkalandi upp á síðkastið og engin lán fengið. Og þeim var alls staðar góðfúslega bent á það: Eyðið fyrst deilunni við Breta, svo skuluð þið tala við okkur. Og þá er spurningin: Hvað kostar það margar milljónir dollara fyrir útlendar þjóðir að fá íslenzku ríkisstj. til þess að ganga frá samningum og leggja fram þáltill. eins og hér hefur verið gert?

Þessi ræða átti sér eftirköst, sem voru þau, að einum af tilheyrendum hennar í Hafnarskógi, Pétri Ottesen, þáv. þm. Borgf., leizt ekki á bilkuna, þegar hann heyrði, hvernig flokksbróðir hans talaði um landhelgismálið, sem var honum heilagt mál. Hann kallaði því saman fund útvegsmanna og Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Hafþórs á Akranesi og fékk þar samþykkta ályktun á fundi 27. ágúst, eða þrem dögum síðar, sem var beint til ríkisstj., og kvað við annan tón hjá Pétri Ottesen en þessum flokksbróður hans, sem hafði haldið hina frægu ræðu í Hafnarskógi. Þessi till., sem er runnin undan rifjum Péturs Ottesens og samþykkt var af þessum aðilum, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af því, að óðum líður að þeirri stund, að úr því fáist skorið, hvort tilraun verði gerð til að hindra þá framkvæmd Íslendinga, sem er lífsvarðandi fyrir þá nú og í framtíðinni, að færa út fiskveiðimörkin við strendur landsins úr 4 sjómílum í 12 sjómílur, viljum vér, með tilliti til þeirra ógnana og hótana, sem fréttir herma að uppi séu með nokkrum fiskveiðiþjóðum, einkum Bretum, um aðgerðir hér að lútandi, skora alvarlega á ríkisstjórnina að hopa hvergi frá settu marki um útfærslu fiskveiðitakmarkanna. Vér lítum svo á, að réttur vor til slíkra óhjákvæmilegra sjálfsbjargarákvarðana sé skýlaus, enda í fullu samræmi við ákvarðanir ýmissa annarra þjóða, sem ótaldar eru, bæði að því er snertir fiskveiðar og hagnýtingu náttúruauðæfa, er fólgin kunna að vera undir hafsbotni. Viljum vér láta í ljós þá skoðun vora, að ef það kæmi á daginn, að erlend þjóð gerði alvöru úr því að fremja slíkt óhæfuverk að hindra að einhverju leyti framkvæmd vora á hinni nýju fiskveiðareglugerð, þá beri ríkisstj., ef vér ekki af eigin rammleik höfum mátt til að hrinda slíku ofbeldi, að snúa sér tafarlaust til forráðamanna bandaríska varnarliðsins hér á landi og krefjast þess af þeim, að þeir veiti oss til þess í tæka tíð fulltingi, er nægi til að verja rétt vorn og hrinda slíkri árás á sjálfsbjargarviðleitni þjóðar vorrar. Vér lítum svo á, að á því geti ekki leikið vafi, að forráðamenn varnarliðsins hér telji það beina skyldu sína að sinna fljótt og greiðlega slíkum tilmælum, enda slægi það miklum skugga á þær öryggisvarnir, er vér höfum talið oss trú um, að tengdar væru við það að hafa lánað land vort til varnaraðgerðar og varnarliðsdvalar um árabil, ef oss brygðist nauðsynleg aðstoð og vernd á slíkri örlagastund. Mundi slíkt fyrirbæri að sjálfsögðu ærið tilefni til nýrrar athugunar á afstöðu vorri til Atlantshafsbandalagsins.“

Pétur Ottesen var ekki aðeins baráttumaður fyrir því, að Íslendingar helguðu sér allt landgrunnið, heldur vildi hann einnig, eins og kunnugt er, að Íslendingar helguðu sér Grænland, og lagði fram um það ýmsar tillögur og gerði um það kröfur. Það var ekki nóg allt landgrunnið, heldur og Grænland, og mér er sem ég sjái Pétur Ottesen í þessum þingsölum núna að hlusta á þær vælukenndu undanhaldsræður, sem hv. stjórnarsinnar hafa haldið í þessu máli. Ég vænti þess, að hárin hefðu risið á honum.

En hvað skeður svo? Pétur Ottesen biður Morgunblaðið um að birta þessa samþykkt, og Morgunblaðið neitaði því fyrst. Það neitar að birta samþykktina. En Pétur Ottesen hættir ekki fyrr en hann fékk Morgunblaðið loksins til þess að birta hana á eins lítið áberandi stað og mögulegt var. Og það var vegna þess, að Morgunblaðið var alls ekki með málinu síðustu dagana í ágúst 1958 og vildi ekkert fyrir það gera. En þessi samþykkt varð þó til þess að koma Sjálfstfl. um stund á rétt spor. Keflvíkingar og fleiri, sem mikilla hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þetta mál, gerðu nú rækilegar samþykktir, og þetta varð allt saman til þess, að 31. ágúst 1958 féllst Morgunblaðið á það að standa með útfærslunni í 12 mílur. Fyrst svo er komið, þá segir Morgunblaðið, að það sé bezt að reyna að gera það skásta úr því, sem hægt sé að gera, og nú sé nauðsynlegt, að þjóðin standi saman. Þetta hafði breytzt, og ég fullyrði, að þessi samþykkt frá Akranesi, sem ég las hér áðan og oft hefur verið vitnað til, átti mjög veigamikinn þátt í því að sýna Sjálfstfl., að við svo búið gat ekki staðið, sem verið hafði undanfarið.

Það, sem næst gerist svo í þessum málum, er það, svo sem kunnugt er, að allar þjóðir fallast á 12 mílna landhelgina nema Bretar. Sumar þjóðir viðurkenna hana, aðrar láta þetta gott heita, mótmæla að vísu, en fóru ekki inn í landhelgina, eins og Þjóðverjar og jafnvel Belgar, en Bretar einir fóru með hernaði inn í landhelgina, svo sem kunnugt er. Þá er þess einnig vert að minnast, að fyrstu dagana í september var haldinn fjölmennur fundur á Lækjartorgi, og þar voru ræðumenn frá öllum stjórnmálaflokkum. Þar talaði fyrir hönd Sjálfstfl. Sigurður Bjarnason ritstjóri Morgunblaðsins og þáv. þm. N-Ísf., og hann sagði m.a., að íslenzka landhelgin væri sama fyrir Íslendinga og brezku kolanámurnar væru fyrir Breta, og mig langar aðeins til þess að sýna dæmi um, hvernig sá maður túlkaði málið þá, gefa smásýnishorn af slíku — með leyfi hæstv. forseta. Sigurður Bjarnason segir eftirfarandi í þessari ræðu 4. sept.:

„Þegar baráttan stóð sem hæst fyrir sex árum fyrir rétti Íslendinga til þess að loka flóum og fjörðum og setja 4 mílna fiskveiðitakmörk, var mér af mikilli gestrisni boðið niður í brezka kolanámu. Mér þótti það ákaflega merkileg heimsókn. Kolanámur hafa um aldir verið meðal aðalnáttúruauðæfa Bretlands. Í skjóli þeirra hefur þróazt brezkur iðnaður, Íslendingar nota mikið af kolum og þurfa mjög á þeim að halda. En hvað mundu þeir Bretar segja, ef við einn góðan veðurdag krefðumst þess að mega hefja kolanám hér í Kent? spurði ég leiðsögumann okkar. Manninum leizt auðvitað ekkert á þessa fyrirspurn. En sannleikurinn er sá, að það er engin fjarstæða að nefna þetta tvennt í sömu andránni: Íslenzk fiskimið og brezkar kolanámur. Fiskurinn er hyrningarsteinn íslenzks þjóðarbúskapar, og kolin hafa um langt skeið skapað þjóðarauð Breta. Hvor tveggja náttúruauðæfin eru hlutar af sjálfum löndunum.“

Sigurður Bjarnason er ekkert myrkur í máli og segir síðar:

„En hvað um alþjóðalög um landhelgina? Standast 12 mílna fiskveiðitakmörkin ákvæði þeirra? Það eru engir alþjóðlegir samningar eða lög til varðandi það, hvernig landhelgin skuli ákveðin. Flest ríki hafa ákveðið landhelgi sína með einhliða ákvörðunum. Við höfum þess vegna ekki brotið nein alþjóðalög nú með útfærslu fiskveiðitakmarka okkar. Við höfum aðeins stigið skref, sem við höfum verið ákveðnir í að stíga, allt frá því að landgrunnslögin voru sett 1948, og fyrsta og stærsta sporið var stigið árið 1952 með lokun flóa og fjarða og mörkun hiklausrar og rökstuddrar íslenzkrar stefnu í landhelgismálinu.“

Það var því ekki um að villast, að Sigurður Bjarnason taldi, að þetta væri sjálfsögð og örugg leið, og sagði að lokum í þessari ræðu sinni:

„Landhelgismálið og vernd fiskimiðanna er snar þáttur sjálfstæðisbaráttu þjóðar okkar. Við höfum háð þá baráttu með rök ein að vopni. En við skulum samt ekki láta hugfallast. Æðruleysið og stefnufestan, sem ég minntist á í upphafi að hefði mótað baráttu íslenzkra sjómanna, verður að móta baráttu okkar í dag. Þá munum við ná landi, og þá munum við vinna sigur í baráttunni fyrir rétti okkar til þess að lifa, og þá mun rétturinn sigra í viðureigninni við vopnavaldið.“

Það, sem gerist svo næst haustið 1958, það var, að áskoranir komu, samþykktir voru gerðar víðs vegar um landið, ofbeldi Breta var mótmælt, landhelgisgæzlunni voru þökkuð ágæt störf, og það má segja, að það hafi aldrei verið haldinn fundur svo eða mót, að ekki væru samþykktir gerðar um landhelgismálið. Alls konar landssambönd, bæjarstjórnir, sveitarstjórnir, allar tegundir af félögum, stór sem smá, öll kepptust þau við að mótmæla ofbeldi Breta, þakka landhelgisgæzlunni ágætt starf og skora á forustumenn þjóðfélagsins að standa fast við 12 mílna landhelgina. Með öllu þessu var hér myndaður sterkur þjóðarvilji. Hér hafði skapazt eining í einhverju mesta hagsmuna- og sjálfstæðismáli þjóðarinnar. Friðun íslenzkra fiskimiða var 90–95% að sögn fiskifræðinga. Þó að Bretar væru að veiða í herskipavernd, gátu þeir tiltölulega lítið aðhafzt, og fiskifræðingar voru sammála um, að friðunin væri hér um bil alger þrátt fyrir það. En Bretum þótti lífið erfitt við Íslandsstrendur í veðráttunni, eins og hún oft er hér að vetrinum, ekki hægt að fá viðgerðir hér við land, ekki hægt að fá læknishjálp nema með ærinni fyrirhöfn o.s.frv., og fyrst og fremst, það var hlegið að Bretum um víða veröld fyrir baráttu þeirra við íslenzku landhelgisgæzluna.

Afli íslenzkra báta óx svo næstu árin, en brezkir útgerðarmenn báru sig mjög illa. 12 mílna landhelgin var tekin upp af mörgum þjóðum, og Bretar virtu hana alls staðar nema hjá Íslendingum. Bretar notuðu svo tækifærið að gefast upp við herskipaveiðar sínar í sambandi við Genfarráðstefnuna 1960 og hættu þá veiðum í íslenzkri landhelgi. Þeir vildu reyna íslenzku stjórnina og sjá til, hver afstaða hennar yrði, og settu fram ýmsar kröfur, og þeir vissu, að mennirnir frá sumrinu 1958 voru nú komnir í stjórn, og brezki þráinn er jafnan samur við sig.

Þegar það svo spurðist í fyrrasumar, að viðræður væru hafnar milli íslenzku ríkisstj. og þeirrar brezku, hófst ný mótmælaalda um landið. Þá hófst mótmælaaldan frá haustinu 1958 og var endurtekin. Nú var samþykkt um allt land í félögum og samböndum og alls konar stofnunum áskorun til ríkisstj. að semja aldrei við Breta um landhelgismálið, og stjórnarliðið sór þetta allt af sér og sagði, að það stæði ekki til að gera nokkra samninga. Jafnvel þm. úr stjórnarliðinu risu upp og vitnuðu um það ákveðið, að það kæmi aldrei til greina, — þetta væru bara getsakir vondra manna, að það ætti að fara að semja við Breta eða færa inn íslenzka landhelgi. Ríkisstj. og skrifstofu Alþingis hafa borizt firnin öll af þessum samþykktum í allan vetur, og þegar það dróst, að þetta mál kæmi aftur á dagskrá, voru margir farnir að halda, að þetta hefðu bara verið getsakir illra manna, að það ætti að fara að semja við Breta um þetta lífshagsmunamál þjóðarinnar. Ég minnist þess t.d., að allir skipstjórar og stýrimenn á Akranesi, hver og einn einasti, sem þar er búsettur og starfar á vélbátaflotanum og til náðist, 44 að tölu, þeir sendu frá sér um áramótin svo hljóðandi áskorun, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af viðræðum þeim, sem að undanförnu hafa staðið yfir milli Íslendinga og Breta og standa enn yfir, viljum við undirritaðir mótmæla því eindregið, að samið verði við Breta um fiskveiðiréttindi handa þeim innan 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Að öðru leyti viljum við vísa til og ítreka samþykkt okkar frá því í ágústmánuði 1958 um landhelgismál Íslendinga.“ — Það er einmitt samþykkt sú, sem ég minntist á hér áðan.

Þegar Morgunblaðið ætlaði svo á dögunum í sinni áróðursherferð að ná til skipstjóra á Akranesi, þá fékk það viðtal við einn einasta af þessum skipstjórum, sem er starfandi skipstjóri, og það, sem hann sagði, voru fjögur orð í spurningarformi, sem ekkert sögðu. Þannig voru undirtektirnar í því máli.

Það er enginn vafi á því, að almenn andstaða gegn öllu því, sem heitir samningar um landhelgina, var eindreginn þjóðarvilji. Þess vegna fór stjórnin að öllu með leynd í vetur, enda hafa stjórnarsinnar víðs vegar úti um land verið alveg fram undir þetta að samþykkja mótmæli gegn því, að samið yrði við Breta um þessi mál og landhelgin færð inn. Þeir fullyrtu til skamms tíma, háttsettir stjórnarsinnar, að það kæmu aldrei neinir samningar til greina. Svo kemur orðsending utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands fyrra mánudag, svo sem kunnugt er, og um leið og hún er sett fram, þá er sett á svið sú stórfelldasta blekkingaherferð, sem þekkzt hefur í nokkru máli. Erlend fréttaskeyti dynja yfir, viðtöl eru höfð við menn frá ýmsum byggðarlögum, eftir að þeir hafa fengið einhliða upplýsingar, það eru jafnvel höfð eftir ýmsum mönnum ummæli, sem þeir hafa aldrei sagt, sbr. ummæli höfð eftir skipstjóra vestur í Ólafsvík o.s.frv.

Ég ætla svo að fara örfáum orðum um málið sjálft og skal nú fara fljótt yfir sögu og undirstrika það, sem oft hefur verið tekið hér áður fram, að með þessu viðurkenna Bretar ekki neina 12 mílna landhelgi. Það verður að gera kröfu til þess, að í samninginn verði sett, að þeir viðurkenni landhelgina, en falli ekki frá mótmælum. Það er krafa, sem á hinn fyllsta rétt á sér. Grunnlínubreytingarnar gátu Íslendingar sjálfir gert, þegar þeim þótti það hagkvæmt, samkvæmt samþykkt sjóréttarráðstefnunnar í Genf 1958, er lýsti fullum rétti strandríkja til einhliða útfærslu á landgrunnslínum, án þess að spyrja einn eða neinn. Bretinn átti ekki Selvogsbanka, Húnaflóa, Bakkaflóa og gat því ekki notað þessi svæði í skiptum fyrir önnur innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Bretinn hefur leikið á Íslendinga með því að selja þeim þeirra eigin eignir. Það, sem hefur svo skeð hér, er að togararnir eru settir í kringum landið á þessi þriggja ára svæði — og kannske lengur. Í sambandi við þessi svæði er hin fáránlegasta blekking sett fram í grg. ríkisstj., þar sem mánaðarútreikningurinn er, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að Bretinn hefur valið sér þessi svæði til að veiða á, þegar fiskurinn er mestur á hverju svæði. Þess vegna skiptir það mestu máli fyrir Breta að fá að veiða á hverjum stað, þegar fiskgangan er þar, sbr. að fá norðanverðan Faxaflóa, Kolluál og Breiðafjörð einmitt mánuðina marz, apríl og maí, þegar fiskigengdin er mest, fá að vera úti fyrir Norðurlandi allan síldveiðitímann, júní, júlí, ágúst, september, og síðan fyrir austan land langsamlega mestan hluta ársins og geta valið þar um þau svæði, sem honum sýnist. Þetta þýðir, að fiskaflinn er tekinn á tiltölulega stuttum tíma, á einmitt þeim árstíma, sem þeir vita sjálfir að langþægilegast er að ná þar til aflans, og það lítur út fyrir það, t.d. hér norðanvert við Snæfellsnes, í Kolluálnum, að þar hafi þetta verið reiknað út af þaulkunnugum mönnum, því að þar er langsamlega bezta svæðið, aðalnetasvæði þorpanna á Snæfellsnesi, svæði, sem fiskurinn gengur yfir, þegar hann fer inn í Breiðafjörð, tekið fyrir veiðar handa brezku togurunum. En hvað ætlar ríkisstj. að gera, þegar sú staðreynd blasir við á þessu svæði, í Faxaflóa og Breiðafirði, eins og vafalaust annars staðar í kringum landið, að sjómennirnir tapa ekki aðeins aflanum, heldur verða veiðarfærin einnig af þeim tekin? Þegar þeir koma með net sín á þessi svæði, þá segja vitanlega þeir brezku og aðrir togarar, sem þar eru: Þetta er okkar sjór. Utanríkisráðherra Íslands hefur gefið okkur ávísun á þetta veiðisvæði. — Sjómenn við Faxaflóa og Breiðafjörð hugsa til útlendra togara núna með hryllingi og sjá fram á, að það er stórháski á ferðum á yfirstandandi vertíð. Og svo er það undarlegt, af hverju gilti ekki sama reglan yfirleitt fyrir allt landið, því gilti ekki sama reglan t.d. við Vestfirði og Austurland, hvers vegna gilti ekki sama reglan fyrir Vesturlandi, að dreifa þessum opnu svæðum um allt Vesturland? Nei, því er ekki að heilsa, það eru teknir 2/3 af Faxaflóa norðanverðum og beztu svæðin í Breiðafirði. Síðan kemur op bæði fyrir Vestfjörðum og eins út af Reykjanesi eða sunnanverðum Faxaflóa.

Þar stendur, að ríkisstj. muni ekki hindra veiðar í næstu þrjú ár frá dagsetningu samningsins. En hver tryggir það, að samningnum verði lokið eftir þrjú ár? Ég hygg, að það verði ekki margir Íslendingar, sem treysti því, að þessum tíma ljúki, ef núv. ríkisstj. fer þá með þessi mál. Það kom í útvarpinu í dag fréttaskeyti, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. las upp, og það sýnir eins glöggt og verið getur, að yfirmenn á brezkum togurum reikna með því, að þetta þriggja ára tímabil verði framlengt. Skeytið ber það alveg með sér, að brezkir yfirmenn á togurum reikna með því að þriggja ára tímabilið verði framlengt, en þeir óska bara eftir að fá staðfestingu brezku ríkisstj. á því, að það verði gert. Og þá er spurningin: Hvað verður gert í þessu? Verður þetta látið bíða, þangað til Alþingi er búið að samþykkja þáltill., eða hverju verður brezkum yfirmönnum lofað í þessu sambandi? Fréttin ber það með sér, að þeir standi í þeirri meiningu, að það sé mjög auðveit að fá framlengingu á þessum þrem árum, en óska aðeins eftir því, að ákveðið svar liggi fyrir um það strax. En það er kannske eina vonin í þessu sem öðru, að núv. ríkisstj. hafi ekki aðstöðu til þess að ráða málinu að þrem árum liðnum, en tímatakmarkið bendir til þess, að hún ætli sér það. Það er dálítið grunsamlegt að því leyti, að eftir tvö ár eiga að vera kosningar, og þá er aðeins eitt ár eftir, og ef stjórnin hugsaði sér, að hún gæti setið annað kjörtímabil til, þá gæti margt skeð á fyrsta ári þess kjörtímabils. Og eitt er víst, að þessum mönnum væri fullkomlega treystandi til þess að framlengja samninginn að þrem árum liðnum. Þetta eru sömu mennirnir sem sóru það í tvennum kosningum 1959 og við ýmis tækifæri allt til þessa dags, að landhelgin skyldi aldrei færð inn aftur, og nú kalla þeir nauðungarsamning, sem verið er að ræða hér, stórsigur, og það bendir ýmislegt til þess, að stjórnin gæti hugsað sér að gera þetta. Í grg., sem fylgir þáltill., er einmitt bent á fordæmi Rússa í þessum efnum. Þeir gerðu fimm ára samning við Breta, og sá samningur var framlengdur um næstu fimm árin, og í blöðum Sjálfstfl. í vetur var það höfð sem aðalröksemd, að það væri ekkert meira, þó að Íslendingar semdu við Breta um landhelgismálið, heldur en Rússar hefðu gert það fyrir nokkrum árum.

Það atriði, sem áreiðanlega vekur mestan ugg hjá öllum hugsandi mönnum, er ekki framannefnt. Það má segja, að þetta sé allt bundið við stuttan tíma og Íslendingar geti haft í valdi sínu framkvæmdina og framhaldið á því. Það, sem skiptir langmestu máli hér og er alvarlegasti hluti málsins, er afsalið, sem í þessari þáltill, felst. Það er það, að ofbeldi Breta á undanförnum árum skyldi verða til þess, að Bretar fái viðurkenningu að vera samningsaðili um alla framtíð um íslenzkt landgrunn og útfærslu íslenzkrar landhelgi.

Íslendingar eru þeir einu, sem Bretar hafa beitt slíku ofbeldi, og Bretar eru þeir einu, sem Íslendingar hafa talað um að gera samning við um þessi mál. Bretar viðurkenna þetta líka sem mesta árangur af samningaviðræðunum. Það kemur ljóslega fram í brezkum blöðum, að þau telja höfuðatriðið það, að nú sé loksins búið að bremsa Íslendinga um frekari útfærslu, að þetta taugastríð um stöðuga útfærslu á íslenzkri fiskveiðalögsögu sé nú loksins stöðvað, að þessi einhliða útfærsla, sem Íslendingar hafa talið sig hafa fullan rétt til að gera og hafa gert á undanförnum árum, geti ekki lengur átt sér stað, að Íslendingar geti ekki lengur fært landhelgi sína út á eigin landgrunni. Það er engum vafa bundið, að það er mikil nauðsyn á því að hafa þennan möguleika, og næsti áfanginn, þegar allar grunnlínur hafa verið færðar út, er að stækka landhelgina úr 12 mílum og eitthvað meira. Takmarkið verður vitanlega allt landgrunnið, og þar sem vitað er, að veiðitækni fleygir mjög mikið fram, þá er grundvallarskilyrði fyrir Íslendinga að hafa þennan möguleika og nota það fordæmi, sem Íslendingar hafa gert á undanförnum árum með einhliða útfærslum á grunnlínum.

S.l. sunnudag var mjög fjölmennur og samhuga fundur í þessu máli vestur í Ólafsvik, og þar voru ekki aðeins þeir 100 menn, sem á fundinum mættu, og allir nema tveir greiddu atkvæði með ákveðnum mótmælum í þessu máli, heldur voru lagðar fram á fundinum áskoranir frá svo til hverjum einasta sjómanni og skipstjóra á öllum bátaflotanum í Ólafsvík, en hann hafði einmitt róið þennan dag. Á þessum fundi sagði greindur maður, sem tók til máls, að það virtist vera svo, að ártölin 60 væru hálfgerð óhappaártöl í sögu þjóðarinnar. Hann benti á 1262, og hann benti á 1662 og svo 1961. M.ö.o.: nú þessi árin eða á næsta ári eru 300 ár liðin frá erfðahyllingunni í Kópavogi, þegar Friðrik III. var svarið einveldi á Íslandi, og 700 ár frá því, að Íslendingar gengu á hönd Hákoni Noregskonungi.

En það eru ekki aðeins ártölin, það er margt annað, sem er líkt í þessum efnum. Þegar Gamli sáttmáli var gerður, voru Íslendingar þar ekki að koma landi og þjóð undir Noregskonung. Nei, það var ekki alveg það. Þeir voru að tryggja frið á Íslandi, og þeir voru að skapa Íslendingum ákaflega mikil réttindi í Noregi. Þetta átti að vera til þess að tryggja sjálfstæði landsins, það hét það, og það er að því leyti líkt með þáltill. og samningnum við Breta. Hann á að vera til þess að tryggja frekari útfærslu á fiskveiðilínunni, þó að hún sé færð inn á sama tíma, en samkvæmt Gamla sáttmála voru tekin fram alls konar atriði, sem Íslendingar fengu fyrir það að játa konungi land og þegna, ævilangan skatt, en konungur hét þeim aftur á móti að láta Íslendinga ná friði og íslenzkum lögum, að sex skip skuli ganga af Noregi til Íslands tvö sumur hin næstu, en þaðan frá sem konungi og hinum beztu bændum þykir hentast landinu. Enn fremur segir, að erfðir skuli upp gefast íslenzkum mönnum í Noregi, hversu lengi sem staðið hafa, að landaurar skuli upp gefast og loks að Íslendingar skuli hafa slíkan rétt í Noregi sem þeir hafa beztan haft. Þetta þótti Íslendingum mjög mikið atriði, að hafa eins mikinn rétt í Noregi og þeir hafa hann beztan haft áður, og allt var þetta gert til þess að skapa Íslendingum sem bezta aðstöðu og sem mest frelsi. Íslendingar lýstu því jafnframt yfir, að þeir vildu hafa jarlinn yfir sér, meðan hann héldi trúnað við konunginn, en frið við landsmenn. Og að lokum lofa þeir í niðurlagi sáttmálans fyrir sína hönd og sinna erfingja að halda allan trúnað við konung, meðan hann og hans erfingjar haldi sáttargerðina, en lausir, ef hún rýfst að beztu manna yfirsýn. Og þetta: beztu manna yfirsýn, það heitir núna alþjóðadómstóll. Þetta er ákaflega keimlíkt allt saman, enda er við þetta afsal 1262, 1662 og 1961, þegar Íslendingar afsala erlendum þjóðum eigum sínum og umráðarétti, andinn yfirleitt sá sami, jafnvel þótt 700 ár liði á milli. En það var sagt, að með þessu ákvæði, að þeir skyldu vera lausir, ef hún rýfst að beztu manna yfirsýn, að með þessari niðurlagsklausu hafi landsmenn auðsjáanlega ætlað sér að slá varnagla við ágangi af hálfu konungsvaldsins, og leiddi framtíðin í ljós, að eigi var vanþörf á slíku.

Nokkrum árum síðar gerðist það, að maður er sendur til Íslands, og þessi maður minnir mjög á vinnubrögð núv. hæstv. utanrrh. Var þetta nákvæmlega fyrir 680 árum, eða 1281. Þessi maður hét herra Loðinn leppur. Hann færði Íslendingum Jónsbók. Það var lögbók, sem stóð um margar aldir. Hún ber nafn eftir höfundi sínum, sem hét Jón Einarsson, lögmaður. Þar er svo sagt frá því, að þegar hann kom á Alþingi Íslendinga 1281, var það ráð tekið, að bókin var athuguð, og þá vildi enginn lögtaka þessa bók, og er sagt, að þá hafi ýmsar stéttir ritað skoðanir sínar á henni. Það, sem þeir vildu samþykkja og játa, var mjög lítið af því, sem í bókinni stóð. Biskupar og klerkar gerðu sínar játningar, í annan stað handgengnir menn og í þriðja stað bændur, og síðan gengu menn til lögréttu, og létu þeir allir uppi skoðanir sínar. Herra Loðinn leppur varð við þetta mjög æstur, að menn skyldu hafa skoðanir á þessum málum, og spurði, hvers vegna búkarlar gerðust svo digrir, að þeir færu að hugsa sér að skipa lögum í landi, þar sem konungur einn ætti að ráða, og hann heimtaði, að þeir játuðu allir bókinni undantekningarlaust. En þeir svöruðu í móti, að það mundu þeir eigi gera og tapa svo frelsi landsins við það. En herra Loðinn leppur sagði þá, að þeir ættu fyrst að játa bókinni og biðja síðan konung og ráð hans miskunnar um þá hluti, sem nauðsyn þætti til standa, og kvað þá mundu reiði sæta, sem öðruvísi gerðu. Sótti hann nú málið fast, og kom svo að lokum, að bókin var öll lögtekin utan nokkrir kaflar, sem handgengnir menn vildu að stæðu til konungsúrskurðar og erkibiskups, og gilti hún síðan sem lög í landi hér um langan aldur og fram á síðustu tíma, með þeim afleiðingum, sem öllum ætti að vera ljóst.

Það, sem gerðist á þessu herrans ári, 1281, var að maður er sendur með þessi lög og Íslendingar taka þessu mjög illa, og þetta endaði með þeim hætti, að þeir fengu að velja nokkur ákvæði, sem þeir gengust ekki undir. Nú hefur hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstj. verið á þönum vikum og mánuðum saman að berja það inn í sína þingmenn, að þeir yrðu að fylgja þessu samningsuppkasti, sem þeir allir í öndverðu höfðu andstyggð á, sem þeir voru búnir að sverja í tvennum kosningum, að þeir mundu aldrei ljá máls á, og samþykki þeirra manna víðs vegar um landið stóð einnig til þess. En hvað hefur skeð? Það lítur út fyrir, þótt það sé ekki komið í ljós, að þessir menn hafi játað þessari lögbók greinalaust. Það lítur út fyrir, að hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstj. hafi að þessu leyti gengið lengra en herra Loðinn leppur, að þeir hafi ekki fengið að ráða neinu um orðalag, ekki einu sinni orðalagi þessarar orðsendingar, eða þá um breytingar, sem neinu máli skipti. Það kemur í ljós við atkvgr, um þær brtt., sem hér liggja fyrir, og við atkvgr. í málinu, hvort þetta eigi ekki eftir að rætast.

Og nákvæmlega sami hugsunarhátturinn kemur fram hjá hæstv. utanrrh. og hæstv. ráðherrum eins og kom fram í erfðahyllingunni í Kópavogi 1662, þegar Íslendingar gáfu Friðrik III. Danakonungi einveldi. Þá skeði það, að Brynjólfur biskup ætlaði að neita að skrifa undir, en höfuðsmaðurinn, Henrik Bjelke, benti honum á menn, sem stóðu í kringum hringinn, — það voru vopnaðir dátar, sem stóðu með byssur sínar, — og sagði við Brynjólf biskup: „Sjáið þá þessa.“ Dátarnir kinkuðu kolli framan í biskupinn og lyftu aðeins byssuskeftum sínum, og þetta varð til þess, að biskupinn, foringi klerkavaldsins í landinu, skrifaði undir. Og síðan skrifaði Árni Oddsson lögmaður grátandi undir, foringi hins veraldlega hluta þjóðarinnar.

Þessir menn segja stöðugt: Sjáið hættuna á hafinu, sjáið brezku herskipin. Eigum við að halda þessum leik áfram? — Og, þeir segja við þingmenn eins og utanrrh. í ræðu sinni í dag: Sjáið, hvað brezku herskipin geta gert. Þau geta skotið niður íslenzk skip, grandað mannslífum. — Er þetta ekki nákvæmlega sami hugsunarhátturinn og hjá Henrik Bjelke, þegar hann sagði í Kópavogi 1662 við Brynjólf heitinn Sveinsson: Sjáið þá þessa?

Það er ákaflega margt líkt með þessu, enda er eðlið ósköp svipað í öllum þessum tilfellum. Íslendingar eru nú að afsala erlendri þjóð réttindum yfir hluta af landgrunninu, sem á að vera og er íslenzk eign og íslenzkt umráðasvæði. Þetta er afsal. Þetta er afsal eins og gert var í Kópavogi fyrir 300 árum og gert var við Hákon Noregskonung fyrir 700 árum.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að þó að búið sé að ganga hart eftir stuðningi þingmanna stjórnarliðsins við þetta mál, þá hefur enginn þeirra rétt til þess gagnvart kjósendum sínum eða siðferðilegan rétt að greiða þessu atkvæði.

Ég minnist þess t.d. úr Vesturlandskjördæmi frá kosningunum 1959, að þeir, sem þá hlutu kosningu fyrir stjórnarflokkana, þingmenn Vesturlandskjördæmis nr. 2, 4 og 5, sóru þess allir dýran eið í kosningunum, þegar einhver minntist á, að þeir væru ekki tryggir í landhelgismálinu, að þetta væru allt saman getsakir, það kæmi aldrei til mála að semja við Breta um að minnka íslenzka fiskveiðilögsögu. Hvað haldið þið líka, að fólkið hefði sagt í þorpunum á Snæfellsnesi og byggðinni hér við Faxaflóa, hefðu þessir hv. frambjóðendur sagt: „Það, sem við ætlum að berjast fyrir, þegar við erum komnir á þing, er að minnka fiskveiðilögsöguna niður í 6 mílur um nokkur ókomin ár og gefa Bretum samningsrétt um frekari útfærslu landhelginnar“? Skyldi þetta hafa verið sigurstranglegt kosningaloforð? Það er sitt hvað orð eða efndir. En þetta sýnir bara eitt með öðru, hversu fráleitur málatilbúnaður og fráleit vinnubrögð þetta eru, sem alþingismönnum hér er boðið upp á og íslenzku þjóðinni er boðið upp á að taka á móti. En þó að stjórnin keyri málið í gegn núna, er hlutur þjóðarinnar eftir, því að sú stund kemur, að valdið er í höndum hennar, og þá hefur hún tækifæri til að kvitta fyrir þau mestu svik, sem Alþingi hefur framið við þjóðina um langan tíma, svik, sem koma niður á núverandi kynslóð og óbornum kynslóðum í þessu landi.

Landgrunnið við Ísland er okkar kolanámur. Um lífsbjörg þjóðarinnar og möguleika til betri nýtingar með vaxandi fólksfjölda eigum við ekkert að eiga undir alþjóðadómstólnum. Sjálfstæði þjóðarinnar hefði aldrei fengizt, hefði það verið sótt undir alþjóðlegar stofnanir. Saga landsins, myndun landsins og lífsbarátta þjóðarinnar í þúsund ár eru þau vopn, sem við höfum í réttindabaráttunni.

Ég vil þess vegna skora á hv. alþm., þ.e.a.s. þm. stjórnarflokkanna, að láta það ekki á sannast, að þeir hafi verið fengnir til þess að ganga á þau helgu loforð, sem þeir hafa gefið íslenzkum kjósendum og eru skilyrðislaust bundnir af, og það má segja, að velferð og heiður þjóðarinnar veiti á því, að þeir sjái sóma sinn í því að stöðva málið.