08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (2430)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að mótmæla harðlega því, sem hv. frsm. utanrmn. sagði nú hér seinast undir lok ræðu sinnar, að stjórnarandstaðan hagaði málflutningi sínum í þessu máli svo, að til tjóns gæti orðið fyrir íslenzkan málstað í landhelgismálinu. Þessu mótmæli ég sem staðlausum stöfum, og ég held, að hv. frsm. utanrmn. hefði borið skylda til að færa sönnur á þessa fullyrðingu sína. (Gripið fram í.) Það gleður mig að heyra, að hæstv. forsrh. er kominn á vettvang og það er lífsmark með honum.

Það er rétt, sem hv. frsm. utanrmn. sagði hér áðan, að þessar umr. eru orðnar nokkuð langar, þó ekkert úr hófi langar. Því verður alls ekki haldið fram. Hér er um stórmál að ræða, sem ekkert er eðlilegra í þingræðislandi en taki nokkurn tíma að kryfja til mergjar, og það er alveg ástæðulaust af hv. stjórnarsinnum að vera að barma sér yfir því, þó að þessar umr. hafi staðið sem svarar einum sólarhring. Það er tilefnislaust, þegar þeir þá hafa fengið að sofa meiri hlutann af þessum tíma og hafa haldið sig utan þingsalanna og svikizt um sínar þingmannsskyldur undir þessum umr. Nei, þeir hafa ekki ástæðu til þess að barma sér, þeir hafa fengið að lúra í bólunum sínum.

En ég skil það vel, að hv. stjórnarsinnum líður ekki vel, og þeir hafa ekki gert mikið að því að taka til máls í þessum umr. Það er frsm., það er hæstv. dómsmrh., og það er hæstv. utanrrh. og svo aftur frsm. nú, sem hafa talað í málinu. Að öðru leyti hafa þeir látið málið, — eins og það væri eitthvert ómerkilegt mál, — látið það lönd og leið. En þetta mál er þýðingarmikið mál á heljarslóð ríkisstjórnarinnar, enda hefur málið fengið það heiti nú í þessum umr., — og það hittir í mark, — að þetta er heljarslóðarorrusta ríkisstj. Það er heljarslóðarorrusta ríkisstj., sem hér hefur verið háð s.l. sólarhring. (Gripið fram í.) Ja, það var nú einhver, sem beið ósigur í orrustunni við Solferino, sem Benedikt Gröndal gerði að yrkisefni, og það er áreiðanlega sá aðilinn, sem ber að líkja við núverandi hæstv. ríkisstj., og þeim hershöfðingja, sem þar stýrði liði, má líkja við frsm. hv. utanrmn. Nei, heljarslóðarorrusta ríkisstj. fer á einn veg. Hún fer á þann veg, að hæstv. ríkisstj. verður þar kannske ekki eftir á vígvöllunum, en það verður hennar Waterloo.

Hv. frsm. utanrmn. á rétt á því eins og aðrir frsm. nefnda að grípa inn í umr., þegar honum þykir hlýða samkv. þingsköpum, og það gerði hann nú, og hann hóf mál sitt með því að rifja upp nokkuð þessar umr. um málið, og m.a. minntist hann á atvik, sem gerðist hér s.l. nótt. Þegar ég átti þeirri ánægju að fagna að sjá hér hæstv. forsrh. mættan í dag og hæstv. fjmrh. líka og heilmikið af því 27 manna þingliði stjórnarinnar, sem vantaði hér í nótt, þá hafði ég glaðzt svo, að ég hefði ekki talið ástæðu til að gera það mál að umtalsefni nema af því, að hv. frsm. utanrmn. tókst það á hendur svona í leiðinni að minnast á það atvik. Annars hefði það ekki verið gert að umtalsefni af mér. En úr því að á þetta var minnzt, þá vænti ég þeirrar sanngirni af hæstv, forseta, að mér leyfist að víkja svolítið að þessum atburði. Það er þá einmitt í beinu framhaldi af því, að hv. form. utanrmn. var að rekja gang þessara umr. og hver hefði verið frammistaða stjórnarliðsins og stjórnarandstæðinga, að ég leyfi mér að draga upp svolitla viðbótarmynd af því. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. 1. þm. Vestf.? Ég bið að afsaka, það er frsm. utanrmn., sem hefur talað. Ég vona nú, að hv. formaður láti til sín heyra um þetta stóra mál. Að öðrum kosti tek ég það þannig, að hann sé eins og leiddur til aftökustaðarins í sambandi við þetta mál og sé hljóður af þeim sökum. En það kynnu að vera fleiri hv. þm. hér, sem væri innanbrjósts á þann veg, að þeir prísuðu sig sæla að geta verið hér fjarverandi, meðan þetta mál er til meðferðar í þinginu, og kannske helzt ef þeir mættu vera fjarverandi við atkvgr.

Umr. um þetta mál var haldið áfram í fyrradag allan daginn, og það voru sannast að segja miklar vanheimtur á liði stjórnarinnar, svo var í ráðherrasætum líka. En fundunum var haldið áfram í fyrrinótt þangað til klukkan að ganga fimm, held ég, – hún var fyllilega orðin fjögur í fyrrinótt, mundi það ekki vera rétt? Jú, jú. Fyllilega fjögur. (Gripið fram í: Var þm. ekki viðstaddur þá?) Jú, ég hef verið viðstaddur allar þessar umr. Ég var það. En ég efast um, að ritstjóri Alþýðublaðsins hafi verið það. Þessu var vel áfram haldið, ekki stuttur vinnutími hjá Alþingi þann daginn. En í gær var haldið áfram umr. og þangað til kl. um þrjú í nótt sem leið. Þá var þannig ástatt, að hér voru tveir varðstjórar frá hendi ríkisstjórnarinnar, þeir hæstv. utanrrh., sem stóð vel á verðinum, og hæstv. dómsmrh. með honum, en fimm ráðherra sá ég ekki úr þessari sjö manna ríkisstj. Tveir voru mættir. Þegar maður leit á þingbekkina, þá voru þar miklar eyður. Það kom í ljós, að á vissu augnabliki mun hafa vantað 27 af liði stjórnarinnar, 27 af 33 í þingliði stjórnarinnar, og það var verið að tala um eitt stærsta mál íslenzku þjóðarinnar, landhelgismálið. Forsrh. svaf, og eftir höfðinu dansa limirnir. (Gripið fram í.) Það má vel vera, ég hef ekki rannsakað það, ég kastaði tölu á þá stjórnarsinna, sem vantaði, og þeir voru 27. Hann kinkaði kolli, frsm., það mun vera sannleikanum samkvæmt.

Hér var hverjum þm. á fætur öðrum boðið upp á það að tala um landhelgismálið yfir mestmegnis auðum stólum þingsalarins. Það er aldrei skemmtilegt að horfa á auða stóla fyrir ræðumann. Það er ekki líklegt, að þeir meðtaki boðskapinn svo auðveldlega. Þetta ætti enginn maður að skilja betur en hæstv. utanrrh., því að mér er sagt, að í draumum sæki að honum óhugnanlegar sýnir auðra stóla úr hátíðarsal háskólans, líkt og augu Gláms sóttu að Gretti lengstum. Þegar að því kom, að ég átti að fara hér í ræðustól, að mér komið á mælendaskrá, þá var klukkan að verða þrjú í nótt, og þá var það, að ég, eins og þingvenja er, lét það í ljós við hæstv. forseta sameinaðs þings, Friðjón Skarphéðinsson, að ég þyrfti að haga máli mínu svo í sambandi við landhelgismálið, að ég þyrfti að beina orðum að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. viðvíkjandi orðum og gerðum þeirra í sambandi við landhelgismálið, og ég óskaði þess vegna eftir því, að hann gerði ráðstafanir til þess, að þessir þingbræður mínir kæmu. Undan þessu færðist forseti. En ég gaf kost á því, að ef þeim væri vorkunn að koma hér og gegna sínum þingskyldum, þá værum við hinir, sem hér værum í þingsalnum, einnig leystir frá okkar þingskyldum og fundi væri frestað, en ekki var hlustað á það. Ég skal ekki greina frekar frá orðaskiptum mínum og hæstv. forseta í sambandi við þetta mál, nema hann gaf hlé til umhugsunar og hann gaf hlé til þess að geta ráðgazt við hæstv. utanrrh. og dómsmrh. hér í hliðarherbergjum. Að þeirri ráðstefnu lokinni kom hann hér og beitti því valdboði forsetans, að ég ætti að víkja úr ræðustóli, en gaf mér ekki kost á að halda áfram mínu máli, þegar þá höfðu þó bætzt tveir ráðherrar í þingsalinn, sem ég hefði sennilega gert þá, þó að mig vantaði þá, sem ég ætlaði að tala við, — mér þótti leitt að þurfa að baktala þá virðulegu ráðh., en tilknúinn af forsetavaldinu hefði ég sennilega orðið að gera það, ef aðrir ráðh. hefðu kannske tekið að sér að bera þeim mín orð. (Gripið fram í: Þarna vantar í frásögnina.) Hvað mikið, hvað? (Gripið fram í: Forsetinn bauð ræðumanni, að hann skyldi fresta ræðu sinni til dagsins í dag.) Það var gott boð. Ég var kvaddur í þennan ræðustól af forsetanum og hafði einungis farið fram á það við hæstv. forseta. sem sanngjarnt var, að hann sæi um, að aðrir þm., sem jafnframt eru ráðh., gegndu sínum þingskyldustörfum. Hitt boðið gat ég vel afþakkað. Það var ekkert sæmdarboð. En það er staðreynd, að mér var ekki boðið að halda áfram ræðu minni, eftir að nokkrir ráðh. höfðu sýnt sig hér í þingsal, en var vísað úr ræðustóli. Og þá tilkynnti ég, að ég mundi verða í ræðustólnum til morguns og þó að þyrfti til hádegis eða til næsta þingfundartíma, og var þá að lokinni nýrri ráðstefnu slitið fundi og sagt, að næsti fundur væri boðaður og mundi hefjast með eðlilegum hætti. Það var eðillegt, að það væri tekið fram, því að hinum fundinum lauk ekki með eðlilegum hætti.

Ég get ýmsu fleira bætt við þessa frásögn, því að það vantar ýmislegt í hana, það er rétt. Ég álít, að það væri hæstv. stj. ekkert til sóma, því að það er hægt að skýra frá þeim hlutum, sem þeir kæra sig ekki um hér. Þeir hafa vafrað þannig um þingsali hér, á meðan á afgreiðslu þessa máls stóð, að það er ekki vert kannske að upplýsa, það á almannavettvangi.

Þá læt ég útrætt um þetta, sem er eingöngu sagt í tilefni af því, að hér var hafin umr. um þetta af frsm. utanrmn.

Á síðara helming 19. aldar var sífelld afturför hjá Íslendingum að því er snerti landhelgi og vernd hennar. Á síðustu 100 árunum, sem liðin eru frá miðri 19. öldinni og fram á þessa miðja, var þróunin þessi, að Íslendingar bjuggu við 24 mílna fiskveiðilandhelgi, fóru svo niður í 16, svo fór það niður í 4, — mikið hnignunartímabil. Svo um aldamótin, eða nánar tiltekið 1901, semja vinir okkar Danir, sem þá höfðu forræði fyrir okkur, við Breta, eins og kunnugt er, um það, að nú skuli skorin enn ein míla af íslenzkri landhelgi og hún færð niður í 3 mílur og Bretum boðið inn í firði okkar og flóa þar með. Það er a.m.k. í almæli haft, að þetta hafi Danir gert til þess að glæða eitthvað sölu á svínakjöti í Bretlandi. Við þennan danska samning bjuggum við svo í hálfa öld. Og þessi danski samningur hefur verið talinn eitt af hinum ógeðfelldari plöggum Íslandssögunnar, menn hafa ekki viljað bendla neinn Íslending við gerð hans. Nei, menn hafa þótzt góðir að geta sagt: Nei, það var aldanskur ráðherra, sem gerði þann samning. — Það var satt, það var aldanskur ráðherra og dönsk ríkisstjórn, sem bar ábyrgð á honum. En þessi samningur var ekki eins bölvaður að öllu leyti og dæmi eru til um samninga. Það var einn kostur við hann. Hann var uppsegjanlegur, hæstv. utanrrh. Hann var uppsegjanlegur. (Gripið fram í: Þetta er alveg rétt.) Já, það er rétt. Svo er annar samningur, sem er það ekki. Danir sáu þó svo um, þrátt fyrir að samningurinn væri bölvaður, að það væri hægt að segja honum upp með tveggja ára fyrirvara, og það var gott, því að þann rétt gátu Íslendingar síðar notað sér. Honum var sagt upp á tilskildum tíma með tveggja ára fyrirvara og er úr sögunni. Þá hófst sókn Íslendinga í landhelgismálunum. Það hófst góð samvinna á milli flokka á Íslandi um landhelgismálin, um sóknina í þeim á fyrsta sprettinum, allir flokkar sammála um það, að nú þyrftum við að auka verndina á íslenzkum fiskimiðum, við ættum helzt að búa því lagalegan ramma, að við ættum tilkall og lögsögu og ráðstöfunarrétt á öllu landgrunninu kringum Ísland. Með þessu flokkasamstarfi var sett landgrunnslöggjöfin, löggjöfin um vísindalega friðun landgrunnsins, árið 1948. Það var mikilsverður kapítuli, það var gleðilegur atburður í sögu Íslands.

Svo er farið að starfa að því að setja reglur um friðun á landgrunninu samkv. þeirri heimild, sem sjútvmrh. hafði samkvæmt þessum lögum, — heimild til þess að gera það með setningu reglugerða. Fyrsta reglugerðin um þetta efni er sett 1950, þar sem aukið er nokkru við fiskveiðilandhelgina norðanlands. Þar með eru íslenzk botnvörpuskip látin færa sig utar, öll erlend skip líka nema Bretar. Þeir fengu að skarka áfram fyrst um sinn inn að gömlu línunni, og það var illur fyrirboði þess, sem síðar kom. Það bólaði þarna strax á undirlægjuhættinum gagnvart Bretum, að taka þá eina þjóða út úr, þjóð, sem hafði sýnt okkur meiri ágengni og drýgt stærri syndir með því að urga upp íslenzk fiskimið og gera þau fisklaus að kalla. Jú, þeir fengu þarna strax við setningu reglugerðarinnar 1950 þau sérréttindi allra erlendra þjóða að mega fara inn fyrir þá nýsettu línu og inn að þeirri gömlu, og notuðu þeir þann rétt rækilega, ekki hvað sízt á Húnaflóa, enda varð það svo, að Húnaflóasvæðið varð mjög hart úti á næstu árum á eftir og hefur verið svo fram undir þetta, að því er fiskleysi snertir.

Bretar höfðu með reglugerðinni frá 1950 meiri rétt en Íslendingar. Við samþykkt þess samnings, sem hér er til umr., komast þeir líklega aftur í sömu sporin. Íslendingum, ekki sízt Strandamönnum og íbúunum við Húnaflóa, líkaði þetta stórum illa. Þessi undanlátssemi við Breta varð illa ræmd þar norðanlands. Íslenzk stjórnarvöld þóttu hafa haft lítið bein í nefi gagnvart Bretum viðvíkjandi þessari stjórnanathöfn, og þótti mönnum upp frá þessu ills að vænta af þeim sömu mönnum, enda er það nú komið á daginn.

Næsta skrefið, og það má kalla stórskref, er stigið árið 1952, þegar reglugerð er sett um að færa út fiskveiðilandhelgi Íslands í 4 sjömílur og loka fjörðum og flóum eftir sömu reglum og Norðmenn höfðu þá nokkru áður fært sína landhelgi út í 4 sjómílur. En ekki þarf að rifja það upp í löngu máli, að þá hófst raunverulegt stríð við Breta. Bretar sögðu okkur þá stríð á hendur út af því, að við skyldum hafa dirfzt að ætla að helga okkur 4 sjómílur meðfram strandlengju okkar til eigin fiskveiða, sem þeir þó eins og allar aðrar þjóðir vissu að við lifðum á. Hvað varðaði þá um það? Þetta var einhliða aðgerð af hendi Íslands, og enginn gat haggað þeirri aðgerð. Hún var gerð í fullri andstöðu við Breta. Þeir byrjuðu á að hóta og ógna, áður en þetta var gert, og héldu því áfram, eftir að þetta hafði verið framkvæmt, og settu þá á okkur fisklöndunarbannið, sem allir sjá og viðurkenna að var tilraun af hendi stórveldis til þess að sveita hina litlu Íslenzku þjóð. Og þetta gerðu þeir þrátt fyrir það, þó að þeir væru þá orðnir bræður okkar í bandalagi þjóða, þar sem fyrsta boðorðið var, að stórþjóðirnar áttu að vernda þær litlu.

Vel fylgdust Íslendingar að í þessu máli. Þetta var ekki ágreiningsmál innanlands. Þetta þótti öllum sjálfsögð ráðstöfun til þess að bæta lífsaðstöðu þjóðarinnar, og hefði mátt vænta þess, að slíkt yrði einnig áframhaldið. Þá kemur að útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 12 mílur 1958, stærsta skrefinu, sem var stigið til þess að vinna upp aftur hnignunina á síðari hluta 19. aldarinnar, að komast þá aftur upp í 12 mílur með íslenzka fiskveiðilandhelgi. Það var öllum ljóst, að þetta var enginn lokaáfangi. Það er alrangt, sem hefur verið látið í veðri vaka í þessum umr., að þessir eða hinir hafi litið á þetta sem endanlegt mark, heilaga tölu 12, og þar fram eftir götunum og að lengra skyldi ekki haldið, það mætti ekki neinn vinna að því að víkka landhelgina meina en þetta. Þetta er alrangt. Þetta eru ósæmilegar getsakir.

Það var öllum Íslendingum augljóst, að þó að við næðum okkar 12 mílna áfanga, þá yrði sífellt með vaxandi veiðitækni, stækkun skipa og fullkomnari veiðarfærum að stefna að því, að þjóð, sem er eins sett og íslenzka þjóðin er, sem 9 allt sitt undir fiskveiðum og verndun sinnar landhelgi, fengi umráð yfir landgrunninu öllu og gæti lagt það undir sína lögsögu. Það var lengi vel ekki vitað um nokkurn minnsta ágreining í þessu. Það var ekki vitað annað en öll þjóðin fylgdist að sem bræður í því að stefna skref fyrir skref að þessu marki, nota hvert tækifæri, sem gæfist, til þess að stíga nýtt og nýtt skref, þangað til við hefðum náð lögsögu á öllu okkar landgrunni, sem er svo sérstaklega vel aðgreint frá öllum öðrum landgrunnum annarra landa landfræðilega, að ekkert er hægt að deila um þess mörk.

Samfylgdin entist svo lengi sem ofur sterk erlend öfl fóru ekki að hafa áhrif á hugi ýmissa Íslendinga, jafnvel í valdaaðstöðu. Það eru eingöngu erlend, framandi, utanaðkomandi öfl, sem hafa gert það að verkum, að íslenzk þjóð stendur í dag — því miður — ekki sameinuð sem skyldi um sitt landhelgis- og landvarnamál. Við höfðum náð 12 mílna áfanganum og unnið það stríð, sem Bretar hófu eftir setningu reglugerðarinnar 1. sept. 1958, og unnið það stríð þannig, að brezku herskipin voru hætt að ónáða íslenzku varðskipin og fara inn fyrir íslenzka landhelgi og höfðu gert það fyrir mörgum mánuðum, — ef það er ekki að nálgast árið, síðan þau gáfust upp, — það var fyrir Genfarráðstefnunni í fyrra, og það fer nú að líða að því, að það sé ár, frá því að þeir létu af þessari styrjöld, af því að þeir sáu, að hún var vonlaus. Það hafði ekki tekizt að fiska undir herskipavernd, og Bretar höfðu fengið slíkt ámæli í augum heimsins, að þeim fannst það ekki reynandi að halda þessu siðleysisstríði áfram. Þá var farið að makka, og það þótti svo ljótur verknaður, að enginn íslenzkur valdamaður vildi játa á sig glæpinn lengi vel, mánuð eftir mánuð. Það eru svívirðileg ósannindi, var sagt, íslenzka ríkisstj. er ekkert að makka við Breta, það er ekki verið að undirbúa neina samninga. Þeir eru bara í kurteisi að tala við Bretana, eins og sjálfsagt mál er.

En þegar þing kom saman í haust og umr. hófust hér í þinginu um þetta mál, þá varð öllum mönnum ljóst af ræðum hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh., að þeir voru og höfðu verið í samningum við Breta um þetta mál. Dómsmrh. sagði hiklaust, að það yrði að vega það og meta, hvað væri hægt að fá, hverju yrði að sleppa, — aðallega, sagði hann, hvað við yrðum að láta innan okkar 12 mílna fyrir það, sem við kunnum að geta fengið utan 12 mílnanna, — þetta er álitamál, og við verðum að vega það og meta, hvort hægt sé að ná samningum á þessum grundvelli. — Hæstv. utanrrh. hagaði sér allt öðruvísi. Hann reyndi enn á ný að þræta og sverja, að það væri eiginlegs ekkert að gerast, það hefði ekkert gerzt. En samt fór það svo, að Alþ. var heitið því hátíðlega, að ekkert skyldi verða gert í málinu gagnvart Bretum nema láta Alþ. fylgjast með í því og málið skyldi þannig vera í höndum þingsins ásamt stjórninni, eins og sjálfsagt var. Þetta var þá sannleikur.

Samtölin höfðu verið í gangi milli íslenzkra stjórnarvalda og Breta, þó að þrætt væri fyrir, og það eru margir mánuðir síðan það varð augljóst mál og játað. Svo kom þar, að nú fyrir nokkrum dögum var tilkynnt, að það yrði lögð þáltill. fyrir Alþ. um það, að deilan við Breta yrði leyst með samningum, og fskj. með þessari þáltill. er orðsending utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands um það, að ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum, grunnlínur verði færðar svolítið út, í 3 ár frá dagsetningu svars Bretastjórnar mun ríkisstj. Íslands ekki hindra, að skip, sem skrásett eru í Bretlandi, stundi veiðar milli 12 og 6 mílna fiskveiðilögsögu Íslands á nánar tilgreindum svæðum.

Í fjórða lagi, að á áðurgreindu þriggja ára tímabili skuli þá skipum, sem skráð eru í Bretlandi, óheimilt að stunda veiðar á tilteknum svæðum milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögunnar, og svo í fimmta lagi, að ríkisstj. Íslands ætli sér að halda afram að vinna skv. ályktun Alþ. frá 5. maí 1959 að útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en muni tilkynna ríkisstj. Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og ef þeir færu að malda eitthvað í móinn gegn slíku, þá væri hægt að skjóta ágreiningnum til alþjóðadómstólsins. Það er þessi till. til þál., einkanlega þessi orðsending, þessi milliríkjasamningur, sem hér er um að ræða, sem hv. Alþ. hefur verið að ræða undanfarna daga og nætur og er enn að ræða.

Það sér hver maður, það blasir við augum allra, að frá Horni og austur fyrir land er á einhverjum tímum ársins heimilað, að brezk skip séu að veiðum innan 6 mílna línu allt vestur að Bjargtöngum, austur fyrir og suður fyrir og vestur fyrir land til Bjargtanga með örfáum undantekningum, þar sem veiðiskapurinn skal af þessum erlendu ræningjum ekki stundaður nema inn að 12 mílunum. Þessu er afsalað. Þetta stingur mest í augun. Það er út frá þessu, sem menn taka afstöðu til málsins við fyrstu sýn. En þegar menn athuga málið betur, þá er það miklu stærra atriði, sem upplýst var á utanríkismálanefndarfundi fyrir nokkrum dögum, að þessi samningur sé óuppsegjanlegur og að Ísland sé þannig um aldur og ævi skuldbundið til þess að ákveða ekki nýja grunnlínupunkta, færa ekki út sína fiskveiðilandhelgi nema hafa fyrst sótt um það til Breta og verða síðan að leggja það undir erlendan dómstól. Þetta er raunverulegt innihald samningsins. Þetta er það, sem veldur því, að sum brezk blöð segja, að það hafi verið gert „good job“ fyrir þá, og mætti segja, að Íslendingar hafi gert „bad business“ í staðinn. Það er það stóra í málinu. Og eins og málið stendur núna, þá er ekki annað að sjá en sóknin, sem hófst 1948 í landhelgismálinu og náði hápunkti með útfærslunni í 12 mílur 1958, sé nú að byrja að verða að undanhaldi, sams konar undanhaldi og upphófst hér á síðari hluta 19. aldar, og það verður ömurlegt, ef síðari hluti 20. aldarinnar ætti að verða endurtekning á sögu 19. aldarinnar.

Það má segja, að það hafi gengið í þessum umr. eins og jafnan, þegar deilt er um mál, stjórnarsinnar, ríkisstj. og fylgilið hennar á þinginu hefur haldið því fram, að þetta sé einn mesti sigur íslenzkrar stjórnmálasögu, sem hér hafi verið unninn, og sparar hvorki stór orð, miklar gyllingar, risafyrirsagnir í sínum blöðum, endurtekningar á þessum boðskap í ríkisútvarpinu dag eftir dag, að nú hafi verið unninn einn stærsti sigur íslenzkrar stjórnmálasögu. Og það er með þessari orðsendingu, sem við eigum kost á að gera að milliríkjasamningi við Breta. Nú lýgur þú Herlegdáð fyrir kónginum, var eitt sinn sagt, og það má sannarlega segja eins nú: Nú lýgur þú að íslenzkri þjóð. hæstv. ríkisstj. — Hins vegar heldur stjórnarandstaðan því fram, að þetta sé einn hörmulegasti svikasamningur íslenzkrar sögu. Það ber ekkert meira eða minna en þetta á milli. Og í þeim umr., sem hér hafa farið fram af hendi stjórnarandstöðunnar hafa verið færð fram þung rök fyrir því, að þetta sé afsal landsréttinda, þetta stofni lífsaðstöðu íslenzku þjóðarinnar í mikinn háska og þetta sé mikið undanhald undan erlendri ásælni og ofurselji rétt ekki aðeins nútíma Íslendingsins, heldur komandi kynslóða, og það er það versta. Að þessu leyti má segja, að umr. hafi verið, eins og umr. oftast eru, einn segir hvítt það, sem hinn segir svart, og svo hættir mörgum til að láta slíkar umr, sem vind um eyru þjóta. En það hefur ýmislegt merkilegt gerzt í þessum umr., og ég ætla aðallega að staldra við tvennt.

Ég tel það fyrsta merkilega atburð þessara umr., sem gerðist hér í gær, þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) sannaði það ótvírætt fyrir þingheimi, svo að ekki verður um villzt eða hrakið, að hæstv. utanrrh. Íslands er staðinn að beinum og berum ósannindum frammi fyrir Alþ. Íslendinga. Hann gaf yfirlýsingu hér þann 6. febr., að þá hefðu engin tilboð borizt frá Bretum og þá hefðu engar till. farið frá Íslendingum í landhelgismálinu, — ekkert að frétta af þeim vígstöðvum. Og svo er hér í gær lesin skýrsla úr flokksblaði þessa hæstv. ráðh., sem er að allri uppbyggingu þannig, að hún getur ekki verið samin af neinum öðrum en þeim, sem annaðhvort hefði beina frásögn ráðh. til þess að rita eftir eða skjöl hans og skilríki til þess að draga upp myndina af því, sem hefði gerzt, atburðaröðina í þessu frá því í október og hversu það hefði verið óskaplega mikið að gera hjá ráðh. í málinu, þegar þetta skeyti hefði borizt, sem hefði verið þýtt með dulmálslyklum, og ráðh. vakað í ofvæni, þangað til menn sáu, hvað í þessu fæilst, og þessi atburður gerðist þarna og þennan dag borðaði hann með Home lávarði, á þessum stað, í hinum veglega sal Buckinghamhallar, og nákvæmlega lýst, hvernig hæstv. utanrrh. mataðist og drakk og starfaði og hverja hann hitti af valdapersónum Bretlands o.s.frv., o.s.frv., og þar mættust tveir seigir, sagði blaðið. Dagsetningarnar voru þarna. Áreiðanlega hefði ritstjóri Alþýðublaðsins ekki farið með þessar dagsetningar í blaðið, nema það hafi verið nákvæmlega og vandlega endurskoðað af ráðh. sjálfum. Og hvað sjáum við svo? Þá sjáum við þarna svart á hvítu, að þessi stórkostlegu afrek þessara tveggja afreksmanna hafa ekki aðeins verið til umr., heldur til afgreiðslu. Þau hafa verið til afgreiðslu, áður en hæstv. ráðh. kom hér hátíðlega í stólinn frammi fyrir Alþ. og sagði: Ekkert að frétta, ekkert gerzt, engin tilboð frá Bretum, engar till. frá Íslendingum. — Hér er því ekkert um að villast. Hér hefur það orðið ljóst í þessum umr., að utanrrh. Íslands, sem fer með allan trúnað íslenzku þjóðarinnar í landhelgismálinu út á við, er staðinn að berum ósannindum frammi fyrir Alþ. Íslendinga. Hvað á slíkur maður að gera? Hann á, undireins og hann getur komizt í þennan ræðustól, að ganga hér fram, það er það allra minnsta, sem hann getur gert, og biðja þingið afsökunar á þessum mistökum. (Gripið fram í: Ætli sá brezki mundi ekki segja af sér?) Ætli sá brezki mundi ekki segja af sér, segir gamall og reyndur þm. hér. Það er líka hugsanlegur möguleiki, að drengskapur Guðmundar Í. Guðmundssonar rísi einnig svo hátt, að hann segi af sér.

Annað mjög merkilegt hefur gerzt í þessum umr. Og það er það, að hæstv. utanrrh. lætur þess getið í útvarpsumr. um landhelgismálið frammi fyrir alþjóð, þegar hann á í vök að verjast stjórnarandstæðingum, sem fullyrða, að í milliríkjasamningnum felist ekki ákveðið öryggi, sem þeir telji nauðsynlegt að þar sé til verndar íslenzkum málstað, þá segir hæstv. ráðh.: Það er að vísu rétt, það er ekki í orðsendingunni, en ég hef bréf upp á það, — eins og Jón Hreggviðsson hafði, — bréf frá hennar hátign Elísabetu Bretadrottningu. Og þar er það tryggt, að Ísland hefur þennan rétt, sem er ekki tekinn fram í orðsendingrunni, en í bréfinu er það staðfest, svo að það er ekkert um að villast. — Ég sé það af nál. hv. utanrmn., að þegar nefndarmenn komu þar á nefndarfund, þá fara þeir fram á það, eins og eðlilegt er, að utanrmn. sé sýnt þetta leyniplagg. Engin ósk var eðlilegri. Engin ósk var sjálfsagðari. Og sagði ekki hæstv. ráðh. undireins: Jú, utanrmn. hlýt ég að sýna þetta plagg? — Nei, hann var ekki alveg á þeim buxunum, ekki að tala um að sýna utanrmn. þetta leynibréf. Þá gerist annað, og það er það, að í framhaldsumr. hér á hv. Alþ. tekur hæstv. ráðh. leynibréfið upp og þýðir sjálfur úr því tvær setningar og gengur þannig feti framar en í útvarpsumr., sýnir horn af bréfinu: Hér er það. en að öðru leyti skal það vera í mínum lófum leynt. — Og þá rísa auðvitað upp raddir í þinginu: Við viljum fá að sjá bréfið, við viljum fá að ganga úr skugga um það sjálfir, hvað í þessu bréfi er, hvort það er þetta, sem hæstv. ráðh. segir, hvort það er aðeins það, hvort það er ekkert annað í því. — Og grunsemdirnar vakna við það, að hæstv. ráðh. vill ekki sýna neinum bréfið. Eru einhverjar skuldbindingar í þessu bréfi gagnvart Íslandi? Eru einhverjar tryggingar í því gagnvart Íslandi? Eru einhverjar skýringar í því gagnvart óljósum ákvæðum samningsins? Eru einhver viðbótarákvæði þarna? Er eitthvað, sem hallar rétti Íslands eða bætir aðstöðu Íslands, í þessu viðbótarplaggi? Til einhvers er það sent. Það kemur ekki til mála, að það sé hægt að telja okkur trú um það, að þetta sé einkabréf frá Elísabetu til Guðmundar. Og hvað áttum við að gera með að sjá hornið af því bréfi? Ekkert. Nei, hér er um skjal að ræða, sem varðar þetta mál. Það hefur hæstv. ráðh. sjálfur opinberað með því að geta þessa plaggs í útvarpsumr. og með því að sýna það hér og þýða úr því eina eða tvær setningar á Alþ. Krafa þingsins er því og hlýtur að vera: bréfið fram. Utanrmn. er skyldug til að heimta bréfið í sínar hendur, og ég treysti svo formanni hv. utanrmn., Gísla Jónssyni, að hann heimti bréfið a.m.k. í hendur utanrmn. Þegar utanrmn. hefur gengið sjálf úr skugga um efni bréfsins, þá er það mitt álit, að hún eigi að mynda sér skoðun um, hvort ástæða sé til, að þetta bréf sé prentað sem þskj. í sambandi við landhelgismálið. Ef hún telur þetta einskis virði, þá er það hennar að ákveða, að það skuli ekki birt. En hún verður að fá vitneskju um það, og snerti þetta málið, sé til skýringar á einhverju atriði samningsins, eins og hæstv. ráðh. hefur sagt, eða bæti einhverju við samninginn eða dragi þar eitthvað frá, þá á þingið heimtingu á að fá þetta plagg, og það er botnlaus ósvífni af hæstv. ráðh. að leyfa sér það að reyna til að dylja Alþ. þess plaggs, sem er í snertingu við þetta mál. Slík fyrirlitning hefur Alþ. mér vitanlega aldrei verið sýnd fyrr, og það kemur úr hörðustu átt, að þessi ósvífni skuli sýnd í sambandi við eitt viðkvæmasta og helgasta og stærsta mál þjóðarinnar.

Ég veit, að það verður allsherjarkrafa, ekki aðeins allrar utanrmn., heldur og þingheims alls og þjóðarinnar, að ekkert pukur sé haft í þessu máli og að þau plögg, sem játað er að snerti þetta mál, séu lögð fram fyrir þjóð. Það er engin krafa eins eðilleg og þessi.

Og eitt langar mig til að spyrja um, spyrja beint um. Hefur þetta Elísabetarbréf verið birt fylgismönnum ríkisstj., eða hafa þeir ekki fengið að sjá það, nema hornið af því? Ef fylgismenn stjórnarinnar hafa fengið að sjá þetta bréf, þá hefur verið gert upp á milli þm. á þann hátt, sem ber ekki að gera í lýðfrjálsu landi. Plögg varðandi hin þýðingarmestu mál þingsins eiga að verða gerð kunn öllum þingheimi, jafnt þm. stjórnarandstöðunnar sem fylgismönnum ríkisstj. Ef hins vegar svo laumulega hefur verið farið með þetta bréf, að stjórnarfulltrúarnir í utanrmn. og þm. stjórnarliðsins hafa ekki fengið að sjá það, hvernig getur þá hæstv. ríkisstj. ætlazt til þess, að þessir menn þóknist henni í því að rétta upp hendurnar með lausn málsins, fáandi ekki að vita um málsefnið í heild, fá meira að segja að vita um það, að einhver atriði málsins séu dulin fyrir þeim, en atkvæði þeirra heimtuð um málið þrátt fyrir það? Nei, þm. stjórnarliðsins gera ekki látið bjóða sér slíkt. Og þar tel ég, að sterkasta kröfuvaldið hafi fulltrúar ríkisstj. í utanrmn. og þá sérstaklega formaður hv. utanrmn. fyrir hönd nefndarinnar og fyrir hönd þingsins alls. Og ef hann með sínum dugnaði og sinni réttlætiskennd kemur þessu ekki fram, þá álít ég, að hann hafi beðið mikinn ósigur og verði ekki með öllu losaður við þá ábyrgð, sem menn hljóta að lýsa á hendur hæstv. ráðh. fyrir tilraun hans til þess að halda leynd yfir vissum atriðum þessa máls. Það er ekki hægt að koma með neina skýringu á því, að slíkt bréf sé sent upp á þau býti, að þing gagnaðilans megi ekki fá að sjá það. Og tilvera bréfsins sýnir, að einhverja þýðingu hefur það. Þýðingarlaust bréf fer ekki Elísabet Bretadrottning að senda Guðmundi Í. Guðmundssyni utanrrh. í sambandi við landhelgismálið. Bréfið verður að birtast. Lágmarkskrafan er sú, að bréfið sé gert kunnugt utanrmn. í heild og hún taki ákvörðun um, hvort það skuli prentað sem þskj.

Hv. frsm. utanrmn. gerði sig alveg eins og barn í framan, eins og 19 ára dreng, — hann var nú reyndar að tala um 14 ára dreng líka, — þegar hann segir: Þegar þm. heyra eina eða tvær setningar úr bréfinu, þá verða þeir óánægðir. — Hann er alveg hissa á þessu, hissa á því, að þm. skuli ekki vera svo lítilþægir, að þeir fái bara að vita eitthvert atkvæði, eitthvert orð, einhverja setningu úr bréfinu og þá eigi þeir að vera ánægðir. Við höfum heyrt setningu úr bréfi Elísabetar til Guðmundar. Þá eiga þeir að vera ánægðir, þm. Nei, þá verða þeir óánægðir, segir frsm. Hann sagði, að það væri barnaskapur af þm. að haga sér svona. Nei, það er fjarri sanni. Hér er um svo stórt mál að ræða, að þm. geta ekki unað neinu öðru en því, að utanrmn. fái bréfið og taki ákvörðun um, hvort ástæða sé til að birta það sem þskj. eða hvort efni þess skuli varðveitt í bókum utanrmn. sem minna opinbert mál. En það er ekki ástæða til að hafa vitneskju bréfsins í höndum ráðh. og eiga að trúa því, hvað í þessu bréfi sé, þegar þetta mál er á dagskrá á þeim sama degi sem þessi sami ráðh. er staðinn að ósannindum frammi fyrir Alþ. Íslendinga. Þá á hann sízt heimtingu á því, að honum sé trúað. Er meira í bréfinu? Er annað í bréfinu? Ráðh. verður ekki trúað. Bréfið verður sjálft að tala. Og ég endurtek: Ég vil fá að vita, hvort stjórnarliðar hafa fengið að sjá bréfið og þannig verið gert upp á milli þm. eða hvort þeir eru einnig blekktir á sama hátt og við, og er hvorugur kosturinn góður.

Í þessum umr. hefur mjög mikið verið um það rætt, hvort það sé ekki góður kostur að eiga úrskurð í þessu lífshagsmunamáli íslenzku þjóðarinnar, landhelgismálinu, undir alþjóðadómstólnum í Haag, alþjóðlegum dómstóli. Um þetta hafa verið höfð stór orð í þá átt, að hver sá þegn, sem vilji ekki að skorið sé úr íslenzkum málum á þennan hátt, sé eiginlega ofbeldisseggur og slík þjóð, sem vilji ekki láta afgreiða sín mál þannig, geti ekki talizt meðal réttarríkja. Þetta eru stór orð. Ef Ísland yrði ekki talið á bekk með réttarríkjum, ef það neitaði að leggja þetta mál undir Haagdómstólinn, þá er nokkuð eðlilegt, að þessir menn hafi heldur valið það, að Ísland gæti talizt réttarríki. Og þarna er það, sem hæstv. fjmrh. kemur við sögu. Er hann nú farinn? Getur hann ekki einu sinni verið á þingfundi um hádaginn? Mætti biðja hæstv. forseta, að gera ráðstafanir til þess, að fjmrh. sýndi sig hér í salnum? Ég mundi gera hlé á máli mínu á meðan. (Forseti: Það virðist vera, að hv. þm. ætli að hefja hér sams konar leik og hann gerði á s.l. nóttu og ég hélt að hann sjálfur vildi hafa sem fæst orð um.) Við skulum ræða um það, herra forseti. Ég hef farið fram á, að það sé gerð ráðstöfun til þess, að hæstv. fjmrh, komi í þingsalinn. Það er forsetans að segja já eða nei við því, gera ráðstafanir eða gera þær ekki. Þetta er minn þingréttur, sem ég stend á. (Forseti: Ég mun athuga, hvort hæstv. ráðh. er staddur í húsinu.) Það eru hér tæki í húsinu, sem sýna það, hvort menn eru í húsinu. Ljósin segja til þess, og þingsstarfsliðið getur gengið úr skugga um það. (Gripið fram í: Hvort það logar á perunni hjá honum.) Já, hvort það logar á perunni. (Forseti: Það er sjálfsagt að verða við þeirri ósk að sjá, hvort hann er í húsinu eða ekki.) Ég þakka forseta. (Gripið fram í: Það berst engin frétt af því enn, hvort það logar á perunni.)

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn í þingsalinn, og mun ég þá halda áfram máli mínu. (Forsrh.: Ég er líka kominn.) Það gleður mig nú enn þá meir, því að mér finnst hæstv. forsrh. alltaf hressilegur og skemmtilegur maður, svo að það verkar vel á mig nærvera hans. (Forsrh.: Má ég segja eina setningu?) Já. (Forsrh.: Ég mundi hvorki taka á móti þingmennsku né ráðherradómi, ef ég væri alltaf skyldugur að hlusta á Hannibal.) Já, það gerist nú ekki þannig á Íslandi, að menn taki við þingmennsku úr hendi eins manns, það gerist úr hendi kjósendanna, ef ég man rétt, og hann væri ekki ofsæmdur af því að vera kosinn með einu atkvæði. Ég undrast ekkert, þótt hann mundi hafna þingmennskunni, ef hann hefði bara fengið eitt atkv. (Gripið fram í: Hann er nú ekki á kjörskrá í kjördæmi sínu.) Nei, en atkv. verður hann að fá þaðan samt.

En ég ætlaði nú samt sem áður, þrátt fyrir ánægju mína yfir nærveru hæstv, forsrh., að beina nokkrum orðum til hæstv. fjmrh. að sinni. Hann hélt ræðu í útvarpið nú á dögunum um landhelgismálið. Það var ein af þessum fínu og penu ræðum, sem engan hneyksla, og það var samt ýmislegt í henni, sem mér fannst sérkennilegar kenningar. Hann sagði í þessari ræðu í fyrsta lagi, að orðalagið að falla frá mótmælum jafngilti viðurkenningu með berum orðum. Já, það jafngildir viðurkenningu, sem væri sögð berum orðum. En ég vil segja, að þegar menn vilja segja einhvern ákveðinn, þýðingarmikinn hlut, þannig að hann skiljist og verði áreiðanlega ekki mistúlkaður, hvílík aðferð er þó í milliríkjasamningi að segja hann ekki berum orðum, en það megi skilja það, megi ráða í það. Hæstv. ráðh. játar, að þetta sé ekki sagt berum orðum, en það jafngildi því, að það sé sagt berum orðum. Þm. hafa borið fram brtt. á þann hátt, að þetta verði sagt berum orðum, að Bretar viðurkenni 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Er það nú ekki öllu viðkunnanlegra að segja svona hlut berum orðum? En það má vel vera, að það sé afstaða hæstv. ráðh., að það fari einmitt betur á því að segja þetta undir rós og mátulega óljóst, ekki berum orðum.

Þó var það ekki aðallega þetta, sem ég vildi til hans beina, heldur um kenningar hans viðvíkjandi Haagdómstólnum. Nú stöndum við afskaplega ójafnt að vígi, hann er lögfræðingur, hefur verið prófessor í lögum, ég held, að hann sé sérfræðingur í alþjóðalögum eða teljist það, en ég algerlega ólöglærður maður. En hann segir, að málskot til Haagdómstólsins sé eðlileg aðferð í samskiptum siðaðra ríkja. Kannske er það ekkert óeðlilegt, slíkt málskot í samskiptum siðaðra ríkja. En ber að skilja þetta þannig, að þau ríki, sem kjósi ekki málskot til Haagdómstólsins, séu ekki meðal siðaðra ríkja? Eru þau ekki meðal siðaðra ríkja? Þetta skýrist kannske dálítið, þegar lesið er svolítið lengra í hans ræðu í Morgunblaðinu. Þar stendur þá, með leyfi hæstv. forseta: „Nú ætla ég,“ segir ráðh., „að það sé nokkuð samróma álit ábyrgra manna í lýðræðislöndum, að réttarríki geti ekki skorazt undan því að bera ágreining við annað ríki undir alþjóðadómstólinn, ef það vill njóta trausts og virðingar meðal þjóða.“ Þetta finnst mér vera afskaplega skýrt. Þarna er talað berum orðum. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að það sé samróma álit ábyrgra manna í lýðræðislöndum, að réttarríki geti ekki skorazt undan því að bera ágreining við annað ríki undir alþjóðadómstóllinn, ef það vilji njóta trausts og virðingar meðal þjóða.

Nú er það í fyrsta lagi, að Ísland með Ólaf Thors, núv. hæstv. forsrh., sem þáv. hæstv. forsrh. líka hefur neitað að setja viss atriði landhelgismálsins áður fyrr undir Haagdómstólinn, neitað Bretum um það, eins og ég skal sanna hér á eftir. Olli Ólafur Thors þessu þá, að Ísland væri ekki talið meðal siðaðra þjóða? Fyrirgerði hann allri virðingu Íslands meðal siðaðra þjóða? Það er spurningin.

Ég veit ekki betur en að af þeim u.þ.b. 100 þjóðum, sem eru í Sameinuðu þjóðunum, hafi meir en 2/3 þeirra neitað að leggja ágreiningsmál sín við aðrar þjóðir undir alþjóðadómstólinn. Það er innan við 1/3 hluti þeirra þjóða, sem eru í Sameinuðu þjóðunum, sem hefur fallizt á það að leggja sín ágreiningsmál við önnur ríki undir alþjóðadómstólinn. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri sér það ómak síðar að leiðrétta þetta, ef hann hefur öruggar heimildir fyrir því, að þetta sé rangt. En eftir hans kenningu ættu þarna meira en 2/3 hlutrar af meðlimaþjóðum Sameinuðu þjóðanna að vera utan við fylkingu siðaðra þjóða, og það stenzt ekki. Þessu hafa þjóðir leyft sér að neita, og þær eru svona margar, milli 60 og 70. Það er því dálítið hart, að hæstv. ráðh., fyrrv. prófessor í lögum, skuli koma með svona trakteringar fram fyrir þjóð sína í ríkisútvarpið í opinberum umr., algerlega staðlausa stafi, andstæðu sannleikans.

Það hefur verið bent á það í þessum umr. réttilega, að við íslendingar eigum ekki neinn fulltrúa í þessum alþjóðadómstóli, sem nú er sótt fast á að leggja okkar örlagamál fyrir, en milljónaþjóðirnar, stórveldin eiga þar fulltrúa. Bretar eiga þar fulltrúa, Bandaríkjamenn o.s.frv. Það hefur verið gerð á því athugun, einmitt í sambandi við tilhugsunina um, að við eigum að setja okkar landhelgismál undir þennan alþjóðadómstól, hvernig hann sé saman settur nú, og það er þannig: 9 af 15 dómendum þessa dóms eru nú frá þjóðum, sem hafa verið yfirlýstir andstæðingar Íslands í landhelgismálinu, 9 af 15, og í hendur þessara manna ættum við að senda stærsta mál nútíðar og framtíðar Íslands og þykja máli okkar þar vel borgið.

Nú má segja: En dómararnir, þeir eru þó ekki bundnir af afstöðu sinna þjóða, sinna ríkisstj. endilega, dómararnir eru hafnir yfir allt slíkt. — Ég hef fengið upplýsingar um það, og ég held, að það séu öruggar upplýsingar, að það hafi aðeins einu sinni gerzt í sögu dómsins, þegar hann hafði starfað í sjö ár, í stórmáli, þá kom það fyrir aðeins einu sinni og hefur ekki komið fyrir aftur, að dómari greiddi atkvæði í stórmáli á móti ríkisstj. sinnar þjóðar. Í öll önnur skipti hafa atkvæði dómendanna fallið saman við vilja ríkisstj. þess lands, sem þeir voru fyrir. En í eitt skipti í sögu dómsins er það til, að dómari hafi greitt atkv. um málsniðurstöðu gegn vituðum vilja sinnar ríkisstj.

Undir þennan dóm ættum við að setja landhelgismálið. Það þykir fangaráð. Stærsti stjórnmálasigur, sem unninn hefur verið á Íslandi, á að vera að búa okkar stærsta máli slík örlög. Nei, ég get ekki fallizt á það. Og þeir eru fleiri, og þeim fjölgar, sem þykir það ekki ráðlegt, eftir því sem þeir fá meira um þetta að heyra og betur að vita.

Og hver þarf að undrast það, þó að afstaða dómenda í máli sem þessu beri nokkurn keim af þeim kenningum, sem þeirra eigin ríki hefur viðurkennt um aldur og álitið vera prinsipmál? Það vita allir, að það eru fyrst og fremst Bretar, sem hafa haldið fast við það, að 3 mílna landhelgi væri alþjóðaregla, og þeir standa á því lengur en stætt er á því. Það er ekki til nokkur maður í Bretlandi, sem hefur meðtekið aðra kenningu en þá viðvíkjandi stærð landhelgi, að 3 mílna landhelgi sé alþjóðalög, dómararnir ekki undanskildir. Við þessa lífsskoðun eru þeir mótaðir, hver einasti Breti, og út frá þessari sannfæringu sinni um, að þetta séu alþjóðalög, mundu þeir dæma. En það er einmitt þessi skilningur, sem við Íslendingar viðurkennum ekki, og á meðan við megum nokkru ráða, viljum við ekki leggja okkar helgustu mál undir slíkan dóm. Og við megum vera alveg óhræddir um, að það er enginn möguleiki til þess að segja, að Ísland sé ekki á bekk með siðuðum þjóðum, þó að við verðum 67. eða 68. þjóðin, sem segði nei við því að leggja okkar mál undir Haagdómstólinn. Og mætti ég ólöglærður maður segja hæstv. fjmrh. það, að það er enginn minni maður en Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sem hefur haldið fyrirlestur og látið gefa hann út, um það, að það stofni til voða framtíð Haagdómstólsins, að mikill meiri hluti þjóða í Sameinuðu þjóðunum skuli ekki vilja leggja mál sín undir hann. Þetta hefur framkvæmdastjórinn sagt í fyrirlestri, opinberum fyrirlestri. Hann örvæntir um framtíð Haagdómstólsins, af því að það hefur ekki, enn þá tekizt að fá nema mikinn minni hluta þjóða til þess að leggja sin mál undir hans úrskurð.

Menn hafa hér fjölyrt um, að það þurfi ekki mikið vitnanna við lengur um, að það hafi verið góð verzlun, sem íslenzka ríkisstj. hafi gert með þessari nótu sinni, þessum milliríkjasamningi, sem hér er á döfinni. Ég segi: hafi gert, því að það sagði hæstv. sjútvmrh. í útvarpsræðu sinni, hann hafði það í þátíð, og einum af fylgismönnum stjórnarinnar, sem hér talaði í gær, varð á einmitt að hafa það í þátíð, en kippast svo við og breyta því í nútíð — í framtíðarmerkingu sjálfsagt. Nótan er gerð náttúrlega, þeir eru þannig settir, þessir blessaðir menn, að þeir hafa sennilega ekki aðstöðu til að breyta stafkrók eða orði í henni. Hún er í höndum beggja. Svona skal hún vera, og það er formsatriði í okkar lýðræðis- og þingræðislandi, að Alþingi þarf að leggja meirihlutasamþykkt á hana. Hefðist það ekki, þá yrði að kasta henni í ruslakörfuna, þá yrði hún ónýt. En það er náttúrlega gefinn hlutur, að breytt verður henni ekki. En ef þeir eru ekki bundnir í báða skó með allt orðalag þessarar till., þá efast ég ekki um, að þeir vilja heldur hafa orðalagið sem skýrast, til þess að málstaður Íslands sé sem öruggastur, og kjósa þá heldur í fyrsta lið: Bretland viðurkennir óafturkallanlega 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands, — í staðinn fyrir að þeir falli frá mótmælum gegn henni. Ef þeir eru alfrjálsir að því að breyta orðalagi, án þess að samkomulagsmerkingin breytist, þá veit ég, að þetta verður samþ. einróma. Séu þeir bundnir hins vegar, þá er það eingöngu þess vegna, sem það verður fellt, þetta skýra orðalag, sem nú er lagt til, og þannig er með aðrar sjálfsagðar brtt., sem hér eru fram fluttar.

Bretar eru óánægðir með lausn málsins, segja menn. Það á að vera einhver sterkasta sönnun, sem hægt sé að færa fram fyrir því, að málíð sé ágætt fyrir Íslendinga. Bretar eru óánægðir. Hvernig hefði nú málið þurft að leysast, til þess að Bretar hefðu látið í ljós ánægju sína? Er ekki ástæða til þess að hugleiða það? Hæstv. forsrh. hefur talað við foringja Breta fyrr og síðar, hann gerði það 1952 og hann gerði það núna í vetur á Keflavíkurflugvelli. Það var þeirra sameiginlega territoríum, og hann veit manna bezt, hvað þyrfti til þess, að Bretinn væri ánægður. Hann var ekki ánægður með 4 mílna línuna okkar. Hann er ekki ánægður, þegar hann fær að fara upp að 6 mílum. Hann var náttúrlega hundóðnægður með þessar 12 mílur okkar. En hann var eiginlega jafnóánægður 1952 með 4 mílurnar. Af því vitum við það, að hann yrði ekki einu sinni ánægður, þó að við hleyptum honum upp að 4 mílum. Hans afstaða er slík: Það er opið haf, ég á rétt á að fiska upp að 3 mílum við Ísland. — Það er hans afstaða. Er einhver hér, sem vill gera hann ánægðan? Nei, ég vænti ekki.

Nei, málið hlaut að leysast á þann veg, að Bretar væru óánægðir, og það eru því engin tíðindi að segja okkur, að brezku blöðin séu óánægð. Sum þeirra eru það, en sum þeirra eru það ekki. Það eru til brezk blöð, sem segja, að þeir hafi bara gert „good job“, þeirra umboðsmenn.

Sá möguleiki var ekki til, að þetta mál væri leyst, meðan við Íslendingar værum í sókn í landhelgismálinu, öðruvísi en í fullum fjandskap við Breta, meira að segja undir vopnum þeirra. Það er engin sönnun, það er hin herfilegasta blekking að telja það til sannana, að Bretarnir séu óánægðir með þessa lausn. Þeir hefðu orðið það, þó að við hefðum farið með þá algerlega inn að 6 mílunum okkar. Þeir hefðu orðið óánægðir, þó að við hefðum hleypt þeim inn að 4 mílum, því að þeir settu á okkur löndunarbann. Þeir ætluðu að svelta okkur í hel, þegar við fórum í það að ákveða 4 mílna landhelgi hjá okkur. Þeim tókst það ekki, fóru á rassinn þá, fóru á rassinn með sín herskip, sína herskipaofsókn til Íslands. Það er nefnilega sannleikur, að sameinaða þjóð, vopnlausa, er ekki hægt að sigra. Það er eingöngu, þegar raðirnar riðlast hér heima fyrir, að hægt er að koma einhvers konar Gleipni, einhvers konar svikafjötri á okkar þjóð.

Það má vera augljóst hverjum einasta Íslendingi, að óánægjuhljóð í brezkum blöðum er engin sönnun þess, að nú höfum við fengið góða lausn á málinu frá íslenzku sjónarmiði.

Sannleikurinn er sá, að það er búið að fá samþykki útgerðarmannanna, sjómanasamtakanna og allra aðila, sem máli skiptir, eftir að vitneskja hefur borizt frá brezku stjórninni um það, hvað sé meginkjarni málsins, og meginkjarni málsins er sá, að nú geti Íslendingar ekki stækkað fiskveiðilögsögu sína einhliða lengur, nema að fengnu samþykki Breta eða úrskurði þess dómstóls, sem ég hef lítillega gert að umræðuefni og margir fleiri og skýrt nokkuð, hvernig er saman settur og hvernig lífsskoðanir þeirra manna eru, sem þar eiga að kveða upp dómsorð.

Það var rétt fyrstu dagana, eftir að hæstv. ríkisstj. birti boðskap sinn í stjórnarblöðunum með risastórum fyrirsögnum um stærsta sigur stjórnmálasögunnar, að það tókst í bili að blekkja nokkra Íslendinga. Menn vildu ekki trúa öðru en að þarna hefði einhver góð lausn fengizt, úr því að menn höfðu svona gífurlega stór orð og þessar risafyrirsagnir um stórsigur Íslands. En þegar menn fengu þáltill. út um landið, lásu hana í ró og næði, kynntu sér efni hennar, sáu réttindaafsalið í niðurlagsliðum hennar og hið tvíræða, ófullnægjandi orðalag í 1. gr., þar sem ekki er sagt berum orðum, að Bretar viðurkenni 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland, þá sáu menn, að málið hafði fengið vonda lausn, háskalega lausn fyrir alla framtíð, enda hefur það nú gerzt, að þeir, sem fyrst létu í ljós ánægju, hafa ýmsir skipað sér ákveðið í lið þeirra manna, sem mæla gegn samþykkt þessarar þáltill. Ég á þess þó von, að enn þá eigi fólk eftir að glöggva afstöðu sína til þessa máls og það fyrst og fremst út frá praktísku hliðinni á málinu.

Þetta er mál, sem fellur ekki í gleymsku á viku og ekki á hálfum mánuði. Þetta mál verður vakandi í hugum þjóðarinnar vegna þeirrar ágengni brezkra togara og allra þjóða togara, sem nú steðja inn á fiskisvæðin okkar upp að 6 mílum fyrir Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Og þá, þegar erlenda stóðið — skipastóðið — er komið inn á fiskimið okkar, bátanna okkar m.a., og flykkist þangað um hávertíðina, þá sjá þeir, hvað hefur gerzt. Þá sjá þeir stjórnmálasigur íslenzku ríkisstjórnarinnar í nýju ljósi. Það talar skýrar og betur en nokkur tvíræð orð.

Meðan þessi samningur verður í gildi, fyrnist málið ekki, gleymist ekki. Að því leyti er það ólíkt flestum öðrum málum. Þjóðin verður sífellt, óaflátanlega minnt á þennan svikasamning í framkvæmd. Þá sér þjóðin fyrst almennt í gegnum það moldviðri, sem nú hefur verið þyrlað upp um það í sjónhverfingarskyni.

Ég lofaði því áðan, að ég skyldi leiða rök að því, að hæstv. forsrh. hafi á fyrri stigum þessa máls, einmitt eftir að hann stóð í ístaðinu fyrir Ísland og íslenzku þjóðina í sambandi við útfærsluna 1952, — þá sagði hann Bretum það hreint og skýrt, að hann neitaði að semja. Þá sagði hæstv. ráðherra samkvæmt því, sem hans málgagn, Morgunblaðið, hefur eftir honum, — hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Um skeið var unnið að því að takmarka veiðar með því að ákveða veiðar með milliríkjasamningum.“ Það var reynt fyrst. Síðan heldur hann áfram: „En ljóst er, að slíkir samningar eru ekki fullnægjandi leið fyrir okkur Íslendinga.“ Hvers vegna er þá farið inn á þá leið nú aftur, þegar hæstv. forsrh. veit, að milliríkjasamningaleiðin er ekki leið fyrir okkur Íslendinga? Hann heldur áfram: „Bæði er það, að með þeim er gert ráð fyrir, að allir aðilar séu jafnréttháir á þeim svæðum, sem þeir taka til,“ — það er t.d. utan 3 mílna frá landi, —„ og svo hitt, að með þeim er ráðgert, að till. séu gerðar til hinna ýmsu ríkisstj. um nauðsynlegar ráðstafanir, sem svo er alveg undir hælinn lagt að fáist samþykktar eða ekki.“ Hann færir fram tvenn meginrök fyrir því, að milliríkjasamningaleiðin henti ekki okkur Íslendingum og þá hefði orðið að grípa til annarra leiða. Og hverra annarra? Hann segir: „Til annarra aðferða varð að grípa. Spurningin er: Hvaða ráðstafanir getum við sjálfir gert einhliða,“ — og orðið einhliða er feitletrað í Mbl. „Spurningin er: Hvaða ráðstafanir getum við sjálfir gert einhliða, þ.e.a.s. án þess að þurfa að semja um það við aðra?“ segir hann, án þess að þurfa að semja um það við aðra. Fann hann nokkra slíka leið? Fór hann nokkra slíka leið. Eða fór hann samningaleiðina, þó að honum þætti hún ófullnægjandi og ill? Nei, hann fór ekki samningaleiðina. Hann neitaði henni alveg. Kannske hann hafi ekki sett okkur í röð siðaðra ríkja með þessu? Hæstv. fjmrh. var þá samt framámaður í þessum flokki, sem naut forustu þess manns, sem neitaði samningaleiðinni. Hæstv. ráðh. rifjar það upp, að upphaf landgrunnskenningarinnar sé eiginlega hjá forseta Bandaríkjanna, hafi komið þar fram um 1945. Upp úr því hafi fjöldi þjóða fallizt á landgrunnskenninguna, og í ræðu sinni, sem er prentuð í Morgunblaðinu, nefnir forsrh. Mexíkó, Argentínu, Chile, Perú, Costa Rica og að þessar þjóðir hafi víkkað út landgrunnskenningu Bandaríkjaforseta og sagt, að landgrunnið og hafið yfir landgrunninu skyldi falla inn fyrir landhelgi viðkomandi landa. Og þá segir orðrétt: „Eftir að málið hafði verið athugað frá öllum hliðum, þótti rétt, að Ísland skipaði sér í flokk með þeim þjóðum, sem töldu, að miða bæri við landgrunnið, enda er landgrunn Íslands ef til vill skýrara afmarkað en landgrunn nokkurs annars lands. Með landgrunnslögunum var mörkuð stefna og skoðanir Íslendinga í þessum málum,“ segir hann. En hvað er nú að gerast? Eru ekki allir sammála um það, verður ekki að viðurkenna það, að nú er verið að eyðileggja landgrunnslögin? Niðurlag þeirra er, ef ég man rétt, á þá leið, að efni þeirra verði á hverjum tíma að vera í samræmi við gerða milliríkjasamninga Íslands. Og þegar þessi milliríkjasamningur væri svo gerður og tæki af okkur sjálfræðið, og þar með sjávarútvegsmálaráðherranum, um að gefa út reglugerð um friðanir á landgrunninu, það væri ekki lengur í okkar höndum, við yrðum að spyrja Breta, leita undir Haagdómstólinn, þá erum við auðvitað búnir að missa okkar eigið sjálfstæði þarna, búnir að eyðileggja landgrunnslögin, horfnir frá þessari stefnu, sem hæstv. forsrh. — góðu heilli — átti drjúgan hlut í að marka á sínum tíma, en hefur nú gefið upp á bátinn.

Þessari ræðu, sem ég hef hér verið að vitna til, lauk Ólafur Thors með þessum orðum: „Það er óhætt að slá því tvennu föstu, að engin íslenzk ríkisstj. er í samræmi við íslenzkan þjóðarvilja og þjóðarhagsmuni, nema hún geri ráðstafanir til að vernda íslenzk fiskimið, og í öðru lagi, að þess er enginn kostur, að Íslendingar fái lifað menningarlífi í landi sínu, nema því aðeins að þær verndarráðstafanir komi að tilætluðum notum. Aðgerðir íslenzkra stjórnarvalda í þessu máli eru sjálfsvörn smáþjóðar, sem á líf sitt og frelsi að verja.“

Morgunblaðið ræðir svo þetta mál, — ég held daginn eftir, — og segir, þ.e. 23. marz: „Takmark okkar er að njóta einir fiskimiða landgrunnsins umhverfis landið. Það er skoðun okkar, að þessar auðlindir höfum við einir rétt til þess að hagnýta á svipaðan hátt og aðrar þjóðir hagnýta kolanámur og málma í jörð landa sinna. Réttur okkar stendur á traustum grundvelli, siðferðilega og lagalega.“ Þá stóð hann þó á þeim grundvelli, að það var um einhliða aðgerðir af Íslands hendi að ræða, samningum neitað.

Þessu næst vil ég leyfa mér að vitna í orðsendingu Breta til dómsmrh. 17. maí 1953. Bjarni Benediktsson er að skýra frá þessari nótu, sem hann hefur fengið frá Bretum: „Af Breta hálfu var það tekið fram, að það myndi vera sameiginlegt hagsmunamál fyrir bæði ríkin, að gerðir yrðu samningar þeirra á milli um þetta mál.“ Þeir eru sem sé lengi búnir að hafa það í huga, Bretarnir, umfram allt að ná samningum um það og hafa sótt á garðinn og verið reknir frá fram að þessu. Ólafur Thors ráðherra lagði aftur á móti á það áherzlu eftir frásögn Bjarna Benediktssonar, að íslenzka ríkisstj. áliti, að hinar fyrirhuguðu ráðstafanir væru í samræmi við alþjóðalög og að ekki væri með milliríkjasamningum hægt að afsala réttinum til að taka einhliða ákvarðanir um mesta velferðarmál þjóðarinnar. Íslendingar stóðu á lögum og rétti, siðferðilegum og lagalegum, þegar við framkvæmdum útfærsluna 1952 einhliða. Milliríkjasamningaleiðin var okkur Íslendingum ónothæf, og það er ekki hægt, segir ráðherrann, að afsala sér réttinum til að taka einhliða ákvarðanir um mesta velferðarmál þjóðarinnar. Hér er um að ræða hið sama, mesta velferðarmál þjóðarinnar, og nú er til umr. ráðstöfun með milliríkjasamningi og að fallast á samninga.

Hér hafa því algerlega verið höfð pólitísk buxnaskipti, og eru þau af hinu alvarlegasta tagi.

Í leiðara hinn 18. maí, daginn eftir að Bjarni Benediktsson birti þessa frásögn, sem ég nú vitnaði til, segir og er lögð höfuðáherzla á þetta: „Hvert strandríki hefur rétt til þess innan sanngjarnra takmarka að ákveða víðáttu fiskveiðilögsögu sinnar. Efnahagslegar ástæður Íslands réttlæta einhliða útfærslu.“ Og seinna í leiðaranum segir: „En einnig hinar landfræðilegu aðstæður fela í sér sterk rök fyrir rétti Íslendinga til einhliða ráðstafana til verndar fiskimiðunum. Landgrunnið umhverfis Ísland er mjög greinilega markað. Landgrunnið tilheyrir Íslandi og fiskimið þess sömuleiðis.“ Þetta eru ummælin, sem mér þótti máli skipta að hafa hér yfir og gera hv. þm. kunn.

Tvö hin umdeildu atriði eru: Er æskilegt fyrir okkur að fara dómstólaleiðina, milliríkjadómstólaleiðina, fara samningaleiðina, eða er hitt rétt leið, siðferðilega og lagalega, að ákveða stækkun okkar fiskveiðilögsögu einhliða, eins og við höfum gert? Hæstv. forsrh. hefur verið þeirrar skoðunar, að einhliða leiðin sé hin rétta, siðferðilega og lagalega, og hann hefur framkvæmt hana. En er nú ekki hvort tveggja til, að þjóðir hafi stækkað landhelgi sína með samningum við aðrar þjóðir og að þær hafi orðið að gera það einhliða? Er ekki sá hópurinn stærri, sem hefur gert það með samningum? Nei, í þeim hópi er engin þjóð. Það er engin þjóð, sem hefur getað stækkað landhelgi sína með samningum. En þær eru á milli 30 og 40, sem hafa stækkað landhelgi sína í 12 mílur og meira, allt upp í 200 mílur, með einhliða aðgerðum, og því hefur ekki verið hnekkt. Það er hið eina, sem hefur dugað. Það er það, sem hefur staðið. Við allar þjóðir nema Íslendinga hefur það verið látið nægja að mótmæla, þegar þær hafa fært út landhelgi sína. En þegar Íslendingar áttu í hlut, þá var reynt eitt, sem aldrei hafði verið reynt áður í mannkynssögunni, að beita hervaldi. En það voru ekki liðin nema 2 ár tæp, þegar brezka heimsveldið var búið að uppgötva það og læra það af reynslunni, að beiting hervalds í þessum málum gegn hinum smæstu þjóðum, sem höfðu stækkað landhelgi sína, var ónothæf leið, — var að gefast upp. Og þá tókst þeim að gabba íslenzka ríkisstjórn inn á samningaleiðina. Þegar Íslendingar höfðu unnið algeran sigur, höfðu náð sama marki og allar aðrar þjóðir með sömu aðferðum, einhliða útfærslu, þá er látið flæma okkur af þeim grundvelli og yfir á samningaleiðina.

Meðan við framkvæmdum sókn okkar í landhelgismálinu eftir einhliða leiðum, sagði hæstv. núv. forsrh. í sjómannadagsræðu 7. júní 1953 þetta m.a.: „Allar frelsisunnandi þjóðir hafa dæmt málstað Íslendinga sterkan og málsmeðferð fram að þessu í fullu samræmi við venjur og hætti siðaðra þjóða.“ Í fullu samræmi við hætti og venjur siðaðra þjóða. Það kemur ekki alveg heim við skoðun hæstv. fjmrh., sem telur slíkt algert siðleysi. „Bretar sögðust ekki geta aflétt löndunarbanninu,“ segir forsrh., „en það sker ekki úr, heldur hitt, að það er stjórn Bretlands og þing, sem ræður löggjöf landsins, en ekki brezkir útgerðarmenn. Og það, sem brezka stjórnin getur ekki gert í dag, vegna þess að hana skortir lagaheimild, getur hún gert á morgun, skorti hana ekki til þess vilja að afla sér slíkrar heimildar.“ Þetta er alveg hárrétt. Þetta er skýrt. Og hvað gerist? Skorti brezku stjórnina vilja? Jú, ég held það. Hún setti engin lög til þess að taka fram fyrir hendurnar á útgerðarmönnunum í löndunarbannsmálinu og afsakaði sig bara: Við ráðum þessu ekki, það eru útgerðarmennirnir í Hull og Grimsby, sem stöðva fiskkaupin.

Þegar við höfðum fært út okkar fiskveiðilandhelgi 1952, var það gert svo nákvæmlega eftir hinni norsku fyrirmynd, sem hafði fengið sína staðfestingu á alþjóðavettvangi, að Bretar treystu sér ekki til að mótmæla neinum grunnlínum, sem þá voru dregnar, nema línunni frá Öndverðarnesi til Reykjaness, þ.e.a.s. línunni fyrir Faxaflóann. Þeir héldu því fram, að hún samrýmdist ekki alþjóðalögum, og heimtuðu, að Íslendingar féllust á, að þetta atriði út af fyrir sig væri sett undir Haagdómstólinn. Og um það ræðir núv. hæstv. forsrh. einmitt í ræðu á sjómannadaginn og segir: „Væri það raunhæft að leggja Faxaflóalínuna eina fyrir Haagdómstólinn?“ Það var nú ekki stærra mál en það. Hann var ekki á því. En þó að hún væri dæmd lögleg, mundu þeir samt ekki aflétta löndunarbanninu. Það mundi líka taka langan tíma. Hvað yrði mikið vatn til sjávar runnið, áður en þessir dómar væru gengnir? Hann mælir gegn aðferðinni um að skjóta til alþjóðadómstólsins máli vegna þess, hve það sé seinvirkt. Og hversu margar milljónir hefði sá málarekstur ekki kostað Íslendinga? — líka dýr leið, óæskileg vegna þess. Og að lokum: Er tryggt með þessu samkomulagi, að ekki verði sett löndunarbann á fisk í Bretlandi áfram? Hann komst í þriðja lagi að þeirri niðurstöðu, að líklega væri það tilgangslaust. Bretar mundu ekki beygja sig. Og svo bætir hann við: „Til hvers skyldu Íslendingar líka vera að leita uppi einhverja þá aðila, Haagdómstólinn eða aðra, sem kynnu að einhverju leyti að vefengja gerðir Íslendinga?“ Það væri hjálegt að vera að leita uppi úti í heimi slíka aðila, sem líklegir væru til þess einmitt, Haagdómstólinn eða aðra, til þess að vefengja gerðir Íslendinga. Þetta er alveg hárrétt, þetta er nákvæmlega mín afstaða í dag. Ég álít, að það sé hjákátlegt að vera að slíkri leit, og ég harma það, að þeir skuli hafa farið í þessa leit og fundið Haagdómstóilnn, vera að leita að slíkum aðilum.

Af þessu er fullljóst, að þegar Bretar báðu um það lítilræði að skjóta ágreininginum um Faxaflóalínuna til Haag, þá neitaði Ólafur Thors. Orðrétt segir hann: „Ég þvertók þá þegar fyrir að verða við þeirri ósk. Ég benti á, að samkvæmt Haagdómnum væri það einhliða réttur strandríkis að ákveða sjálft og eitt fiskveiðilandhelgi sína.“ Eigum við ekki að nota þann rétt núna? Erum við búnir að glata þeim rétti? Hefur honum verið gloprað úr höndum okkar? „Ég benti á,“ segir ráðh., „að samkvæmt Haagdómnum væri það einhliða réttur hvers strandríkis að ákveða sjálft og eitt fiskveiðilandhelgi sína.“ Eigum við ekki að gera það? „Um slíkan einhliða rétt, sem Íslendingar ættu lífsafkomu sína og jafnvel þjóðfrelsi undir að gernýta, kæmi ekki til mála að semja, hvorki við Breta né neina aðra.“ Þetta er orðrétt úr sjómannadagsræðunni 1953. „Brezkir útgerðarmenn eru menn, sem of lengi hafa notið of mikils réttar á Íslandsmiðum, öllum Íslendingum til mikils tjóns.“ En því þá að fara að framlengja þeirra rétt nú með sérstökum gerningi, sérstökum samningi? Hvaða vit er í því? Of lengi. Of mikið. Það er mál að linni. Nú er ætlunin að auka þann rétt á kostnað Íslendinga, eins og það sé þannig, að réttur Íslendinga hafi verið of mikill og það sé ástæða til þess að farga einhverju af honum.

Þau ummæli, sem nú fara á eftir, voru flutt hér úr ræðustóli í gær. Þá var hæstv. forsrh. ekki við, svo að ég sé ekkert á móti því, að þau séu höfð yfir aftur, enda er margt vel sagt hjá hæstv. forsrh., og góð vísa er sjaldan of oft kveðin, en hann er að ljúka ræðu sinni á sjómannadaginn og segir þá frá, hvað hann hafi gert í landhelgismálinu: „Þegar ég lagði málið fyrir Alþingi hinn 6. nóv. s.l., mælti ég m.a. á þessa leið,“ með leyfi hæstv. forseta. (Forseti: Ég vil minna hv. ræðumann á 38. gr. þingskapa: „Ekki má nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál.“ Hv. ræðumaður hefur gleymt þessu hvað eftir annað.) Ég bið afsökunar á því, en ég bið hæstv. forseta leyfis að segja nú nokkur vel valin orð eftir forsrh. (Forseti: Leyfið er veitt.) Það er jafngilt góðu guðsorði, hygg ég. Það er svona: „Þegar ég lagði málið fyrir Alþingi hinn 6. nóv. s.l., mælti ég m.a. á þessa leið,“ þ.e.a.s. forsrh.: „Það er málinu sjálfu og öllum aðilum þess fyrir beztu, að ekki sé farið dult með þá staðreynd, að núv. ríkisstj. Íslands mun halda fast á málstað Íslendinga. Ef henta þykir, mun stjórnin ekki hika við að flytja málið með fullri einurð á sérhverjum erlendum vettvangi, þar sem rödd Íslands heyrist. Stjórnin mun hvergi hopa, heldur sækja fram til sigurs með öllum löglegum ráðum. Íslendingar munu og aldrei þola ríkisstj. sinni undanhald í málinu. Rík þjóðarþörf og einhuga þjóðarvilji er slagbrandur fyrir öllum útgöngudyrum til undanhalds í þessu mikla velferðarmáli.“ En hvað er nú? Hafa nú slagbrandarnir verið brotnir? Hafa þeir nú steðjað út á undanhaldsleiðina? Eitthvað þvílíkt hlýtur að hafa gerzt. Forsrh. heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Og loks sagði ég í viðræðum, er ég átti um síðustu áramót við stjórn Bretlands, að hvorki núv. ríkisstj. Íslands né nein önnur vildi víkja í þessu máli. Það gæti heldur engin íslenzk stjórn gert, þótt hún vildi. Sú stjórn, sem það reyndi, yrði ekki lengur stjórn Íslands, því að hún yrði að láta sér nægja að vera fyrrv. stjórn.“ Og ræðulok hæstv. forsrh. voru — með leyfi forseta — á þessa leið, það eru aðeins örfá orð: „Það fyrirheit tel ég mig geta gefið íslenzkum sjómönnum á þessum hátíðisdegi þeirra, enda treysti ég því, að sérhverri stjórn, sem reynir að bregðast hagsmunum Íslendinga í þessu máli, muni tafarlaust vikið frá völdum.“ Hann treysti því þá, og ætli hann megi ekki treysta því í dag?

Það eru aðeins tvö atriði úr útvarpsræðu hæstv. forsrh. nú á dögunum, sem fjallar um landhelgismálið, sem mér komu mjög undarlega fyrir sjónir af vörum þessa gamla garps — að vísu samkvæmt eigin ummælum og mati alltaf — í landhelgismálinu. Hann segir: „Við fáum stóra viðauka af úthafinu.“ Það er einkennilegt, ef hæstv. forsrh. telur sneiðina á Húnaflóa og Bakkaflóa og af Selvogsbugtinni vera úthafið og að við fáum þetta. Frá hverjum? Hafa Bretar gefið okkur sneiðar af úthafinu? Hvílíkt örlæti! En þetta er þjóðinni boðið upp á: „Við fáum stórar sneiðar af úthafinu,“ það er ekkert lítið, „gegn því, að Ísland fái sem einkaeign þegar í stað að heita má jafnstóran viðauka af úthafinu utan 12 mílnanna.“ Það er ekki mikill vandi að slaka svolítið til, þegar menn fá svona gjafir, fá gefnar stórar sneiðar af úthafinu til einkaeignar. Hvers konar hugsunarháttur er að baki svona orða, lofsyngja Breta fyrir að hafa gefið okkur stórsneiðar af úthafinu og þess vegna sé sjálfsagt að borga þetta vel? Er þetta íslenzkur hugsunarháttur? Nei, ég held, að hann sé a.m.k. hálfdanskur.

Sams konar hugsunarháttur gerir vart við sig síðar í ræðunni, þar sem segir: „Loks er þess ógetið, sem mestu skiptir,“ með leyfi hæstv. forseta, „að á þessum helztu veiðisvæðum okkar fá Bretar aðeins þriggja ára afnot af sem svarar 755 km2, en viðurkenna fyrir sitt leyti að afhenda Íslendingum strax nýja og um alla framtíð óafturkallanlega stækkun friðunarsvæðisins utan 12 mílnanna, sem eru hvorki meira né minna en 3060 km2“. Það er verið að afhenda okkur. Í hvers höndum var þetta? Er það hin gjafmilda hönd Bretans, sem er að rétta okkur þetta, afhenda okkur þetta? Ég kalla það vera ekkert litla viðurkenningu á því, að Bretar eigi ekki aðeins úthafið, heldur sjóinn upp að ströndum Íslands, þegar verið er að viðurkenna, að þeir gefi okkur sneiðar úthafsins og afhendi okkur þessi og hin hafsvæði á flóum okkar, á flóum við íslenzkar strendur.

Ég harma það, að íslenzki forsrh. skuli láta svona frá sér sem innlegg í landhelgismálaumræðurnar nú, og það eru einmitt svona ummæli, sem geta veikt málstað Íslands, en ekki málstúlkun stjórnarandstöðunnar, eins og hér var haldið fram í dag.

Það er fyrsta krafa stjórnarandstöðunnar, að þessi þáltill., sem hér er til umr., verði felld.

En stjórnarandstaðan mundi geta sætt sig við, að komið yrði í veg fyrir gildistöku hennar í bili, ef hún yrði samþ. — ef sá sorglegi atburður gerðist hér á Alþingi, að hún yrði samþ. hér, — meðan fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, svo að þjóðin fengi sjálf að kveða upp sinn dóm um það, hvort hún vill binda sín stærstu og helgustu mál þeim böndum og böggum, sem núv. ríkisstj. vill í landhelgismálinu, binda ófæddar kynslóðir við umsókn um stækkun landhelginnar til Breta og eiga okkar örlög í því máli undir erlendum dómstóli. Alþb. og þingflokkur Framsfl. hafa hvorir tveggja lagt fram yfirlýsingu um það, að komandi ríkisstj. og íslenzka þjóðin sé óbundin af þessum samningi svika og nauðungar.

Ég tel, að það væri hamingja Íslands, ef — (Forseti: Ég vildi spyrja ræðumann, hvort hann ætti mikið eftir óflutt af málí sínu.) Það væri hamingja Íslands, ef Alþingi Íslendinga stöðvaði þennan gerning, sem hér liggur fyrir þinginu, og felldi þessa þáltill. — Ég á eftir það af máli mínu, — ég ætla ekki að lesa upp þennan bunka skjala, en skýra nokkuð frá afstöðu þjóðarinnar til málsins með þeim mótmælaorðsendingum, sem Alþingi hafa borizt, og ég hygg, að það mundi geta tekið þrjú kortér eða svo. En ég er reiðubúinn til þess að fresta máli mínu, til þess að gert sé hlé. [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég er nú með stóran bunka skjala hér með mér í ræðustólinn, en það er ekki ætlun mín að lesa þennan mikla skjalabunka fyrir hv. þingheimi. Þetta eru allt gögn, sem varða mjög það mál, sem hér er til umr. Þar að auki tók ég eftir því, þegar hv. frsm. utanrmn. reifaði þetta mál hér, að þá vék hann að því, sem ekki var óeðlilegt, hvernig undirtektir þetta mál hefði fengið hjá þjóðinni, og þá gaf hann af undirtektum þjóðarinnar nokkuð aðra mynd en ég tel að sé sönn. Hann fór þannig að því að móta þessa mynd eða drættina í henni, að hann gat um þær fimm eða sex umsagnir, sem Alþingi hafa borizt viðvíkjandi þáltill. um landhelgismálið og mæla með samþykkt till. Ég hygg, að hann hafi nefnt m.a. tillögu frá skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi í Vestmannaeyjum, þar sem lýst er yfir stuðningi við fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og þar sem skorað er á þm. Sunnl. að styðja till. Þessa till. minntist hv. frsm. utanrmn. á og einnig bréf, þar sem borgarstjórinn í Reykjavík sendir ályktun bæjarstjórnar Reykjavíkur frá 2. marz s.l., þar sem skorað er á Alþ. samþ. fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðidellunnar við Breta. Í þriðja lagi mun frsm. hafa minnt á ályktun fundar skipstjóra- og stýrimannafélagsins Ægis frá 4. marz, þar sem skorað er á Alþingi að samþ. fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Og enn mun hafa verið minnzt á ályktun frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, þar sem skorað er á Alþingi að samþ. fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Og í sjötta og síðasta lagi mun frsm. hafa minnzt á ályktun stjórnarfundar Landssambands Íslenzkra útvegsmanna frá 28. febr., daginn áður en þál. kom fram, þar sem skorað er á Alþingi að samþykkja fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta.

— Já, það er hér ein, sem einnig mun hafa verið minnzt á af frsm. Það er ályktun stjórnarfundar Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda frá 28. febr., þar sem skorað er á Alþingi að samþ. fram komna till. til lausnar fiskveiðideilunnar.

Allt er þetta mjög svo eðlilegt, að geta um það, hvernig þjóðin hefði tekið þessu máli, og skýra frá því, hvaða raddir hefðu borizt hv. Alþingi Íslendinga um afstöðu ýmissa aðila í þjóðfélaginu til málsins.

En þegar hv. frsm. hafði þetta gert, að lýsa þessum till., þá sagði hann, að einnig hefðu komið till. eða ályktanir utan af landi til Alþingis um að fella till., og þar tilnefndi hann tvær, en aðeins tvær. Það hefði komið frá afgreiðslustúlkum í brauða- og mjólkursölubúðum, og það hefði komið, að ég held, frá húsgagnasmiðum áskorun um þetta, — við það lét hann sitja, — og ýmsum pólitískum samtökum án þess að nefna þau frekar. (Gripið fram í.) Ég man nú ekki, hvernig það atvikaðist, en inn á þetta kom frsm. með líkum hætti og ég hef nú sagt. En hann segist hafa tjáð þinginu, að hann hefði séð það í blöðum, að fram hefðu komið ályktanir með og móti málinu, og nefnt þetta, og svo þessa tvo, sem hefðu mælt móti því, — það man ég, að hann gerði, — frá afgreiðslustúlkunum í brauða- og mjólkurbúðum og húsgagnasmíðunum, og fannst mér, þótt hann hefði engin orð um það, eins og það væri fólk, sem ætti ekki að segja álit sitt um landhelgismálið. En það var tekið hér til meðferðar af einum ágætum alþm. í gær, að það væri óviðurkvæmilegt, þegar verið væri að býsnast yfir því af ýmsum aðilum, að þessi eða hinn ætti ekki að láta sig skipta landhelgismálið. En ég játa, að frsm. fór engum orðum um það. Hann nefndi þessi tvö samtök, sem hefðu gert ályktun og mælt móti því, og heyrðist mér ekki betur á honum en honum fyndist það léttvægt, þó að svona fólk mælti móti því.

En ég tek eftir því í dag, að leiðari Alþýðublaðsins lítur svoleiðis á, að fólk eins og húsmæður í landinu, kvenfólk, það eigi ekki að vera að skipta sér af landhelgismálinu, því að leiðarinn heitir „Kerlingar Krúsjoffs“, og þær eiga helzt að þegja um svona mál. Það eru húsmæðurnar á Íslandi. Blað alþýðunnar hittir oft naglann á höfuðið, lýsir vinsemdinni til alþýðunnar á smekklegan hátt stundum nú orðið. Það dregur hver dám af sínum sessunaut, segir máltækið.

En þó að ekki hafi hér verið nafngreindar orðsendingar eða ályktanir, sem Alþingi hafi borizt, þar sem skorað er á Alþingi að fella þessa þáltill., nema tvær, þá er þó þær fréttir að segja af undirtektum þjóðarinnar um málið, að þessi bunki hér eru ályktanir og orðsendingar til Alþingis frá samtökum, sumum allfjölmennum, um það að fella þessa þáltill., samþ. ekki þetta mál, samninginn við Breta.

Eins og ég áðan sagði, tel ég, að það sé ofur eðlilegt, að þingheimi sé gefið yfirlit yfir það, hverjir hafi mælt gegn þáltill. og hverjir mælt með henni. Veit ég þó, að það eru miklu fleiri aðilar, sem búnir eru að ræða um þetta mál og taka afstöðu til þess, gera um það samþykktir, heldur en nú eru þegar búnir að senda Alþingi þetta, en í höndum hef ég aðeins það, sem Alþingi hefur borizt og lagt hefur verið fram á lestrarsal. Og nú ætla ég að skýra hv. þingheimi frá því, eins og ég hef gert um þá, sem hafa mælt með, að nefna aðilann, sem áskorunina sendir, og mundi ég vilja biðja hv. frsm. að lána mér fyrstu eintökin. Við getum bróðurlega skipt þessu á milli okkar. Nei, ég þarf það ekki allt í einu.

Það er þá fyrst, — ég skal reyna að hafa þetta eins stutt og ég get, — ályktun almenns kjósendafundar á Reyðarfirði, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Almennur kjósendafundur á Seyðisfirði 4. marz sendir ályktun, þar sem mótmælt er fram kominni till., sem hér um ræðir, og jafnframt skorað á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvgr.

Þá er hér enn ályktun fundar Menningar- og friðarsamtaka Íslenzkra, kvenna, — það er líklega það, sem Alþýðublaðið kallar „Kerlingar Krúsjoffs“ og fer háðulegum orðum um, en þær leyfa sér nú samt að senda hinu háa Alþingi samþykkt, sem þær hafa gert, þar sem mótmælt er, að samið verði við Breta um fiskveiðilögsögu Íslands á grundvellí fram kominnar till. um lausn fiskveiðideilunnar.

Þá er hér ályktun frá aðalfundi sýslunefndar Suður-Múlasýslu, þar sem skorað er á Alþingi að hvika hvergi frá fyrri aðgerðum um 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.

Samvinnufélag útgerðarmanna og sjómanna á Húsavík sendir ályktun, þar sem mótmælt er, að 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands verði skert.

Hér er ályktun fundar 196 kjósenda í Hafnarhreppi og 56 aðkomumanna, þar sem mótmælt er fyrirhuguðum samningum við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands, skorað á alþingismenn Austfirðinga að greiða atkv. gegn till.

Hér er ályktun almenns kjósendafundar í Ólafsvík 5. marz, þar sem mótmælt er fram kominni þáltill. um lausn fiskveiðldeilunnar við Breta og skorað á þingmenn Vesturlandskjördæmis að greiða atkv. gegn henni.

Hér eru undirskriftaskjöl 203 Ólafsvíkinga, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið. Mótmælaskjölin eru hér öll í þessu umslagi.

Hér eru undirskriftaskjöl með nöfnum 12 skipstjóra og útgerðarmanna í Ólafsvík, þar sem skorað er á Alþ. að fella fram komna till til þál. um lausn landhelgisdeilunnar við Breta, og jafnframt áskorun um, að fram fari þjóðaratkvgr. um málið.

86 starfsmenn vélsmiðjunnar Héðins, Reykjavík, mótmæla fyrirhuguðum samningi við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands og skora á Alþingi að láta fram fara þjóðaratkvgr. um málið. 86 manns voru það.

Hér er ályktun kjósendafundar á Akranesi frá 1. marz, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað á þm. Vesturlandskjördæmis að greiða atkv. gegn till.

Þá er hér ályktun stjórnar verkamannafélagsins Dagsbrúnar, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og áskorun um þjóðaratkvgr.

Hér er ályktun fundar verkalýðs- og sjómannafélags Álftfirðinga frá 5. marz s.l., þar sem mótmælt er fram kominni till, til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta. Þetta er símskeyti, sem var sent forseta sameinaðs Alþingis nú fyrir fáum dögum, og sýnist mér þannig, að þeir séu til á Vestfjörðum, sem mótmæli því, að þáltill. nái fram að ganga, þó að þeir fái ekki skerðingu á sínum 12 mílum þar úti fyrir sinni strönd, en þeir sjá, að málið er stærra. (Gripið fram í.) Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga í Súðavík.

Þessu næst les ég eða skýri ég frá ályktun almenns kjósendafundar á Eskifirði, þar sem skorað er á Alþ. að fella þáltill. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta.

Hér sendir hreppsnefnd Eskifjarðar frá sér ályktun, þar sem skorað er á Alþingi að fella till. Ályktun fundar stjórnar og trúnaðarmannaráðs Verkamannafélags Húsavíkur liggur hér fyrir, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað á þingmenn Norðurl. e. að fella till.

Samband ungra framsóknarmanna sendir ályktun fundar stjórnar sambandsins, þar sem mótmælt er fyrirhuguðum samningi við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands.

Hér er símskeyti, þar sem tilkynnt er, að póstlögð hafi verið áskorun 105 alþingiskjósenda í Breiðdalshreppi, þar sem mótmælt sé fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta, — það er sem sé tilkynning um undirskriftir eða áskorunarskjöl 105 alþingiskjósenda.

Þá liggur hér fyrir ályktun kjósendafundar í Vopnafirði, þar sem skorað er á Alþ. að láta fram fara þjóðaratkvgr. um fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta.

Áskorun er hér frá 12 útgerðarmönnum á Hornafirði, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað á þm. Austfirðinga að greiða atkv. gegn till. Það sýnist svo, að útgerðarmönnunum litist ekki á blikuna, því að þeir eru fjölmennir í þessum hópi að láta til sín heyra um andúð sína og andstöðu við málið.

Hér er ályktun almenns borgarafundar í Neskaupstað, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn landhelgisdeilunnar við Breta og skorað á Alþingi að láta fram fara þjóðaratkvgr. um málið.

Enn er hér ályktun kjósendafundar í Vopnafirði frá 3. marz, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað á þingmenn Austfirðinga að greiða atkv. gegn till.

Þá er hér ályktun kjósendafundar í Borgarfirði eystra, þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og farið fram á að þjóðaratkvgr. fari fram um málið.

Send er ályktun fundar verkakvennafélagsins Öldunnar á Sauðárkróki, þar sem skorað er á Alþingi að fella fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta.

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Kári í Hafnarfirði sendir ályktun fundar félagsins frá 28. jan., þar sem samningum við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands er mótmælt og skorað á ríkisstj. að láta fram fara þjóðaratkvgr. um málið. (Gripið fram í: 28. janúar?) Það stendur nú hér á umslaginu 28. jan., en það virðist nú vera miðað við málið í núverandi mynd. 28. jan. stendur hér, það gæti verið, að það væri ritvilla, — ég skal ekki um það segja, — nema það er áskorun um, að samningum við Breta um fiskveiðilandhelgina er mótmælt og skorað á ríkisstj. að láta fara fram þjóðaratkvgr.

Stjórn verkamannafél. Hlífar í Hafnarfirði sendir ályktun, þar sem skorað er á Alþingi að láta fram fara þjóðaratkvgr. um fram komna till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta.

Samþykkt almenns kjósendafundar, sem haldinn var að Bjarmalandi í Skeggjastaðahreppi 1. marz s.l., þar sem mótmælt er fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta og skorað á þingmenn Austfjarðakjördæmis að greiða atkv. gegn till.

Hér er tilkynning um það, að póstlögð hafi verið mótmæli 92 alþingiskjósenda í Stöðvarfirði gegn fram kominni till. til þál. um lausn fiskveiðideilunnar við Breta.

Þá er hér ályktun bændafundar í Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem skorað er á ríkisstj. að semja ekki um fiskveiðiréttindi annarra þjóða innan 72 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Rauði þráðurinn er — ekki semja — í þeim öllum.

Hér er ályktun fundar sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum um landhelgismálið, og er það áskorun um að fella fram komna till.

Þá eru hér undirskriftalistar með nöfnum 750 kjósenda á Siglufirði, þar sem mótmælt er, að samið verði við Breta um fiskveiðiréttindi þeim til handa innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Bréfið er fram komið, áður en það komst á þetta stig, en þá vöruðu 750 kjósendur á Siglufirði við því að semja við Breta um málið.

Hér er send fundargerð almenns kjósendafundar, sem haldinn var á Þórshöfn 11. des. s.l., um landhelgismálið, og er þar mörkuð ákveðin andstaða við samninga Breta.

Hér eru send undirskriftabréf frá 153 Ólafsfirðingum, þar sem skorað er á Alþingi og ríkisstj. að skerða í engu 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands. Bréfið er dags. 16. des. og er þannig andmæli, áður en þessi till. kom fram, sem nú er til umr., en er um það að skerða ekki 12 mílna landhelgina. Það eru sem sé kröfur um, að enginn undansláttur eigi sér stað í málinu.

Hér eru undirskriftaskjöl með nöfnun 44 skipstjóra og stýrimanna á Akranesi, þar sem mótmælt er, að samið verði við Breta um fiskveiðiréttindi þeim til handa innan 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Það mál hefur verið á ferðinni, áður en þáltill. kom fram, en þeirra prinsipmál er það, að engum sé hleypt inn fyrir 12 mílna mörkin neins staðar við landið.

Þá er hér tilkynning um, að 272 Patreksfirðingar skori á ríkisstj. Íslands að stöðva samningaviðræður við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands.

Hér eru send undirskriftabréf frá 580 Húsvíkingum og 40 kjósendum á Tjörnesi, þar sem samningunum við Breta í landhelgismálinu er mótmælt.

Bréfið er dags. 12. des. og fjallar um þann undanslátt, sem þá var vitað um, en samningum við Breta fyrst og fremst mótmælt.

Hér er ályktun Ungmennafélagsins Baldurs í Hraungerðishreppi, þar sem skorað er á Alþingi að veita engri þjóð undanþágu til fiskveiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands.

Þá er hér send ályktun fundar verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar frá 27. nóv. s.l. varðandi landhelgismál, og er þar öllum samningum við erlendar þjóðir mótmælt.

Þá er hér ályktun frá bændafundi í Innri-Akraneshreppi um landhelgismál. Í niðurlagi hennar segir: „Skorar fundurinn á alla Íslendinga í sveit og við sjó að sameinast í eina órofa fylkingu gegn skerðingu á fiskveiðilögsögu Íslands.“

Kvenfélag sósíalista á Akureyri sendir ályktun félagsins, þar sem skorað er á Alþingi að hvika í engu frá 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands.

Oddviti Arneshrepps í Strandasýslu sendir ályktun almenns hreppsfundar í Arneshreppi, þar sem skorað er á Alþingi að hvika hvergi frá 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslendinga.

Hér er send ályktun fundar Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar, þar sem mótmælt er samningum við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands. Og í þessu umslagi er ályktun aðalfundar Sjómannafélags Akureyrar, þar sem mótmælt er samningum við Breta um fiskveiðilandhelgi Íslands.

Þá er hér ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Norðurlands frá 7. okt., þar sem mótmælt er fyrirhuguðum samningum við Breta um landhelgi Íslands. Það eru mótmæli gegn málinu, áður en þessi þáltill. kom fram.

Þá er hér ályktun aðalfundar Mæðrafélagsins í Reykjavík frá 23. febr., þar sem skorað er á Alþingi, — fyrirgefið, það er plaggið, sem ég tók til hliðar og er um annað mál, um að skora á Alþingi að samþykkja gott mál, hverfa frá tregðu um fæðingarorlof. Það er þess vegna ávarp til hv. 1. þm. Vestf, um það að sjá sig um hönd og verða með því góða máli. Það er ástæða til að biðja menn að vera með góðum málum og standa á verði gegn skaðræðismálum.

Þá er hér bréf frá Alþýðusambandi Vestfjarða, þar sem getið er um ýmsar ályktanir, m.a. ályktun um það að hvika í engu frá 12 mílna landhelgi kringum landið allt. Fleiri ályktanir eru þarna í umslaginu snertandi önnur mál.

Og þá er hér ályktun Bændafélags Fljótsdalshéraðs, þar sem mótmælt er samningum við Breta um fiskveiðiréttindi þeim til handa innan 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands.

Þessi plögg munu öll hafa verið lögð fram á lestrarsal Alþingis. En fleiri samþykktir hafa þegar verið gerðar, og er mér kunnugt um, að tvær eru á leiðinni til Alþingis, sem ég hef því ekki tilkynningu skrifstofunnar um. Það er í fyrsta lagi ályktun fundar, sem haldinn var í Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja þriðjudaginn 1. marz, þar sem lýst er yfir hryggð yfir þeirri stefnu, sem ríkisstj. Íslands hefur tekið í landhelgismálinu þrátt fyrir áður yfirlýstan stuðning við 12 mílna fiskveiðilögsögu og loforð um, að hvergi skuli frá henni hvikað. Jafnframt skorar þessi fundur á Alþingi að fella samning þann milli brezku stjórnarinnar og íslenzku ríkisstj., sem liggur fyrir Alþingi, um sérréttindi til fiskveiða hér við land milli 12 og 6 mílna. Og rétt í þessu var mér að berast samþykkt frá Siglufirði, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Fundur í stjórnum og trúnaðarmannaráðum verkalýðsfélaganna Þróttar og Brynju á Siglufirði mótmælir harðlega öllum samningum við Breta um fríðindi þeim til handa innan 12 mílna fiskveiðilögsögu Íslands. Fundurinn lítur svo á, að þingmenn hafi ekki umboð til að samþykkja fram komna þáltill. um fiskveiðideiluna við Breta, en telur eðillegast, að þjóðaratkvgr. yrði látin fram fara um málið. Verði ekki orðið við þeirri kröfu, skorar fundurinn á Alþingi að fella tillöguna.

F. h. verkalýðsfélaganna á Siglufirði.

Óskar Garíbaldason.“

Þá hefur miðstjórn Alþýðusambands Íslands á fundi sínum þann 3. marz gert eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta: „Alþýðusamband Íslands harmar þá atburði, sem nú hafa gerzt í landhelgismálinu. Ofbeldi Breta er verðlaunað með því að hleypa togurum þeirra inn að 6 mílum við mestan hluta strandlengjunnar. Lofað er að færa fiskveiðilandhelgina ekki út fyrir 12 mílur nema leita fyrst samþykkis Breta og erlends dómstóls. Þetta er ósamboðið sjálfstæðri þjóð, skýlaust brot á margyfirlýstum vilja þjóðarinnar í landhelgismálinu og einróma samþykkt Alþingis um að hvika aldrei frá 12 mílna fiskveiðilandhelgi umhverfis landið allt. Slíkt eru þjóðsvik, sem Alþýðusambandið fordæmir og mótmælir harðlega. Með þessu afsalar ríkisstj. landsréttindum til frambúðar og leggur alla frekari vísindalega friðun landgrunnsins og útfærslu fiskveiðilandhelginnar undir erlenda ákvörðun. Lögin um vísindalega friðun landgrunnsins eru í rauninni afnumin með svikasamningi þessum. Alþýðusambandið telur Alþingi ekki hafa neitt umboð frá þjóðinni til slíkrar samningsgerðar og gerir því kröfuna um þjóðaratkvgr. um þetta mál að sinni kröfu.“

Þannig hef ég nú gert grein fyrir hvoru tveggja, umsögnunum, sem Alþingi hafa borizt, þeim sem mæltu með samþykki þessarar þáltill., og þar voru það 6 aðilar, sem höfðu þá afstöðu til málsins, en allir hinir, — ég hef ekki á þeim tölu, en þeir eru margir, því að það hefur tekið nokkurn tíma að lesa eingöngu fyrirsagnirnar á þessum erindum til Alþingis, — þeir mótmæla, að gerður sé samningur til skerðingar á íslenzkri fiskveiðilögsögu, þeir vara við þeirri afgreiðslu málsins, þeir heita á ríkisstj. og Alþingi að hverfa frá þessu áformi, og þeir óska eindregið eftir, að þjóðin fái að segja sitt álit á málinu, fram verði látin fara þjóðaratkvæðagreiðsla. Og hver getur ímyndað sér það, ef hæstv. ríkisstj. og hennar fylgismenn trúa því sjálfir, að þetta sé vilji þjóðarinnar, sigur hafi verið unninn fyrir þjóðina, — hver getur þá komið með nokkra skynsamlega skýringu á því, ef hæstv. ríkisstj. tekur þeirri ósk þjóðarinnar ekki fagnandi að leggja málið undir hennar dóm? Hver getur ímyndað sér það, að hér á Alþingi verði felld fram komin till. um þjóðaratkvgr., ef hæstv. ríkisstj. telur sig vissa um það, að hún sé með þessum samningi, sem við köllum svikasamning, að framkvæma þjóðarvilja?

Ég held, að vilji þjóðarinnar hafi komið þegar mjög skýrt fram, og ég veit, að hann kemur því skýrar fram, sem lengra liður. Alþingi berast mótmæli úr öllum áttum, aðvaranir gegn samþykkt málsins, áskoranir um að fella það. Ef þessi samningur verður keyrður í gegn, þá er það ekki af því, að þjóðin hafi ekki látið til sín heyra, og menn, sem vilja lýðræði í verki, ættu a.m.k. að athuga, hvað þeir gera, áður en þeir reka smiðshöggið á það verk, sem nú virðist vera í miðjum klíðum hjá þeim, — þessi samningur, sem hér er um að ræða við Breta.

Ég tel það eins konar hæðni örlaganna, sem varpar þó vissu ljósi á sálarástand manna innan þingsalanna, að tveir sjálfstæðismenn, tveir menn úr þingliði Sjálfstfl., hafa, meðan þetta mál hefur verið á döfinni, komið fram með tillögur á Alþ. snertandi fiskveiðar og landhelgismál. Annar þeirra, sá sem hefur verið trúnaðarmaður ríkisstj. og vissi um allt, sem var að gerast í málinu, Davíð Ólafsson, hefur borið fram á Alþ. þáltill. um það, að við skulum fara að fiska við Afríkustrendur. Það er skoplegt, einmitt þegar er verið að skerða fiskveiðimöguleika okkar við Íslandsstrendur. Jú, þá kemur fram till. um, að við skulum fara að athuga um það, hvort við getum ekki fiskað við Afríku. Og í gær kemur hér fram till. frá þm., sem býr á Akranesi, einum af þm. Vesturl., þáltill. um það að skora nú á ríkisstj. að athuga allt, sem hægt sé, til verndunar fiskimiðunum við Ísland. Ég kalla þessa till. samvizkubitið.