08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (2434)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt, þó að þetta mál sé ýtarlega rætt hér á Alþ. Það mætti miklu fremur telja það furðulegt og það mætti telja það vanrækslu af hálfu þm., ef mál eins og þetta, eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, væri ekki ýtarlega rætt hér í sölum Alþ., og ég er ekki í neinum vafa um það, að hvar annars staðar í þingræðislandi, þar sem mál eins og þetta væri rætt, mundi það taka marga dag. Þing flestra þjóða mundu telja sér skylt að ræða málið ýtarlega og kynna sér það. Það er þess vegna fullkomin fjarstæða, þegar talað er um málþóf í þessu máli. Það er ekki nema eðlilegt, að menn ræði málið alhliða og líti á þá sögu, sem hefur verið að gerast á undanförnum mánuðum og undanförnum árum, og rifji upp. Ég mun samt sem áður vegna þess, hvað þetta mál hefur af ýmsum verið ýtarlega rætt, takmarka ræðu mína við nokkur atriði, sem ég tel að máli skipti að séu tekin til nánari athugunar.

Ég vil þá fyrst vekja athygli á hinni merku aths., sem kom fram frá hv. 5. þm. Austf. (PÞ), þar sem hann spurðist fyrir um það hjá utanrrh., hvort tilkynningarskyldan, sem er lögð á herðar íslenzku ríkisstj. — herðar okkur íslendingum í framtíðinni, — tilkynningarskyldan til Breta um það, að við ætlum okkur að færa út, ef við tökum slíka ákvörðun, færist af sjálfu sér yfir til annarra þjóða, sem kynnu að ganga inn í þetta samkomulag. Ef þetta er tilfellið, erum við bundnir við það að tilkynna öllum þjóðum, sem gengju inn í samkomulagið, að við ætluðum okkur að færa út landhelgina, og e.t.v. þá að fylgi tilkynningarskyldunni að ráðfæra okkur við þær um málið. Og enn fremur það, hvort það á þá að vera þannig, að allar þjóðir geti heimtað, að við förum með málið til Haag.

Ég þykist vita, að hæstv. utanrrh. láti ekki dragast að svara þessu.

Það hefur komið að vísu miklu fleira fram, sem spurt hefur verið um. Nú skulum við segja, að þessi þáltill verði samþ. og samningurinn samkvæmt henni gerður. Þá gengur samkomulagið í gildi milli íslenzku ríkisstj. og brezku ríkisstj. frá ákveðnum, tilsettum degi. En frá hvaða tíma eiga samningarnir að taka gildi við aðrar þjóðir? Það getur tekið talsverðan tíma að semja við þessar þjóðir, sem á að semja við og yfirlýst er að semja við, og þess vegna ekki ósennilegt, að tíminn byrji seinna hjá þeim, samningarnir verði síðbúnari hjá þeim og samkomulagið nái þess vegna fram yfir þann tíma, sem Bretar megi fiska hér. Þetta er alveg óupplýst mál, og væri nauðsynlegt að upplýsa það.

En það voru ekki þessi atriði, sem ég ætlaði fyrst og fremst að ræða um. Ég tek hér nokkur atriði, sem hafa komið fram í ræðum andstæðinganna og ég tel mig þurfa að gera aths. við.

Það er þá fyrsta atriðið, sem oft hefur komið fram í þessum umr, og ég get ekki látið ómótmælt, ágreiningurinn í vinstri stjórninni um útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Ágreiningurinn var um það, sagði hæstv. utanrrh., lengi vel, hve lengi ætti að halda áfram samningum í NATO. Ég er nú sannast að segja undrandi yfir því, að annarri eins fullyrðingu og þessari skuli slegið fram hér á Alþ. Ég ætla ekki að fara að ræða og hef aldrei rætt um einstök atvik frá þeim stjórnum, sem ég hef átt sæti í eða veitt forustu. En ég hef að gefnu tilefni margsagt það, að ágreiningur var í vinstri stjórninni um útfærsluna, hvort ætti að færa út í 12 mílur eða ekki, og það veit hver einasti alþm., að þegar risið er gegn vinsælu máli, þá er það ekki háttur manna í ríkisstj. eða hér á Alþ. að rísa beint gegn því, heldur er risið gegn því, að það sé farin þessi eða hin leiðin til að framkvæma það, til þess að stöðva það, látast vera með því, en stöðva það án þess að verða ber að andstöðu við það. En ég ætla ekki að segja meira um þetta en það, að það eru svo margir menn úr þingflokkunum öllum, sem vita um ágreininginn, sem var í vinstri stjórninni um það, hvort ætti að taka þá áhættu að færa út í 12 mílur, og að Alþfl. var hikandi í málinu og stóð gegn því þangað til á seinustu stundu, að það væri hægt að leiða þau vitni, ef á þyrfti að halda, og þarf ekki að fjölyrða um það. Um þetta var ágreiningurinn, og það er alveg rétt, að Alþfl. lét ekki undan, fyrr en dag eftir dag lá við, að stjórnin klofnaði, og var tilkynnt hvað eftir annað í blöðum andstæðinganna, að stjórnin væri klofnuð út af þessu máli, sem Alþfl. var á móti. En það, sem gerði gæfumuninn, var það, að allir vissu, að þjóðin stóð að því einhuga að vilja færa út í 12 mílur, og það þorði enginn flokkur og Alþfl. sízt af öllu, eins og hann stóð — að rísa gegn því, að þetta væri framkvæmt, og það réð úrsiltum.

Í umr. hefur því verið haldið fram, m.a. af hæstv. utanrrh., að það hafi verið hliðstætt, það sem boðið var 1952 af stjórn Steingríms Steinþórssonar og það sem boðið er nú. Svona fullyrðingar er alveg furðulegt að skuli koma fram í málfærslu frá nokkrum hæstv. ráðh. Þannig stóð á 1952, að þegar við drógum landhelgislínurnar, þá höfðum við fyrir okkur dóminn, sem hafði verið kveðinn upp í máli Norðmanna og Breta, og við fengum tvo málfærslumenn úr sjálfu málinu til þess að draga línurnar þannig, að það væri öruggt, að það væri í samræmi við dóminn, sem nýlega var búið að kveða upp. Við vissum þess vegna alveg með vissu nema e.t.v. um eina línuna, að það var búið að staðfesta þær með dómi. Og það var sagt við Bretann þá: Afnemið þið fiskveiðibannið fyrst, síðan skulum við fara með málið til Haag. — En þeir fylgdust vitanlega svo vel með og vissu það, að aðgerðir okkar voru í samræmi við dóminn, sem nýlega hafði verið kveðinn upp, og var þýðingarlaust fyrir þá að fara með málið fyrir Haag-dómstólinn, enda má geta þess í þessu sambandi, að það verður vitanlega því erfiðara að fara fyrir dóm með mál eins og þessi, því lengra sem fært er út. Það er þess vegna ekkert sambærilegt að binda sig um aldur og ævi við Haag-dómstólinn og að bjóðast til þess 1952 að farsa með mál fyrir dóminn, þar sem við höfðum breytt landhelgi okkar í samræmi við dóm, sem nýlega var kveðinn upp í Haag. Annað er að sigla, eins og ég kem að síðar, stefna í algera óvissu, hitt var alveg vissa um það, hvernig málalokin mundu verða.

Því hefur verið haldið fram oft og einatt og hvað eftir annað komið fram í þessum umr., meira að segja oftar en einu sinni, síðan ég bað um orðið fyrir tveim sólarhringum, að þetta sé sama boðið og vinstri stjórnin hafi boðið 1958, ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta, en ég ætla þó að draga fram, hvílík fjarstæða þetta er og hve furðulegur þessi málflutningur er, og ég verð að segja það, að þegar svona málflutningi er beitt, eins og ég skal nú sýna fram á, þá hlýtur að vakna sá grunur, að málið sé meira en lítið óhreint, — þegar þarf að beita slíkri málfærslu eins og þeirri að bera þetta saman við það, sem gerðist 1958. Ég veit, að hver einasti ykkar, sem hér er, viðurkennir það, að lélegum rökum og fölskum rökum þarf ekki að beita fyrir góðan málstað, en þeim rökum er oft beitt, þegar málstaðurinn er veikur eða rangur.

Þess er þá fyrst að geta, sem oft hefur verið dregið fram og ég skal ekki fara mörgum orðum um, að samningarnir í NATO voru lögboðnir. Við vorum skyldugir til að taka þá upp. Við höfðum gengizt undir þær skyldur samkvæmt lögum Atlantshafsbandalagsins. Og þegar við leituðum eftir því að fá tilboð frá því 1958, var það um útfærslu, eins og oft hefur verið sagt frá. Í áföngum gegn því, að þeir fengju að veiða hér á vissum svæðum upp að 6 mílum. Við leituðum eftir því hjá öllum NATO-ríkjunum að fá slíkt tilboð, enda væri þá viðurkennd 12 mílna landhelgi og viðurkennt, að við hefðum haft rétt til að færa út einhliða, og það var ekki um neitt það að falla frá mótmælum, það var hrein viðurkenning. Að þessu var leitað, áður en við vorum beittir ofbeldi, áður en reglugerðin kom í gildi, og það var lögboðin sáttatilraun, sem við höfðum gengizt undir að leitað yrði eftir. Það sjá allir, hvílíkur reginmunur er hér á, þegar af þessum ástæðum, sem ég hef nú rakið. En það, sem gerir þetta að andstæðum, beinum andstæðum, þetta, sem hér er verið að gera, og það, sem var boðið 1958, gerir það að andstæðum, en ekki hliðstæðum, er réttindaafsalið, sem engum lifandi manni kom til hugar að minnast á 1958. Ég veit ekki, hvað hefði verið sagt, ef nokkrum manni hefði dottið það í hug að afsala rétti okkar til einhliða útfærslu 1958, eins og gert er í sambandi við þetta tilboð, og þetta er borið saman, þetta tvennt. Ég fullyrði, að það þorði enginn að nefna á nafn 1958, ekki einu sinni Sjálfstfl., að við afhentum það vopn, sem við höfðum unnið alla okkar sigra með, réttinn til einhliða útfærslu án þess að spyrja aðra. Og ekki aðeins við höfðum unnið sigrana með því vopni, heldur hafa allar þjóðir, sem komizt hafa í 12 mílur og lengra, unnið sína sigra með þessu vopni, að færa út einhliða, þegar þær hafa talið það eðlilegt og þegar þær hafa talið, að þær kæmust áfram með það — ekki samkvæmt alþjóðalögum, heldur samkvæmt siðferðilegum rétti og venjum, sem þær eru að mynda með því að færa út. Þetta hefur engum manni dottið í hug að afhenda, þetta hefur verið okkar fjöregg, sem Bretar hafa alltaf verið að sækjast eftir, sótt eftir því í 13 ár að fá að fara inn fyrir 12 mílur og fá Íslendinga til að fallast á að færa ekki út nema að ganga undir dóm eða tilkynna það fyrir fram. Loksins höfum við náð því, segir í Fishing News frá 3. þ.m.

Það, sem við höfum sagt um það, að við vildum fara fyrir alþjóðadómstólinn, er þetta: Við höfum sagt það ákveðið hverju sinni, en það var svo fast, svo ákveðið af öllum flokkum, að annað kæmi ekki til mála en að við hefðum þennan einhliða rétt og afsöluðum honum ekki, að það var orðað, og ég sá þá tilkynningu, sá þá frétt m.a. úti í löndum, þar sem Emil Jónsson, núv. hæstv. sjútvmrh., þá forsrh., tilkynnti það, að við værum reiðubúnir til þess að gangast undir alþjóðadómstól með okkar mál, ef þær þjóðir, sem eru nú um 30, sem væru búnar að færa út í 12 mílur og meira, vildu gangast undir það að hlíta þeim dómi eins og við. En að við einir gengjum undir þennan dóm, sem þurfum mest á fiskveiðilandhelgi að halda allra þjóða, það hefur engri stjórn dottið í hug og datt engum flokki í hug 1958. Þessi hugsun er alveg ný, að afsala sér þessum rétti.

Við vissum vitanlega, að það var óhætt að gefa slíka yfirlýsingu, og Emil Jónsson, hæstv. sjútvmrh., vissi, að honum var óhætt að gefa slíka yfirlýsingu, vegna þess að þeim þjóðum, um 30, sem hafa þessi réttindi, dettur þetta ekki í hug.

Við höfum orðið varir við það, — án þess að fara langt út í það mál, — hvað Bretar hafa sótt eftir þessu, eins og þeir líka segja. Þeir, sem skrifa um málið og vita, hvað samningurinn gildir, segja, eins og t.d. Manchester Guardian: „Hið raunverulega innihald samningsins er það, að Íslendingar hætta við að færa út einhliða og beygja sig fyrir alþjóðadómstól í málinu.“ Það er aðalinntak samningsins.

Eftir tilkynningarskyldunni hafa þeir sótt, sóttust þeir meira að segja þannig, eftir að við færðum út 1952, að það var sendur maður eftir mann til flokkanna og til ríkisstj., með skilaboð frá Bretum, að þeir skyldu aflétta löndunarbanninu, bara ef við vildum gangast inn á það að tilkynna fyrir fram, með ákveðnum fyrirvara, ef við ætluðum að færa út aftur. Í þessu: að tilkynna með ákveðnum fyrirvara — liggur e.t.v. meira, án þess að ég vilji fara að túlka það hér, liggur e.t.v. meira en menn gera sér grein fyrir. Það er kannske viss viðurkenning í því að tilkynna slíkt fyrir fram. Það kynni að vera, að alþjóðadómstóll liti svo á, að ef ein þjóð gengur inn á það að tilkynna annarri, í þessu tilfelli að hún ætli að færa út landhelgina, þá sé búið að gefa meira í skyn, að sú þjóð, sem á að tilkynna það, hafi eitthvað svipaðan rétt á þessum slóðum að sögulegum rétti eða einhverju öðru, heldur en menn gera sér grein fyrir. Það liggur kannske dálítið meira í tilkynningunni heldur en menn halda. Hvers vegna á að tilkynna Bretum þetta, og hvers vegna göngum við inn á að tilkynna þeim einum þetta? Ég ætla ekki að fara lengra inn á það. En svo mikið er víst, að þeir sóttu eftir þessu eftir 1952. Og ég ætla ekki heldur að eyða tímanum í að rekja þá sögu, án þess að tilefni gefist til. En okkur hefur verið það vel ljóst, hvað þetta hefur átt að þýða.

Utanrrh. hæstv. sagði, að Bretar vissu vel sjálfir, hvað það að falla frá mótmælum, sem ég kem síðar að, þýddi. Ég efast ekkert um, að þeir viti það. Og hann sagði, að þeir segðu, að þetta þýddi, að þeir ætluðu ekki að hreyfa andmælum. En þeir hafa hvergi sagt það, svo að ég viti, brezka ríkisstj. eða talsmenn brezku ríkisstj., að þetta gilti sama og að viðurkenna endanlega íslenzku landhelgina, þessar 12 mílur.

Það kemur mjög fram í þessum umr. og er gerður að verulegu atriði einn þáttur, sem skiptir ekki litlu máli að menn geri sér nokkra grein fyrir. Þeir, sem vilja ekki gangast undir alþjóðadómstól í þessu máli, vilja sýna ofbeldi, og hver getur það síður en Ísland? er viðkvæðið. Og hér spyr hv. frsm. meiri hl.: Getur það verið réttarafsal að afsala sér því, sem maður hefur ekki samkvæmt lögum? Við afsölum okkur rétti til að færa út án þess að það sé í samræmi við alþjóðalög. — Þetta sýnist allt saman ákaflega sakleysislegt. Og það er líka sagt oft hér í þessum umr., að þeir, sem vilji ekki lúta alþjóðadómstólnum, ætli sér ekkert annað en ofbeldi, því að alþjóðadómstóllinn fari eftir þeim lögum — og eftir alþjóðarétti. Nú skulum við athuga þetta.

Þá er fyrsta spurningin: Eru til lög um landhelgina? Nei, þau eru ekki til. Þetta mun enginn vefengja. Þess vegna var haldin ráðstefna tvívegis um það að reyna að koma sér niður á, hvað alþjóðalög skyldu vera. Og hvað segir laganefnd Sameinuðu þjóðanna? Hún segir: Ég hafði ekkert umboð til þess frá Sameinuðu þjóðunum að kveða upp neinn úrskurð um það, hvað væru alþjóðalög. Það, sem við sögðum, sögðu þeir, var ekkert annað en að endursegja staðreyndir, að landhelgi virtist vera milli þrjár og tólf mílur. Það er ekki vafi á því, að menn hafi haft tilhneigingu til þess að halda því fram, að 12 mílna landhelgi væri hin löglega landhelgi, og hún getur verið lögleg fyrir því, þó að ekki séu lög til að byggja hana á.

Það hefur núna 31 þjóð, að ég held, 12 mílur og meira. Og hvernig hafa þær öðlazt það? Með einhliða útfærslu. Er dómur fyrir landhelgi þeirra? Ekki veit ég til þess, að til sé dómur fyrir landhelgi einnar einustu. Hafa þær beygt sig undir alþjóðadóm? Nei. Eru þetta ofbeldisþjóðir allt saman? Við skulum athuga það. Það er nefnilega ekki hægt að brjóta lög, sem eru ekki til. Tilfærslan er ekki andstæð lögum, og þess vegna er hún ekkert ofbeldi, en hún er ekki byggð á lögum eða lagafyrirmælum, af því að þau eru ekki til. Við höfum fært út í bæði skiptin vegna þess, að þó að ekki séu alþjóðalög fyrir því, sem við höfum gert, þá vissum við, að reglurnar voru að skapast fyrir því, að við gætum tekið okkur fyrst 4 og síðan 12 mílna landhelgi. Og við urðum að halda áfram að færa út landhelgina samkv. íslenzkum lögum og alþjóðarétti, ekki kannske alltaf samkv. lagarétti, heldur landfræðilegum rétti. Siðferðilegum rétti og fleira, sem byggir smátt og smátt upp réttinn meðal þjóðanna. Með því að fallast á það að leggja málið undir alþjóðadóm, skipum við okkur aftast í röðina í staðinn fyrir fremst í röðina. Við höfum verið meðal þeirra þjóða, sem með útfærslu okkar á landhelginni höfum verið — kannske ekki nema að litlu leyti — að skapa venjur, skapa rétt. Nú getum við ekki, eins og hefur verið sýnt hér fram á mjög greinilega af öðrum, annað en siglt í kjölfar hinna, komið ef til vill nokkuð langt eða mjög langt á eftir. Það er vitað mál, að alþjóðadómstóllinn er íhaldssamur, — dómstólar hafa alltaf tilhneigingu til að vera íhaldssamir, og alþjóðadómstóllinn dæmir ekki eftir venju og reglum, fyrr en þær eru orðnar viðurkenndar. Hann dæmir eftir gömlum lögum, þangað til reglurnar eru orðnar viðurkenndar í verki. Þess vegna er það, að við getum orðið langt á eftir í landhelgismálinu samanborið við það, sem við hefðum orðið, hefðum við haft réttinn til einhliða útfærslu, eins og við höfðum áður. Afsalið á réttinum til einhliða útfærslu er langstærsta atriðið í þessu máli, svo að öll hin atriðin eru ósambærileg við það.

Ég ætla að athuga brtt. lítils háttar og mun ekki heldur þar verða langorður.

Það er þá fyrst, að við ættum nú sannast að segja að geta orðið sammála um það að hafa skiljanlegt orðalag á þeirri orðsendingu, sem hæstv. utanrrh. sendir. Það er nú raunverulega það minnsta, sem hægt er að gera kröfu til. Og kem ég þá fyrst að orðunum „falla frá mótmælum“. Þessi orð eru túlkuð á þann veg, að það sé sama sem að viðurkenna endanlega og óafturkallanlega, eins og hæstv. utanrrh. hefur orðað það. Um þetta atriði hefur lagadeild háskólans gefið út álitsgerð, sem ég tel eina furðulegustu álitsgerð, sem ég hef séð, og hefur sumt af því verið rakið í þessum umr. Ég efast ekkert um það, að í lagadeild háskólans eru góðir lögfræðingar, betri og viðlíka og margir aðrir lögfræðingar í þessu landi. En ég hef sannast að segja ekki séð og ekki búizt við, að deildin léti frá sér álitsgerð eins og þá, sem hún hefur látið sér sæma að láta frá sér í þessu máli. Ég hygg, að það sé það venjulega, þegar stofnun eins og háskólinn lætur frá sér álitsgerð í máli svipuðu og þessu, þá sé það sýnt og sannað, að orðatiltækið „að falla frá“ hafi verið notað í milliríkjasamningum, hafi þýtt það, sem þeir tilgreina, og hafi staðizt þann skilning, sem þeir tilgreina. Öðruvísi er það ekki sá rökstuðningur, sem lagadeild sæmir að láta frá sér. En hitt vita allir menn, bæði utan þings og innan, að það „að falla frá mótmælum“ þýðir ekki, að viðurkenna, frekar en „að þegja og veita ekki andmæli“ þýðir: samþykkja. Og það er alveg furðulegt, að við skulum þurfa að deila um það hér á Alþ., að notað sé orðalag í þessum samningum eða þessari orðsendingu, sem er skiljanlegt og afdráttarlaust. Ef þetta orðalag: „falla frá mótmælum“ — þýðir sama sem viðurkenna endanlega og óafturkallanlega, hvers vegna má ekki nota þessi orð? Og ef hver og einn okkar þm. spyr sig aðeins að þeirri samviskuspurningu, dettur nokkrum okkar í hug, að brezka stjórnin noti orðatiltækið „falla frá mótmælum“, án þess að það liggi ásetningur á bak við? Haldið þið, að þeir séu að leika sér að því að nota einhver önnur orð yfir sama hugtak, það sé eitthvert aðalatriði fyrir þá? Það getur haft þýðingu, að gengið sé rétt frá orðalagi í samningum. Og ég er ekki í neinum vafa um, að það á eftir að koma á daginn, að þetta orðalag er sett í ákveðnum tilgangi, annars væri það ekki gert. Ég veit, að okkar menn, sem reyndu samninga í London, hafa reynt að fá hitt orðalagið, því að það var ekkert leyndarmál, að ýmsir sögðu það við hvern sem hafa vildi, að það yrði aldrei fallizt á þessa samninga, nema hreinlega yrði viðurkennd endanlega og óafturkallanlega 12 mílna landhelgi, og þetta orðalag er eingöngu komið inn frá brezku stjórninni, vegna þess að okkar menn hafa ekki fengið annað. Þetta orðalag hefur engum Íslendingi dottið í hug að taka upp í staðinn fyrir það, sem þeir höfðu sett sér að ná fram. Þetta orðalag er frá brezku stjórninni og sett fram í ákveðnum tilgangi.

Ég ætla hér að minnast á annan samning, sem var gerður 1941 og þar sem orðalag var þannig, að það virtist vera ákveðið. Þessi samningur er herverndarsamningurinn við Bandaríkin. Það var fenginn lærðasti diplómat Íslands til þess að orða samninginn ásamt manni, sem hafði þá nýlega látið af starfi sem prófessor við Háskóla Íslands. Ein grein í þessum samningi var, með leyfi hæstv. forseta: „Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.“ Það var tekið fram í orðsendingunni, að það yrði að svara henni alveg nákvæmlega játandi, og væri óskað eftir, að svarið yrði ekki birt, fyrr en íslenzka ríkisstj. væri búinn að rannsaka svarið. Svarið kom, og það er tekið upp: „Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.“ Svo var hnýtt aftan í orðsendinguna ákaflega kurteisum orðum um, að þeir virtu okkar sjálfsákvörðunarrétt o.s.frv., en skotið inn í, að þeir mundu fara héðan, strax og núverandi hættuástandi í milliríkjaviðskiptum er lokið. Það var talið af þeim, sem rannsökuðu þetta, að það væri að vísu svolítið öðruvísi orðað, en þetta væri almenn kurteisi þarna í lokin, sem væri eðlilegt að fylgdi svarinu. En svo mikið er víst, að þegar átti að fara að ganga eftir því, að herinn færi, þá sagði Bandaríkjastj.: Ófriðnum er ekki lokið, hættuástandinu er ekki lokið. Það þarf fyrst að gera samninga við styrjaldaraðila o.s.frv. —- Og á þessu var samningurinn byggður 1946 um lið á Keflavíkurflugvelli, sem heitir: „Samningur um niðurfellingu herverndarsamningsins við Bandaríkin.“ Þetta er aðeins ónákvæmt orðalag, sem enginn tók eftir. Bæði maður, sem var fyrrv. prófessor, og reyndur diplómat rannsökuðu orðalagið, og það þýddi þetta. Stórveldið segir: Við skiljum það svona, og við höldum okkur að því. — En á því ættu allir alþm. og allir að geta séð, hvað það þýðir að hafa óákveðið orðalag, eins og það að „falla frá“, hvort það muni standa á þjóð, sem telur sér fært að nota slíkt, að nota það, ef hún getur. Þó að ég ætli ekki að hafa í frammi neina illmælgi um brezka heimsveldið, síður en svo, þá dettur mér ekki í hug að halda því fram, að Bandaríkin séu ekki a.m.k. eins orðheldin sem þjóð eins og Bretar. En þetta orðalag notuðu þeir til þess að hanga í því og sögðu: „Okkur er ekki skylt að fara burt af landinu með herinn.“ Þess vegna er það alveg furðulegt, ef menn ganga að því með opin augun að taka við orðalagi, sem okkur er skammtað af Bretum í þessu sambandi og þeir hafa áreiðanlega ákveðinn tilgang með.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hinar brtt. Ég get ekki séð, að það sé neins staðar tekið fram í samningnum, nema þá óbeint, eins og hæstv. ríkisstj. heldur fram, að Bretar fari héðan úr landhelginni eftir 3 ár. Og hæstv. utanrrh. getur sagt okkur það, að hann hafi útvegað sér þetta bréf vegna hinnar vondu stjórnarandstöðu, vegna þess að hún mundi tortryggja sig. Þetta kemur alls ekki heim, eins og fæst í þessu máli, það rekur sig hvað á annað, því að hæstv. ráðh. sagði frá bréfinu í útvarpi, áður en nokkur var farinn að tortryggja hann. Og hvers vegna telur hann sig þurfa bréf upp á það, að Bretar fari héðan, ef það er svo ákveðið í samningnum, að það sé alveg öruggt? Hvers vegna þarf að fá aukabréf upp á það, að Bretarnir fari, ef það er alveg öruggt samkv. samningnum, að þeir fari? Hvers konar samningur er þetta eiginlega að verða, þegar þarf að lappa upp á hann með skýringum frá háskólanum, að þeir skilji hann svona og svona, vegna þess að Bretarnir muni hugsa svona og svona, og lappa upp á þetta atriði, að þeir muni fara héðan? Það sýnir, að samningurinn er ekki í augum ríkisstj. allt of öruggur, og það er heldur engin furða. Þess vegna er það, að það stendur í bréfinu, sem hæstv. utanrrh. hefur með höndum frá brezku ríkisstj., að ríkisstj. Bretlands hafi skuldbundið sig til að fara héðan eftir 3 ár. Hvað er þá á móti því að samþykkja þetta inn í sjálfan samninginn? Hvað er þá á móti því að samþykkja þetta, fyrst það stendur í aukabréfi, sem er í höndum ráðh.? Hvað er á móti því? Hvernig geta Bretar haft nokkurn skapaðan hlut á móti því? (Gripið fram í: Það stendur í bréfinu.) Já, hann las það upp, að þeir lofuðu því að fara, þegar þeir væru búnir að umþótta sig. Brezka stjórnin er nú farin að nota þetta orð líka, að umþótta sig. Það væri gaman að heyra, hvernig það hljóðar á ensku. En hvers vegna, segi ég enn og aftur, hvers vegna má þeim ekki vera sama, þó að það standi í samningnum, það sem hæstv. utanrrh. segir að standi í bréfinu?

Enn fremur er sagt í 4. tölulið orðsendingarinnar, að næstu 3 ár megi þeir ekki veiða á tilteknum svæðum. Ég er nú hræddur um, að lögfræðingar eins og þeir, sem sitja í ríkisstj., hefðu kannske brugðið því fyrir sig, ef þeir hefðu verið að ræða samning, sem einhver önnur ríkisstj. gerði en þeir sjálfir, þá hefði kannske komið eitthvað um það, að það mætti álykta ex contrario. Það mætti segja, fyrst þeir mega ekki veiða í næstu 3 ár, að þeir megi veiða á eftir. Ég vil ekki skýra málið þannig og ekki halda því fram, að það þýði það, en stundum eru lög skýrð þannig og samningar. Ég vil halda því fram, að það sé ekki í þessu tilfelli. En hvers vegna má ekki standa „framvegis er“, frá því að samningurinn tekur gildi, er þeim óheimilt að veiða á þessum stöðum, bæði í næstu þrjú ár og árin þar á eftir? Hvers vegna má þetta ekki standa, ef það er ætlunin, að þeir fari þarna út eftir þrjú ár? — Þetta er alveg furðulegt. Það má ekki nota rétta orðið yfir, að þeir viðurkenni íslenzka landhelgi. Það má ekki nota orðin um það, að þeir lofi því að fara, sem þó er sagt að standi í bréfi, sem hæstv. ráðherra hefur. Og það má ekki heldur segja, að framvegis skuli þeir ekki fiska á tilteknum svæðum, heldur þarf að segja: næstu þrjú ár mega þeir ekki fiska, en ekki tekið fram um það, hvað sé eftir þrjú ár.

Það er sagt, að við gerum allt til þess að tortryggja þennan samning. Við gerum ekkert annað en að koma með brtt., skýra orðun á því, sem þeir segja að samningurinn þýði. Og hvers vegna má ekki orða hann skýrt? Þeir halda því ekki fram, að þessar brtt. þýði ekki það sama og samningurinn, eins og hann liggur fyrir. Nei, síður en svo. En það má bara ekki orða það skýrt.

Svo komum við að síðustu brtt., sem er um alþjóðadóminn. Það er nú búið að halda fram furðulegustu staðhæfingum um alþjóðadóminn og vinnubrögð hans. Það er sagt, að við getum fært út, látið liggja að því strax í utanrmn., að við getum fært út landhelgina og þær breyt. standi, þangað til alþjóðadómstóllinn sé búinn að kveða upp dóm í málinu. Mér varð að orði satt að segja: Nú, þetta er ekki amalegt. Ef þetta er svona, þá verðum við alltaf að færa út, færum bara út á allt landgrunnið. Og svo tekur það langan tíma að útkljá þetta fyrir alþjóðadómi, og á meðan höldum við þessu og Bretarnir fiska ekki ugga hér. Svo næsta skipti, þegar við erum búnir að tapa þessu, þá færum við okkur eitthvað lengra inn kannske, og svo koll af kolli. Vitanlega er þetta ekki svona. Og það gerir umr. hér að þeim furðulegustu umr. að ræða um svona hlut á þennan hátt. Ég viðurkenni það, að hæstv. utanrrh. hefur aldrei sagt um þetta annað en það, sem má til sanns vegar færa, þó að hann talaði þannig, að það hlaut að verða misskilið, og ég vil ekki halda því fram, að hann ætlist til að láta misskilja sig. Sannleikurinn er sá, að það er líka sagt allt annað, áður en þessar sögur eru fundnar upp. Þeir finna það, að mönnum er viðkvæmast af öllu, sem er ekki furða, að afsala sér réttinum til einhliða útfærslu. sem hefur verið vopn okkar og allra þjóða, sem hafa fært út landhelgina, eins og við höfum sýnt fram á. Og þá er þetta fundið upp. En í aths. við þáltill. stendur það, sem hefur nú verið áréttað af einum hv. þm., sem hér hefur talað, það er í fjórða lið, að ágreiningi um hugsanlegar aðgerðir skuli vísað til alþjóðadómsins. Um hugsanlegar aðgerðir, ekki aðgerðir, sem búið er að gera. „Um hugsanlegar aðgerðir,“ stendur í sjálfri grg. Og við vitum það, þó að maður sé farinn að ryðga í lögum, þá þekkir maður þá lagareglu, sem er sú almennasta, að þegar deila er um eitthvert atriði, þá er a.m.k. ekki sá, sem kann að verða dæmdur, settur inn í tugthús og látinn taka út refsinguna, áður en dómur gengur. Og það er reynt að halda status quo í hverju máli, þangað til dómur er genginn, — því ástandi, sem var, þegar deilan reis, er reynt að halda, en láta hvorugan aðila ná þeim rétti, sem hann er að sækjast eftir.

Þegar við erum í þessu tilfelli að deila um landgrunnið, þar sem Bretar fiska og þar sem við fiskum, þá er vitanlega reynt að láta haldast það ástand, sem verið hefur, þangað til dómur er kveðinn upp. Og samkv. lögum dómsins er gert ráð fyrir þessu, því að í 41. gr. segir: „Dómstóllinn hefur vald til þess að ákveða, ef hann telur atvik heimta það, hverja þá bráðabirgðaráðstöfun, er hann telur þurfa að gera til hagsmunagæzlu hvors aðila.“ Og þetta getur hann tilkynnt aðilum og öryggisráði. Það, sem hæstv. utanrrh. á við, þegar hann talar um úrskurð, en ekki dóm, — hann talaði um úrskurð réttilega, — er það, að fyrsta verk dómsins yrði sennilega það að ákveða, áður en 6 mánaða fresturinn er útrunninn, að það ástand, sem verið hefur, skuli haldast óbreytt, þangað til dómurinn hefur verið kveðinn upp, samkv. þessari lagagr. Þó að það sé orðað þannig, að menn hlutu að misskilja hann, þá er það þetta, sem hann á við með þeim úrskurði, sem gengur innan sex mánaða.

Ég ætla ekki að fara frekari orðum um alþjóðadómstólinn. Það hefur verið talað um hann hér af öðrum og sýnt fram á, að það er áhyggjuefni framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, hvað dómstóllinn hefur lítið álit og miklu minna álit en gamli Haag-dómstóllinn hafði. En það er staðreynd, að þessum dómi hafi ekki viljað lúta nema um einn þriðji af Sameinuðu þjóðunum. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að í þessum dómi séu ekki góðir og gegnir menn, — síður en svo, — þeir eru það áreiðanlega. En það er alveg tvímælalaust, eins og rakið hefur verið hér, og það er sú stóra hætta, að dómari, hvað samviskusamur sem hann er, fer ekki eftir öðru en sínum skoðunum, skoðunum og lögum og venjum, sem hann á að dæma eftir, og þær mótast alltaf af því þjóðerni, sem hann tilheyrir, af þeirri menningu, sem hann lifir í og er alinn upp í. Og það er staðreynd, að þær þjóðir, sem eru á móti okkur í landhelgismálinu, eiga nú meiri hluta í dómnum. Við getum þess vegna ekki búizt við því, eins og ég líka sagði áðan, þegar ég minntist á hættuna af því að afsala hinum einhliða rétti til útfærslu, að þegar dómurinn dæmir, þá verði það mat, sem hann leggur á okkar mál, okkur hagkvæmt, því að við skulum gera okkur það ljóst, eins og margsinnis hefur verið tekið fram, að hér er ekki verið að dæma eftir lögum, hér er verið að dæma eftir því, hvað dómurinn álítur rétt í þessu tilfelli, til þess hefur hann vald, og það er eins konar mat á aðstæðum. Við getum ekki búizt við því, að það verði okkur hagstætt, þvert á móti.

Það er því eitt af því allra hættulegasta, sem nokkurn tíma hefur verið gert, það réttindaafsal, sem hér er verið að gera í þessu máli. Það er í mínum augum svo alvarlegt atriði, að ég tel það langsamlega stærsta málið, sem hefur komið fyrir á Alþ., síðan ég kom í þessa sali, og samanborið við miklu lengri tíma.

Það getur ekki verið, að þessu máli, sem hefur verið svo lengi í deiglunni, liggi svo mikið á, að ekki sé hægt að láta það ganga undir þjóðaratkvæði. Ég skil ekki í því, að nokkur þm. neiti því í hjarta sínu, að hann hefur ekki umboð til að gera þennan samning. Allir flokkar og allir frambjóðendur við síðustu kosningar, núv. þm., lofuðu þjóðinni því hátíðlega, að þeir skyldu ekki slá undan í því máli, og það sem er undansláttur og stærsti undanslátturinn er afsalið á einhliða réttinum, — afsalið á einhliða réttinum, sem hefur verið vopn okkar til þessa í málinu og vopn allra þjóða, sem komizt hafa í 12 og yfir 12 mílur í landhelgismálinu. Þeir hafa ekkert umboð til þess. Og hvers vegna ekki, ef stjórnarflokkarnir eru svo sannfærðir eins og þeir segja um það, að þjóðin jafnvel fagni þessum samningi, mikill meiri hluti hennar sé honum samþykkur, — hvers vegna ekki að láta þetta ganga undir þjóðaratkvæði? Ég vil nú enn skora á ríkisstj. að taka þetta atriði til athugunar. Hér er verið að gera stórfelldara afsal á réttindum en gert hefur verið, — kannske erum við að afsala sjálfstæði okkar, og ég get undir engum kringumstæðum skilið, hvers vegna þarf að þvinga þennan samning í gegn með þessum hraða og ekki hægt að láta þjóðaratkvæði ganga í málinu. Ég vil blátt áfram óska eftir því, að ríkisstj. geri grein fyrir því, hvers vegna sú leið er ekki farin. Það hafa engin rök komið fram fyrir því enn, að það sé ekki hægt. Ég get ekki séð, að Bretum liggi svo mikið á að gera þessa samninga, eða ég veit ekki til þess. Það kann að vera, að fyrir liggi loforð, að þeir mættu koma hingað einhvern ákveðinn tíma. En ég vil enn einu sinni skora á ríkisstj. að taka það til athugunar að fallast á, að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um þetta stórmál.