08.03.1961
Sameinað þing: 48. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (2439)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Í þeirri baráttu, sem íslenzka þjóðin hefur háð fyrir verndun fiskimiðanna umhverfis landið, hefur hún átt við tvo höfuðfjendur að etja: annars vegar brezka heimsveldið og hins vegar á stundum þá aðila, sem annazt hafa samninga fyrir hönd Íslendinga, fyrst danska ríkisstjórn, sem mat meir verzlunarhagsmuni Dana en lífsafkomu íslenzku þjóðarinnar, og síðan núna innlent ríkisvald, þegar alþýða manna hefur látið vélast til þess að kjósa yfir sig fulltrúa, sem afsala réttindum Íslendinga, til þess að hernaðarbandalagi NATO-ríkjanna stafi ekki hætta af andspyrnu Íslendinga gegn ásókn Breta í íslenzkri fiskveiðilögsögu.

1952 svöruðu Bretar útfærslu fiskveiðilögsögu við Ísland og breytingum á grunnlínum með því að setja löndunarbann á íslenzkan fisk í brezkum höfnum. Þá átti að svelta Íslendinga til hlýðni. Ýmsir, sem til þess tíma höfðu ekki trúað þeim staðhæfingum, að landanir á óunnum fiski í brezkum höfnum væru þjóðinni ekki eftirsóknarverðar og beinlínis óhagkvæmar, þar sem það gæfi meira í aðra hönd að fullvinna fiskinn hér heima, en menn höfðu þá af pólitískum fordómum hafnað möguleikunum á að selja fullunninn fisk á erlendum mörkuðum, og höfðu með því haft af þjóðinni ómældar fjárhæðir, — þessir menn voru nú á sama hátt og Bretar fullvissir um, að löndunarbannið væri okkur háskasamlegt og það væri öruggt vopn í hendi Breta og meira þyrfti ekki til að kúska Íslendinga til hlýðni. En reynslan sýndi, að það vopn snerist í höndum þeirra, sem beittu því. Og innan skamms var öllum ljóst, að löndunarbannið var okkur til hagsbóta. Þjóðartekjurnar jukust, ekki aðeins vegna aukinnar fiskigengdar, sem af útfærslu landhelginnar í 4 mílur stafaði, heldur einnig vegna betri nýtingar aflans, þegar þjóðin hófst að þessu leyti af nýlendustigi. Verðmæti fisksins jókst stórlega vegna tilkomu nýrra fiskvinnslustöðva, sem voru svar okkar við bardagaaðferðum Breta, og fleiri veiðiferða togaranna en áður, þegar þeir stunduðu siglingar til Englands. Þannig töpuðu Bretar fullkomlega þeirri einstöku orrustu, sem þá var háð í langvinnu stríði þjóðarinnar fyrir því að fá viðurkennd yfirráð Íslands yfir landgrunninu öllu, orrustunni um einn áfanga þeirrar baráttu, sem var útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 4 mílur.

En það er sagt, að þótt Bretar tapi orrustum, þá vinni þeir stríðið, og nú horfir svo í landhelgismálinu, að það ætli að ásannast.

Þegar við Íslendingar lögðum til næstu atlögu til verndar fiskimiðunum umhverfis landið með stækkun fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur, gripu erfðafjendur okkar í því lífshagsmunamáli, Bretar, til þess að beita Íslendinga hernaðarlegu ofbeldi, reynslunni ríkari, að þeir gátu ekki svelt þjóðina. En Bretar eru hernaði vanir, og þeir vissu, að það er ekki alltaf nægilegt að berjast á einum vígstöðvum. Þeir þekkja það úr sinni sögu, að það er stundum heppilegra að hafa mörg járn í eldinum. Þess vegna háðu þeir aðra orrustu, um leið og til hernaðarofbeldis var gripið á hafinu. Þeir þjörmuðu að veiklunduðustu fulltrúum Íslands, sem einhvers máttu sín í því hernaðarbandalagi NATO-ríkjanna, sem vernda á rétt smælingjanna, eins og við fengum að sjá og kynnast í aðförunum í Egyptalandi og á fiskimiðunum við Ísland. Og jafnhetjulega og íslenzka þjóðin brást við vopnuðu ofbeldi, jafnaumleg var afstaða þeirra Íslendinga, sem Bretar höfðu nánast samstarf við í NATO. Bretar töpuðu margir orrustunni í hinni vopnuðu baráttu sinni við íslenzku þjóðina. Í stað þess að glúpna fyrir vopnum og hótunum hertust Íslendingar í baráttunni og árangurinn af fiskveiðum Breta undir herskipavernd var ekki meiri en svo, að miðin út að 12 mílunum voru friðuð, svo að nam meira en 90%, og veiðisvæðin næst utan við 12 mílurnar lausari við ágang brezkra togara en nokkru sinni fyrr.

Barátta Íslendinga við ofureflið, hið vopnaða brezka heimsveldi, vakti samúð þjóða heimsins með Íslendingum, og Bretar fundu anda að sér fyrirlitningu og andúð. Þessi barátta efldi þjóðlegan metnað Íslendinga og einingu og var samstilltri þjóð aflgjafi til sameiginlegra átaka. Svo mikil andleg heilsubót voru þessi átök samstilltrar þjóðar, að ýmsir, sem höfðu svæft svo sinn heilbrigða þjóðarmetnað, að þeir létu sér áður í léttu rúmi liggja, að Ísland var hersetið land, herstöð erlends stórveldis, örfáum árum eftir að þjóðin hafði öðlazt fullt sjálfstæði eftir aldalanga baráttu, gerðu sér nú ljóst, að her sá, sem búið hafði um sig á Keflavíkurflugvelli, var í rauninni ekki annað en deild úr sama liði og því, sem ógnaði íslenzkum löggæzlumönnum með fallbyssukjöftum og hótunum um dauða og ætlaði með ofbeldi að hindra þjóðina í að ná fram lífshagsmunamáli sínu. Þjóðin var að vakna til vitundar um, að tími væri kominn til þess að hreinsa af Íslandi blett hersetunnar og samsektina af því að vera í hernaðarbandalagi með þjóð, sem beitti sjálfa okkur ofbeldi, og Ísland væri fyrir Íslendinga, en ekki ameríska hermenn, sem þóttust vera hér til að vernda okkur, en létu sem ekkert væri og hreyfðu ekki hönd eða fót, þegar að því rak, að Íslendingar voru beittir hernaðarofbeldi.

Hernaðarárás Breta á Íslendinga kom því fyrir ekki, enda er það margstaðfest reynsla hernaðardýrkenda fyrr og síðar, að Íslendingar láta ekki skipast við byssur. Hernaðarofbeldið eitt hefði því ekki dugað Bretum og óvíst, til hvers það hefði leitt í ósigrinum, — óvíst nema þjóðlegur metnaður og heilbrigt íslenzkt þjóðarstolt þyldi þá eigi lengur smán erlendrar hersetu og létti henni af. Bretar hefðu því beðið algeran ósigur í þessu stríði, ef höfuðfjandi Íslendinga í þessu baráttumáli hefði aðeins verið einn, þ.e. Bretinn sjálfur. En eins og ég tók fram áður, hafa þeir jafnan verið tveir, Bretinn og þeir, sem háðastir eru Bretum, þeir aðilar, sem málum hafa ráðið á Íslandi. Og svo sem ég áður sagði, háðu Bretar orrustur á fleiri vígstöðvum en á hafinu einu. Þeir þoldu því að tapa öllum orrustum, sem á hafinu voru háðar í baráttunni um fiskveiðilögsögu Íslands. Þeir töpuðu að vísu einstaka orrustu líka á þessum vígstöðvum, um þrek þeirra manna, sem þjóðin hafði glæpzt á að treysta í baráttunni fyrir einu mesta lífshagsmunamáli hennar. Vinir Breta urðu nefnilega að láta undan siga á stundum. Þegar sú alþýða manna, sem bezt stóð sig gegn hinu brezka ofbeldi, átti að velja menn til að standa þar á vígvellinum, þar sem þeir síðar stóðu, þessir herrar, þá urðu þeir að látast taka þátt í baráttunni með þjóðinni, svo að þeir gætu með því komið í veg fyrir, að í þeirra staði og þá mikilvægu staði yrðu settir menn, sem meir hugsuðu um hag Íslendinga en Breta og hernaðarbandalag NATO-ríkjanna. Þess vegna urðu þessir vinir Breta í upphafi að sætta sig við útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur 1958, og þess vegna urðu þeir að sverja íslenzku þjóðinni hollustueiða fyrir kosningar 1959. En í þessum stundar- og sýndarósigrum þessara manna fólst þó mesti sigurinn fyrir Bretana, því að hefði þjóðinni í upphafi verið ljós hinn raunverulegi hugur þeirra til útvíkkunar fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur, væru þeir þess ekki umkomnir í dag að færa Bretum sigurlaunin í baráttu þeirra gegn réttindum Íslendinga, þar sem Íslendingar afsala sér um aldur og ævi þeim stærsta rétti, sem þeir hafa til þessa verið að sækja og verja, réttinum til að ákveða einir um yfirráð þjóðarinnar yfir landgrunninu öllu.

Það hefur komið berlega í ljós, að barátta Breta á öðrum vígstöðvum en hafinu ætlar að tryggja þeim, að þeir vinni stríðið, þótt þeir tapi einstökum orrustum. Þeir töpuðu að vísu einstöku orrustum á þessum vígvelli líka, orrustum, sem miðuðu að því að beygja til hlýðni ístöðulausa valdamenn, sem voru þeim háðir. En sigurinn yfir þeim nú að lokum er að færa þeim heildarsigurinn í stríðinu gegn yfirráðum íslenzku þjóðarinnar yfir landgrunninu við Ísland, jafnvel þótt allar orrustur á hafinu hafi tapazt. Bretar hafa því reynt það sem fyrr, að það er vænlegt til árangurs að berjast á fleiri vígstöðvum en einum.

Þennan sigur hafa Bretar ekki fengið vegna þess, að íslenzkur almenningur hafi glúpnað fyrir ofbeldisaðgerðum og morðhótunum heimsveldisins. Þennan sigur hafa Bretar fengið fram vegna þess, að þeir hafa alla tíð átt á Íslandi menn, sem hafa séð sér hag í því á einn eða annan hátt að meta meir hagsmuni Breta en íslenzku þjóðarinnar. Bretar hafa alltaf átt sína vini á Íslandi, jafnvel áður en Bretar komust svo langt með tök sín á Íslandi, að þeir drægju þessa litlu og friðsömu þjóð inn í hernaðarbandalag stórvelda. Á meðan Bretar skömmtuðu okkur 3 mílna fiskveiðilandhelgi og sáu hana ekki einu sinni í friði, áttu þeir stuðningsmenn á Íslandi, menn, sem lögðu sig fram um að aðstoða þá við ólöglegar veiðar innan 3 mílna landhelginnar. Við könnumst öll við ömmuskeytin frægu, sem brezku togurunum voru send, svo að þeir gætu stundað veiðar í landhelginni, þegar íslenzku varðskipin voru fjarri. Þessir stuðningsmenn Breta hafa lagt þeim sitt lið í baráttu þeirra gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Hér leggja þeir fyrir til samþykktar eitt stórt ömmuskeyti, sem gerir ekki aðeins Bretum fært að ræna og eyðileggja innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, meðan íslenzk varðskip eru fjarri, heldur gefur þeim tryggingu fyrir því, að það verði ekki komið að þeim óvörum. Þeir geta a.m.k. 3 næstu árin verið rólegir inni í miðri fiskveiðilögsögu Íslands. Íslenzku varðskipin skulu ekki hafa heimild til þess svo mikið sem stugga við þeim. Þannig sigrar brezka heimsveldið í stríðinu, þótt orrustur tapist. Bretar töpuðu orrustunum með byssunum á hafinu, en sigruðu í baráttunni, sem íslenzka þjóðin háði við þá um reisn og dug þeirra forustumanna, sem höfðu fyrir kosningar villt á sér sýn. Íslenzka þjóðin háði baráttu við Breta um afstöðu þessara manna. Á stundum urðu þeir í orði að láta undan siga fyrir kröfum þjóðarinnar um, að eigi yrði hvikað.

Er þess skemmst að minnast, að hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, varð að gefa alþjóð svo hljóðandi yfirlýsingu í ríkisútvarpinu:

„Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum og öðru, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland.“

Þessi yfirlýsing dugði skammt til þess að tryggja hagsmuni Íslands, og hún verður ævarandi minnisvarði um reisn þeirra manna, sem hafa illu heilli um sinn haft aðstöðu til þess að ráða gangi landhelgismálsins, — manna, sem hafa, allt frá því er Íslendingar hófu undirbúning að stækkun fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur, verið teygðir og togaðir milli íslenzku þjóðarinnar, sem hefur gert til þeirra kröfu um, að þeir væru Íslendingar og berðust fyrir Íslendinga eina, og brezka heimsveldisins, sem hefur togað þá og ginnt til þess að meta aðra hagsmuni meir. Í þessum sviptingum hafa Bretar haft betur, og það hefur ráðið úrslitum í landhelgismálinu. Sjálfstæðiskennd þeirra sem Íslendinga gagnvart Bretum er ekki orðin á marga fiska. Þó hefur einn þeirra lýst því yfir opinberlega, að það sé sjálfstætt á honum hárið, og hann unir glaður við sitt.

Brezka heimsveldið tapaði öllum orrustum, sem það háði með vopnavaldi, og var búið að gefast upp á þeim vígstöðvum, þegar Bretar unnu endanlegan sigur í togstreitunni við þjóðina um afstöðu íslenzkra stjórnarvalda til eins brýnasta lífshagsmunamáls íslenzku þjóðarinnar, réttinda hennar til þess að ráða verndun sinna eigin fiskimiða. Bretar höfðu algerlega gefizt upp á því að veiða innan fiskveiðilögsögunnar undir herskipavernd. Þessar aðfarir þeirra, sem áttu að vekja ógn og áttu að kúska Íslendinga til hlýðni, urðu að skrípaleik í augum alheimsins. Veiði togaranna varð engin, og undir lokin voru veiðiferðir brezkra togara innan lögsögunnar orðnar að skyldu og kvöð á togurum þeirra og áhöfnum og Bretum öllum til stórtjóns. Ógerlegt var að halda þeim skrípaleik áfram, m.a. vegna þess, að brezkir togarasjómenn stunda ekki fremur en stéttarbræður þeirra annars staðar fiskveiðar á togurum sem sport. Þeir ráða sig á togarana einfaldlega til þess að hafa þar hlut. Brezkir togarasjómenn hafa engin efni á því að fórna hlut sínum við sýndarveiðar. Það var því öllum ljóst, að Bretar gátu aldrei sigrað í þessu stríði með því að beita gegn Íslendingum sjóliðum og togarasjómönnum.

En þegar ósigur Breta á þessum vígstöðvum var augljósastur, brast sá varnargarður Íslendinga, sem veikastur var. Þá sannaðist enn einu sinni, að höfuðfjendur íslenzkrar alþýðu í baráttunni fyrir verndun fiskimiðanna, sem þjóðin byggir afkomu sína á, hafa jafnan verið tveir, Bretar og þeir menn, sem hafa samið við þá um mikilsverðustu réttindi hennar, þ.e.a.s. Danir og NATO-sinnar, sem meta meir hernaðarbandalagið við verndara smælingjanna, Breta, en hagsmuni íslenzku þjóðarinnar, menn, sem hafa metið meir einingu í NATO, einingu, sem fengin er með því, að minnsta þjóðin gefi upp réttindi sín, heldur en þjóðareiningu Íslendinga í landhelgismálinu. Þess vegna er sýnt, að þótt Bretar hafi tapað öllum orrustum á hafinu í fiskveiðideilunni og nokkrum sinnum orrustu um staðfestu Bretavinanna á Íslandi, þá horfir svo, að þeim takist að vinna stríðið sjálft, ef þjóðin lætur ekki sjálf svo til sín taka, að um muni, svo að ekki verði af þeim samningum, sem nú eru fyrirhugaðir, um að hleypa Bretum inn að 6 mílna línunni og afsala rétti Íslendinga til einhliða aðgerða til verndunar fiskimiðanna umhverfis landið.

Með stórfelldum áróðri stjórnarliðsins hefur verið unnið að því um langt skeið að fá þjóðina til þess að sætta sig við afslátt í landhelgismálinu, fá hana til að fórna þeim árangri, sem þegar hefur náðst í friðun fiskimiðanna fyrir togveiðum innan 12 mílna, láta hana fyrst sætta sig við afsláttinn, og síðan er gengið svo langt, að reynt er að láta hana telja sér trú um, að um engan afslátt sé að ræða.

Einn hv. þm. sagði 1 umr. um daginn, að samningur sá, sem lagt er til að gerður verði við Breta, sé um margt líkur nauðungarsamningnum í Kópavogi fyrir 300 árum, og er það að nokkru leyti rétt. Í bæði skiptin er um að ræða nauðungarsamning, sem knúinn er fram með hótunum um ofbeldi. En sá er munurinn, að þegar nauðungarsamningurinn var gerður í Kópavogi, var ekki reynt að telja neinum trú um, að þjóðin væri að vinna sigur. Þá beittu forustumenn Íslendinga ekki sína eigin þjóð blekkingum. Þá var öllum ljóst, að verið var að láta undan ofbeldi og að um nauðung var að ræða, og viðbrögð þeirra, sem henni voru beittir, sýndu öllum, að samþykkt þeirra á samningunum var ekki gerð af frjálsum vilja. Þá varð ofbeldið, sem yfirráðaþjóðin beitti, Íslendingum aflgjafi til nýrra átaka um að berjast gegn óréttinum. Þá var ekki reynt að stinga þjóðinni svefnþorn.

Saga þjóðarinnar sýnir, að hún stendur af sér ofbeldið. Það er ekki til neins að beita hana því. Við beitingu kúgunar og nauðungar gegn þjóðinni hefur henni skilizt, hvers hún þurfi að krefjast af sjálfri sér í áframhaldandi baráttu til þess að vinna réttinn að nýju. En nú er reynt vísvitandi að ljúga að þjóðinni, til þess að hún haldi ekki baráttunni áfram, svo að hún jafnvel telji sér trú um, um skeið a.m.k., að hún hafi unnið sigur, þurfi ekkert að endurheimta og geti verið sem lengst ánægð með óbreytt ástand. Ofbeldið og nauðungina þolir þjóðin. En henni er ekkert hættulegra en sú lygi, sem er ætluð til þess að slæva samvizkuna og baráttuviljann og kveða niður samvizkubitið af því að hafa afsalað rétti þjóðarinnar. Þess vegna er það háskasamlegt, þegar þjóðinni er á niðurlægingarstundu talin trú um, að hún hafi engan rétt af hendi látið. Það er gert til þess eins, að hún afsali sér þeim rétti til frambúðar, en hefji ekki jafnskjótt baráttuna til þess að endurheimtra hann.

Á undanförnum árum hefur of oft verið logið að þjóðinni á örlagastundum og síðan verið reynt að láta hana lifa í sjálfsblekkingu og lífslygi. Þegar þjóðin var véluð til þess að heimila hersetu í landinu, var samvizka hennar svæfð með því að telja henni trú um, að hún væri að bjarga sjálfu lýðræðinu í heiminum, — með því að styðja lýðræðishetjuna og mannvininn Syngman Rhee í Kóreu. Þessi vopnlausa smáþjóð, sem lýst hafði yfir ævarandi hlutleysi, þegar hún varð sjálfstæð, í samræmi við alla sína sögu og lífsgrundvöll, var véluð frá því hlutleysi með yfirlýsingum um, að því hlutleysi fórnaði hún vegna þátttöku í varnarbandalagi friðelskandi þjóða, sem hefði það hlutverk að vernda smælingjana í heiminum.

Þannig var samvizkan svæfð í það skiptið og þannig svaf samvizka mikils hluta þjóðarinnar, þar til lygin varð öllum ljós og eðli bandalagsins sýndi sig í Egyptalandi og á fiskimiðunum umhverfis Ísland.

Við hvern þann samning, sem vélað var inn á þjóðina, smækkaði hún meir andlega en hún hefði gert, þó að þessum samningum hefði opinberlega verið þröngvað inn á hana með ofbeldi, því að ofbeldið hefur þjóðin þolað, en lygin, sem ætluð er til að slæva samvizkuna og réttlæta ranglætið, er hættulegri öllu öðru. Og enn á að leika sama leikinn, nú með þeim samningi, sem hér er lagt til að gerður verði.

Nú er reynt að finna afsakanir fyrir uppgjöfinni, og nú er jafnvel gengið svo langt og svo hátt reitt til höggs, að reynt er að telja þjóðinni trú um, að hún sé að vinna sigur í því sjálfstæðismáli, sem landhelgismálið er. Sök sér væri að láta undan fyrir ofbeldinu og gera sér það ljóst og reyna ekki að blekkja sig eða telja sér trú um, að ósigurinn geti verið nokkuð annað en ósigur og undanhaldið undanhald. Þess vegna er lygaskammturinn, sem ríkisstj. ætlar þjóðinni nú, svo gífurlegur, að ósigurinn er nefndur sigur og niðurlægingin upphefð, að óttinn er allur við það, að kyngi þjóðin ekki þessum bita, þá verði því ekki forðað lengur, að vegna baráttu þjóðarinnar um landhelgina við Breta verði henni ljóst, hvílíkar ógnarblekkingar henni hafa verið boðnar áður, þegar hún var niðurlægð fyrst til þess að veita erlendum her hluta af landinu og síðan til þess að ganga í hernaðarbandalag með Bretum. Það er nefnilega ekki örgrannt um, að baráttan við Breta, sem árið 1952 gerði Íslendingum í ógáti ljóst, að það var ekki í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar að selja óunnin hráefni úr landi sem nýlendu, — það er ekki örgrannt um, að sú barátta hafi síðan 1958 opnað augu manna fyrir því, að það samrýmist ekki hagsmunum eða sóma Íslendinga að sætta sig við erlenda hersetu eða vera í hernaðarbandalagi við þá, sem með vopnuðu ofbeldi hafa barizt gegn lífshagsmunum íslenzku þjóðarinnar. Þess vegna er nú gripið til þess ráðs að halda því fram, að sú árásarþjóð sé að beygja sig. þegar hún er nú að ráðast inn að 6 mílna mörkunum og er að láta Íslendinga afsala sér þeim réttindum, sem lýst var yfir 1948, réttinum til lögsögu Íslendinga innan endimarka landgrunnsins.

Ríkisstjórnin er án efa búin að tryggja sér svo rækilega atfylgi þingmanna sinna fyrir samningi við Breta, að þær löngu umr., sem fram hafa farið hér á hv. Alþ., verða því miður ekki til þess að koma í veg fyrir samþykkt hans, svo staðráðnir eru hv. þm. stjórnarliðsins, að þeir telja sig ekki einu sinni þurfa að hlusta á þær umr., sem hér hafa farið fram. En þótt ríkisstj. hafi valdið til þess að knýja fram þessa nauðungarsamninga, þá getur hún þó ekki komið í veg fyrir þann árangur af umr., að augu þjóðarinnar opnast fyrir blekkingum stjórnarinnar, að þjóðinni verður ljóst eðli samningsins, hún gerir sér ljóst, að hann er spor aftur á bak í sjálfstæðismálum þjóðarinnar, að hann er réttindaafsal og ósigur. Og það er ekki einskis virði, að sá árangur náist, að þjóðin geri sér þetta allt að fullu ljóst og lifi í engum sjálfsblekkingum. Þá er full von og vissa um, að þjóðin mun ekki sætta sig við óbreytt ástand, að hún mun eflast til nýrra átaka í landhelgismálinu, hún mun sækja að nýju þann rétt, sem nú er verið að láta af hendi.