09.03.1961
Sameinað þing: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (2441)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Frsm. 2. mínar hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið í þessum umræðum, sem ég vildi nú gera að umtalsefni.

Hæstv. utanrrh. hefur neitað að birta í heild þá yfirlýsingu, sem við höfum séð hann hafa með höndum hér í þessum ræðustól. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanrmn. fórum fram á það við hv. formann utanrmn., að hann kallaði saman utanríkismálanefndarfund og fengi utanrrh. á hann, til þess að hann birti þar þessa yfirlýsingu og þetta umtalaða bréf. Hv. form. utanrmn. varð strax við ósk okkar að athuga um slíkt, en utanrrh. tilkynnti, að hann mundi ekki birta meira en hann nú hefði birt, lét jafnvel orð að því liggja, að hann hefði birt allt.

Ég vil taka það fram í sambandi við þessa hluti, að þegar utanrrh. neitar að birta slíka skýrslu til utanrmn., þá eru þetta engin þingleg vinnubrögð. Svo framarlega sem við hefðum verið staddir t.d. í þingi Bandaríkjanna, þá hefði utanrrh. orðið að gera svo vel að hlýða því, sem utanrmn. krafðist, og gefa þær skýringar, sem hún heimtaði. Og það kann ekki góðri lukku að stýra, að þeir menn, sem eru kosnir sem framkvæmdastjórar fyrir eitt þjóðfélag, fyrir eitt Alþingi, komist upp með að halda, að þeir séu herrarnir, en ekki þjónarnir. Það er líka greinilegt orðið af öllu því umtali, sem hefur orðið um þessa yfirlýsingu, að það eru fáir, sem vita, hvað hér er um að ræða. Stundum er látið orð að því liggja af hálfu hæstv. utanrrh., að hann hafi birt allt bréfið. Þegar hv. frsm. meiri hl. utanrmn., hv. 5. þm. Reykv., talar hér, segir hann hins vegar, að það hafi verið birt úr bréfi, það hafi verið birt að meira eða minna leyti. Sannleikurinn mun vera sá, að meira að segja stjórnarliðið hér á Alþingi hefur ekki hugmynd um, hvað í þessari orðsendingu stendur, og því mun aldrei hafa verið sýnd hún, þannig að hér virðist vera um að ræða einkaplagg, sem eigi að minnsta kosti að dylja fram yfir þessar umræður. Hvað er í þessu, sem þarf að fela? Það þarf venjulega ekki að fela annað en það, sem óhreint er.

Hæstv. utanrrh. hefur stundum látið orð að því liggja, þegar hann talar um aðrar þjóðir í sambandi við sérréttindi Breta, að þær létu máske ýmislegt annað í té.

Það kom dálítið einkennilegt fyrir í gær. Það var allt í einu farið að tala um af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. og Alþfl. í hreppsnefnd Eskifjarðar, að fyrir það að eyðileggja fiskimiðin mundi vonandi koma eitthvert fjármagn í staðinn. Hvað er það, sem hefur verið að gerast á bak við tjöldin í sambandi við þetta? Við vitum, að það var neitað um lán frá Þýzkalandi nú í janúar. Við vitum, að það var játað að láta þau í desember, um það leyti sem upplýst er, að hæstv. utanrrh. hafi verið að semja um þau í London. Það var neitað að láta þau í janúar, og það var neitað að láta þau í febrúar, meðan ekki var búið alveg að beygja allt stjórnarliðið hérna. En þau voru öll laus, þegar þetta mál kom fyrir þingið, þegar búið var að handjárna. Hvað er það, sem er falið í þessum samningi? Hvað er það, sem máske hefur verið látið kvisast út á bak við tjöldin og borizt alla leið austur á Eskifjörð til fulltrúa Sjálfstfl. og Alþfl. þar, sem gera sér von um, að í staðinn fyrir að eyðileggja fiskimiðin fái þeir þó fjármagn? Er það samningurinn um 30 skildingana, sem hæstv. utanrrh. vill ekki sýna okkur?

Það er ósvífni gagnvart Alþingi, gagnvart utanrmn. og gagnvart þjóðinni að reyna að kúga hér í gegnum þingið samning, jafnvel á grundvelli einhverra einkabréfa. Ég vil taka það fram, að þó að Guðmundur Í. Guðmundsson, hæstv. utanrrh., sé vafalaust mikill maður og eigi mikla kollega, þá er nú samt ekki íslenzka ríkið orðið hans einkamál enn þá, og meira að segja þegar hann hefur verið fjmrh., þá er honum bezt að líta svo á, að íslenzkur ríkissjóður sé ekki heldur neinn einkasjóður fjármálaráðs Alþýðuflokksins. Þótt toppkratar kunni að vera voldugir, þá er það enn þá íslenzka ríkið, sem ræður þessum hlutum, og það er bezt fyrir menn að gá að því, hvað þeir eru að gera, og fyrir stjórnarliðið er bezt að athuga, að það er engin afsökun til fyrir það eftir á, svo framarlega sem menn komast seinna meir að því, að þeir hafi verið blekktir.

En það er ekki nóg með þetta bréf eða þessa yfirlýsingu eða hvað sem við viljum kalla það, sem fram hefur komið í þessum umr. Það hefur líka komið fram í þessum umr., að hæstv. utanrrh. er staðinn að ósannindum. Aðrir utanrrh. hefðu sagt af sér, þegar slíkt hefði gerzt. Í svörum sínum 6. febr. við fsp. Lúðvíks Jósefssonar um landhelgismálið gaf hann skýr og ótvíræð svör. Hann sagði, að í þeim viðræðum, sem fram hefðu farið, hefði ekki komið fram nein till. eða neitt tilboð af Íslands hálfu um lausn málsins, og hann endurtók svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En á þessu stigi málsins vildi ég aðeins minna á ummæli hæstv. forsrh., daginn sem Alþingi var sett, um samráð við þingið, áður en endanleg ákvörðun í málinu yrði tekin. Sú yfirlýsing er að sjálfsögðu í fullu gildi, og mun ríkisstj. fara eftir henni. “

Þetta voru loforðin, sem okkur þm. voru gefin. Nú er það Alþýðublaðið, sem ljóstrar því upp, að þetta hafi verið ósatt. Nú er það hæstv. utanrrh., sem svíkur það loforð hæstv. forsrh. að leggja þetta fyrir þingið, áður en endanleg ákvörðun sé tekin. Og nú í þessum umr. eigum við að treysta á skýringar, sem þessi hæstv. utanrrh. gefur, — hæstv. utanrrh., sem hefur falið fyrir okkur svo og svo mikið af því, sem gerzt hefur þarna á bak við tjöldin, — hæstv. utanrrh., sem er staðinn að ósannindum um það, sem þarna hefur farið fram, — og svo á Ísland í milliríkjasamningum að treysta á hans skýringar og hans aukayfirlýsingar um hluti, sem varða þess framtíð.

Ég held, að hæstv. utanrrh. hljóti að vera ljóst, að við getum ekki treyst þessu, við getum ekki trúað þessu, við getum engu orði trúað eftir það, sem gerzt hefur af hans hálfu. Við sjáum nú staðreyndirnar, eins og þær liggja fyrir í þessum málum. Það hefur verið samið í desember um það, sem nú liggur fyrir. Ef það var í meðvitund hæstv. utanrrh. stórsigur, sem þá vannst, hví kom hann ekki fagnandi heim í desember, birti þjóðinni stórsigurinn og sagði: Sjáið þið, hvílíkt afrek ég hef unnið? — Af hverju þurfti að fara leynt með stórsigurinn? Var það vegna þess, að meira að segja hæstv. utanrrh. var ekki sannfærður um, að það væri neinn stórsigur, heldur þvert á móti? Var það vegna þess, að það tók tvo mánuði að vinna verkið, sem fyrst þurfti að vinna, að beygja stjórnarliðið í sölum Alþingis, beygja stjórnarliðið og brjóta það niður, á meðan lánin væru stöðvuð erlendis, á meðan ráðslagað væri hér, hvernig skyldi reyna að taka þjóðina með skyndiáhlaupi áróðursins? Og það má segja hv. þm. stjórnarliðsins til hróss, að svo beygðir hafa þeir verið í þessu, að þeir hafa ekki komið upp einu einasta orði allan þennan tíma, við allar þessar umr., þangað til þeir að líkindum stynja upp sínu jái, þegar þar að kemur. En þetta er það, sem hefur gerzt. Svona hefur verið farið að. Þetta á þriðja mánuð hefur það tekið að beygja stjórnarliða á Alþingi, og það hefur aldrei verið þorað að standa við loforð hæstv. forsrh. um að leggja málið fyrir þingið, áður en endanleg ákvörðun væri tekin, vegna þess að ef stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, þm. á þingmannabekkjum, hefðu fengið að ræða þessi mál í sameiningu, áður en ríkisstj. var búin að binda sig, þá hefði Alþingi aldrei verið bundið og ríkisstj. ekki heldur.

Ég vil því segja við hv. þingmenn stjórnarliðsins: Þið verðið að gera ykkur ljósa þá ábyrgð, sem á ykkur hvílir. Þið vitið ekki um alla samninga, sem fram hafa farið. Þið hafið reynslu af ósannindum hæstv. utanrrh. En það eruð þið, sem eigið að taka á ykkar herðar pólitísku og efnahagslegu afleiðingarnar og ábyrgðina af þeim verknaði, sem nú er verið að vinna. Við vitum ósköp vel, að meira að segja ráðherrar Íslands gera ekki þetta, sem nú er verið að gera, af frjálsum og fúsum vilja. Við vitum ósköp vel, að þá dreymdi allt aðra drauma, þegar þeir byrjuðu að semja við England. Við vissum, að þeir voru að tala um 16 mílur úti fyrir Vestfjörðum. Við vissum, að þeir voru að tala um að leggja undir okkur landgrunnið úti fyrir Vestfjörðum. Við vissum, að þeir vonuðust eftir að geta flutt einhvern sigur heim. Allar þessar sigurvonir þeirra hafa brotnað, og meira að segja utanrrh. sjálfur, eftir að allt þetta var brotnað niður í samningunum, hefur auðsjáanlega orðið að segja við Breta: Einhver vopn verðið þið þó að gefa okkur á móti stjórnarandstöðunni heima, þótt þið viljið ekki gefa okkur 16 mílur fyrir Vestfjörðum eða landgrunnið fyrir Vestfjörðum, eins og hæstv. fjmrh. einu sinni var að tala um við Vestfirðinga.

Við skulum þess vegna ekki, þegar gengið verður til atkvæða um þetta mál, fara í neinar grafgötur um það, hvaða harmleikur það er, sem þarna er að gerast, hvernig búið er að beygja menn. Sízt mundi ég ætla það nokkrum að hafa gert þetta án þess að hafa verið beygður til þess.

Hæstv. utanrrh. vék hér nokkrum orðum til mín í sambandi við undirbúning landgrunnslaganna 1948. Það var rétt hjá honum, og það var undirstrikað af mér þá, eins og alltaf hefur verið, að landgrunnslögin voru vel undirbúin, og ég lagði áherzlu á það, að þau væru vel undirbúin og vel kynnt og að það yrði að vinna sem bezt að málstað okkar Íslendinga út um allan heim. En hvernig var unnið að þeim? Ég hef gluggað ofur lítið í fundargerð utanrmn. frá 1947 og 1948. Það var hver fundurinn á fætur öðrum hjá utanrmn. þá, sem hæstv. þáv. utanrrh. átti uppástungur að, að haldnir voru, og lagði málið fyrir. Það var Bjarni Benediktsson þá.

Málin voru rædd þar og rædd ýtarlega, og það er satt að segja mjög fróðlegt, af því að maður er farinn að gleyma svona umr., að rifja þær upp nú, þó að ég ætli ekki að gera það hér. Þar var lögð áherzla á, hvílíkt samkomulag þyrfti að verða á milli allra þingflokka um þetta, og þá var þetta undirbúið í utanrmn. Og það hefði verið gæfa Íslands, ef það hefði verið gert aftur núna, eins og ber samkvæmt lögum, að undirbúa þetta mál 5 utanrmn., áður en ákvarðanir voru teknar um það, áður en handjárn voru sett á. Þá var lögð áherzla á samráð allra flokka, þá var loforð um að hafa samkomulag um þessa hluti. Nú hefur þetta allt verið svikið, nú er ekkert samráð, nú á aðeins að fara aftan að og knýja þessi mál í gegn. Hæstv. utanrrh. sagði, að það væri greinilegt, að við, sem þá vorum fulltrúar Sósfl., hefðum viljað vinna vel að þessum málum. Þá hefði heldur ekkert Atlantshafsbandalag verið til. Það er rétt. Það var ekki fyrr en árið eftir að landgrunnslögin voru gefin út, að okkar fjandmenn skipulögðu sig í Atlantshafsbandalaginu til þess að reyna að hindra, að við Íslendingar tækjum okkur þann rétt, sem við helguðum okkur með þeim lögum. En hvílík rökþrot eru þetta, sem hæstv. utanrrh. er komunn í, þegar hann er farinn að tala um, að það hafi verið eingöngu til þess að vinna gegn Atlantshafsbandalaginu, að við höfum beitt okkur fyrir landgrunnsbaráttunni, líka 1958. Hélt hann, að afstaða Atlantshafsbandalagsins og fjandskapur þess gagnvart Íslendingum væri eitthvað nýtt? Átti það að vera eingöngu þjónusta við heimskommúnismann að berjast fyrir útvíkkun fiskveiðitakmarkanna við Ísland? Var Ólafur Thors, hæstv. núv. forsrh., að vinna í þjónustu kommúnismans, þegar hann færði landhelgina út í 4 mílur? Var hæstv. núv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, að vinna í þjónustu kommúnismans, þegar hann var að vinna að því meira að segja að taka upp samninga við Rússa til þess að brjóta á bak aftur verzlunarbann Englendinga, sem sett var á okkur, þegar fært var út þá? Eru máske Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson orðnir erindrekar kommúnista? Eru engin takmörk fyrir því, hve djúpt þessi hæstv. utanrrh. ætlar að sökkva í sinni röksemdafærslu? Er ekki nóg að vaða upp að hnjám í lygum og landráðum, þó að menn sökkvi ekki í það hyldýpi röksemdaleysnanna, sem hatrið á kommúnismanum skapar hjá andstæðingum hans?

Hæstv. utanrrh. talaði um, að það væri verið að bera sér á brýn landráð og svik, það væri verið að tala um að semja nú um hluti, sem hann vildi meina að einu sinni hefði þó þótt framför að. Það var mikið, að hann fann það. Eftir að þjóðin hefur unnið sinn sigur, eru það landráð að spila þeim sigri úr hendi hennar. Það að semja um hlut í dag, sem hún þarf ekki að semja um, þó að henni hefði þótt sá hlutur einu sinni framför, það eru landráð. Það var vissulega stór framför, þegar við fengum okkar fullveldi 1918. Við höfðum þá danskan konung, og Danir fóru með okkar utanríkismál. Ef hæstv. utanrrh. tæki að semja um það í dag, að við tækjum aftur danskan konung og fengjum okkar utanríkismál í hendur Dana, þá væru það landráð, jafnvel þótt það hefði verið framför að því ástandi, þegar það var sett á laggirnar 1918.

Það hefur verið vikið hér að okkur, sem höfum viljað berjast fyrir rétti Íslands í þessum málum, að það væri ofbeldisandi, sem þar væri að verki. Ég verð að segja, að það er hart, að í þessum umr. skuli koma frá nokkrum hæstv. ráðh. ásakanir til nokkurs Íslendings um ofbeldi eða ofbeldisanda eða að Íslendingum sé slíkt kært. Við höfum allir alltaf farið og munum alltaf fara að okkar lögum og að okkar rétti og sækja okkar lög og okkar rétt í hendur hverra, sem við eigum við að etja. En hvar er það, sem ofbeldið er í þessum hlutum? Ofbeldið er hjá Bretum. Það voru Bretar, sem tóku okkar land með hernámi 1940. Það voru Bretar, sem brutu okkar stjórnarskrá og brutu öll sín loforð hér 1941. Það var brezk ríkisstj., sem hótaði íslenzkri ríkisstj. til þess að pína hana til þess að ganga að slæmum erlendum samningi við erlent vald. Það voru Bretar og þeirra vald, sem reyndi að brjóta okkur á bak aftur með efnahagsbanni 1952. Og það voru Bretar, sem beittu okkur ofbeldi, gerðu á okkur herárás 1958. Saga afskipta Breta af okkur er ein samfelld keðja af níðingsskap og ofbeldi. Og svo eru menn til, sem bera okkur á brýn, okkur Íslendingum, að það séum máske við, sem allan þennan tíma höfum orðið að berjast fyrir okkar lögum og okkar rétti, okkar frelsi á móti þessum ofbeldisseggjum, — það séum við, sem séum haldnir ofbeldisanda. Ég spyr: Hefði þessi samningur, sem nú liggur fyrir að gera, nokkurn tíma orðið til nema fyrir ofbeldi Breta? Ég trúi því ekki, að nokkur maður, — og ég undantek ekki ráðherrana hér inni, — hefði farið að láta sér detta í hug að gera þennan samning, nema vegna þess að Bretar beittu okkur ofbeldi 1958 og þaðan í frá. Það erum við, sem erum réttarrríkið, Ísland. Það er Bretland, sem er ofbeldisríki, og það er ekki í fyrsta sinn og ekki bara gagnvart okkur, sem það er það. Undirrót þessara samninga er ofbeldi Breta, og einungis þess vegna eru þeir yfirleitt til komnir.

Með því, sem nú er að gerast hér á Alþingi, er verið að hörfa frá lögsögu Íslands yfir landgrunninu í framtíðinni. Sú lögsaga Íslands var grundvallaryfirlýsing okkar um yfirráðarétt okkar Íslendinga yfir landgrunninu, og Alþingi hefur aldrei gefið neinum heimild til þess að falla frá henni. En hitt þarf að gera sér ljóst, með hve mismunandi aðferðum er unnið að því að tryggja þennan rétt okkar og afla okkur að lokum á honum viðurkenningar. Við vinnum að slíku með tveim aðferðum: Í fyrsta lagi með sífelldri baráttu, sífelldri útfærslu á okkar fiskveiðilöggjöf, sífelldri baráttu út af þeirri útfærslu, baráttu, sem vekur athygli um allan heim, af því að það er hámenningarþjóð, lítil og fátæk, sem er að berjast fyrir lífi sínu, og af því að heimurinn er þó til allrar hamingju þannig hugsandi í dag, að hann hefur samúð með slíkum aðila, og okkur tekst þess vegna að vekja okkur samúð um víða veröld með því að berjast sjálfir.

Okkur hefur tekizt á síðasta áratug að leggja undir okkur sífellt stærra svið af landgrunninu. Okkur hefur tekizt með slíkri baráttu að leggja undir okkur 4 mílur, okkur hefur tekizt með slíkri baráttu að leggja undir okkur 12 mílur, þrátt fyrir mótspyrnu þess volduga brezka valds og án þess að við höfum beina lagastoð í alþjóðarétti. Hins vegar erum við að skapa alþjóðarétt með þessari baráttu, og vegna þessarar baráttu og annarrar slíkrar, sem aðrir heyja, er meira og meira að færast í það horf, að alþjóðalög taki tillit til þessa réttar okkar og annarra slíkra. Einmitt vegna þess, að við berjumst sjálfir fyrir okkar rétti, erum við að gera þennan rétt að staðreynd í viðskiptum þjóðanna. Þetta er og verður okkar höfuðvopn í baráttunni, og þessu vopni megum við aldrei farga, hvernig sem reynt er að handjárna okkur.

Í öðru lagi getum við barizt með því, og það er rétt að berjast með því að beita okkar rökfærslu á alþjóðavettvangi, á alþjóðasamkundum, hvar sem við getum við komið, líka reyna að sannfæra dómstóla, dómendur og alla mögulega aðra slíka. En við skulum ekki halda okkur við það einvörðungu.

Það dregur nú að lokum þessara umræðna, og það er nú séð, hvað verða vill, og að því óhappaverki, sem hér er verið að vinna, verður ekki afstýrt. En það vil ég segja við meðþingmenn mína úr stjórnarflokkunum: Gerið þið ykkur ljósa þá ábyrgð, sem á ykkur hvílir í þessu sambandi. Þið gerið Íslandi erfiðara fyrir að ná sínum rétti, eftir að þessi samningur er gerður. Þið setjið þjóð vora á ný í þá aðstöðu að verða að sækja rétt sinn í greipar erlends valds. Og þið berið ábyrgð á öllum þeim erfiðleikum, sem þessi samningur leiðir yfir íslenzka þjóð. En þið skuluð engir halda, að það sé búið að drepa Ísland til frambúðar í dróma brezks auðvalds og Atlantshafsbandalagsins með þessum svikasamningi. Stormur frelsisins fer um víða veröld. Ánauðugar þjóðir hrista af sér nýlendufjötrana. og Ísland skal ekki verða eftirbátur annarra landa. Ísland mun einnig slíta af sér þá svikafjötra, sem brezkur níðingsskapur, breskt ofbeldi, brezk flærð og vesaldómur íslenzkra valdhafa er nú að leggja á þjóðina. Ísland hefur áður verið bundið undir erlent ok. Það hefur hrist það af sér, og það mun hrista þetta ok af sér líka þrátt fyrir allt.