09.03.1961
Sameinað þing: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (2444)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni hér s.l. mánudag bar ég fram þá ósk til hæstv. utanrrh., að hann birti bréf það, sem hann var búinn að skýra þinginu frá að hann hefði í fórum frá brezku stjórninni og fæli það í sér, að brezka stjórnin lýsti því yfir, að hún mundi ekki gera að þremur árum liðnum neitt tilkall til frekari undanþága innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar. Síðan hafa margir þm. endurnýjað og tekið undir þessa kröfu. Hæstv. utanrrh. hefur nú loks svarað og það á þann veg, að þetta bréf verði ekki birt. Ég ætla ekki að fara að ræða hér þá skýringu, sem hæstv. utanrrh. gaf á því, því að hún var fyrir neðan það að vera umræðuverð. En það, að hæstv. ríkisstj. skuli neita því að birta þetta bréf, sýnir glögglega, að hún mun ekki hafa hér hreint mjöl í pokahorninu, og það til viðbótar öllu öðru sýnir, hve óverjandi öll meðferð hennar hefur verið á þessu máli, og það er kórónan á því verki, að stjórnin skuli leyna þm. og utanrmn. þýðingarmiklum upplýsingum í sambandi við þetta mál, — upplýsingum, sem vel geta verið þannig lagaðar, að þær geti ráðið endanlegri afstöðu þm. til þessa máls. Hæstv. utanrrh. upplýsti nú, að hann hefði haft vitneskju um það um miðjan desember s.l. eða upp úr miðjum desember s.l., hver afstaða Breta mundi vera, og hún mundi þá vera á þann veg, að íslenzka ríkisstj, mundi fallast á það. Þrátt fyrir það gat hann, þegar hann var spurður um þetta mál hér 6. febr. s.l., enga vitneskju um það gefið, hvernig þetta mál lægi fyrir, og hefur þar með upplýst nú, að með því svari, sem hann gaf við fsp. í þinginu 6. febr., hafi hann gefið algerlega — ekki kannske beinlínis rangar, en mjög villandi upplýsingar og haldið með því upplýsingum fyrir þinginu, sem það átti fulla heimtingu á að fá. Það sýnir ásamt mörgu öðru, hvernig þessi hæstv. ríkisstj. hefur haldið á þessu máli.

Þær umræður, sem hér hafa farið fram, eru orðnar nokkuð langar, en þó sízt of langar, þegar miðað er við mikilvægi þess máls, sem hér liggur fyrir, því að eins og fram hefur verið tekið af mörgum hv. þm., er þetta stærsta og örlagaríkasta mál, sem Alþingi hefur fjallað um áratugum saman. Þess vegna er eðillegt, að mikið sé um það rætt, og þess vegna væri eðlilegt, að enn þá meira væri um það rætt en þegar er búið að gera.

Meginatriði þessa máls hafa komið mjög glögglega fram hér í umræðunum, og þeim hefur ekki verið haggað í þeim ræðum, sem stjórnarsinnar eða ráðherrarnir og talsmaður stjórnarflokkanna í utanrmn. — hafa hér flutt. Það stendur alveg óhrakið eftir sem áður, það sem hér hefur verið haldið fram, að það bar enga nauðsyn til þess að gera þann samning, sem hér liggur fyrir. Það liggur jafnframt ljóst fyrir eftir þessar umræður, að það fæst ekki neinn ávinningur við þann samning, sem hér er gerður, því að allan þann rétt, sem hv. stjórnarsinnar telja að felist í þessum samningi, áttum við áður og þurftum ekki að semja við neinn um að fá hann. Þess vegna vinnst ekki neitt með þessum samningi. En það hefur hins vegar komið glögglega fram í þessum umræðum, og það stendur alveg óhrakið þrátt fyrir allar þær ræður, sem ráðherrarnir hafa hér flutt og þeirra talsmaður í utanrmn. hefur flutt, að með þessum samningi afsölum við, látum af hendi stórkostlega þýðingarmikinn rétt, rétt, sem getur ráðið örlögum um það, hvort þjóðin getur lifað við sæmileg efnahagsleg skilyrði í landinu á komandi árum eða ekki. Þessu hafa hæstv. ráðherrar ekki getað mótmælt. Þeir hafa ekki getað mótmælt því, að með þessum samningi afhendum við þeim einhliða rétt til að færa út fiskveiðilandhelgina, afhendum raunverulega yfirráð okkar yfir landgrunninu fyrir utan fiskveiðimörkin, sem nú eru, og þar með aðstöðuna til þess að nota okkur þann rétt, sem við höfum haft á undanförnum árum til þess að tryggja afkomu íslenzks sjávarútvegs, ef frekari friðunarráðstafana væri talin þörf. Hér er sannarlega glatað einhverjum hinum mesta rétti, sem þjóðin á, rétti, sem er engu þýðingarminni en rétturinn til landsins sjálfs.

Ég ætla ekki í þessum orðum, sem ég segi nú, að fara að rifja upp frekar meginrökin fyrir því, sem við andstæðingar stjórnarinnar höfum fært fram þessu máli okkar til stuðnings. En mér finnst rétt nú í lokin að víkja nokkrum orðum að því, hvernig málflutningur hæstv. stjórnarsinna, ráðherranna og þeirra talsmanna, hefur verið. Það er viðurkennt, að þeir tveir ráðherrar, sem hér hafa talað, og þeirra fulltrúi úr utanrmn., að það eru yfirleitt beztu málsvararnir, sem flokkar þessara manna hafa á að skipa, og þess vegna ætti að mega vænta þess af hálfu þessara manna, að málið hefði verið lagt eins vel fyrir og frekast væri kostur á. En ef við lítum svo yfir nokkur meginatriði í þeirra málflutningi, munum við komast að raun um það, hve hæpinn og slæmur sá málstaður er, sem þeir hafa haft hér að verja.

Ég ætla t.d. að víkja að því, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. í umr. í nótt og líka hefur komið fram hjá hinum ræðumönnum stjórnarflokkanna. Þeir hafa sagt, að það væri eiginlega hreint ofbeldi, það samrýmdist ekki réttarríki, það væri gert til að spilla sambúð þjóða, ef Íslendingar héldu fast á sínum einhliða rétti til landgrunnsins og útfærslu á fiskveiðilandhelginni og féllust ekki á það samkomulag, sem Bretar hafa nú boðið og íslenzka ríkisstj. vill ganga að. Það hefur verið sagt, að það væri ofbeldi, ef Íslendingar stæðu á kröfum sínum, það samrýmdist ekki Íslandi sem réttarríki að standa á þessum rétti sínum og það væri til að spilla sambúð við aðrar þjóðir og jafnvel spilla sambúð stórveldanna, ef Íslendingar stæðu á þessum rétti sínum. Hafa menn heyrt þessi rök fyrr? Muna menn, hvar þeir hafa heyrt þessi rök áður? Hverjir hafa látið þessi rök koma fram hjá sér áður í þessu máli? Þeir, sem hafa átt þess kost að hlusta á málflutning Breta á erlendum vettvangi í þessu máli, þeir, sem hafa lesið brezku blöðin, þeir, sem hafa fylgzt með því, sem þingmenn frá Grímsby og Hull hafa sagt í brezka þinginu, þeir kannast við þessar röksemdir. Hér koma fram nákvæmlega sömu rökin og Bretar, sem eru andstæðir okkur í þessu máli, hafa haldið fram, allt frá því að landhelgisdeilan hófst. Þeirra rök hafa verið þau, að Íslendingar með sínu framferði væru að sýna ofbeldi, Íslendingar færu ekki að eins og réttarþjóð, Íslendingar væru með þessu að spilla sambúð þjóðanna, vegna þess að þeir gerðu ekki annað en að standa á sínum rétti. Og það, sem hér hefur svo gerzt, það, sem hefur gerzt þessa dagana í sölum Alþingis, er það, að í þennan stól hafa komið íslenzkir menn, meira að segja þingmenn og ráðherrar, og flutt nákvæmlega sömu röksemdirnar til réttlætingar þessu máli og andstæðingar okkar, Bretarnir, hafa flutt á undanförnum árum á alþjóðavettvangi, í blöðum sínum og í þinginu gegn hinum íslenzka málstað. Svo djúpt erum við sokknir í þessum efnum, að hér koma upp íslenzkir menn, tala úr þessum stól og flytja nákvæmlega sömu röksemdirnar og hinir brezku andstæðingar okkar hafa verið að halda fram á undanförnum árum.

Ég vil ekki fordæma þennan verknað. mér finnst hann vera fyrir neðan það. Ég votta þeim mönnum samúð mína, sem eru svo langt sokknir, að þeir skuli gerast slíkir þjónar erlends málstaðar að gera orð andstæðinga okkar að sínum eigin orðum í ræðustól hér á Alþingi.

Þá kom sú röksemd fram frá hæstv. dómsmrh. og reyndar hjá utanrrh. líka, að eiginlega væri það ekki aðalávinningurinn við þennan samning, sem þeir voru búnir að halda fram, að fá hina svokölluðu viðurkenningu á 12 mílna landhelginni, sem engin viðurkenning er, ekki heldur þriggja ára fresturinn, heldur hitt, að það afrek hefði unnizt, að Íslendingar hefðu fengið brezku stjórnina til að sætta sig við það að láta frekari deilumál í þessum efnum ganga undir Haag-dómstólinn, — það sé alveg sérstakt afrek, sem hinir íslenzku samningamenn og íslenzka ríkisstj. hefði unnið með því að fá brezku stjórnina og brezk stjórnarvöld til að fallast á það, að deilur okkar um þessi mál í framtíðinni skyldu ganga fyrir alþjóðadóm. Halda nú þessir menn, sem slíku halda fram, að það sé hægt að telja mönnum trú um, að það séu Íslendingar, sem hafi sérstaklega verið að berjast fyrir því á undanförnum árum að fá slíkar deilur teknar upp fyrir alþjóðadómstólnum? Það hefur verið afstaða Breta frá fyrstu tíð að berjast fyrir því að fá Íslendinga til þess að skjóta slíkum deilumálum til alþjóðadómstólsins. (Gripið fram í.) Þeir óskuðu eftir því 1952, að viss þáttur útfærslunnar þá yrði lagður undir alþjóðadómstólinn. Það fyrsta, sem þeir gerðu 1958, þegar við færðum út þá, var ekki aðeins að mótmæla, heldur að óska eftir því og bera fram tilmæli um það, að við legðum útfærsluna þá undir alþjóðadómstólinn, og allt frá þeim tíma hefur það verið aðalósk þeirra, að Íslendingar sættust á það að leggja framvegis deilumál í þessum efnum fyrir alþjóðadómstólinn. Það hefur verið þeirra meginósk og meginkrafa, og það hefur líka komið greinilega fram í enskum blöðum núna í umr. um þessi mál, að þeir töldu það vera meginávinninginn, að Íslendingar skuli fallast á það, að í framtíðinni skuli slíkum deilumálum skotið til alþjóðadómstólsins. Og það vita allir, af hverju Englendingar bera þessa kröfu fram, eins og hér hefur margsinnis verið lýst. Þetta er þeirra meginávinningur í þessum samningum, og í þessu er okkar megintap fólgið, eins og hér hefur verið margsinnis lýst af þeim mönnum, sem hér hafa talað. En þrátt fyrir það eru þeir talsmenn stjórnarliðsins, sem hér hafa komið upp, svo blygðunarlausir að halda því fram, að meginávinningur Íslendinga og meginafrek Íslendinga í þessum efnum sé að fá brezku stjórnina til að fallast á það, að slíkum málum verði framvegis skotið til Haag-dómstólsins, þegar menn vita, að einmitt megintap okkar er í því fólgið, að slíkt skuli verða gert.

Álíka málflutningur, sem hefur komið fram hjá þessum mönnum, er sá, að þetta sé alveg í samræmi við þál., sem samþ. var hér á Alþ. vorið 1959, að þeir samningar, sem hér liggi fyrir, séu í fullu samræmi við þál. frá 1959, það sé verið að framkvæma hana með þeim samningi, sem hér liggur fyrir. Hvert er aðalefnið í þessari þál.? Aðalefnið er annars vegar það, að við lýsum yfir því, að við höldum fast við tilkall okkar til landgrunnsins og viljum vinna að því að fá viðurkenningu á því, hitt er það, að við viljum halda áfram undanþágulausri 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Fáum við nú þetta út úr þeim samningum, sem hér liggja fyrir? Fáum við viðurkenningu til landgrunnsins? Fáum við undanþágulausa 12 mílna fiskveiðilandhelgi? Nei, það eru settar stórkostlegar undanþágur á 12 mílna fiskveiðilandhelgina, svo að hún verður raunverulega ekki nema 6 mílna landhelgi næstu árin, og þar að auki er afsalað hinum einhliða rétti okkar til landgrunnsins og frekari útfærslu á fiskveiðilögsögunni. En þrátt fyrir það, þó að samningurinn gangi þannig fullkomlega í berhögg við þáltill. frá 1959, koma talsmenn stjórnarfl. hér upp og segja, að þeir séu að framkvæma og fylgja efni hennar með þessu samkomulagi. Er hægt að ganga lengra í blekkingum en hér er gert?

Alveg nákvæmlega sama er um að ræða, þegar þessir menn eru að tala um það, að Framsfl. hafi, þegar hann var í stjórnaraóstöðu, gefið fordæmi fyrir því, sem nú hefur verið gert. Þeir tala t.d. um, að það sé eitthvert fordæmi fyrir því, sem nú hefur verið gert, að Bretum var boðið upp á það, að útfærslan 1952 yrði lögð undir úrskurð alþjóðadómstóls. Það, sem lá fyrir 1952, var það, að þá lágu fyrir alveg glöggar og viðurkenndar alþjóðareglur varðandi þetta deilumál, svo að menn vissu nokkurn veginn fyrir fram, að hverju var gengið, vegna þess að það lágu fyrir viðurkenndar reglur um það, hver væri alþjóðavenjan og alþjóðareglan í þeim atriðum, sem þá var deilt um. Þess vegna var auðvelt fyrir okkur að láta þetta mál ganga til alþjóðadómstóls, því að í þeim efnum, þar sem alþjóðalög liggja greinilega fyrir, er ekkert athugavert við það og ekki nema sjálfsagt, að við hlítum úrskurði alþjóðadómstóls. Aftur á móti í þeim efnum, sem hér um ræðir, víðáttu sjálfrar fiskveiðilandhelginnar, liggja ekki fyrir neinar ákveðnar, viðurkenndar alþjóðareglur um það, hvernig fara eigi með slík mál og eftir hvaða reglum dómurinn eigi að fara. Undir þeim kringumstæðum getum við ekki átt það á hættu að eiga það undir úrskurði alþjóðadómstóls, hver niðurstaðan verður í þessum efnum, vegna þess að við vitum ekkert um, hverjar þær reglur eru, sem hann kann að fara eftir, og undir þeim kringumstæðum, þegar reglurnar eru óljósar, eins og í sambandi við þetta atriði, má vænta þess, að dómurinn verði frekar íhaldssamur en frjálslyndur í niðurstöðu sinni. Þess vegna er algerlega ólíku saman að jafna, þó að við getum fallizt á það að skjóta tilteknu máli, þegar ljósar alþjóðlegar reglur liggja fyrir, undir úrskurð alþjóðadómstólsins, eða hvort við föllumst á það, að undir öllum kringumstæðum, þegar engar greinilegar reglur eru fyrir hendi, verði málinu skotið til alþjóðadómstólsins. Það er náttúrlega tvennt algerlega ólíkt.

Í sambandi við þær umr., sem fóru fram 1958 í Atlantshafsbandalaginu, kom það aldrei til neinna mála, að léð væri máls á því, að frekari deilum um þessi mál yrði skotið undir Haag-dómstólinn. Það var aldrei léð máls á því. En það er einmitt aðalatriðið í þeim samningi, sem hér liggur fyrir. Varðandi þær gerðardómstill., sem þeir segja að hafi verið lagðar fram á ráðstefnunum 1958 og 1960, þá er það að segja, að þessar till. náðu eingöngu til friðunarsvæða utan við sjálfa fiskveiðilandhelgina, en ekkert um það, hver víðátta fiskveiðilandhelginnar ætti að vera, eins og hér er verið að ræða um. — Þær till. bundu ekki neitt hendur okkar um það að ákveða fiskveiðilandhelgina 12 mílur, 16 mílur eða 20 mílur, eins og sú binding mun gera, sem nú er verið að samþ. Þess vegna er hér algerlega ósambærilegu saman að jafna. Þrátt fyrir það eru þessir menn svo forhertir í sínum málflutningi, að þeir telja þetta algerlega sambærilegt.

Ég ætla þá að koma að því, sem þessir hv. þm. hafa verið að segja um alþjóðadómstólinn, og víkja þá fyrst að því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér í nótt. Hæstv. dómsmrh. sagði, að við ættum ekki neitt að óttast það, að dómurinn fylgdist ekki með þróuninni og væri jafnvel á undan henni, því að það sýndi úrskurðurinn, sem hann hefði kveðið upp í deilu Norðmanna og Breta 1952. Ég verð nú satt að segja að lýsa undrun minni yfir því, að maður, sem er jafnfróður um þessi mál, fyrrv. prófessor í þjóðarétti við Háskóla Íslands, skuli gefa aðrar eins upplýsingar og þessar, því að þær reglur, sem alþjóðadómurinn fór eftir í þessu deilumáli, höfðu verið viðurkenndar öldum saman. Það hafði verið viðurkennt öldum saman, að firðir og flóar væru innan lögsögu viðkomandi ríkis. Meira að segja hefur það verið í íslenzkum lögum allt frá upphafi og þangað til samningurinn við Breta var gerður 1901, að firðir og flóar væru innan íslenzkrar lögsögu. Þetta hafði gilt í Noregi frá upphafi, í Svíþjóð frá upphafi og í fjöldamörgum löndum öðrum. Rétturinn fór því í sínum úrskurði 1952, þegar hann ákvað, að Norðmenn hefðu haft rétt fyrir sér, ekki eftir öðru en því, sem hafði verið nokkurn veginn viðurkennd réttarvenja öldum saman, að firðir og flóar væru innan lögsögu viðkomandi ríkis. Svo segir hæstv. dómsmrh., þegar hann talaði hér í gær, að með þessum úrskurði sínum hafi dómurinn verið að skapa alveg nýja reglu og það sýni, að við þurfum ekki að óttast um, að hann muni ekki verða frjálslyndur í úrskurði sínum, jafnvel á undan þróuninni. Hann var m.ö.o. að fara eftir aldagömlum reglum, en ekki eftir neinum nýjum reglum. Hann var að fara eftir því, sem hafði verið viðurkennt í mörgum löndum öldum saman, en ekki að fara eftir neinum nýjum reglum. En þrátt fyrir það, þó að það lægju fyrir svona skýrar aldagamlar reglur um þetta mál, urðu úrslitin í dómnum þau, atkvgr. í dómnum sú, að af 15 dómurum voru það ekki nema 8 dómarar, sem greiddu atkv. með hinum norska málstað, 4 greiddu atkv. á móti og 3 sátu hjá eða greiddu ekki atkv. Þannig var nú afstaða dómsins þá, að jafnvel þótt eftir skýrum, aldagömlum, viðurkenndum venjum væri að fara, þá voru það ekki nema 8 dómarar af 15, sem fengust til þess að viðurkenna þessa reglu. Og þá getum við gert okkur grein fyrir, hvernig það geti farið í málum, þar sem um algerlega nýjar reglur er að ræða eða um mjög óljósar reglur að ræða, og t.d. okkar réttur mundi fyrst og fremst byggjast á hinni nýju hefð og nýju venjum, sem væru að skapast. Ég held, að einmitt þetta, að vitna til úrskurðar alþjóðadómstólsins í deilumáli Breta og Norðmanna, sýni okkur, að það er mjög varhugavert að treysta á alþjóðadómstólinn í þeim efnum, að hann muni taka nýjar venjur og nýja hefð til greina, þar sem aðeins 8 dómarar af 15 fengust til þess að viðurkenna það í því tilfelli, sem ég hef hér nú minnzt á.

Þá hefur því verið haldið fram í sambandi við alþjóðadóminn, að það sé ekki hægt að kalla þau ríki réttarríki, sem vilji ekki leita til dómsins, þau ríki geti alls ekki kallazt réttarríki. Ef Ísland vilji ekki fallast á að leita til dómsins undir öllum kringumstæðum, geti það varla talizt réttarríki. Þetta er gert þrátt fyrir þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram, að aðeins 38 ríki hafa gengizt undir skuldbindingu um það að skjóta deilumálum til dómsins af þeim rösklega 100 ríkjum, sem nú eru í Sameinuðu þjóðunum og stofnunum, sem þeim tilheyra, og flestöll þessi 38 ríki hafa gert það með þeim fyrirvara,. að þau vildu meta það sjálf í hverju einstöku tilfelli, hvort um innanríkismál hjá þeim væri að ræða eða ekki. Þannig hefur t.d. það stórveldið, sem þessi hæstv. ráðh. telur vafalaust mesta réttarríkið í heiminum í dag, Bandaríkin, undirritað þessa skuldbindingu með slíkum fyrirvara. Bandaríkin vilja fá að meta það sjálf í hverju einstöku tilfelli, þau eru ekki meira réttarríki en það, þau vilja fá að meta það sjálf í hverju einstöku tilfelli,. hvort um innanríkismál hjá þeim er að ræða eða ekki. Og eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, mundu Bandaríkin ekki undir neinum kringumstæðum hafa viljað fallast á það, að yfirlýsing þeirra um eignatökuna á landgrunninu 1945 gengi undir alþjóðadóm, vegna þess að þau höfðu talið, að þar væri hreinlega um innanríkismál að ræða. Og þess vegna geta menn gert sér góða grein fyrir því, hvernig Bandaríkin mundu fara að í okkar sporum og hvort þau mundu vilja sætta sig við þann samning, sem nú á að fara að gera fyrir okkar hönd.

Það verður líka að játast í þessu sambandi um alþjóðadóminn, eins og hér hefur komið fram og eins og kom fram í þeim ummælum Hammarskjölds, sem hér hefur verið vitnað til, að hann hefur ekki unnið sér þá tiltrú, sem æskilegt væri. Hann hefur enn ekki náð svipaðri tiltrú og gamli Haag-dómstóllinn hafði, sem var tengdur við fyrra þjóðabandalagið. Það má vitna til þess í því sambandi, að það voru 42 ríki, sem gengust undir skuldbindingu þá um að hlíta úrskurði þess dóms, þó að ríki væru þá miklu færri í heiminum. Á þeim tíma, sem sá dómur starfaði, á árunum 1922–1939, eða á 17 árum, felldi hann úrskurði í einum 80 málum. Aftur á móti á þeim 15 árum, sem núverandi dómstóli hefur starfað, hefur hann ekki haft nema 30 mál til meðferðar, og aðallega hefur hann haft þau til meðferðar fyrstu árin, sem hann starfaði. Það hefur alltaf dregið úr því, að deilumálum væri skotið til dómsins. Hann hefur þess vegna haft sáralítið eða ekkert að gera á undanförnum árum, sem stafar af því, að hann hefur ekki unnið sér þá tiltrú, sem slíkur dómur þarf að hafa, og sérstaklega er það einkennandi, að hinar nýju þjóðir, sem hafa komið til sögunnar á undanförnum árum, hafa sárafáar undirritað skuldbindingu um aðild að dómnum. Þessi afstaða þjóðanna í heiminum til dómsins ýtir ekki undir það, að menn hafi neina sérstaka tiltrú til hans.

Í þessu sambandi er líka rétt að geta þess, að það eru fyrst og fremst stórveldin gömlu og nýlenduveldin, sem hafa gerzt aðilar að dómnum, undirritað skuldbindingu um aðild að dómnum, og í sumum tilfellum hafa þau reynt að nota sína aðild að dómnum til þess að tryggja síin nýlenduyfirráð, eins og t.d. þegar Bretar óskuðu eftir því, að olíudeilan í Íran yrði lögð undir dóminn, en dómurinn úrskurðaði þó að lokum, að það mál væri þannig vaxið, að það heyrði ekki undir verksvið hans að fella dóm í því. Vafalaust stafar það af mörgum ástæðum, að alþjóðadómurinn hefur enn ekki unnið sér þá tiltrú sem vera skyldi, og kannske ekki sízt vegna þess, að eins og hann nú er skipaður, hafa stórveldin óeðlilega mikil áhrif á skipan hans, því að dómararnir eru kosnir bæði af öryggisráðinu og af þingi Sameinuðu þjóðanna, en í öryggisráðinu hafa stórveldin fram að þessu nokkurn veginn ráðið öllu því, sem þar hefur verið gert.

Í þessu sambandi má minna á það, að fyrir nokkrum árum reis upp deila milli öryggisráðsins og þings Sameinuðu þjóðanna um val á manni í dóminn. Bretar og Bandaríkjamenn vildu fá Formósu-Kínverja kosinn í dóminn, nokkuð kunnan stjórnmálamann, Wellington Koo, og fengu það samþ. í öryggisráðinu. Þegar svo kom til þingsins að útnefna manninn, þá risu Japanir þar upp og vildu, að það yrði kosinn lögfræðingur frá þeim í staðinn fyrir þennan Formósu-Kínverja. Japönum tókst að fá allmikið atkvæðafylgi á þingi Sameinuðu þjóðanna, þannig að það fóru þar fram margar kosningar, án þess að lögmæt kosning næðist. En að lokum fór þetta þó á þann veg, að Japanir urðu að draga sig til baka, og það varð Formósu-Kínverjinn, sem Bretar og Bandaríkjamenn höfðu stutt í öryggisráðinu, sem hreppti sætið. Það er aðeins eitt lítið dæmi um það af mörgum, að það eru þessi tvö stórveldi, sem fram að þessu hafa ráðið langsamlega mestu um það, hvernig dómurinn hefur verið skipaður.

Frá okkar sjónarmiði tel ég það, sem hér hefur verið rakið, ekki aðalatriðið í þessu sambandi, heldur hitt, að það eru ekki til neinar ákveðnar reglur um víðáttu sjálfrar fiskveiðilandhelginnar, engar ákveðnar reglur um það atriði, sem dómurinn á að dæma um milli okkar og Breta, ef við færum út fiskveiðilandhelgina. Undir þeim kringumstæðum hljótum við að búast við því samkvæmt öllum eðlilegum venjum, að dómurinn verði frekar íhaldssamur heldur en hitt og muni þess vegna frekar ganga á móti okkur en Bretum. Þess vegna er um mjög hættulegt og vafasamt réttindaafsal að ræða, þegar við föllum frá hinum einhliða rétti okkar í sambandi við útfærslu landhelginnar og rétti okkar til landgrunnsins og felum í hendur annaðhvort Bretum eða alþjóðadómstóli að úrskurða um það, hver réttur okkar skuli vera í þessum efnum.

Það væri freistandi að minnast á ýmis fleiri atriði til að sýna þær öfgar og blekkingar, sem ráðherrarnir og þeirra fylgismaður hafa beitt í þessu máli til þess að komast hjá því að ræða um sjálfan kjarna málsins og til þess að reyna að fá menn til þess að beina athyglinni að einhverju öðru en eru meginatriðin í málinu.

Mér finnst rétt nú, þegar líður að lokum þessara umr., að rifja í örstuttu máli upp þá sögu, sem hér hefur verið að gerast. Mér dettur í hug, og það rifjast upp fyrir mér í því sambandi, að þegar ég kom hér fyrst til bæjarins, lagði ég stundum leið mína í Landsbókasafnið og las þar í gömlum blöðum og m.a. í blöðunum, sem komu út í kringum 1908. Það vildi þannig til, að þá var bókavörður á Landsbókasafninu, sem allmikið hafði komið við þá atburði, sem þá gerðust, og vegna þess að hann sá, að ég var að lesa í þessum gömlu blöðum, bárust þeir atburðir nokkuð í tal á milli okkar, sem þá gerðust. Og ég man það, að eitt af því, sem hann sagði mér frá þeirri baráttu, sem þá átti sér stað, var það, að þeir, sem hann hefði talið erfiðasta í okkar sjálfstæðisbaráttu, hefðu ekki verið Danir, heldur þeir Íslendingar, sem hefðu fylgt Dönum að málum. Þessi orð verða mér alveg sérstaklega minnisstæð í sambandi við þá sögu, sem hefur verið að gerast í landhelgismálinu hjá okkur á undanförnum árum. Það eru í raun og veru ekki Bretar, þó að þeir hafi verið okkur andstæðir, sem hafa verið verstir andstæðingar okkar í þessu máli, heldur þeir menn, sem hafa fylgt þeim að málum hér innanlands. Það má rekja þeirra feril, allt frá því að baráttan fyrir útfærslu fiskveiðilandhelginnar hófst hér á þingi 1946 með till. þeirra Hermanns Jónassonar og Skúla Guðmundssonar um að segja upp brezka samningnum. Þá áttu Bretar hér sína liðsmenn, sem risu gegn því, að uppsögnin færi þá fram, og þess vegna dróst það í nokkur ár, frá því að þessi till. kom fram hér í þinginu og þangað til samningnum væri sagt upp. Síðan tókst nokkurn veginn að hafa samkomulag um þessi mál á milli flokkanna. En þó var svo komið árið 1953, eftir að útfæralan 1952 hafði átt sér stað, að Framsfl. taldi þetta mál ekki vera öruggt, nema yrði skipt um utanrrh., og það var ekki sízt vegna þess, að þau skipti áttu sér stað og Framsfl. tók forustu í því máli, sem aldrei var léð tals á neinum samningum um þessi mál eða neinu undanhaldi, og þess vegna tókst að leiða hina fyrri landhelgisdeilu við Breta til lykta, án þess að undan Bretum væri slakað, og vinna í henni fullan sigur og stuðla með því að aukinni sæmd þjóðarinnar út á við.

Þegar svo það næst gerist, að við ætlum að færa út landhelgina á nýjan leik 1958, þá höfum við líka sömu undanhaldsmönnunum að mæta. Þá er allt gert, sem hægt er, af vissum forustumönnum í Sjálfstfl. og Alþfl, til að koma í veg fyrir, að sú útfærsla ætti sér stað. Ég veit, að þm. þekkja hér þá sögu, svo að það er óþarfi að vera að rekja hana. En það var ekki nóg, að það væri reynt að koma í veg fyrir, að útfærslan væri framkvæmd, heldur gerðist sá atburður eftir útfærsluna, sem er einhver hinn ljótasti í íslenzkri sögu, og hann er sá, að þegar deilan á milli okkar og Breta var hafin, varð aðalmálgagn stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, Morgunblaðið, þannig skrifað, að Bretar gátu ekki dregið aðrar ályktanir af því en þær, að Íslendingar væru klofnir í málinu. Og það var ekki sízt vegna þess, að Bretar trúðu á slíkan klofning Íslendinga í málinu, sem þeir gripu til þeirra ofbeldisverka, sem áttu sér stað 1. sept. 1958 og þeir framfylgdu síðan. Þeir reiknuðu þannig út, að Íslendingar væru klofnir í málinu, og ef þeir kæmu með herskip í landhelgina, mundi það verða til að ýta undir þennan klofning, þá mundi vinstri stjórnin falla og þá mundi önnur ríkisstjórn koma, sem þeir gætu átt betri sambúð við. Það var þess vegna fyrst og fremst vegna skrifa Morgunblaðsins sumarið 1958, sem þeir atburðir gerðust hér þá um haustið, að Bretar sendu sín herskip inn í landhelgina. Ef Bretar hefðu staðið í þeirri trú, að Íslendingar væru alveg óklofnir í þessu máli, þá er ólíklegt, að þeir hefðu gripið til þess ævintýris, sem það var að senda herskip inn í fiskveiðilandhelgi Íslands og hljóta fyrir það þá andúð annarra þjóða, sem þeir máttu eiga vísa, og jafnframt það, að ekki væri hægt að stunda togveiðar undir herskipavernd. Síðan hefur það alltaf haldið áfram og komið greinilega í ljós, að það voru viss öfl í báðum stjórnarflokkunum, sem vildu semja, sem vildu gefast upp fyrir Bretum, sem voru í raun og veru talsmenn hins brezka málstaðar, eins og þeir hafa verið í ræðustól á Alþ. undanfarna daga. Hins vegar þótti ekki fært að láta þetta uppi, fyrr en þingkosningar hefðu farið fram sumarið og haustið 1959. En allt frá því, að þær kosningar fóru fram, hefur undanhaldið átt sér stað í þessum efnum og smátt og smátt verið að vinna að þeirri niðurstöðu, sem hér liggur fyrir. Þetta kom mjög greinilega fram á Genfarráðstefnunni á s.l. vori með þeirri gerðardómstill., sem ráðh. báru þar fram og fól í sér svipað afsal á íslenzkum rétti og sú till., sem hér liggur fyrir. Þetta kom mjög greinilega fram líka, þegar náðunin svokallaða átti sér stað á s.l. vori, því að af hálfu Breta var hún fullkomlega misskilin. Það var litið á hana sem undanhald Íslendinga í málinu, og þess vegna var það, sem brezku herskipin færðu sig aftur upp á skaftið á s.l. sumri, sem þau áreiðanlega hefðu ekki gert, ef þau hefðu ekki reiknað með, að það væri eitthvert undanhald á Íslendingum í þessum efnum. Þetta undanhald var svo áréttað með því, þegar ríkisstj. féllst á samningana við Breta á s.l. sumri, sem var aðfari þess, sem nú hefur átt sér stað, og loks hefur þetta undanhald verið fullkomnað með þeim samningum, sem hér liggja fyrir. Það er kórónan á verki þeirra undanhaldsmanna, sem hér hafa verið að störfum á undanförnum missirum. Þetta er hin rétta staðreynd í þessum málum, og ég veit, að þó að hæstv. dómsmrh. kunni að eiga eftir að mótmæla þessu eitthvað hér á eftir, þá veit hann, að þetta er satt, og það veit nefnilega enginn betur en hæstv. dómsmrh., að þetta er satt.

Nú liggur verk þessara undanhaldsmanna hér fyrir. Nú liggur það fyrir, að við afsölum okkur þeim einhliða rétti til frekari útfærslu á fiskveiðilandhelginni, sem við höfum haft á undanförnum árum og við byggðum á útfærslurnar 1952 og 1958 og hefur reynzt hin bezta undirstaða fyrir íslenzkan sjávarútveg á undanförnum árum. Nú munum við ekki, eftir að þessi samningur er genginn í gildi, geta notað okkur þann rétt til frekari útfærslu. Við afsölum okkur jafnframt með þessu þeim rétti, sem við höfum talið okkur eiga til landgrunnsins utan fiskveiðimarkanna og við höfum staðfest með landgrunnslögunum frá 1948. Það er fullkomin tvísýna um það, meðan þessi samningur ríkir, hvort okkur verður nokkurn tíma fært að færa landhelgina frekar út og hvort við þurfum þess vegna ekki að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til að brjótast undan því oki, sem hér er á okkur lagt. En þrátt fyrir það, þó að hér hafi hættulegir og ömurlegir atburðir gerzt, þá er gott að minnast þess í þessu sambandi, að svipaðir atburðir hafa oft gerzt hér á landi áður, að eins konar umboðsmönnum eða jörlum erlends valds hefur tekizt að hneppa þjóðina í vissa fjötra um nokkurt skeið, en henni hefur jafnan tekizt að leysa þá af sér aftur. Þess vegna verður okkur það ríkast í huga nú í dag, þegar við komum til með að standa frammi fyrir þeim verknaði, sem verður vafalítið unninn hér á Alþ. innan nokkurra klukkustunda, að það verður afsalað einum dýrmætasta rétti þjóðarinnar, — þó að við hryggjumst yfir því, að slíkt sé gert, þá er það ekki okkur efst í huga, heldur hitt, að hefja nýja baráttu til þess að sækja þennan rétt og fá hann í okkar hendur að nýju. Og það mega Bretar vita, að þó að þeirra jörlum hafi tekizt að vinna hér nokkurn sigur að sinni, mun íslenzka þjóðin vakna þannig á eftir og taka þannig á þessu máli, að þessi sigur verður Bretum og jörlum þeirra ekki langær. Sá tími mun koma fyrr en seinna, að íslenzka þjóðin mun brjótast undan þessu oki, og það verður fyrsta verkið, sem íslenzk stjórn mun gera, full-íslenzk stjórn, er kemur aftur til valda í þessu landi, að nota alla þá möguleika, sem Ísland hefur yfir að ráða, til þess að losa sig við þann nauðungarsamning, sem hér hefur verið gerður. Við munum að sjáifsögðu beita öllum lögmætum ráðum, sem við höfum yfir að ráða, þátttöku okkar í alþjóðasamtökum og annars staðar, þar sem við getum komið okkar málstað á framfæri, til þess að losa okkur undan þeim viðjum, sem hér eru á okkur lagðar. Og það er trú mín, að með því að taka þannig upp skelegga baráttu í þessu máli bæði innanlands og utan sannist það á Bretum og jörlum þeirra að þessu sinni, að skamma stund verður hönd höggi fegin.