09.03.1961
Sameinað þing: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (2445)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér í þær umr., sem eiga sér stað hér. Það er búið að gera grein fyrir öllum þeim atriðum, og skal ég ekki þreyta þingmenn með því. En það hefur slæðzt hér inn villa, sem þarf að leiðrétta (Gripið fram í.) Það er villa á fskj., eitt í fylgiskjölunum. (Grípið fram í.) Jú. það er villa í þeim. Það er í 3. lið, iv og v, þar er vitnað í grunnlínupunkt, Mýrnatangi (grunnlínupunktur 30) og svo aftur Mýrnatangi (grunnlínupunktur 30). Á kortinu, sem fylgir með fskj., sést, að þær línur, sem við er miðað, eru miðaðar við grunnlínupunkt 30 á báðum stöðum, og það hefur verið á þeim byggt. En ruglingurinn liggur í því, að Mýrnatangi er heiti á því, sem kallað er grunnlínupunktur 32, sem er nokkru vestar á ströndinni og kemur ekki við sögu að öðru leyti. En þessi grunnlínupunktur 30 hefur verið kallaður í reglugerðum áður Meðallandssandur 1, það er óljóst með örnefni og hefur verið tekið upp það örnefni. Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða, heldur rugling, sem inn hefur komizt og við höfum sýnt á kortum hv. formönnum (Gripið fram í: Verður ekki þskj. prentað upp?) Við teljum, að það sé réttara að hafa skrifl. brtt. í samráði — (Gripið fram í.) Það er tvennt í því, annaðhvort taka þetta sem hreina leiðréttingu, sem lýst væri úr forsetastól, en í samráði við formenn Framsfl. og Alþb. töldum við réttara, til þess að ekki væri um neitt að villast, að bera fram skrifl. brtt. (Gripið fram í: Er ástæðulaust að hafa samráð við Breta um það líka?) Ja, það held ég nú, þó að mönnum sé nú mjög annt um þeirra óskir í þessu, en hér er samt um hreina villu að ræða, sem ég játa að hefði mátt sjást fyrr. En það er betra að sjá villuna fyrr en síðar og sjálfsagt að leiðrétta það, sem rangt er.

Ég vil svo einnig vekja athygli á því, að í ensku þýðingunni er um hreina prentvillu að ræða á síðu 9. Í síðustu upptalningunni er þar Mýrabugt, þar sem stendur Ingólfshöfði í íslenzka textanum, en Mýrabugt hefur færzt niður í enska textann og er í þar næstu línu fyrir ofan, það er hrein prentvilla. (HÁ: Prentvillupúkinn er ykkur fjandsamlegur.) Já, það eru flestir púkar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta, en leyfi mér að leggja fram þessa skriflegu brtt., sem hljóðar svo:

„Við fskj. I. Í stað orðsins „Mýrnatangi“ í (iv) og (v) í tölul. 3 komi: Meðallandssandur 1.“

Það breytist af sjálfu sér í enska textanum. Leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta tillöguna.