26.10.1960
Sameinað þing: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (2451)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Till. þessi er þess efnis, að skorað verði á ríkisstj. að láta fram fara rækilega athugun á því, á hvern hátt hægt er að hraða framkvæmdum í rafmagnsmálum á Snæfellsnesi, annaðhvort með virkjun eða með því að tengja þann landshluta við aðalorkukerfi landsins. Hér er aðallega átt við norðanvert Snæfellsnes, en þar eru allmörg kauptún, sem hafa undanfarin ár verið í mjög örum vexti. Atvinnulíf er þar blómlegt og vaxandi. Á þessu svæði eru nú tíu fiskverkunarstöðvar starfandi, svo að dæmi sé nefnt. Þarna var fyrir allmörgum árum reist raforkuver, Fossárvirkjun, skammt frá Ólafsvík, og mun þá hafa verið gert ráð fyrir, að það mundi duga fyrir þessi kauptún um nokkra framtíð. Nú hefur farið svo hér eins og víðar, að þróun og vöxtur kauptúnanna hefur verið örari en menn óraði fyrir, og ber þegar á því, að rafmagnsleysi hafi truflandi áhrif á framleiðsluna. Hér er því mikið í húfi, ekki aðelns varðandi þægindi heimila, heldur einnig um mjög mikilvæga útflutningsframleiðslu, þar sem fiskmagn, sem lagt er á land á þessum stöðum, hefur vaxið gífurlega. Bátaflotinn hefur vaxið mjög mikið nú á allra síðustu árum. Ég vil því vænta þess, að Alþ. sjái sér fært að mæla með því með samþykkt till., að látin verði fara fram athugun á því, hvernig þetta vandamal verði leyst. Lengra nær till. ekki, og verður að gera ráð fyrir því, að þegar svar hefur fengizt við þeim spurningum, þá sé að athuga, hvernig lausnir á málinu geta fallið inn í áframhaldandi rafvæðingu landsins.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað um þessa till. og henni vísað til hv. fjvn.