22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (2459)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að till. líkt og sú, sem hér er á ferðinni, verði samþykkt. En það eru fleiri en þessi till., sem hér er til umr., sem liggja fyrir. Það er hér önnur í sambandi við rannsókn og virkjun Fjarðarár, og hefur einnig komið álit frá hv. fjvn. um till., að hún verði samþykkt. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, að slíkar till. séu samþykktar. En í sambandi við þetta vildi ég mega gera eina fsp. til hæstv. ráðherra, sem fer með þessi mál. Mundi samþykkt þessara till. hafa nokkur áhrif á framkvæmdir fyrir þau önnur héruð landsins, sem hafa ekki fengið slíkar till. samþykktar hér á Alþingi? Þetta er mikilsvert fyrir okkur að vita. Ef þessar tillögur hafa ekki nein áhrif á áætlunina fyrir þá staði, sem hafa ekki fengið slík meðmæli frá fjvn., þá gerir það hvorki til né frá, að till. séu samþykktar. Sé það hins vegar skoðað svo, að meðmæli fjvn. með framkvæmdum á þessum stöðum eigi að ganga fyrir öðrum stöðum, sem hafa ekki fengið slík meðmæli, þá vildum við að sjálfsögðu gjarnan heyra um það frá hæstv. ráðherra. Og að sjálfsögðu verða þeir menn, sem ekki hafa borið fram þáltill. til þingsins og fengið meðmæli .hv. fjvn. um sams konar aðstoð, að gera það nú áður en þingi er lokið. Ég veit eftir samtölum bæði við raforkuráð og hæstv. ráðherra, að það eru gerðar ákveðnar áætlanir um þessi mál og að slíkar till. eins og hér eru á ferðinni munu hvorki ráða þar meira né minna um. Um það vildi ég gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra, hvort það sé hugsað, að þessar till. gætu ýtt meira undir framkvæmdir, sem hér um ræðir, fram yfir aðra landshluta.