22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (2461)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir nál. hennar á þskj. 503 og vil lýsa því yfir, að ég vona, að það hafi einhvern árangur í för með sér.

Snæfellingar hafa verið að mörgu leyti mjög óánægðir með afgreiðslu á rafmagnsmálum héraðsins — og þá sérstaklega eftir að bæði raforkuráð og raforkumálaráðherra, með meðmælum frá raforkumálastjóra, höfðu samþykkt að leggja háspennulínu frá Ólafsvík til Stykkishólms árið 1956. en ekkert varð úr þeirri framkvæmd. Það er ekki nema eðlilegt, að þetta aðgerðaleysi hafi vakið sár vonbrigði heima í héraðinu, sérstaklega þegar það er haft í huga, að þeir aðilar allir, sem þessi mál heyra undir, voru sammála um, að þessi framkvæmd skyldi gerð. Það mun hafa verið raforkumálastjóri, sem lagði til, að ekki yrði úr þessari framkvæmd í bili, þar sem orkuverið við Fossá gefur litla orku eða ca. 900 kw. Það hefur því verið hallazt að því ráði að reisa dísilstöðvar í kauptúnunum á norðanverðu Snæfellsnesi, sem reknar eru í sambandi við Fossárvirkjunina, til að fullnægja rafmagnsþörfinni.

Það hafa verið framkvæmdar töluverðar rannsóknir á vegum raforkumálaskrifstofunnar á virkjunarmöguleikum á norðanverðu Snæfellsnesi og vatnsmælingar farið fram í því sambandi. Hafa þær leitt í ljós, að t.d. við Hraunsfjarðarvatn eru mikil og góð skilyrði til virkjunar, og eru taldir möguleikar fyrir því, að þar mætti reisa allt að 5 þús. kw. stöð. En eins og kom fram í framsöguræðu hv. 4. þm. Vesturl. hér áðan, er 10 ára áætlun um rafmagnsframkvæmdir senn lokið. Áttunda ár áætlunarinnar stendur nú yfir, og á næsta ári er gert ráð fyrir samkv. áætluninni, að lögð verði háspennulina frá virkjuninni í Ólafsvík eða við Fossá til Breiðuvíkur. Ég hef á undanförnum árum lagt mikla áherzlu á það, að þessi háspennulína yrði lögð, en ekki fengið því framgengt, þar sem forustumenn þessara rafmagnsmála hafa talið sig verða að fylgja 10 ára áætluninni.

Ég vil nota tækifærið til að ítreka margendurteknar óskir mínar um það, að hæstv. ríkisstjórn eða Þeir aðilar aðrir, sem þessi mál heyra undir, láti það ekki bregðast, að háspennulína þessi verði lögð á næsta ári. Það skal viðurkennt, að í 10 ára áætluninni var ekki gert rað fyrir, að nefnd háspennulína yrði lögð fyrr en á 9. ári áætlunarinnar eða á árinu 1962. Það má heldur engan veginn bregðast, enda mundi frekari dráttur á framkvæmdum valda íbúum Breiðuvíkur miklum og sárum vonbrigðum.