22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (2462)

63. mál, rafmagnsmál á Snæfellsnesi

Skúli Guðmundsson:

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að hann vildi láta hraða, undirbúningi á raforkumálaskrifstofunni að gerð nýrrar áætlunar, sem tæki við af tíu ára áætluninni. En ég vildi þó beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann hlutaðist til um, að meiri vinna verði lögð í það undirbúningsstarf nú í vor og í sumar en gert hefur verið að undanförnu. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er það aðeins einn maður af starfsmönnum raforkumálaskrifstofunnar. sem hefur unnið að athugunum á þessu máli, þó að aukastarfi að mestu, því að hann hefur mörgu öðru að sinna á raforkumálaskrifstofunni. Ég held því, að það þurfi að leggja í þetta meiri vinnu en gert hefur verið, ef það á að verða mögulegt að ljúka þessum undirbúningsathugunum nú í vor og sumar, en það vil ég leggja. áherzlu á að verði gert.

Út af till., sem fyrir liggur, og þeim umr., sem um hana hafa orðið, vil ég segja það, að mér sýnist till. í raun og veru óþörf. En þó gerir að sjálfsögðu ekki til, þó að hún sé samþykkt. Till. er um það að skora á ríkisstj. að láta sem allra fyrst fara fram rækilega athugun á því, hvernig auðið sé að leysa raforkumál þess landshluta, sem þar er nefndur, og samkvæmt því, sem kunnugt er, þá er þessi athugun nú hafin, að því er snertir allar byggðir landsins, og Þar með mundi vitanlega verða athugað um rafmagnsframkvæmdir á Snæfellsnesi eins og í öllum öðrum héruðum. Það er vitanlega ekkert um það í till., að rafmagnsmál þess byggðarlags eigi að leysa sérstaklega á undan málum annarra landshluta. Það er ekkert um það og því ekki meiningin með till. að ákveða neitt um það, að einn landshluti hafi þar forgangsrétt öðrum fremur, enda teldi ég slíkt ekki eðlilegt, heldur verði að vinna að þessu sem jafnast um allt landið, eftir því sem kostur er á, eins og reynt hefur verið að gera, og væntanlega verður þannig að málunum unnið framvegis einnig, þegar við tekur ný áætlun um framkvæmdir að loknum verkum samkvæmt tíu ára áætluninni.