22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (2502)

137. mál, endurskoðun á lögum um vegi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að það hefur orðið samkomulag í hv. fjvn. að mæla með þáltill., að hún verði samþ. nokkuð breytt, og þó að ágreiningur sé um það, hvernig eigi að skipa n., þá verður það ekki til þess að tefja þetta nauðsynjamál.

En það voru ummæli hv. 2. þm. Sunnl. (HB). sem gáfu mér tilefni til að segja hér nokkur orð. Það er sýnilegt, að hans sjóndeildarhringur nær skammt út fyrir það hérað, sem hann er fulltrúi fyrir, eftir því sem marka má af þeim ummælum, sem hann viðhafði hér, þar sem hann lagði alla áherzlu á það, að því fé, sem kynni að verða varið til vegamála í framtíðinni, yrði varið til þess að byggja upp vegi um hinar þéttbýlustu sveitir hér sunnanlands. Hann sagði m.a., að hér væri um 1000 km að ræða í landinu. Nú er vitað, að það eru yfir 6000 km akvegir í landinu, sem sýnir það, að hann sér ekki út fyrir sitt kjördæmi. En ég vil vænta þess, — og það er þess vegna, sem ég tók hér til máls, — að hvort heldur í n. verða valdir menn hér á Alþ. eða í hana verða skipaðir menn af hæstv. ríkisstj., þá verði teknir menn í n. með öðrum hugsunarhætti en kom hér fram hjá hv. 2. þm. Sunnl., þ.e.a.s. menn með þeim hugsunarhætti að sjá eitthvað lengra en út fyrir einhvern ákveðinn hluta landsins.

Mér er það kunnugt sem margra ára formaður fjvn., að það voru sífelld átök um þessi mál í fjvn., hvort ætti að verja fénu til þess að byggja upp varanlega vegi hér í kringum Reykjavík eða sinna þeim verkefnum að koma sem flestum bæjum á landinu í vegasamband.

Nú er það vitað, að það getur enginn bóndi búið í landinu, nema því aðeins að geta komið heim á sinn bæ einhvers konar véltækni, einhverri vél, traktor eða jeppa, þótt ekki sé annað. Það er frumskilyrði til að halda sveitunum í byggð, að þangað sé hægt að koma vegum, og sú stefna varð ofan á og hefur verið ofan á hingað til að jafna þessum gæðum lífsins á milli þeirra, sem eru í fjölbýlinu, og hinna, sem eru í strjálbýlinu. Og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi áhrif á þá menn, sem fara í þessa n., hvar sem þeir eru kosnir, að þeir haldi þessu sjónarmiði.

Hv. þm. talaði um, að það ætti að miða við umferðina á vegunum og leggja meira til þeirra vega, þar sem mest er umferðin. Hver væri umferðin um Suðurland, ef vegurinn væri skorinn í sundur, svo að ómögulegt væri að komast yfir torfærurnar? Hver væri hún þá? En þannig er ástatt um vegi víða annars staðar á landinu, þar sem ár eru óbrúaðar eða kaflar þannig, að ekki er hægt að komast yfir þá, og gerir það að verkum, að þar er engin umferð, af því að það er ekki sinnt þeim verkefnum að laga þá kafla. Ég vil t.d. benda á einn. Ár eftir ár hefur verið óskað eftir því hér, að veitt yrði nægilegt fé til þess að binda saman byggðina á milli Ólafsvíkur og Sands, sem er ekki nema ca. einn km. Umferð er þar engin á milli, af því að það er ekki hægt að komast yfir þennan kafla. Ef þar væri byggður vegur, mundi þar skapast mjög mikil umferð til mikilla hagsbóta fyrir Ólafsvík og fyrir Sand og fyrir allt Snæfellsnes. Og svona má víðar telja. Eða heldur hv. þm., að það sé ekki lítill baggi á þessum mönnum, sem verða að nota miklu meira í benzínkostnað og miklu meira í viðhaldskostnað bifreiða fyrir það að verða að draslast yfir vegleysur til þess að geta fengið eitthvað af þeim gæðum lífsins, sem látin eru í hendurnar á þeim mönnum. sem búa við fjölförnustu vegina í landinu? Ég held, að hann hefði ákaflega gott af því að sitja eins og eitt ár sjálfur á þessum stöðum til að kynnast ástandinu þar, og þá mundi hann tala allt öðruvísi um þessi mál.